03.02.2023 15:42

Norski línuveiðarinn Faustina sigld niður út af Reykjanesi.

Það mun hafa verið um kl. 23 að kvöldi, 22 eða 23 apríl árið 1935 að norski línuveiðarinn Faustina frá Álasundi í Noregi lá yfir bauju djúpt út af Reykjanesi og voru að gera sig klára að draga línuna. Ekki var talið að þeir hafi haft logandi á einhverjum ljósum um borð á meðan þeir biðu, allavegna sáu skipstjórnarmenn á Kóp þau ekki. Veður var gott og sjólítið. Víkur síðan sögunni um borð í togarann Kóp RE 33 sem var að klára veiðiferð. Hafði Guðmundur Guðmundsson skipstjóri sett stefnuna á Hafnarfjörð áður en hann fór í koju og togarinn öslaði áfram á fullri ferð til lands. Eftir um 1 klukkustundar siglingu, heyrðu skipverjar sem voru á dekki að fletja fisk og ganga frá á þilfari, bjölluhringingu og svo augnabliki síðar lenti togarinn á skipi sem var kyrrstætt. Mikið högg kom á togarann og mikið spýtnabrak þeyttist í loft upp og lenti inn á dekk togarans. Hafði þá Kópur siglt á fullri ferð á línuveiðarann og mun hann hafa sokkið á um 20 mínútum. Áreksturinn varð um 25 sjómílur norðvestur af Reykjanesi. 17 manna áhöfn var á honum og var henni bjargað um borð í togarann og hélt að því loknu áfram ferð sinni til Hafnarfjarðar. Mun útgerðarfélag Kóps hafa verið sýknað, sennilega vegna þess að ljósbúnaður um borð í Faustinu hafi ekki verið fullnægjandi.

Línuveiðarinn Faustina var smíðaður í Cloucester í Englandi sem seglskip árið 1902. Eik. 104 brl. 90 ha. Bolinder vél (1919 eða 1922). 30,1 x 7,3 x 3,1 m. Eigandi var Elias R Blindheim í Álasundi í Noregi frá árinu 1919. Upphaflega var skipið gert út frá Englandi, óvíst um eiganda þar og nafn, gæti verið það sama. Þetta mun hafa verið fyrsta fiskiskip Norðmanna sem gert var út til veiða við V-Grænland. Það var frá 10 maí til 18 ágúst árið 1924. Skipstjóri þá var Peter Blindheim, sonur eiganda skipsins. Faustina var komin með nánast fullfermi af saltfisk, eða rúmlega 70 tonn og voru skipverjar farnir að huga að heimferð þá og þegar er Kópur sigldi þá niður.
 

Faustina á siglingu.                                           (C) Aalesund Museum.




 Botnvörpungurinn Kópur rekst á norskan línuveiðara
       Línuveiðarinn sökk en skipshöfn bjargaðist

 

Í fyrrakvöld kl. 11 er togarinn Kópur var á leið inn til Hafnarfjarðar sigldi hann á norska línuveiðarann Faustina frá Álasundi. Línuveiðarinn sökk á rúmlega hálfri klukkustund. Áhöfn hans, 17 manns, komst á skipsbátnum yfir í Kóp og fóru með honum til Hafnarfjarðar. Sjórjettarpróf voru haldin í málinu í gær og hófust þau kl. 2. Lögð var fram skýrsla skipstjórans á Kóp, Guðmundar Guðmundssonar. Kópur lagði af stað til Hafnarfjarðar kl. 9.50 um kvöldið. Veður var þá gott en hafði gengið á með jeljum um daginn. Klukkan um 10 kom stýrimaður á vörð; fór skipstjóri þá niður í klefa sinn og lagði sig til svefns. Stýrimaður var nú á verði ásamt háseta sem var við stýrið. Klukkan 11 sá stýrimaður allt í einu skært hvítt ljós beint fyrir framan skipið og bar það töluvert yfir hvalbak skipsins stjórnborðsmegin. Skipaði þá stýrimaður hásetanum að stýra hart á bakborða.
Heyrði stýrimaður þá að hringt var skipsklukku, hljóp hann nú til og ætlaði að hjálpa manninum, sem var við stýrið, en það bar engan árangur því að í sömu andránni lenti skipunum saman. Hringdi þá stýrimaður niður í vjelarúm og skipaði að stöðva vjelina og síðan að keyra hana aftur á bak, fulla ferð. Kópur lenti á línuveiðaranum miðjum stjórnborðsmegin og sökk hann á rúmum hálftíma. Í skýrslu skipstjórans á Faustina segir að skipið hafi verið statt um 25 sjómílur norðvestur af Reykjanesi. Skipið hafði verið að leggja línu og hafði þá öll ljós uppi. Þegar búið var að leggja línuna var sett ,upp ljós á stag að framan og afturljós, þá var og ljós á ljóskerum til að lýsa upp dekkið. Þegar áreksturinn varð var klukku skipsins hringt til að vara menn við hættunni og kalla þá á þiljur. Togarinn rakst á skipið mitt og braut akkerið skipið og sökk það, eins og áður er sagt. Veður var hið besta þegar áreksturinn varð, dimmt af nóttu en gott ljósaskyggni og sá stýrimaður á Kóp ljós frá skipum í 2—3 sjómílna fjarlægð. Faustine sökk með 70 tonn af saltfiski, 16 föt lifrar og 40 tunnur hrogn. Skipsskjölunum eða skjölum skipshafnar var ekki bjargað. Einnig misstu þeir öll veiðarfæri og vistir til 4 vikna. Kópur skemmdist töluvert að framan, missti akkerið og vatnsþjett rúm fylltist af sjó.

Morgunblaðið. 24 apríl 1935.
 

Botnvörpungurinn Kópur RE 33 var smíðaður hjá George Seebeck A.G. í Geestemünde (Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1915 fyrir Fiskiveiðahlutafélagið Ými í Hafnarfirði. Hét fyrst Ýmir GK 448. 269 brl. 500 ha. 3 þennslu gufuvél. 40,35 x 7,12 x 3,27 m. Smíðanúmer 356. Skipið var selt í ágúst 1928, Þórði Flygenring í Hafnarfirði, hét hjá honum Eldey GK 448. Skipið var selt í nóvember 1928, Fiskiveiðahlutafélaginu Kára í Viðey, hét Þorgeir skorargeir GK 448. Eftir að Kárafélagið í Viðey fór í þrot haustið 1931, eignaðist Útvegsbankinn allar eignir félagsins,þ.m.t. togarann Þorgeir skorargeir GK. Selt 27 október 1932, Sameignarfélaginu Kópi í Reykjavík, skipið hét Kópur RE 33. 4 febrúar 1937 var Útvegsbanki Íslands eigandi. Selt 25 janúar 1940, Hlutafélaginu Aski í Reykjavík, hét Þorfinnur RE 33. Þegar h/f Askur í Reykjavík kaupir togarann Skutul ÍS 451 af h/f Val á Ísafirði, 20 mars 1942, taka Ísfirðingarnir togarann Þorfinn RE 33 upp í kaupin. Skipið var selt 22 nóvember 1945, p/f Tór í Þórshöfn í Færeyjum, fékk nafnið Tórfinnur TN 78. Seldur 1951, p/f Steyrur í Þórshöfn (Jákup Jensen), sama nafn og númer. Seldur 1955, Alfred Johansen í Þórshöfn, hét Bakur VN 356. Seldur 1956, G Hansen í Þórshöfn, sem seldi hann síðan í brotajárn til Danmerkur. Bakur var tekinn af Færeyskri skipaskrá 8 febrúar árið 1956.
 

Um borð í togaranum Kóp RE 33 árið 1935. Nokkrir skipverjar hafa stillt sér upp fyrir myndatöku. Ljósmyndari óþekktur.
 
Um borð í Kóp RE 33 árið 1935. Ljósmyndari óþekktur.




                           Þegar Faustina sökk

Vertíðina 1935 var ég á togaranum Kóp RE 33. Var sú vertíð all söguleg í lokin, þótt ekkert sérstakt sögulegt bæri til tíðinda framanaf. Við höfðum gert marga túra á vertíðinni eins og venja var,fyrst í Jökuldjúpið, síðan á Selvogsbanka, og síðast vorum við að fiska á Eldeyjarbankanum. Það var þá nokkur nýlunda að fiska þar á togara. Eldeyjarbankinn var lítt kunnur sem togarasvæði. Þar voru fiskislóðir línuveiðaranna, bæði íslenzkra og erlendra, sérstaklega voru það Norðmenn, sem þangað sóttu mikið á fiskimið. Það mun hafa verið síðast í apríl, eða þá fyrst í maí, sem við á Kóp gerðum túr á Eldeyjarbankann. Fiskur var nægur en fremur smár, ekki hinn stóri og fullvaxni gönguþorskur, sem sjómenn kannast við á vertíð fyrir Suðurlandi. Það var búið að fylla lestina, og saltið var þrotið. Síðast fylltum við „steisinn" af flöttum, en ósöltuðum fiski. Það var hætt að toga um 12 leytið um nóttina, og varpan tekin inn, en ekki var samt búið að gera sjóklárt sem kallað er. Við vorum að gera að fiski á dekkinu og voru öll ljós á skipinu lýsandi.
Veður var gott, sem sagt logn og sjólaust að kalla. Þegar að búið var að stíma í um það bil eina klukkustund, eða um kl. 1 að nóttu, heyrði ég að hringt var klukku í námunda við skipið. Ég gaf þessu lítinn gaum, var að fletja fisk af kappi, ásamt öðrum hásetum. Að örskammri stund liðinni, stuðaði Kópur á skipi á fullri ferð, það rigndi inn á dekk til okkar spýtnabraki úr skipinu sem við sigldum á, þá er það straukst aftur með síðunni á Kóp, stjórnborðsmegin. Stýrimaður var Sigfús Magnússon, og var hann á verði í brúnni á Kópi. Guðmundur Guðmundsson, skipstjóri var genginn til svefns, en vaknaði við ásiglinguna og kom upp í brú. Það var strax slegið af og stoppað. Við sáum, að ljós voru kveikt á hinu skipinu sem virtist vera línuveiðari. Sáum við að hann var að sökkva, og voru gerðar ráðstafanir hjá okkur að setja út björgunarbát, en áður en til þess kæmi sáum við hvar bátur kom róandi frá hinu sökkvandi skipi. Kom hann svo til okkar, og tókum við mennina um borð í Kóp. Voru þeir allir klæðlitlir og án alls farangurs. Voru þeir 17 af línuveiðaranum að mig minnir. Eftir svo sem hálfa klst. sökk svo línuveiðarinn í hafið með rá og reiða.
Það kom fram, þá er skipverjar voru komnir um borð til okkar, að þetta voru Norðmenn.  Línuveiðarinn hét „Faustina" frá Aalesund. Var það tréskip, byggt fyrir aldamót. Átti skipstjórinn það hálft, en hásetar og aðrir skipverjar hinn helminginn. Þetta var um 160 smálesta skip. Það kom strax fram, að „Faustina" lá yfir bauju, og var aðeins einn maður á verði. Ljós voru engin uppi, sem við gátum séð fyrir ásiglinguna, aðeins ein carbíttýra tórði þar um borð. Kópur var á leið til Hafnarfjarðar, þar sem við lögðum upp aflann um vertíðina. Norðmönnunum var þrengt niður í káetu og þáðu þeir þar beina um nóttina. Þeir voru heldur daprir í sinni, karlarnir, þeir misstu allt sitt, skipið, aflann og allan farangur. Skip þeirra var að verða fullt af fiski, og ætluðu þeir heim eftir fáa daga, en það fór á annan veg. Skipstjórinn af „Faustinu" hélt sig uppi í brú á leiðinni. Var hann all brúnaþungur og sagði fátt. Við ásiglinguna missti Kópur stjórnborðsakkerið og rifnaði út úr klussinu, forpykkurinn fylltist af sjó og var Kópur all siginn að framan.
Okkur gekk að öðru leyti vel til Hafnarfjarðar, og komum við þangað um fótaferðartíma. Norðmennirnir voru vistaðir á Hótel „Björninn", sem þá var í húsi Ágústs Flygenrings, undir stjórn Guðrúnar Eiríksdóttur, veitingakonu. Sjópróf vegna þessa slyss voru haldin inni í Reykjavík strax um daginn. Vissi ég ekki hvað þar kom fram annað en það sem segir hér að framan. Þessi ásigling fór svo í mál sem venja er í slíkum tilfellum. Heyrði ég það síðar, að Kópur hefði verið sýknaður af þessu slysi. Það var svo sett plata yfir gatið á Kóp og var svo lagt út í nýjan túr um kvöldið. En að skilnaði drukkum við strákarnir af Kóp, nokkrir, skál Faustínu með Norðmönnunum á Hótel Björninn.

Sjómannablaðið Víkingur. 7-8 tbl.1 júlí 1970.
Gunnar Magnússon frá Reynisdal sem var skipverji á Kóp segir frá.
 

Faustina að veiðum, þá sennilega við Grænland. Ljósmyndari óþekktur.



                                          Frá Grænlandi
     Eitt Grænlandsfarið komið hingað

Norska fiskveiðaskipið „Faustina" kom hingað 20. ág. frá Grænlandi eftir 14 daga ferð. Ætlaði skipið í fyrstu að koma við í Þórshöfn í Færeyjum og bíða þar fyrirskipana útgerðarinnar um hvort sigla skyldi með aflann til Aberdeen eða Noregs, en gat eigi tekið höfn í Færeyjum vegna ofsaveðurs af suðvestri, og varð að leita hingað. Skipið fór til veiða frá Bolungavík 18. júní síðastl. og fékk góða ferð til Grænlands. Hefir það síðan stundað línu eða lóðaveiðar við vesturströndina aðallega á Fyllas-Bank og Lille-Hellefiske-Bank. Allan veiðitímann hefir verið óróatíð; stundum stormar og stórsjóir. Misti „Faustina" nokkuð af seglum sínum og veiðarfærum. Íslaust hefir verið að vanda við vesturströndina, nema einstöku stórar hafísborgir er standa á grunni. Þrátt fyrir hið slæma tíðarfar hefir „Faustina" fengið sæmilegan afla eða um 19 þús. af fiski, sem skipstj. áætlar að nema muni 60 smál., og 50 tunnur af söltuðu heilagfiski. Þegar tekið er tillit til hins stutta veiðitíma, má telja aflann viðunanlegan, því að þetta er allt stór og feitur fiskur.
Sökum hins slæma tíðarfars hafa flest skipin sem að veiðum eru nú við Grænland aflað mun minna en í fyrra, þó hefir 1 norskt gufuskip, (um 4 þús. smál. að stærð), sem þar er að veiðum, aflað með betra móti. Hefir skip þetta 32 vélknúðar „doríur", sem fiskað er á frá skipinu. Þegar „Faustina" hitti skip þetta síðast, var það búið að fá 20 þús. af þorski, og auk þess 2 togarafarma af lúðu, og þriðji togarinn lá þá við skipið til þess að taka við lúðunni jafnskjótt og hún veiddist og flytja síðan til Englands. Hafa togarar þessir ís meðferðis frá Englandi og ísa strax lúðuna nýveidda. Er Hellyer, útgerðarmaður frá Hafnarfirði, í sambandi við skip þetta, og hafði komið með togara þarna á miðin við Grænland, til þess að kynnast afstöðu og aðstöðu. Hefir frést hingað um góða sölu í Englandi á lúðuförmum þessum. Er sagt, að Hellyer hafi fengið fyrir fyrri farminn um 7000 sterl.pd. og 5500 fyrir þann síðari. Engu var beitt þarna við veiðarnar nema ljósabeitu (lúðunni sjálfri). Sáu þeir á „Faustinu" aldrei neina síld, en lítilsháttar af loðnu. Tvisvar komu skipverjar á land í Grænlandi, nú síðast í Frederiksstad, rétt áður en þeir lögðu af stað heim, til þess að taka vatn. Segja þeir, að bersýnilega hafi verið litið óhýrum augum til sambands þeirra við landsmenn, þótt engin mök væru önnur en þau, sem ekki varð hjá komist. Þetta eru aðalatriðin úr veiðiferð skipsins, og eru þau birt hér til lærdóms fyrír okkur íslendinga. Hvað sem Grænlandsmálinu líður að öðru leyti, er sjálfsagt, að íslendingar fylgist vel með öllum athöfnum og framkvæmdum þar, og krefjist síns eðlilega réttar til þess að vera þar engar hornrekur, því sá tími getur komið fyrr en varir, að okkur þyki ekki síður arðvænlegt að leita þangað en öðrum þjóðum.

Ægir. 8 tbl. 1 ágúst 1926.

 

Flettingar í dag: 2004
Gestir í dag: 113
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 743763
Samtals gestir: 56019
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 14:00:00