11.01.2022 08:17

B.v. Ingólfur Arnarson RE 201. TFXD.

Nýsköpunartogarinn Ingólfur Arnarson RE 201 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1947 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur. 654 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 54,00 x 9,14 x 4,58 m. Smíðanúmer 1320. Skipaskrárnúmer 121. Skipinu var hleypt af stokkunum hinn 18 maí árið 1946 og kom til landsins 17 febrúar árið 1947, sá fyrsti af 32 Nýsköpunartogurum sem ríkisstjórn Ólafs Thors samdi um smíði á í Bretlandi árið 1945. Ingólfur var jafnframt fyrsta fiskiskip í heiminum sem fékk ratsjá að talið er. Ingólfur var alla tíð mikið afla og happaskip, hann var einn þeirra togara sem björguðu 27 manna áhöfn Hafnarfjarðartogarans Júní GK 345, sem strandaði við Sauðanes í Önundarfirði hinn 1 desember árið 1948. Ingólfur Arnarson landaði afla sínum í Grimsby 15 október árið 1953 og rauf þannig löndunarbannið sem bretar settu á íslensk fiskiskip vegna útfærslu landhelginnar í 4 sjómílur hinn 15 maí árið 1952. Skipið var endurmælt 5 nóvember 1971, mældist þá 610 brl. 26 júní 1972 var óskað eftir nafnbreytingu á skipinu, hét þá Hjörleifur RE 211. Togarinn var seldur í brotajárn til Desguaces y Recuperacion del Sur S.A. í Esteban de Pavia á Spáni í nóvember árið 1974. Í þau 27 ár sem Bæjarútgerðin gerði togarann út, aflaði hann 94.240 tonn.

Til er heimildarmynd eftir Jón Hermannsson kvikmyndagerðarmann sem hann tók í veiðiferð um borð í Ingólfi og sýnir þar skipið hátt og lágt og stafna á milli. Einnig kemur fram í heimildarmyndinni þegar verið er að rífa ýmislegt úr honum áður en hann hélt til Spánar í brotajárn. Hvar er þessi mynd nú ? Fróðlegt væri að vita hvar hún er niðurkomin.


B.v. Ingólfur Arnarson RE 201 á toginu.                                         (C) Ásgrímur Ágústsson.

 

                Glæsileg koma                          fyrsta Nýsköpunartogarans

Það var bjart yfir Reykjavík í gær þegar Ingólfur Arnarson, fyrsti nýsköpunartogarinn sigldi fánum skreyttur inn á höfnina. Forsjónin hafði sjeð fyrir því, að Reykjavík gat tjaldað sínu fegursta skrúði, þegar hún fagnaði komu hins glæsilega skips, sem ber nafn landnámsmanns hennar. Það var tilkynnt í hádegisútvarpinu í gær, að Ingólfur Arnarson myndi koma á ytri höfnina kl 12.30. En klukkan 14,30  myndi skipið sigla inn í höfnina og leggjast við hafnargarðinn, þar sem fram átti að fara opinber athöfn í sambandi við komu skjpsins. Á laugardagskvöld var ekki búist við skipinu hingað fyrr en í fyrsta lagi á mánudagskvöld, eða jafnvel ekki fyrr en á þriðjudag. En ferðin heim hafði gengið miklu betur en ráðgert hafði verið, enda var gagnhraði skipsins rúmar 12 sjómílur á klst. að meðaltali á heimleiðinni.
Strax eftir kl. 1 fóru bæjarbúar að streyma niður að höfn, því allir vildu sjá togarann, sem svo mikið orð hafði farið af. Var Ingólfsgarður og bryggjan við hann brátt þjettskipað fólki. Laust fyrir kl. 12,30, sjest til Ingólfs Arnarsonar, þar sem hann siglir fánum skreyttur inn á milli eyjanna. Var það fögur sjón. Ingólfur Arnarson flautar, heilsar Reykjavík. Þegar hann var kominn innarlega á Engeyjarsund kemur flugvjel sveimandi og flýgur nokkra hringi yfir skipið. Það var fyrsta árnaðaróskin frá Reykjavík. Ingólfur Arnarson legst nú á ytri höfnina og lóðsbátur og tollbátur fara út. Aðeins 50-60 faðma frá Ingólfi Arnarsyni, þar sem hann staðnæmdist á ytri höfninni, var skip á síldveiðum, nýbúið að kasta nótinni og voru skipverjar að draga nótina inn. Byrjuðu þeir að háfa inn gott kast í sama mund og Ingólfur stöðvaðist. Var þetta skemtileg aðkoma.


Búið að fleyta togaranum niður Humberfljótið til Hull og verið að setja niður vélina og ketilinn hjá Charles D Holmes sem smíðuðu vélina og ketilinn.   Ljósmyndari óþekktur.

Kl. stundvíslega 14,30, siglir Ingólfur Arnarson inn í höfn og legst við hafnargarðinn fyrir framan hafnarhúsið. Þar var mikill mannfjöldi saman kominn á uppfyllingunni, á nærliggjandi skipum, á húsþökum og yfir höfuð hvar sem hægt var að fóta sig. Kl. 4 hófst móttökuathöfnin um borð í skipinu og var henni útvarpað. Fyrst ljek lúðrasveit Reykjavíkur undir stjórn Albert Klahn minni Ingólfs: Lýsti sól, stjörnustól. Þessu næst flutti Jóhann Þ. Jósepsson sjávarútvegsmálaráðherra ræðu. Hann hóf mál sitt á þessa leið: "Þessi fagri febrúardagur markar tímamót í sögu íslenskrar stórútgerðar, og er merkisdagur í sögu þessarar þjóðar. í dag fagnar höfuðstaður landsins, fagnar þjóðin öll, komu þessa skips, sem er hið fyrsta af 32 samskonar botnvörpuskipum, sem fyrverandi ríkisstjórn ákvað í ágústmánuði 1945 að láta smíða fyrir íslendinga í breskum skipasmíðastöðvum. Vjer bjóðum hjer með skip og skipshöfn hjartanlega velkomna heim". Þvínæst rakti ráðherrann í stórum dráttum aðdraganda togarakaupanna, sem var stærsti þátturinn í nýsköpun atvinnulífsins, sem fyrverandi ríkisstjórn beitti sjer fyrir. Þetta væri fyrsti togarinn af 32, sem íslendingar sömdu um smíði á í Bretlandi. Síðan sagði ráðherrann: "íslendingar. Öld fram eftir öld bjuggu landsmenn við skarðann hlut hvað skipakost snerti en sóttu samt fast sjóinn og færðu björg í bú. Skráðar eru sögur og þjóð- inni kunnar um dáðrakka drengi og hugumprúða, sem buðu höfuðskepnunum byrginn á opnu skipunum sínum á þeim tímum sem skáldið hafði í huga er kvað: Fljúga stórir út frá Eyjum áragammar á vastir framla innan frá landi með öllum söndum út er róið á þrútinn sjóinn.


B.v. Ingólfur Arnarson RE 201 nýsmíðaður.                               (C) Cochrane & Sons Ltd.

Þótt mörg sje sagan kunn um baráttu og fórnfúst starf feðra vorra og þeirra feðra á þessu sviði eru þær þó fleiri, sem hann einn veit sem alt sjer og yfir öllu vakir. í dag minnumst vjer þeirra sem í því aldalanga stríði stóðu með þakklátum huga. Og þá ber oss líka að minnast þeirra stórhuga athafnamanna, sem á liðnum áratugum hafa staðið í fylkingarbrjósti í sjávarútvegsmálum vorum, þeirra, sem hófu þilskipaútgerð og þeirra, sem síðan rjeðust í það stórræði að kaupa gufutogara til landsins, ennfremur þeirra, sem bygt hafa upp vjelbátaútgerð landsins á hverjum stað. Við hvert framfaraspor í þessum efnum hefur stórhugur og bjarsýni athafnamanna landsins verið að verki. En einkum og alveg sjerstaklega verða oss í dag hugstæð afrek og fórnir sjómanna vorra, sem á undanförnum stríðs og hættutímum öfluðu þjóðinni flestra þeirra gæða, sem hún nú nýtur, og þeirra verðmæta, sem hafa gert það fjárhagslega kleift að koma fótum undir nýsköpun atvinnuvega þjóðarinnar. Þegar vjer nú lítum þetta hið mikla og fríða skip, sem að bestu manna yfirsýn er talið standa í fremstu röð botnvörpu skipa, eins og þau gerast best meðal annara þjóða og jafnvel framar, er ánægjulegt til þess að hugsa, að á þessu og næsta ári á þjóðin von á því að eignast yfir 30 jafn mikil og góð skip, sem munu dreifast á helstu útgerðarstaðina hjer við land. Þessu skipi hafa forráðamenn höfuðstaðarins valið nafn landnámsmannsins gifturíka, sem trúði á handleiðslu æðri máttarvalda og reisti hjer byggðir og bú samkvæmt þeirri trú sinni. Megi gifta landnámsmannsins fylgja þessu fríða skipi og hugarfar hans marka þau spor sem vjer stígum til framfara og viðreisnar í þjóðlífi voru. í lok ræðu sinnar afhenti ráðherrann borgarstjóranum í Reykjavík skipið til eignar og umráða til handa Reykjavíkurbæ. "Megi því jafnan vel farnast og verða landi og þjóð til bjargræðis og blessunar", sagði ráðherrann. Lúðrasveitin ljek "Íslands Hrafnistumenn".


B.v. Ingólfur Arnarson RE 201 á ytri höfninni 17 febrúar 1947. (C) Guðbjartur Ásgeirsson. ?


B.v. Ingólfur Arnarson RE 201 siglir inn á Reykjavíkurhöfn.  (C) Guðni Þórðarson.

Gunnar Thoroddsen borgarstjóri tók næst til máls og birtist ræða hans hjer í heild:
 Reykvíkingar og aðrir áheyrendur! í dag hefur mikill viðburður gerst í sögu Reykjavíkur og landsins alls. Fullkomnasta fiskiskip þjóðarinnar hefur lagst við landfestar á Íslandi. Það er fyrsta skip hins fyrirheitna lands nýsköpunar atvinnulífsins og munu mörg eftir fara. Höfuðborg landsins á þetta skip og mun gera það út. Reykjavík, heimili þessa fyrsta landnema nýsköpunarinnar, Ingólfs Arnarsonar, eins og það var Reykjavík, sem var heimili og aðsetur fyrsta landnámsmannsins, Ingólfs Arnarsonar. Fiskveiðar hafa lengst af verið undirstaða Reykjavíkur og aðalatvinnugrein. En tækin hafa tekið miklum breytingum. Hinir opnu árabátar voru lengi lífsbjörg Reykjavíkur. Síðar komu þilskip og loks togarar. Eftir súðbyrðingsför kom hinn seglprúði knörr, eftir seglskipið vjelknúin skeið, yrkir Örn Arnarson. Þessar gjörbyltingar í útveginum hafa orðið á skömmum tíma. Og nú þegar ný atvinnubylting er hafin með komu nýtísku togarans Ingólfs Arnarsonar, hljótum vjer að minnast með virðingu og þökk brautryðjendanna, hinna framtakssömu forystu- og athafnamanna, er skynjuðu andardrátt hinnar nýju tækni og færðu þannig þjóðinni aukinn afla og afköst. Nú er nýr þáttur að hefjast í sögu íslenskrar útgerðar. Togaraflotinn er að endurnýjast. Til viðbótar og í stað gamalla skipa koma nú þrír tugir nýrra og fullkominna botnvörpuskipa. Þau verða hraðskreiðari og fengsælli en hin eldri, og hollari vistarverur fyrir sjómennina. Þau eru atvinnuleg og fjelagsleg framför. En það hefst einnig nýr þáttur í sögu Reykjavíkur á marga lund. Þetta er til dæmis í fyrsta sinn, sem bæjarfjelagið sjálft ræðst í rekstur útgerðar. Reynslan mun sýna, hvort sú tilhögun hentar betur eða verr. Skoðanir eru skiptar um ágæti opinbers atvinnureksturs. En það segi jeg óhikað, að meginsjónarmið vort hlýtur að vera það, að fá atvinnutækin og halda þeim úti. Óskir allra flokka munu sameinast í því að árna hinni nýju bæjarútgerð Reykjavíkur heilla og velgengni.


B.v. Ingólfur Arnarson RE 201 leggst við miðbakka Reykjavíkurhafnar. (C) Þórarinn Sigurðsson.

 Forgöngumönnum þessa máls, fyrrverandi ríkisstjórn og nýbyggingarráði, og ekki síst sjávarútvegsnefnd og útgerðarráði Reykjavíkur, vil jeg flytja alúðar þakkir Reykjavíkurborgar. En það eitt er ekki nóg að eignast listaskip, sem líklegt er til mikilla afreka. Þótt tæknin muni komin á það stig að geta siglt mannlausum skipum eftir áætlun, verða fiskveiðar ekki ennþá a. m. k. stundaðar án mannafla. Þjóð vor er svo lánsöm að eiga stóra stjett karl menna, sem sækja sjóinn fast og hræðast hvergi holskeflur Ægis eða dutlunga Ránardætra. Sjómenn íslands hafa sannað öllum heimi kjark sinn og karlmannslund á árum styrjaldarinnar. Þeir munu ekki reynast deigari á tímum heimsfriðar í glímu sinni við hafið. Þeir eiga kröfu til þess, að þjóðin búi þeim í hendur örugg skip með góðum aðbúnaði fyrir þá sjálfa. Skipið er tæki, fiskimaðurinn stjórnandi þess. Örn Arnarson segir í hinu snjalla sjómannakvæði sínu: Hvert eitt fljótandi skip ber þó farmannsins svip, hann er ferjunnar andi og hafskipsins sál. Sjómannastjettin mun færa björgin í grunn undir framtíðarhöll. Fyrir eitt þúsund sjötíu og þrem árum nam Ingólfur Arnarson land hjer í Reykjavík vegna þess að öndvegissúlur hans rak hjer að landi. Þetta glæsta skip er heitið eftir landnemanum fyrsta. Það er öndvegisskip íslenska fiskiflotans. Vjer berum nú fram til forsjónar vors fagra lands þá ósk, að gifta fylgi nafni, og að farsæld Ingólfs landnámsmanns svífi jafnan yfir vötnunum þar sem þetta skip leggur leið sína um. Fyrir hönd bæjarstjórnar og Reykjavíkurborgar býð jeg togarann Ingólf Arnarson velkominn og skipshöfn hans alla og veiti honum viðtöku fyrir bæjarins hönd. Lúðrasveitin ljek: Þar fornar súlur flutu á land. Gísli Jónsson alþm, sem hefur haft eftirlit með smíði skipsins talaði næst. Hann lýsti skipinu og er ræða hans birt á öðrum stað í blaðinu. Lúðrasveitin ljek: Það laugast svölum úthafsöldum.


Gunnar Thoroddsen borgarstjóri heldur ræðu á brúarvæng Ingólfs.   Ljósmyndari óþekktur.

Þegar móttökuathöfninni var lokið voru landfestar skipsins leystar og siglt út fyrir eyjar. Var margt boðsgesta innanborðs. Skoðuðu menn skipið eftir því sem kostur var á, en veitingar (brauð og öl) voru framreiddar í hinum rúmgóðu vistarverum skipsins.
Af þeim 32 togurum sem samið var um smíði á í Englandi, var 15 úthlutað til Reykjavíkurbæjar og útgerðarfyrirtækja í bænum. Af þessum 15 togurum keyptu einstaklingar 5 í upphafi, en Reykjavíkurbær 10, en bærinn seldi aftur 5 til útgerðarfyrirtækja í bænum. Bærinn sjálfur,á því enn 5 togara, þrjá eimknúna og tvo dieseltogara. Sjerstakt útgerðarráð hefir yfirstjórn á rekstri bojartog aranna. Það skipa þessir menn:
Kjartan Thors, formaður, Sveinn Benediktsson, Ingvar Vilhjálmsson, Jón Axel Pjetursson og Ingólfur Jónsson. Útgerðarráð hefir kjörið þá Svein Benediktsson og Jón A. Pjetursson til þess að annast framkvæmdarstjórn bæjartogaronna fyrst um sinn. Skrifstofa Útgerðarráðsins er í Hafnarhúsinu. Ráðgert er að Ingólfur Arnarson fari á veiðar eftir 10 daga. Bræðsluteki verða sett í skipið hjer og það búið til veiða að öðru leyti.


Útlitsteikning af Ingólfi Arnarsyni RE 201.                                          Teiknari óþekktur.

Þrettán manna áhöfn var á skipinu heim. Skipsstjórinn er, sem kunnugt er, Hannes Pálsson. Aðrir skipsverjar voru: 1. vjelstjóri: Þorkell Sigurðsson. 1. stýrimaður: Loftur Júlíusson. 2. vjelstjóri Baldur Snæland. 2. stýrimaður: Gunnar Auðunsson. Bátsmaður: Ólafur Sigurðsson. Matsveinn: Guðm. Maríasson. Loftskeytamaður: Ingólfur Friðbjarnarson. Hásetar: Jónatan Kristleifsson, Kári Gíslason og Leó Kristleifsson. Kyndarar: Ármann Brynjólsson og Einar M. Karlsson.
Ingólfur Arnarson tók um 140 smálestir af vörum í Hull til flutnings heim. Útvegaði Eimskipafjelag Íslands skipinu flutninginn og sjer um afgreiðslu hans hjer. Sem tákn góðvildar til þessa fyrsta hinna nýju togara, lætur Eimskipafjelagið aðstoð sína í tje án nokkrar þóknunar.
Í dag á almenningur þess kost að skoða skipið. Verður það til sýnis frá kl. 9-12 árd. og 1-7 síðd.

Morgunblaðið. 18 febrúar 1947.


B.v. Ingólfur Arnarson RE 201.  (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Hauks Sigtryggs Valdimarssonar.


Sigurjón Stefánsson skipstjóri ræðir hér við George Dawson fiskkaupanda í Grimsby í klefa sínum um borð í Ingólfi í Grimsby hinn 15 október 1953.                               Ljósmyndari óþekktur.
 

  Löndunarbannið í Bretlandi rofið    

Þegar togarinn Ingólfur Arnarson frá Reykjavík sást í hafsauga og sigldi upp Humberfljót snemma í morgun, var mönnum ekki ljóst að hér var íslenzkur togari á ferð. Fékk hann því viðlegupláss strax og hann kom í höfnina, án hinna minnstu tafa. Skipstjórinn Sigurjón Stefánsson stóð þá í brúnni á skipi sínu. Á hafnarbakkanum stóðu fjölmargir blaðamenn en áhorfendur voru ekki margir. Dawson kaupsýslumaður fór þá þegar um borð í togarann í fylgd með Þórarni Olgeirssyni og fjármálaráðunauti sínum, Beevis. Er þeir höfðu ræðzt við í skipstjóraklefanum hálfa klukkustund, var togarinn dreginn þangað sem landað skyldi úr honum, en það er á einum bezta stað í allri höfninni. Á meðan þessu fór fram hélt skipshöfnin sig um borð í skipinu og áhorfendum á bryggjunni fjölgaði ekkert, hvorki kom til árekstra né óþæginda. Skipstjórinn skýrði frá því, hvar togarinn hefði veitt þennan fisk en það var norðvestur af Íslandi. Mótmælti hann þeirri staðhæfingu, að aflinn hefði verið veiddur innan fiskveiðitakmarkanna. Er nokkrum hluta aflans hafði verið landað í nótt, komu fulltrúar frá brezkum skipstjórum og athugu fiskinn til þess að ganga úr skugga um, hvort fiskurinn hefði verið veiddur fyrir innan fiskveiðitakmörkin. Að þeirri athugun lokinni, fullyrtu þeir, að vélbátar hefðu veitt fiskinn innan fiskveiðitakmarkananna og flutt hann um borð í Ingólf Arnarson. Því segja skipstjórarnir, að fiskurinn sé veiddur á ólöglegan hátt og sending hans til Bretlands sé einnig ólögleg. Tveir Hull-togarar voru í dag sendir til Grimsby, en hætt var við að senda hinn þriðja, þegar eigendurnir sáu fram á, að með öllu var vonlaust að seinka lönduninni úr Ingólfi. Formaður Fiskkaupmannafélagsins í Grimsby, Graham Cann, lét það boð út ganga til fiskkaupmanna að kaupa ekki Dawsonfisk á morgun. Heldur hann því fram, að fiskkaupmenn verði að styðja togaraeigendur, sem "berjast fyrir gömlum réttindum sínum," eins og hann komst að orði.
Dawson hélt nokkra blaðamannafundi síðdegis í dag. Skýrði hann þar frá því, að fiskverzlun hans við íslendinga sé ekki stundarfyrirbrigði, heldur hafi hann gert við þá fisksölusamning, sem gildi til nokkurra ára. Af þeim sökum þurfi fiskkaupmenn ekki að óttast fisksskort í framtíðinni, enda þótt brezkir togaraeigendur hóti að selja þeim ekki ugga. Dawson skýrði einnig frá því, að hann hefði gert samning við ónefnt ríki eitt utan járntjalds eins og hann komst að orði og mundi hann selja þangað íslands fisk fyrir eina milljón sterlingspund á næsta ári. Væru möguleikar á því, að auka svo söluna þangað, að hún nemi sex millj. sterlingspunda árlega. Í hinn þriðja stað benti Dawson á þá staðreynd, að Ross-félagið hefði gert einn fiskkaupmanna gjaldþrota í síðustu viku með verðlækkun á fiski og knésett annan kaupmann sem stundað hefði fisksölu í 25 ár. Hins vegar kvaðst Dawson aldrei mundu heyja samkeppni við fiskkaupmennina heldur hafa við þá nána samvinnu. Hvarvetna í Bretlandi er nú rætt um íslandsfisk manna á meðal. Flest stórblöð Bretlands sendu fréttamenn til Grimsby og þar eru gistihús öll full. Allt er með kyrrum kjörum í bænum, en almenningur er hins vegar smám saman að átta sig á þeirri staðreynd, að íslenzkur togari er kominn í höfnina.

Morgunblaðið. 15 október 1953.


B.v. Ingólfur Arnarson RE 201 í Færeyingahöfn á Grænlandi.           Ljósmyndari óþekktur.


Hallveig Fróðadóttir RE 203 utan á Ingólfi Arnarsyni RE 201 í Reykjavíkurhöfn. Ljósmyndari óþekktur.

 Ingólfur Arnarson - fyrsti nýsköpunartogarinn
        Ný fræðslu og heimildarmynd eftir
         Jón Hermannsson frumsýnd í gær


Jón Hermannsson, kvikmyndagerðarmaður, frumsýndi í gær mynd sem hann hefur gert um Ingólf Arnarson fyrsta nýsköpunartogarann og fyrsta togara Bæjarútgerðar Reykjavíkur, sem formlega er sett á laggirar um svipað leyti. Í myndinni sést þegar Ingólfur Arnarson kemur til landsins og tekið er á móti honum með viðhöfn í Reykjavíkurhöfn, en þá mynd tók Óskar Gíslason við það tækifæri. Síðan er brugðið upp myndum sem Jón tók sjálfur úr veiðiferð með Ingólfi Arnarsyni og það sýnt hátt og lágt milli stafns og skuts. Þá er sýnt þegar byrjað var að rífa innan úr togaranum skömmu áður en honum var siglt utan, en togarinn var seldur i brotajárn. Myndinni lýkur á því þegar hinn nýi Ingólfur Arnarson kemur síðan til landsins. Myndin er í senn heimilda- og fræðslumynd um Ingólf Arnarson, því að Jón kveðst leggja mikla áherzlu á fræðslugildið í texta myndarinnar og veita nokkra innsýn í veiðiaðferðir, eins og þær voru um borð í síðutogurunum sem nú eru nánast alveg horfnir af sjónarsviðinu. Ingólfur Arnarson var afar farsælt skip.
Samkvæmt útreikningum Jóns lætur nærri að hann hafi fiskað 93 þúsund tonn af fiski þau 27 ár sem hann var gerður út, og miðað við núgildandi verðlag er aflaverðmæti þessa afla um 5 milljarðar króna. Um það leyti sem togarinn fór í brotajárn hafði hann að baki um milljónir sjómílur.
Myndina gerði Jón algjörlega á eigin kostnað, en hann kvaðst áætla að hún hefði kostað hann um 2 milljónir króna fram til þessa dags. Hann kvaðst enn sem komið er aðeins hafa eitt eintak af myndinni milli handa, en hann vonaðist til að geta selt hana til einhverra aðila hér þannig að hann hefði sjálfur eitthvað upp í kostnaðinn. Hins vegar kvað Jón það einskæra tilviljun, að frumsýningu myndarinnar bæri upp svo nálægt 30 ára afmæli Bæjarútgerðar Reykjavíkur, sem er um næstu helgi, því að það hefði ekki verið neitt takmark af hans hálfu að geta sýnt myndina um það leyti enda þótt það væri óneitanlega viðeigandi.

Morgunblaðið. 15 febrúar 1977.


B.v. Ingólfur Arnarson RE 201 með fullfermi.                                            Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Hjörleifur RE 211.                                                                           Ljósmyndari óþekktur.


Líkan af Ingólfi Arnarsyni RE 201 á Sjóminjasafninu Víkinni.          (C) Þórhallur S Gjöveraa.

 

        Fyrsti nýsköpunartogarinn
                     í niðurrif

B.v. Hjörleifur, áður Ingólfur Arnarson RE 201, sigldi í síðasta sinn frá Íslandi í fyrrakvöld, en þessi fyrsti nýsköpunartogari íslendinga hefur verið seldur í brotajárn til bræðslu á Spáni. Ingólfur Arnarson kom til landsins 17. febrúar 1947. Hefur skipið ávallt verið mikið happaskip og aldrei hefur maður farist á því. Skipið kostaði á sínum tíma liðlega 5 millj. kr. Fyrsti skipstjóri var Hannes Pálsson, sem var með það til feb. 1951, annar skipstjóri í röðinni var Sigurður Guðjónsson, sem var með skipið til júní 1952. Þá tók Sigurjón Stefánsson við skipinu og var með það í 20 ár eða til maí 1972 og fjórði skipstjórinn var Snorri Friðriksson, sem hefur verið með skipið síðan og siglir hann því síðustu ferðina. Frá árinu '47-'52 var Þorkell Sigurðsson fyrsti vélstjóri togarans, frá '52-'58 var það Sigurður Müller og þriðji í röðinni var Eyjólfur Guðmundsson og síðan 1958 hefur hann tekið sér frí frá aðeins einni veiðiför og nú fer hann í síðustu ferðina með skipinu. Á þessu sést að þessi ágæti togari hefur haft trausta fylgdarmenn i ferðum sínum með þau tugþúsund tonn sem hann hefur aflað á 28 ára ferli, en togarinn skilaði mestum afla og aflaverðmæti allra nýsköpunartogaranna og hefur verið rekinn með hagnaði flest árin.
Áhöfn skipsins hefur oft aðstoðað önnur skip, sem hafa lent í hrakningum og ber hæst björgun áhafnarinnar á B.v. Júní, sem strandaði í mynni Önundarfjarðar 1. des. 1948. Skipstjóri var þá Hannes Pálsson og var áhöfn togarans bjargað frá sjó með því að skipsbátnum var róið í átt að strandaða skipinu og skotið með línubyssu úr skipsbátnum yfir í b.v. Júní og mennirnir dregnir á fleka yfir í skipsbátinn. Skeði þetta í norð-austan brjáluðu veðri. B.v. Ingólfur með skipstjóra Sigurjón Stefánsson var fyrsta skip, sem rauf löndunarbann Breta haustið 1953, eftir að landhelgin hafði verið færð út í 4 mílur 19. marz 1952. B.v. Ingólfur Arnarson var fyrsta fiskiskipið í veröldinni, sem sett var í ratsjá. Radarinn er enn í varðveizlu B.Ú.R. og verður afhentur sjóminjasafni til varðveizlu. Skipið var sérstaklega styrkt með tilliti til öryggis áhafnarinnar, má í því sambandi nefna styrkingu á gálgum og vírarúllu frá því sem tíðkast hafði. Aflamagn b.v. Ingólfs frá upphafi er 94.230 tonn að verðmæti kr. 2.500.000.000.00 lauslega útreiknað miðað við fiskverð í dag og miðað við að öllum aflanum væri landað innanlands.

 

Morgunblaðið. 17 nóvember 1974.


Flettingar í dag: 271
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 196
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 722457
Samtals gestir: 53631
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 15:47:27