22.08.2023 14:35

Fimm togarar í slipp í Reykjavík.

Á þessari ljósmynd Péturs Thomsens frá árinu 1962-63 má sjá fjóra nýsköpunartogara og einn hinna þýskbyggðu 1.000 tonna togara í slippnum hjá Slippfélaginu í Reykjavík. Eins og myndin ber með sér, hefur verið meira en nóg að gera þessa daganna hjá starfsmönnum Slippfélagsins. Það hefur sjálfsagt ekki verið nein nýlunda hjá þeim að hafa mörg skip uppi í einu, og ekkert vandamál hjá þeim Slippfélagsmönnum að skvera þau til og mála á sem skemstum tíma og koma þeim aftur á flot svo þau geti haldið til veiða. Falleg mynd af fallegum skipum sem farin eru fyrir margt löngu nema sá þýskbyggði, en hann fór af landi brott til niðurrifs haustið 2013. Togarinn næst okkur er:,
Bjarni Ólafsson AK 67, smíðaður hjá John Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947. 661 brl. Var í eigu Bæjarútgerðar Akraness.
Marz RE 261, smíðaður hjá John Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1948. 684 brl. Var í eigu Marz h.f. (Tryggvi Ófeigsson) í Reykjavík.
Egill Skallagrímsson RE 165, smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby í Englandi árið 1947. 654 brl. Var í eigu h.f. Kveldúlfs í Reykjavík.
Neptúnus RE 361, smíðaður hjá John Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947. 684 brl. Var í  eigu Júpíters h.f (Tryggvi Ófeigsson) í Reykjavík.
Sigurður ÍS 33, smíðaður hjá A.G. Weser Werk Seebeck í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1960. 987 brl. Var í eigu Ísfells h.f. á Flateyri.
Það hefur margt breyst þarna í umhverfi slippsins síðan þessi mynd var tekin fyrir einum 60 árum. Grandinn óþekkjanlegur miðað við hvernig hann er í dag. Margt annað hefur breyst á þessum tíma, en er sú breyting til hins betra eða ekki, en það er önnur saga.
 

Fimm togarar í slipp hjá Slippfélaginu í Reykjavík.              (C) Pétur Thomsen.




                     Saga velgengni og erfiðleika


Slippfélag Reykjavíkur er 100 ára um þessar mundir. Þar á bæ segja menn að saga sjávarútvegs í landinu sé jafn gömul landnáminu. „Slipp-starfsemi“ var þó í byrjun engin og lengi vel harla frumstæð og það var ekki fyrr en 15. mars 1902 sem Slippfélagið við Faxaflóa var stofnað fyrir atbeina Tryggva Gunnarssonar. 1903 var nafni fyrirtækisins síðan breytt í það sem það er í dag. Fyrirtækið á sér því langa sögu þó að í dag snúist starfsemin um allt annað en hún gerði á upphafsárunum. Ýmsir stjórnendur leiddu fyrirtækið í gegn um margvíslega umbrotatíma síðustu aldar og var ýmist dauðinn lapinn úr skel, eða það var uppgangur og góðæri. Árið 1930 höfðu verið mikil vandræði, en þeir Benedikt Gröndal og Hjalti Jónsson (Eldeyjar-Hjalti) koma þá inn sem nýir hluthafar, með aukið hlutafé og úr varð sameining við Vélsmiðjuna Hamar sem efldi bæði fyrirtækin. Árið 1932 var mikilvægt ár í sögu fyrirtækisins, en þá tók við stjórnvelinum ungur verkfræðingur að nafni Sigurður Jónsson. Hann sá til þess að tvær dráttarbrautir upp á 600 og 800 tonn voru byggðar og þar með var hægt að sinna öllum skráðum innlendum fiskiskipum. Sigurður sat í 37 ár og lét af störfum 1968. Einn kafli í sögu fyrirtækisins er þáttur verslunarinnar. Strax á fyrstu árunum var rekin smásöluverslun með vörur tengdar skipaviðgerðum. Þegar árið 1906 var kominn alvöru rekstur og jókst með tímanum. Árið 1951 urðu síðan tímamót sem mótuðu Slippfélagið til framtíðar. Gerður var samstarfssamningur milli Hempels Main Paint í Danmörku og Slippfélagsins í Reykjavík um framleiðslu Hempels-skipamálningar. Fyrirtækið hafði frá fornu fari verið til húsa við Mýrargötuna, en gat ekki haldið þar til eftir að hefjast átti handa við málningarframleiðslu. Lóð við Dugguvog varð fyrir valinu og fyrirtækið kom sér þar upp nýjum bækistöðvum. Bygging málningarverksmiðjunnar hófst 1968 og var henni lokið í þremur áföngum. Fóru menn rólega í sakirnar, en allt fór á besta veg og hefur reksturinn lengst af verið góður.
Framleiðsla hófst 1970 og á síðasta áratug síðustu aldar komst framleiðslan í eina milljón lítra og var verksmiðjan þá sú stærsta í landinu. Upphaflega var eingöngu framleidd botnmálning en fljótlega bættist skipalakk og þakmálning við. Nú er á ferðinni alhliða málningarverksmiðja sem er í fararbroddi með notkun vistvænna efna. Árið 1986 var tekin upp samvinna við málningarframleiðandann Alcro, síðar Alcro-Beckers, í Svíþjóð til þróunar á vatnsþynnanlegri akrílmálningu. Samstarfið við Svía og Dani hefur verið mjög gott að sögn Slippfélagsmanna, enda báðar þjóðirnar í fremstu röð umhverfissinna í heiminum. Slippfélagið í Reykjavík varð fyrst á Íslandi til að framleiða t.d. eiturefnalausa botnmálningu fyrir skip og vatnsþynnanlega þakmálningu og mætti nefna fleira. Hinn 1. janúar 1989 urðu grundvallarbreytingar á rekstri félagsins þegar það seldi Stálsmiðjunni hf. Í Reykjavík eignir sínar við vesturhöfnina. Þar á meðal allt sem til varð í upphafi, brautir og byggingar. Slippfélagið hefur þó aldrei slitið tengslin við uppruna sinn og á erfiðleikatímum í skipasmíðaiðnaðinum tók fyrirtækið þátt í endurreisn Stálsmiðjunnar og er nú stærsti hluthafinn í Stáltaki, sem varð til við samruna Stálsmiðjunnar og Slippstöðvarinnar á Akureyri. Eftir þessar breytingar felur starfsemi Slippfélagsins í Reykjavík í sér nær eingöngu framleiðslu á málningu og ýmsu því tengdu. Frá upphafi tengdist málningarframleiðslan eingöngu útgerðarfyrirtækjum en með breyttum tímum eru tengslin ekki síður við málara og almenna neytendur, þó útgerðin skipi ennþá stóran sess meðal viðskiptavina. Slippfélagið er með umboðsmenn um land allt og heldur reglulega námskeið fyrir málarameistara auk þess að sækja kaupstefnur og námskeið víða um Evrópu til að vera ávallt í fararbroddi hvað fagmennsku varðar, að því er þeir Slippfélagsmenn segja.

Morgunblaðið. 17 mars 2002.

Flettingar í dag: 1192
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 742951
Samtals gestir: 55980
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 08:00:41