05.09.2023 11:42

1306. Norðri. TFLE.

Flutningaskipið Norðri var smíðaður hjá NV Noord-Nederlandsche Scheepswerfs í Groningen í Hollandi árið 1961. 1.022 bt. 499 brl. 260 nt. 1.000 ha. Werkspoor vél. 69,08 x 10,27 x 5,13 m. Smíðanúmer 319. Hét fyrst Mare Altum og var í eigu NV Gebr. DE Haas Tankvaartbedrijf í Rotterdam í Hollandi Síðan er eigendasaga skipsins á þessa leið;,
Mickey Smits, í eigu Marinus Smits í Rotterdem í Hollandi 20 ágúst 1965.
Thomas Bjerco, í eigu K/S Bjerco lll í Árósum í Danmörku 16 nóvember 1970.
Norðri, í eigu Jóns Franklín á Flateyri  17 apríl 1973.
Norðri, í eigu Northgate Co. Inc. á Ítalíu en skipið skráð Í Panama í desember 1974.
Maria Scotto, í eigu Antonio Scotto di Santolo í Napóli á Ítalíu 1976.
Maria Scotto, í eigu C.I.A. the Navigazione del Salento S.p.A. í Napólí á Ítalíu 1977.
Maria Scotto, í eigu Rosa Variriale í Napólí á Ítalíu 1977.
Alita Terza, í eigu Rosa Variriale í Napólí á Italíu 1980.
Alita Terza, í eigu Compania Maritima del Tirreno SrL í Napólí á Ítalíu 1982.
Skipið virðist hafa verið tekið af skrá 6 júlí árið 1983.
Thomas Bjerco strandaði á Eyjafjallasandi fyrir vestan Holtsós hinn 17 mars árið 1973. Einn maður fórst en tíu björguðu sér sjálfir á land. Náðist á flot og var gert við það í Reykjavík. Norðri var í ýmsum flutningum milli Norðurlanda, Evrópulanda og Íslands og kom víða við á höfnum innanlands. Þegar skipið strandaði á Eyjafjallasandi var það í leiguferðum fyrir Hafskip h.f. Var það hlaðið vörum og  bifreiðum. Voru þar um borð m.a. fyrstu Mazda bifreiðarnar sem fluttar voru hingað til lands.

Heimildir að mestu frá Hollandi.
 

Flutningaskipið Norðri.                                                          Ljósmynd í minni eigu.



            Dularfullt mannshvarf við Eyjafjallasand
    Danskt skip strandaði Einn skipverja týndur

 Á föstudagskvöldið um klukkan níu strandaði danska flutningaskipið, Tomas Bejlgo frá Arósum, á Eyjafjallasandi fyrir vestan Holtsós. Var skipið í leiguflutningum á vegum Hafskips og var það á leið til Reykjavíkur með um 500 lestir af vörum, mest japanska bíla. Björgunarsveitir frá Vestur-Landeyjum og Hvolsvelli fóru þegar til aðstoðar og skip lónuðu fyrir utan strandstaðinn. Áhöfn skipsins var 11 menn, og var ákveðið skömmu eftir strandið, að senda 9 þeirra í land í gúmmbáti. Þegar til kom þorði einn skipverja ekki að fara í bátinn, en nokkur kvika var þá við skipshlið. Fékk þá maður þessi leyfi til að vera eftir um borð ásamt skipstjóranum og 1. vélstjóra. Þegar þessir tveir menn ætluðu að yfirgefa skipið fannst maðurinn hvergi, þrátt fyrir viðtæka leit þeirra um borð. Við náðum í gærmorgun tali af séra Halldóri Gunnarssyni, sóknarpresti að Holti undir Eyjafjöllum, en hann var á strandstaðnum alla nóttina. Sagði hann okkur, að búið væri að fara aftur út í skipið og leita að þessum manni, sem er fertugur Kaupmannahafnarbúi, en hann hefði ekki fundizt þar. Einnig væri búið að ganga fjörur og leita þarna í næsta nágrenni, en allt hefði komið fyrir ekki. Væri hvarf þessa manns undarlegt í alla staði. Halldór sagði okkur, að þegar bátnum með mönnunum 8 um borð var ýtt frá skipinu, hefði þetta litið illa út í fyrstu, þvi að báturinn sogaðist út og var mesta mildi, að ekki fór verr en á horfðist í fyrstu. Halldór sagði, að veður á strandstaðnum væri gott. Margt manna hefði verið á staðnum í morgun. Þar á meðal væri menn frá Björgun, og væru þeir að kanna aðstæður til að bjarga skipinu eða bílunum úr því. Stórt gat er komið á síðuna sjávarmegin, en skipið liggur þarna flatt fyrir á rifi í um það bil 150 til 200 metra frá landi. Skipbrotsmönnunum liður öllum vel, en þeim hefur verið komið fyrir á bæjum þarna í nágrenninu.

Tíminn. 18 mars 1973.
 

Flutningaskipið Mare Altum.                                                          (C) Delfzijl Dijstra. 
 

Flutningaskipið Maria Scotto.                                              (C) Tony Grootenboer.
 
Flutningaskipið Mickey Smits.                                              Ljósmyndari óþekktur.
 
Flutningaskipið Norðri í eigu ítala og er undir Panamafána. (C) Tony Grootenboer.
 
Flutningaskipið Thomas Bjerco.                                             (C) Shipspotting.com
                                                                                                                                                              Heitir áfram Norðri siglir undir Panamafána

 

Norðri, sem hingað til hefur verið Íslenzkt skip, skipti um eigendur í gær og siglir í framtíðinni undir Panamafána. Nafnið á skipinu verður þó áfram Norðri. Nýju eigendurnir eru Ítalskir og veita þeir skipinu viðtöku í Vigo á Spáni. Fyrri eigandinn, Jón Franklin, hefur verið á Spáni að undanförnu að ganga frá sölunni. Jón hefur nú einnig selt hitt skip sitt, Suðra, sem í sumar hefur verið í leigu í Danmörku. Suðri var seldur til Kýpur. Þar eru það Kýpurbúi og Dani, sem reka munu skipið í sameiningu. „Ástæðan fyrir þessari sölu er fyrst og fremst sú, að nú er gott verð að fá fyrir skip erlendis. Eins vildi ég fara að endurnýja skipakostinn”, sagði Jón Franklin um söluna. Jón Franklin er því skipalaus eins og stendur, en væntanlega gengur hann frá kaupum á tveim nýjum skipum fljótlega eftir áramótin. Ekki hefur enn verið ákveðið, hvaðan nýju skipin verða keypt, en Jón hefur afráðið, að þau nýju verði heldur stærri en þau gömlu. Norðri var 1200 tonn, smíðaður 1961, en Suðri var 650 tonn, smíðaður 1954.

Vísir. 30 desember 1974.

Flettingar í dag: 2614
Gestir í dag: 295
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 741266
Samtals gestir: 55885
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 21:48:38