16.02.2024 17:49

B.v. Vínland RE 226. LCGM.

Botnvörpuskipið Vínland RE 226 var smíðað hjá Scheepswerft en Machinefabriek H.J. Koopman í Dordrecht í Hollandi árið 1918 fyrir Geir Thorsteinsson & Co h.f (Geir & Th.Thorsteinsson útgerðarmenn) í Reykjavík. 335 brl. 113 nt. 550 ha. 3 þenslu gufuvél. 132,0 x 22,9 x 12,5 ft. Skipið kom ekki til landsins fyrr en 9 janúar 1919 vegna ófriðarins í Evrópu. Skipstjóri var Guðmundur Jóhannsson. Skipið var selt árið 1923, H.P.Duus í Reykjavík, fékk þá nafnið Ása RE 226.Togarinn strandaði á Dritvíkurtanga á Snæfellsnesi, 20 desember árið 1925. Áhöfnin komst í björgunarbátanna og var bjargað um borð í Þýskan togara og fisktökuskipið La France sem flutti þá síðan alla til Hafnarfjarðar. Skipstjóri á Ásu var þá Bergþór Teitsson. Togarinn eyðilagðist á strandstað og brotnaði fljótt niður.

Hlutafjelagið Geir Thorsteinsson á Co. í Reykjavík rekur fiskiveiðaatvinnu. Lög fjelagsins eru samþykkt 14. nóvember 1915. Hlutafjeð er 125 þúsund krónur, er skiftist í eitt hundrað tuttugu og fimm þúsund króna hluti, hljóðandi á nafn, og er að fullu innborgað. Auglýsingar til fjelagsmanna sjer fjelagsstjórnin um að birtar verði, þær skal eigi birta í blöðunum. Í stjórn fjelagsins er kaupmennirnir T.h. Thorsteinsson og Geir Thorsteinsson og prentsmiðjueigandi Halldór Þórðarson, allir í Reykjavík. Formaður hefir sem prókúruhafi fjelagsins heimild til að rita firmað, að öðru leyti meiri hluti. stjórnarinnar. Prókúruhafinn ritar þannig:
                                                      p p. Geir Thorsteinsson & Co. h/f.
                                         Geir Thorsteinsson. Reykjavik, 13. febrúar 1916.
                                                      pr. Geir Thorsteinsson & Co. h/f
                              Geir Thorsteinsson, Th. Thorsteinsson, Halldór Þórðarson.

Firmatilkynningar fyrir árið 1916.

B.v. Vínland RE 226 á leið inn til Reykjavíkur. Ljósmyndari óþekktur. Mynd úr safni mínu.



                                              Nýtt skip

Hinn 9. þ. m. kom hingað hið nýja botnvörpuskip »Vínland«, sem skipstjóri Jón Jóhannsson sótti til Hollands. Það var pantað fyrir stríðið, en allt stöðvaðist við það og fékst það ekki fyr en nú.

Ægir. 1-2 tbl. 1 janúar 1919.

B.v. Ása RE 226 út af Vík í Mýrdal.        Ljósmyndari óþekktur. Mynd úr safni mínu.


                Togarinn Ása strandar
    við Malarrif á Snæfellsnesi og sekkur

Í gærmorgun barst sú fregn um bæinn, að togarinn Ása hefði strandað undir Svörtuloftum vestan á Snæfellsnesi. Höfðu verið send neyðarskeyti með loftskeytatækjum skipsins, eftir klukkan 4 um nóttina, en þau hættu laust fyrir kl. 5. Veður var hvassast hjer í gærmorgun, og fyltust menn því ugg um afdrif skipverja, því eigi mun vænlegt um landtöku undir Svörtuloftum, ekki síst þegar vont er í sjó. Gullfoss var staddur í Stykkishólmi í gærmorgun og lagði af stað á vettvang. Tveir Helleyers togararnir, Lord Fischer og Kings Grey, komu til sögunnar, er fram á daginn leið. Hafa þeir náð neyðarskeytunum frá Ásu og komu því til bjargar. En þeir hittu togarann ekki undir Svörtuloftum, heldur sunnan við Snæfellsnesið undan Malarrifi. Er þeir komu að Ásu, var hún að mestu leyti sokkin í sjó, en þó ekki meira en svo, að menn hefðu getað haldið sjer þar ofansjávar, er hinir ensku togarar komu þar að. Mannaferð sást þar í landi, og hugðu skipverjar á aðkomnu togurunum, að þar væri skipshöfnin af Ásu. Var skotið báti í land. Kom þá í ljós, að þar var enginn kominn af Ásu. Hjeldu menn nú, að strandmennirnir hefðu haldið vestur með nesinu, á skipsbátunum, því þeir hefðu álitið tilgangslaust að reyna landtöku, þar sem skipið strandaði, því þeir álitu sig vera undir Svörtuloftum. Hjelt annar togaranna því vestur með nesinu og átti von á strandmönnunum vestur í Dritvík. En skömmu eftir að þessir tveir togarar voru byrjaðir að leita að skipshöfninni frá Asu, kom fregn um það, að þýskur togari hefði náð öllum skipverjum af Ásu og væri kominn af stað með þá til Reykjavíkur.
Ása fór hjeðan í fyrrakvöld kl. 8. Ýmsar getsakir og sögusagnir gengu hjer um bæinn í gær um orsakir strandsins, m.a. sú saga að áttavitinn hafi átt að vera vitlans. Páll Halldórsson skólastjóri hafi staðið í stríði við að lagfæra áttavitann hjer í fyrrakvöld. Mbl. spurði Pál Halldórsson um þetta í gærkvöldi. Sagði hann það satt vera, að hann hefði litið eftir áttavitanum áður en skipið fór, en fullyrti, að ekkert hefði verið við hann að athuga. Seint í gærkvöldi kom fisktökuskipið La France til Hafnarfjarðar. Er skip það í förum fyrir Proppébræður. Það átti að koma við á Sandi í gærmorgun, en skipstjóri sá sjer ekki fært að haldast þar við vegna veðurs og hjelt hann því skipinu suður fyrir Snæfellsnes. Um hádegi í gær hitti hann skipbrotsmenn af Ásu í skipsbátunum. Rjett um sama mund bar þar að þýskan togara. Fóru mennirnir af öðrum bátnum í togarann en af hinum í La France. En síðar varð það að samkomulagi, að La France tæki alla strandmennina og flytti þá suður. Þeir höfðu verið í skipsbátunum síðan kl. 7 í gærmorgun. Vindur var hvass af landi, og leituðu þeir ekki lands. Rjett áður en blaðið fór í prentun, náðist tal af skipstjóranum Bergþór Teitssyni. Hann var þá ásamt allri skipshöfninni nýkominn í land í Hafnarfirði og beið eftir bílferð hingað. Hann var sagnafár, að öðru leyti en því, að hann sagði skipsmenn alla ómeidda og líðan þeirra sæmilega eftir ástæðum. Aðhlynningu höfðu þeir fengið ágæta á hinu norska fisktökuskipi. Hann kvað þá aldrei hafa sjeð til lands, meðan þeir voru í bátunum, enda var blindhríð allan þann tíma. Um áttavitann eða annað slíkt, vildi hann ekkert segja á þessu stigi málsins sem vonlegt er.

Morgunblaðið. 22 desember 1925.

Flettingar í dag: 591
Gestir í dag: 71
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 64
Samtals flettingar: 908535
Samtals gestir: 66150
Tölur uppfærðar: 27.7.2024 12:37:11