03.06.2023 07:17

B.v. Jarlinn ÍS 356. LBQJ.

Botnvörpungurinn Jarlinn ÍS 356 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby í Englandi árið 1906. Hét fyrst Earl Monmouth GY 124 og var í eigu Earl Steam Fishing Co Ltd í Grimsby. 277 brl. 465 ha. 3 þennslu gufuvél, smíðuð hjá Charles D Holmes & Co í Hull. 39,14 x 7,12 x 3,78 m. Smíðanúmer 360. Seldur 12 ágúst 1913, Fiskiveiðahlutafélaginu Græði á Ísafirði, hét þá Jarlinn ÍS 356. Seldur 31 október 1916, Fiskiveiðahlutafélaginu Hákoni Jarli í Reykjavík, hét þá Jarlinn RE 189. Seldur 5 september 1917, franska sjóhernum, fékk þá nafnið Maki og var í þjónustu þeirra frá 26 desember 1917 til 21 október 1919. Seldur 1919-20, Crespin, A Pichard et Cie í Dieppe í Frakklandi, sama nafn. Seldur 1924, Soc Dieppoise d‘ Arm á la Peche í Dieppe, hét þá Cecile l. Seldur 1927, L. Ballias & Cie í Lorient í Frakklandi, sama nafn. Þeir áttu einnig togarann Earl Hereford. Frá árinu 1931 bar togarinn nafnið Mogina. Seldur árið 1936, Soc d‘ Arm et des Pécheries de L‘ Atlantique í Lorient í Frakklandi, sama nafn. Togarinn skemmdist mikið í höfn í Lorient í október árið 1937 og var talinn ónýtur og síðan rifinn skömmu síðar.

Fiskiveiðahlutafélagið Græðir var stofnað í júlí árið 1912 á Ísafirði. Aðalforgöngumaður þess var Einar Jónsson frá Garðsstöðum, en hann var þá skipaafgreiðslumaður á Ísafirði. Hann var formaður og framkvæmdastjóri til dauðadags árið 1914. Þá tók við Sigurjón Jónsson skólastjóri barna og unglingaskólans á Ísafirði. Auk þessara tveggja manna var Árni Jónsson verslunarstjóri í fyrstu stjórninni, og Karl Olgeirsson framkvæmdastjóri mun einnig hafa verið viðriðin félagsstofnunina. Togari félagsins, Jarlinn ÍS 356 kom til landsins árið 1913 og var gerður út frá Ísafirði. Jarlinn var seldur hlutafélaginu Hákoni jarli í Reykjavík 31 október árið 1916.
Fiskiveiðahlutafélagið Hákon Jarl var stofnað í Reykjavík í október árið 1916. Aðalhvatamaður að því mun hafa verið Þorsteinn Jónsson kaupmaður frá Seyðisfirði, stundum nefndur Þorsteinn „borgari“, „grútur“, var hann einnig framkvæmdastjóri. Með honum í stjórn voru þeir Carl Proppé kaupmaður sem var formaður og Olgeir Friðgeirsson kaupmaður og konsúll, en varamenn þeir Þorsteinn Júlíus Sveinsson skipstjóri og Elías Lyngdal kaupmaður. Hlutafé var 180 þús. Kr. Á aðalfundi hlutafélagsins Hákonar jarls hinn 26 maí 1917, var Oddur Gíslason yfirréttarprókúrator kosinn meðstjórnandi í stað Olgeirs Friðgeirssonar. Útgerðarfélag þetta hafði aldrei mikil umsvif, og það seldi skip sitt, Jarlinn RE 189 til Frakklands haustið 1917, eins segir hér að ofan.

Heimildir: Saga íslenskrar togaraútgerðar fram til 1917. Heimir Þorleifsson 1974.
                  Birgir Þórisson.
 

B.v. Jarlinn ÍS 356, sennilega á Reykjavíkurhöfn. Mynd á gömlu póstkorti.




                           Fyrsti botnvörpungur Ísafjarðar

Loksins er hann kominn botnvörpungurinn, sem félagið „Græðir" hefir verið að reyna að hleypa af stokkunum. Fyrirhafnarlaust hefir það ekki gengið. Fyrst og fremst ófáanlegt lánsfé, nema af mjög skornum skamti Þar næst ómögulegt að fá skip bygt í fyrra sumar, eins og ráðgert hafði verið. Loks í sumar náðust kaup á botnvörpung þessum hjá Black útgerðarmanni í Grimsby í Englandi. Botnvörpungurinn er 6 ára gamall, 119 smálestir að stærð og vel útbúinn að öllu leyti. Skipið mun kosta hingað komið fast að 120 þús. kr. Botnvörpungurinn kom frá Englandi á miðvikudaginn; hann heitir „Earl Monmouth", og verður því nafni óefað breytt bráðlega. Skipverjar eru allir íslenskir, skipstjóri Þorgrímur Sigurðsson af Suðurnesjum, stýrimaður Loftur Ólafssön af Akranesi og vélameistari Ólafur Sveinsson (frá Hvilft í Önundarfirði). Skipið lagði héðan út á þorskveiðar strax nóttina eftir.

Vestri. 32 tbl. 23 ágúst 1913.
 

Jarlinn RE 189 á Reykjavíkurhöfn.                     (C) Magnús Ólafsson ?.



                                  „Earl Monmouth“

Botnvörpungurinn héðan, „Earl Monmouth", hefir tvívtgis selt afla sinn í Englandi; í fyrra skiftið fyrir 480 pd. sterl., en í síðara skiftið fyrir 500 pd. Skipið var hér inni á dögunum; hafði víða reynt fyrir fiski, en allstaðar mjög tregt um afla. Botnvörpungarnir syðra afla og mjög ilia.

Vestri. 39 tbl. 14 október 1913.
 

Smíðateikning af Earl Monmouth GY 124 / Jarlinn ÍS 356.  Úr safni mínu.



                                     „Jarlinn“ ÍS 356

Jarlinn, ísfirzki botnvörpungurinn, hefir verið seldur nýju útgerðarfélagi hér í bænum.

Morgunblaðið. 5 október 1916.
 

Gömul ljósmynd frá Ísafirði. Spurning hvort togarinn við bryggjuna sé Jarlinn. Ljósmyndari óþekktur.



                                         „Hákon jarl“

„Hákon jarl“ heitir félagið, sem keypti ísfirska botnvörpuskipið Jarlinn. Það var sett á laggirnar þann 23. þ. m. hér í bænum og verður Carl Proppé framkvæmdastjóri þess.

Vísir. 25 október 1916.

 

Flettingar í dag: 1192
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 742951
Samtals gestir: 55980
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 08:00:41