15.12.2022 16:55

Ísafjarðarhöfn stuttu fyrir 1980.

Það var oft á árum áður og er það jafnvel enn, þröngt á þingi í höfninni á Ísafirði, skip við skip og oft á tíðum þröngt við kajann. Það var mjög algengt að togararnir jafnt sem önnur fiskveiðiskip sem voru að veiðum á Vestfjarðamiðum, komu til hafnar á Ísafirði til löndunar og annarar þjónustu, og héldu síðan aftur á veiðar að henni lokinni. Sannarlega falleg mynd og glæsileg skip.
 

Ísafjarðarhöfn, sennilega seint á áttunda áratugnum eða í byrjun þess níunda. Ekki óalgeng sjón í þessari höfn á þessum árum. Þarna á myndinni liggja Vestfjarðatogararnir utan eins sem er að norðan. Þeir eru frá vinstri;, 1274. Páll Pálsson ÍS 102, 1285. Júlíus Geirmundsson ÍS 270, 1302. Guðbjartur ÍS 16, utan á honum er 1407. Fontur ÞH 255, upphaflega Suðurnes KE 12 og seinna Siglfirðingur SI 150. Aftast er 1363. Guðbjörg ÍS 46.           Ljósmyndari óþekktur.

 

                   Góð veiði hjá togurum um allt land

Jón Páll Halldórsson, framkvæmdastjóri Norðurtangans á Ísafirði, sagði að allir togarar þeirra Ísfirðinga væru að landa afla sínum, þegar blaðamaður Mbl. hafði samband við hann. Togararnir á Ísafirði eru fjórir og hinir þrír, Guðbjartur, Júlíus Geirmundsson og Páll Pálsson, eru allir með sæmilegan afla. Guðbjartur var á þorskveiðum en þorskveiðar eru leyfðar í 20 daga í júlí og ágúst og virðist sem hann hafi valið að taka þá strax. Hinir togararnir hafa verið á „skrapi" og aðallega veitt grálúðu. Ekki vissi Jón Páll um aðra togara á Vestfjðrðum en hafði þó heyrt að þeir hefðu fiskað vel. Ísafjarðartogararnir hafa allir verið á veiðum út af Vestfjörðum, frá Hala og austur fyrir Hornbanka. Sagði Jón Páll að rekís hamlaði veiðum af og til. Bjóst hann við að þeir myndu stunda grálúðuveiðar á meðan grálúðan gæfi sig til. Jón sagði að nokkrir línubátar væru einnig á grálúðuveiðum við Kolbeinsey og öfluðu vel. Handfæraafli er almennt tregur, en bátar á rækjuveiðum hafa fengið góðan afla að undanförnu. Sagði Jón að nóg vinna væri í landi.
Á Akureyri hafði Morgunblaðið samband við Vilhelm Þorsteinsson hjá Útgerðarfélagi Akureyringa og sagði hann að allir fimm togarar Akureyringa væru með sæmilegan afla. Kaldbakur, sagði Vilhelm, væri nýkominn inn og væri hann með 320 tonn og meginhluti aflans grálúða. Sólbakur, sem er minni togari, hafði landað 160 tonnum á Dalvík og Hrísey og var það þorskur. Aðrir togarar eru á grálúðuveiðum fyrir Norður- og Norðvesturlandi. Harðbakur er væntanlegur á mánudag með fullfermi og Svalbakur einhvern tíma í næstu viku. Aflinn er aðallega grálúða og einnig nokkur karfi. Sagði Vilhelm að nóg væri að gera í fiski í landi. Aðspurður sagði Vilhelm að gengið hefði vel að selja saltfiskinn og skreiðina og sæmilega gengi með frystu afurðirnar, en afkoman af þessu sagði Vilhelm að væri langt frá því að vera góð. Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu er nú og hefur verið mokafli úti fyrir Austurlandi að undanförnu og hafa togarar á Eskifirði landað um 170—190 lestum eftir stuttar veiðiferðir. Hefur svo mikill afli borist á land að ekki hefur haftst undan við vinnslu og senda hefur þurft skip til Færeyja.
Einar Sveinsson hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur sagði í samtali við Morgunblaðið að karfaveiðin hafi verið góð undanfarnar vikur. Nýjasti togari útgerðarinnar, Ottó N. Þorláksson kom inn á aðfaranótt laugardags í síðustu viku með fullfermi eða 246 tonn eftir sex daga túr. Togarinn hefur farið þrjá túra og alltaf komið með fullfermi. Jón Baldvinsson, annar togari hjá Bæjarútgerðinni, landaði 200 tonnum fyrir helgina og Snorri Sturluson er væntanlegur með fullfermi og einnig Ingólfur Arnarson. Uppistaðan í þessum veiðum er karfi og þegar mikið berst af karfa í land er nauðsynlegt að framleiða hann í fljótunnar pakkningar til að koma aflanum undan, þ.e.a.s. til Rússlands. Að sögn Einars Sveinssonar er búið að fylla upp í gerða samninga við Rússa um kaup á karfa. Hefur þeim verið boðinn viðbótarsamningur.

Morgunblaðið. 16 júlí 1981.

Flettingar í dag: 2998
Gestir í dag: 304
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 741650
Samtals gestir: 55894
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 22:51:56