29.01.2023 06:09

265. Aðalbjörg RE 5.

Vélbáturinn Aðalbjörg RE 5 var smíðaður í Skipasmíðastöð Reykjavíkur eftir teikningu Bárðar G Tómassonar árið 1935 fyrir þá feðga Sigurð Þorsteinsson og Einar Sigurðsson skipstjóra í Reykjavík. Eik. 22 brl. 80 ha. Völund vél. 14,50 x 4,24 x 1,72 m. Frá 20 desember 1940 voru Einar Sigurðsson, Jón Sigurðsson og Gróa Þórðardóttir í Reykjavík eigendur bátsins. Einar var fenginn til að stjórna björgunaraðgerðum ásamt breska setuliðinu út í Viðey þegar Kanadíski tundurspillirinn Skeena strandaði þar í aftakaveðri 25 október árið 1944. Einar var búinn að fara á Aðalbjörginni að beiðni bretanna að leita af strandstað skipsins og fann það við norðvestur enda Viðeyjar. Ekki var viðlit að reyna björgun frá sjó vegna veðurs og var því snúið við til hafnar og farið á prömmum til Viðeyjar. Sagt var að Einar hafi staðið í sjó upp í mitti alla nóttina við björgun skipverjanna. Hann hefur verið seigur kallinn. Náðu þeir að bjarga 198 sjóliðum á land við hinar verstu aðstæður, en 15 fórust. Ein allra mesta björgun hér við land fyrr og síðar. Það má teljast kraftaverk að ekki fórust fleiri en 15 sjóliðar af Skeena. Einar var sæmdur heiðursorðunni „Member of the British Empire“ fyrir þetta mikla björgunarafrek. Ekki í fyrsta skipti sem Einar bjargar skipi í hafsnauð. Það var 22 nóvember 1935 að upp kom eldur í vélbátnum Frans GK 138 frá Keflavík. Var báturinn á dragnótaveiðum í Garðssjó. Einar og skipshöfn hans á Aðalbjörgu, dró bátinn til hafnar í Keflavík þar sem slökkvilið Keflavíkur réði niðurlögum eldsins. Ný vél (1947) 115 ha. Caterpillar vél. Árið 1950-51 var Einar Sigurðsson einn eigandi bátsins. Árið 1955 var nýtt og stærra stýrishús sett á bátinn. Aðalbjörg var lengd hjá Þorgeiri & Ellert á Akranesi árið 1960, mældist þá 30 brl. 18,76 m á lengd. Ný vél (1971) 232 ha. Scania vél. Frá 11 september 1972, bar báturinn skráningarnúmerið SH 215, en 16 janúar 1973 er Aðalbjörg komin aftur með númerið RE 5, sami eigandi og áður. Seldur 24 september 1974, Stefáni Einarssyni og Kára Snorrasyni á Blönduósi og Guðbjarti Einarssyni í Reykjavík, hét þá Aðalbjörg HU 25. Frá 3 ágúst 1976 voru Stefán Einarsson á Seltjarnarnesi og Guðbjartur Einarsson í Reykjavík eigendur bátsins. Ný vél (1976) 270 ha. Scania vél. Báturinn var talin ónýtur og tekin af skrá 4 nóvember árið 1986.
Eigendur Aðalbjargar gáfu hana Reykjavíkurborg til varðveislu. Aðalbjörg var lengi á Árbæjarsafni og fékk að grotna þar niður hægt og rólega. Aðalbjörg var flutt í skemmu í Korngörðum um árið 2009 til viðgerðar. Þar er hún enn og ekki veit ég í hvaða ástandi hún er í dag.

Á árunum 1932 og 1933 hafði bæjarstjórn Reykjavíkur rætt um vanda atvinnuleysis og fátæktar sem herjaði mjög á Reykvíkinga og hvernig bregðast mætti við í kreppunni sem þá gekk yfir og gera tilraun til þess að atvinnumálin færu að hreyfast. Varð það til ráða að veita fjárstyrk til nýsmíða fiskibáta með það að markmiði að efla fiskvinnsluna í landi og færa fátækum fisk í soðið. Bátarnir sem smíðaðir voru í þessu verkefni voru:
313. Þorsteinn RE 21 og 759. Jón Þorláksson RE 60, báðir 51 brl. 265. Aðalbjörg RE 5 og 851. Hafþór RE 44, báðir 22 brl. Þorsteinn RE, Jón Þorláksson RE og Hafþór RE voru smíðaðir hjá Daniel Þorsteinssyni & Co (Danielsslipp) í Reykjavík og Aðalbjörg RE var smíðuð í Skipasmíðastöð Reykjavíkur.
 

Aðalbjörg RE 5 á siglingu.                         (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.



      Nýju vjelbátarnir fóru í fyrsta róður sinn í fyrrinótt

Af vjelbátum þeim, sem Reykjavíkurbær hefir látið smíða hjer, eru nú tveir minni bátarnir fullsmíðaðir og fóru þeir í fyrsta róður sinn í fyrrakvöld. Bátana smíðaði Einar Einarsson bátasmiður o. fl. og eru þeir 22 smál. hvor og með 70/80 hesta Völund vjel. Annar báturinn heitir „Aðalbjörg" og eru eigendur Sigurður Þorsteinsson og Einar Sigurðsson. Hinn báturinn heitir ,,Hafþór“, og eru eigendur Þórður Guðmundsson og Annelíus Jónsson. Þriðji báturinn, sem er langstærstur, eða 50 smálestir, með 110/130 hestafla Völund-vjel, er nú langt kominn og kominn á flot. Hann hafa smíðað Daníel Þorsteinsson o. fl. Báturinn heitir „Þorsteinn“ og eru eigendur Jón Sveinsson og Torfi Halldórsson. Allir eru bátar þessir framúrskarandi traustlega smíðaðir, og er styrkleiki þeirra 16— 18% umfram þær kröfur, sem „Veritas“ gerir um styrkleika. Þeir eru og með öllum nýtísku þægindum og hafa allir talstöðvar, þótt ekki sje búið að setja þær í þá enn. Þær koma ekki fyr en 27. þ. Mán. Teikningar að bátunum gerðu þeir Bárður Tómasson og Hafliði Hafliðason skipasmiðir og hefir Hafliði haft umsjón með smíðinni. Fjórða bátinn, jafn stóran „Þorsteini“ (50 smál.), á að smíða bráðum og er efni í hann komið.

Morgunblaðið. 24 febrúar 1935.
 

Aðalbjörg RE 5 sjósett í febrúar 1935.                           Ljósmyndari óþekktur.
 
Aðalbjörg RE 5. Ennþá með gamla stýrishúsið og myndin væntanlega tekin fyrir 1955. Ljósmyndari óþekktur.
 
Aðalbjörg RE 5 eftir lenginguna hjá Þorgeiri og Ellert á Akranesi árið 1960. Ljósmyndari óþekktur.

 

                 Nýtt veiðarfæri
 

Í byrjun febrúarmánaðar lá mb. Aðalbjörg R. E. 5 við steinbryggjuna í Reykjavík, var verið að koma ýmsu fyrir á þilfari bátsins og víðar, sem menn undraði mjög og eftir því sem leið og verkinu miðaði áfram og gálgar, spil og hlerar voru látnir á bátinn, fóru að heyrast raddir um, að um 20 tonna bátur, gæti aldrei dregið botnvörpu hversu lítil sem væri, nema þá á hrægrunnu og sandbotni, en hér var að ræða um ameríska botnvörpu, sem skipstjóri Einar Sigurðsson, eigandi Aðabjargar, hafði fengið frá Ameríku, með tilstyrk Fiskimálanefndar og ællaði að reyna. Sína fyrstu ferð fór hann 23. febrúar og hefir haldið veiðum áfram síðan og aflað eftir vonum, allskonar fisk og á (60 faðma dýpi (mest), hefir báturinn getað dregið trawlið. Samskonar veiðarfæri hefir mb. Ægir M.B. 96 einnig fengið og verða gálgar, spil m. fl. látið í bátinn, að líkindum, í byrjun apríl. Má veiði með þessum veiðafærum teljast kostnaðarlítíl, því ekki er um beitu að ræða og netið er tiltölulega ódýrt.

Ægir. 4 tbl. 1 apríl 1937.
 

Tundurspillirinn Skeena á strandstað í Viðey.                 (C) Skafti Guðjónsson.
 
Kanadíski tundurspillirinn Skeena. Skipið var smíðað hjá John I Thornycroft & Co í Southamton í Englandi árið 1929. 1.358 brl. Ljósmyndari óþekktur.


               Tundurspillirinn „Skeena“ strandar

Aftakaveður geisaði inn um sund og útum eyjar aðfaranótt 25. október 1944. Skömmu eftir miðnætti er Einar formaður Sigurðsson á mótorbátnum Aðalbjörgu RE-5 (22 tonna eikarbátur), vakinn og beðinn að mæta sem skjótast í höfuðstöðvar breska hersins við Reykjavíkurhöfn. Það tekur ,,Mr. Aðalbjörg", en svo var Einar jafnan kallaður af Bretum, ekki langan tíma að koma sér á vettvang. Þar fær hann þær fréttir að kanadiski tundurspillirinn Skeena, 3000 tonn með 213 manna áhöfn væri strandaður „einhvers staðar við Viðey". Nú átti „Mr. Aðalbjörg" að fara á báti sínum, finna strandstaðinn og bjarga mönnunum. Bretarnir þekktu Einar formann af góðu einu, dugnaði og harðfylgi. Hann hafði verið í förum á vegum hersins á milli Reykjavíkur og Hvítaness í Hvalfirði, og Aðalbjörg RE-5 var happafleyta undir öruggri stjórn Einars. Hann lætur úr höfn á báti sínum og Sundin þekkir hann öllum mönnum betur. Hann finnur í blindhríð og foráttubrimi, Skeena, sem veltist um í flæðarmálinu við NVodda Viðeyjar og skynjar þegar að af sjó verður engri björgun við komið. Einar heldur því aftur til hafnar. Enn er lagt af stað og nú á tveimur innrásarprömmum sem stjórnað er af Ameríkönum, en sjálfur björgunarleiðangur Breta telur 22 menn. Einari er falin stjórn hans, „COS COMMANDER ON SCENE". Ýmsum búnaði er komið fyrir á prömmunum, skjólfatnaði og vistum ásamt björgunarbúnaði, línubyssu af Coston-gerð og köðlum. Landtaka í Sandvík á austurströnd Viðeyjar er reynd tvisvar sinnum. Loks í þriðju tilraun tekst hún giftusamlega. Búnaður allur er borinn yfir eyjuna að strandstað og björgun hafin.
Árangurslausar tilraunir voru gerðar til að skjóta línu út í Skeena, en loks tókst skipbrotsmönnum sjálfum að skjóta línu í land. Skipbrotsmenn eru nú dregnir á land í korkflekum með neti í botni. Lækningastofu er komið upp í eyjunni þar sem hver maður er skoðaður, „Mr. Aðalbjörg" líka, blautur, svartur af olíu upp fyrir haus og gegnkaldur eftir að hafa staðið í sjó alla nóttina. Um kl. 10.00 um morguninn hefur auðnast að bjarga eftirlifandi 198 sjóliðum af Skeena, en 15 hafa farist. Allir björgunarbátar hafa ónýst við strandið og því eru björgunarflekar (Carla Floats) bundnir saman og tengdir við skipið með dráttartaug. Reynt er að fleyta þeim og róa (paðla) til lands, en taugin slitnar og flekana rekur frá skipinu. Þar um borð eru 15 sjóliðar sem allir farast. Sumir þeirra drukkna en aðrir krókna úr vosbúð og kulda. Lík þeirra finnast í Viðey en flestra undan bænum Mógilsá á Kjalarnesi, þar sem flekana rekur að landi. Lík eins finnst ekki. Minningarathöfn og útför sjóliðanna sem fórust af Skeena fór fram með mikilli viðhöfn hinn 28. október og þeir jarðsettir í Fossvogskirkjugarði. Meðal þeirra var sjómaður, A. Unger að nafni, 21 árs gamall, og í minningu „Abe, yfirmanna hans, skipsfélaga, fjölskyldna og vina" hefur bróðir hans Isaac Unger gefið út bókina „Skeena Aground", þar sem saga skipsins er rakin bæði í friði og stríði. Fyrir þetta björgunarafrek var Einari afhent skrautritað heiðursskjal í nafni Georgs VI. Bretakonungs og einnig var hann sæmdur heiðursorðu og nafnbótinni „MBE-Member of the British Empire".
En hver urðu svo endalok Skeena? Þrír stórhuga íslendingar, þeir Ársæll Jónsson kafari, Guðbjörn Þorbjörnsson forstjóri og Páll Einarsson vélstjóri keyptu skipið á strandstað, og um haustið náðist það á flot. Var það dregið inn að Gelgjutanga, og þar var það hoggið og bútað niður í brotajárn. Það mun hafa verið 1943 eða 1944 að framhluti Libertyskips fannst á reki mannlaus úti af Vestfjörðum eða suður af landinu að sumra sögn. Þessi risastóri framhluti var dreginn til Reykjavíkur og komið fyrir undan Gelgjutanga. Skip þetta var amerískt og hét John Randolph. Á árunum 1944 eða 1945 var Bátanaust stofnsett og úthlutað landrými við Gelgjutanga, en þar var þá vélaverkstæðið Keilir fyrir. Á fyrstu árum Bátanausts var trésmíðaverkstæðið um borð í skipsflakinu á meðan verið var að koma upp aðstöðu þar á svæðinu, húsnæði og svo sjálfri dráttarbrautinni. Til gamans og fróðleiks má geta þess að akkerisspilið úr John Randolph var sett upp við slippinn og notað sem dráttarspil við sjálfan sleðann er bátar voru teknir á land eða sjósettir. Eins og fyrr segir var tundurspillirinn Skeena fluttur til niðurrifs inn að Gelgjutanga. Og árin liðu. Sennilega hefur það verið 1952 að búið er að koma öllum hlutum, járni sem og öðru úr Skeena um borð í John Randolph, en þetta hafði allt verið selt til Englands í brotajárn. Tveir enskir dráttarbátar leggja upp með þennan þunga og erfiða farm í drætti. Þegar skipin nálgast strendur Skotlands slitna dráttartaugarnar. John Randpolph rekur á land, kennir grunns, rifnar og hverfur þarna í djúpið við klettótta ströndina. Þarna tapaðist það sem eftir var af ameríska Libertyskipinu og brotajárnið úr Skeena.

Sjómannadagsblaðið. 1 júní 1994.
Grein Hannesar Þ Hafstein fyrrv. Forstjóra SVFÍ.
 

265. Aðalbjörg RE 5.                                                   (C) Vigfús Markússon.
 
Aðalbjörg RE 5 í slipp um árið 1985.  (C) Hans U Vollerstein.
 
 

 

       Aðalbjörg RE 5 flutt til viðgerðar
 

Skipið Aðalbjörg RE 5 var flutt í lögreglufylgd frá Árbæjarsafni í bækistöð Faxaflóahafna við Fiskislóð í liðinni viku. Í tilkynningu frá Árbæjarsafni kemur fram að ástand skipsins sé orðið slæmt og þörf sé á viðgerð til að bjarga því. Aðalbjörg er um 30 tonna eikarbátur sem var smíðaður í Reykjavík veturinn 1934-1935, en framkvæmdin var að tilstuðlan bæjarstjórnar Reykjavíkur vegna slæms atvinnuástands í bænum. Með smíðinni átti að koma skipa og bátasmíðum aftur á hér á landi.
Einar Sigurðsson var skipstjóri á Aðalbjörgu frá fyrstu tíð og til ársins 1973, þegar synir hans tóku við. Hann var sæmdur orðu frá Georgi VI Bretakonungi fyrir þátt sinn í einni stærstu björgun á sjó við Ísland fyrr og síðar.  Einar og hópur hermanna bandamanna björguðu 198 manns af kanadíska tundurspillinum Skeena sem strandaði við Viðey í október árið 1944. 213 voru um borð í skipinu. 
Eigendur Aðalbjargar gáfu Reykjavíkurborg skipið til varðveislu fljótlega eftir að því var lagt árið 1986.

Ruv.is 23 júní 2010.
 

Aðalbjörg RE 5 á Árbæjarsafni.                      (C) Vilmundur Kristjánsson.
 
Aðalbjörg RE 5 í skemmu í Korngörðum árið 2014.        (C) Jón Páll Ásgeirsson.
 
Aðalbjörg RE 5.                                                           (C) Jón Páll Ásgeirsson.
 
Aðalbjörg RE 5.                                                                 (C) Jón Páll Ásgeirsson.
 
Stýrishúsið af Aðalbjörgu RE 5.                             (C) Jón Páll Ásgeirsson.

         Endurbygging í takt við söguna
              Á það ekki við um skip?

 

Á horni Austurstrætis og Lækjargötu standa yfir miklar framkvæmdir, endurbygging þriggja húsa sem reist voru á árunum 1801 til 1920. Full ástæða er til að halda því til haga sem áður var og verður ekki annað sagt en vel sé að verki staðið. Á þessum stað hefur verið sett upp áberandi skilti með yfirskriftinni: „Endurbygging í takt við söguna“. Saga þessara húsa er um margt merkileg og órjúfanlega tengd sögu Reykjavíkur. Það sama á við merkilegt fiskiskip, Aðalbjörgu RE 5, sem nú er á Árbæjarsafni.
Fyrir 75 árum bættist í fiskiskipaflota Íslendinga nýsmíðaður 22 tonna bátur, Aðalbjörg RE-5, í eigu þeirra feðga, Sigurðar Þorsteinssonar og Einars Sigurðssonar. Á árunum 1932 og 1933 hafði bæjarstjórn Reykjavíkur rætt um vanda atvinnuleysis og fátæktar sem herjaði mjög á Reykvíkinga og hvernig bregðast mætti við í kreppunni sem þá gekk yfir og gera tilraun til þess að atvinnumálin færu að hreyfast. Varð það til ráða að veita fjárstyrk til nýsmíða fiskibáta með það að markmiði að efla fiskvinnsluna í landi og færa fátækum fisk í soðið. Bæjarstjórn stofnaði skipasmíðastöð Reykjavíkur austan við og við hlið skipasmíðastöðvar Daníels Þorsteinssonar sem staðsett var skammt frá núverandi húsnæði Víkurinnar, Sjóminjasafns Reykjavíkur. Bæjarstjórn hafði ákveðið að láta smíða 4 báta, tvo 22 tonna og tvo 60 tonna báta, þá minni í skipasmíðastöð Reykjavíkur sem síðar hlutu nöfnin Aðalbjörg RE 5 og Hafþór RE, og þá stærri í skipasmíðastöð Daníels, Þorstein RE og Jón Þorláksson RE. Aðalbjörgina teiknaði Bárður G. Tómasson, (faðir Hjálmars fyrrv. skipaskoðunarstjóra). Aðalbjörg var sjósett í febrúar 1935 en þá höfðu þeir feðgar, Sigurður og Einar, keypt bátinn af Reykjavíkurbæ og hófu róðra frá Reykjavík í marsmánuði.
Nýtt upphaf vélbátaútgerðar var hafið. Einar skipstjóri Aðalbjargar var farsæll og á spjöldum sögu seinni heimstyrjaldar er hans getið þegar kanadíski tundurspillirinn Skeena strandaði við Viðey óveðursnóttina miklu 24. október 1944. Þá stýrði Einar Aðalbjörginni úr Reykjavíkurhöfn til bjargar hinum kanadísku sjóliðum en skipakosturinn dugði ekki til átaka við veðurhaminn sem þá lét sem verst. Sigldi Einar þá á ný til hafnar, skipti um farkost og hélt á ný á strandstað á gömlum innrásarpramma sem hann sigldi á land í Sandvík í norðanverðri Viðey. Einar sem ávallt var kenndur við Aðalbjörgina stjórnaði björgunarleiðangrinum og tókst að bjarga 198 sjóliðum af flaki Skeenu. Fullyrt er að ekki í annan tíma hafi verið bjargað jafnmörgum mönnum í   einni björgunaraðgerð hér við land.
Mr. Aðalbjörg, en undir því nafni gekk Einar meðal erlendu hermannanna, var heiðraður af Georgi VI, Bretakonungi og hlaut MBE-orðuna. Frægð þessa litla en merkilega fiskiskips barst langt út fyrir landsteinana. Það er sorglegt að þurfa að horfa uppá Aðalbjörgina, þetta 75 ára fágæta og merka happafley, grotna niður í Árbæjarsafni. Það er dapurt að upplifa hve seinni tíma kynslóðir virðast hafa lítinn áhuga á sögunni - hvað þá heldur fortíðinni. Sem betur fer hefur vakning meðal borgaryfirvalda verið árangursrík þegar litið er til Víkurinnar. En það er ótrúlegt samt hvernig hægt er að láta svo merkilegt happafley fara svo illa sem raun ber vitni. Það er eitthvað bogið við forgangsröð verkefna þegar kemur að varðveislu gamalla muna - jafnvel þótt mjög merkileg saga liggi að baki. Hvaða rök liggja til dæmis að baki þeirri ákvörðun að flytja gamlar timburvöruskemmur austan af fjörðum til Árbæjarsafns og endurbyggja með ærnum kostnaði á meðan Aðalbjörg RE 5 fær að grotna niður afskiptalaust. Skip með mikla sögu sem tengist kreppunni, atvinnuleysinu, fátækt Reykvíkinga fyrir síðari heimsstyrjöld og síðan því tímabili í sögu þjóðarinnar er hjól atvinnulífsins fóru að snúast á ný? Þrátt fyrir allt – menntun, menningu og tillit til líðandi stundar - skulum við vera minnug þess að það var sjávarútvegur og siglingar sem öðru fremur breyttu Reykjavík úr bæ í borg. Endurbyggð með glæsta sögu mun Aðalbjörgin njóta sín á floti ásamt Varðskipinu Óðni og dráttarbátnum Magna við Víkina, Sjóminjasafn Reykjavíkur, í næsta nágrenni við þar sem Skipasmíðastöð Reykjavíkur var. Verður hún þá í námunda við sinn upprunastað. Borgarstjóri, borgarfulltrúar, tökum á þessu máli og siglum því í höfn höfuðborgarinnar.

Sjómannadagsblaðið. 5 júní 2010.
Guðmundur Hallvarðsson formaður Sjómannadagsráðs.  
 

Úr Daníalsslippnum árið 1934. Verið er að smíða Þorstein RE 21. Fjær sér í Aðalbjörgu RE 5 í smíðum hjá Skipasmíðastöð Reykjavíkur.



        Samvinnubátarnir í Reykjavík


Á fundi bæjarstjórnar á miðvikudaginn voru samþykktar eftirfarandi tillögur um smiði báta þeirra, er samþykkt var af bæjarstjórn í vetur að láta smíða fyrir væntanlegt samvinnufélag sjómanna hér og veita fjárstyrk til: »Bæjarstjórnin samþykkir að ganga að tilboði h. t. Völund í Kaupmannahöfn, dagsett 23. þ. m., um mótorvélar og efni til tveggja 50 smálesta og tveggja 22 smálesta eikarvélskipa. Jafnframt samþykkir bæjarstjórnin að ganga að smíðatilboðum þeirra Daniels Þorsteinssonar o. fl. á tveim 50 smálesta skipum og Einars Einarssonar o. fl. á tveim 22 smálesta skipum. Bæjarstjórnin felur borgarstjóra allar frekari framkvæmdir um smíði skipanna, og væntir þess að hafnarstjóri og hafnarstjórn aðstoði við það að greiða fyrir því sem frekast er unnt. Bæjarstjórnin felur hafnarstjórn að semja við væntanlega kaupendur skipanna og heimilar fyrir sitt leyti að fé það, sem ákveðið var að veita sem lán af atvinnubótafé til þessarar framkvæmdar með ályktun 15. febrúar, megi veitast sem óafturkræft framlag að því leyti, sem þess þarf með til þess að vinna upp aukakostnað af því, að skipin verða smiðuð hér. Eftir þeim tilboðum, sem fengist hafa í vélar, efni og smíði bátanna, munu 50 smálestabátarnir kosta 57 þúsund krónur hver, albúnir, en 22 smálestabátarnir 33 þús. kr. hver. Bátarnir verða að öllu leyti hinir vönduðustu. Bárður G. Tómasson skipaverkfræðingur á Ísafirði, hefur gert teikningar og útboðslýsingar skipanna. 

Ægir. 7 tbl. 1 júlí 1934.

Flettingar í dag: 2363
Gestir í dag: 136
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 744122
Samtals gestir: 56042
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 19:09:00