06.06.2021 16:41

L. v. Helgi magri EA 290. LCDV / TFUE.

Línuveiðarinn Helgi magri EA 290 var smíðaður hjá Johannes C Tecklenborg í Geestemunde í Þýskalandi árið 1891. 136 brl. 260 ha. 2 þennslu gufuvél. Hét áður Lilly. Keyptur til landsins í febrúar árið 1913 af Ásgeiri Pjeturssyni og Stefáni Jónassyni. Helgi magri stundaði síld og línuveiðar við Noregsstrendur í nokkur ár og var þá gert út frá Kristianssand. Hvort hann hafi verið einnig á togveiðum, veit ég ekki. Í apríl 1928 er eigandi skipsins h/f Ásgeir Pjetursson á Akureyri. Í júní 1929 var nafni skipsins breytt, hét Nonni EA 290. Árið 1931 var talinn eigandi h/f Barðinn á Þingeyri. Árið 1933 var Ásgeir Pjetursson á Akureyri talinn eigandi. Skipið talið ónýtt og rifið í Reykjavík árið 1935.

Helgi magri EA 290 var smíðaður sem togari og notaður sem slíkur af fyrri eigendum. Eftir að Ásgeir og Stefán kaupa hann var hann lítið gerður út á togveiðar, heldur á síld og línuveiðar. Var því Helgi af því síðar flokkaður sem línuveiðari. En togari var hann smíðaður eins og áður segir.


Línuveiðarinn Helgi magri EA 290 á síldveiðum.                         (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

   Fyrsti botnvörpungur Akureyrar

Þeir Ásgeir Pétursson kaupmaður og Stefán Jónasson skipstjóri hafa keypt eimskip er þeir ætla að halda úti til þorskveiða og hefir það útbúnað bæði til botnvörpu og lóðarveiða. Það er fyrsti botnvörpungur sem hefir átt heima hér á Akureyri og er vonandi að fyrirtækið gangi svo vel að margir bætist við fljótlega. Skipið kom hingað á skírdag. Það er keypt í Altona, er 136 tonn (Brutto), 105 fet að lengd og fer 10 mílur á vöku. Það heitir »Lilly« en verður skírt um í haust. Fyrst um sinn verður það við þorskveiðar sunnan við land og fór héðan 27 f. m. Skipstjóri er Stefán Jónasson en Adolf Kristjánsson stýrimaðar, vélameistarar norskir. Alls eru skipverjar 17. Þegar síldveiði byrjar hér nyrðra í sumar er ráðgert að skipið komi hingað og stundi síldveiði héðan.

Norðri. 5 apríl 1913.


Helgi magri EA 290 á síldveiðum.                                                 Ljósmyndari óþekktur.


Nonni EA 290 lengst til hægri. Hin skipin eru, Atli SU 460, síðar NK 1 og Noreg EA 133. Farþegaskip úti á Pollinum og skipsbátur ferjar farþega í land. Myndin er tekin á Akureyri. Úr safni mínu.

      Helgi magri veiðir við Noreg

Helgi magri , hinn nýi botnvöpungur Ásgeirs Péturssonar kaupmanns á Akureyri, er nýsigldur til Noregs, þar sem skipið ætlar að stunda fiskiveiðar í vetur. Er Helgi magri fyrsta íslenzka skipið er í slíkan leiðangur leggur. Skipstjóri Stefán Jónasson, stýrimaður Sigtryggur Jóhannsson.

Austri. 25 október 1913.


Flettingar í dag: 123
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 572
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 689069
Samtals gestir: 51456
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 05:21:41