06.04.2022 16:30

4 m. msk. Haukur. NTBH / LCGK

4 mastra mótorskonnortan Haukur var smíðuð hjá J. Ring Andersens Staalskibsværft / Svendborg Værft A/S í Svendborg í Danmörku árið 1914. 357 brl. 269 nettó. 160 ha. díesel hjálparvél. Seinna var sett í það 200 ha. Hjálparvél. Hét fyrst Phönix og var í eigu Sejlskibsrederiet Phönix A/S í Thurö (Firma H.A. Hansen) í Danmörku. 139,4 x 29,6 x 13,6 ft. (dönsk). Smíðanúmer 13. Selt 25 maí 1918, Rederiet Falken A/S í Svendborg. Selt 30 desember 1918, Hauki hf. Í Reykjavík, hét þá Haukur. Skipið var aðallega í saltfiskflutningum til Spánar og Portúgals og einnig til annara Miðjarðarhafshafna og flutti salt og annan varning heim. Árið 1921-22 er skipið í eigu Landsbanka Íslands, sem selur það til Hans Pedersen í Kaupmannahöfn árið 1922. Selt árið 1927 til skipahöndlara í Kings Lynn í Englandi sem seldi það til Portúgals og mun hafa heitið þar Anfritrite. Finn engar upplýsingar um afdrif þess.

 

Mótorskonnortan Haukur við ankeri, sennilega í erlendri höfn.  Ljósmyndari óþekktur.

 

                      M.s. „Haukur“

Hingað er nýlega komin fjórmöstruð mótorskonnorta, sem Fiskiveiðafélagið „Haukur" (P.J.Thorsteinsson) hefir keypt í Danmörk. Skipið hét „Phönix“ og var smíðað í Svendborg um það leyti sem ófriðurinn var að byrja. En lítið mun það hafa verið í ferðum ófriðarárin, enda er það sama sem alveg nýtt. Phönix, sem nú hefir hlotið nafnið „Haukur", er um 600 smálestir að stærð. Það er útbúið með 160 hestafla dieselvél og mun vera fyrsta skipið með þess konar vél, sem hingað kemur. Vélin eyðir um 650 kg. af olíu á sólarhring og knýr skipið áfram 7—8 mílur á vöku í logni. En auk vélarinnar er skipið vel búið að seglum, og er því fljótt í förum. Skipið er allt úr járni og framúrskarandi vel og haganlega útbúið. Á þilfarinu er mótor, sem knýr þrjú hleðsluspil, og er hægt að afferma 250—300 smálestir á dag með þeim.
Mótorinn dregur og bæði akkeri skipsins í einu, er svo ber undir. „Haukur" kostaði um 650 þúsundir króna og má það heita ódýrt eftir því sem skip nú eru seld. Félagið Haukur á þakkir skilið fyrir það, að hafa flutt hingað dieselskip. Það er engum vafa undirorpið, að það eru skip framtíðarinnar. Olían er dýr, en þó eru kolin enn dýrari og verða það vafalaust lengi. Auk hins beina sparnaðar í rekstri skipanna, er það og að athuga, að olían tekur tiltölulega miklu minna rúm í skipinu en kolin og Dieselvélarnar minna rúm en gufuvélar. Það er ekki ósennilegt, að það muni vera arðvænlegt að útbúa botnvörpuskip með dieselvélum. Líklega þyrfti nokkuð sterkari vélar, svo skipin gætu dregið vörpuna, en það mundi samt borga sig vel. „Haukur" er nú á förum héðan með fiskfarm til Bretlands og tekur þar salt til flutnings hingað. Annars mun það vera óráðið, í hvaða ferðir skipið verður notað.
 

Morgunblaðið. 11 desember 1918.

Flettingar í dag: 870
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 947
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 204504
Samtals gestir: 5817
Tölur uppfærðar: 13.8.2022 19:58:12