15.01.2023 08:17

S.t. James Long H 141 í Hafnarfjarðarhöfn.

Hellyerstogarinn James Long H 141 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby í Englandi árið 1919 fyrir Hellyer Bros Ltd í Hull. 326 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél, smíðuð hjá C.D. Holmes & Co Ltd í Hull. 42,2 x 7,2 x 3,9 m. Togarinn fórst með allri áhöfn, 13 mönnum, hinn 18 febrúar árið 1933 er hann var á heimleið af Íslandsmiðum til Englands.
Eftir að Booklessbræður urðu gjaldþrota árið 1922, skapaðist mikið atvinnuleysi í Hafnarfirði. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar beitti sér fyrir því að erlent fyrirtæki gæti keypt eða leigt þá aðstöðu sem Booklessbræður höfðu átt. Var það gert í samráði við stjórnvöld. Úr varð að árið 1924, komu Hellyersbræður til Hafnarfjarðar og gerðu út þaðan nokkra af togurum sínum á árunum 1924-29. Lesa má um það í greininni hér að neðan. James Long var einn af þeim togurum sem gerðir voru út frá Hafnarfirði um einhvern tíma á þessum árum, en aðrir voru m.a. Imperialist H 143, General Birdwood H 121, Fieldmarshal Robertson H 104 (fórst í Halaveðrinu 7-8 feb. 1925), Ceresio H 447, Dane H 227 og Earl Haig H 87, svo einhverjir séu nefndir. Þetta varð mikil lyftistöng fyrir atvinnulífið í Hafnarfirði á þessum árum rétt fyrir heimskreppuna miklu árið 1929.
 

Hellyerstogarinn James Long við bryggju í Hafnarfirði, sennilega árið 1925. Hluti af stærri mynd.



        Þrír erlendir botnvörpungar taldir af

Slysavarnarfélagi Íslands hafa borist tilmæli um það erlendis frá, að skip við Ísland gefi til kynna, ef þau verði vör við þessa botnvörpunga, sem ekki hefir frézt frá um skeið:
1. James Long, frá Hull. Fór þaðan 29. jan. Mælt er, að skip þetta hafi sézt við Látrabjarg snemma í febrúar, en fullvíst er það þó ekki.
2. Westbank, frá Wesermunde. Sást seinast 2. febrúar að veiðum undan Snæfellsjökli.
3. Meleor, frá Wesermunde. Fór þaðan 1. febrúar. Miklar líkur eru til, að öll þessi skip hafi farist. Á hverju þeirra mun hafa verið 12—14 manna áhöfn. Af togaranum Westbank, rak bjarghring o. fl. í Hvassahrauni á Vatnsleysuströnd.

Ægir. 3 tbl. 1 mars 1933.
 

Hafnarfjörður upp úr aldamótunum 1900.    Ljósmyndari óþekktur.
 
Fjórir togarar og flutningaskip við bryggju í Hafnarfirði. Greinilega aukin umsvif við höfnina og verið að stækka bryggjuna. Ekki veitti af með komu togara Hellyersbræðra. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


              Erlent fjármagn í Hafnarfirði


Hafnarfjörður kemur víða við sögu togaraútgerðar á Íslandi. Fyrsti íslenski togarinn, Coot, var gerður þaðan út og Pike Ward gerði út togarann sinn, Utopiu, frá Hafnarfirði. Seinna má segja að Hafnarfjörður verði aðalmiðstöð fyrir erlenda togaraútgerð á Íslandi. Ber þar fyrst að nefna Booklessbræður frá Aberdeen. Þeir keyptu fiskaðgerðarstöð í Hafnarfirði árið 1910 og höfðu þaðan meiri og minni útgerð og annan atvinnurekstur til ársins 1922. Um tíma áttu þeir fjóra togara sem stunduðu veiðar frá Hafnarfirði. Þá keyptu þeir fisk af togurum, bæði breskum og hollenskum. Einnig hafði fyrirtækið A.D. Birrel & Co. keypt fiskverkunarstöð í Hafnarfirði og lögðu togarar upp hjá því á árunum 1910-14. Fleiri erlendir togarar bæði norskir og þýskir lögðu upp afla sinn í Hafnarfirði um þetta leyti. Hafnfirðingar höfðu mikla atvinnu af þessari starfsemi en skjótt skipast veður í lofti. Á árunum 1922 og 1923 var mikið atvinnuleysi í Hafnarfirði. Booklessbræður höfðu orðið gjaldþrota 1922 og ný lög, sem samþykkt voru sama ár á Alþingi, komu í veg fyrir að aðrir erlendir útgerðarmenn gætu hlaupið í skarðið. Í lögunum var lagt bann við því að útlend skip lönduðu afla sínum á íslandi og seldu hann íslenskum ríkisborgurum til verkunar.
Þessi lög voru sett til að hindra síldveiðar Norðmanna fyrir Norðurlandi en þau giltu einnig um þorskveiðar. Þetta kom sér einkum illa fyrir Hafnfirðinga. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar beitti sér nú fyrir því að undanþága fengist frá þessum lögum til þess að annað erlent fyrirtæki gæti keypt þá aðstöðu sem Booklessbræður höfðu áður. Hér var á ferðinni útgerðarfyrirtækið Hellyer Bros. Ltd. í Hull. Í samráði við stjórnvöld var sú leið farin að Geir Zoega var fenginn til að taka togara Hellyersbræðra á leigu og taldist það ekki brjóta í bága við ákvæði laganna. Hellyersbræður hófu útgerð sex togara frá Hafnarfirði á vetrarvertíð 1924. Ári síðar fékk fyrirtækið sérstaka lagaheimild til að reka útgerð sína í Hafnarfirði sem sjálfstætt fyrirtæki um átta ára skeið. Fyrstu vertíðina voru enskir skipstjórar á togurum Hellyers en síðan voru fiskiskipstjórarnir íslenskir. Á togurunum voru enskir flaggskipstjórar sem voru leppar því íslensku fiskiskipstjórarnir höfðu ekki ensk skipstjórnarréttindi. Einnig voru enskir stýrimenn á togurunum sem leppar. Þessir menn stunduðu ekki vinnu um borð en voru þarna aðeins til að fullnægja formsatriðum. Meðal þeirra togara sem Hellyersbræður gerðu út frá Hafnarfirði var stærsti og fullkomnasti togarinn í eigu Englendinga á þessum tíma, Imperialist, og var Tryggvi Ófeigsson skipstjóri á honum. Tryggvi stofnaði síðan eigin útgerð eftir að Hellyersbræður fóru héðan. Tryggvi ber Hellyersbræðrum vel söguna í ævisögu sinni og segir að þeir hafi verið bjargvættir Hafnarfjarðar. Hellyerbræður hættu útgerð sinni frá Hafnarfirði í nóvember 1929. Síðustu árin hafði orðið taprekstur á fyrirtækinu. Einnig átti það í vinnudeilum hér heima og ágreiningur kom upp við Hafnarfjarðarbæ um útsvarsgreiðslur.


Hluti af grein um erlent fjármagn í íslenskri togaraútgerð
eftir Kjartan Stefánsson.
Fiskifréttir. 47-48 tbl. 14 desember 1990.

Flettingar í dag: 2412
Gestir í dag: 143
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 744171
Samtals gestir: 56049
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 20:36:34