22.09.2023 06:07

2388. Ísleifur VE 63. TFET.

Nóta og togveiðiskipið Ísleifur VE 63 var smíðaður hjá Asmar Astilleros de Tulcahuano í Chile árið 2000 fyrir Harald Böðvarsson h.f. á Akranesi. Hét þá Ingunn AK 150. 1.218 brl. 661 nt. 5.870 ha. MaK 9M32, 4.320 Kw. 72,9 x 12,6 x 8,4 m. Smíðanúmer 41081. Við sameiningu Haraldar Böðvarssonar h.f. og Granda h.f. í Reykjavík árið 2004, var skipið gert út af H.B. Granda h.f. í Reykjavík. Skipið var selt 26 júní 2015, Vinnslustöðinni h.f. í Vestmannaeyjum, fékk nafnið Ísleifur VE 63 og er gert þaðan út í dag.
 

2388. Ísleifur VE 63 við bryggju í Örfirisey.   (C) Þórhallur S Gjöveraa. 10/6. 2023.
 
2388. Ingunn AK 150. Síðasta skipti í slipp undir þessu nafni. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 2/7. 2015.
 
2388. Ísleifur VE 63 að koma í ljós.                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 7/7. 2015.

        Nýr Ísleifur VE 63 til heimahafnar í
                Vestmannaeyjum í gær

Nýtt uppsjávarskip Vinnslustöðvarinnar, Ísleifur VE 63, kom í fyrsta skipti til heimahafnar í Vestmannaeyjum um fjögurleytið í gær. Tekur hann við af gamla Ísleifi sem fylgdi honum til hafnar. Vel var tekið á móti skipi og áhöfn. Fólki gafst svo kostur á að skoða Ísleif og nýttu margir sér tækifærið. Nýi Ísleifur er myndarlegt skip, hét áður Ingunn AK og kaupir VSV hann af HB Granda ásamt Faxa RE með tæplega 0,7% aflahlutdeild í loðnu. Heildarkaupverð er 2150 milljónir króna. Ísleifur var smíðaður í Chile árið 2000 og ber fyrri eigendum gott vitni því umgengni hefur verið góð og það sama má segja um viðhald. Með þessu er VSV að fá tvöfalt öflugra skip og burðargetan fer úr 1000 tonnum í 2000. Öflug kæling bætir meðferð á afla til mikilla muna. Þá er aðbúnaður áhafnar og vinnuaðstaða til muna betri þannig að stökkið er stórt þó að skipið sé ekki nýtt.

Eyjafréttir. 30 tbl. 29 júlí 2015.
 

2388. Ísleifur VE 62 við Ægisgarð ný kominn úr slippnum. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 8/7. 2015.
 
2388. Ingunn AK 150 við bryggju í Örfirisey. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 21/6. 2015.
 
2388. Ingunn AK 150 við bryggju í Örfirisey. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 27/9. 2014.


                   Ingunn AK 150


Í byrjun febrúar kom til heimahafnar á Akranesi tog- og nótaskipið Ingunn AK 150, sem smíðað var í Chile fyrir Harald Böðvarsson hf. á Akranesi. Engum blöðum er um að fletta að Ingunn er öflugt og burðarmikið skip sem hefur burði til að takast á við veiðiskap á við kolmunna þar sem krafist er mikils afls og toggetu. Ingunn AK er fyrsta skipið í hrinu nýrra fiskiskipa fyrir Íslendinga frá Chile en skipið var smíðað hjá Asmar skipasmíðastöðinni, þeirri sömu og afgreiddi á síðasta ári nýtt hafrannsóknaskip til Íslendinga. Umboðsaðili stöðvarinnar hér á landi er BPskip ehf. Ingunn hélt þegar í stað til loðnuveiða og hefur skipið komið vel út það sem af er. Skipstjórar á Ingunni AK eru Marteinn Einarsson og Guðlaugur Jónsson. Albert Sveinsson er 1. stýrimaður og Ingibergur Sigurðsson yfirvélstjóri. Ingunn er tveggja þilfara tog og nótaskip, tæplega 2000 tonn að stærð, búið tólf lestum fyrir farm, þar af níu með sjókælingu. Flokkunarfélag skipsins er Det norske Veritas. Burðargeta er á bilinu 1800-2000 tonn en burðargetan er minni eftir því sem stærra hlutfall afla er í sjókælingu. Aðalvél skipsins er 5900 hestöfl að stærð. Hönnun skipsins fór fram hjá Skipatækni ehf. Aðalvélin er af gerðinni MAK 9M 32 og seld af Heklu hf. Vélin skilar 4320 kW við 600 snúninga á mínútu, eða sem nemur 5900 hestöflum. Við vélina er niðurfærslugír af gerðinni Volda ACG 850 og frá sama framleiðanda kom skrúfa skipsins sem er 3 metrar í þvermál. Hjálparvélar í skipinu eru tvær og báðar frá Caterpillar sem Hekla hf. er umboðsaðili fyrir.
Vélarnar bera heitin Caterpillar 3412 DITA og 3406 DITA. Hin fyrri skilar 625 kVA við 1800 snúninga á mínútu en hin 400 kVA við sama snúning. Öxulrafall er af gerðinni Le Roy Somer LSA-54-M55 og skilar 2800 kVA við 1800 snúninga á mínútu. Ljósavél er Caterpillar 3306 og skilar 210 kVA við 1800 snúninga á mínútu. Eins og við er að búast í svo öflugu fiskiskipi er viðamikil og vandaður vindu- og þilfarsbúnaður um borð í Ingunni. Allur kemur þessi búnaður frá sama framleiðanda, Karmöy Winch, sem A.G.V. ehf. er umboðsaðili fyrir hérlendis. Búnaðurinn samanstefndur af eftirtöldu: tveimur togvindum fyrir flottroll, akkerisvindu, tveimur nótavindum, geilaspili, kapalvindu, flottrollsvindu, capstanvindu, tveimur bakstroffuvindum, nótablökk, nótaleggjara, sjálfvirkum stjórnbúnaði, milliblökk, tveimur fiskidælum, slöngutromlu fyrir fiskidæluslöngu, slöngutromlu fyrir vökvaslöngur fiskidælu og þilfarskrana. Togvindurnar þola 72 tonna átak á neðsta lagi tromlunnar, nótavindurnar 35 tonna átak á neðsta lagi vindu, hvort tveggja miðað við tómar vindur. Togvindum er stýrt af sjálfvirkum jöfnunarbúnaði, svokölluðum „auto trawl“ búnaði sem sömuleiðis kemur frá Karmoy og er af gerðinni Karm Datatrawl. Sjókæli- og tankakerfi skipsins byggist upp af þremur þáttum. Í fyrsta lagi kælibúnaði frá York Refrigeration sem afkastar kælingu á 400 rúmetrum af sjó úr 25 gráðum í eina gráðu á hálfri sjöundu klukkustund. Við tanka skipsins er tengt svokallað pælikerfi frá Rolls Royce Marine en kerfið er framleitt af Ulstein og er Héðinn umboðsaðili hér á landi. Kerfið er mikilvægt eftirlitskerfi fyrir tankakerfi skipsins og eftirlit með sjókælingu. Loks ber að nefna dælukerfið frá MMC Fisktækni sem kemur til skjalanna við löndun afla. Kerfið samanstendur af 3000 lítra vacumtönkum, fjórum 42 kílówatta pressum og stjórnbúnaði.
Kaupendur skipsins fóru þá leið að velja í brú skipsins tækjabúnað til siglinga, fiskileitar og fjarskipta frá sama aðila, þ.e. Brimrún ehf. Um er að ræða eftirfarandi búnað frá Furuno;, Furuno FAR-2815, 28 tommu Xband ARPA radar með innbyggðum Furuno RP-25 leiðarita með sjókortum Furuno RAR-2535S, 28 tommu S-band ARPA radar með innbyggðum Furuno RP-25 leiðarita með sjókortum Furuno AD-100, GYRO breytir Turbo 2000 Leiðariti Furuno GP-80, GPS leiðariti og staðsetningartæki Furuno GP-1650, GPS leiðariti og staðsetningartæki Furuno GP-31, GPS staðsetningartæki Furuno GR-80, DGPS leiðréttingartæki, 2 stk. Furuno CI-60G, Straummælir („doppler log“) Furuno T-2000, Sjávarhitamælir NMEA skiptaraborð Robertson GYRO áttaviti Robertson sjálfstýring John Lilley & Gillie seguláttaviti KB-101T, Vindhraðamælir.  
Mesta lengd (m) 72,90
Lengd milli lóðlína (m) 65,50
Breidd (m) 12,60
Dýpt að aðalþilfari (m) 5,80
Dýpt að togþilfari 8,40
Eldsneytistankar 306,7 m3
Andveltigeymir 65,4 m3
Gasolíutankur 171,8 m3
Ferskvatnstankur 73,0 m3
Sjóballest 226,0 m3
Lestarrými 2064,4 m3
Brúttótonnn 1981
Nettótonn 661
Skipaskrárnúmer 2388

Ægir. 3 tbl. 1 mars 2001.

Flettingar í dag: 755
Gestir í dag: 171
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 739407
Samtals gestir: 55761
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 05:47:58