03.01.2023 06:17

Þýskbyggðu 1000 tonna togararnir.

Það má segja það um þessa stóru síðutogara að þeir voru afburða góð sjóskip hvert og eitt þeirra. Þau voru smíðuð hjá A.G. Weser Werk Seebeck í Bremerhaven í Þýskalandi á árunum 1959-60. Voru smíðuð með það fyrir augum að stunda veiðar á fjarlægum miðum, þá aðallega við Nýfundnaland. En þegar til átti að taka, brugðust veiðarnar við Nýfundnaland. Þessi stóru og miklu skip gripu þá nánast í tómt, karfastofninn var að hruni kominn stuttu eftir 1960, og þar var um að kenna gengdarlausri ofveiði síðustu ára. Og ekki var það björgugt ástandið á Íslandsmiðum, gengdarlaus ofveiði útlendinga og okkar Íslendinga sjálfra líka. Það fór svo líka að einn þeirra, Freyr RE 1 var seldur úr landi 4 september 1963. Var það Ross Trawlers Ltd í Grimsby sem keypti hann, fékk hann þá nafnið Ross Revenge GY 718. Síðar varð hann svo alræmdur landhelgisbrjótur á Íslandsmiðum. Árið 1979 var hann seldur útvarpsstöðinni Radio Caroline og rekin sem útvarpsstöð úti fyrir ströndum Bretlands frá 1983 til 1991. Maí GK 346 var einnig seld úr landi, til Noregs árið 1977. Sigurður ÍS 33, síðar RE 4 og síðast VE 15, var breitt í nótaveiðiskip. Það var einnig gert við Víking AK 100. Þessi tvö skip skiluðu gífurlegum gjaldeyristekjum í þjóðarbúið. Þegar þessir togarar voru smíðaðir í Þýskalandi, voru aðrar þjóðir byrjaðar að láta smíða skuttogara fyrir sig sem þóttu mun hentugri skip, með tvö þilför og öll vinna við fiskinn unnin á lokuðu þilfari (millidekki). Það skapaðist umræða hér á landi á þessum tíma, hvort hyggilegra hefði ekki verið að smíða skuttogara fyrir íslendinga. Þegar Narfi RE 13 var smíðaður í Rendsburg árið 1959-60, vildi Guðmundur Jörundsson útgerðarmaður að hann yrði skuttogari, en fékk þau svör frá "kerfinu" að Íslendingar hefðu "ekki efni á experimentum" og þar við sat í rúman áratug.
 

B.v. Freyr RE 1. Eigandi var Ísbjörninn hf (Ingvar Vilhjálmsson) í Reykjavík. Seldur til Grimsby 1963. (C) Tryggvi Sigurðsson.




                                 Nýr 1000 lesta togari

Nýr 1000 tonna Dieseltogari bættist við togaraflota Íslendinga hinn 24. ágúst s.l. er togarinn „Freyr", RE 1, sem Ísbjörninn hf. í Reykjavík (Ingvar Vilhjálmsson) hefur látið smíða hjá A.G. „Weser" Werk Seebeck, Bremerhaven og afhentur var til kaupanda í Bremerhaven þ. 19. þ. m., lagðist að bryggju í Reykjavík. Bv. „Freyr" er fyrsti togarinn af fjórum, sem samið var um smíði á, en það var gert á síðastliðnu sumri. Aðalmál á bv. „Frey" eru: Lengd 210 fet. Breidd 33 fet, 9 tommur. Dýpt 18 fet. Brúttó Reg. tonn 987. Nettó reg. tonn 341. Lestarstærð 760 kúbik metrar, (alúminíum), eða fyrir ca 500 tonn af fiski. Slorgeymar fyrir 50 tonn. Lifrargeymar fyrir 40 tonn. Aðalvélin er „WERKSPOOR" Dieselvél, 2300 hestöfl við 280 sn. Vélin er tengd við skiftiskrúfu af „Escher-Wyss"- gerð, en tengingin er svokölluð „Wulcan Kupplung". Í stjórnkassa í stýrishúsi, þar sem mörg stjórntæki hafa verið sambyggð, er hægt að stjórna skiftiskrúfunni og einnig þaðan hægt að tengja skrúfuna frá aðalvélinni, sem án efa er til mikils öryggis þegar verið er að veiðum. Framan við aðalvélina er tengdur tvöfaldur rafall (fyrir togvindu og fyrir ljósnet), sem gerir mögulegt að hægt er að nota aðalvélina eina, bæði við togveiðar og á keyrslu. Hjálparvélar eru tvær: 120 KW, 200 hö. Deutz og 30 KW 70 hö. M.W.M. Stýrisvélin er af Atlas-gerð, rafmagnsvökvadrifin, með tvöföldu drifkerfi. Togvindan er af Achgeli-gerð, rafmagnsdrifin, 280 hö. Hún er gerð fyrir 1200 faðma af 3y2 tommu vír og útbúin loftbremsum, sem stjórnað er frá stýrishúsi. Önnur tæki í skipinu eru: Radar af Kelvin Hughes gerð, sem dregur 50 mílur. Djúpmælir af Kelvin Hughes gerð. Djúpmælir af Atlas gerð með fisksjá. Djúpmælir fyrir togvörpu (Netsonde) af Atlas gerð. Attaviti af Arkas gerð (Danmörku) með sjálfstýringu. Áttaviti frá John Lilley & Gilley, Englandi. Loftskeytastöðin er frá M. P. Petersen, Danmörku. Lorantæki frá Landssíma Islands. Sími og kallkerfi er u,m allt skipið, einnig hátalarar í hverju herbergi. íbúðir skipverja eru bæði fram í og aftur í skipinu, en fjögur herbergi eru ofanþilja miðskipa fyrir yfirmenn, en þar er einnig sjúkraherbergi.
Alls eru íbúðir fyrir 48 menn og eru hvergi fleiri en fjórir menn í herbergi. Þá er í skipinu mjög rúmgóður matsalur, sameiginlegur fyrir alla skipverja. Eldhús er með rafmagnseldavél og fullkomnum búnaði, stórt búr og tveir kæliklefar m. m. Einn björgunarbátur fyrir 48 menn er á miðju bátaþilfari undir krana-davíðu, en auk þess eru sex 12 manna gúmmibjörgunarbátar á skipinu. Skipið er útbúið með toggálgum beggja megin, frammastri með rörstögum og léttu afturmastri, sem komið er fyrir á stýrishúsi, fyrir framan reykháf. Á yfirbyggingunni, sem er þrjár hæðir, er komið fyrir framan á brúnni tveimur smágálgum, samkvæmt fyrirsögn skipstjórans. Skipið hefur framhallandi perulagað stefni, sem sett hefur verið á bæði enska og þýzka togara undanfarin ár með góðum árangri. Allur er frágangur skipsins hinn vandaðasti og fullkominn. Reynsluferð var farin þ. 19. þ. m. og reyndist hraðinn vera 16.1 sjómíla. Skipið kostar DKr. 4.387.000.00. Eins og sjá má af ofanskráðu er skipið búið ýmsum áður óþekktum nýjungum, og hefur Ingvar Vilhjálmsson sjálfur haft forgöngu um sumar þeirra. Má t. d. nefna slorgeyminn og djúpmælinn fyrir togvörpuna. Þá má nefna, að lifrarbræðsla er ekki í skipinu, heldur lifrargeymar, og er talið að þessu mikið hagræði. Í lest skipsins er sérstakt rými, aðskilið, ef óskað er, sem ætlað er fyrir fyrsta fiskinn, sem veiðist í hverri sjóferð; kemur þetta sér sérstaklega vel í tregfiski. Skipstjóri á skipinu er Guðni Sigurðsson, stýrimaður Guðmundur Guðlaugsson, 1. vélstjóri Aðalsteinn Jónsson. Samningar um smíði skipsins voru undirritaðir af Ingvari Vilhjálmssyni útgerðarmanni í ágúst s.l. ár, en eftirlit með verklýsingu og samningum höfðu þeir Hjálmar Bárðarson, skipaskoðunarstjóri og Erlingur Þorkelsson, vélfræðingur.

Ægir. 15 tbl. 1 september 1960.
 

B.v. Maí GK 346. Eigandi var Bæjarútgerð Hafnarfjarðar hf. Seldur til Noregs 1977. Mynd úr safni mínu.




                               Botnvörpungurinn Maí
 Hinn nýi togari Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar

Maí er 982 tonn og hinn stærsti togari, sem Íslendingar hafa eignazt til þessa. Lengd er 210 fet. Breidd 34 fet. Dýpt 17 fet. Allar vélar og hjálparvélar í skipinu eru MAN-vélar frá Maschienenfabrik Augsburg-Nurnberg A. G. í Þýzkalandi. Aðalaflvél er 2280 hestöfl. Maí er fyrsti íslenzki togarinn með fullkomna skiptiskrúfu, þannig að vélin er alltaf látin ganga eins, hvort sem skipið er keyrt áfram eða afturábak. Með skurði á skrúfunni má ákveða, hvort skipið er keyrt áfram eða afturábak, og má því nota hagkvæmasta snúningshraða vélar hverju sinni, og skiptir það sérstaklega miklu máli, ef um krítiskan snúningshraða er að ræða. Ljósavélar eru þrjár. Tvær 185 hestöfl hvor og ein 40 hestöfl, til notkunar, þegar skipið liggur við landfestar. MAN-vélar hafa þann kost að nota má ódýrari olíur en á venjulegar dieselvélar. Togvindumótor er 227 kílówött. Í Maí er Sal-log hraðamælir af nýrri gerð og með tæki, er honum fylgir, má kanna fiskmagn í vörpunni hverju sinni. Tveir Decca radarar eru í skipinu, annar með sendiorku 45 kílówött, en hinn 20 kw., en draga hvor 48 mílur. Ný gerð er af Sperry-lóran.
Í stað þess að eftir eldri gerð lóran þurfti margvíslega útreikninga við staðarákvörðun, reiknast staðarákvörðun út sjálfkrafa eftir hinni nýju gerð. Loftskeytatæki eru frá Telefunken í Þýzkalandi og m. a. er stuttbylgjustöð, sem gerir fært að tala megi frá Nýfundnalandi til Þýzkalands. Kallkerfi er komið fyrir á tólf stöðum í skipinu af svonefndri intercom gerð frá Marconi. Gíróáttaviti og sjálfstýring er í skipinu. Í Maí eru tæki til þess að dæla 70— 80 gráða heitum sjó frá fjórum stöðum í skipinu, ef um ísingu er að ræða. Þá er alger nýjung, að í framsiglu er komið fyrir rafmagnshitun, er nota má, ef ísing sezt á siglutréð, og getur hún brætt allan klaka af á örstuttum tíma. Fiskleitartæki eru af Kelvin Hughés gerð. Perulag er á stefni, sem á að auka ganghraða og draga úr veltingi miðað við fyrri gerð stefna. Lestar eru 27 þúsund kúbikfet, aluminíumklæddar, og eiga að rúma 500—550 tonn af fiski. Sérstakur góðfiskklefi er ofanþilfars, sem rúmar 5—10 tonn. Skipstjóri á Maí er Benedikt Ögmundsson.

Ægir. 10 tbl. 1 júní 1960.
 

B.v. Sigurður ÍS 33. Eigandi var Ísfell hf á Flateyri.    (C) Kjartan Traustason.




                                           B.v. Sigurður

Nýr togari, Sigurður, ÍS 33, bættist í flotann í september s.l. Togarinn er smíðaður hjá skipasmíðastöðinni A. G. „Weser" Werk Seebeck, Bremerhaven, en samið var um smíðina í ágúst 1959. Smíði skipsins hófst 17. febrúar s.l. og lauk 20. september, og var skipið þá afhent kaupanda, sem er Ísfell h.f. B.v. Sigurður er fimmti togarinn, sem Seebeck werft smíðar fyrir Íslendinga síðan 1954. Hinir eru Júpiter áður (Gerpir), 804 br. lestir, Þormóður goði, 849 br. lestir, Maí, 982 br. lestir og Freyr, 987 br. lestir. B.v. Sigurður er 987 br. lestir, lengd skipsins er 210 fet. Lestin er 760 rúmmetrar, öll klædd aluminíum og með kælibúnaði, og rúmar 500 lestir af ísfiski. Engin lifrarbræðslutæki eru ískipinu, en hins vegar geymir fyrir 40 lestir af lifur, og er ætlunin að dæla lifrinni í land. Ennfremur er geymir fyrir 50 lestir af slori, sem gert er ráð fyrir að losa á sama hátt. Aðalvélin er Werkspoor-Dieselvél, 2300 hestöfl við 280 snúninga. Vélin er með skiptiskrúfu af „Escher Wyss"-gerð, er tengingin svokölluð -Wulkan Kupplung". Skiptiskrúfunni er hægt að stjórna frá stýrishúsi og einnig þaðan er hægt að taka skrúfuna úr sambandi við aðalvélina. Við hana er tengdur stór rafall og þarf ekki að nota hjálparvélar til rafmagnsframleiðslu, hvorki fyrir togvindu né fyrir Ijósnet, þegar verið er á siglingu eða að veiðum. Hjálparvélar eru tvær 200 ha. Deutz með 120 Kw rafal og ein 70 ha. með 30 Kw. rafal.
Kælivélar eru tvær af Atlas-gerð. Stýrisvél er af Atlas-gerð, rafmagnsvökvadrifin með tvöföldu kerfi. Togvindan er af Achgehles-gerð, rafmagnsdrifin, 280 ha., útbúin með lofthemlum og tvöföldu vírastýri. Íbúðir eru allar mjög vandaðar, mest fjögurra manna herbergi, en mörg eins og tveggja manna herbergi, einnig sjúkraherbergi miðskips. Alls eru íbúðir fyrir 48 menn í skipinu. Björgunarbátur er fyrir 48 menn. Stendur hann undir vinduglu og getur einn maður hæglega komið honum fyrir borð. Sex gúmmíbjörgunarbátar eru fyrir 72 menn. Skipið er útbúið með toggálgum beggja megin, eins og venjulega er á íslenzkum togurum, en komið hefur fyrir á þeim sérstökum rúllum til að auðvelda að taka inn bobbingana. Frammastrið er með rörstöngum, en ekki venjulegum vöntum. Afturmastrið er lítið og létt og komið fyrir ofan á stýrishúsinu. Yfirbyggingin er þrjár hæðir. Ofan á stýrishúsinu beggja megin eru smágálgar. Stefni skipsins er framhallandi perlulagað. Allur er frágangur hinn vandaðasti og mjög fullkominn. Í reynsluferð fór Sigurður 16,58 sjómílur. Skipstjóri er Pétur Jóhannsson, stýrimaður Jón Óli M. Gíslason og 1. vélstjóri Sumarliði Mosdal.

Sjómannablaðið Víkingur. 10 tbl. 1 október 1960.
 

B.v. Víkingur AK 100. Eigandi var Síldar og fiskimjölsverksmiðja Akraness hf. Úr safni Haraldar Bjarnasonar.




          Nýr 1000 lesta togari kom í gær til Akraness

Akranesi, 21. október. Togarinn Víkingur kom hér í heimahöfn sína kl. 2,30 e. h. í dag. Lagðist Víkingur að hafnargarðinum. Þar hafði safnazt fjöldi manns, til þess að fagna komu skipsins. Akraborg var stödd við hafnargarðinn og blés ákaft. Jón Árnason flutti ræðu af brúarvæng og á eftir honum, bæjarstjóri Akraness, Hálfdán Sveinsson. Síðast talaði sóknarprestururínn, sr. Jón M. Guðjónsson og blessaði áhöfnina og hið nýja skip. Á eftir var fólkinu boðið að skoða skipið og var svo margt um manninn að þröng var um borð. Víkingur fer suður til Reykjavíkur í kvöld.
Víkingur er smíðaður hjá AG. Weser Verk. Hann er tæpar 1000 brúttólestir með þriggja hæða yfirbyggingu. Lestin er klædd aluminium, búin kælitækjum og rúmar 500 lestir af ísfiski. Geymar eru fyrir lifur og slor. Siglingar og fiskileitartæki eru af fullkomnustu gerð. Vistarverur prýðilega gerðar Þetta eru 2—4 manna káetur og baðherbergi fyrir 32 menn, auk þeirra sem yfirmönnum eru ætlaðar. Víkingur gekk á heimleiðinni til jafnaðar 14,5 sjómílur og var 85 ½  klst. frá Bremerhaven eða rúmlega 3 ½  sólarhring. Skipstjóri er Hans Sigurjónsson.

Morgunblaðið. 22 október 1960.
 

Freyr og Sigurður komnir á flot hjá Weser Werk Seebeck.  (C) Kjartan Traustason.

Tveimur þeirra gefið nafn, sennilega Freyr og Sigurður. Sjá má í Maí sem ber í skut annars þeirra. (C) Kjartan Traustason.




             Tveir nýir togarar munu koma í vor
                      Þrír koma í haust

Íslendingar eiga um þessar mundir fimm togara í smíðum í Vestur-Þýzkalandi. Tveir þessara togara eru væntanlegir í apríl-maí, en hinir þrír eru væntanlegir seint í sumar eða í haust. Um miðjan þennan mánuð verður fyrsti togarinn flotsettur, er það togari Guðmundar Jörundssonar útgerðarmanns. Er þetta 1000 lesta togari. Er hann væntanlegur hingað í apríl mánuði og jafnvel fyrr ef vel gengur. Togarinn verður gerður út frá Reykjavík en Guðmundur Jörundsson er að flytja til Reykjavíkur og hefur tekið frystihús SÍS á Kirkjusandi á leigu. Næsti togarinn kemur í maí en þá er nýr togari væntanleg ur til Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. Hann verður 1000 brúttólestir að stærð og af fullkomnustu gerð. Kjölur verður lagður að togaranum um miðjan janúar og honum verður hleypt af stokkunum seint í marzmánuði. Gert er ráð fyrir að togarinn muni kosta um 24 milljónir króna, miðað við núverandi verðlag. Hann verður væntanlega afhentur eigendum seint í apríl. Hinir þrír togararnir eru væntanlegir seint næsta sumar eða í haust. Eru það togarar, er Einar Sigurðsson, Ingvar Vil hjálmsson og Haraldur Böðvarsson & Co. eiga von á. Hafnarfjarðartogarinn og þessir þrír síðast nefndu togarar eru allir smíðaðir í Bremerhaven. Geta má þess, að lokum, að það var ríkisstjórn Alþýðuflokksins er kom því til leiðar að unnt var að smíða hina nýju togara.

Alþýðublaðið. 8 janúar 1960.

Flettingar í dag: 2600
Gestir í dag: 147
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 744359
Samtals gestir: 56053
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 21:42:00