08.01.2022 11:58

Reykjavíkurhöfn árið 1967.


Þessi ljósmynd er tekin í Reykjavíkurhöfn árið 1967, og eins og sést er mikið um að vera þar eins og jafnan var hér á árum áður. Það má nú þekkja nokkur skip þarna í höfninni. Á miðri myndinni má sjá 162. Ólaf Tryggvason SF 60, smíðaður í Uskedal í Noregi árið 1960. 150 brl. 400 ha. Stork vél. Hann var í eigu Tryggva Sigurjónssonar h.f. á Höfn í Hornafirði. Utan á honum er 599. Hafnarberg RE 404, smíðaður í Marstal í Danmörku árið 1946. 45 brl. 149 ha. Ideal vél (1951). Hét áður Ingjaldur ÍS 82. Ný vél (1965) 202 ha. Kromhout vél. Á þessu ári var hann í eigu Tómasar Sæmundssonar í Reykjavík. Utan á honum er 815. Haukur RE 64, smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1947. 67 brl. 270 ha June Munktell vél. Hét áður Sveinn Guðmundsson AK 70. Ný vél (1958) 390 ha. MWM vél. Haukur h.f. í Reykjavík átti bátinn á þessum tíma. Hann fórst út af Stokksnesi 25 nóvember árið 1975, hét þá Haukur SU 50. Mannbjörg. Aftan við Hauk er trúlega 60. Garðar GK 175, smíðaður í Akershus Mekaniske Verksted A/S í Ósló í Noregi árið 1912 sem hvalveiðiskip. 179 brl. 378 ha. Ruston vél. Hét upphaflega Siglunes SI 89 hér á landi, keyptur frá Færeyjum árið 1945 og hét þar Falkur. Eigandi skipsins á þessum tíma var Skeggi h.f. í Garðahreppi. Hét síðast Garðar BA 64 og er upp í fjöru í Skápadal í Patreksfirði. Aftan við Garðar má sjá í flutningaskipið Ísborgu, fyrrum Nýsköpunartogarann Ísborgu ÍS 250, smíðuð hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948. 655 brl. 1.000 ha. gufuvél og var fyrst í eigu Útgerðarfélags Ísfirðinga. Togarinn var gerður að flutningaskipi árið 1963, sett í skipið 750 ha. Scandia díesel vél. Voru þá eigendur skipsins Borgun h.f. í Reykjavík. Fæ ekki betur séð en að Gullfoss, skip Eimskipafélags Íslands, sé þarna innan við Ísborgina. Gullfoss var smíðaður hjá Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn árið 1950. 3.858 brl. 4.025 ha. B & W díesel vél, 2.960 Kw. Gullfoss var seldur til Líbanon í október árið 1973.  (C) Peter Brady.

 


Flettingar í dag: 130
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 681
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 723476
Samtals gestir: 53687
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 03:37:12