31.12.2022 09:41

E.s. Columbus. TFLB.

Flutningaskipið Columbus var smíðað hjá Bergens Mekaniske Verksted í Bergen í Noregi árið 1911 fyrir A/S D/S Commodore Rollins í Bergen í Noregi. Var hleypt af stokkunum hinn 16 febrúar sama ár. Hét fyrst Commodore Rollins. 1.576 brt, 923 nettó. 1.500 ha. 3 þennslu gufuvél, smíðuð hjá Bergen Mekaniske Verksted. 75,99 x 10,52 x 4,61 m. Smíðanúmer 168. Eimskipafélagið Fram (Þorsteinn Þorsteinsson í Þórshamri) í Reykjavík kaupir skipið 28 ágúst árið 1934, fékk þá nafnið Columbus. Skipið var í vöruflutningum milli Íslands og Evrópulanda og flutti bæði stykkjavörur og þungavörur í heilum förmum. Selt 1936, AB Bananfart í Stokkhólmi, Svíþjóð, hét þar Carl Matthiesen. Var í eigu AB Banankompaniet í Stokkhólmi 1941. Selt 1942, AB Diana í Stokkhólmi, hét þá Dido. Selt 1943, Adolf Bratt & Co í Gautaborg í Svíþjóð, hét Hervor Bratt. Selt 1946, Cia. Columbiana de Navegacion Maritima S.A. í Bogota í Kólumbiu, hét þar Medellin. Selt 1950, Cia. Columbiana de Cabotage í Buenaventura í Kólumbíu. Skipið strandaði í Magdalena ánni í Barranquilla í Kólumbíu 25 febrúar árið 1953. Var þá á leið frá Barranquilla til Haiti með sementsfarm. Náðist á flot stuttu síðar en var talið ónýtt. Skipið var selt í brotajárn til Patapsco Scrap Co í Baltimore í Bandaríkjunum og rifið þar í september árið 1953.
 

Flutningaskipið Columbus. Á myndinni er skipið með sitt fyrra nafn, Commodore Rollins.  (C) Steinar Norheim.
 
Columbus undir sínu fyrra nafni, Commodore Rollins.  Ljósmyndari óþekktur.



                                               Nýtt skip

Nýstofnað hlutafjelag með um 100 þús. kr. hlutafje hefir keypt flutningaskip frá Noregi svipað og skipið Katla. Er skipið bygt 1911 í Bergen, er 523 netto tonn. Innborgað hlutafje er um 100 þús. kr. Framkvæmdastjóri fjelagsins er Þorsteinn Þorsteinsson í Þórshamri. En skipstjóri er Árni Gunnlaugsson frá Akranesi. Hann hefir áður verið í förum um Miðjarðarhaf. Skipið heitir Columbus, fjekk mikla viðgerð í Noregi, var klassað í aðalklassa til 4 ára, og miklar berytingar á því gerðar. Skipið fer ljettilega 11 mílur á vakt og eyðir 10—12 tonnum á sólarhring. Skipshöfnin á hluti í hlutafjelaginu.

Morgunblaðið. 19 ágúst 1934.
 

Hervor Bratt.                                                                    Ljósmyndari óþekktur.
 
Málverk af Columbus.                                             Málari óþekktur.



                 Columbus seldur til Svíþjóðar
               Skipið fer utan í dag

Nú mun hafa verið ákveðið, að flutningaskipið Columbus verði selt til Stokkhólms. Skip þetta er 2100 tonn að stærð og var keypt 1934, og eftir að gert hafði verið við það, kom það hingað 1 ágúst sama ár. Mun kaupverð þess, ásamt viðgerð, hafa numið um 200 þús. kr. Síðan var Columbus haldið út til flutninga til Miðjarðarhafslandanna og reyndist vel. Síðan snemma í febrúar í vetur hefir skipið legið inni í Kleppsvík, en var tekið þaðan í gær til að búa það til brottsiglingar til Gautaborgar og mun það leggja af stað þangað í dag. Með skipið fer utan 14 manna íslenzk skipshöfn og einn sænskur maður í umboði kaupanda.

Nýja Dagblaðið. 10 júní 1936.

Flettingar í dag: 1982
Gestir í dag: 267
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 740634
Samtals gestir: 55857
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 17:40:38