Færslur: 2015 Desember

31.12.2015 07:56

Áramótakveðja.

Óska ykkur öllum gleðilegs og gæfuríks komandi árs með þökk fyrir samfylgdina hér á síðunni á liðnu ári. Kær kveðja.



30.12.2015 08:41

Rannsóknarskipið Thor.

Árið 1902 keypti danska landbúnaðarráðuneytið togarann Thor af dansk- íslenska verslunar og fiskveiðifélaginu á Geirseyri við Patreksfjörð. Skip þetta var smíðað í North Shields á Englandi árið 1899 og var gert út í eitt til tvö ár,en útgerðinni síðan hætt þar sem hún bar sig ekki. Thor kom mjög við sögu í fiskirannsóknum við Ísland fyrsta áratug síðustu aldar og á sér afar merkilega sögu. Hann var 115 ft á lengd,breiddin 21 ft og djúpristan var 14 ft. Ganghraði skipsins var að jafnaði um 8 sjómílur á klukkustund og kolaeyðsla um 6 tonn á sólarhring. Hægt var að koma fyrir um borð 70 tonnum af kolum. Fyrsti leiðangur skipsins var til rannsókna á miðunum umhverfis Danmörku í lok febrúar árið 1903 undir stjórn A.C. Johansen,en í apríllok sama ár hélt skipið til Færeyja og Íslands undir stjórn Johs. Schmidts. Árið 1913 kom til tals að selja skipið,en fyrri heimstyrjöldin kom í veg fyrir það,og var Thor þá notaður í þágu danska flotamálaráðuneytisins. Árið 1920 keypti svo Björgunarfélag Vestmannaeyja skipið og var nafn þess þá íslenskað í Þór. Fleiri upplýsingar um skipið er að finna hér á síðunni frá 20 nóvember síðast liðinn. Endalok þessa merka skips urðu þau að það strandaði á Sölvabakkaskerjum á austanverðum Húnaflóa,21 desember 1929. Togarinn Hannes ráðherra RE 268 bjargaði allri áhöfn Þórs giftusamlega.


Rannsóknarskipið Thor á Seyðisfirði árið 1903.                                     Ljósm: Winge og Vedel Taning.

29.12.2015 21:25

1360. Kleifaberg RE 70. TFAC í slippnum í Reykjavík í dag.

Kleifaberg RE 70 í slippnum í dag. Þetta rúmlega 40 ára gamla skip hefur aldeilis gert það gott á árinu sem er að líða. Aflaverðmæti skipsins er um 3,7 milljarðar og er það trúlega mesta aflaverðmæti Íslensks fiskiskips á þessu ári. Um 60% aflans var veiddur í Norskri og Rússneskri lögsögu. Fyrir nokkrum árum stóð til að leggja því,en hætt var við það enda eins gott því togarinn hefur verið með aflahæstu skipum landsins síðustu ár og oft með mesta aflaverðmætið upp úr sjó.







                                                                         (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa 29 desember 2015.

28.12.2015 09:10

1482. Elín Þorbjarnardóttir ÍS 700. TFNP.

Elín Þorbjarnardóttir ÍS 700 var smíðuð hjá Stálvík h/f í Garðabæ árið 1977 fyrir Hlaðsvík h/f á Suðureyri við Súgandafjörð. 375 brl. 1.800 ha. Mak díesel vél. Togarinn var seldur til Kýpur,9 október árið 1992.

1482. Elín Þorbjarnardóttir ÍS 700.                                                    (C) Mynd: Sæmundur Þórðarson.


Togarinn Elín Þorbjarnardóttir ÍS 700 að landa afla sínum á Suðureyri.  (C) Mynd:Sæmundur Þórðarson.


Don Luis 3156. ex Friosur Vll 2803 ex 1482. Elín Þorbjarnardóttir ÍS 700. Skipið er gert út í dag sem flutningaskip á fiskafóðri af Naviera Montero Ltda í Puerto Montt í Chile. Heimahöfn þess er í Valparaíso í Chile.                                                                                          
                                                                                                           (C) Mynd: Óskar Franz Óskarsson.                                                                                                

Hér fyrir neðan er grein úr Dagblaðinu frá 8 mars árið 1977 þegar togaranum var hleypt af stokkunum;

Innilegt lófatak fjölda skipasmiða og annarra viðstaddra fylgdi skuttogaranum Elinu Þorbjarnardóttur, ÍS 700, er hann rann örugglega og virðulega út úr skipasmíðastöðinni Stálvik í Garðabæ'kl: liðlega 8 í morgun. Slálvík byrjaði á smíði hans fyrir tveim árum fyrir Einar Ólafsson o. fl. á Suðureyri við Súgandafjörð. Skv. upphaflegri áætlun átti að vera búið að sjósetja skipið fyrr, en að sögn Jóns Sveinssonar, forstj. Stálvíkur, dróst það á langinn vegna þess að dregið var úr lánum til innlendra skipasmíða. Kemur það heim við frétt í DB fyrir nokkrum dögum. Hins vegar tók smíðin skemmri tíma en áætlað var, eftir að nægilegt fé fékkst. Þetta er þriðji skuttogarinn sem smíðaður er í Stálvík og er hann svipaður þeim síðasta, Runólfi, nema heldur lengri. Er hann 51 metri með 440 rúmmetra lest, 2400 ha MAK vél hæggengri og siglinga- og fiskileitartækjum frá Simrad. Margrét Theodórsdóttir gaf skipinu nafn með freyðandi kampavíni en hún er tengdadóttir eins eigandans. Eigendurnir áttu fyrir skuttogarann Trausta, sem verður seldur til Patreksfjarðar. Elín er fjölhæft veiðiskip m.a. búin til flottrollveiða. Meðal viðstaddra i morgun var metaflaskipstjórinn Ásgeir Guðbjartsson af Guðbjörgu ÍS sem er norskur togari. Þess háttar togarar hafa reynzt mjög vel hér og þykja þeir beztu. taldi Ásgeir þennan nýja íslenzka togara ekkert gefa þeim eftir.

27.12.2015 09:36

Nýsköpunartogarar Norðfirðinga og togarinn Gerpir NK 106 í smíðum.

Togarinn Goðanes NK 105 í smíðum hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1947. Eftir sjósetningu skipsins,16 september sama ár eins og sést á myndinni var honum fleytt niður til Hull þar sem vélbúnaði og öðru var komið fyrir og lokið við smíðina þar. Togarinn var afhentur eigendum sínum,Goðanesi h/f í Neskaupstað,18 desember. Goðanes kom til heimahafnar í fyrsta sinn á annan dag jóla árið 1947.

Goðanes NK 105.        Mynd úr: Norðfjörður,saga útgerðar og fiskvinnslu. Smári Geirsson. Útg: 1983.

Nýsköpunartogarinn Egill rauði NK 104 í smíðum hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi haustið 1946.

Egill rauði NK 104.                                                           (C) Mynd: Hafliði Óskarsson// togarar.123.is

Nýsköpunartogaranum Agli rauða NK 104 hleypt af stokkunum hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi,24 janúar 1947.

Egill rauði NK 104. Mynd úr: Norðfjörður,saga útgerðar og fiskvinnslu.
Smári Geirsson. Útg: 1983.

Togarinn Gerpir NK 106 í smíðum hjá A/G Weser Werk í Bremerhaven í V-Þýskalandi árið 1956. Glæsilegt skip og einn af fallegri togurum Íslendinga fyrr og síðar.

130. Gerpir NK 106. TFEC. Mynd úr: Norðfjörður,saga útgerðar og fiskvinnslu. Smári Geirsson. Útg:1983.

26.12.2015 11:37

Harðbakur EA 3. TFDG.

85. Harðbakur EA 3. TFDG. Smíði no: 734 hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1950. Hét Víkingur á smíðatíma skipsins. 732 brl. 1000 ha. 3 þjöppu gufuvél. Eigandi hans var Útgerðarfélag Akureyringa og var hann sá fyrsti af svonefndum "Stefaníutogurum" sem komu til landsins,en hann kom í desember 1950. Togarinn var seldur West of Scotland Shipbreaking Co Ltd í Troon í Skotlandi og rifinn þar í september 1979. Ég tók þessa mynd af togaranum við Torfunefsbryggjuna á Akureyri í maí 1979,og nokkrum mánuðum síðar var hann farinn af landi brott í síðasta sinn. Þar með lauk 32 ára sögu Nýsköpunartogaranna hér á landi.
85. Harðbakur EA 3.                                                                          (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa. 

25.12.2015 22:58

Reykjavíkurhöfn á jóladag 25 desember 2015.

Það er gömul venja hjá mér á jóladag að taka rúnt um höfnina og skoða skipin og mynda þau sem flest eru skreytt yfir jólahátíðina. Dagurinn í dag var engin undantekning á því. Það var fallegt veðrið í höfuðborginni en ansi napurt,-12°C.


2203. Þerney RE 1. Skipið liggur við Grandabryggjuna vel hlaðið enda mikið aflaskip þarna á ferð.


2170. Örfirisey RE 4.


Floti H.B.Granda h/f.


1578. Ottó N Þorláksson RE 203.


2184. Vigri RE 71.


Varðskipin Þór, Týr og Ægir.


24.12.2015 23:02

Reykjavíkurhöfn 23 desember 2015.

Óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.Bestu jólakveðjur.


Floti H.B.Granda kominn í jólafötin.                                                    (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa.

23.12.2015 23:31

Þorláksmessuskatan.

Í kaþólskum sið var fasta fyrir jólin og átti þá ekki að borða mikið góðgæti og einna síst á Þorláksmessu. Það átti að vera sem mestur munur á föstumat og jólakræsingum, auk þess sem ekki þótti við hæfi að borða kjöt á dánardegi heilags Þorláks. Þessir matsiðir héldust í stórum dráttum þótt hætt væri að tilbiðja Þorlák sem dýrling. Þó var fólki stundum leyft að bragða aðeins á jólahangikjötinu ef það var soðið á Þorláksmessu.

Aðalreglan var samt sú að borða lélegt fiskmeti á þessum degi, en misjafnt var hvað hentaði best á hverjum stað. Á Suðurlandi var sumstaðar soðinn horaðasti harðfiskurinn og frá Vopnafirði er þessi vísa til marks um mataræðið:

Á Þorláksdag í matinn minn
morkinn fékk ég hákarlinn
harðan fiskinn hálfbarinn
og hákarlsgrútarbræðinginn.


Vel kæst skata að hætti Vestfirðinga.

Um þetta leyti árs veiddist skata einkum á Vestfjarðamiðum. Hún þótti enginn herramannsmatur ótilhöfð og var því algengur Þorláksmessumatur á þeim slóðum. Í aldanna rás tókst Vestfirðingum á hinn bóginn að tilreiða úr skötunni mikið ljúfmeti eins og skötustöppuna, og mörgum þótti það óbrigðult merki þess að jólin væru í nánd þegar lykt tók að berast af skötustöppu. Eftir því sem leið á 20. öld flykktist fólk úr öllum byggðarlögum á suðvesturhorn landsins, Vestfirðingar ekki síður en aðrir. Þeir söknuðu Þorláksmessuskötunnar og margir reyndu að útvega sér hana úr heimahögum. Smám saman smitaði þessi venja þeirra út frá sér og eftir miðja öldina fóru margar fiskbúðir á höfuðborgarsvæðinu að hafa skötu á boðstólum í desember. Fyrir um aldarfjórðungi fóru svo nokkur veitingahús að bjóða til skötuveislu á Þorláksmessu og þar með varð þetta tíska.

Þorláksmessuskata er með öðrum orðum ævagömul á Vestfjörðum en ekki nema nokkurra áratuga gömul á Reykjavíkursvæðinu.

Alþekkt er í heiminum að matréttir sem upphaflega urðu til vegna fátæktar eða skorts á framboði þykja seinna lostæti. Ástæðan er oft það nostur sem hafa þurfti við matreiðsluna til að gera hráefnið gómsætt. Þetta á til dæmis við um ýmsa franska skelfisks- og sniglarétti. Fyrir utan skötuna má á Íslandi nefna laufabrauðið sem þurfti að vera örþunnt vegna mjölskorts á 17. og 18. öld, og rjúpuna sem upphaflega var jólamatur þeirra sem ekki höfðu efni á að slátra kind.

                                                                    Heimild: Árni Björnsson þjóðháttafræðingur.


22.12.2015 23:15

Gamlar skipaskrár.

Þetta er nú eitthvað fyrir þá sem áhuga hafa á gömlum skipum og fróðleik þeim tengdum. Ísrael Daníel Hansen hjá Samgöngustofu að Ármúla 2 í Reykjavík er með mikið af gömlum skipaskrám,sú elsta er frá árinu 1928. Þeir sem þetta lesa og áhuga hafa á að eignast eintök,geta haft samband við hann á netfanginu: israeldh@samgongustofa.is eða hafa samband símleiðis. Það er um að gera að bregðast sem fyrst við,því það stendur til að henda þeim á næstunni. Held að þeir sendi ekki út á land,heldur verður að nálgast skrárnar hjá þeim. Ég fór í dag og fékk um 40 eintök,það elsta frá 1928 og til ársins 2003 þegar hætt var að gefa þær út.
Gamlar skipaskrár,sannkallaðar gersemar.

21.12.2015 06:58

2900. Beitir NK 123. TF..

Beitir NK 123. ex Gitte Henning S 349. Smíðaður hjá Western Baltija Shipbuilding í Klaipeda í Litháen árið 2014. 4.138 brl. 7.094 ha. Wartsiila díesel vél. 5.220 Kw. Einnig er í skipinu hjálparvél,2.300 Kw sem hægt er að keyra með aðalvél. Beitir er 86,3 metrar á lengd og 17,6 á breidd. Burðargeta skipsins er 3.200 tonn. Þetta er fjórða skipið í flota Síldarvinnslunnar sem ber nafnið Beitir. Skipið er væntanlegt til heimahafnar,Neskaupstaðar á Þorláksmessu.


2900. Beitir NK 123.

2900. Beitir NK 123.

2900. Beitir NK 123.                              (C) Myndir: Bandholm Skibsbilleder.

Úr vélarrúmi Beitis NK 123.                                                                  (C) Mynd: Síldarvinnslan h/f.

20.12.2015 09:25

1131. Bjarni Sæmundsson RE 30. TFEA.

Bjarni Sæmundsson RE 30. TFEA. Hafrannsóknarskip,smíði no: 473 hjá Schiffbau Gesellschaft í Bremerhaven í V Þýskalandi árið 1970 fyrir Ríkissjóð Íslands. 776 brl. 1803 ha. M.a.n. díesel vélar (1326 Kw) Ég tók þessar myndir af honum þegar hann var í slippnum í Reykjavík,27 október síðast liðinn. Fallegt skip sem er vel við haldið og hefur reynst vel alla tíð. 




1131. Bjarni Sæmundsson RE 30. Þessi mynd er tekin 4 maí 2014.    (C) Myndir:Þórhallur S Gjöveraa. 

18.12.2015 23:08

970. Barði NK 120. TFFH.

 Barði NK 120. TFFH. Smíði no 406 hjá V.E.B. Elber Werft í Boizenburg í A-Þýskalandi árið 1964. 264 brl. 600 ha.Lister díesel vél. Kom nýr til Neskaupstaðar 5 mars 1965. Fyrsta skipið í eigu útgerðar Síldarvinnslunnar h/f. Þann 20 desember 1964 var Barði í reynslusiglingu á Elbufljóti,þá vildi það óhapp til að stórt flutningaskip sigldi á hann. Skemmdist skipið þó nokkuð. Þetta gerðist rétt áður en átti að afhenda hann eigendum sínum. Varð þetta óhapp til þess að afhendingu seinkaði og kom Barði ekki til heimahafnar fyrr en 5 mars 1965 eins og fyrr segir. Síðari hluta ársins 1970 bar skipið nafnið Barði ll NK 118. Skipið var selt,13 nóvember 1970 Skinney h/f,Höfn í Hornafirði,hét Skinney SF 20. Selt til Noregs árið 1975.


Barði NK 120 á Norðfirði.                                                               (C) Mynd: Guðmundur Sveinsson.


Barði NK eftir ásiglinguna á Elbufljóti,20 desember 1964.                        (C) Mynd: Síldarvinnslan h/f.

17.12.2015 08:48

Málverk af gömlum kolakynntum gufutogara.

 Brimir NK 75. ex Ver GK 3. Smíði no 897 hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920. 314.brl.550 ha.3 þjöppu gufuvél. Var fyrst í eigu Breska flotans,hét Simeon Moon. Seinna sama ár (1920) kaupa Hellyers bræður í Hull togarann,fær nafnið General Rawlinson H 173. Fyrsti eigandi á Íslandi var Fiskveiðahlutafélagið Víðir í Hafnarfirði frá sept 1924,hét Ver GK 3. Seldur h/f Ver í Hafnarfirði,4 sept 1931,hét Ver RE 32. Togarinn var seldur Togarafélagi Neskaupstaðar,18 apríl 1936,hét Brimir NK 75. Seldur Skúla Thorarensen kaupmanni í Reykjavík og Helgafelli h/f í Reykjavík,30 júlí 1939. Hét Helgafell RE 280. Seldur í júní 1945,h/f Hrímfaxa í Reykjavík og h/f Sviða í Hafnarfirði,togarinn hét Skinfaxi GK 3. Seldur til Færeyja í ágúst 1947,hét þar Miðafell FD 69. Togarinn var seldur í brotajárn til Antwerpen í Belgíu í október árið 1951.


Brimir NK 75. Málverk eftir Sigríði Lúðvíksdóttur. Eiginmaður Sigríðar,Jónas Guðmundsson var lengst af framkvæmdastjóri Togarafélags Neskaupstaðar. Þessi mynd var á kápu sjómannadagsblaðs Neskaupstaðar frá árinu 1981.


Togarinn Brimir NK 75 við bryggju í Neskaupstað,sumarið 1937.                    Ljósm: Björn Björnsson.


Síld landað úr togaranum Brimi NK 75 í Fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar,sumarið 1937. Ljósm:óþekktur.


Verið að landa síld úr togaranum Brimi NK 75 í Fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar,sumarið 1937. Það hefur aldeilis verið handleggur að landa heilum togarafarmi á handvögnum eins og sést á myndinni. Báturinn til vinstri er trúlega Stella NK 61 ex Stella EA 373,eftir að hann var lengdur í Neskaupstað árið 1934. Báturinn utan á Brimi er Magni NK 68. Hann fórst á Faxaflóa,9 febrúar 1946 með fjórum mönnum en einn bjargaðist. Ekki viss hvaða bátur liggur utan á honum.                               Ljósm: Björn Björnsson.





16.12.2015 10:45

Keflavíkurhöfn 13 október 2013.

Þær eru nú margar fallegar fleyturnar sem sjá má í höfnum landsins. En það er af sem áður var þegar bátarnir lágu í röðum við bryggjurnar,virkilega falleg sjón sem mun sennilega aldrei sjást aftur við sjávarsíðuna hér við landið.


13. Happasæll KE 94.

1396. Gulley KE 31.

Hvalaskoðunarskipið Moby Dick. ex Djúpbáturinn Fagranes.

89. Grímsnes BA 555. Hét fyrst Árni Geir KE 74. Myndin er tekin í Njarðvíkurhöfn.

311. Baldur KE 97. Báturinn er varðveittur í Grófinni við smábátahöfnina í Keflavík.
                                                                                                   (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa.
Flettingar í dag: 299
Gestir í dag: 86
Flettingar í gær: 2133
Gestir í gær: 252
Samtals flettingar: 1051482
Samtals gestir: 75999
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:41:02