19.12.2022 13:31

Kútter Familien EA 1. LBHK.

Þilskipið Familien EA 1 var smíðað í Southtown, Great Yarmouth í Englandi árið 1877. Eik. 71 brl. Dýpt miðskips var 8,9 ft. Sumarið 1903 keyptu þeir Sigurður Sumarliðason skipstjóri og Þorvaldur Atlason á Akureyri, Familien af Norðmönnum sem sigldu henni hingað upp þá um vorið með timburfarm. Kaupverðið mun hafa verið um 7.000 kr. Skipið var gert út á síldveiðar með reknetum og einnig handfæraveiðar og var Sigurður skipstjóri. Familien var fjórða skipið til að stunda síldveiðar í reknet fyrir Norðurlandi. Árið 1905 keypti Ásgeir Pétursson útgerðarmaður á Akureyri hlut Þorvaldar í skipinu og í árslok það ár, seldi Sigurður sinn hlut til Ásgeirs. Familien var seld 27 nóvember 1907, Páli Þorkelssyni kaupmanni og Hirti Lárussyni skipstjóra á Akureyri, fékk þá nafnið Fanney. Sama ár var sett vél í skipið, óvíst um stærð og gerð. Fanney strandaði við Raufarhöfn 7 júlí árið 1911. Áhöfnin bjargaðist, en skipið talið ónýtt. Skipið var þá á leið frá Seyðisfirði með múrsteinafarm sem átti að fara í síldarbræðslu Evangersbræðra á Siglufirði. Það má geta þess að sú síldarbræðsla eyðilagðist í snjóflóði hinn 12 apríl árið 1919 og fórust þar 9 manns. Félagið sem rak þessa verksmiðju hét „Siglufjords Sildolje & Guanofabrik A.S.

Hér á eftir er frásögn Sigurðar Sumarliðasonar skipstjóra um síldveiðarnar í reknetin þetta fyrsta sumar þeirra á Familien. Mjög ítarleg og merkileg frásögn hans sem kom að ég held, fyrst fram í „Skútuöld“ Gils Guðmundssonar. Stórmerkileg heimild um síldveiðar í reknet á Norðurlandi og þess virði að lesa hana.
 

Kútter Familien EA 1.       Líkan Gríms Karlssonar.




                  Upphaf reknetaveiða Norðanlands

 Sigurður Sumarliðason, skipstjóri frá Akureyri

Sumarið 1902 og sumarið 1903 byrjuðu reknetaveiðar á íslenzkum þilskipum fyrir Norðurlandi á hafi úti. Í Síldarsögu Íslands eftir Matthías Þórðarson, stendur að bræðurnir Jón og Sveinn Einarssynir kaupmanns á Raufarhöfn, hafi byrjað fyrstir reknetaveiði á íslenzku þilskipi á hafi úti sumarið 1902. Þetta er víst alveg rétt. Um haustið 1901 fluttist ég til Akureyrar frá Reykjavík, og vorið 1902 átti ég viðtal við Svein Einarsson kaupmann á Raufarhöfn hér á Akureyri. Vildi hann fá mig fyrir skipstjóra á skútu, sem þeir bræðurnir Jón og hann höfðu keypt þá um veturinn frá Noregi. Ekki man ég hvað skútan hét, og ætluðu þeir að gera hana út á þorskveiðar með handfæri um vorið, en á reknet um sumarið. Veiddu þeir á hana 235 tunnur um sumarið af reknetasíld, eftir því sem Mattías skýrir frá í Síldarsögu sinni. Ekki vildi ég sinna þessu boði Sveins og varð því eigi úr samningum.
Um vorið 1903 keypti ég í félagi við Þorvald Atlason á Akureyri Kútter Familien af Norðmönnum, sem sigldu henni upp um vorið með timburfarm. Familien var rúmar 70 smálestir að stærð. Hún var ágætt sjóskip, sigldi allra skipa bezt hér norðanlands. Um sumarið gerðum við Þorvaldur hana út á síldveiðar með reknet. Var ég skipstjóri á henni. Mun þetta hafa verið fjórða fyrsta íslenzka þilskipið, sem gert var út á síldveiðar með reknet hér norðanlands, nema eins og getið er um í byrjun þessarar frásagnar, höfðu bræðurnir Sveinn og Jón Einarssynir kaupmenn á Raufarhöfn gert út skútu á reknet sumarið áður. Hin skipin sem gerð voru út á reknet þetta sumar 1903, voru: Kútter Helga, eign Otto Túliniusar kaupmanns og útgerðarmanns á Akureyri, kútter Júlíus, eign Jakobs V. Havsteen kaupmanns og Helena, eign Stefáns Jónassonar skipstjóra og útgerðarmanns. Familien, seinna Fanney, mun vera fyrsta þilskipið, sem skipshöfn var lögskráð á, á Akureyri, enda fékk Familien umdæmistöluna EA 1 og kútter Helga umdæmistöluna EA 2. Nú ber togarinn Kaldbakur umdæmistöluna EA I. Framkvæmdi Klemens Jónsson sýslumaður og bæjarfógeti á Akureyri þessa lögskráningu.
Aðeins 6 manna áhöfn var með mér á skipinu þetta sumar. Enginn vélkraftur var í skipinu. Við spiluðum inn á kröfuspili með handafli. Var það mjög erfitt verk ef nokkuð var að veðri að spila svona stórt skip fram á trássuna, eins fáliðaðir og við vorum. Við drifum með um 40 net í hverri lögn, var það allt of lítið fyrir svona stórt skip að drífa með. Hefði þurft að vera 60 til 70. Ég man eftir því, að um það leyti, sem við vorum að leggja út á reknetaveiðarnar, sem mun hafa verið um miðjan júlí, kom afar mikið hafsíldarhlaup inn á Pollinn. Hættum við við að fara út, en fengum okkur lánaða þrjá lagnetabáta, dregg og stjóra, og byrjuðum af miklu kappi að leggja netin fram á Pollinn. Varð ég fyrstur að koma í sjó þriggja neta setningu. Sáum við að á meðan við vorum að leggja hana, að síldin gekk jafnóðum í netin. Rerum við lífróður í land þegar við vorum búnir að leggja, til að sækja okkur hlífðarföt og fram aftur í sprettinum og byrjuðum þrír að tína síldina úr netunum, sem voru orðin haugafull af síld, en hinir þrír af skipshöfninni héldu áfram að leggja netin, þrjú net í setningu, eins og vanalegt er að hafa. Um kvöldið var búið að leggja 4 setningar í sjó, var þá síldin hætt að ganga í netin, Ég tvíhlóð bátinn úr fyrstu setningunni, sem við lögðum rétt um hádegi um daginn. Hinir bátarnir tveir, sá fyrri fékk eina og hálfa hleðslu og sá þriðji eina hleðslu. Mjög lítil síld var í síðustu setningunni, sem við lögðum.
 

Kútter Familien EA 1.     Líkan Gríms Karlssonar.


Svona stoppaði síldin stutt inni á sjálfum Pollinum. Um kvöldið vorum við búnir að fá í land 42 tunnur úr setningunum, sem við lögðum úr hádegi og seinna. Strax var byrjað að salta síldina þegar ég kom með fyrsta bátinn drekkhlaðinn í land. Um nóttina færðum við tvær setningarnar út á móts við svo nefndar Dældir. Við vissum að síldin var á hraðri göngu út af Pollinum. Okkur vannst ekki tími um nóttina til að flytja fleiri setningar, vöktum við þó alla nóttina fram undir morgun. Daginn eftir fengum við góða síld í ytri-setninguna, mjög lítið í þá innri. Fengum alls um daginn um 10 tunnur. Tókum við þá upp seinni part dagsins allar setningarnar fjórar og fluttum netin um borð. Þó að aflinn væri góður fyrri daginn, höfðum við aðeins veiðitjón af þessu braski okkar, því við eyddum þrem dögum alls í þessa töf þangað til við vorum tilbúnir að fara út aftur, en hefðum getað fengið miklu meiri veiði en allan þennan afla, 52 tunnur, í einni reknetalögn. Fyrstu reknetin lagði ég í Firðinum rétt fyrir utan Hrólfsker og lét drífa þar í ágætisveðri, alveg logni. svo skipið dróg ekki vel úr tróssunni og endinn á henni lagðist saman. Í þessari fyrstu lögn fengum við um 60 tunnur. Þessa síld söltuðum við um borð og gekk það prýðilega, því öll skipshöfnin var vön að salta síld í landi, og sumir voru mjög greiðir að salta síld. Næstu nótt færðum við okkur lengra út á miðin og fengum síld og söltuðum síld. En ef við fengum meir en 100 tunnur í einni lögn, gátum við ekki lagt næstu nótt, því þá höfðum við ekki undan að salta og verka síldina, pækla hana, slá tunnur til og fíra þeim niður í lestina og stúfa þeim þar. Var þetta erfið vinna og vökur, eða svo mundi finnast nú. Ekki þorðum við að leggja netin ef nokkuð var að veðri, því þá vissum við að við mundum ekki ná þeim inn aftur, nema þá meir eða minna rifin, ef við næðum þá nokkru var það líka með því að kenna hvað við vorum fáliðaðir. Í fyrsta túrnum fengum við góðan afla eftir ástæðum. Mig minnir 400 til 500 uppsaltaðar tunnur. Ekki man ég heldur hvað við vorum lengi í þessum túr, líklega tæpan hálfan mánuð. Ekki lögðum við heldur netin daglega eða á hverjum degi, lágu ýmsar áður nefndar ástæður til þess. Of mikil veiði sólarhringinn áður eða of slæmt lagningarveður fyrir okkur. Við seldum síldina úr fyrsta túrnum í stóran franskan kútter, sem Norðmaðurinn Söbsted átti, sem var að kaupa síldina í hann við Hrísey. Söbsted varð seinna búsettur á Siglufirði eins og kunnugt er. Fengum við hjá honum tómar síldartunnur og uppfylltar salttunnur jafnmargat að tölu og við seldum honum margar síldartunnur. Í fyrsta túrnum slóum við okkur tómar tunnur og salttunnur hjá kaupmönnunum, Páli Þorkelssyni og Stefáni Sigurðssyni á Akureyri, sem báðir keyptu af okkur síldina sem við fengum á Akureyrarpolli áður en við fórum út.
Höfðu þeir lánað okkur netabáta, dregg og stjóra meðan við veiddum í lagnetin þar. Annar túrinn gekk líka vel eða öllu betur. Ég man að við fengum í honum 800 uppsaltaðar tunnur. Sigldum við með þær inn á Akureyri og seldum þær Snorra Jónssyni kaupmanni fyrir 8 krónur innihaldið hverja tunnu, plús tunnu og salt í hana, sem ég man ekki hvað við fengum fyrir, en það var gangverðið. Það var líka umsamið að hann keypti líka af okkur síldina, sem við veiddum næsta túr, og legði undir hana tunnur og salt, en við fengum svo að skila aftur þeim tunnum, sem við ekki veiddum síld í. Einnig fengum við hjá honum matarforða og aðra útgerð til skipsins. Ég man að þegar ég kom inn á Akureyri úr þessum túr, þá mætti ég Kristen Havsten, sem var þá verzlunarstjóri Gránufélagsins á Oddeyri. Hann spurði mig hvaða skip lægi við Oddeyrarbryggjuna. Ég sagði honum, að það væri Familien og að við hefðum verið að koma inn með 800 uppsaltaðar tunnur af reknetasíld, sem við hefðum saltað um borð á rúmum hálfum mánuði. Karlinn varð alveg steinhissa yfir þessum aflabrögðum og margendurtók „800 tunnur saltaðar um borð .. . 800 tunnur saltaðar um borð". Enda lét hann ekki bíða að láta Gránu gömlu, skip Gránufélagsins fara á reknetaveiðar næsta sumar. Hún var gerð út frá Gránufélagsverzlun á Siglufirði. Var hún allt of stórt og erfitt skip á reknetaveiðum. Seinna, ef ég man rétt, fór hún á veiðar með snurpinót. Það mun hafa verið um 20. ágúst að við sigldum út í þriðja túrinn. Það var nokkrum dögum seinna, að við lögðum netin fram og vestur af Grímsey. Fremur var útlit skuggalegt og loftvogin að falla, þegar við lögðum þarna netin klukkan átta um kvöldið. Veður var þá kyrrt, en allþungur norðaustansjór. Allflest skip, sem voru á reknetum, lögðu net í sjó þetta kvöld. íslenzku reknetaskipin voru miklu grynnra en við, en nokkur norsk reknetaskip voru alllangt austar og dýpra. Voru það allt vélknúin skip.
Við lögðum rúm 40 net í sjó. Voru það of fá net að drífa með fyrir svona stórt skip og erfitt, en efnin leyfðu tæplega meira, og svo var þekkingin á þessum veiðiskap algjörlega á byrjunarstigi og skornum skammti. Klukkan 12 um nóttina var fyrirsjáanlegt uppgangsveður á norðaustan; var þá dimmt af nóttu, en von á birtu um klukkan þrjú; var því dregið að hefjast handa þangað til, en á því tímabili herti á veðrinu og fór nú að slíta úr honum krapahríð. Klukkan tvö settum við kapalinn á kröfuspilið og reyndum 4 að spila fram á með tvöföldum krafti, en náðum engu inn. Settum við þá fasta tróssuna og bjuggum um hana og vöfðum eftir því sem við gátum, því nú voru engin önnur úrræði en að láta skútuna hanga í meðan spottinn héldi. Versnaði nú veðrið mjög í birtinguna og var komið rok um allan sjó, og skútan farin að stinga sér í sjóinn aftur á spil. Tókum við klífirsbómuna inn, sem er laus í flestum kútterum og þrírifuðum stórseglið, sem alltaf er fírað niður þegar skipið liggur undir netunum. Messanin höfðum við tvírifaðan til að halda skipinu vel í vindinn og sjóinn. Klukkan milli átta og níu um morguninn kom norski togarinn „Atlas" að austan og framan og stoppaði við hliðina á okkur. Var hann búinn að draga sín net og var á leiðinni til lands. Ekki vissi ég það þá, þó ég kæmist að raun um það seinna, að það er siður hjá Norðmönnum á stærri skipunum, sem hafa sterkar vélar, að draga netin fyrir fyrsta skip, sem verður á leið þeirra til lands, ef það skip getur ekki dregið netin vegna veðurs. Við veifuðum ekki einu sinni til skipsins, auk heldur að við kölluðum til hans og beiddum hann um að draga fyrir okkur, héldum að það þýddi ekkert, eða kanski ekki einu sinni dottið það í hug. Og svo létum við hann fara frá okkur án þess að hafa vit á að biðja hann um hjálp. Nokkuð langt vestar og grynnra lá kútter Helga undir netum og gat ekki dregið, sem hafði þó 14 menn um borð. Hún dró upp flagg og Atlas dró fyrir hana öll netin, sem öll hefðu tapast annars, því veðrið versnaði mjög þegar á daginn leið. Norðmennirnir taka helminginn af síldinni, sem er í netunum sem þeir draga fyrir dráttinn. Það er föst venja. Ekki draga þeir nema fyrir eitt skip, hafa ekki pláss til að innbyrða meira.
 

Kútter Familien EA 1.     Líkan Gríms Karlssonar. Byggðasafn Reykjanesbæjar.


Klukkan sex um kvöldið sleit skipið trossuna 60 faðma fyrir framan stefnið, þar sem eintommu mjórri tróssa var stungin við eða 6 tommu tróssa. Kapallinn, sem næstur var skipinu, var 7 tommur. Var þá komið afspyrnu rok um allan sjó og mjög mikill sjór. Ætluðum við þá strax að hífa þrírifað stórseglið, en réðum ekki við neitt, enda hefði það rifnað í tuskur í höndunum á okkur, svo það mátti segja, að það fór betur að við gátum það ekki. Heistum við þá upp tvírifaða fokku og slóum skipinu undan, því það horfði til lands um leið og það sleit, og lögðum því fram með tvírifuðum messan og tvírifaðri fokku. Eftir um hálftíma rifnaði fokkan í tætlur. Gáfum við þá messann vel út á horn, eða út að lunningu og tókum stýrið hér um bil upp í borð. Fór skipið prýðilega með sig á þennan hátt, horfði allt af skáhalt upp í vind og sjó og sló aldrei langt frá vindi, en sakkaði dálítið afturábak. Fengum við ekki nema einn sjó á skipið um nóttina, sem ætlaði allt í kaf að keyra. Ekkert brotnaði nema skipsbáturinn, sem var bundinn niður fyrir aftan stórsigluna fór í spón. Við urðum líka varir við það seinna, að þessi sjór hafði kastað öllum tunnunum, tómum, með salti og með síld, alveg út í hliðina hléborðsmegin. Urðum við ekki mikið varir við hallan, því skipið lyfti sjaldan hléborðslunningunni upp úr sjó. Veðrið var bandvitlaust um nóttina og blindbylur. Um morguninn um 9 til 10 leytið. fór heldur að draga úr mesta veðurofsanum og úr hádeginu fór að rofa til. Klukkan 3 um daginn var orðið siglandi veður. Fórum við þá að bisa við að ná upp stórseglinu og gekk það slysalaust. Tókum fram klífirbómuna og settum fyrir stærri milliklífir, því enga höfðum við fokkuna, sem rifin var í tætlur. Því næst lögðum við skipinu yfir fyrir stag, því það hafði legið fram allt veðrið. Var nú sigldur beitivindur, sem tók til lands, var enn sjór mikill. Fór nú að skýrast landið, því veður fór batnandi. Hafði okkur drifið vestur undir Skaga og vorum nú djúpt út af Skagatánni þegar við byrjuðum að sigla. Höfðum við horf á Fljótin. Klukkan sjö um kvöldið var hann orðinn hægur; vorum við þá búnir að leysa öll rif úr messan og stórsegli og búnir að slá undir minni milliklífir fyrir fokku. Öll skipshöfnin hafði verið aftur í káetu um nóttina, því ekki var fært fyrir neinn mann að vera á þilfari um nóttina, líka til þess að vel væri hægt að loka lúkarnum, svo sjór kæmist ekki niður í hann. Einn maður stóð vakt í káetugatinu til skiptis. Þegar við áttum eftir um 5 sjómílur upp undir Dalabæ, tókum við eftir því að reyk fór að leggja upp um lúkarsopið og lestaropið líka.
Brá okkur heldur en ekki í brún, að ef nú eftir allt volkið væri kviknað í skipinu og lestin hálffull af tómum tunnum og skipsbáturinn farinn, svo ekki var hægt að bjargast í hann. Rifum við nú í flýti ofan af lestaropinu og frá lúkarsopinu, lagði þá reykjarstrókinn upp í gegnum bæði opin, en enginn sást eldurinn, fóru sumir að ryðja tómum tunnum upp úr lestinni, en aðrir að líta að eldinum bæði í káetu og lúkar, en hvergi sást eldur þó skipið væri fult af reyk. Fórum við að brjóta heilann um hvað valda mundi þessum reyk í skipinu. Kom þá í ljós, að kokkurinn hafði kveikt upp í káetuofninum, en öllum reyknum slegið niður í hann, með fram af því að sjór hafði farið ofan í ofnrörið um nóttina. Komst reykurinn úr honum hvergi upp, því öll op voru lokuð Fór reykurinn að smá réna eftir því sem lengur stóð allt opið. Fór heldur að létta yfir okkur, þegar við komustum að raum um hvað valda mundi reyknum, því útlitið var ískyggilegt, ef kviknað væri í skipinu. Við bátlausir og veltu brim í landi og klettótt strönd ef við hefðum neyðst til að sigla skipinu í land upp á líf og dauða. Veðrið fór aftur versnandi þegar leið á kvöldið og var hann byrjaður að snjóa aftur. Klukkan um 12 um nóttina lögðustum við á Siglufirði eftir harða útivist. Um morguninn var ökladjúpur snjór á þilfarinu. Í þessu veðri fentu hestar í Fljótum auk heldur sauðfé. Stórir snjóskaflar voru á Siglufirði og víða var meira en hnéhár snjór fallinn bæði á Eyjafirði og Siglufirði. Daginn eftir að við komum inn, komu nokkur norsk síldarskip inn á Siglufjörð, sem láu úti í veðrinu. Voru þau öll meira og minna havaríuð. Mun þetta hafa verið eitthvert versta veður, sem komið hefur hér norðanlands á þessum tíma, um 25. ágúst. Við áttum um 200 uppsaltaðar síldartunnur um borð í skipinu, sem við höfðum aflað það sem af var þriðja túrnum. Gat ég fengið fyrir þær reknetaúthald, sumarbrúkað, hjá einum Norðmanninum, sem var að hætta og fara heim. Voru þetta 40 brúkleg net, tróssa, belgir og stertar eða uppihöld tilheyrandi. Lögðum við svo út frá Siglufirði í fjórða túrinn á fjórða degi frá því yið komum inn á Siglufjörð. Veðurfar fór nú að verða óhagstætt og við ragir við að leggja net í sjó ef veðurútlit var ekki gott, því okkur langaði alls ekki til að losa okkur við úthaldið aftur, enda ekki færir um það. Síldin var nú öll gengin á djúpmið og mjög mishitt.
Fóru nú Norðmennirnir að hætta veiðum og týnast heim. Eftir rúma viku hættum við. Höfðum sama sem enga veiði fengið í þau tvö skipti, sem við lögðum net í sjó, En ég vil bæta nokkrum upplýsingum við um byrjun snyrpinótaveiði fyrir Norðurlandi. Eins og réttilega er frá sagt í Síldarsögu Matthíasar Þórðarsonar, eru togararnir Atlas og Albatros, eigandi konsull Falk í Stavanger, fyrstu skipin, sem veiða síld í snyrpinót hér við land sumarið 1904. Man ég vel þegar Albatros kom inn hingað til Akureyrar og lagðist við Innri-hafnarbryggjuna með fyrstu síldina, 250 tunnur, skipstjóri Mannes, sem hann tók vestur við Horn. Síldin var söltuð á Þórsnesi, á landsöltunarstöð Magnúsar Kristjánssonar kaupmanns, seinna alþingismanns. Var þetta nálægt miðjum júlí. Matthías Þórðarson segir ennfremur í Síldarsögu sinni, að Augúst Flygenring kaupmaður í Hafnarfirði sé fyrstur innlendra manna sem rak síldveiðar með snyrpinót sumarið 1905 á gufuskipinu Leslie. En þess er hvergi getið í Síldarsögu Matthíasar, að það eru fleiri skip en Leslie, sem ganga á síldveiðar með snyrpinót þetta sumar, 1905. Því var ég sjónarvottur að. Árið 1905 keyptu bræðurnir Þórarinn og Ottó Tulinius gufuskipið Súlan af Konráð Hjálmarssyni kaupmanni á Mjóafirði. Gerðu þeir hana út á síldveiðar með herpinót frá Akureyri þetta sumar. Fyrsti skipstjóri Súlunnar með herpinót var Norðmaðurinn Viland. Var hann veiðiformaður líka eða nótabassi eins og það var kallað þá. Stýrði hann Súlunni samfleytt í sex sumur á síldveiðum með herpinót, eða frá 1905 til 1910 að báðum sumrum meðtöldum.

Sjómannablaðið Víkingur. 5 tbl. 1 maí 1957 / 6-7 tbl. 1 júlí 1957. 
 

Kútter Familien EA 1, eða svona gæti hún líklega hafa litið út. Mynd úr Skútuöldinni.



                                           Skipstrand

Þilskipið „Fanney“, sem kom hingað á dögunum í stað „Jörundar", kvað vera strönduð á Raufarhöfn. Menn björguðust allir, en skipið sjálft er sagt ónýtt. Skipið var fullfermt af múrsteini þeim, er „Storoyen“ lagði hér upp um daginn og átti að fara í hús síldarolíuverksmiðjunnar á Siglufirði.

Austri 25 júlí 1911.

Flettingar í dag: 2590
Gestir í dag: 288
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 741242
Samtals gestir: 55878
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 21:23:01