07.07.2021 23:08

990. Síldin TFKT.

Síldarflutningaskipið Síldin var smíðuð hjá Blythswood Shipbuilding Co Ltd í Glasgow í Skotlandi árið 1954 sem olíuflutningaskip fyrir Skibs A/S í Bergen í Noregi, hét þá Hertha. 2.588 brl. 1.260 ha. 3 þennslu gufuvél smíðuð hjá Rankin & Blackmore í Greenock í Skotlandi. 306,2 x 44 x 20,3 ft. Smíðanúmer 109. Selt 5 júlí 1965, Síldar og fiskimjölsverksmiðjunni hf í Reykjavík, hét Síldin. Skipið flutti síld frá veiðiskipunum á síldarmiðunum til Reykjavíkur á meðan síldveiði stóð yfir en lá þess á milli í Reykjavíkurhöfn eða flutti lýsisfarma til útlanda þegar þess þurfti. Í janúar árið 1969 var Síldin leigð til olíuflutninga erlendis og var hún í þem flutningum þar til hún var seld á árinu 1970, Carlo Cosulich & Co í Feneyjum, hét Orseolo. Skipið var selt í brotajárn 1 september árið 1977 og rifið skömmu síðar.


Síldarflutningaskipið Síldin.                                                                              (C) Malcolm Cranfield.

        Flutningaskip í fyrstu ferð

Í fyrrakvöld kom hingað til Reykjavíkur flutningaskipið Síldin, sem er eign Síldar- og fiskimjölsverksmiðjunnar að Kletti í Reykjavík. Þjóðviljinn hafði samband við Jónas Jónsson, stjórnarmann verksmiðjunnar af því tilefni. Jónas kvað flutninginn á síldinni austan frá Hrollaugseyjum hafa gengið mjög vel. Hefði skipið verið 3 ½  dag að fylla sig og hefði nú komið með rösklega 20 þús. mál til Reykjavíkur, sem færu til bræðslu í verksmiðjunum á Kletti og í Örfirisey Unnið var að því að landa úr Síldinni í gor og fyrradag. Var löndun um það bil hálfnuð á hádegi í gær. Var síldinni landað á bíla, sem fluttu hana til verksmiðjanna.
Síldin er 11 ára gamalt tankskip, keypt frá Noregi. Kaupverð skipsins var 15 miljónir króna, en síðan þurfti að kosta breytingar á skipinu svo unnt yrði að flytja í því síld. Skipið er 3500 tonn. 15 menn fóru með Síldinni í þessa fyrstu ferð skipsins. En í ljós kom, að ekki geta færri menn en 18 annað þeim verkefnum, sem sinna þarf um borð í skipinu og mun því nokkrum nýjum mönnum verða bætt við.

Þjóðviljinn. 7 ágúst 1965.


Sigríður Sigurðardóttir matsveinn á Síldinni og einn skipverja með skipstíkina.  (C) Alþýðublaðið.

     Hún er kokkur um borð í Síldinni
         Gæti hugsað sér að gerast                                 togaraháseti

Í gær lá síldarflutningaskipið Síldin hér inni. Við hittum að máli Sigríði Sigurðardóttur, sem hefur verið kokkur þar á skipinu í sumar. - Er þetta ekki dálítið ævintýralegt, Sigríður, svona fyrir kvenmann að vera síldarkokkur? - Nei, nei, þetta gengur allt sinn vanagang úti á sjónum eins og í landi. Þetta er bara ein sigling og mér liggur við að segja, að sem betur fer gerist ekkert ævintýralegt, því að ég get nú varla ímyndað mér annað en, að það yrði þá að teljast til einhvers neikvæðs, svo sem ef eitthvað bilaði. Þetta hefur allt saman gengið blessunarlega vel. - Þú ert kannski alvanur síldarkokkur. - Ekki get ég nú sagt það. Ég var að vísu í fyrrasumar kokkur á litlum bát frá Ólafsfirði; Sæþóri. Áður hafði ég ekki á ,sjó komið. Þótt ég hafi verið svona óvön á sjó, bagaði sjóveiki mig aldrei. - Fræddu mig um lífið á sjónum, eins og það kemur þér fyrir. - Ég kann ákaflega vel, við mig, en þetta hefur, að segja má, ýmsa ókosti, og það leiðinlegasta er nú, að maður hefur litla hugmynd um, hvað er að gerast í heiminum. Einu fréttirnar, sem við fáum, berast í gegnum loftskeytastöðina.
Annars er mjög mikið undir því komið, að mannskapurinn sé góður og ég hef verið afskaplega heppin þannig. Við erum tuttugu á skipinu með tíkinni, og ég elda sem sagt ofan í áhöfnina. Ég hef að vísu tvo messadrengi mér til aðstoðar, því að ég kæmist alls ekki yfir þetta ein. Eins og ég var að segja þér áðan, þá eru þetta alveg sóma piltar hérna, þeir segja aldrei æðruorð. Ég er viss um, að þeir segðu ekki bofs, þótt ég gleymdi að gefa þeim að borða. Þeir eru svo vel upp aldir. Andinn um borð er mjög góður og skipstjórinn okkar, hann Guðni Jónsson, sem er þrautreyndur sjóari, á sinn stóra þátt í því með afburða skapgæzku. Og hann er hinn mesti spéfugl. Síldin er hið ágætasta sjóskip, það haggast aldrei, svo að ekki er hægt að kvarta yfir því að þetta sé neinn koppur. Raunar er þetta ekki alveg nýtt skip; það var byggt í Noregi. Hvað matvælamálum á miðunum viðvíkur, þá gegna síldarflutningaskipin þrjú þar mikilvægu hlutverki, því að síldarbátarnir kaupa fæði af þeim. Svo að við verðum að vera vel birg af matvælum, þegar við förum úr landi. En það eru alveg vandræði, þegar ekki fást eins góð matvæli í verzlununum og skyldi.
Það hefur komið fyrir, að maturinn hefur beinlínis verið skemmdur. Og það bitnar ekki aðeins á okkur á Síldinni, einnig á þeim bátum, sem kaupa mat af okkur. Svo minnst sé á mjólkina, þá er alveg vandræði að geyma hyrnurnar, því að þær vilja svo springa. Fernurnar eru miklu skárri. En Akureyrarmjólkina er miklu betra að geyma, en mjólkina héðan. - Kemur þar bæði til að umbúðirnar eru betri, svo og, að gæði mjólkurinnar eru miklu meiri yfirleitt. Þá mjólk er hægt að geyma alveg von úr viti með því að frysta hana. - Hvað segir nú fjölskyldan um það, að þú ert á sjónum og dvelur þannig að heiman talsvert lengi í einu. - Því er bara vel tekið. - Börnin sjá alveg um sig, og það yngsta er orðið 10 ára. 18 ára gömul dóttir mín er heima, svo að það bjargast allt vel. - Þú ert sem sagt ekkert að hugsa um að hætta á sjónum? - Alls ekkert frekar, mér finnst þetta svo ágætt. Ég held ég setti það ekki fyrir mig að vera háseti á togara.

Alþýðublaðið. 4 ágúst 1968.

   Síldin í leiguflutningum erlendis

Flutningaskipið Síldin fór frá Reykjavík skömmu fyrir áramót með 3000 tonn af síldarlýsi til Bergen, en að þeirri ferð lokinni mun skipið verða í leiguflutningum erlendis, að því er Jónas Jónsson, frkvstj. Sildar og fiskmjölsverksmiðjunnar hf., tjáði Morgunblaðinu í gær. Á skipinu er 18 manna áhöfn. Jónas sagði, að frá Bergen færi Síldin til Middlesborough í Englandi og lestar þar jarðolíu til Esbjerg í Danmörku. Er ráðgert, að Síldin fari 4-5 slíkar ferðir. Ekki e rfullákveðið hvað þá tekur við, en Jónas sagði, að mörg verkefni væru fyrir hendi og að hann vonaði, að skipið hefði nóg að gera, þar til aftur yrðu verkefni fyrir það hér heima. Það eru danskir aðilar, sem hafa tekið að sér að leigja Síldina út til flutninga, en sl. vetur hafði skipið engin verkefni hér heima. Jónas sagði, að enn væru hér 11-1.200 tonn af framleiðslu Síldar- og fiskmjölsverksmiðjunnar hf., en búið er að selja þau til Noregs og er þá öll framleiðsla verksmiðjunnar seld. Gat Jónas þess, að fyrir hana hefði fengizt hæsta verð, sem að undanförnu hefur verið greitt fyrir síldarlýsi erlendis.

Morgunblaðið. 4 janúar 1969.


Síldarflutningaskipið Síldin við bryggju í Örfirisey.                                 Ljósmyndari óþekktur.

           Tvö skip seld úr landi

Tvö skip voru seld úr landi á árinu, Sildarflutningaskipið Síldin til ítalíu, smíðaár 1954; 2 505 brúttólestir, útflutningsverðmæti 16 701 þús. kr., talið í útflutningi júnimánaðar. Hitt skipið: Síldarflutningaskipið Dagstjarnan til Belgíu, smíðaár 1943, 809 brúttólestir, útflutningsverðmæti 1.313 þús. kr, talið í útflutningi desembermánaðar.

Verslunarskýrslur 1970.

Flettingar í dag: 1113
Gestir í dag: 56
Flettingar í gær: 1170
Gestir í gær: 69
Samtals flettingar: 721010
Samtals gestir: 53532
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 16:41:47