27.11.2022 09:00

258. Snæfugl SU 20. TFMQ.

Vélskipið Snæfugl SU 20 var smíðaður hjá Ankerlökken Verft A/S í Florö í Noregi árið 1964 fyrir samnefnt hlutafélag á Reyðarfirði. 252 brl. 660 ha. Lister vél. 33,83 x 7,22 x 3,54 m. Smíðanúmer 55. Bóas Jónsson var fyrsti skipstjóri á Snæfugli, mikil aflakló. Hann var jafnframt einn af eigendum skipsins. Snæfugl var alla tíð mikið afla og happaskip. Það var áhöfnin á Snæfugli sem bjargaði skipverjunum af Stíganda ÓF 25 eftir rúma 5 sólarhringa hrakninga á síldarmiðunum við Svalbarða í ágúst árið 1967 eftir að skip þeirra sökk. Þarna hefði getað farið mun verr en raunin varð. Í kjölfar þessa slyss var komið á fót tilkynningaskildu íslenskra skipa. Snæfugl var seldur til Suður-Afríku í október árið 1979.
 

Snæfugl SU 20 nýsmíðaður út í Noregi.                             (C) Anton Sævík.




                    Nýr fiskibátur til Reyðarfjarðar

Reyðarfirði. Þann 6. marz kom hingað nýr fiskibátur, Snæfugl SU 20, stálskip, 252 brúttólestir, smíðað í skipasmíðastöð Ankerlökken Verft. AS. í Florö í Norður-Noregi. Afhending fór fram í Florö hinn 25. febrúar sl. Skipið er búið öllum nýjustu siglingatækjum, þar á meðal 2 Astictækjum, sjálfvirku og handknúnu og Atlasfisksjá. Fram í eru ísgeymslulestar 25 cub.m og „stampa“- geymsla fyrir 60 stampa. Aftast í „keise“, undir bátapalli, er einangrað beituskýli. Eldhús-borðsalur af fullkomnustu gerð. Matsalur er stjórnborðsmegin við hliðina á eldhúsi. Er þessi tenging á eldhúsi, borðsal, íbúð skipstjóra, inngangi í vél og íbúðir aftur á og inn gang í beituskýli og kæli og frystiklefa, nýtt fyrirkomulag, sérlega smekklegt og hentugt og sérstaklega útbúið með hliðsjón af útilegu á línuvertíð. Bóas Jónsson, skipstjóri, hefur sett metnað sinn í, og til þess notfært ér áralanga reynslu, að láta útbúa þessa tengingu sem þægilegt heimili fyrir skipverja og mun þetta fyrirkomulag lítt eða ekki þekkt hér fyrr.
Kortaklefi er mjög rúmgóður með sendistöðvum fyrir stutt- og langbylgju 66 sendirásir. Kortaborð með færanlegum kortum og plastrúðu sem hægt er að mæla út á og merkja án þess að skemma kortin. Þar er og skrifborð og fleiri þægindi. Allir innviðir í skipinu eru úr „póleruðum“ harðviði, forkunnar vel gerðir og þægindi mikil. Rými er fyrir 15—16 manns, en skipverjar verða 12—13. Fram í eru 4 tveggja manna klefar, en aftur í 2 tveggja manna klefar og 2 eins manns. Vökvaspil af Norvinsgerð fyrir 10 tonn. Vélar eru: aðalvél Lister- diesel 660 ha. og tvær hjálparvélar, Lister 62 ha. hvor. Ganghraði í reynsluför var 11 mílur. Frá Florö til Reyðarfjarðar tók siglingin 55 klst. og í blíðskiparveðri alla leið. Eigandi hins nýja Snæfugls SU 20 er útgerðarfélagið Snæfugl hf. sem stofnað var 17. júlí 1944, er þetta annað skipið sem félagið eignast. Hitt var Svíþjóðarbátur, 76 lestir, Snæfugl sá, er sökk á síldveiðum í fyrra, mikil happafleita og útgerð vel rekin af dugmiklum skipstjóra og samhentri skipshöfn.
Þessu nýja skipi Reyðfirðinga er, eins og hinu fyrra, stjórnað af hinum ágæta skipstjóra, Bóasi Jónssyni, en hann hefur alið upp allstóra sjómannastétt hér á Reyðarfirði og alltaf farnast vel. Fjölmenni var á hafnarbryggjunni þegar Bóas sigldi skipi sínu í höfn og fagnaði skipi og skipshöfn. Oddviti og formaður útgerðarfélagsins fluttu ræður og skipstjóri svaraði af stjórnpalli. Skipið er gert út á þorskveiðar með net og mun leggja upp í heimahöfn. Reyðfirðingar eiga nú tvö glæsileg fiskiskip, Gunnar SU 139, 250 tonna stálskip og Snæfugl SU 20, 252 tonn. Austri býður Snæfugl SU 20 velkominn í austfirzka flotann.

Austri. 6 tbl. 14 apríl 1964.
 

Snæfugl SU 20 við bryggju á Reyðarfirði árið 1969.  (C) Vilborg Harðardóttir.
 
Snæfugl SU 20 í Reykjavíkurhöfn í október 1979. Mynd úr Þjóðviljanum.



                      Snæfugl seldur til Suður-Afríku

Snæfugl SU 20, sem er 250 lesta stálbátur frá Reyðarfirði hefur verið seldur til S-Afríku fyrir sem nemur 150 millj. íslenskra króna og er kaupverðið greitt út í hönd. Snæfugl var smíðaður í Noregi árið 1964. Hallgrímur Jónasson útgerðarstjóri skipsins sagði í viðtalið við Þjóðviljann að einungis væri eftir að ganga frá nokkrum formsatriðum við kaupandann sem er staddur hér á landi. Ástæðan fyrir því að maður kemur frá S-Afriku til að kaupa skip á Íslandi er fyrst og fremst sú að skipið er ódýrara en sambærileg skip annarsstaðar.
En það munar mestu að skipið er greitt út í hönd, í stað þess að ef það hefði verið selt hér innanlands hefði útborgun verið 15 til 20 millj. kr. en afgangurinn skuldabréf sem engin leið væri að koma í peninga. Hallgrimur sagði að þeir Reyðfirðingar væru með þær hugmyndir að fá skuttogara í staðinn en sá róður væri þungur um þessar mundir og óvist um leikslok. Um þann möguleika að láta byggja skip hér innanlands sagði Hallgrimur að vaxtapólitikin væri þannig að slíkt skip myndi ekki einu sinni afla fyrir vaxtagreiðslum, hvað þá meiru.

Þjóðviljinn. 24 október 1979.

Flettingar í dag: 1746
Gestir í dag: 97
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 743505
Samtals gestir: 56003
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 11:48:56