29.09.2021 12:33

Togarar við bryggju í Örfirisey.

Þegar hafnargerð hófst í Reykjavík árið 1913 var lagður grjótgarður eftir Grandanum út í Örfirisey. Var grjótið flutt á járnbraut sem lögð var sérstaklega í þessu skyni frá Öskjuhlíðinni út á Granda. Eftir að þetta mannvirki var fullgert varð miklu greiðari för manna út í eyna, en áður hafði sjór gengið yfir Grandann. Varð Örfirisey nú um skeið vinsæll útivistarstaður. Þar fékk skotfélagið aðstöðu til skotæfinga um og upp úr 1920. Þar var byggður sundskáli um 1925, enda var þá allmikil tíska að stunda sjóböð. Árið 1940 lagði breska setuliðið eyna undir sig og gerði þar mikil mannvirki. Má segja að þá hafi hafist mikil umbylting og eyðing menja liðins tíma, t.d. er næsta lítið eftir af áletrunum frá fyrri tíð sem þar mátti áður sjá klöppum í eynni. Eftir heimstyrjöldina síðari tóku að rísa þarna ýmiss mannvirki, einkum tengd útgerð og fiskvinnslu. Á öndverðu ári 1979 var tekið í notkun á svonefndum Norðurgarði eitt fullkomnasta frystihús hérlendis. Það var um 7.300 m2 að gólffleti og var í eigu Ísbjarnarins hf, en eftir samruna fyrirtækisins við Bæjarútgerð Reykjavíkur árið 1985 varð frystihúsið eign Granda hf. Snemma á þessari öld sameinaðist Grandi hf og Haraldur Böðvarsson & Co í H.B. Grandi hf. Fiskiðjuverið í Örfirisey er nú í eigu Brims hf í Reykjavík.

Heimild að hluta:
Reykjavík Sögustaður við Sund.
Páll Líndal 1988.


Tvær kynslóðir togara við bryggju í Örfirisey, síðutogarinn Júpíter RE 161 og skuttogarinn Rauðinúpur ÞH 160.  (C) Haraldur Samsonarson.

130. Júpíter RE 161 var smíðaður hjá A/G Weser Werk Seebeck í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1956. 804 brl. 1.470 ha. Man díesel vél. 59,60 x 9,81 x 4,46 m. Hét áður Gerpir NK 106 og var í eigu Bæjarútgerðar Neskaupstaðar. Komst í eigu Tryggva Ófeigssonar í júlí árið 1960 og hét eftir það Júpíter RE 161 uns það var selt Hrólfi Gunnarssyni útgerðarmanni í Reykjavík árið 1978 sem breytti því í loðnuveiðiskip.

1280. Rauðinúpur ÞH 160 var smíðaður hjá Niigata Engineering Co Ltd í Niigata Japan árið 1973 fyrir Jökul hf á Raufarhöfn. 461 brl. 2.000 ha. Niigata vél. 47,03 x 9,52 x 5,50 m. Ný vél (1982) 2.000 ha. MaK vél, 1.471 Kw. Seldur úr landi og tekinn af skipaskrá 6 maí árið 1997.


Vesturbærinn og Reykjavíkurhöfn 1925-30. Örfirisey, Grandagarður og Norðurgarður (Örfiriseyjargarður) efst fyrir miðri mynd. Engey í baksýn. Mynd tekin úr Landakotskirkju.  Ljósmyndari óþekktur.

               Hafnargerðin

      Grandagarðurinn landfastur í                             Örfirisey

Fyrsti þáttur hins stærsta framfarafyrirtækis þessa bæjar er nær á enda, garðurinn úr landi við Ánanaust er orðinn landfastur í Örfirisey, þó eigi sé ennþá eins vel frá síðustu stikunum gengið og til er ætlast og síðar verður. Þann 8. marz 1913 kom eimskip það hingað, er flutti hingað áhöld og útbúnað, er með þurfti við hafnargerðina. Affermdi skipið í Viðey, þar eð veður voru ill um það leyti, og farmurinn síðan fluttur á bátum vestur í Ánanaustavör. Var síðan tekið til óspiltra málanna þegar í stað og byrjað á því að leggja brautarteinana þaðan inn að Öskjuhlíð. Því verki var lokið á rúmum mánuði. Í byrjun maímánaðar í fyrra var fyrsta grjóthlassinu úr Öskjuhlíð hvolft í vörina hjá Ánanaustum. Síðan hefir verkinu verið haldið áfram samfleytt fram á þennan dag, að 2-3 dögum undanskildum, sem hætta varð vinnu vegna óveðurs. Að vinnu hafa verið fæstir 40, en flestir 105. Líklegt að mönnum verði fjölgað við vinnuna með vorinu. Á laugardagskvöldið var garðurinn kominn svo nærri eynni, að unt var að leggja planka til lands, og þar með gátu menn gengið þurrum fótum til lands í Örfirisey. Að öllum líkindum mun sjálfur gijótgarðurinn eigi verða fullger fyrr en eftir 6-7 vikna tíma. Fyrst verður hlaðið í skarðið, sem enn er eftir út í eyna, þá verður vestri hlið garðsins jöfnuð, grótinu hlaðið slétt og allar smáholur fyltar, og loks járnbrautarteinarnir teknir burtu. Enn fremur verður garðurinn að ofan jafnaður og til þess verða notaðar 80 cm. þykkar grjóthellur. Breidd garðsins að ofan verður 4 álnir og verður hann þannig fær fyrir handkerrur, hjólbörur og önnur þess konar flutningatæki. Þegar starf þetta er fullgert, munu verkamenn allir verða látnir byrja á Battaríisgarðinum og Örfiriseyjargarðinum. Mun það vera í ráði að vinna á báðum stöðum í senn og þá útlit til þess að fleiri muni geta fengið atvinnu við hafnargerðina.

Morgunblaðið. 30 mars 1914.



 


Flettingar í dag: 655
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 418
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 698194
Samtals gestir: 52756
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 19:01:54