07.04.2022 07:42

1273. Vestmannaey VE 54. TFLC.

Skuttogarinn Vestmannaey VE 54 var smíðaður hjá Narasaki Zosen KK í Muroran á Hokkaidoeyju í Japan árið 1972 fyrir Berg-Huginn s/f í Vestmannaeyjum. 462 brl. 2.000 ha. Niigata vél, 1.471 Kw. 47,10 x 9,52 x 5,50 m. Togarinn kom til Hafnarfjarðar hinn 19 febrúar árið 1973 og var gerður út þaðan um tíma vegna eldgossins á Heimaey. Vestmannaey var fyrsti Japanstogarinn sem kom til landsins. Þeir voru 10 togararnir sem samið var um smíði á í borgunum Muroran og Niigata í Japan á árunum 1972-73. Fyrsti skipstjóri var Eyjólfur Pétursson. Skipið var endurbyggt og lengt hjá Nauta skipasmíðastöðinni í Gdynia í Póllandi árið 1988 og skipinu breytt í frystitogara. Mældist þá 636 brl. 60,32 x 9,52 x 6,50 m. Einnig var skipt um aðalvél, 2.035 ha. Niigata vél, 1.691 Kw. Nýr gýr og skrúfubúnaður endurnýjaður. Einnig voru íbúðir endurbættar og nýjar gerðar. Frá 19 mars 1992 var Ísfélag Vestmannaeyja hf. Eigandi skipsins. 18 júní 1993 er skipið komið í eigu Bergs-Hugins hf í Eyjum. Skipið var selt til Argentínu og tekið af Íslenskri skipaskrá 30 nóvember árið 2007. Heitir eða hét þá Argenova XXl og mun hafa verið gert út til línuveiða þaðan.
Vestmannaey mun hafa aflað um 140.000 tonn á meðan skipið var gert út frá Vestmannaeyjum og aflaverðmætið á núvirði er um 20 milljarðar. Það er vel í lagt.

1273. Vestmannaey VE 54.                                      (C) Anna Kristjánsdóttir.
 
 


  Fyrsti Japanstogarinn kominn til landsins

Fyrsti skuttogarinn af tíu, sem Japanir smíða fyrir íslendinga, kom til landsins í gær. Er það Vestmannaey VE 54. Af eðlilegum ástæðum gat skipið ekki farið til heimahafnar, sem eru Vestmannaeyjar. Í þess stað kom skipið til Hafnarfjarðar, en þaðan verður skipið gert út fyrst um sinn. Blaðamenn Tímans fóru út með skipinu og ræddu þeir við skipverja á meðan verið var að tollskoða það í gær. Þeir sögðu, að þeir hefðu frétt um eldgosið í Eyjum aðeins klukkutíma eftir að það hófst í gegnum bandarískar útvarpsstöðvar. Þær fréttir voru ekki beint glæsilegar, því í þeim var sagt, að átta eða níu manns hefðu farizt er gosið hófst. Næstu þrjá dagana voru fréttirnar svipaðar. Heimaey var að sökkva og þar fram eftir götunum. Þetta voru dagar óvissunnar um borð í Vestmannaey, en á þriðja degi eftir að gosið hófst, komu þeir Eiður Guðnason og Gunnar G. Schram sendifulltrúi fram í bandarisku útvarpsstöðinni CBS og þá fyrst fengu skipverjar greinagóðar frásagnir um ástandið í Eyjum og eins og nærri má geta þá var þungu fargi af þeim létt, þegar þeir komust að því, að enginn hefði farizt í gosinu.
Skipstjóri á Vestmannaey er Eyjólfur Pétursson, en hann var áður skipstjóri á Hallveigu Fróðadóttur. Hann sagði við heimkomuna í gær, að hann-væri búinn að vera í fimm mánuði að heiman, en sjálf heimsigling skipsins hefði tekið 50 daga; samkvæmt almanakinu, en samkvæmt dagbókinni tók siglingin 51 dag, en það er tímabreytingin, þegar farið er yfir daglínuna, sem gerir þennan mismun. Alls hafði Vestmannaey lagt að baki 13.500 sjómílur, þegar hún kom til Hafnarfjarðar í gær. Skipið er smíðað í skipasmiðastöðinni í Muroran á eyjunni Hokkaido, sem er nyrzta eyja Japans. Þaðan var lagt af stað til Íslands 30. desember. Fyrsti áfanginn var Honululu, þaðan var farið til Panama, og síðasti viðkomustaðurinn var Bermuda. Bar öllum skipsmönnum saman um að þeir hefðu orðið fyrir talsverðum vonbrigðum með Honululu og Panama, en aftur á móti fannst þeim mikið til Bermuda koma, þrátt fyrir að dvölin þar yrði aðeins fjórir tímar.
Eyjólfur sagði, að kynni þeirra af Japönum væru einstaklega góð. Þeir hefðu framkvæmt allar breytingar, sem farið var fram á. En aftur á móti fannst honum ekki mikið til af vinnuhagræðingu hjá Japönum. Það er fjöldinn sem skapar vinnuhraðann þar sagði hann. Oft og tíðum var vart hægt að þverfóta um borð vegna fjölda verkamanna, og sem dæmi má nefna að upp í 60 manns voru við vinnu í vélarrúminu, en mikið fleiri rúmar það ekki. Hann sagði, að í Japan hefðu þeir skoðað japanska togara, og væri mikill munur á öllum aðbúnaði þar um borð eða í íslenzkum fiskiskipum. Japanir voru í fyrstu mjög hissa á kröfum íslendinga til mannaíbúða. Þetta breyttist er á leið og núna eru þeir farnir að smíða sín skip í likingu við þau sem þeir smíða fyrir íslendinga.
Skipverjar sögðust hafa haft nóg að starfa á heimleiðinni fyrir utan það að liggja í sólbaði. Skipið var þrifið reglulega, veiðarfærin gerð klár. Hitinn var oft og tíðum mjög mikill. Á leiðinni frá Hawaii til Panama komst hitinn upp undir 40 stig, og var þá ólíft inni í skipinu. Var þá sofið úti á dekki, og að sögn Eyjólfs skiptu menn um húð allt að þrisvar sinnum í ferðinni. Atta menn sigldu skipinu heim, og voru þeir sem lengst dvöldu úti fimm mánuði í ferðinni, en skemmst 70 daga. 1 stýrimaður verður Þorleifur Bjarnason og 1 vélstjóri Örn Aanes. Þar sem skipið kom til landsins með öll veiðarfæri tilbúin getur það farið á veiðar eftir tvo til þrjá daga. Skipið er eign Bergs og Hugins s/f.

Tíminn. 20 febrúar 1973.
 

1273. Vestmannaey VE 54 í Vestmannaeyjahöfn. (C) Anna Kristjánsdóttir.
 
 

                                          Vestmannaey VE 54

Hinn 18. febrúar s.l. kom skuttogarinn Vestmannaey VE 54 til landsins. Þetta skip er það fyrsta af 10 systurskipum, sem samið hefur verið um að smíða í Japan. Skipið er byggt hjá skipasmíðastöðinni Narasaki. Eigandi Vestmannaeyjar er Bergur hf. & Huginn hf. Vestmannaeyjum.
Almenn lýsing.
Skipið er byggt eftir flokkunarreglum „Lloyds Register of Shipping, + 100 Al og + LMC, sterntrawler, Ice Class 3". Skipið hefur tvö heil þilför og bakkaþilfar, sem nær yfir ca. 1/3  hluta af lengd skipsins. Fimm vatnsþétt þil skipta skipinu undir neðra þilfari í 6 rúm, sem talið framanfrá eru: Stafnhylki (fyrir ferskvatn), ferskvatnsgeymar, fiskilest, vélarúm, olíugeymar og skuthylki (fyrir olíu). Í tvöfalda botninum undir fiskilest og hluta af vélarúmi eru geymar fyrir brennsluolíu og smurolíu. Fremst á neðra þilfari eru matvælageymslur og keðjukassar, en þar fyrir aftan koma íbúðir; eldhús, borðsalur, fjórir 2ja manna hásetaklefar og klefi fyrir matsvein. Auk þess salerni og bað og lítið vélarúm aftast fyrir vindudælur og hitunar- og loftræstingarkerfi fyrir íbúðir. Aftan við íbúðir tekur við vinnuþilfar og þar fyrir aftan fiskmóttaka í miðju, netalest stjórnborðsmegin og vélareisn bakborðsmegin. Á efra þilfari, undir hvalbak, er fremst geymsla og þar fyrir aftan íbúðir. Þar eru 7 eins manns klefar, fyrir skipstjóra, 2 stýrimenn, 3 vélstjóra og bátsmann. Auk þess einn 2ja manna hásetaklefi. Skipstjóri hefur eigið salerni og bað og 1. vélstjóri og 1. stýrimaður eigið salerni. Auk þess er salerni og bað á efra þilfari. Aftan við íbúðir í hvalbak er svo togþilfarið. Aftast á hvalbak er brúin og er rúmlega meters lyfting frá bakkaþilfari að brúarþilfari.
Vélarúm:
 

1273. Vestmannaey VE 54.                                 (C) Anna Kristjánsdóttir.
 
 

Skipið er búið Niigata aðalvél af gerðinni 6MG31EZ, sem skilar 2000 hö við 600 sn/mín (hámarks stöðugt álag). Niðurfærslugír er sömuleiðis Niigata með niðurfærslu 2.19:1. Skipið er með 3ja blaða skiptiskrúfu af gerðinni Kamome og er þvermál hennar 2.600 mm. Framan á aðalvél er gír fyrir 270 KW, 440 V jafnstraumsrafal. Rafall þessi sér rafmótor togvindunnar fyrir orku. Hjálparvélar eru tvær, Niigata 6LI6X, 300 hö við 1000 sn/mín., og knýja þær Taiyo rafala, 250 KVA (200 KW), 3x380 V, 50Hz. Í stýrisvélarúmi undir skutrennu er rafstýrð, vökvaknúin stýrisvél. Sérstakur olíuaustursskiljari af Heishen gerð, til að skilja olíu úr austrinum er í vélarúmi og eru afköst hans um 1 t/klst. Tvær skilvindur eru fyrir vélarnar, önnur fyrir smurolíu, hin fyrir brennsluolíu og hafa þær sömu afköst. Í  skipinu er „hydroforkerfi", bæði sjó- og ferskvatnskerfi, með sjálfvirkum ræsi- og stöðvunarbúnaði fyrir dælur. Þrýstigeymar eru 250 l að stærð. Svokallað „vélrænt" loftræstikerfi með hitun er í skipinu og eru 2 samstæður; fyrir íbúðir, vinnuþilfar og vélarúm. Kerfin samanstanda í aðalatriðum af blásara, hitara, inntökum og útblástri.
Togþilfar.
 

1273. Vestmannaey VE 54 við bryggju í Eyjum.              (C) Vigfús Markússon.
 

Aftan við hvalbak er togvindan, sem er framleidd af Niigata. Vindan er knúin af 250 KW, 440 V rafmótor. Fyrir utan aðaltromlurnar tvær er ein hífingartromla og tvær hjálpartromlur á endunum. Meðaltogkraftur er um 12 t við 100 m/mín. vírahraða. Víramagn á hverri tromlu er um 820 faðmar af 3 ¼  tommu vír. Hjálpartromlurnar tvær eru notaðar við að draga bobbingana fram, en hífingartromlan er notuð til að hífa pokann upp skutrennuna. Á bakkaþilfarinu aftan við brú eru losunar- og grandaravindur, ein stjórnborðs- og ein bakborðsmegin. Á hvorri vindu er ein tromla og einn koppur og er togkraftur um 4 t við 22 m/mín. vírahraða. Vindur þessar eru notaðar m. a. til að hífa grandaravírana fram þar til rossið er komið fram að togvindunni, en þá taka hjálpartromlurnar á togvindunni við og hífa bobbingana fram eins og fyrr segir. Grandaravindurnar eru vökvadrifnar við lágan þrýsting (25 kg/ cm2) 0 g eru framleiddar af Fukushina. Í sérstöku rúmi á neðra þilfari, aftan við íbúðir , er ein olíudæla, sem sér vindunum fyrir orku og er hún knúin af 50 KW rafmótor. Aftarlega á togþilfarinu, aftur undir skutrennu, eru tvær hjálparvindur, sín hvorum megin við vörpurennuna. Vindur þessar eru eins uppbyggðar og grandaravindurnar, lágþrýstar og hvor um sig með eina tormlu og einn kopp. Þær eru einnig framleiddar af Fukushina og er togkraftur þeirra um 4 t við 25 m/mín. vírahraða. Vökvadæla fyrir vindurnar er knúin af 65 KW rafmótor og er dælukerfið staðsett í vélareisn. Vindurnar eru notaðar m. a. til að hífa höfuðlínuna og belginn inn og auk þess notaðar þegar vörpunni er kastað. Á bakkaþilfarinu er ein vökvaknúin, lágþrýst akkerisvinda, framleidd af Fukushina. Vindan hefur tvær keðjuskífur og tvo koppa. Lyftiafl er um 5 t við 9 m/ mín. hraða. Sama dælukerfi er fyrir akkerisvinduna og losunar- og grandaravindurnar.
Vinnuþilfar.
 

1273. Vestmannaey VE 54 í Vestmannaeyjahöfn.      Ljósmyndari óþekktur.
 

Eftir að pokinn hefur verið opnaður, rennur fiskurinn í gegnum lúgu á togþilfari, framan við skutrennu, og niður í fiskmóttökuna. Lúga þessi er vökvadrifin og opnast niður. Fiskmóttökunni er skipt langsum í tvo hluta með stálvegg og fremst á henni eru vökvadrifnar stálhurðir. Stærð móttökunnar er um 25 m3. Fiskurinn fer eftir færiböndum að aðgerðarborðum þar sem aðgerð fer fram. Úrgangur fer eftir röraleiðslum út um lúgu á bolnum, en lifur eftir rörum niður í sérstaka lifrargeyma. Eftir aðgerð fer fiskurinn í gegnum þvottavél, sem afkastar um 5 t/klst. og þaðan eftir rennu niður í lest. Á vinnuþilfari er ísvél, sem framleiðir 5 tonn af ís úr sjó á sólarhring.
Fiskilest.
Stærð lestarinnar er um 370 m3 og er skipt í tvo hluta, fremst er uppstilling, en afturhlutinn er fyrir fiskikassa. Lestin er hönnuð fyrir -2°C hitastig (tóm) og er þá reiknað með 5°C sjávarhita og 15 °C lofthita. Lestin er einangruð með „polyuretan", 10 cm á þykkt, og klædd með vatnsþéttum krossviði og stálplötum. Kælileiðslur eru í lofti. Kælimiðill er Freon R22. Tvær losunarlúgur eru á fiskilestinni, önnur framan við, en hin aftan við brú. Á mastri aftan við brú eru tvær bómur fyrir 1,5 tonna álag þannig að unnt er að nota bómur þessar ásamt vindum aftast á bakkaþilfari til að landa úr afturhluta fiskilestar.
Brú.
 

1273. Vestmannaey VE 54 ný komin til landsins.          Mynd úr Fylki frá 2007.


Í afturhiuta brúarínnar eru stjórntæki fyrir vindubúnað og sést þaðan vel yfir togþilfarið. Þaðan er togvindu og grandaravindum stjórnað. Í skipinu verða átaksmælar fyrir togvindu, en þeir hafa ekki verið settir upp. Í fremri hluta brúarinnar eru siglinga-, fjarskipta- og fiskileitartækin og verða hér talin þau helztu: Ratsjár: Tvær ratsjár frá Furuno, gerð FRD-50 með 100 sml. langdrægni. Önnur ratsjáin er með 12 tommu lampa og 10 feta ratsjárskermi en hin með 10 tommu lampa og 8 feta ratsjárskermi. Önnur ratsjáin er tengd inn á gýróáttavitann. Dýptarmælar: Tveir Furuno dýptarmælar, gerð FUV12 með skrifara og fisksjá. Annar fyrir tíðni 28 og 50 KHz, hinn fyrir 28 og 200 KHz. Netsjá: Furuno FNR—200, þráðlaus með hitamæli. Loran: Furuno LC—IA. Miðunarstöð: Furuno FDA-I. Talstöð: Skanti TRP-400, 400 wött, „single side band". Örbylgjustöð: Stornophone 600. Gyróáttaviti: Áttaviti og sjálfstýring frá Gylot. Á skipinu verður 15 manna áhöfn og skipstjóri verður Eyjólfur Pétursson og 1. vélstjóri Örn Aanes. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Kristinn Pálsson. Ægir óskar eigendum til hamingju með hið glæsilega skip.
Stærð skipsins 462 brl.
Mesta lengd 47.10 m.
Lengd milli lóðlína 41.00 m.
Breidd 9.50 m.
Dýpt frá efra þilfari 6.50 m.
Dýpt frá neðra þilfaii 4.30 m.
Djúprista 4.00 m.
Dauðvigt ca. 320 tonn.
Lestarrými 370 m3.
Brennsluolíugeymar 180 m3.
Ferskvatnsgeymar 40 m3.
Hraði í reynslusiglingu 14,1 sjómílur.

Ægir. 4 tbl. 1 mars 1973.
 

1273. Vestmannaey VE 54 eftir lengingu.             (C) Hans Dieter Wahls.

 


            Vestmannaey VE 54 hélt á veiðar
             sem „nýtt" frystiskip


Vestmannaey VE 54 hélt til veiða um hádegi á laugardag frá Akureyri í fyrsta skipti sem frystitogari. Undanfarna 14 mánuði hefur verið unnið að breytingum á Vestmannaey, fyrst í Póllandi og frá því í vor hafa starfsmenn Slippstöðvarinnar hf. á Akureyri unnið að því að setja í skipið alfrystibúnað og vinnslubúnað. Breytingarnar munu hafa kostað útgerð skipsins um 200 milljónir króna. Útgerðarfyrirtækið Bergur-Huginn sf. í Vestmannaeyjum á og rekur Vestmannaey VE ásamt Bergey VE, sem er 350 tonna togari. Auk þessa sér fyrirtækið um reksturinn á Halkíon VE, Gideon VE, sem hvor um sig eru 220 tonn að stærð, og Smáey VE, sem er 100 tonn að stærð. Öll skipin eru á togveiðum.
Vestmannaey hélt til Gdynia í Póllandi 5. maí í fyrra með viðkomu í Vestur-Þýskalandi þar sem afli var seldur á markað. Már Sigurðsson útgerðarstjóri sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að verkið væri vel unnið og væru menn almennt ánægðir ef frá væru taldar tafir. Þó væri ómögulegt að segja til um hve miklar tafir urðu þar sem við bættust ýmis önnur verk er á leið. Í fyrstunni var skipið lengt um sex metra og síðan aftur um fjóra þegar ákveðið var að gera skipið að frystitogara. „Sú ákvörðun var þó ekki tekin fyrr en liðið hafði nokkuð á verktímann enda virðist útlitið bjartara hjá frystitogaraútgerðinni en ísfísktogaraútgerð. Skipið kom til Akureyrar þann 12. maí og hafa engar tafir orðið á framkvæmdum þar frá því sem segir í samningi." Már sagði skipið hafa verið endurnýjað frá grunni og væri það nú sem nýtt. Vestmannaey VE var fyrsta skipið sem kom til landsins frá Japan, en alls komu tíu hingað til lands. Vestmanneyingar fengu skipið í janúar 1973. Skipstjóri á Vestmannaey er Eyjólfur Pétursson, fyrsti stýrimaður er Birgir Þór Sverrisson og yfirvélstjóri er Halldór Waagfjörð. Vestmannaeyin er á veiðum fyrir norðan land. Aðaleigendur fyrirtækisins eru Magnús Kristinsson og Kristinn Pálsson.

Morgunblaðið. 21 júlí 1988.
 

Argenova XXl á línuveiðum við Argentínu.      (C) Óskar Franz Óskarsson.
 

 


                   Vestmannaey VE 54
   Frá Íslandsmiðum til Argentínustrandar


Vestmannaey VE 54 sigldi úr heimahöfn í Eyjum áleiðis til nýrra heimkynna í Argentínu í Suður Ameríku 22. október sl. Þar með lauk nærri 35 ára farsælli sögu skipsins í eigu Bergs Hugins ehf. Vestmannaey hefur verið mikið afla- og happaskip gegnum árin og skilað drjúgum arði til samfélagsins í Eyjum sem og til þjóðarbúsins í heild. Þó að skipið sé komið til ára sinna á það samt enn mikið eftir enda hefur því verið vel við haldið og það hefur gengið í gegnum endurnýjanir og breytingar, þannig að búast má við að Vestmannaey eigi eftir að skila miklum afla á land og góðum arði er skipið hefur veiðar á nýjum slóðum við strendur Argentínu.

Hluti greinar í jólablaði Fylkis 2007.

Flettingar í dag: 946
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 947
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 204580
Samtals gestir: 5817
Tölur uppfærðar: 13.8.2022 20:41:26