23.09.2023 07:16

684. Muggur VE 322. TFZM.

Vélbáturinn Muggur VE 322 var smíðaður af Gunnari Marel Jónssyni í Dráttarbraut Vestmannaeyja árið 1935 fyrir Helga Benediktsson útgerðarmann þar í bæ. Eik og fura. 26 brl. 11 nettó. 110 ha. June Munktell vél. 15,48 x 4,58 x 1,92 m. Fyrsti skipstjóri á Mugg var Páll Jónasson frá Þingholti í Vestmannaeyjum. Muggur var mikið í póst, vöru og fólksflutningum á milli Vestmannaeyja og Stokkseyrar, ásamt því að vera gott aflaskip á þorsk og síldveiðum. Báturinn var lengdur í Vestmannaeyjum árið 1943 og mældist þá 35 brl. 18,93 x 4,65 x 1,92 m. Ný vél (1952) 150 ha. June Munktell vél. Muggur var gerður út til ársins 1965-66, eða þar til Helgi Benediktsson hætti útgerð. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 8 júní árið 1967.

Það má geta þess að hinn þekkti útvarpsmaður, Jón Múli Árnason var um tíma skipverji á Mugg og mun það hafa verið á 5 áratug síðustu aldar. Hann var oft til sjós á sínum yngri árum, m.a. á Kveldúlfstogaranum Gulltopp RE 247 árið 1937, þá 16 ára gamall.
 

V.b. Muggur VE 322 með fullfermi síldar á Siglufirði.  (C) Kristfinnur Guðjónsson.

 

Muggur VE 322 við bryggju í Vestmannaeyjum.               Ljósmyndari óþekktur.


         Samgöngubætur Vestmannaeyinga

Eitt af því sem alltaf veldur Vestmannaeyingum erfiðleikum, eru öruggar samgöngur við „landið“. Þeir hafa hingað til, sama sem eingöngu haft reglubundnar samgöngur við Reykjavík. Þegar á er litið, að frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur er að minsta kosti 12 tíma sigling, þá er það síst að undra, þótt eyjaskeggjar hafi nú sjálfir gert tilraunir til að bæta úr þessu að nokkru. Helgi Benediktsson kaupmaður í Vestmannaeyjum, hefir látið smíða mótorbát, sem hefir, áætlunarferðir milli Eyja og Stokkseyrar. Bátur þessi heitir „Muggur“. Hann er 25 smálestir að stærð, hefir 100—110 ha. vél og gengur rúmar 10 mílur á vöku. Hann er um 3 stundir milli Eyja og Stokkseyrar. Muggur fer ferðir þessar tvisvar í viku, laugardaga og mánudaga, fram og aftur sama dag. Daglega eru svo bílferðir milli Reykjavíkur og Stokkseyrar, frá Bifreiðarstöð Íslands. Þó er sá galli á þessu, að ekki er hægt að lenda á Stokkseyri, ef slæmt er veður. Raunar mun vera hægt, með mjög litlum tilkostnaði, að búa til svo góða höfn þar, að alltaf megi lenda. Samgöngubót þessi verður væntanlega til þess, að auka að miklum mun viðskifti milli Vestmannaeyinga og bænda í neðanverðri Árnessýslu. Hafa þau viðskifti alla tíð verið nokkur, en nú vænta hvorirtveggja hins besta í þeim efnum. Það er eftirtektarvert, og er Eyjabúum til mikils sóma, að „Muggur“ er smíðaður í Vestmannaeyjum. Það er þriðji báturinn af sömu eða líkri stærð, sem er smíðaður þar. Í Vestmannaeyjum virðist sjálfsbjargar- þ. e. sjálfstæðislöngunin vera almennari en á mörgum öðrum stöðum landsins, og mætti benda á margt því til sönnunar. T. d. munu Vestmannaeyingar, auk þess að vera einhverjir mestu sjósóknarar landsins, standa fremstir landsmanna, næstir Akurnesingum, í kartöflurækt. 

Vísir. 1 september 1935.

Flettingar í dag: 1341
Gestir í dag: 228
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 739993
Samtals gestir: 55818
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 11:39:38