27.12.2022 18:16

3 m. Sk. Muninn. LCFT.

Skonnortan Muninn var smíðuð hjá A.C. Brown and Sons í Tottenville á Staten Island í New York árið 1911. Eik. 217 brl. 75 ha. hjálparvél. 113,3 x 25,9 x 11,0 ft. Hét áður George B Cluett og hafði verið notað í rannsóknarferðum um Norðurhöf. Thor Jensen keypti skipið fyrir hf. Kveldúlf í Boston árið 1916. Einnig keypti hann þar skonnortuna Huginn, sem þá hét Olivette. Muninn var talið vandað skip og ekkert til sparað í smíði þess. Var talið hraðskreitt skip. Muninn var aðallega í saltfiskflutningum fyrir Kveldúlf til Spánar og kom svo með vörur og önnur aðföng fyrir útgerðina heim. Gísli Eyland var lengst af skipstjóri þess á meðan það var í eigu Kveldúlfs. Selt árið 1924, Jóni Guðmundssyni skipstjóra og fl. í Reykjavík, fékk nafnið Veiðibjallan. Var skipið í flutningum með vörur til Evrópu fram að vori 1925. Þá voru gerðar ýmsar breitingar á skipinu til þess að það hentaði til síldveiða. Það var gert út á síldveiðar sumarið 1925, en það þótti of stórt og þunglamalegt til þess. Eftir það var Veiðibjallan í flutningum milli Íslands og Evrópulanda. Í nóvember árið 1925 var skipið á heimleið frá Kaupmannahöfn með um 120 lestir af mjölvöru og um 300 bensíntunnur fyrir ýmsa kaupmenn og félög í Reykjavík. Jón Guðmundsson, eigandi skipsins var skipstjóri. Skipið villtist af leið í ofsaveðri og strandaði á vestanverðum Breiðamerkursandi hinn 15 nóvember árið 1925. Í áhöfnin voru 9 menn. 8 þeirra komust lifandi upp í fjöru, en einn skipverji drukknaði áður en hann náði landi og tveir skipverjar urðu úti á leið til byggða. Hinir sex skipverjarnir komust eftir mikla hrakninga til Kvískers. Höfðu þeir þá lagt af baki um 20 kílómetra leið frá strandstað til byggða.

Heimildir:
Ævisaga Thors Jensen. Framkvæmdaár. Valtýr Stefánsson 1955.
Upplýsingar frá mér um George B Cluett og Muninn.
Þrautgóðir á raunastund. Vll bindi bls. 77.
 

3 m. Skonnortan Muninn á Reykjavíkurhöfn.              Ljósmyndari óþekktur.



               Viðbót við verzlunarflota landsins
 

Nýkomin og nýkeypt eru þessi skip: Gufuskip »Villemoes« 774 br. tons, eign landssjóðs. Gufuskip »Borg« ber um 1000 tons, eigandi h/f. Kveldúlfur. Seglskip »Huginn« (ex Olivette) um 400 tonn. 3 möstruð skonnorta, gullfallegt skip og efalaust hraðskreiðasta seglskip landsins (nýbygt), eign Kveldúlfs. »Muninn« 3 möstruð skonnorta, hét áður »George B Cluett«, 6 ára gömul um 300 tons, mjög fallegt skip, eign Kveldúlfs. »Frances Hyde« 3 mastrað skonnortuskip með hjálpargufuvél 1200 tons, afarsterkt að sjá, enda smíðað til grjótflutnings til hinnar frægu Manhattanbrúar í Ameríku. Það er 12 ára gamalt og eru eigengdur þess þeir stórkaupmenn Johnson og Kaaber og fl., eða félag, sem heitir: Iceland Trading Co., Vilmington Delavare.
„Huginn«, »Muninn« og Frances Hyde eru keypt frá Ameriku.

Ægir. 7 tbl. 1 júlí 1917.
 

Muninn við stjóra út af Viðey.                               Ljósmyndari óþekktur.



            „Veiðibjallan“ strandaði 15. Þ.m.
             á Breiðamerkursandi

Símtal við Vík, 16 nóv.
Símfregn frá Höfn í Hornafirði hermir, að „Veiðibjallan“ hafi strandað á Breiðamerkursandi þann 15 þ.m. Í símfregninni var þess getið, að skipbrotsmenn væru flestir á Tvískerjum sem er bær vestarlega á sandinum. Ekki er annars getið en að allir skipsmenn hafi bjargast. Ennfremur er þess getið, að farið væri að reka úr skipinu, en annars ekkert sagt, hvern farm skipið hafi haft, og ekkert um strandið sjálft, hvort unt væri að bjarga nokkru o.s. frv.
Þar sem sagt er,að farið sé að reka úr skipinu, bendir það til þess, að skipið sje úti í sjó. Fer sennilega í kaf, eins og önnur við sandana. „Veiðibjallan“ er eign Jóns Guðmundssonar skipstjóra, Bakkastíg 5 hjer í bænum. Var hann sjálfur skipstjóri nú. Eftir því sem Mbl. Hefir heyrt, var skipið hlaðið vörum hingað til Rvíkur. Áttu H. Benediktsson & Co c. 70 tonn af mjölvöru, Jes Zimsen 300 tn, bensín og Mjólkurfjelag Rvíkur ca. 60 tonn af mnjöl og fóðurvöru. Um aðra veit Mbl. Ekki. Vörur H.B. & Co og Jes Zimsens voru vátrygðar hjá h.f. Sjóvátryggingafjel Íslands, en vörur Mjólkurfjel. Voru vátrygðar ytra, en hvar, veit Mbl. Ekki. Skipið sjálft mun vera vátrygt hjá „Danske Lloyd“, er Ó.G. Eyjólfsson hefir umboð fyrir.

Morgunblaðið. 17 nóvember 1925.
 

Muninn í slippnum í Reykjavík.                            (C) Magnús Ólafsson.



                             „Veiðibjöllu“ strandið

Bæjarfógetanum í Reykjavík barst í gær símskeyti frá skipstjóranum á „Veiðibjöllunni“, er var sent frá Höfn í Hornafirði, og var í skeytinu sú sorgarfregn, að þrír skipsmannanna hafi dáið. Voru það þeir Þorsteinn Gottskálksson úr Rvík, Sæbjörn Steinþór Hildibrandsson úr Hafnarfirði og Stefán Baldvinsson úr Dalvík. Hafði Þorsteinn druknað, en Sæbjörn og Stefán orðið úti;, nánara er ekki sagt frá slysunum. Í símfregninni, sem Mbl. flutti um strandið á dögunum var þess getið, að flestir skipsmanna væru komnir að Tvískerjum. Hefir þá sennilega verið ókunnugt um hina. Langt er til bæja frá sjó, og margar hætturnar á leiðinni, og hafa skipsmenn sennilega skift sjer þegar þeir fóru að leita að bæjum. Annars eru frjettirnar óljósar ennþá, t. d. ekkert sagt frá því hvar Þorsteinn hafi druknað, hvort það hafi verið í sjó eða í einhverri torfærunni á landi, og ekki er heldur neitt getið um það, hvar Sæbjörn og Stefán hafi orðið úti. Þorsteinn sál. var einhleypur maður, sonur Gottskálks trjesmiðs í Borgarnesi. Hann á nokkur uppkomin systkini hjer í bænum. Sæbjörn sál. var einnig einhleypur. Móðir hans býr í Hafnarfirði. Stefán sál. var frá Brimnesi í Svarfaðardal, sonur Baldvins bónda þar. Hann var einhleypur. Morgunblaðið hefir sent fyrirspurn til Hornafjarðar og beðið um ítarlegri skýrslu frá strandinu og um orsakir slysanna, og, væntir það að fá þá skýrslu í dag.

Morgunblaðið. 19 nóvember 1925.
 

Málverk af Muninn.                                                  Málari óþekktur.



    Sjóvolk og hrakningar „Veiðibjöllu“-manna

Þeir eru sex klukkustundir að reyna að komast á land úr skipinu. Einn er aðeins með lífsmarki þegar á land kemur, en deyr samstundis. Þeir hrekjast á landi í vondu veðri. Þrír grafa sig í sand um nóttina. Tveir verða viðskila og verða úti.
(Einkaskeyti til Morgbl.) Höfn í Hornafirði, 19. nóv. ’25.
Morgunblaðið sendi fyrirspurn til Hornafjarðar um orsakir hins sorglega viðburðar er reyndist að hafa orðið við „Veiðibjöllu“-strandið. Fjekk það í gæt svar við fyrirspurninni, og birtist það hjer á eftir: „Veiðibjallan“ strandaði síðastliðinn laugardagsmorgun. Eftir nálægt sex klukkustunda volk komst skipshöfnin loks á land. Einn skipsmannanna vildi ekki björgunarbelti, og komst hann með naumindum á land og var með litlu lífsmarki þegar á land kom. Hann dó samstundis. Á laugardagskvöld komust fjórir af skipsmönnum til Tvískerja, þrír grófu sig í sand um nóttina, tveir urðu viðskila og fundust öendir næsta dag“. Eftir þessu að dæma, hafa alls verið 10 menn á skipinu. Hefir vafalaust verið versta veður sunnudagsnóttina, sennilega sandbylur. Telja má nokkurn veginn víst að skipið sjálft sökkvi í sjó, ef það er þá ekki þegar sokkið.

Morgunblaðið. 20 nóvember 1925.

Flettingar í dag: 1400
Gestir í dag: 235
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 740052
Samtals gestir: 55825
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 13:10:54