Færslur: 2016 Júní

13.06.2016 21:06

Stórstraumsfjara í Flatey á Breiðafirði.

Ég tók þessar myndir í Flatey 3 júní sl. Í þau 45 ár sem ég hef verið af og til í eyjunni hef ég aldrei orðið vitni af eins mikilli fjöru. Það liggur við að hvert sker eða boði komi upp og þá er nú heldur betur orðið vandratað á milli þeirra. Þarna var ennþá rúmur klukkutími í liggjandann. Siglingaleiðir milli eyja í Vestureyjum miðast oft mikið við flóð eða fjöru eðlilega, enda gífurlegur munur flóðs og fjöru í Breiðafirði.


Kerlingarvogur í Flatey. Sýrey til hægri og grynningar langt vestur af henni. Skjaldmeyjareyjar bera í vesturenda Sýreyjar. Barðastrandarfjöllin í fjarska.


Teinæringsvogur til vinstri. Flateyjarklofningur fyrir miðju. Oddbjarnarsker komið vel upp úr lengst til vinstri.


Höfnin í Flatey. Kerlingarvogur í forgrunni. Vesturbúðarvör hinu megin við garðinn næst á myndinni.
                                                                             (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 3 júní 2016.

11.06.2016 09:12

Huginn. LCFR.

3 m. skonnortan Huginn var smíðaður í Essex í Massachusetts í Bandaríkjunum árið 1916. Eik 216 brl. Útgerðarfélagið Kveldúlfur í Reykjavík keypti skipið 15 janúar árið 1917. Huginn var einkum í saltfiskflutningum til Spánar og annarra Miðjarðarhafslanda og flutti salt og ýmsar aðrar vörur til Íslands. Hugin rak upp í Rauðarárvíkina í Reykjavík árið 1923 og eyðilagðist þar.


Huginn á sundunum við Reykjavík um 1920.                                             Ljósm: Magnús Ólafsson. ?

10.06.2016 09:02

Póstgufuskipið Phoenix. NHGD.

Phoenix (Phönix) var smíðað hjá James Henderson & Son í Renfrew í Skotlandi árið 1861. 627 brl. 100 nHK 2 þjöppu gufuvél. Fyrsti eigandi var Det almindelige danske D/S. A/S í Kaupmannahöfn. Phoenix var í póstferðum til Íslands frá árinu 1864. Det Forenede Dampskibs Selskab (DFDS) eignast skipið 1 janúar árið 1867. Hinn 15 janúar árið 1881 lagði skipið af stað í sína hinstu för frá Kaupmannahöfn áleiðis til Reykjavíkur. Skipið var komið fyrir Reykjanes 29 janúar en hreppti þá mikið óveður með mikilli ísingu og hraktist upp undir Mýrar, þar sem skipið strandaði skammt frá Skógarnesi, 31 janúar. Allir skipverjarnir, 24 komust í land en þeir voru margir hverjir illa haldnir af kali. Ekkert náðist úr skipinu nema lítill poki með bréfum frá Englandi, öllum blautum og skemmdum og bréfakassi einnig með sjóvotum bréfum.


Póstgufuskipið Phoenix.                                                                         Teikning. Höfundur óþekktur.

15. janúar 1881 lagði póstskipið Phønix frá Kaupmannahöfn, ferðinni var heitið til Íslands, með viðkomu í Skotlandi og Færeyjum. Á þessum árum voru gufuskipaferðir til Íslands ekki algengari en það að hingað gekk aðeins eitt skip - Póstskipið - og kom það til Reykjavíkur síðustu ferð ársins í nóvember. Síðan kom ekkert skip fyrr en seint í janúar, miðvetrarskipið, og eftir það var aðeins farin ein ferð í mánuði. Þessi janúar mánuður 1881 hefur verið kallaður Þorrabylurinn en hann var einn mesti frosta og harðindavetur sem gengið hefur yfir Ísland. Faxaflói að innanverðu hafi allur verið ísilagður, ein hella.

Er Phønix sigldi fyrir Reykjanes hreppti það aftaka norðanveður með hörkufrosti og blindhríð. Skipið var allt yfirísað og erfiðlega gekk að stýra skipinu, auk þess vissu menn ekki nákvæmlega hvar þeir voru staddir. Eftir tveggja sólarhringa baráttu við veðuröflin og þrotlausa vinnu við að brjóta ísinn af skipinu voru menn að niðurlotum komnir. Er skipið var statt útaf Löngufjörum, Snæfellsnesi, tók það niður á blindskeri þannig að leki kom. Áhöfnin, alls 24 manns, höfðu engan tíma til að bjarga farmi skipsins, aðeins það að sjósetja björgunarbáta. Það var til happs að skipið hafði strandað stutt frá landi, þannig að allir komust í land. Aftakabylur var og mikill kuldi -10° til -20° frost. Þegar menn náðu til byggða eftir marga klukkutíma barning í veðrahaminum voru margir þeirra illa á sig komnir. Þannig fór að einn úr áhöfninni lést nokkrum dögum síðar, sökum kalsára. Þá varð læknir að fjarlægja útlimi nokkurra skipsbrotsmanna. Sá látni hét Alexius Bech, þrítugur að aldri, en hann var kokkur um borð í skipinu. Alexius var jarðsettur í Miklholtskirkjugarði, 16. febrúar 1881.

Næstu daga var reynt að bjarga einhverju af farmi skipsins en það reyndist miklum erfiðleikum bundið. Margir misstu mikið við strand þetta enda mikið af nauðsynjavörum var um borð. Nokkrar ferðir voru farnar um borð í skipið þar sem það hékk á skerinu en lestin var full af sjó og því ógerlegt að bjarga póstpokum skipsins þar sem hann var allur geymdur í skuti skipsins. Töluverður reki varð úr flakinu og náði rekasvæðið alla leið frá strandstað að Búðum á Snæfellsnesi. Sagt var að rekasvæðið hafi verið allt að 10 mílur. Uppboð á rekamunum voru haldin af sýslumanni og gat fólk boðið í þá hluti sem ekki voru merktir einhverjum ákveðnum eiganda.

Þess ber að geta að árið áður en skipið fórst eða 4. maí 1880 voru jarðneskar leifar Jóns Sigurðssonar og konu hans, frú Ingibjargar flutt með Phønix frá Danmörku til Íslands. Til heiðra minningu þeirra voru listamenn og myndhöggvarar fengnir til að koma með hugmyndir, gera teikningar og kostnaðaráætlanir að gerð minnismerkis, sem setja átti upp á Íslandi við leiði þeirra hjóna. Þessar tillögur og teikningar voru sendar með Phönix í þessari örlagaríku ferð. Einnig eru heimildir fyrir því að marmaraplata sem setja átti á leiði skáldsins Kristjáns Jónssonar, Fjallaskálds, hafi verið með í skipinu. Er þetta aðeins hluti af þeim munum og skjölum sem fóru niður með skipinu.

Fyrsta ferð Phønix til Íslands var 7. júni 1864 og var það á áætlunum til landsins allt til þess tíma er það fórst. Phønix var fyrsta gufuskipið sem sinnti svokölluðum miðsvetrarferðum til Íslands. Á þessum tíma skipti það Íslendinga miklu máli að fá ýmsar vörur og halda uppi samgöngum á milli Íslands og Evrópu yfir vetrartímann. 

Heimildir: Póstsaga Íslands. 1873 - 1935.

                  Wikipedia. Frjálsa alfræðiritið.

.

09.06.2016 10:29

E.s. Snæfell. TFCM.

Snæfell var smíðað í Stavanger í Noregi árið 1901. 751 brl. 500 ha. 3 þjöppu gufuvél. Eigandi var Útgerðarfélagið K.E.A. h/f á Akureyri frá 16 febrúar 1935. Skipið hét áður Kongshaug og var norskt vöruflutningaskip sem hafði strandað við Siglufjörð, 27 október árið áður. Eftir viðgerð í Noregi var skipinu gefið nafnið Snæfell og haft til vöruflutninga fyrir kaupfélagið (K.E.A.). Snæfell var selt úr landi 5 júní árið 1941.


E.s. Snæfell á pollinum á Akureyri.                                                 (C) Mynd: Minjasafnið á Akureyri.

       Flutningaskipið "Kongshaug" strandar.

 Norska flutningaskipið "Kongshaug" lá á höfninni og var nýbúið að lesta 6000 tunnur af matjesíld frá "Sambandi íslenzkra matjesíldarframleiðenda" og átti að fara til Gdynia í Póllandi. Það sleit upp í nótt og rak upp á land á Skútufjörum, sem eru austan fjarðar, beint á móti hafnarbryggjunni. [Samkvæmt skeyti til Sjóvá- tryggimgarfélags íslands, er talið að skipið muni ekki nást út.] Menn voru allir um borð í skipinu, en talið er, að þeir séu ekki í neinni hættu, og ekki talið líklegt, sem stendur, að farmurinn muni eyðileggjast, ef veður lægði bráðlega. Farmurinn var vátryggður hjá Sjóvátryggingarfélaginu fyrir 200 þúsumd krónur.

Alþýðublaðið 28 október 1934.


08.06.2016 08:51

Vaðsteinabjarg í Hergilsey á Breiðafirði.

Hergilseyjar er getið í landnámu í tengslum við Flatey. Hergils hnapprass, sonur Þrándar í Flatey, bjó þar og síðan Ingjaldur sonur hans. Sagan segir að Börkur digri hafi rekið Ingjald úr Hergilsey vegna liðveislu við Gísla Súrsson og fer tvennum sögum af hvort hún fór í eyði aftur þá eða síðar. Hitt er vitað að hún var í eyði um margra alda skeið og lá þá undir Flatey. Í Jarðabók Árna og Páls er sagt að Hergilsey liggi undir Flatey og þar sé selstaða þaðan en að hún hafi verið byggð til forna. Árið 1783 ræðst Eggert Ólafsson úr Flatey, þá bóndi í Sauðeyjum, í það að endurreisa byggð í Hergilsey. Fékk hann henni skipt úr Flateyjarlandi og flutti þangað búferlum. Töldust það jöfn skipti og hvor jörðin metin á 40 hundruð á eftir. Augljóst virðist þó að graslendi sem féll í hlut Hergilseyjar er minna en það sem fylgdi Flatey en sumt annað jarðargagn jafnvel meira í Hergilsey. Í Hergilsey er síðan búið samfellt til ársins 1946, eða í 163 ár. Þá fór hún aftur í eyði og hefur verið það síðan. Móðurafi minn, Þórður Valgeir Benjamínsson og kona hans, Þorbjörg Sigurðardóttir voru síðustu ábúendur eyjarinnar, bjuggu þar í rúm 22 ár uns þau fluttu í Flatey í ágústmánuði 1946 eins og fyrr segir.


Hergilsey á Breiðafirði.


Vaðsteinabjargið í Hergilsey.


Vaðsteinabjargið. Stuðlabergið er víða í Vestureyjum Breiðafjarðar.


Vaðsteinabjarg í Hergilsey.                                           (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 3 júní 2016.

           Hulduskip hjá Hergilsey

Einu sinni um vor sáu konur í Hergilsey að skip nokkur komu utan úr Oddbjarnarskeri; hugðu þær að það væru róðrarskip heimamanna og tóku til matreiðslu er þær ætluðu að beina komumönnum með. Þær horfðu á skipin róa inn frá Skialdmeyjareyjum og hverfa undir Vaðsteinabjargið. En er þeim leiddist að skipin komu ekki í lendingar gengu þær upp á ey og Iituðust um í allar áttir en sáu ekkert. Sögur um þess háttar skipasjónir er horfið hafa allt í einu og enginn vitað um framar eru margar. Eru skip þessi, álfum eignuð.

Úr sögu lands og lýðs. Mánudagsblaðið. 12 maí 1975.


07.06.2016 10:26

Kútter Björgvin RE 18. LBSC.

Björgvin RE 18 var smíðaður í Englandi árið 1885. Eik, 89 brl. Vél ókunn, (var með hjálparvél). Eigendur voru Árni Kristinn Magnússon, Nicolai Bjarnason, Carl Bjarnason og Þórður Bjarnason frá 1 desember árið 1900. Árið 1906 voru eigendur Árni Kristinn Magnússon, Nicolai Bjarnason, Þórður Pétursson, Ellert Kristófer Schram og Ingunn Jónsdóttir Bjarnason í Reykjavík. Skipið var selt 2 janúar 1911, Firmanu H.P. Duus í Reykjavík. Árið 1917 var sett í skipið 84 ha. Tuxham vél. Björgvin var seldur til Færeyja árið 1925 og hélt sínu nafni þar.


Kútter Björgvin RE 18.                                                                                     Ljósmyndari óþekktur.
                  
                    KÚTTER BJÖRGVIN
". Haustið 1900 fór Kristinn Magnússon til Englands og festi þar kaup á myndarlegum kútter er þeir keyptu í félagi þrír saman. Þeir nefndu skipið "Björgvin", og var Kristinn með það í fjögur ár. Kristinn var fæddur 24. nóvember 1873 í Reykjavík, líklega á Skálarústum þeirra landnámshjóna Hallveigar Fróðadóttur og Ingólfs Arnarsonar. Skúli fógeti setti þar á stofn "Ullarstofu Innréttinganna" og það var hann sem fyrstur beitti sér fyrir skipulegri útgerð á íslandi. Kristinn fór í fóstur til frænda síns og nafna, skipasmiðsins í Engey oq þess vegna var hann kenndur við hana. Hann var einn af þeim sex nemendum sem fyrstir brautskráðust frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík í aprílmánuði 1893 Kristinn hélt tryggð við fæðingarstað sinn og reisti hann þar síðar húsið Uppsali. Í "Sjómannasögu" eftir Vilhjálm Þ. Gíslason, sem Isafoldarprentsmiðja gaf út 1945, eru myndir af ýmsum gerðum skipa, þar á meðal er mynd af einum kútter á bls. 48, það er "Kútter Björgvin". Myndin er góð og greinilega sjást einkennisstafirnir, R.E. 18, á stórseglinu. Rúmmál skútunnar var talið 89 47/100 smálestir. Fyrsta skipshafnarskráin er frá 18/2 1901, hún er til í Þjóðskjalasafninu. Til er ljósmynd af skipshöfninni frá árinu 1902. Örugg vitneskja er um nöfn, aldur og fæðingarstað allra mannanna, nema tveggja. Ennþá getur sennilega einhver upplýst okkur um hverjir þeir eru. Í viðtali sem Gils Guðmundsson alþingismaður átti við Kristinn Magnússon skipstjóra og nefnist "Frá Skútuöldinni" og birtist í bókinni "Fólkið í landinu", útgefin af Menningar- og fræðslusambandi al- þýðu 1951, segir Kristinn á bls. 196, orðrétt: "Kútter Björgvin" er enn til í Færeyjum og ber sitt gamla nafn. Kom hann hingað síðast í fyrra og þótti mér gaman að sjá þennan fornkunningja minn, sem ber ellina furðu vel." Þegar komið verður upp sjóminjasafni er ekki ólíklegt að þar verði eitt þilskip. Að siálfsögðu hef ég mestan áhuga á "Kútter Björgvin", sem sennilega er ennþá til í Færeyjum.

Sjómannadagsblaðið 40. Árg. 1977.



03.06.2016 04:34

1495. Birtingur NK 119. TFEJ.

Birtingur NK 119 var smíðaður hjá Stocznia in Komuny Paryskiej í Gdynia í Póllandi árið 1975. 453 brl. 1.500 ha. Crepelle díesel vél. Hét áður Delos. Eigandi var Síldarvinnslan h/f í Neskaupstað og  kom fyrst til heimahafnar 19 september 1977. Togarinn var seldur til Caymaneyja 19 nóvember árið 1992.


Birtingur NK 119 á sjómannadaginn á Norðfirði.                                                        (C) Mynd: SVN.

Óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn og megi þeir njóta hans sem allra best.
Læt þessa færslu lifa hér á síðunni fram yfir helgi þar sem ég er að fara vestur í Flatey á Breiðafirði.
Bestu kveðjur til ykkar allra og njótið sjómannadagshelgarinnar.

02.06.2016 05:41

Eljan SU 433. LBRM.

Eljan SU 433 var smíðuð í Álasundi í Noregi árið 1908. Járn. 82 brl. 120 ha. 2 þjöppu gufuvél. Eigandi var h/f Eljan á Norðfirði frá 18 maí 1925. Skipið var selt h/f Júní í Hafnarfirði árið 1927, sama nafn og númer. Eljan strandaði í Hafnarfirði árið 1931 og eyðilagðist.

 
Eljan SU 433.                                                                                                 Ljósmyndari óþekktur.

01.06.2016 10:11

Muninn. LCFT.

3 mastra skonnortan Muninn var smíðaður í Tottenville í New York í Bandaríkjunum árið 1911. 216 brl. Vélarlaus. Skipið var áður rannsóknarskip í norðurhöfum, hét James Bluett. h/f Kveldúlfur í Reykjavík eignast skipið 25 janúar 1917. Muninn var slétttoppari og sérlega hraðskreitt skip af seglskipi að vera. Skipið var aðallega í saltfiskflutningum fyrir Kveldúlf til Spánar og annara Miðjarðarhafslanda og flutti salt og ýmsar aðrar vörur heim. Jón Guðmundsson skipstjóri í Reykjavík, síðar á Akureyri, og fl. keyptu skipið af Kveldúlfi snemma á árinu 1924 og hlaut þá nafnið Veiðibjallan. Þeir létu skrá það sem fiskiskip. Veiðibjallan var gerð út til fiskveiða fyrst í stað, en var síðan höfð í flutningum milli Íslands og Evrópulanda. Veiðibjallan strandaði á Breiðamerkursandi 14 nóvember 1925. Einn skipverji drukknaði og tveir urðu úti á leið til bæja.


Muninn í slipp í Reykjavík.                                                                        Ljósm: Magnús Ólafsson.


Muninn á Viðeyjarsundi.                                          Ljósmyndari óþekktur, mynd í Íslensk skip 3 bindi.


Málverk af Muninn.                                                                                                  Málari óþekktur.
Flettingar í dag: 1882
Gestir í dag: 116
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1192284
Samtals gestir: 83672
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:39:31