21.12.2022 07:43

Stuðlafoss SU 550.

Vélbáturinn Stuðlafoss SU 550 var smíðaður af Þórði Jónssyni, Bergi í Vestmannaeyjum árið 1921 og var hann jafnframt eigandi bátsins ásamt Antoni Bjarnasyni kaupmanni þar í bæ. Eik og fura. 19 brl. 45 ha. Dan vél. 14,38 x 4,58 x 1,76 m. Hét fyrst Enok ll VE 164. Árið 1926 eignast Anton kaupmaður bátinn einn. Seldur 8 nóvember 1929, Helga Jónssyni, Haraldi Þorsteinssyni, Guðmundi Helgasyni og Þorsteini Þorsteinssyni í Vestmannaeyjum, hét þá Ingólfur Arnarson VE 187. Ný vél (1928-29) 65 ha. Skandia vél. Seldur 10 ágúst 1932, Eyjólfi Jónssyni í Sandgerði, hét Ingólfur Arnarson GK 187. Seldur 8 maí 1937, Gunnari Bóassyni Bakkagerði á Reyðarfirði, hét þá Stuðlafoss SU 550. Sama ár var báturinn lengdur og mældist þá 22 brl. Ný vél (1940) 65 ha. Skandia vél. Seldur 10 nóvember 1947, Ara Vilbergssyni, Erni Friðgeirssyni og Friðrik Sólmundssyni á Stöðvarfirði, hét þá Vörður SU 550. Ný vél (1950) 165 ha. GM vél. Seldur 27 maí 1954, Hermanni Sigurðssyni í Reykjavík, hét þá Vörður RE 295. Bátinn rak á land í Selvogi með bilaða vél 9 mars árið 1956. Áhöfnin, 5 menn, fórust. Hann var þá á loðnuveiðum. Hörmulegt sjóslys.

Heimild að mestu úr Íslensk skip IV bindi bls. 90.
 

Stuðlafoss SU 550 á síldveiðum.             (C) Ljósmyndasafn Eskifjarðar.
 
Flak Varðar RE eða það sem eftir er af því upp í fjöru í Selvogi. (C) Halli Hjálmarsson.



                                                        Hörmulegt sjóslys
Fimm menn drukkna er bát þeirra hvolfir í brimgarði

Enn hefur sjóslys orðið og mannskaði. Í gærdag fórst lítill vélbátur austur við Selvog, Vörður frá Reykjavík, og með honum áhöfnin öll. Voru fimm vaskir menn á bezta aldri með bátnum. Slys þetta varð með þeim hætti, að bátinn bar inn í brimgarð og þar hvolfdi honum á svipstundu. Fjórir mannanna voru fjölskyldumenn, er láta eftir sig konur og ung börn. Þetta hörmulega slys er hið mesta, sem orðið hefur á þessum vetri.
Mennirnir fimm, sem fórust með bátnum, voru allir að einum undanteknum fjölskyldumenn og láta eftir sig konur og ung börn. Mennirnir, sem fórust, voru þessir:
Nói Jónsson, skipstjóri, 41 árs og lætur eftir sig konu og tvö ung börn. Hann átti heima í Hólmgarði 29.
Hermann Sigurðsson, útgerðarmaður bátsins, Sólvallagötu 41, 34 ára. Hann lætur eftir sig konu og tvö börn, hið eldra 11 ára.
Hákon J. Hákonarson, 24 ára, Rauðahvammi við Baldurshaga. Hann lætur eftir sig konu og þrjú börn, hið elzta 4 ára.
Hermann Dagbjartsson, Selbúðum 7, rúmlega tvítugur. Hann lætur eftir sig barn.
Sveinbjörn Sigvaldason, 30 ára, var nýlega fluttur suður í Garðahrepp, en átti áður heima við Ægissíðu hér í Reykjavík. Hann var maður einhleypur.
Vélbáturinn Vörður hefur að undanförnu verið á loðnuveiðum. Í ofveðrinu í fyrrakvöld, leitaði hann hafnar í Þorlákshöfn. Hafði báturinn þá misst út björgunarbátinn, gúmmíbát, eins og almennt tíðkast nú orðið á fiskibátunum. Árdegis í gær lagði báturinn úr höfn þar eystra. Var ferðinni heitið til Reykjavíkur. Úti fyrir var þungur sjór. Klukkan var um tíu þegar neyðarkall heyrðist frá Verði. Vélin hafði þá bilað og skipsmönnum tókst ekki að koma henni í gang. Báturinn gaf upp staðarákvörðun, en vindur stóð á land og var báturinn tekinn að reka. Hann mun þá hafa verið skammt undan landi. Ekki var hægt að tala við þá Varðar-menn því móttakarinn hjá þeim var í ólagi. Vélbáturinn Friðrik var þá í Þorlákshöfn og fór hann af stað skömmu síðar.
Þegar hann kom á þær slóðir er Varðar-menn höfðu gefið upp, var þar engan bát að sjá, enda mun slysið þá hafa orðið um líkt leyti. Hópur manna fór frá Þorlákshöfn af stað meðfram ströndinni, til þess að reyna að veita Varðar-mönnum hjálp ef bát þeirra ræki upp. Klukkan að ganga tólf sást til bátsins frá Selvogsvita, skammt undan landi, en þar framundan er skerjótt mjög. Um klukkan 11,30 barst báturinn fyrir vindi og sjó inn í brimgarðinn framundan Selvogsvita. Þar hvolfdi honum og brotnaði þá mjög ofanþilja. Öllum skipverjum skolaði þá út og komst enginn þeirra lífs af úr brimgarðinum. Flaki bátsins skolaði á land síðdegis. Í gærkvöldi hafði ekki fundizt neitt lík hinna , drukknuðu.

Morgunblaðið. 10 mars 1956.
 

Flettingar í dag: 284
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 742043
Samtals gestir: 55916
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 00:54:31