26.02.2023 11:41

B.v. Marz RE 261. TFXC.

Nýsköpunartogarinn Marz RE 261 var smíðaður hjá John Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1948. 684 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 55,89 x 9,17 x 4,55 m. Smíðanúmer 206. Skipaskrárnúmer 153. Eigandi var Marz hf (Tryggvi Ófeigsson útgerðarmaður) í Reykjavík frá aprílmánuði sama ár. Kom fyrst til heimahafnar, Reykjavíkur hinn 27 apríl árið 1948. Marz og Neptúnus voru systurskip og var þeim nokkuð breytt frá upphaflegri teikningu. Þar má nefna að skipin voru lengd um 8 fet og lunningar hækkaðar aftur fyrir vant. Þær voru svo fljótlega lengdar aftur fyrir svelginn. Marz var mikið afla og happaskip og oft í tölu aflahæstu skipa flotans og gerði mörg sölumetin í höfnum erlendis. Lengst af voru Þorsteinn Eyjólfsson, Markús Guðmundsson og Ásgeir Gíslason skipstjórar á Marz.
Marz RE 261 var sá fyrsti af togurum Tryggva Ófeigssonar sem var lagt. Var það hinn 26 nóvember árið 1971 eftir söluferð til Cuxhaven í Þýskalandi. Það var svo hinn 17 apríl árið 1974 að Úranus RE 343, hélt með Marz í togi áleiðis til Spánar, en þangað höfðu þeir báðir verið seldir í brotajárn.
 

B.v. Marz RE 261 á veiðum.                                       (C) Ásgrímur Ágústsson.



                                                        
         Marz siglir inn á Reykjavíkurhöfn


Hinn glæsilegi nýsköpunartogari, Marz, kom hingað til Reykjavíkur kl. að ganga 3 í gær. Þegar togarinn lagðist að bryggju var þar fjöldi fólks til þess að fanga skipi og skipverjum. Marz er systurskip Neptúnusar. Eru togararnir að öllu leyti eins og því stærstu togarar flotans. Skipstjóri á Marz er Þorsteinn Eyjólfsson, en aðrir yfirmenn eru Einar Jóhannsson 1. stýrimaður, Eðvald Eyjólfsson 2 stýrimaður Ingólfur Ólafsson 1 vjelstjóri, Gunnar Hestnæs 2 vélstjóri og 3 vélstjóri er Jónas Helgason.

Morgunblaðið. 28 apríl 1948.
 

B.v. Marz RE 261 við komuna til Reykjavíkur 27 apríl 1948. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 
B.v. Marz RE 261 að koma til hafnar.                 (C) Snorri Snorrason.
 

               Með átta þúsund tonna afla í trollið
  Markús á Marz líklega aflakóngur togveiðanna


Afli nýsköpunartogarans Marz RE 261 árið 1955 var tæp 8 þúsund tonn og telur Þórir Guðmundsson hjá Fiskifélaginu að þetta sé mestur afli togara á einu ári. Að sögn Markúsar Guðmundssonar sem var skipstjóri á Marz frá 1954- 1964 fékkst aflinn að mestu á Íslandsmiðum en fiskgegndin þá var ekki sambærileg við það sem gerist núna, þá var mun meira af fiski.
Alls fór Marz 18 veiðiferðir á árinu 1955 og að meðaltali varð hvert úthald 14 dagar. Mestur varð aflinn í einni veiðiferð tæp 366 tonn. Heildaraflinn á árinu varð 7.895 tonn og var allur fiskur nema karfi slægður en saltfiskur er umreiknaður í heildartölunni eftir stuðlum Fiskifélagsins. Vanalega fór Marz í næsta túr daginn eftir að síðasta túr lauk. Markús, sem hætti sem skipstjóri á Marz 1964 og tók þá við Júpíter og var þar til 1974, sagði að yfirleitt hefðu verið 28 manns í áhöfninni. Hann sagði að það hefði verið gott að fiska á Marz en skipið hefði ekki verið sérstakt sjóskip. Hann segir engin sérstök uppgrip þetta ár því fiskverð hafi verið mjög lágt. „Það var hampur í veiðarfærunum og ekki komin veiðarfæri úr gerviefnum. Hampurinn var þó snöggtum skárri en sísallinn sem var í veiðarfærum upp úr seinna stríði. Það var miklu veikara og lélegra garn en hampurinn. Samt var hampurinn ekki neitt sérstakur. Við fórum með sæmilega gott troll frá Vestur-Grænlandi og heim og lönduðum og til baka aftur og þá var trollið ónýtt. Það voru oft stór hol þarna en það þýddi oft ekkert að láta þetta í sjóinn. Hampurinn fúnaði svo fljótt," sagði Markús. Markús sagði að það væri ekki sama fiskgegnd núna. „Þeir geta alveg fiskað þessir menn og stunda sjóinn stíft margir en það vantar bara fiskinn. Þeir fara meira að segja mun dýpra en við fórum og geta stundað veiðarnar á verri botni en við gerðum," sagði Markús.
Marz var smíðaður í Englandi 1948 og eigandi skipsins var Marz hf. í Reykjavík. Skipið var selt til Spánar til niðurrifs og tekið af skrá í maímánuði 1974.

Morgunblaðið. 12 janúar 1994.
 

B.v. Marz RE 261 á útleið úr Reykjavíkurhöfn.       (C) Guðlaugur Óskarsson.



           Togarinn Marz setur sölumet á brezka markaðinum  


Togarinn Marz frá Reykjavík seldi afla sinn í Hull á miðvikudag og fimmtudag. Var Marz með 3.776 kitt, eða tæp 240 tonn, sem seldust fyrir 23.856 sterlingspund, eða kr. 2.867.491.20. Er þetta hæsta verð, sem nokkur togari hefur fengið á brezkum markaði. Skipstjóri á Marz er Ásgeir Gíslason, en eigandinn er Marz h.f. Afli togarans var mestmegnis flatfiskur og ýsa, sem veiddist á heimamiðum á 13 dögum. Fyrra sölumetið í Bretlandi átti togarinn Víkingur, sem sett var 12. og 13. maí 1965. Þá seldi Víkingur 276 tonn í Grimsby fyrir 22.575 sterlingspund. Afli Víkings var eingöngu þorskur af Vestur Grænlandsmiðum. Skipstjóri á togaranum er Hans Sigurjónsson. Morgunblaðið hafði tal af Ingimar Einarssyni, fulltrúa hjá Félagi Íslenskra botvörpuskipaeigenda í gær og spurðist fyrir um ástandið á brezka fiskmarkaðinum. Ingimar sagði, að lengi hefði verið mikið framboð á þorski en hins vegar verið skortur þar á flatfiski, en þó einkum ýsu. Hann sagði að auk Marz hefðu tveir aðrir togarar selt í Englandi í þessari viku. Hafnarfjarðartogarinn Surprise hefði selt í Grimsby sl. þriðjudag 175 tonn  fyrir 17.213 sterlingspund og hefðu um 70 tonn verið þorskur og ufsi en hitt ýsa og flatfiskur. Þá hefði togarinn Víkingur selt rúm 260 tonn af þorski af Vestur-Grænlandsmiðum í Grimsby s.l. miðvikudag og fimmtudag og hefði hann fengið 15.851 sterlingpund fyrir aflann. Loks gat Ingimar þess, að togarinn Þorkell máni myndi selja í Englandi n.k. mánudag.

Morgunblaðið. 4 júní 1966.
 

Landað úr b.v. Marz RE 261 í Reykjavíkurhöfn. Ljósmyndari óþekktur.
 
Nýsköpunartogarinn Marz RE 261.  (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.


               Nýsköpunartogararnir seldir í brotajárn


Endurnýjun flotans sem hófst 1972 var enn í fullum gangi 1974 og voru helztu viðburðir þessir: Kaldbaki EA-1 var lagt 14. janúar að lokinni söluferð til Englands, fór svo til Spánar 30. marz með Sléttbak EA-4 í togi þar sem skipin voru seld til niðurrifs. Úranus RE-343 landaði síðast í Reykjavík 7. marz og fór til Spánar hinn 17. apríl með Marz RE-261 í togi þangað sem þeir voru seldir í brotajárn. Svalbaki EA-2 var lagt 25. september, seldur í brotajárn til Spánar, og hélt þangað 8. október. Hjörleifur RE-211 landaði síðast í Þýzkalandi 21. nóvember og var afhentur brotajárnskaupendum á Spáni fimm dögum síðar.

Ægir. 21 tbl. 1 desember 1975.




 

Flettingar í dag: 1835
Gestir í dag: 101
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 743594
Samtals gestir: 56007
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 12:32:27