06.02.2023 17:25

Breski togarinn Langanes GY 147 strandar í mynni Dýrafjarðar.

Togarinn Langanes GY 147 var búinn að vera að veiðum í nokkra daga út af Vestfjörðum og fiskað nokkuð vel þó veðrið hafi verið slæmt og oft á tíðum varla veiðiveður. Það var svo að kvöldi 8 febrúar árið 1935, að það gerði ofsaveður af norðaustri við vestanvert landið og á veiðisvæði togaranna út af Vestfjörðum. Togararnir sem þar voru á veiðum, freistuðu þess að leita landvars inn á firðina vestra. Flestum þeirra tókst það áfallalaust en nokkrir sem síðastir komu, lentu í kröppum dansi og höfðu fengið á sig brotsjói. Langanes var einn þeirra togara sem leituðu vars og ákvað skipstjóri togarans, Charles Patterson að leita vars inn á Dýrafirði. Um kvöldið þegar veðrið var sem verst, heyrðist neyðarkall frá togaranum er sagði að þeir væru strandaðir að þeir héldu, í mynni Dýrafjarðar að norðanverðu. Ekki reyndist það réttur strandstaður, hann hafði strandað sunnan fjarðarins, við  Svalvogshamra, rétt norðan við Sléttanes. Var það breski togarinn Malmata sem fann hann snemma morguninn eftir. Voru þá 3 skipverjar upp í reyða togarans en fljótlega skolaði þeim fyrir borð og var þá enginn til frásagnar um þetta hörmulega sjóslys sem kostaði líf 13 breskra sjómanna. Nokkrum dögum áður (22 janúar) hafði Breski togarinn Jeria GY 224 strandað undir Látrabjargi og var ekkert hægt að gera skipverjum togarans til hjálpar. Þar fórust einnig 13 sjómenn.
Grimsbytogarinn Langanes GY 147 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby í Englandi árið 1929 fyrir Consolidated Steam Fishing & Ice Co Ltd í Grimsby. 358 brl. 103 n.h.p. 3 þennslu gufuvél, smíðuð hjá C.D. Holmes & Co Ltd í Hull. 42,8 x 7,6 x 4,0 m. Smíðanúmer 1059. Togarinn strandaði við Svalvogahamar í Dýrafirði 8 febrúar árið 1935. Fórst þar öll áhöfnin, 13 menn með skipi sínu eins og áður sagði. Eitt hörmulegasta sjóslys sem orðið hefur við Dýrafjörð.
 

Togarinn Langanes GY 147.                                             Ljósmyndari óþekktur.




                                       Togari í sjávarháska
          Voru önnur skip í sjávarháska

Kl. laust fyrir 7 í gærkvöldi sendi togarinn „Langanes“ frá Grimsby út neyðarskeyti, og kvaðst vera strandaður við Dýrafjörð, eða svo hjeldu þeir. Meira heyrðist ekki frá honum. En eftir upplýsingum, sem loftskeytastöðin hjer fekk frá öðrum enskum togara, „Green Howard“, frá sama fjelagi í Grimsby, mun „Langanes“ hafa strandað við Skagann, austanvert við Dýrafjörð, utan til. Slysavarnafjelagið hjer hafði samband við Vestfirði fram eftir öllu kvöldi í gærkvöldi, en nánari fregnir fengust ekki af strandinu, og enginn vissi þá, hvort mannbjörg hefði orðið. Enski togarinn „Green Howard“ og fleiri skip ,voru komin nálægt strandstaðnum, en ekki þó svo nálægt að þau sæu strandið, því svartabylur var og foráttu brim. Þessi skip voru á 20 faðma dýpi, en þorðu ekki nær landi vegna illviðris og brims. Skipin gátu því ekkert aðhafst eins og sakir stóðu, en ætluðu að bíða og sjá. hverju fram vindi. Samkvæmt upplýsingum er Slysavarnafjelagið fékk frá Ísafirði í gærkvöldi var vindur þar vestra norðaustlægur og álitu menn þar, að aflandsvindur myndi vera á strandstaðnum. Bjuggust því Ísfirðingar við, að brimið myndi eitthvað lægja. Seint í gærkveldi höfðu engar fregnir borist um það, hvort menn hafi bjargast af „Langanesi“. Þegar enski togarinn „Green Howard‘‘ símaði taldi hann mikla hættu á ferðum vegna þess hve brimið og sjógangurinn var mikill. En Ísfirðingar voru eitthvað vonbetri, töldu landtöku þarna ekki mjög vonda. Þó væri ekkert hægt um þetta að fullyrða, þar eð menn vissu ekki hvar skipið hefði strandað. Hafi „Langanes“ strandað á Skaganum, eins og ætlað var, þá er þar engin byggð núna. Áður fyrr var þarna útræði og mikil verstöð, en nú er hún lögð niður og eyðibýli aðeins eftir á Skaga.
Í gær náðist samband við Núp í Dýrafirði, en það mun vera næsti bærinn við strandstaðinn er hefir símasamband, ef skipið hefir strandað út á Skaga. Voru þegar gerðar ráðstafanir til þess að senda menn frá Núpi til þess að leyta að strandinu. Ætluðu þeir að fara út á Skaga með föt, tjöld og matvæli, ef svo vel skyldi hafa til tekist að strandmennirnir hefðu komist lífs af. Er 4 tíma ferð frá Núpi á Skaga. Fregnir bárust um það til Slysavarnafjelagsins síðdegis í gær, að rakettuflug hefði sjest í áttina til Skerjafjarðar og einnig hefði heyrst skipsflaut þaðan. Þetta hvorttveggja hafði þó aðeins staðið stutta stund og engar fregnir borist af því, að skip væri þar í hættu. Nokkrir togarar frá Reykjavík liggja suður á Skerjafirði, en ekki var sjáanlegt að neitt væri að hjá þeim, enda gat flautið ekki komið frá þeim, því þeir hafa ekki „damp“ uppi. Vonandi hefir hjer aðeins verið um missýning og misheyrn að ræða. Þá barst Slysavarnafjelaginu einnig fregnir um það, að á Hjörsey á Mýrum hefði heyrst mikið flaut frá skipi, en það stóð aðeins stuttan tíma, en hvergi sást neitt til skips þar í nánd. Við Mýrarnar eru margar hætturnar fyrir skip, ef þau villast af leið eða eru ósjálfbjarga. En vonandi er, að hjer hafi þó ekkert orðið að. Aðrar fregnir hafði Slysavarnafjelaginu ekki borist, er bent gætu til þess, að slys hefði orðið á sjó.

Morgunblaðið. 9 febrúar 1935.
 

Togarinn Langanes GY 147 í slipp í Grimsby.             Ljósmyndari óþekktur.
 
Svalvogahamar í Dýrafirði. Enn má sjá leifar togarans í fjörunum þar vestra. Maðurinn á myndinni er Knútur Bjarnason (1917-2013) bóndi á Kirkjubóli í Dýrafirði. (C) H.S.




    Öll skiphöfnin fórst af enska togaranum „Langanes"

Þegar enski togarinn Langanes sendi út neyðarmerki á föstudagskvöldið vissu skipverjar ekki hvar þeir voru, en álitu, að skipið hefði strandað í norðanverðum Dýrafirði. Á þeim slóðum leituðu enskir togarar þá nótt, og eins mun Dettifoss hafa tekið þátt í leitinni. Þá voru og gerðir út menn í landi, til þess að leita að togaranum. En sú leit bar engan árangur. Því togarinn hafði strandað á Sljettanesi, vestan á skaganum sunnanvert við Dýrafjörð, eða við svonefndan Svalvogshamar um tvo kílómetra sunnan við Svalvogsvita. Þar fann enski togarinn Malmata hinn strandaða togara snemma á laugardagsmorgun. Um sama leyti komu þangað ensku togararnir Bunsen og Stoke City. Þá sáust þrír menn í reiða hins strandaða skips. Frá Bunsen voru nú sendir 3 menn í skipsbátnum, til þess að reyna að bjarga þessum mönnum, sem eftir voru þá lifandi af skipshöfn Langaness. En er að skipshlið Langaness kom, hvoldi björgunarbátnum.
Stýrimaður af Bunsen var í bátnum og drukknaði hann. En hinum tveim bátverjum bjargaði togarinn Stoke City. Ekki hafði blaðið í gær fengið af því greinilega frjett, hve lengi mennirnir sáust hanga í reiðanum. En það mun ekki hafa verið lengi eftir að þessi björgunartilraun misheppnaðist. Þá frjetti blaðið og í gær, að vitavörðurinn á Svalvogsvita hafi um kl. 9 á laugardagsmorguninn fundið togarann. Sá hann þá að einn skipverja var á hvalbaknum. Skömmu síðar sá hann þegar alda skolaði manninum útbyrðis. Seinni partinn í gær fannst eitt lík rekið af togaranum. Í gær fóru þrír vjelbátar frá Þingeyri  til strandstaðarins. Stjórnaði Sigurður Einarsson þeirri för. Er þeir komu að hinum strandaða togara var stefni hans klofið og hann allur mölbrotinn. Þeir höfðu með sjer línubyssu er björgunarsveit Þingeyrar á. En er þeir komu á strandstaðinn voru allir skipverjar af Langanesi komnir í sjóinn.

Morgunblaðið. 10 febrúar 1935.

Flettingar í dag: 825
Gestir í dag: 59
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 742584
Samtals gestir: 55965
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 05:35:10