28.07.2023 18:17

484. Guðrún ST 22.

Vélbáturinn Guðrún ST 22 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1925. Eik og fura.18 brl. 9 nettó. 36 ha. Dan vél. 12,84 x 3,21 x 1,66 m. Hét fyrst Garðar lll VE 111 og voru eigendur Kristinn Ólafsson og fl. Í Vestmannaeyjum. Frá árinu 1930 eru Guðni og Ársæll Grímssynir og Sigurður P Oddsson í Vestmannaeyjum eigendur bátsins, hét þá Maggý VE 111. Ný vél (1933) 55 ha. June Munktell vél. Ný vél (1947) 80 ha. Säffle vél. Frá 4 júní 1952 voru eigendur bátsins Guðjón Ólafsson og Ólafur Erlendsson í Vestmannaeyjum, hét Stakkur VE 22. Frá 26 maí 1954 voru eigendur bátsins Gunnar Guðjónsson og Ingólfur Guðjónsson á Eyri í Ingólfsfirði á Ströndum. Ný vél (1959) 88 ha. Kelvin vél. Eigendur frá 13 nóvember 1971 voru Kristján Jakobsson og Jóhannes Þórðarson í Stykkishólmi, hét þá Guðrún SH 32. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 1 ágúst árið 1973.

Þeir Eyrarbræður, Gunnar og Ingólfur tóku að sér sumarpóstferðir árið 1955, við vestanverðan Húnaflóa í samvinnu við Skipaútgerð ríkisins. Farið var frá Ingólfsfirði suður til Hólmavíkur og allra hafna þar á milli. Þessum ferðum héldu þeir uppi þangað til akfær sumarvegur kom norður Strandir til Ingólfsfjarðar, og sérleyfisferðir hófust á þeirri leið.
Jafnframt fóru þeir að stunda rækjuveiðar og gaf það góða raun. Þó var skortur á fólki til að skelfletta rækjuna, en þá gátu þeir fengið markað fyrir hana soðna niður óskelfletta. Þannig störfuru þeir að þessu í nokkur ár, en létu þó skelfletta eftir því sem vinnuafl fékkst til.

Heimild að hluta:
Hrundar borgir. Djúpavík, Ingólfsfjörður og Gjögur. Þorsteinn Matthíasson 1973.
 

Guðrún ST 22.                                                                       Ljósmyndari óþekktur.



                     Flóabáturinn Guðrún


Guðrún mun halda uppi vikulegum ferðum frá miðjum maí til septemberloka milli hafna frá Ingólfsfirði til Hólmavikur í sambandi við áætlunarbifreiðina. Fer báturinn á þriðjudagsmorgnum frá Ingólfsfirði á suðurleið og frá Hólmavík samdægurs á norðurleið eftir komu áætlunarbifreiðar. Báturinn mun fara í nokkurn veginn annarri hverri ferð norður til Reykjarfjarðar nyrðri með viðkomu á Dröngum samkvæmt nánara samkomulagi við aðila þar.

Tíminn. 11 maí 1955.

Flettingar í dag: 2124
Gestir í dag: 116
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 743883
Samtals gestir: 56022
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 15:34:32