11.07.2023 13:59

1395. Kaldbakur EA 301. TFBC.

Skuttogarinn Kaldbakur EA 301 var smíðaður hjá Astillaros Luzuriaga í Pasajes San Juan á Spáni árið 1974 fyrir Útgerðarfélag Akureyringa h.f. á Akureyri. 941 brl. 2 x 1.420 ha. MaK díesel vélar, 1.044 Kw hvor. 68,66 x 11,60 x 6,80 m. Smíðanúmer 313. Árið 1999 fær skipið skráninguna EA 1. Selt Brim h/f árið 2004, sama nafn og númer. Árið 2009 fær skipið nafnið Sólbakur EA 1. Selt árið 2011, Útgerðarfélagi Akureyringa h/f á Akureyri, fær aftur sitt gamla nafn. Í janúar árið 2017 fær skipið nafnið Sólbakur EA 301, því nýtt skip, Kaldbakur EA 1 sem þá var í smíðum í Tyrklandi, var  væntanlegur til landsins þá um vorið. Togarinn var seldur í brotajárn til Gallo Scrapyard í Ghent í Belgíu í september árið 2018.

Nú er aðeins einn eftir af þessum sex 1.000 tonna Spánartogurum hér á landi, það er 1345. Blængur NK 125 ex Freri RE 73 ex Ingólfur Arnarson RE 201. Blængur NK 125 er gerður út sem frystitogari af Síldarvinnslunni h.f. í Neskaupstað.
 

1395. Kaldbakur EA 301 á Eyjafirði.  (C) Snorri Snorrason. Mynd úr safni mínu.
 
1395. Kaldbakur EA 1.                                  (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.



                                         Kaldbakur EA 301


19. desember s.l. kom skuttogarinn Kaldbakur EA 301 til heimahafnar sinnar, Akureyrar, í fyrsta sinn. Kaldbakur EA er 4. skuttogarinn sem Útgerðarfélag Akureyringa h. f. eignast og fljótlega mun sá 5. bætast við, Harðbakur EA. Kaldbakur EA er smíðaður hjá spönsku skipasmíðastöðinni Astilleros Luzuriaga S. A., Pasajes de San Juan og er smíðanúmer 313. Áður hafði stöðin smíðað fjóra skuttogara fyrir Íslendinga eftir sömu teikningu. Fyrsti skuttogarinn af þessari gerð var Bjarni Benediktsson RE 210 (sjá 2. tbl. '73), en hinir þrír eru Júní GK, Snorri Sturluson RE og Ingólfur Arnarson RE. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á Kaldbak frá fjórum fyrstu og má þar helzt nefna véla og vindubúnað, sem er af annarri gerð.
Skuttogarinn er byggður skv. reglum Lloyd's Register of Shipping og flokkað +100 Al, Stern Trawler, Ice Class 3, + LMC. í 11. tbl. Ægis 1973 er fyrirkomulagsteikning af þessari skuttogaragerð, sem er með tvö heil þilför stafna á milli, lokaðan hvalbak fremst á efra þilfari og yfirbyggingu á tveimur hæðum aftast á hvalbaksþilfari, íbúðarhæð og brú. Undir neðra þilfari eru fremst hágeymar fyrir sjó kjölfestu og brennsluolíu; fiskilest með botngeymum undir lest fyrir brennsluolíu; vélarúm og aftast geymar fyrir brennsluolíu og ferskvatn. Á neðra þilfari eru íbúðir, vinnuþilfar, fiskmóttaka, stýrisvélarrúm, veiðarfærageymslur o. fl. Í hvalbak er geymsla, íbúðir og klefi fyrir togvindumótor. Aftarlega á togþilfari eru þilfarshús út í síðum, en þar eru geymslur o. fl. Samtals eru íbúðir fyrir 31 mann, sem samanstanda af 11 eins manns klefum, 7 tveggja manna og einum 6 manna klefa. Að auki er svo sjúkraklefi með tveimur hvílum.
Skipið er búið tveimur aðalvélum frá MAK, gerð 6M 452 AK, og skilar hvor um sig 1420 hö við 410 sn/mín. Niðurfærslugír er frá Renk, gerð ASL2xl00 S með niðurfærslu 2:1. Skiptiskrúfubúnaður er frá Kamewa, skrúfa 4ra blaða, þvermál 3100 mm. Inn á gírinn tengjast tveir 550 KVA, 3x380 V, 50 Hz riðstraumsrafalar frá Indar, hvor rafall. Riðstraumsmótor, 550 hö að stærð, knýr 355 KW, 440 V jafnstraumsrafal, sem sér rafmótor togvindu fyrir orku. Omformer þessi er frá AEG. Hjálparvélar eru tvær frá MWM, gerð TD—232—V12, 256 hö við 1500 sn/mín. Við hvora vél er Indar riðstraumsrafall, 200 KVA, 3x380 V, 50 Hz. Af öðrum vélabúnaði má nefna ferskvatnsframleiðslutæki frá Atlas, gerð AFGU 3, afköst 10 tonn á sólarhring og austurskilvindu frá Akers sem afkastar 10 tonn á sólarhring. Stýrisvél er frá Brusselle, gerð HSCE. 185R, snúningsvægi 14,2 tm við 35° útslag.

Ægir. 1 janúar 1975.
 

1395. Sólbakur EA 301.                            (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.
 
1395. Sólbakur EA 301 á endastöð í Ghent í Belgíu.  (C) Ronald Rofrifocus.



    Spánartogararnir hverfa hver af öðrum


Sólbakur EA 301 lagði að bryggju í Ghent í Belgíu í fyrrinótt eftir fjögurra sólarhringa siglingu frá Akureyri. Útgerðarfélag Akureyringa gerði skipið út í yfir 40 ár og bar það lengst af nafnið Kaldbakur EA 1. Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja, segir að skipið hafi alla tíð verið farsælt og fengsælt. Nú sé það hins vegar komið á aldur og fari í brotajárn í Belgíu. Með brotthvarfi skipsins úr flotanum er aðeins einn af stóru Spánartogurunum sex eftir á veiðum fyrir íslenskt útgerðarfyrirtæki, en frystitogarinn Blængur er í flota Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Öll voru skipin gerð út í áratugi til fiskveiða hér við land og reyndust yfirleitt mikil aflaskip. Miklar breytingar voru gerðar á sumum þeirra í áranna rás og nokkrum þeirra var breytt í frystitogara. Svo stiklað sé á stóru í sögu Spánartogaranna þá komu þeir til landsins á árunum 1973-1975. Þeir voru smíðaðir í Astilleros Luzuriaga S.A. skipasmíðastöðinni í Pasajes de San Juan skammt frá San Sebastian á Norður-Spáni.
Á áttunda áratugnum voru margir skuttogarar keyptir til landsins og voru Spánartogararnir meðal stærstu skipanna í þessum nýja flota. Kaupin á þeim voru gerð með atbeina stjórnvalda og með ríkisábyrgð. Þrjú skipanna fóru til Bæjarútgerðar Reykjavíkur, tvö fóru til Útgerðarfélags Akureyringa og einn Spánartogarinn til Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. Spánartogararnir voru smíðaðir eftir sömu teikningu, 68,7 metrar að lengd, og var Bjarni Benediktsson RE 210 fyrstur í þessari raðsmíði. Bæjarútgerð Reykjavíkur hf. gerði skipið út og kom það til heimahafnar 10 janúar 1973. Um tíma bar skipið nafnið Merkúr RE 800, en var selt í janúar 1987 til Sæbergs hf. á Ólafsfirði og fékk þá nafnið Mánaberg ÓF 42. Rammi hf. gerði skipið síðan út þar til það var selt til Múrmansk í Rússlandi í mars 2017. Júní HF var annar í röðinni, en skipið kom til Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar í byrjun júní 1973. Hvalur hf. keypti skipið og nafninu var breytt í Venus HF 519. Það var síðan selt til HB Granda. Venus var seldur til Grænlands árið 2015 og var það reyndar í annað skipti sem skipið var selt þangað, en sala tveimur árum áður hafði gengið til baka. Snorri Sturluson RE kom til BÚR í október 1973. Ísfélag Vestmannaeyja keypti skipið af Granda 2001 og gerði það út í nokkur ár. Snorri var síðan seldur til Petropavlovsk á Kamchatka í Rússlandi 2008.
Ingólfur Arnarson RE 201 kom nýr til Bæjarútgerðar Reykjavíkur í janúar 1974. Skipið fékk síðar nafnið Freri og var gert út af Ögurvík frá 1985, en Síldarvinnslan í Neskaupstað keypti skipið sumarið 2015 og heitir það nú Blængur NK. Kaldbakur EA 1 kom til Akureyrar skömmu fyrir jól 1974 og var gerður út af Útgerðarfélagi Akureyringa þar til nú að hann hefur verið seldur til niðurrifs. Skipið fékk nafnið Sólbakur EA 301, er nýr Kaldbakur EA 1 kom til landsins frá Tyrklandi á síðasta ári. Rannsóknarskipið Poseidon var áður Harðbakur EA og kom til ÚA á Akureyri í mars 1975, síðastur Spánartogaranna. Skipinu var breytt hjá Slippstöðinni Akureyri 2009 vegna nýrra verkefna og hefur m.a. verið notað til aðstoðar við olíuleit.

Morgunblaðið. 22 september 2018.

Flettingar í dag: 186
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 1233
Gestir í gær: 237
Samtals flettingar: 735952
Samtals gestir: 54646
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 03:36:13