22.01.2023 10:52

2279. Lómur HF 177. TFUZ.

Skuttogarinn Lómur HF 177 var smíðaður hjá Hjörungavaag Verksted A/S í Hjörungarvaag í Noregi árið 1988 fyrir Godhavn Havfiskeri A/S í Godhavn í Grænlandi. Hét fyrst Qaqqaliaq GR 14- 69. 373 brl. 1.325 ha. Wartsilä 6R22MD, 975 Kw. 40,65 x 9,60 x 6,85 m. Smíðanúmer 46. Það var samnefnt hlutafélag, Lómur hf. (Guðmundur Svavarsson útgerðarmaður) í Hafnarfirði, sem keypti togarann frá Grænlandi. Kom hann í fyrsta sinn til heimahafnar, Hafnarfjarðar 21 febrúar 1997. Árið 1999 var togarinn skráður í Lettlandi, (Lómur EK.). Seldur 8 september árið 1999, Royal Greenland Seafood í Nuuk í Grænlandi, heitir þar Lómur GR 6-308 og mun vera ennþá í drift hjá frændum okkar Grænlendingum.
 

2279. Lómur HF 177 á siglingu.                               (C) Snorri Snorrason.



                                             Lómur HF 177

Nýr rœkjutogari með frystibúnaði, m/s Lómur HF 177, bœttist við flota Hafnfirðinga þann 21. febrúar s.l., en þann dag kom skipið í fyrsta sinn til heimahafnar. Skip þetta, sem upphaflega hét Qaqqaliaq, er smíðað árið 1988 fyrir Grœnlendinga hjá Hjörungavaag Verksted í Noregi og ber það smíðanúmer S-46 hjá stöðinni. Hönnun skipsins var í höndum Nordvestconsult A/S, Álesund í Noregi. Hinn nýi Lómur HF 177 (2279) kemur í stað Lóms HF 177 (1608), 295 rúmlesta skuttogveiðiskips, sem smíðað var í Bretlandi árið 1974. Þessa dagana vinnur útgerðin að því að afla sér skips til úreldingar á móti hinu nýja skipi.
Munur á rúmtölum gamla og nýja skipsins er 292 m3 . Eftir að skipið kom til landsins hefur verið unnið að ákveðnum breytingum á því, sem einkum felast í nýrri uppröðun tækja í brú, uppsetningu á viðbótartækjum í brú, ásamt uppsetningu á bakstroffuvindum og fleiru. Skipið er smíðað úr stáli samkvæmt reglum og undir eftirliti Det Norske Veritas í flokki 1A1, Stern Trawler, IceC MV. Skipið er skuttogari með tvö heil þilför milli stafna, ísbrjótarastefni, skutrennu upp á efra þilfar, hvalbak á fremri hluta efra þilfars og brú á miðju efra bakkaþilfari. Undir neðra þilfari er skipinu skipt með þremur vatnsþéttum þverskipsþilum í eftirtalin rými, talið framan frá: Stafnhylki fyrir sjókjölfestu, hágeyma fyrir brennsluolíu, tvískipta fiskilest með botngeymum fyrir brennsluolíu, vélarúm með botngeymum fyrir ferskvatn í síðum, og aftast skutgeyma fyrir brennsluolíu, ásamt set- og daggeymum.
Fremst á neðra þilfari er geymsla (með aðgangi frá efra þilfari) ásamt keðjukössum, en þar fyrir aftan eru íbúðir og umbúðageymsla, sem fremst ná yfir breidd skipsins, en aftan til meðfram bakborðssíðu. Aftan við íbúðir og til hliðar er vinnuþilfar (fiskvinnslurými) með fiskmóttöku aftast. Aftast á neðra þilfari, bakborðsmegin, er hjálparvélarými, stigahús og vélarreisn, stjórnborðsmegin er verkstæði, vélarreisn, og stýrisvélarrými fyrir miðju. Framan til á efra þilfari, stjórn- og bakborðsmegin, eru þilfarshús. Í milli þeirra eru bobbingarennur, sem ná fram að stefni. Í umræddum þilfarshúsum eru íbúðir, en í afturhluta stjórnborðsþilfarshúss er netageymsla en þar fyrir aftan er dælurými. Einnig er dælurými aftast í b.b. þilfarshúsi. Aftan til á efra þilfari eru skorsteins- og stigahús. Vörpurenna kemur í framhaldi af skutrennu og greinist hún í tvær bobbingarennur, sem liggja í gangi og ná fram að stefni. Yfir afturbrún skutrennu er toggálgi. Togblakkir hanga í vökvaknúnum ísgálgum, en yfir frambrún skutrennu er pokamastur, sem gengur niður í skorsteins- og stigahús.
Yfir þilfarshúsum og bobbingagangi er hvalbaksþilfar (bakkaþilfar), sem þekur um 70% af lengd skips, en aftast er bakkaþilfar framlengt meðfram síðum aftur að pokamastri. Brú skipsins er á miðju efra bakkaþilfari. Aftan við brú er hífingamastur (gilsamastur). Ratsjár- og ljósamastur er á brúarþaki. Bakkaþilfarið fyrir framan brú er yfirbyggt, en í því rými eru ankerisvindur.
Mesta lengd 40,65 m
Lengd milli lóðlína 34,30 m
Breidd (mótuð) 9,60 m
Dýpt að efra þilfari 6,83 m
Dýpt að neðra þilfari 4,43 m
Lestarrými 350 m3
Brennsluolíugeymar (með daggeymum) 157,0 m3
Ferskvatnsgeymar 15,0 m3
Brúttótonnatala 735 BT
Rúmtala 1459 m3
Skipaskrárnúmer 2279.

Ægir. 3 tbl. 1 mars 1997.
 

Fyrirkomulagsteikning af Lómi GK 177.  Ægir. 1 mars 1997.
 
Grænlenski togarinn Lómur GR 6-308 frá Nuuk.      (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.



                   Lómur HF 177
           endurbættur í Lettlandi

Hafnarfjarðartogarinn Lómur kom nýverið til landsins eftir viðamiklar endurbœtur í Lettlandi. Togaranum hefur verið breytt á þann hátt að hann getur nú togað með tveimur trollum samtímis. Heildarkostnaður við breytingarnar nam um 80 milljónum króna og er Lómur nú farinn til rœkjuveiða á Flœmingjagrunni. Lómur er gerður út af samnefndri útgerð í Hafnarfirði sem er í eigu Guðmundar Svavarssonar, útgarðarmanns. Skipstjóri á Lómi er Magnús Þorsteinsson, Páll Kristjánsson er fyrsti stýrimaður og Stefán Rafn Jónsson, yfirvélstjóri. Skipið hefur nú verið skráð í Lettlandi og fær þannig rússneska veiðidaga til veiða á Flæmska hattinum.

Ægir. 5 tbl. 1 maí 1999.

Flettingar í dag: 1192
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 742951
Samtals gestir: 55980
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 08:00:41