26.09.2021 11:43

725. Langanes NS 37.

Vélbáturinn Langanes NS 37 var smíðaður í Bátalóni hf í Hafnarfirði árið 1959 fyrir Sigurð Hólm Guðmundsson og Guðjón Sigurðsson á Vopnafirði. Eik og fura. 12 brl. 80 ha. Buda vél. 11,29 x 3,32 x 1,26 m.  Seldur 29 febrúar 1960, Jóhanni Snæfeld Pálssyni í Hamarsbæli í Steingrímsfirði, Strandasýslu. Hét þá Pólstjarnan ST 33. Ný vél (1967) 90 ha. Lister vél. Báturinn fórst í róðri á Steingrímsfirði 17 desember árið 1977. Áhöfnin, tveir menn, fórust með honum. Pólstjarnan var þá á rækjuveiðum.


Langanes NS 37 sjósettur hjá Bátalóni í Hafnarfirði.                                  (C) Þorbergur Ólafsson.

              Nýr Bátalónsbátur

Síðasti fullsmíðaði báturinn, sem kvaddi Bátalón, var 12 lesta þilfarsbátur, er hlaut nafnið Langanes NS 37, búinn öllum fullkomnustu tækjum. Heimahöfn hans er Vopnafjörður. Langanes er 12. þilfarsbáturinn, sem Bátalón smíðar.

Alþýðublað Hafnarfjarðar. 19 desember 1959.


Pólstjarnan ST 33 á siglingu á Steingrímsfirði,                     (C) Ingimundur Loftsson. 

       2 menn fórust með rækjubát                               á Ströndum

Tveir menn, Jóhann Snæfeld Pálsson, 58 ára, Hamarsbæli í Steingrímsfirði, og Loftur Ingimundarson 23 ára, Drangsnesi, fórust með rækjubátnum Pólstjörnunni ST 33 frá Drangsnesi í mynni Steingrímsfjarðar á laugardag. Jóhann lætur eftir sig eiginkonu og fjögur uppkomin börn, og Loftur lætur eftir sig eiginkonu og tvö börn. Síðast sást til Pólstjörnunnar í mynni Steingrímsfjarðar um klukkan hálf fimm á laugardag og samkvæmt talstöðvarsamskiptum við rækjubátinn Grímsey, voru þeir Jóhann og Loftur þá með síðasta togið. Þegar báturinn kom ekki til lands, var farið að svipast um eftir honum og um kvöldmatarleytið var hafin skipulögð leit. Þrettán rækjubátar frá Hólmavík, Drangsnesi, Hvammstanga og Skagaströnd tóku þátt í leitinni og björgunarsveitir SVFÍ á Hólmavík og Drangsnesi gengu fjörur frá Ennisnesi norður í Bjarnarfjörð og björgunarsveitin á Hvammstanga gekk fjörur frá Skarðsvita að Vatnsnestá í Hindisvík. Um hálftvöleytið fundu leitarbátarnir brak úr Pólstjörnunni um 4 mílur frá Grímsey og um fjögurleytið fannst svo gúmbjörgunarbátur Pólstjörnunnar á reki 8,5 sjómílur frá Grímsey og 6,5 sjómílur frá Ennisnesi. Báturinn var hálffullur af sjó og bar þess engin merki, að menn hefðu farið um hann höndum. Þótti þá víst að mennirnir hefðu farizt og var leit hætt.
Pólstjarnan ST 33 var tólf tonn að stærð. Leitarflokkar leituðu fjörur bæði í gær og á sunnudaginn en sú leit hafði ekki borið árangur þegar Mbl. hafði síðast fregnir.

Morgunblaðið. 20 desember 1977.




Flettingar í dag: 638
Gestir í dag: 51
Flettingar í gær: 681
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 723984
Samtals gestir: 53724
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 16:34:23