23.01.2022 08:26

198. Bjarnarey NS 7. TFZX.

Tog og síldveiðiskipið Bjarnarey NS 7 var smíðuð hjá V.E.B. Volkswerft Shipyard í Stralsund í Austur-Þýskalandi árið 1959 fyrir Ríkissjóð Íslands. 249 brl. 800 ha. M.W.M. (Mannheim) vél. 35,72 x 7,32 x 3,34 m. Bjarnarey var sameign 3 sveitarfélaga, þ.e. Vopnafjarðarhrepps sem var stærsti hluthafinn, Þórshafnarhreppur, Raufarhafnarhreppur og Borgarfjarðarhreppur og heimahöfn skipsins var á Vopnafirði. Þessi sveitarfélög gerðu einnig út togskipið Jón Trausta ÞH 52. Bæði þessi skip voru í flokki þeirra skipa sem kölluð voru "Tappatogarar". Skipið var selt 8 júní 1962, Röst h/f (Einar Guðfinnsson og fl.) í Bolungarvík, hét Sólrún ÍS 399. Skipið var selt til Svíþjóðar og tekið af íslenskri skipaskrá 10 desember árið 1979.


Bjarnarey NS 7 á leið inn á Reykjavíkurhöfn með síldarfarm. (C) Snorri Snorrason. Mynd í minni eigu.

 

Nýja togskipið Bjarnarey hreppti rok
      og stórsjó á uppsiglingunni

Hingað til Akureyrar kom á mánudaginn austur-þýzka togskipið Bjarnarey, sem hreppti ofviðri mikið á hafi, en komst heilu og höldnu í heimhöfn á Vopnafirði á fimmtudagskvöldið. Hólmsteinn Helgason, oddviti Raufarhafnarhrepps og framkvæmdastjóri tveggja togskipanna austur þar, fór utan með áhöfn skipsins, er það var sótt, og kom með því hingað upp. Blaðið hitti hann að máli þegar skipið var lagzt að bryggju hér á Akureyri og spurði hann frétta. Já, við lögðum af stað frá Kaupmannahöfn föstudaginn 4. desember. En á sunnudeginum kl. 1.30 bilaði stýrisvélin. Skipið var þá statt vestur af Noregi, austarlega í Norðursjó, með stefnu fyrir norðan Hebrideseyjar. Veðrið var hið versta, rok og stórsjór á eftir. Við vorum að hlusta á fréttir af skipssköðum hingað og þangað í hinu ægilega veðri. Náðum við þá sambandi við Bergen og báðum um aðstoð, en þar var okkur sagt, að enginn nægilega stór og traustur dráttarbátur væri þar fyrir hendi, er komið gæti til aðstoðar í þessu veðri. Leitað var þá til Óslóar með milligöngu frá Bergen og mun björgunarfélagið þar hafa sent bát eða skip af stað. En um þetta leyti náðum við sambandi við Hvassafell, er var á svipuðum slóðum, og varð að ráði, að það veitti okkur aðstoð.
Afturkölluðum við því beiðni okkar um hjálp frá frændum okkar, Norðmönnum. Það kom til okkar og dældi olíu í sjóinn öðru hvoru og fengum við ekkert áfall eftir það. Og á meðan fór fram aðgerð á stýrisvélinni. Hvassafell lá hjá okkur alla mánudagsnóttina. Þegar viðgerð var lokið hjá okkur, héldum við í átt til Færeyja og var Hvassafell á næstu grösum þangað upp.
Mér virðist skipið gott í sjó að leggja og hafa fyrsta flokks sjóhæfni. Á Bjarnarey eiga að vera leiðréttir nokkrir gallar, sem fram hafa komið á þessum togskipum, segir Hólmsteinn. Barlestin var létt og öðruvísi frá henni gengið, borðstokkar voru hækkaðir og tekið burtu ankersspil af bakkanum. Skipstjóri á heimleiðinni heitir Magnús Bjarnason, Jónssonar frá Vogi, og er Reykvíkingur. Stefán Stefánsson frá Dalvík var stýrimaður og tekur hann nú við skipstjórn. Skipið á að fara á togveiðar eftir áramótin. Stærsti hluthafinn er Vopnafjarðarhreppur og Vopnafjörður er heimahöfn Bjarnareyjar. Aðrir hluthafar eru: Þórshafnarhreppur, Raufarhafnarhreppur og Borgarfjarðarhreppur, auk nokkurra einstaklinga í þessum hreppum. En þetta útgerðarfélag á líka togskipið Jón Trausta. Við ýmsa erfiðleika er að etja, fyrir þetta útgerðarfélag okkar, segir Hólmsteinn. Mikið veltur á skilningi og getu lánastofnana og svo auðvitað aðgerða ríkisstjórnarinnar gagnvart útgerðinni almennt. Blaðið þakkar Hólmsteini Helgasyni fyrir svörin og árnar hinu nýja og glæsilega skipi og áhöfn þess fengsælla veiðiferða og annars velfarnaðar í bráð og lengd. Bjarnarey og Jón Trausti munu bæði hefja togveiðar eftir áramótin. Jón Trausti var á mánudaginn að landa ofurlitlu af fiski hér á Akureyri, en er hættur veiðum, þar til á nýja árinu. Við heimkomuna til Vopnafjarðar, var fjöldi fólks viðstaddur til að sjá skipið. Hólmsteinn ávarpaði viðstadda af skipsfjöl, en oddviti Vopnafjarðarhrepps, Sigurður Gunnarsson, ávarpaði skipshöfn og aðra viðstadda fyrir hönd heimamanna. Bjarnarey flutti töluvert af varahlutum og tækjum til hinna mörgu 250 lesta systurskipa, sem áður voru komin til landsins.

Dagur. 16 desember 1959.


Bjarnarey NS 7 sennilega að koma til löndunar á Siglufirði.         Ljósmyndari óþekktur.


Sólrún ÍS 399 við brimbrjótinn í Bolungarvík.                                           (C) Hjálmar R Bárðarson.


Sólrún ÍS 399 á síldveiðum.                                                                   (C) Hafsteinn Jóhannsson.


Útlits og smíðateikning af "Tappatogara" smíðuðum í Stralsund.            (C) Hjálmar R Bárðarson.

 

                Tólf ný fiskiskip

Nýlega hefur ríkisstjórnin samið um smíði á 12 fiskiskipum, og er hvert þeirra um 250 rúmlestir að stærð. Skipin verða byggð í Austur-Þýzkalandi og verða þau eins í öllum aðalatriðum, nema hvað nokkur þeirra verða ekki búin til togveiða. Aðalmálin eru sem hér segir: Heildarlengd 38,65 metrar, lengd milli lóðlína 34 metrar, breidd á bandi 7,30 metrar og dýpt 3,60 metrar. Rúmlestatala skipa þessara hefur verið áætluð 240 til 250 rúmlestir brúttó. Allar teikningar af skipum þessum hefur Hjálmar R. Bárðarson, skipaverkfræðingur gert, svo og smíðalýsingu þeirra. Er bæði stærð og gerð þessara skipa að ýmsu leyti nýjung í fiskiflota okkar, en reynt hefur verið að sameina á sem hagkvæmastan hátt mismunandi veiðiaðferðir. Fullkominn togbúnaður er á stjórnborðshlið, en auk þess eru skipin útbúin til línuveiða og netaveiða, enda búin beitingarskýli bakborðsmegin og lokuð aftur fyrir hekk til skjóls við línurennu og við net. Skipin verða öll búin venjulegum útbúnaði til síldveiða, svo sem háfunarbómu með vökvavindu til háfunar, síldarþilfari, bassaskýli og bátsuglum og blakkarbúnaði til að taka upp nótabáta. Skipin eru öll úr stáli og rafsoðin saman nema framhluti og þak á stýrishúsi, sem er úr sjóhæfu alumínium efni. Allar stálteikningar hafa þegar hlotið viðurkenningu þýzka flokkunarfélagsins Germanischer Lloyds, og verður fylgt þeim reglum um smíði bolsins, en að öðru leyti verða skipin smíðuð og búin í samræmi við íslenzkar reglur. Við ákvörðun á línum (lagi) skipanna hefur verið reynt að samræma sjóhæfni og ganglag. Eru framstefni framhallandi og krussaraskutur. Aðalþilfar er gegnumgangandi heilt úr stáli, en klætt tréþilfari. Í skipunum eru tvö stálmöstur, og er frammastrið vantalaust, svonefnt þrífótmastur, með stálstoðum fram á hvalbak. Á frammastri er þriggja tonna lyftibóma auk pokabómu á stjórnborðshlið vegna togveiða. Neðan aðalþilfars er aftast í skipunum stýrisvélarrúm, þá íbúðir yfirmanna, sem skift er í fjögur herbergi, tvö tveggja manna og tvö eins manns, síðan er vélarrúm, fiskilest, sem er kæld, og fremst í henni er sérstök frystigeymsla fyrir beitu eða fyrir góðfisk, þá er lúkar fyrir áhöfn, skiftur í 3 herbergi, tvö 5 manna og eitt 4 manna, en fremst er keðjukassi og stafnhylki.
Undir vatnsþéttu stálgólfi undir lúkar eru drykkjarvatnsgeymar og hluti brennsluolíugeymanna. Í hverju skipi eru 4 vatnsþétt þil, auk þils framan við stýrisvélarrúm og framan við keðjukassa. Þilfarshúsið er í tveimur hæðum. Í neðri hæð, sem stendur á aðalþilfari, er fremst rúm fyrir vindumótor og kælivélar fyrir fiskilestar. Vélarreisn er í miðju þilfarshúsinu, yfir aðalvélinni, en gangur er í stjórnborðshlið hússins, þannig að innangengt er um allan afturhluta skipsins og upp í brú . Snyrtiherbergi áhafnar er BB - megin við vélarreisnina, og sömu megin er þurrkklefi fyrir olíuklæði . Sömu megin í þilfarshúsinu er einnig eldhús, búið rafmagnseldavél og öðrum eldunar- og eldhústækjum, fyrir miðju er kæligeyms a og frystigeymsla fyrir matvæli og niðurgangur í íbúðir yfirmanna, en aftast er matsalur. Í efri hæð þilfarshússins er fremst stýrishús,  og er þar m.a.  radartæki og tveir dýptarmælar. Bakborðsmegin aftan við stýrishúsið er loftskeytaherbergi með  kortaborði. Stjórnborðsmegin aftan stýrishússins er gangur niður, en aftan við hann er herbergi skipstjóra . Aftan efri hluta þilfarshúss  r reykháfur, að nokkru leyti byggður fram yfir afturenda þilfarshússins , og er í honum salerni og snyrtiherbergi skipstjóra. Bátapallur nær aftur fyrir hekk , en á honum eru tveir björgunarbátar undir sterkum bátsugl um, er hæfa nótabátum með nót í. Framan við þilfarshúsið er á aðalþilfarinu rafknúin togvinda og á framþilfari er allur venjulegur búnaður til togveiða á SB - hlið, en auk þess er þar línuvinda og losunarvinda, báðar þrýstivökvaknúnar (hydraulskar). Á hvalbak er þrýstiolíuknuin akkerisvinda, ásamt öðrum akkeris - og festibúnaði þar. Undir hvalbak er BB-megin gengið inn í gang, sem um leið er hituð sjóklæðageymsla, þaðan er fremst BB-megin gengið inn í salerni og snyrtiherbergi áhafnar, en fyrir miðju er gengið niður í íbúðir áhafnar neðan aðalþilfars. Yzt í BB-hlið undir hvalbak er lifrarbræðsla, en SB-megin undir hvalbak er veiðarfærageymsla og veiðarfæraviðgerðapláss.
Aðalakkeri skipsins eru felld inn í skipsíðurnar til að valda minna hnjaski. Allar íbúðir eru vel lýstar og loftræstar, annaðhvort með eðlilegum eða vélrænum súg. Allar vistarverur skulu vera hinar vistlegustu og verða að innan klæddar plastefnum, sem ekki þarfnast viðhalds með málningu. Gluggar í stýrishúsi verða úr aluminiumblöndu með öryggisgleri. Tveir glugganna verða þar með sjálfhreinsandi rúðum. Á stýrishúsþaki verður radarloftnet (scanner), miðunartæki, ljóskastari, áttavitasúla, loftnetsinntök og önnur tæki. Rennandi ferskvatn Verður um allt skipið, svo og sjór fyrir salerni. Aðalvélin er vesturþýzk MWM vél (Mannheim), sem við 375 snúninga á mínútu hefur 800 hestafla 0rku. Vél þessi er tengd Renk-niðurfærslu og skiftigír 2:1. Skrúfan er fjögrablaða föst skrúfa, 2,2 metrar í þvermál. Á framenda aðalvélar er tengdur 35 KW rafall með 220 volta spennu, svo og sjódæla. Hjálparvélar eru tvær. Er önnur austurþýzk 120 hestöfl við 750 snúninga tengd 64 KW 220 volta jafnstraumsrafal, en sama aflvél knýr einnig loftþjöppu og sjódælu. Hin hjálparvélin er GM aflvél, 220 hestöfl við 1500 snúninga er knýr 150 KW, 220 volta rafal, sem framleiðir rafstraum fyrir rafmótor togvindu. Þrýstiolíudæla fyrir olíuknúnar þilfarsvindur er rafknúin. Rafmagnshitun og rafeldun er í öllum skipunum. Brennsluolíumagn í geymum skipsins er um 50 tonn samtals. Eru 4 geymar í vélarrúmi, en tveir geymar undir gólfi mannaíbúða fram í og undir gólfi frystigeymslu.

Ægir. 13 tbl. 15 júlí 1957.

Flettingar í dag: 493
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 1186
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 725025
Samtals gestir: 53776
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 08:14:26