01.09.2023 04:31

1137. Barði NK 120. TFTS.

Skuttogarinn Barði NK 120 var smíðaður hjá Ateliers et Chantiers de la Manghe í Dieppe í Frakklandi árið 1967. 328 brl. 1.200 ha. Deutz vél. 43,20 x 8,92 x 5,84 m. Hét áður Mausson LR 5207 og var gerður út frá La Rochelle í Frakklandi. Barði var fyrsti skuttogarinn í eigu Síldarvinnslunnar h/f í Neskaupstað, og kom fyrst til heimahafnar, hinn 14 desember árið 1970. Togarinn hóf veiðar 11 febrúar árið 1971 og þar með var hin eiginlega skuttogaraöld Íslendinga hafin. Barði átti tvö systurskip hér á landi, 1138. Hólmatind SU 220 og 1145. Hegranes SK 2, en hann var töluvert minni en þeir. Barði var seldur til Frakklands, 24 október 1979. Var hann tekin uppí, í kaupum Síldarvinnslunnar á nýrra skipi í stað Barða. Þótti hann orðinn of gamall og bilanagjarn auk þess sem erfitt var að koma fyrir kössum í lest skipsins og því algengt að helmingur aflans í hverri veiðiferð væri ísaður í stíur. Fóru togaraskiptin fram í Boulogne þann 2 nóvember sama ár. Fékk nýja skipið sama nafn, og var smíðaður í Póllandi árið 1975 og hafði heitið áður Boulonias. Gamli Barði fékk nafnið Boulonais BL 463291, og mun hafa verið gerður út frá Boulogne.

Heimild að hluta;
Norðfjörður, saga útgerðar og fiskvinnslu. Smári Geirsson 1983.

                      Hvað er skuttogari og hver var fyrsti íslenski skuttogarinn

Stundum þrefa menn um eitthvað sem skiptir litlu máli. Oft hefur til dæmis verið þráttað um það hver fyrsti íslenski skuttogarinn hafi verið. Norðfirðingar hafa haldið því fram að það hafi verið Síldarvinnslutogarinn Barði sem kom í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað 14. desember 1970 og í kjölfar hans kom systurskipið Hólmatindur til Eskifjarðar. Aðrir hafa bent á að Siglufjarðarskipin Siglfirðingur og Dagný hafi tekið trollið inn að aftan og því hljóti þau að vera á undan Barða í skuttogararöðinni. Árið 1979 birtust fróðlegar greinar í Ægi um þróun í gerð og búnaði fiskiskipa og var þar meðal annars fjallað um skuttogara og helstu einkenni þeirra. Greinarnar byggðu á erindi sem Auðunn Ágústsson og Emil Ragnarsson fluttu á ráðstefnu sem Verkfræðingafélag Íslands hélt í marsmánuði 1979. Í umræddum greinum er meðal annars skilgreint með skýrum hætti hvað skuttogari er og er þá gerður samanburður á síðutogara og skuttogara. Skilgreiningin er svofelld:

Þegar síðutogari og skuttogari eru bornir saman eru æðimargir þættir í hönnun og fyrirkomulagi frábrugðnir þótt veiðarfærið sjálft sé í grundvallaratriðum það sama. Meginmunurinn er tvö heil þilför milli stafna á skuttogara, gafllaga skutur með skutrennu upp á efra þilfar, yfirbygging framskips, íbúðir almennt framskips og togþilfar á afturþilfari…

Í tækjabúnaði verða meginbreytingar í veiðibúnaði og búnaði við meðhöndlun á aflanum. Vindueiningum fjölgar, þar sem við bætast allar þær hjálparvindur og hjálpartromlur sem ekki voru fyrir hendi á síðutogurum, en almennt var aðeins um koppa á togvindu að ræða. Togvindum og ýmsum hjálparvindum er nú fjarstýrt frá brú, en á síðutogurunum var togvindunni stjórnað við sjálfa vinduna. Í sambandi við meðhöndlun aflans, sem nú fer fram undir lokuðu þilfari, kemur aukin hagræðing og nýr búnaður …

 Niðurstaða greinarhöfundanna er skýr: Fyrsti skuttogari Íslendinga var Barði frá Neskaupstað. Þeir fjalla einnig um siglfirsku skipin sem áður voru nefnd. Þeir orða niðurstöðu sína þannig:

 Fyrsti skuttogari Íslendinga var Barði NK 120, keyptur frá Frakklandi í desember 1970, en byggður þar árið 1967. Áður, eða í ágúst 1970, var keypt frá Þýskalandi til landsins togskip af hollenskri gerð, sem hlaut nafnið Dagný SI 70. Það skip var ekki með heilt efra þilfar aftur að skut og án rennu en síðar var því breytt, byggð skutrenna og aftasta hluta neðra þilfars lokað. Rétt er þó að nefna hér að árið 1964 var byggt í Noregi tog- og síldveiðiskip, Siglfirðingur SI 150, eins þilfars afturbyggt skip með skutrennu sem er því í reynd fyrsta íslenska skipið með skutrennu en fellur ekki inn í skilgreiningu þá sem hér er lögð til grundvallar fyrir skuttogara. 

Skilgreining sú á skuttogara sem greinarhöfundarnir byggja á er almennt viðurkennd og ætti því að vera óþarfi að þrefa frekar um það hver var fyrsti skuttogari landsmanna. Hitt er svo annað mál að tilkoma Barða var undanfari skjótra og viðamikilla breytinga; um áramótin 1978-1979 áttu Íslendingar orðið hvorki fleiri né færri en 79 skuttogara og sjávarútvegur landsmanna hafði tekið miklum stakkaskiptum á tæpum áratug.  


Greinargerð Auðuns Ágústssonar og Emils Ragnarssonar.
Flutt á ráðstefnu sem Verkfræðingafélag Íslands hélt árið 1979.
 

Barði NK 120 á leið til löndunar í Neskaupstað.         (C) Guðmundur Sveinsson.



         Skuttogari til Neskaupstaðar


Skuttogarinn Barði NK 120 kom til Neskaupstaðar í gærmorgun en togarann keypti Síldarvinnslan hf. þriggja ára frá Frakklandi án siglingatækja fyrir 42 milljónir króna og sagði Ólafur Gunnarsson, frvstj. Síldarvinnslunnar, Morgunblaðinu í gærkvöldi, að kostnaður við togarakaupin væri áætlaður um 50 milljónir króna. Barði er 490 tonn, búinn 1200 hestafla aðalvél og gekk á heimleið 12,5 mílur. Á heiimleiðinmi kom togarinn við í Grimsby og tók þar veiðarfæri og í Stavanger voru settar um borð í nann vélar í síldarniðursuðuverksmiðju, sem Síldarvinnslan hf. er að byggja. Ólafur sagði, að nokkrar lagfæringa yrðu gerðar á togaranum í Neskaupstað en reiknað er með að hann hefji veiðar síðari hluta janúarmánaðar næstkomandi Skipstjóri á Barða er Magni Kristjánsson en alls verður áhöfn 14 manns.
Barði er fjórða skip Síldarvinnslunnar hf., hin  eru : Birtingur NK 119, Bjartur NK 121 og Börkur NK 122. Bjartur hefur verið á veiðum við Suðurland undanfarið en hinir tveir eru nýkomnir heim úr Norðursjó.

Morgunblaðið. 15 desember 1970.
 

Barði NK 120 á toginu innan um gömlu síðutogarana. Framan við Barða er Hafliði SI 2 og á milli þeirra má sjá Egil Skallagrímsson RE 165. (C) Ásgrímur Ágústsson.
 
Barði NK 120 á toginu í Grindavíkurdýpi árið 1977.
 
Landað úr Barða í Neskaupstað. Maðurinn sem heldur um löndunarmálið er Ægir Ármannsson. Mennirnir sem standa innan í skeifunni eru Jóhannes Sveinbjörnsson og Ólafur Gunnarsson forstjóri Síldarvinnslunnar.  (C) Guðmundur Sveinsson.

                                       Fyrsta veiðiferðin


Á miðvikudagsmorgun kom Barði úr sinni fyrstu veiðiferð sem íslenzkt skip. Hafði hann aðeins verið úti nokkra daga og oft verið bræla. Afli skipsins var um 40 tonn. Allur útbúnaður reyndist í lagi og láta skipverjar vel af skipinu og vinnuaðstöðu um borð. Hólmatindur, Eskifirði, er nú í sinni fyrstu veiðiferð eftir að skipið komst í eigu íslendinga.

Austurland. 19 febrúar 1971.
 

Barði NK 120 í hópsiglingu á Norðfirði á sjómannadag.  (C) Gunnar Þorsteinsson.

 

Barði NK 120 við bræðslukanntinn.                             (C) Guðmundur Sveinsson.

 

Barði NK 120 í slipp Dráttarbrautarinnar h.f. í Neskaupstað. (C) Ljósmyndari óþekktur.




                          Barði NK 120 í slipp

Barði kom úr veiðiferð á föstudag í fyrri viku með um 114 tonn. Hefur þá skipið fengið um 2.200 tonn síðan það hóf veiðar um miðjan febrúar. Skipið hefur ekki farið út aftur eftir losun fyrir helgina, vegna viðgerða og lagfæringa. Í gær fór það í slipp til botnhreinsunar og málunar og er stærsta skip, sem tekið hefur verið í slipp í Neskaupstað.
Að því er verulegt hagræði og sparnaður fyrir útgerðina, að hægt er að taka Barða hér í slipp. Fyrir áhöfnina er það líka miklu hagkvæmara og Dráttarbrautin fær við þetta aukin viðskipti. Sem sagt: Allir aðilar hagnast á þessu og er það gott. Barði fer væntanlega til veiða aftur um miðja næstu viku.

Austurland. 24 september 1971.
 

Barði NK 120 á frímerki. Gefið út af póstinum árið 2014.              Úr safni mínu.
 
Barði NK 120. Ljósmynd Önnu Kristjánsdóttur sem er fyrirmyndin á frímerkinu.


      Fyrsti skuttogari Íslendinga á frímerki


Sumarið 2014 kom út ný útgáfa frímerkja hjá póstinum og bar hún heitið togarar og fjölveiðiskip. Í útgáfunni voru fjögur frímerki og var eitt þeirra með mynd af skuttogaranum Barða NK 120 sem Síldarvinnslan hf festi kaup á árið 1970.
Barði varð fyrir valinu vegna þess að hann er talinn fyrsti togari landsmanna með hefðbundinn skuttogarabúnað og sem eingöngu var ætlaður til togveiða. Frímerkið var hannað af Elsu Nielsen en myndir byggir á ljósmynd sem Anna K Kristjánsdóttir vélstjóri á Vestmannaey VE 54 tók.

Síldarvinnslan í 60 ár.
 

Barði NK 120 á toginu.                                                   Ljósmyndari óþekktur.
 
Barði NK 120 á leið inn Norðfjörð til löndunar.            (C) Sigurður Arnfinnsson.
 
Mousson LR 5207 frá La Rochette í Frakklandi.                                (C) Jean Michel.
 
Boulonais BL 463291 frá Boulogne í Frakklandi.                Ljósmyndari óþekktur.

                      Barði farinn


Það var ekki laust við að menn væru með söknuð í huga miðvikudaginn fyrir rúmri viku er Barðinn fór frá Neskaupstað í síðasta skipti. Fjöldi fólks var saman kominn til að kveðja skipið. Ekki virtist Barðinn alveg tilbúinn til að yfirgefa staðinn því rétt í þann mund er skipið skyldi leggja af stað kom upp bilun í stýrisbúnaði skipsins og tafðist brottför hans af þessum sökum frá Neskaupstað um nokkra tíma. Barðinn hélt frá Neskaupstað fullfermdur fiski sem skipið seldi í Bretlandi sl. mánudag. Gerði Barðinn þar mjög góða sölu seldi 120 tonn fyrir 74 milljónir íslenskra króna. Meðalverð 614 kr. pr. kg. Barðinn er nú væntanlega kominn til Frakklands og hið nýja skip, sem keypt hefur verið í stað hans, er væntanlegt til Englands nú um helgina þar sem fram fara á því breytingar en skipið er væntanlegt til Neskaupstaðar rétt fyrir jól.

Austurland. 1 nóvember 1979.




 

 

 

 

Flettingar í dag: 2998
Gestir í dag: 304
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 741650
Samtals gestir: 55894
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 22:51:56