14.07.2023 22:07

B.v. Ingólfur Arnarson RE 1. LCHS.

Botnvörpungurinn Ingólfur Arnarson RE 1 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby í Englandi árið 1920 fyrir Fiskiveiðahlutafélagið Hauk í Reykjavík. 327 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél, smíðuð hjá Amos & Smith í Hull. 42,8 x 7,3 x 3,3 m. Smíðanúmer 736. Seldur 14 mars 1922, p.f. Tjaldi í Vogi í Færeyjum, hét þá Royndin TG 634. Mánuði síðar var togarinn kominn í eigu Fýra Handils & Reyðaravirki (J. Dhal á Görðunum og fl.) í Vogi í Færeyjum, sama nafn og númer. Seldur í febrúar 1931, Boston Deep Sea Fishing & Ice Co Ltd í Grimsby, hét Daily Telegraph GY 367. Seldur 1932-33, Pésheries Saint Pierre Ficheux í Boulogne í Frakklandi, hét þá LA Viérge aux Roses. Seldur í mars 1934, Bæjarútgerð Hafnarfjarðar h.f., hét þá Júní GK 345. Togarinn strandaði við Mosasker á Sauðanesi í Önundarfirði 1 desember árið 1948. 24 mönnum af áhöfn Júní var bjargað á fleka um borð í nýsköpunartogarann Ingólf Arnarson RE 201 frá Reykjavík og 3 var bjargað á land af björgunarmönnum frá Suðureyri sem komu á strandstað. Togarinn eyðilagðist á strandstað.

 

Fiskiveiðahlutafélagið Haukur var stofnað á haustmánuðum árið 1912 í Reykjavík. Pétur Jens  Thorsteinsson var framkvæmdastjóri þess og einn af eigendum félagsins. Haukur var sameignarfélag, er eftirtaldir menn áttu auk Péturs hlut í því, Jóhannes Magnússon kaupmaður, Jón Magnússon fiskmatsmaður, Ingimundur Jónsson kaupmaður, Þorsteinn Jónsson járnsmiður, Sveinn Björnsson málflutningsmaður, Pétur Bjarnason skipstjóri og Jón Einarsson frá Vestmannaeyjum. Átti hver þeirra 1/8 hlut í félaginu. Félagið lét smíða árið 1912 í Englandi, stærsta togara er Íslendingar eignuðust fyrir fyrra stríð, Ingólf Arnarson RE 153. 307 brl. Annan togara eignaðist félagið árið 1916, það var Þorsteinn Ingólfsson RE 170, 265 brl, smíðaður í Hollandi árið 1904. Báðir voru þessir togarar seldir til Frakklands haustið 1917. Hauksfélagið lét smíða fyrir sig 2 togara í Selby í Englandi árið 1919. Sá fyrri var Ingólfur Arnarson RE 1 (sjá hér að ofan), kom til landsins í mars 1920. Hinn togarinn var Þorsteinn Ingólfsson RE 2 327 brl. Hann kom um sumarið 1920. Þegar Hauksfélagið varð gjaldþrota árið 1922, voru báðir þessir togarar seldir. Ingólfur Arnarson var seldur til Færeyja en Þorsteinn Ingólfsson var seldur h.f. Alliance í Reykjavík og hét hjá þeim Tryggvi gamli RE 2.

Heimildir: Saga Íslenskrar togaraútgerðar fram til 1917. Heimir Þorleifsson 1974.
                  Glottar úr trolarasögunni. Óli Ólsen 2019.
 

Ingólfur Arnarson RE 1 nýsmíðaður út í Hull.                     Mynd úr safni mínu.




                                 Ingólfur Arnarson

Í vikunni kom hingað nýr botnvörpungur, Ingólfur Arnarson, sem Hauksfélagið á. Skip þetta er af sömu stærð og „Ari“ sem hingað kom fyrir nokkrum vikum. Er það mjög vandað í alla staði og einkar hentugur frágangur á öllu undir þiljum. Skip þetta átti að verða tilbúið í síðastliðnum októbermánuði, en smíðin hefir tafist, svo að skipið varð eigi tilbúið fyr en nú. Fiskiveiðafélagið Haukur á von á öðru skipi, Þorsteini Ingólfssyni í næsta mánuði. Skipstjóri á Ingólfi er Pétur Bjarnason.

Ísafold. 23 tbl. 31 maí 1920.

Flettingar í dag: 186
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 1233
Gestir í gær: 237
Samtals flettingar: 735952
Samtals gestir: 54646
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 03:36:13