28.07.2023 18:17
484. Guðrún ST 22.
Vélbáturinn Guðrún ST 22 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1925. Eik og fura.18 brl. 9 nettó. 36 ha. Dan vél. 12,84 x 3,21 x 1,66 m. Hét fyrst Garðar lll VE 111 og voru eigendur Kristinn Ólafsson og fl. Í Vestmannaeyjum. Frá árinu 1930 eru Guðni og Ársæll Grímssynir og Sigurður P Oddsson í Vestmannaeyjum eigendur bátsins, hét þá Maggý VE 111. Ný vél (1933) 55 ha. June Munktell vél. Ný vél (1947) 80 ha. Säffle vél. Frá 4 júní 1952 voru eigendur bátsins Guðjón Ólafsson og Ólafur Erlendsson í Vestmannaeyjum, hét Stakkur VE 22. Frá 26 maí 1954 voru eigendur bátsins Gunnar Guðjónsson og Ingólfur Guðjónsson á Eyri í Ingólfsfirði á Ströndum. Ný vél (1959) 88 ha. Kelvin vél. Eigendur frá 13 nóvember 1971 voru Kristján Jakobsson og Jóhannes Þórðarson í Stykkishólmi, hét þá Guðrún SH 32. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 1 ágúst árið 1973.
Þeir Eyrarbræður, Gunnar og Ingólfur tóku að sér sumarpóstferðir árið 1955, við vestanverðan Húnaflóa í samvinnu við Skipaútgerð ríkisins. Farið var frá Ingólfsfirði suður til Hólmavíkur og allra hafna þar á milli. Þessum ferðum héldu þeir uppi þangað til akfær sumarvegur kom norður Strandir til Ingólfsfjarðar, og sérleyfisferðir hófust á þeirri leið.
Jafnframt fóru þeir að stunda rækjuveiðar og gaf það góða raun. Þó var skortur á fólki til að skelfletta rækjuna, en þá gátu þeir fengið markað fyrir hana soðna niður óskelfletta. Þannig störfuru þeir að þessu í nokkur ár, en létu þó skelfletta eftir því sem vinnuafl fékkst til.
Heimild að hluta:
Hrundar borgir. Djúpavík, Ingólfsfjörður og Gjögur. Þorsteinn Matthíasson 1973.
![]() |
Guðrún ST 22. Ljósmyndari óþekktur. |
Flóabáturinn Guðrún
Guðrún mun halda uppi vikulegum ferðum frá miðjum maí til septemberloka milli hafna frá Ingólfsfirði til Hólmavikur í sambandi við áætlunarbifreiðina. Fer báturinn á þriðjudagsmorgnum frá Ingólfsfirði á suðurleið og frá Hólmavík samdægurs á norðurleið eftir komu áætlunarbifreiðar. Báturinn mun fara í nokkurn veginn annarri hverri ferð norður til Reykjarfjarðar nyrðri með viðkomu á Dröngum samkvæmt nánara samkomulagi við aðila þar.
Tíminn. 11 maí 1955.