19.07.2023 10:32

B.v. Otur RE 245. LCJR / TFOD.

Botnvörpungurinn Otur RE 245 var smíðaður hjá Schiffsbau Gesellechafts Unterweser í Lehe (Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1921 fyrir h.f Otur í Reykjavík. 316 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 44,21 x 7,72 x 3,67 m. Smíðanúmer 185. 21 maí árið 1938 var skipið komið í eigu Útvegsbanka Íslands. Selt 30 desember 1938, Hrafna-flóka hf. í Hafnarfirði, hét Óli Garða GK 190. Talinn ónýtur og seldur í brotajárn árið 1955.
Við norðanverðan Fossvoginn má sjá hluta af flaki hans sem kemur vel uppúr á fjöru. Einnig má sjá togspil togarans í Drafnarslippnum í Hafnarfirði.

Fiskiveiðahlutafélagið Otur var stofnað í Reykjavík í maí árið 1919. Formaður og framkvæmdastjóri félagsins var Einar Markússon. Meðstjórnendur voru Leifur Þorleifsson og J.B. Pétursson.
 

B.v. Otur RE 245.                                                     (C) Guðbjartur Ásgeirsson.




                                      Otur RE 245


 „Otur“ heitir nýr botnvörpungur, smíðaður í Þýskalandi, sem hingað kom í morgun. Eigendur eru h.f. Otur í Reykjavík.

Vísir. 13 febrúar 1922.
 

B.v. Óli garða GK 190 í kröppum sjó.                 (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

 

                 Togarinn Otur seldur til Hafnarfjarðar
                  og heitir nú „Óli Garða“

 

Togarinn „Otur“ hefir verið seldur til Hafnarfjarðar, og fer því togurunum hér í bænum stöðugt fækkandi. Það er hlutafélag í Hafnarfirði, sem kaupir togarann og gerir hann út. Var hlutafélagið stofnað í gærkveldi og heitir það „Hrafna-Flóki“. Í stjórn félagsins eru Kjartan Ólafsson formaður, Emil Jónsson og Björn Jóhannesson. Skipið skiptir um nafn og heitir nú „Óli Garða“. Er það látið heita í höfuðið á öldruðum sjómanni í Hafnarfirði, sem lengi var í Görðum á Álftanesi, kunnur formaður, afburða aflamaður og hinn mesti sjósóknari. Virðist nafnið vel valið. Framkvæmdastjóri félagsins verður Ásgeir Stefánsson framkvæmdastjóri Bæjarútgerðarinnar og er svo ráð fyrir gert, að bókhald félagsins og verkun afla skipsins verði á vegum bæjarútgerðarinnar. Skipstjóri á „Óla Garða“ verður Baldvin Halldórsson, sem var með Júní.
Við Júní tekur Halldór Guðmundsson, sem áður var með Rán og síðan með Maí, en við Maí tekur Benedikt Ögmundsson. Hlutafé „Hrafna-Flóka" er40 þúsund krónur, en kaupverð togarans var 160 þúsund krónur. „Otur“ hafði legið hér lengi aðgerðalaus. Þegar hann kom úr „klössun" í Englandi var honum lagt hér og fór alls ekki á síld, en nú fer hann strax á veiðar á morgun. Það er gleðiefni fyrir Hafnfirðinga, að skipastóll þeirra eykst, enda hafa togararnir í Hafnarfirði verið reknir af meiri krafti en flestir togararnir hér í Reykjavík. Með þessu nýja skipi eykst atvinnan í Hafnarfirði.

Alþýðublaðið. 30 desember 1938.

Flettingar í dag: 194
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 1233
Gestir í gær: 237
Samtals flettingar: 735960
Samtals gestir: 54646
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 03:57:41