16.09.2023 08:52

517. Jón Guðmundsson GK 517.

Vélbáturinn Jón Guðmundsson GK 517 var smíðaður í Nyköbing í Danmörku árið 1924. Hét fyrst Haraldur VE 246 og var í eigu Gísla Magnússonar í Skálholti í Vestmannaeyjum. Eik. 24,64 brl. 48 ha. Dencil vél. 14,05 x 4,36 x 1,92 m. Sumarið og fram á haustið 1925 var Haraldur leigður landsjóði til að sinna strandgæslu fyrir Vesturlandi. Skipstjóri á honum þá var hinn kunni skipherra Eiríkur Kristófersson og var þetta fyrsta skipið sem hann stjórnaði við landhelgisgæslu. Seldur 25 nóvember 1927, Elimundi Ólafssyni í Keflavík, hét Runólfur GK 517. Ný vél (1929) 80 ha. Skandia vél. Snemma árs 1932 er Útvegsbanki Íslands eigandi bátsins, en selur hann 5 febrúar, sama ár, Ólafi Lárussyni, Ragnari Jóni Guðnasyni, Valdimar Guðjónssyni og Kristni Jónssyni í Keflavík, hét þá Jón Guðmundsson GK 517. 27 nóvember 1933 voru þeir Ólafur Lárusson og Kristinn Jónsson einir eigendur bátsins. Ný vél (1938-39) 100 ha. Alpha vél. Seldur 18 júní 1943, Guðmundi Gíslasyni, Kristbirni Gíslasyni, Árna Jónssyni og Jóni J Þorsteinssyni á Ólafsfirði, hét Jón Guðmundsson EA 743. Seldur 9 maí 1944, Ölver Guðmundssyni útgerðarmanni í Neskaupstað, hét Jón Guðmundsson NK 97. Ný vél (1945) 100 ha. Caterpillar vél. Seldur 1953, Heimaveri h.f. (Ari og Kjartan Vilbergssynir og Friðrik Sólmundsson) á Stöðvarfirði, hét þá Hlýri SU 97. Seldur aftur til Neskaupstaðar 1954, Hafbjörgu h.f. (Jón og Stefán Péturssynir og Ari Sigurjónsson) í Neskaupstað, hét þá Hafbjörg NK 7. Ný vél (1969) 115 ha. Caterpillar vél, árgerð 1951. Seldur 20 desember 1973, Jóni Kjartanssyni á Grundarfirði, hét þá Hafbjörg SH 37.
Veturinn 1975 hafði Hafbjörg legið í höfninni á Grundarfirði, en vegna þrengsla þar var gripið til þess ráðs að setja bátinn upp í fjöru. Þegar verið var að setja hann á land, tókst svo óhönduglega til að hann brotnaði svo að ekki var talið svara kostnaði að gera við hann. Báturinn var talinn ónýtur og tekin af skrá 7 febrúar árið 1975.

Ekki hef ég heimildir um hvenær skipt var um stýrishús á bátnum, en væntanlega hefur það verið gert við einhver vélaskiptin í honum.

Í bókinni, Á stjórnpallinum, sem skráð var af Ingólfi Kristjánssyni og kom út árið 1959, lýsir Eiríkur m.a. veru sinni á Haraldi árið 1925 af hinum óútskýrðu fyrirbærum sem hentu hann um borð í bátnum. Alveg þess virði að lesa sögu þessa aldna skipherra.
 

V.b. Jón Guðmundsson GK 517 á siglingu.                        Ljósmynd í minni eigu.
 
V.b. Jón Guðmundsson GK 517. Líkan Gríms Karlssonar. (C) Þórhallur S Gjöveraa.

 

                Bátar til Norðfjarðar


Á hvítasunnudag kom v/b Hlýri frá Stöðvarfirði, en nokkrir menn hér í bænum hafa keypt bátinn. Bátur þessi átti áður heima hér í mörg ár og hét þá Jón Guðmundsson.
Laugardaginn fyrir hvítasunnu kom hingað frá Akureyri nýbyggður 8 lesta bátur. Eigandi bátsins er Guðmundur Bjarnason. Báturinn heitir Ver, einkennisstafir hans eru N.K. 19.

Austurland. 17 júní 1954.
 

V.b. Hafbjörg NK 7 á leið í slipp í Neskaupstað.                Ljósmyndari óþekktur.
 
Hafbjörg NK 7 til vinstri í slipp Dráttarbrautarinnar h.f. í Neskaupstað, sennilega árið 1972. Báturinn á miðri mynd er, 1231. Hafalda SU 155, 65 brl, sem smíðuð var þar þetta ár fyrir samnefnt útgerðarfélag á Eskifirði.  (C) Sigurður Arnfinnsson.
 
Hafbjörg SH 37 upp í fjöru við Grundarfjörð ónýt.           Ljósmyndari óþekktur.

                  Hákarl ræðst á bát


Í ágústmánuði árið 1965 eða 1966, var Hafbjörg NK 7 á humarveiðum í Breiðamerkurdýpi. Komið var myrkur og skipverjar unnu að því að ganga frá veiðarfærum og afla. Ekki var vani að toga á nóttunni. Skyndilega kom mikill hnykkur á bátinn. Skipstjóranum, Ara Sigurjónssyni, sem staddur var frammi á dekki, datt helst í hug að báturinn hefði orðið fyrir ákeyrslu annars báts. Fljótlega kom í ljós að svo var ekki, heldur hafði mjög stór hákarl komið í heldur óvænta heimsókn. Hákarlinn skall á bátinn aftanverðan, rétt aftan við toggálgan s.b. megin. Ekki utan á hann, heldur upp á bátinn. Hann skall á messabómunni, beygði barið sem lá inn og aftur úr gálganum og rekkverk á lunningunni. Sömuleiðis skall hann á s.b. vanti afturmasturs og sligaði salningarklossann sem hélt vantinum uppi. Einn skipverja, Magnús Skarphéðinsson, stóð rétt við gluggan og sá skepnuna vel. „Ég hefði getað burstað í honum tennurnar“, er haft eftir honum. Skepnan riðlaðist síðan í sjóinn aftur og kvaddi með því að berja sporðinum í afturhlerann, svo hressilega að báturinn nötraði. Þetta mun vera afar sjaldgæfur atburður. Haft er eftir Færeyingum að einhvers konar óværa muni valda þessum óvænta tryllingi. Eru slíkir atburðir sem þessi þekktir hjá frændum vorum, þó þar, eins og hér, muni þeir fágætir.

Haft eftir Ara Sigurjónssyni skipstjóra og
Hávarði Bergþórssyni skipverjum á Hafbjörgu NK 7.
Smári Geirsson.
Sjómannadagsblað Neskaupstaðar 1984.

Flettingar í dag: 842
Gestir í dag: 182
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 739494
Samtals gestir: 55772
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 06:57:02