13.02.2024 13:57
B.v. Ingólfur Arnarson RE 153. LBMW.
Botnvörpungurinn Ingólfur Arnarson RE 153 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby í Englandi árið 1912 fyrir Pétur J Thorsteinsson útgerðarmann og Fiskiveiðafélagið Hauk í Reykjavík. 306 brl. 520 ha. 3 þennslu gufuvél, smíðuð hjá Amos & Smith Ltd í Hull. 135,0 x 23,5 x 12,6 ensk ft. Smíðanúmer 540. Kom togarinn í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur hinn 19 október sama ár. Fyrsti skipstjóri var Pétur Bjarnason, er áður hafði verið farsæll skútuskipstjóri. Árið 1915 mun Fiskiveiðafélagið Haukur hafa verið skráður eigandi. Skipið var selt franska flotanum haustið 1917 og bar hjá þeim nafnið Singe. Árið 1923 var skipið selt, S.A. P‘cheries Ostendaises í Belgíu, hét þar Nebris O 104. Selt 10 apríl 1924, Consolidated Steam Fishing & Co í Grimsby, hét Nebris GY 84. Nebris stundaði veiðar m.a. við Íslands og var þekktur landhelgisbrjótur og mun hafa verið tekinn nokkrum sinnum að ólöglegum veiðum. 13 mars árið 1932 tók varðskipið Ægir togarann að ólöglegum veiðum út af Garðskaga. Skipherra á Ægi var þá Einar Einarsson. Lentu skipin þar í árekstri og úr urðu mikil málaferli, „Nebris málið“ svokallaða og var skipstjóri Nebris, Christian Th Johnson sýknaður af þeim, en dæmdur í 12.500 kr sekt og afli og veiðarfæri gerð upptæk fyrir landhelgisbrotið. Sagt hefur verið að þetta mál hafi orðið til þess að Einar skipherra hafi hrökklast úr starfi hjá Landhelgisgæslunni. Togarinn var seldur í apríl 1937 í brotajárn til Metal Industries Ltd í Glasgow í Skotlandi og var togarinn rifinn í Rosyth í enduðum maímánuði það ár.
Fyrstir til þess að hefja togaraútgerð á tímabilinu 1911-17 voru þeir bræður Pétur Jens og Þorsteinn Thorsteinsson, eða P.J. og Th. Thorsteinsson eins og þeir voru venjulega kallaðir. Pétur hafði losað sig úr Milljónafélaginu (Heimild er fyrir því að Pétur hafi verið hrakinn á brott úr Milljónafélaginu) og gengið til samstarfs við bróður sinn, Þorstein, sem rak umfangsmikla verslun í Reykjavík undir nafninu Liverpool. Þeir kölluðu útgerð sína Trawlfélagið Bræðurnir Thorsteinsson og byrjuðu með því að taka tvo enska togara á leigu í vetrarvertíð 1911. Þeir hétu Vale of Lennox og Wetherley. Síðan létu þeir bræður smíða fyrir sig tvo togara í Englandi er nefndir voru Baldur og Bragi, og komu þeir til landssins snemma árs 1912.
Svo virðist sem bræðurnir hafi fljótlega viljað slíta samstarfinu því Pétur hvarf úr félaginu í desember árið 1913. Var það þó um stuttan tíma rekið áfram undir sama nafni, en skipstjórarnir á Baldri og Braga, þeir Kolbeinn Þorsteinsson og Jón Jóhannesson gerðust samstarfsmenn Þorsteins. Hinn 17.desember 1913 var stofnað Fiskiveiðahlutfélagið Bragi er tók við af hinu fyrra félagi. Hlutafé þess var 80 þús. Kr. Stjórn félagsins skipuðu tveir kaupmenn auk Þorsteins, þeir Guðmundur Olsen og Siggeir Torfason. Þetta félag starfaði út tímabilið, en seldi togara sína til Frakklands 1917. Th. Thorsteinsson hafði mikla fiskverkunarstöð á Ytra-Kirkjusandi í Reykjavík. Var reist þar þurrkhús, þar sem þurrka mátti saltfisk við ofnhita.
Pétur J. Thorsteinsson hætti ekki afskiptum af togaraútgerð, þó að hann sliti samstarfi við bróður sinn, því að hann var þá þegar orðinn einn af eigendum í Fiskiveiðafélaginu Hauki, er stofnað var um haustið 1912, og einnig framkvæmdastjóri þess. Þetta félag lét smíða í Englandi stærsta togara, er Íslendigar eignuðust fyrir fyrra stríð, en það var Ingólfur Arnarson.
Haukur var sameignarfélag, er eftirtaldir menn áttu: Pétur Jens Thorsteinsson, Jóhannes Magnússon, kaupmaður í Reykjavík, Jón Magnússon fiskmatsmaður, Ingimundur Jónsson kaupmaður, Þorsteinn Jónsson járnsmiður, Sveinn Björnsson málflutningsmaður, Pétur Bjarnason skipstjóri og Jón Einarsson frá Vestmannaeyjum. Átti hver þeirra 1/8 hlut í félaginu. Annan togara keyptu þeir frá Hollandi árið 1916, og hét sá Þorsteinn Ingólfsson. Bæði skipin voru seld til Frakklands 1917.
Saga Íslenskrar togaraútgerðar fram til 1917.
Heimir Þorleifsson. 1974.
Birgir Þórisson.
B.v. Ingólfur Arnarson RE 153 á Reykjavíkurhöfn. (C) Magnús Ólafsson. |
Nýr íslenzkur botnverpingur
Íslenzkur botnverpingur nýr kom hingað á laugardaginn, Hann heitir „Ingólfur Arnarson", og er eign félags, sem „Haukur " heitir og eru í því Pétur J. Thorsteinsson og 6 eða 7 menn aðrir. Skipstjórinn er Pétur Bjarnason. Skipið er hið fegursta, enda nýtizkusnið á því að öllu leyti.
Þjóðviljinn + Þjóðviljinn ungi. 24 október 1912.
Ingólfur Arnarson kemur í fyrsta sinn til Reykjavíkur 19 okt. 1912. Blíantsteikning eftir Elías Pálsson.
|
Botnvörpungasalan 10 skip seld
Sá mikli viðburður í sögu Íslands gerðist um síðustu mánaðarmót, að landsstjórnin veitti leyfi til að selja 10 af íslensku botnvörpungunum til Fnakklands. Og eru það þessi skip: Apríl, Maí, Baldur, Bragi, Eggert Ólafsson, Earl Hereford, Ingólfur Arnarson, Þorsteinn Ingólfsson, Þór og Jarlinn. Mun skipasala þessi hafa verið á döfinni síðan snemma í sumar, eða jafnvel síðan í fyrra vetur, en lögin um bann gegn sölu íslenskra skipa úr landinu, sem búin voru til á aukaþingi í vetur verið því til fyrirstöðu, og landsstjórnin hinsvegar ekki viljað veita undanþágu frá lögunum á eigin ábyrgð, þar sem um svo mörg skip var að ræða. En svo er að sjá á nýkomnum Reykjavíkurblöðum, sem alþingismennirnir hafi í þinglokin samþykt að landsstjórnin mætti veita undanþágu frá sölubanninu, og að hún hafi ekki verið sein á sér að nota það, því tæpum hálfum mánuði síðar er undanþágan veitt og salan að fullu afgerð með skriflegum samningum, undirrituðum af ræðismanni Frakka í Reykjavík, fyrir hönd Frakknesku stjórnarinnar. Söluverð allra skipanna er fjórar og hálf milljón króna samtals, og er það óefað sú stærsta verslun sem Íslendingar hafa gert í einu, enn sem komið er. En misjafna dóma hefir hún hlotið, bæði hjá blöðunum og einstökum mönnum, og er þess að vænta um jafnmikið stórmál og þetta er, að ekki líti allir sömu augum á það.
Við lauslega yfirvegun málsins verður naumast séð, hvað eigendum skipanna hefir gengið til að selja þau, eða þeir hafi neinn verulegan hagnað af sölunni. Aftur á móti er tjónið, atvinnuleysi hundruð og jafnvel þúsunda manna, sem af sölunni leiðir, bersýnilegt og óvíst að fundin sé leið sem bætir úr því að minsta kosti í bráð. Ástæður landsstjórnarinnar til að veita undanþáguna, eru aftur á móti auðsæilegri, því hún var ýmsum skilyrðum bundin frá hennar hálfu. T. d. fær hún tvo þriðjuparta af söluverðinu lánað, og verður ekki skilað eigendum aftur nema varið sé til fiskiskipakaupa. Þannig fá eigendur skipanna aðeins þriðjung verðsins útborgað nú. Auk þessa eiga 3 prc. af söluverðinu að renna í sérstakan sjóð, sem verja á til dýrtíðarráðstöfunar og hjálpar þeim sem atvinnu missa við söluna. Sjóður þessi sem verður 135 þús. krónur, verður undir ráðstöfun landsstjórnarinnar og bæjarstjórnar Reykjavíkur, og er skipaeigendunum algjörlega tapað fé. Þarna fær því Iandsstjórnin þrjár miljónir króna lánaðar og 135 þús. kr. til hjálpar almenningi, og auk þess er fyllyrt að hún hafii eingöngu fyrir skipasöluna, komist að miklu hagfeldari kaupum og flutningi bæði á kolum og salti, en annars hefði orðið.
Ástæður landsstjórnarinnar eru því sjáanlegar, en naumast ástæður skipaeigendanna. Söluverð botnvörpunganna er að vísu fullum helmingi hærra en þeir voru keyptir fyrir. En að hægt verði að fá skip aftur lægra verði en þetta, er svo mikið efamál, að naumast virðist á það treystandi, fyr en máske 10 árum eftir stríðið. En þótt ástæður landsstjórnarinnar séu sjáanlegar, er alveg óvíst að rétt hafi verið að að leyfa söluna, þegar tillit er tekið til þess feykna mannfjölda sem fyrir atvinnumissi verður. Minsta kosti er nú enn meiri ástæða en áður að ætlast til þess af landsstjórninni, að hún nú þegar ráðist í einhver þau verkleg fyrirtæki er veiti mönnum atvinnu, ekki aðeins í hundraða heldur í þúsundatali, og hlutist til um að sú atvinna verði sem víðast í landinu. En hvað svo sem um þessa botnvörpungasölu verður sagt, þá er víst, að það er stórviðburður í sögu landsins, og fáir mundu hafa trúað því fyrir svo sem 10 árum, að eitt stórveldi Norðurálfunnar myndi fara til Íslands til gufuskipakaupa. En nú á tímum gjörist svo margt sem vér íslendingar höfum ekki átt að venjast hér áður.
Fram. 51 tbl. 27 október 1917.
Ingólfur Arnarson RE 153 að landa síld, sennilega við Hoefnersbryggju á Akureyri. (C) Minjasafnið á Akureyri.
|
Árekstur
Þegar Ægir tók botnvörpunginn Nebris að veiðum í landhelgi í fyrradag tókst svo slysalega til, að Nebris rakst á Ægi og dalaði hann eitthvað. Út af árekstri þesum verða haldin sjópróf, og munu þau fara fram á morgun.
Vísir. 15 mars 1931.