29.12.2022 06:59

Kveldúlfur og Kveldúlfstogararnir.

Kveldúlfur var stærsta útgerðarfélag landsins á fyrri hluta 20 aldar. Vegur þess varð mestur á 3 og 4 áratugnum og fram yfir seinni heimstyrjöldina. Voru þeir þá með 7 togara í rekstri, fiskverkunarstöðina á Kveldúlfshöfða og síldarbræðslur víða um land. Thor Jensen og synir hans, í daglegu tali nefndir „Thorsararnir“ stofnuðu Kveldúlf hinn 23 mars árið 1912 og var hlutafé félagsins 150 þús. kr. Eða álíka mikið og kaupverð togara á þessum tíma. Fyrsti togari Kveldúlfs var Skallagrímur RE 145, 258 tonna togari sem Richard, elsti sonur Thors keypti í Grimsby og kom hann til landsins í janúar 1912. Thorsararnir voru umdeildir, það var nokkuð ljóst. Það var oft mikið pólitískt „moldviðri“ um þetta fjölskyldufyrirtæki þeirra, Kveldúlf, m.a. felldi það ríkisstjórnina vorið 1937. Margir litu Thor Jensen hornauga vegna ætternis hans, en ég held að hann hafi verið meiri Íslendingur í sér en margur landinn var. Greinin hér að neðan eftir Guðjón Friðriksson sagnfræðing sem birtist í Fiskifréttum í desember árið 1995, segir allt sem segja má um Kveldúlf og þá feðga, Thor Jensen og syni hans.
Það er umhugsunarvert af hverju þeir tóku ekki meiri þátt í nýsköpuninni en raunin varð eftir allan styrjaldargróðann. Keyptu aðeins einn Nýsköpunartogara, Egil Skallagrímsson RE 165. Trúlega hafa þeir litið svo á að fljótlega myndu sumar útgerðir Nýsköpunartogaranna gefast upp á rekstri þeirra og þá gæti Kveldúlfur jafnvel keypt þá fyrir slikk. Þeir voru með nokkra af gömlu togurunum sínum í rekstri fram yfir árið 1955, en fljótlega eftir það voru þeir flestir seldir úr landi í brotajárn. En segja má að rangar ákvarðanir hafi orðið til þess að þetta mikla útgerðar og fiskvinnslufyrirtæki tók að hnigna ört á 6 og 7 áratugnum og að síðustu var h/f. Kveldúlfur endanlega afskráður árið 1977.

Sjö Kveldúlfstogarar í röð í Reykjavíkurhöfn. Næst okkur er Egill Skallagrímsson RE 165, innan við hann er Skallagrímur RE 145. Svo koma hinir fimm, þó ekki í réttri röð:, Arinbjörn hersir RE 1, Þórólfur RE 134, Gulltoppur RE 247, Gyllir RE 267 og Snorri goði RE 141. Ljósmyndin er tekin árið 1932.  Ljósmyndari óþekktur.



                                                                     

                                                Kveldúlfur

>Kveldúlfur« heitir nýtt botnvörpufjelag og er formaður þess Richard Jensen. Hann var nú erlendis að útvega fyrsta skipið og kom í nótt á því hingað. Skipið á að heita "Skallagrímur. Mun það ætlan fjelagsins, að yngja upp ætt Mýramanna í botnvörpungum. Kemur þá Egill Skallagrímsson næst og svo koll af kolli. Verður það álitlegur floti, þegar karlleggur þessi er á enda rakin og rekur þá lestina Þorsteinn böllóttur Snorrason, er ábóti var á Helgafelli um 1350, en hann vitum vjer seinastan afkomanda Skallagríms í beinan karllegg.

Vísir. 17 janúar 1912.
 

B.v. Skallagrímur RE 145, fyrsti togari h.f. Kveldúlfs á ytri höfninni í Reykjavík. Hann var smíðaður hjá Dundee Shipbuilders & Co í Dundee í Skotlandi árið 1905. 258 brl. Hét áður Gloria.  Mynd á gömlu póstkorti.




                                  Stórveldið Kveldúlfur
     rifjuð upp saga þess og Thorsaranna

Sumarið 1878 steig bláfátækur danskur drengur á fimmtánda ári á land á Borðeyri við Hrútafjörð. Hann hét Thor Jensen og hafði ráðið sig sem búðarþjón hjá kaupmanninum þar. Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga var þá enn í fjötrum forneskjulegs sveitabúskapar og engin vél var til í landinu. En það var töggur í þessum syni danskra beykilunda. Þrátt fyrir hafísár, hallæri og landflótta til Ameríku á fyrstu árum hans á Íslandi stæltist hann við óblíð skilyrði og fór hvergi. Hann taldi sig brátt sannan Íslending, kvæntist íslenskri stúlku, braust til fjár og varð síðan fremstur í fylkingu þeirra manna sem stóðu fyrir hinni miklu atvinnubyltingu sem gerði Ísland að einu af ríkustu löndum heimsins um síðir.
Thor Jensen kom nærri mörgum fyrirtækjum um dagana en stærst í sniðum var útgerðarfélagið Kveldúlfur sem stofnað var 1912 og var stærsta útgerðarfyrirtæki landsins um áratugi. Það voru reyndar synir hans, Thorsararnir, sem stýrðu fyrirtækinu frá upphafi ásamt föður sínum og einir eftir 1920. Mikill öldugangur var í rekstri Kveldúlfs og átti fyrirtækið það sammerkt með öðrum útgerðarfélögum. Þar skiptist á auðsöfnun og gríðarlegt tap. Á keppuárunum varð Kveldúlfur bitbein í pólitískum átökum sem urðu heilli ríkisstjórn að falli. Að lokum, eftir seinni heimsstyrjöld, voru teknar rangar ákvarðanir um fjárfestingar fyrirtækisins og það rann sitt skeið á enda. Thor Jensen byrjaði umsvif sín í Borgarnesi og á Akranesi. Hann varð gjaldþrota árið 1899 en lét ekki deigan síga, fluttist til Reykjavíkur og hóf þar verslun með tvær hendur tómar. Skútuöld stóð þá með blóma og uppgangsár voru í höfuðstaðnum. Fólk streymdi þangað frá öllum landshornum og íbúatalan tvöfaldaðist á fyrsta áratug aldarinnar.
 

Fyrstu togarar Kveldúlfs á Reykjavíkurhöfn. Frá vinstri talið, Skallagrímur RE 145 ex Gloria, Snorri Sturluson RE 134 ex Pointer og Snorri goði RE 141 ex Canadian.  Ljósmyndari óþekktur.


Þó að Thor Jensen yrði að byrja slyppur og snauður sá hann glöggt hvaða möguleika hann átti. Í bæ sem óx jafnhratt og Reykjavík og sjávarútvegur var í jafn örum vexti,  hlaut verslun með útgerðarvörur og byggingarefni að vera ábatasöm. Hann kom að máli við útgerðarmenn, einkum á Seltjarnarnesi, tók niður pantanir á útgerðarvörum og safnaði sér í heilan skipsfarm. Síðan tók hann lán og fór til Leith til að kaupa inn. Þetta gekk eins og í sögu og verslun hans, er hann nefndi Godthaab, hófst. Thor Jensen hafði hitt á óskastund. Hagnaður Godthaab-verslunarinnar varð ævintýralegur á örfáum árum. Hin vaxandi stétt skútuútgerðarmanna keypti hjá honum mikið af veiðarfærum, segldúk, köðlum og matvælum og nógur markaður var fyrir byggingarefni. Thor Jensen átti síðan þátt í ýmsum sjávarútvegsfyrirtækjum í tengslum við verslun sína og má þar nefna síldveiðifélagið Draupni 1905, togaraútgerðarfélögin Alliance 1906 og Draupni 1911 og Milljónafélagið 1907. Hann efnaðist vel enda gróði af togaraútgerð ævintýralegur á fyrstu árum hennar.
Það var síðla árs 1911 að Richard, elsti sonur Thors, hélt áleiðis til Englands, vel birgur af fjármunum. Árangur fararinnar var kaup á fimm ára gömlum 258 brúttólesta togara sem hlaut nafnið Skallagrímur. Lagði skipið af stað frá Grimsby til Íslands 11. janúar 1912. Um vorið eða 23. Mars 1912 var Kveldúlfur h.f. stofnaður í Reykjavík. Það var hreinræktað fjölskyldufyrirtæki. Hlutafé var 150 þúsund krónur eða svipað og kaupverð eins togara. Thor Jensen var tæplega fimmtugur þegar hér var komið sögu og elstu synir hans orðnir fullvaxta menn. Fjórir þeirra voru með í stofnun Kveldúlfs. Framkvæmdastjóri og stjórnarformaður félagsins frá upphafi var Richard, 24 ára, en með honum í stjórn voru bræður hans Kjartan, 22 ára, og Ólafur, 20 ára. Þar að auki var hinn 16 ára gamli Haukur einn af stofnendum fyrirtækisins. Þeir voru enn allir Jensen, er hér var komið sögu, en nokkrum árum síðar tóku þeir upp ættarnafnið Thors og urðu þekktir sem Thorsbræður. Eftir 1920 dró ættfaðirinn sig að mestu út úr rekstri útgerðarinnar en lét sonum sínum hann eftir. Hann gekk úr stjórninni 1929 og var stjórn félagsins eftirleiðis skipuð fimm sonum hans. Thor Thors bættist í hóp þeirra sem fyrr voru nefndir.
 

Kveldúlfstogarar við bryggju á Hjalteyri í Eyjafirði um árið 1917.  Ljósmyndari óþekktur.

 

Hjalteyri við Eyjafjörð. Síldarverksmiðja Kveldúlfs var reist þar á árunum 1937-38. Það var Helgi Eyjólfsson byggingameistari sem sá um smíðina. Hjalteyrarverksmiðjan var talin ein stærsta síldarbræðsla í Evrópu á sínum tíma.  (C) Andrés Kolbeinsson.


Uppgangur Kveldúlfs var geysilega ör á fyrri stríðsárunum, einkum framan af. Árið 1915 bættust tveir togarar við þann eina sem fyrir var; Snorri goði og Snorri Sturluson. Eins og venja var þá veiddu togararnir í salt á vetrarvertíð en á vorin og þó einkum haustin var þeim haldið til ísfiskveiða og veiddu þá fyrir Englandsmarkað. Á sumrin voru Kveldúlfstogarar á síld en þá var algengt að togurum annarra félaga væri lagt. Sumarið 1912 komu Kveldúlfsmenn upp síldarsöltunarstöð á Torfunefi á Akureyri en fluttu sig ári síðar út að Hjalteyri og voru þar á næstu árum byggðar einar fimm hafskipabryggjur á vegum félagsins. Árið 1924 keypti Kveldúlfur alla Hjalteyrina og voru þar næstu áratugi höfuðstöðvar félagsins fyrir norðan. Árið 1916 byrjaði félagið einnig að leggja upp síld á Siglufirði og voru þar gerðar á vegum félagsins þrjár hafskipabryggjur og síldarplan.
Mest umsvif voru þó í Reykjavík og nágrenni. Árið 1913 keypti félagið Móakotslóð í Skuggahverfi, vestan Vatnsstígs niður við sjó. Hún var 4000 fermetrar. Þar var á næstu árum reist stórhýsi með fiskgeymslum, skrifstofum, þvottahúsi og þurrkhúsi. Þá voru gerðir fiskreitir austan við húsin og einnig var þurrkað á þaki þeirra. Sjávarmegin var gert bólvirki á svokölluðum Kveldúlfshöfða og bryggja fram af. Þar lögðu togararnir upp áður en Reykjavíkurhöfn var tekin í gagnið. Einnig keypti félagið jörðina Melshús á Seltjarnarnesi og þar var fiskverkunarstöð og bræðsla á vegum fyrirtækisins. Einnig var rekin stöð í Hafnarfirði og í Rauðarárholti voru fiskreitir. Auk togaranna eignuðust Kveldúlfsmenn fjögur flutningaskip og fimm síldveiðibáta á fyrri heimstyrjaldarárunum. Árið 1916 lét Kveldúlfur smíða nýjan togara á Englandi er gefið var heitið Egill Skallagrímsson. Hann var fullkomnasta skip íslenska flotans þá en breska stjórnin lagði hald á hann vegna styrjaldarástandsins þannig að hann kom ekki til landsins fyrr en 1919.
 

Síldarbræðsla Kveldúlfs á Stekkeyri í Jökulfjörðum. Fimm togarar við bryggju að landa afla sínum. Ljósmyndari óþekktur.
 
Athafnasvæði Kveldúlfs á Stekkeyri. Maðurinn sem stendur við þrærnar, hægra megin við miðja mynd mun vera Richard Thors framkvæmdastjóri Kveldúlfs. Ljósmyndari óþekktur.
Síld landað úr togara á Stekkeyri.        (C) Benedikt Rósi Steingrímsson.
 

Egill Skallagrímsson var fyrsta íslenska fiskiskipið sem hafði loftskeytatæki innanborðs. Árið 1917 varð bakslag í íslenskri togaraútgerð. Þá urðu Íslendingar að selja helming togaraflotans, alls tíu skip, til Frakklands, vegna eindreginna óska bandamanna. Flestir íslenskir útgerðarmenn sáu sér hag í sölunni þar sem þeir fengu hátt verð fyrir skipin. Kveldúlfsmenn létu þó ekki freistast og nutu þess eftir stríð að eiga hina gömlu togara sína þar sem afar dýrt reyndist að láta smíða eða kaupa ný skip í stríðslok og allra fyrst eftir stríð. Þessi ákvörðun átti þátt í að gefa þeim yfirburðastöðu á næstu árum. Á árunum 1919 til 1920 seldi Kveldúlfur gömlu skipin, Snorra Sturluson, Snorra goða og Skallagrím, en lét í þeirra stað smíða tvo stærstu togara sem þá höfðu verið gerðir fyrir Íslendinga. Þeir voru Skallagrímur nýi og Þórólfur. Ennfremur var keyptur nýr Snorri Sturluson en seldur aftur að tveimur árum liðnum. Snorri goði og Arinbjörn hersir bættust svo í flotann árið 1924. Þá voru togararnir orðnir fimm. Árið 1932 bættust við togararnir Gyllir og Gulltoppur og voru þá Kveldúlfstogarar orðnir sjö samtals og var svo öll kreppuárin.
Eftir fyrri heimsstyrjöld voru Þrír af hverjum fjórum togurum landsins gerðir út frá Reykjavík og var Kveldúlfur stærsta útgerðarfélagið. Hlutafé var þá komið upp í tvær milljónir króna sem var gífurlegt fé á þeirra tíma mælikvarða. Árið 1925 var fyrirtækið langhæsti útsvarsgreiðandi í höfuðstaðnum, greiddi 125 þúsund krónur. Togarafélagið Alliance var næsthæsti greiðandinn en aðeins hálfdrættingur á við Kveldúlf, greiddi 65 þúsund krónur. Þetta var sagt um félagið árið 1930: „En jafnframt útgerðinni hefur Kveldúlfur keypt afarmikið af fiski til útflutnings svo að félagið er ekki aðeins mesti útflytjandi landsins heldur sennilega mesti saltfiskútflytjandi í heimi. Að minnsta kosti eru engir útflytjendur honum nándar nærri eins stórir í Noregi...“ Þá voru síldarsöltun og síldarbræðsla stórir þættir í rekstri félagsins. Árið 1926 keypti Kveldúlfur fullkomnustu síldarbræðslustöð á Íslandi, verksmiðjuna Heklu á Hesteyri í Jökulfjörðum. Félagið stundaði síðan síldveiði þaðanmeð togaraflota sínum en keypti einnig síld frá öðrum aðilum. En nú fór brátt að halla undan fæti. Kreppan skall á með öllum sínum þunga árið 1931. Verðfall á útfluttum sjávarafurðum árið 1932 varð um 32 prósent frá meðaltali áranna 1926 til 1928. Allt tímabilið 1930 til 1939 var samfellt skeið tapreksturs togaraútgerðar á Íslandi.

Fiskverkunarhús Kveldúlfs í Skuggahverfinu.        Ljósmyndari óþekktur.
 

Kveldúlfsstöðin við Skúlagötu séð úr lofti um 1930. Hún er fyrir miðri mynd en austan hennar eru saltfiskbreiður félagsins. Einnig má sjá Kveldúlfsbryggju fram af Vatnsstíg. Fyrir vestan Kveldúlf má sjá Timburverslunina Völund og bensínstöðina á Klöpp. (Ljósmyndari óþekktur. Úr bókinni Reykjavík — sögustaður við Sund).

Kreppuárin léku því togaraútgerðina grátt og mörg félög urðu gjaldþrota eða hættu. Thorsbræður voru, auk þess að vera öflugustu útgerðarmenn landsins, mjög fyrirferðamiklir og áberandi í þjóðlífinu. Glæsilegastur varð ferill Ólafs Thors. Hann var kjörinn á þing árið 1926 og varð formaður stærsta stjórnmálaflokksins, Sjálfstæðisflokksins, 1934 og þar með leiðtogi stjórnarandstöðunnar en sama ár mynduðu Framsóknarmenn og Alþýðuflokksmenn „stjórn hinna vinnandi stétta“. Það var því ekki að furða þótt svalir vindar næddu stundum um félagið sem nú var orðið skuldum vafið. Einn af þeim sem réðust harkalega að félaginu í ræðu og riti varJónas frá Hriflu, formaður Framsóknarflokksins. Haustið 1936 var haldið flokksþing Alþýðuflokksins, annars stjórnarflokksins. Hann taldi sig standa höllum fæti vegna uppgangs kommúnista í samfélaginu og óttaðist fylgistap. Ályktanir flokksþingsins voru því í róttækara lagi og m.a. var krafist þjóðnýtingar allrar togaraútgerðar. Kveldúlfur hafði, eins og önnur útgerðarfyrirtæki, fengið mikla lánafyrirgreiðslu hjá bönkum landsins en bankaráðsmenn Framsóknarmanna höfðu forystu um að þrengja mjög lánamöguleika félagsins vegna slæmrar skuldastöðu þess. Það rambaði því á barmi gjaldþrots. Nú bættist við að Alþýðuflokksmenn undir forystu Héðins Valdimarssonar kröfðust þess að Kveldúlfur yrði gerður upp. Þetta var stórpólitískt mál og eitt mesta hitamálið í íslenskum stjórnmálum veturinn 1936 til 1937.
 

Kveldúlfstogari í slippnum í Reykjavík.   Ljósmyndari óþekktur.
 
Sjö Kveldúlfstogarar í röð í Reykjavíkurhöfn. Næst okkur er togarinn Arinbjörn hersir RE 1. Ljósmyndari óþekktur.

Ólafur Thors barðist hins vegar hetjulega fyrir lífi fjölskyldufyrirtækis síns og reyndi að þjappa flokksmönnum sínum að baki sér. Hann var þess fullviss að um pólitískar ofsóknir væri að ræða. Ólafur hélt uppi vörnum fyrir sjálfan sig og fyrirtæki sitt fyrir troðfullu húsi á Varðarfundi í Gamla bíói 24. janúar 1937. Þar rakti hann sögu Kveldúlfs og ræddi opinskátt um fjármál fyrirtækisins og fjölskyldu sinnar. Matthías Johannessen segir í ævisögu Ólafs að þar hafi hann lagt pólitískt líf sitt að veði og ræða hans hafi að margra dómi verið persónulegasta og eftirminnilegasta ræðan á ferli hans. I ræðunni tilkynnti Ólafur að Kveldúlfur mundi bjóða fram fullar tryggingar fyrir öllum skuldum félagsins og þar á meðal allar eigur Thors Jensens, svo sem Korpúlfsstaði og Lágafell. Um miðjan mars 1937 fréttu Alþýðuflokksmenn að bankaráð Landsbankans væri í þann veginn að semja við Kveldúlf um skuldir félagsins en í því sátu m.a. Ólafur Thors sjálfur og Jónas frá Hriflu. Munu Framsóknarmenn hafa óttast hefndarráðstafanir gagnvart S.Í.S seinna, ef að Kveldúlfi yrði gengið, en S.Í.S stóð einnig illa og skuldaði mikið í bankanum. Kveldúlfsmálið varð stjórninni að falli vorið 1937. Haraldur Guðmundsson atvinnumálaráðherra lýsti því yfir á Alþingi að stjórnargrundvöllurinn væri brostinn. Þing var því rofið og boðað til nýrra kosninga. Kveldúlfsmálið hafði líka þær stórpólitísku afleiðingar að Jónas frá Hriflu og Ólafur Thors byrjuðu að nálgast hvorn annan en þeir höfðu verið eins og hundar og kettir jafnan áður.
 

Togarar að landa síld á Stekkeyri og bræðsla í fullum gangi. Ljósmyndari óþekktur.
 
Séð yfir athafnasvæði Stekkeyrarverksmiðjunar. Ljósmyndari óþekktur.
 
Stekkeyri í Jökulfjörðum.
Nú var talað um hægra bros Jónasar. Samvinna þeirra Ólafs varð grundvöllur að þjóðstjórninni 1939. Það voru ekki síst sameiginlegir hagsmunir framleiðenda í kreppu, útgerðarmanna og bænda, sem urðu til þess að sú stjórn var mynduð. Þegar Kveldúlfur hafði staðið af sér hrinuna réðist félagið í það árið 1937 að reisa langstærstu síldarverksmiðju landsins á Hjalteyri og fékk til þess lán í Bretlandi. Engu að síður var fyrirtækið í gjörgæslu Landsbankans allt þar til seinni heimsstyrjöldin braust út. Þá strax haustið 1939 gjörbreyttust aðstæður til hins betra fyrir togaraútgerð í landinu. Verð á ísfiski á Bretlandsmarkaði rauk upp úr öllu valdi og útgerðin byrjaði að raka saman stríðsgróða. Strax árið 1941 var Kveldúlfur búinn að borga upp allar skuldir sínar og allt virtist leika í lyndi. Að vísu var togaraflotinn orðinn ákaflega gamall og úr sér genginn og ekki tök á því að endurnýja hann meðan stríðið stóð yfir. Í upphafi þess átti Kveldúlfur enn sína sjö gömlu togara en árið 1944 voru fjórir þeirra seldir og voru þá aðeins Skallagrímur, Þórólfur og Gyllir enn í eigu félagsins. Er ekki ólíklegt að félagið hafi þá verið að búa sig undir að endurnýja skipin. Ólafur Thors varð forsætisráðherra nýsköpunarstjórnarinnar sem mynduð var 1944 en eitt af meginverkum hennar var að gangast fyrir endurnýjun togaraflotans. Árið 1945 var einkafyrirtækjum gefinn kostur á að eignast nýsköpunartogara. Kveldúlfur átti þá fyrir a.m.k. sex togurum í sjóðum sínum en sótti einungis um að fá einn keyptan. Hins vegar sótti hin nýstofnaða Bæjarútgerð Reykjavíkur um tíu togara. Margir töldu að þeir yrðu allir endurseldir einkafyrirtækjum þegar fram liðu stundir.

 

Kveldúlfstogari á siglingu með nótabátana við síðuna.  Ljósmyndari óþekktur.
 
Togarar að landa síld á Stekkeyri í Jökulfjörðum.  Ljósmyndari óþekktur.
 

Stjórn Kveldúlfs ákvað að fara sér hægt til að byrja með, minnugir þróunarinnar frá því eftir fyrri heimsstyrjöld en þá voru togarar keyptir í óðaverðbólgu en síðan varð verðhjöðnun sem olli því að eigendur þeirra lentu í erfiðleikum með að borga af þeim. Ekki er ólíklegt að Kveldúlfsmenn hafi reiknað dæmið þannig út að margir handhafar nýsköpunartogaranna, svo sem bæjarútgerðir út um allt land, mundu gefast upp og þá væri hægt að fá togarana fyrir slikk. Einnig ákváðu Kveldúlfsmenn að veðja á síldina og reistu síldarverksmiðju í Örfirisey og stækkuðu verksmiðju sína á Hjalteyri. En nú voru þeir jafn óheppnir og þeir höfðu oft verið heppnir áður. Síldin brást fyrir Norðurlandi 1945 og æ síðan. Frá 1949 var auk þess léleg síldveiði í kringum allt land og fór ekki að glæðast fyrr en undir lok sjötta áratugsins. Síldarverksmiðjurnar voru því reknar með miklu tapi og jafnt og þétt dró af Kveldúlfi. Ekkert varð úr frekari togarakaupum. Upp úr 1950 var ekki nema einn togari þeirra í fullum rekstri. Það var nýsköpunartogarinn Egill Skallagrímsson. Árið 1965 var Hjalteyrarverksmiðjan enn rekin en Kveldúlfur ekki orðinn nema svipur hjá sjón miðað við það sem áður hafði verið. Risinn var á brauðfótum og riðaði til falls. Þá varð það að samkomulagi milli Landsbanka Íslands og stjórnar félagsins að skipuð yrði skilanefnd til að slíta félaginu. Hún lauk störfum 1974 en félaginu var þó ekki formlega slitið fyrr en 1977. Eignir nægðu fyrir skuldum en meðal þess sem tekið var upp í skuldirnar voru einbýlishús þeirra bræðra, Richards og Ólafs Thors.

Fiskifréttir. 47 tbl. 15 desember 1995.
Grein eftir Guðjón Friðriksson sagnfræðing.

Flettingar í dag: 1341
Gestir í dag: 228
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 739993
Samtals gestir: 55818
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 11:39:38