09.06.2023 09:00

2978. Oddeyrin EA 210. TFJL.

Togveiðiskipið Oddeyrin EA 210 var smíðuð hjá Kartensens Skibværft A/S í Skagen í Danmörku árið 2004. 942 Bt. 282 nt. 3.263 ha. Mak 8M25, 2.400 Kw. 55,2 x 10,5 x 7,2 m. Smíðanúmer 391. Hét fyrst Western Chieftain SO 237 og var í eigu Premier Trawlers Ltd (Frank Doherty) í Donegal á Írlandi en heimahöfn skipsins var í Sligo á Írlandi. Var uppsjávarveiðiskip og veiddi aðallega loðnu, síld og aðrar uppsjávartegundir. Var þá 661 Bt. 45,00 x 10,50 x 7,14 m. Þegar Samherji Ísland ehf kaupir skipið haustið 2020, er það lengt um 10 metra hjá Kartensens Skibværft í Skagen, þar sem það var smíðað,  og einnig ýmsar aðrar breytingar gerðar á því þar, t.d. útbúið vinnsludekk og fiskilest og svo sérútbúna tanka þar sem hægt er að geyma lifandi fisk og koma með hann í land eins ferskan og hægt er. Er þetta nýjung í sögu togveiða hér á landi og gott ef vel reynist. Oddeyrin fór í eina fjóra túra en ekki hef ég upplýsingar um hvernig gekk hjá þeim, eða hvort þeir hafi komið með lifandi fisk í land. Skipið hefur legið í höfn á Akureyri síðasta árið. Oddeyrin EA 210 er sannarlega fallegt skip.
 

2978. Oddeyrin EA 210.                           (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.




        Fyrsta skipið til að flytja lifandi bolfisk að landi

Oddeyrin EA-210 er væntanleg til landsins frá Danmörku en þetta nýjasta skip í skipastól Samherja hf. hefur verið í breytingum hjá Karstensens Skibsværft í Danmörku síðustu mánuði. Útfærsla skipsins er nýjung og markar algjöra sérstöðu í fiskiskipaflotanum hér á landi því skipinu er ætlað að hefja tilraunir með að koma með lifandi bolfisk að landi til vinnslu. Slíkt hefur ekki áður verið reynt hér á landi. Samherji hefur undirritað samning við Slippinn á Akureyri um smíði og uppsetningu á vinnslubúnaði í Oddeyrina EA en um er að ræða blöndu af hefðbundnu fyrirkomulagi og nýjungum sem tengjast meðferð og flutningi á lifandi fiski. Samningurinn við Slippinn felst í vinnslubúnaði sem settur verður um borð á Akureyri. Búnaðurinn er blanda af hefðbundnu og nýjungum, t.d. nýrri tegund af þvottatanki og stórum blóðgunarbrunnum sem Slippurinn hefur hannað. Blóðgunarbrunnarnir ná frá vinnsluþilfari að tanktoppi en þannig næst mikið rúmmál fyrir afla í blæðingu sem eykur gæðin. Þá verður komið fyrir krapavél frá KAPP ehf. sem bæði verður notuð til að kæla afla í vinnslu og í lest. Með þessu er lögð áhersla á blæðingu og kælingu á þeim afla sem slátrað er um borð. Hugmyndin er samt sem áður að sem hæst hlutfall afla fari lifandi í tanka og verði afhent þannig í land. Heildarverðmæti vinnslubúnaðar frá Slippnum er á annað hundrað milljónir króna. Oddeyrin EA hét áður Western Chieftain og var skipið gert út á Írlandi en Samherji hf. festi kaup á því í lok síðasta árs. Um er að ræða lítið notað og vel búið 45 metra langt uppsjávarskip. Umfangsmiklar breytingar á skipinu voru gerðar í Karstensens Skibsværft í Danmörku. Þar var skipið lengt um 10 metra og hefðbundnu vinnsludekki og fiskilest komið fyrir. Upphaflegir kælitankar í skipinu voru látnir halda sér en þeim breytt til að geyma lifandi fisk. Nýju dekkhúsi, sem mun hýsa flokkunaraðstöðu, var komið upp og unnið er að því að koma fyrir búnaði til flokkunar á afla eftir að honum er dælt um borð. Í lokaáföngum í breytingum var unnið í brú að uppfærslu á ýmsum búnaði og fiskleitartækjum sem henta betur til bolfiskveiða. Loks var skipið málað. Upphafleg verklok voru áætluð í mars en Covid-heimsfaraldurinn hefur haft sín áhrif til seinkunar. Verkið hefur jafnframt tekið ýmsum breytingum eftir að áhöfn og fleiri komu með þekkingu sína og reynslu að borðinu, að því er segir í upplýsingum frá Samherja hf.

Ægir. 4-5 tbl. 2021.
 

2978. Oddeyrin EA 210.                             (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.
 
2978. Oddeyrin EA 210.                           (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.
 
Western Chieftain SO 237.                                       (C) John Mc Meechan.


                   Oddeyrin EA-210


Svo ekki kalli á vandlætingar-hnuss skal strax tekið fram að Oddeyrin EA-210 er ekki nýsmíði heldur er hér um eldra skip að ræða, smíðað 2004 hjá Karstensens Skipbsværft á Jótlandi, hét þá Western Chieftain og átti heimahöfn í írsku borginni Sligo. Við kaup Samherja á skipinu var því á nýjan leik siglt til Skagen þar sem Danirnir söguðu það í tvennt og lengdu úr 45 metrum í 55 metra. Þótt ekki ræði hér um flunkunýtt skip brýtur það engu að síður blað í þróun sjávarútvegs á Íslandi. Dönsku skipasmiðirnir hjá Karstensen létu ekki sitja við að lengja skipið heldur gerðu þeir einnig gagngerðar breytingar á því, smíðað var hefðbundið vinnsludekk í skipið og útbúin fiskilest. Hjá þessu varð ekki komist þar sem Western Chieftain var smíðaður til veiða á síld, loðnu og öðrum uppsjávarfiskum. Oddeyrin EA er hins vegar ætluð til bolfiskveiða.
Erum við þá að nálgast hin miklu straumhvörf sem nú hillir undir í sögu sjávarútvegs á Íslandi. Veiðarfærið verður að vísu hefðbundin botnvarpa en í stað þess að draga hana upp í skutrennuna verður gamla síldveiðilagið haft á, pokinn tekinn á síðuna og dælt úr með öflugu sogdælukerfi. Þannig flyst fiskurinn lifandi í sérútbúna tanka um borð sem eru búnir sjódælukerfi sem tryggir að fiskurinn hafi nægt súrefni til að lifa af sjóferðina. Tankarnir eru alls sex, þar af fjórir til að geyma í lifandi fisk, allt að 45 tonn. Allir tankarnir eru sjókældir (RSW) en fullhlaðið tekur skipið 250 tonn af blóðguðum fiski, og er þá aflinn kældur í öllum sex tönkunum, og 65 tonn í lest. „Það verður nefnilega einnig hægt að stunda hefbundnar veiðar á Oddeyrinni,“ segir Hjörvar Kristjánsson skipaverkfræðingur og verkefnisstjóri á útgerðarsviði Samherja. Stærstu tímamótin eru þó, eins og áður segir, að senn mun Oddeyrin færa að landi lifandi fisk. Landvinnslufólk mun því fá þorskinn nánast spriklandi á færibandið, nær verður ekki komist að bjóða neytendum ferskan, ófrosinn fisk. Einnig er framtíðarsýnin sú, segir Heiðdís Smáradóttir, verkefna- og gæðastjóri Samherja fiskeldis, að fiskur úr sjó verði geymdur lifandi í kerjum á landi sem mun augljóslega efla afhendingaröryggi landvinnslunnar um allan helming. Þannig standa vonir Samherjamanna til þess að aflahrotur og aflabrestur jafnist út. Að lokum má geta þess að starfsmenn Slippsins á Akureyri leggja nú nótt við dag að smíða slægingarútbúnað sem setja skal um borð í Oddeyrina EA-210.

Sjómannablaðið Víkingur. 3 tbl. 1 mars 2021.

Flettingar í dag: 2229
Gestir í dag: 121
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 743988
Samtals gestir: 56027
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 17:06:33