22.02.2023 16:48

B.v. Sléttbakur EA 4. TFZD.

Nýsköpunartogarinn Sléttbakur EA 4 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby í Englandi árið 1947. Hét fyrst Helgafell RE 280 og var í eigu Helgafells h.f. í Reykjavík. 654 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 54,00 x 9,17 x 4,58 m. Smíðanúmer 1321. Skipaskrárnúmer 194. Helgafell var annar nýsköpunartogarinn sem kom til landsins, hinn 25 mars sama ár. Ingólfur Arnarsson RE 201, sá fyrsti, kom til Reykjavíkur hinn 17 febrúar. Helgafell var selt 2 febrúar 1953, Útgerðarfélagi Akureyringa hf á Akureyri, hét Sléttbakur EA 4. Togarinn var seldur 18 apríl árið 1974, Manuel Hevia Gonzales í Gijon á Spáni til niðurrifs. Það var Kaldbakur EA 1 sem dró Sléttbak, en hann hafði einnig verið seldur til sama aðila á Spáni í brotajárn.
 

B.v. Sléttbakur EA 4 á toginu.                            (C) Ásgrímur Ágústsson.




                              Eigendaskipti á togurum


Togarinn Helgafell, sem var eign samnefnds félags í Reykjavik, en framkvæmdastjóri þess var Skúli Thorarensen, var seldur til Akureyrar, og er Útgerðarfélag Akureyrar kaupandinn. Skipið heitir nú Sléttbakur og hefur einkennisstafina EA 4. Útgerðarfélag Akureyrar á þar með orðið fjóra togara, og á enginn einn aðili fleiri togara hér á landi nema Bæjarútgerð Reykjavíkur. Frá Akureyri eru því gerðir út fimm togarar, og er það einungis einum togara færra en í Hafnarfirði. Togarinn Helgafell var seldur fyrir kr. 5.500.000.00. Greiðsluskilmálar eru þessir:
Við undirskrift samningsins greiddust 500 þús kr. Upphæð þá tók Útgerðarfélag Akureyrar að láni hjá Samvinnutryggingum, til 4 ára, og fer fyrsta afborgun fram í sept. næsta ár. Þá er 500 þús. kr. víxill til sex mánaða til fyrri eigenda. Þá er skuldabréf til 10 ára til fyrri eigenda að upphæð kr. 3.084.667,30, yfirtekin skuld við stofnlánadeild sjávarútvegsins kr. 1.322.000,00 og loks yfirtekin skuld við ríkissjóð kr. 93.132,80. Skipið var afhent hinum nýju kaupendum 8. september, en þá var það tilbúið á veiðar. Skipstjóri á því er Finnur Daníelsson, sem verið hefur 1. stýrimaður á Kaldbak.

Tímaritið Ægir. 9-10 tbl. 1 september 1953.
 

B.v. Sléttbakur EA 4 á toginu og skipverjar í aðgerð eins og sést á fuglagerinu. (C) Ásgrímur Ágústsson.
 
Stjórnpallur Sléttbaks EA 4.                            (C) Sæmundur Þórðarson.



           Þeir gömlu seldir í brotajárn                                                  

Nú þegar hver skuttogarinn á fætur öðrum kemur til landsins vaknar sú spurning hvað gert verði við gömlu síðutogarana. Við leituðum til Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda og spurðum þar þessarar spurningar. Þar fengum við það svar að þeim yrði lagt og sennilega yrðu þeir seldir í brotajárn. Þeim er lagt, einum á móti hverjum einum skuttogara sem kemur til landsins hjá þeim aðilum sem eiga gamla síðutogara fyrir. Þannig verður til að mynda Jóni Þorlákssyni hjá BÚR lagt, þegar Bjarni Ben. er kominn til landsins. Þá verður Hallveigu Fróðadóttur lagt þegar skuttogarinn Ingólfur Arnarson kemur, en hann er af sömu gerð og Bjarni Ben. Þá verður Þorkeli Mána lagt þegar Snorri Sturluson kemur, en hann er einnig af sömu gerð og Bjarni.
Þá mun ákveðið að Sléttbaki frá Akureyri verði lagt þegar fyrsti nýi skuttogarinn kemur þangað, og svo Kaldbak þegar annar skuttogarinn kemur. Bæjarútgerð Hafnarfjarðar á von á nýjum skuttogara, en ekki mun síðutogaranum Maí verða lagt þegar hann kemur og að sjálfsögðu verður Sigurði ekki lagt þegar Einar ríki fær sinn skuttogara. Það er semsagt ljóst að elztu síðutogurunum verður lagt, en þeim sem enn eru í góðu lagi, eins og Maí og Sigurði, svo dæmi séu nefnd, verður ekki lagt.

Þjóðviljinn. 21 janúar 1973.
 

Nýsköpunartogarinn Helgafell RE 280 á pollinum á Ísafirði. Ljósmyndari óþekktur.
 
B.v. Helgafell RE 280 á leið til Þýskalands með fullfermi af karfa. Ljósmyndari óþekktur.



            Annar nýsköpunartogarinn kominn


Togarinn Helgafell, RE 280, sem er annar nýsköpunartogarinn, kom hingað til Reykjavíkur í gærmorgun, eftir fjögra sólarhringa siglingu frá Hull. Eigandi Helgafells er samnefnt hlutafjelag hjer í bæ. Helgafell er byggður eftir sömu teikningum og b.v Ingólfur Arnarson. Á leiðinni frá Englandi hrepti skipið slæmt veður og náði veðurhæðin 9 vindstigum. Skipstjórinn, Þórður Hjörleifsson, skýrði svo frá, að skipið hefði farið vel í sjó, enda þó að sjólag hafi verið slæmt. Skipið var með 160 smálestir af sementi, og með eldsneytisforða var það á hleðslumerkjum fyrir vöruflutninga. Strax í gær hófst vinna við að setja lýsisvinsluvjelar í skipið og að búa það undir fyrstu veiðiför sína. Búist er við að togarinn fari á veiðar fyrir hátíðar.
Eins og fyrr segir er skipstjóri Helgafells Þórður Hjörleifsson. Fyrsti stýrimaður er Pjetur Guðmundsson og yfirvjelstjóri er óskar Valdimarsson.

Morgunblaðið. 26 mars 1947.

Flettingar í dag: 1746
Gestir í dag: 97
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 743505
Samtals gestir: 56003
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 11:48:56