Færslur: 2018 Maí

31.05.2018 19:04

Togarinn Ottó N Þorláksson RE 203 kveður.

Skuttogarinn Ottó N Þorláksson RE 203 kom úr sinni síðustu veiðiferð fyrir H.B. Granda hf. s.l. sunnudag með fullfermi. Ottó var seldur Ísfélagi Vestmannaeyja hf í desember á síðasta ári og verður skipið afhent nýjum eigendum nú um mánaðarmótin. Ottó N Þorláksson RE var smíðaður hjá Stálvík hf í Garðabæ árið 1981 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur hf. 485 brl. 2.400 ha. MaK vél. Hefur alla tíð verið mikið afla og happaskip og verður það væntanlega fyrir sína nýju eigendur.


1578. Ottó N Þorláksson RE 203 á útleið frá Reykjavík.         (C) Þórhallur S Gjöveraa. 24 sept 2015.


Ottó N Þorláksson RE 203 á útleið.                                     (C) Þórhallur S Gjöveraa. 24 sept 2015.


Ottó við Ægisgarð í morgun. Búinn að skila sínu og vel það.  (C) Þórhallur S Gjöveraa. 31 maí 2018.


2895. Viðey RE 50 tilbúin að taka við hlutverki Ottós.         (C) Þórhallur S Gjöveraa. 31 maí 2018.


Hið nýja skip, Viðey RE 50 við bryggju í Örfirisey.      (C) Þórhallur S Gjöveraa. 26 desember 2017.

       Ottó N Þorláksson RE 203
        seldur til Vestmannaeyja

HB Grandi hefur selt ísfisktogarann Ottó N. Þorláksson RE 203 til Ísfélags Vestmannaeyja. Söluverðið er 150 milljónir króna og verður það greitt við afhendingu sem fer fram eigi síðar en 31. maí næstkomandi.
Ottó N. Þorláksson var smíðaður árið 1981 í Garðabæ og hefur skipið reynst afburðar vel.

Af vefsíðu H.B. Granda hf. 29 desember 2017.


               Aflaskip kveður
            Viðey RE tekur við

Ísfisktogarinn Ottó N. Þorláksson RE kom til Reykjavíkur sl. sunnudag með fullfermi. Þetta var síðasta veiðiferð þessa mikla aflaskips fyrir HB Granda en í stað þess kemur nýsmíðin Viðey RE.
Ottó N. Þorláksson hefur verið farsælt aflaskip. Það var smíðað í Stálvík í Garðabæ árið 1981. Skipstjóri hefur verið Jóhannes Ellert Eiríksson en hann tók við togaranum fyrir 24 árum. Ottó N. Þorláksson er nú í slipp í Reykjavík þar sem nýir eigendur taka við honum í vikunni.
Viðey hefur eftir komuna frá Tyrklandi í desember sl. verið á Akranesi þar sem starfsmenn Skagans 3X hafa unnið að uppsetningu nýs, sjálfvirks lestarkerfis, aðgerðaraðstöðu á millidekki og stillingu á ýmsum tölvubúnaði. Er rætt var við Jóhannes Ellert skipstjóra var verið að taka veiðarfæri um borð í Reykjavík en stefnt er að því að togarinn fari í reynslusiglingu fyrir sjómannadag og svo á veiðar í framhaldinu.

Af vefsíðu H.B. Granda hf. 29 maí 2018.


27.05.2018 18:24

Farþegaskipið MSC Meraviglia.

Risafarþegaskipið Meraviglia var smíðað hjá STX Europe A/S í St. Nazaire í Frakklandi árið 2017. Skipið er í eigu MSC Cruises á Ítalíu. 171. 598 brl. 2 x 4T 12 cyl, 2 x 4T 16 cyl, samtals 51. 500 ha. 38,4 MW. Skipið er 315 m. á lengd, 43 m. á breidd og djúprista er 8,8 m. Í áhöfn skipsins eru 1.560 manns og getur tekið eina 4.500 farþega. Ég tók þessa myndasyrpu af skipinu við Skarfabakka og á Viðeyjarsundi þegar það hélt til hafs. Ég heyrði það að þegar skipið kom, þurfti það að bakka inn Viðeyjarsundið til að komast að Skarfabakkanum. Það gat ekki snúið á Sundinu vegna stærðar sinnar. Sannarlega fallegt skip.


MSC. Meraviglia á Viðeyjarsundi.












Ægir gamli er ekki stór í samanburði við þennan risa.


MSC Meraviglia við Skarfabakka í Sundahöfn í gær.          (C) Þórhallur S Gjöveraa. 27 maí 2018.

  Stærsta skemmti­ferðaskip á Íslandi

Stærsta skemmti­ferðaskip sem til Íslands kem­ur í sum­ar er vænt­an­legt til Reykja­vík­ur á laug­ar­dag. Skipið, sem ber nafnið MSC Mera­viglia, verður stærsta skemmti­ferðaskip sem hingað hef­ur komið. Mera­viglia hef­ur sól­ar­hringsviðdvöl við Skarfa­bakka og sigl­ir á brott á sunnu­dag. 4.526 farþegar koma með skip­inu og 1.561 er í áhöfn skips­ins, seg­ir í til­kynn­ingu frá Gáru, dótt­ur­fé­lagi TVG-Zimsen sem þjón­ust­ar skipið á meðan það er við höfn á Íslandi.
Í til­kynn­ing­unni seg­ir að skipið sé hið glæsi­leg­asta, 171.598 brútt­ót­onn að stærð, 315 metr­ar að lengd og 43 metr­ar að breidd. Fé­lagið MSC Cruises er eig­andi skips­ins og er fyrsta fyr­ir­tækið í skemmti­ferðaskipaiðnaði sem hlýt­ur verðlaun­in "7 perl­ur", en verðlaun­in eru veitt þeim fyr­ir­tækj­um sem huga vel að lofts­lags-, sjáv­ar- og úr­gangs­mál­um.
146.700 farþegar eru vænt­an­leg­ir hingað til lands með skemmti­ferðaskip­um á þessu ári, fleiri en nokkru sinni fyrr. Á þessu ári verða skip­in 70 tals­ins og hafa 165 sinn­um viðkomu í Reykja­vík.

Mbl.is 24 maí 2018.



27.05.2018 07:42

23. Baldur EA 12. TFSN.

Vélskipið Baldur EA 12 var smíðaður hjá V.E.B. Volkswerft  Ernst Thalmann í Brandenburg í Austur Þýskalandi árið 1961 fyrir Aðalstein Loftsson útgerðarmann á Dalvík. 101 brl. 400 ha. Mannheim díesel vél. Skipið var smíðað eftir teikningum Hjálmars R Bárðarssonar og var eitt af 15 fiskiskipum sem smíðuð voru í Brandenburg fyrir Íslendinga á árunum 1959-61. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Dalvíkur hinn 1 júní 1961. Skipið var selt 31 október 1966, Hraðfrystihúsi Grindavíkur hf, hét þá Már GK 55. Ný vél (1979) 400 ha. Mirrlees Blackstone díesel vél, 294 Kw. Árið 1991 er skipið komið í eigu Vísis hf í Grindavík, sama nafn og númer. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 1 júlí árið 1992. Var að endingu rifið um áramótin árið 1993-94.


Vélskipið Baldur EA 12.                                            (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

             Nýtt skip til Dalvíkur

Á fimmtudaginn kom nýtt 102 tonna austur-þýzkt stálskip til Dalvíkur. Eigandi er Aðalsteinn Loftsson, útgerðarmaður, sem einnig er eigandi Baldvins Þorvaldssonar og hefur rekið útgerð á Dalvík um margra ára bil, haft fiskmóttöku og verkað saltfisk og skreið. Viktor Jakobsson sigldi skipinu heim. Skipstjóri á sildveiðum verður Kristján Jónsson. Ganghraði skipsins var 10 sjómílur á heimsiglingu. Vél skipsins er 400 ha. Mannheim.
Skipið verður með kraftblökk á síldveiðunum.

Dagur. 7 júní 1961.


23. Már GK 55.                                                                                            (C) Tryggvi Sigurðsson.


Már GK 55. Sennilega kominn á endastöð.                                                (C) Tryggvi Sigurðsson.


Smíðaupplýsingar. Haukur Sigtryggur Valdimarsson á Dalvík.

26.05.2018 09:24

L. v. Óskar VE 286. LBCN.

Línuveiðarinn Óskar VE 286 var smíðaður hjá Mackie & Thomson Ltd (Covan Shipbuilding Yard) í Glasgow í Skotlandi árið 1891 fyrir British Steam Trawling Co Ltd í Hull, hét fyrst Locust H 174. Járn. 155 brl. 200 ha. 2 þennslu gufuvél, smíðuð hjá Muir & Houston Ltd í Glasgow. Smíðanúmer 40. Skipið var selt 1911, James Alexander í Glasgow, sama nafn og númer. Selt 1913, Thomas Davidson & Alexander Forbes Wood í Aberdeen í Skotlandi, hét Locust A 564. Selt 1914, A. Andersen í Frederikshavn í Danmörku, hét Asta FN. Skipið stundaði síldveiðar við Ísland árið 1915 og m.a. strandaði það í Hrísey í ágúst árið 1915. Björgunarskipið Geir dró það á flot nokkrum dögum síðar. Selt 1915-16, Nils Ahler í Gautaborg í Svíþjóð, sama nafn og númer. Selt 1927, Johan S Djurhuus í Vestmanna í Færeyjum, sama nafn. Skipið var selt í janúar 1929, Gísla Magnússyni útgerðarmanni í Vestmannaeyjum, skipið hét Óskar VE 286. Óskar strandaði og sökk við Lundey á Skagafirði 14 október árið 1930. Áhöfnin bjargaðist um borð í Ágústu VE 250 sem einnig var í eigu Gísla Magnússonar. Voru bæði skipin á kolaveiðum í Skagafirði.


Óskar VE 286. Skipið heitir þarna Asta FN frá Frederikshavn og er myndin tekin af skipinu á strandstað í Hrísey í ágúst árið 1915 frá Björgunarskipinu Geir sem dró það á flot.  (C) Holger Petersen.

                   Í þokunni

Það er víst mjög sjaldgæft, að menn hafi hjer átt jafnmiklum þokum að venjast og raun hefir orðið á nú síðustu vikurnar. Hefir þokan tafið mjög siglingu skipa hjer um fjörðinn og enda orðið þess valdandi, að nokkur þeirra hafa strandað. Á laugardaginn var strandaði norska kolaskipið »Smaragd« við Siglunes. Sama dag strandaði norska flutningsskipið "Jökul« á Þistlingunum, fram af Látrum. Björgunarskipið »Geir« kom með það inn á höfnina á mánudaginn. Þriðjudagsnóttina var, rann »Skallagrímur« á land við Hrísey, en komst þó bráðlega á flot af eigin rammleik. Sömu nótt strandaði norska síldveiðaskipið »Hareid« fyrir innan Látur. »Eggert Ólafsson hjálpaði því á flot, en sænska síldveiðaskipinu »Asta« hjálpaði »Geir«. »Asta« hafði strandað við Hrísey á þriðjudagsnóttina. Öll voru þessi skip óskemmd eða lítt skemmd nema »Smaragd«, sem sagt er talsvert mikið skemmt.

Íslendingur. 20 ágúst 1915.


Óskar VE 286 með fullfermi af síld á Siglufirði.                                                         (C) Heimaslóð.

Línuveiðarinn Óskar frá Vestmannaeyjum
               strandar við Skagafjörð
                        Mannbjörg

Síðastliðinn þriðjudag voru tvö Skip frá Vestmannaeyjum við kolaveiðar í Skagafirði. Var annað línuveiðarinn Óskar, um 152 smálesta eimskip, eign Gísla Magnússonar, útgerðarmanns í Eyjum. Hitt var vjélbáturinn Ágústa, einnig frá Vestmannaeyjum. Aflinn var settur í Óskar og átti hann að fara með aflann til Englands. Aðfaranótt miðvikudags lögðust bæði skipin austan við Lundey og ætluðu að liggja þar næturlangt. En um nóttina rak Óskar upp á sker, sem er fyrir sunnan Lundey, brotnaði hann á skerinu og fylltist af sjó. Skipsmenn komust allir yfir í vjelbátinn og þeir gátu náð farangri sínum með  , en öðru ekki. Næsta dag fóru þeir aftur um borð í Óskar til þess að reyna að bjarga einhverju en , þá var skipið komið á hliðina, og um sama leyti, tók það af skerinu og sökk. Er fjögra faðma dýpi þar sem skipið sökk. Nokkuð af fiski var í Óskari, er hann sökk. Skipið var vátryggt í Sjóvátryggingarfjelaginu fyrir 50 þúsund krónur, en sú vátrygging var lág, því nýlega hafði verið kostað miklu til skipsins. Er tjón eiganda tilfinnanlegt.
Gísli Magnússon var sjálfur á skipinu þegar það strandaði, en skipstjóri var Egill Jóhannsson, duglegur maður og sjógarpur hinn mesti. Ágústa flutti strandmennina til Siglufjarðar, og koma þeir hingað með fyrstu ferð.

Morgunblaðið. 17 október 1930.


Magnús Hinriksson kafari með vélsímann úr Óskari VE.                                            Mynd úr Feyki.

Fann flak skips sem strandaði 1930

Magnús Hinriksson kafari á Sauðárkróki fann nýlega flak skips sem strandaði við Lundey á Skagafirði á haustdögum 1930. Magnús náði vélsímanum úr skipinu, nokkuð heillegum en að vonum hefur tækið látið ansi mikið á sjá eftir að hafa legið í sjónum í tæp 67 ár. Það er nú til meðhöndlunar í Minjahúsinu á Sauðárkróki hjá Sigríði Sigurðardóttir minjaverði. Magnús sagðist í samtali við Feyki hafa vitað af flakinu þarna í nokkurn tíma og verið ákveðinn í að finna það. Hafði hann viðað að sér upplýsingum varðandi staðsetningu þess m.a. fengið lóranpunkta frá Ragnari Sighvatssyni trillusjómanni á Sauð- árkróki, en hann festi ígulkeraplóg í því á sínum tíma. Það var ansi erfitt að rogast með stykkið upp úr sjónum, en flakið var á 12 metra dýpi. Ég fann ekki akkerið frá bátnum sem ég var á, ætlaði að binda í það, og var að verða súrefnislaus þegar ég kom upp", sagði Magnús. Hann kvað afturhluta skipsins enn heillegan þar sem það lægi á hliðinni, gufuketillinn væri upp úr botnleðjunni sem og skipsskrúfan. Það var 15. október 1930 sem línuveiðarinn Óskar VE-286 hraktist undan veðri inn á Skagafjörð og steytti á skeri við Lundey. Skipverjunum var bjargað af áhöfn Ágústu VE sem var skammt undan. Óskar, sem sökk daginn eftir, var 152 tonn að stærð, smíðaður í Englandi 1890. Eigandi skipsins var Gísli Magnússon útgerðarmaður í Vestmannaeyjum.

Feykir. 16 tbl. 7 maí 1997.


23.05.2018 18:37

Markus GR 6-373. OURN.

Grænlenski frystitogarinn Markus GR 6-373 var smíðaður hjá Umoe Sterkoder A/S í Kristianssund í Noregi árið 2003. 3.377 brl. 5.800 Kw, Wartsila Storch 38L. Togarinn er gerður út af Qajaq Trawl A/S í Nuuk á Grænlandi. Hann var búinn að liggja lengi hér í Reykjavíkurhöfn vegna bilunar í gír, en er farinn á veiðar. Ég tók þessa myndasyrpu af honum hér í höfninni um daginn. Sannarlega fallegt skip Markus.


Markus GR 6-373 við Grandagarð.                                            (C) Þórhallur S Gjöveraa. Maí 2018.
















Grænlenski frystitogarinn Markus GR 6-373 við Grandagarð.                  (C) Þórhallur S Gjöveraa. 

23.05.2018 08:25

Ísbjörn ÍS 15. LBDK / TFAI.

Vélbáturinn Ísbjörn ÍS 15 var smíðaður í Risör í Noregi árið 1928. Eik og fura. 43 brl. 90 ha. Ellwe vél. Eigendur voru Samvinnufélag Ísfirðinga ( Rögnvaldur Jónsson og fl. á Ísafirði ) frá desember sama ár. Kom fyrst til heimahafnar, Ísafjarðar hinn 27 desember 1928. Báturinn strandaði og sökk við Deildarhorn, í Skálavík, sunnan Ísafjarðardjúps 7 mars árið 1940. Áhöfnin, 12 menn, bjargaðist í skipsbátnum til lands í Skálavík heilir á húfi.


Ísbjörn ÍS 15 á Siglufirði.                                                                             (C) Þorgeir Baldursson.

     Bátar samvinnufélagsmanna

Fjórir þeirra eru nú komnir hingað heilu og höldnu. Eru það þessir: Sæbjörn kom 23. f. m, Ísbjörn kom 27. f. m., Ásbjörn kom 30 f. m. og Vébjörn kom á nýársdagsmorgun. Fimmti báturinn Valbjörn sneri aftur til Noregs vegna bilunar á olíugeymi. Var hann í Færeyjum á föstudaginn en var á leið hingað. Af þessum bátum sem komnir eru var Sæbjörn lang fljótastur hingað. Hann var sjö og hálfan sólarhring frá Risör til Ísafjarðar og eyddi 14 tonnum af olíu, þó stansaði hann í 15 klst á leiðinni.

Skutull. 1 tbl. 6 janúar 1929.


Samvinnufélagsbátarnir við bryggjur á Siglufirði.                (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Áhöfnin á Ísbirni ÍS 15.                                                                                   Mynd úr sögu Ísafjarðar.


      Þegar m/b Ísbjörn strandaði

Aðfaranótt hins 7. marz s. l. strandaði mótorbáturinn "Ísbjörn", Í. S. 15, austan við Skálavík í norðaustan stórviðri. Mannbjörg varð og tókst hún mjög giftusamlega, en báturinn sjálfur eyðilagðist. Einn skipsmannanna segir svo frá strandinu og björgun skipverja:
Um leið og skipið kenndi grunns, lagðist það mjög mikið á stjórnborðshlið. Brotsjóirnir gengu á það bakborðsmegin og sumir yfir það. Eftir skamma stund kastaði stór brotsjór skipinu af boðanum og var það þá á floti, en mikill sjór var kominn í það og hafði vélin stöðvazt þess vegna. Meðan þetta gerðist voru allir skipverjar komnir á þiljur. Voru sumir þeirra settir að þilfarsdælunni, til þess að dæla sjó úr skipinu, en hinir voru látnir vinda upp seglin. Þegar seglin höfðu verið undin upp, kom í ljós að stýrið var farið af skipinu og varð því engri stjórn viðkomið. Seglin voru nú tekin miðskips til þess að auka drift skipsins inn í víkina (Skálavík). Meðan þessu fór fram, hafði sjór aukizt að mun í skipinu, og var sýnilegt, að þess myndi skammt að bíða, að það sykki.
Var nú lífbáturinn settur á sjó og tekinn yfir á stjórnborða (hléborða). Búið var áður að binda sjö belgi innan í bátinn, til þess að auka burðarþol hans, ef hann fyllti. Einnig var settur strengur undir kjöl bátsins aftan við hálsþóttu og á hann festir tveir belgir á hvora hlið bátsins, þannig, að aðeins örlaði á þá belgina, sem ofar voru á strengnum, þegar skipverjar voru komnir í bátinn. Þegar lífbáturinn var vel laus frá skipinu, sökk það, og var klukkan þá 4,30 um nóttina. Var nú haldið inn eftir víkinni, en það ferðalag sóttist seint, enda gekk mikill sjór í bátinn. Lent var í suðausturhorni víkurinnar og tókst það eftir atvikum, þar sem komið var mikið brim. Klukkan var 5,20 um morguninn, þegar allir skipverjar voru komnir á land, ómeiddir og heilir á húfi, og heim að bænum Meiribakka voru allir komnir eftir tíu mínútur frá því að á land var komið. Fengu mennirnir þar hinar prýðilegustu viðtökur.
Öllum ber skipsbrotsmönnunum saman um það, að flotmagnsauki sá, er belgirnir veittu, sem festir voru við lífbátinn, hafi orðið þeim til lífs, ásamt einbeittni og röskleika skipstjórans.

Sjómannablaðið Víkingur. 13-14 tbl. 1 júlí 1940.


21.05.2018 11:25

792. Steinunn gamla KE 69. TFRC.

Vélskipið Steinunn gamla KE 69 var smíðuð í Marstrand í Svíþjóð árið 1947 fyrir Ólaf Einarsson útgerðarmann í Keflavík og Kristján Sigurðsson skipstjóra í Hafnarfirði. Eik. 78 brl. 180 ha. Bolinder vél. Bar fyrst skráningarnúmerið GK 363, en var breytt í KE 69 árið 1949. Skipið var selt 4 janúar 1955, Steingrími Árnasyni og Valgarði Þorkelssyni í Reykjavík, sama nafn og númer. Ný vél (1955) 400 ha. Buda díesel vél. Skipið var lengt og endurbyggt í Dráttarbraut Keflavíkur árið 1963. Þar var sett nýtt stýrishús á skipið, einnig var settur á það hvalbakur. Mældist þá 87 brl. Einnig var sett ný vél í skipið, 385 ha. Caterpillar díesel vél. Skipið var selt 29 desember 1963, Miðnesi hf í Sandgerði. Steinunn sökk í höfninni í Sandgerði í ofsaveðri, 23 september árið 1973. Náðist upp nokkru síðar en var talin ónýt eftir það og tekin af skrá 18 desember sama ár.


Steinunn gamla KE 69 á siglingu.                                                           (C) Hafsteinn Jóhannsson.

    Sænskur bátur til Hafnarfjarðar

Þeir Ólafur Einarsson, útgerðarmaður í Keflavík og Kristján Sigurðsson, skipstjóri í Hafnarfirði, hafa keypt nýjan vélbát frá Svíþjóð og kom hann til Hafnarfjarðar í gær. Bátur þessi verður gerður út frá Keflavík og ber heitið "Steinunn gamla" GK 363. Hann er ekki gerður samkvæmt teikningum þeim á fiskibátum, sem ríkisstjórnin hefir samið um við sænskar skipasmiðastöðvar.

Vísir. 20 júní 1947.


Steinunn gamla KE 69 í endurbyggingu og lengingu í Keflavík árið 1963. (C) Emil Páll Jónsson.

     2 menn fórust er bátur sökk -
            einn komst lífs af

Snemma á laugardagsmorgun sökk vélbáturinn Ver frá Sandgerði aðeins um tvær mílur suður af innsiglingunni í Sandgerði. Tveir menn fórust með bátnum, en þriðji maðurinn, Aðalsteinn Sveinsson, bjargaðist eftir að hafa svamlað í sjónum í um hálfa klukkustund. Aðalsteinn hefur borið fyrir sjódómi í Hafnarfirði, að Steinnnn gamla KE 69 hafi siglt á bátinn, og hafi hann brotnað í spón við ásiglinguna. Þremenningarnir á Ver, sem var þrjú tonn að stærð, höfðu verið á veiðum um nóttina. Höfðu þeir farið út á föstudagskvöld. Var Björgvin Þorkelsson með í þessum róðri í stað bróður þeirra Gísla og Aðalsteins, sem ekki hafði ætlað sér að róa í þetta sinn, en hefur annars verið með bræðrum sínum á bátnum, sem þeir keyptu fyrir skömmu. Þegar báturinn kom á miðin fór vikur í kælivatnsdælu, en tókst mönnunum að lagfæra það eftir nokkurn tíma. Lítill fiskur var á þessum slóðum, sem báturinn var á, svo ákveðið var að halda heim aftur. Á leiðinni komst báturinn á betri mið, og höfðu mennirnir verið að dorga í um eina klukkustund, þegar þeir tóku eftir því að Steinunn gamla frá Keflavík nálgaðist þá. Töldu þeir þó ekki vera hættu á ferðum, þar sem skyggni var gott, og ratsjá Steinunnar í gangi. Aðalsteinn segir að hann hafi heyrt bróður sinn Gísla hrópa upp, að þeir skuli kasta sér í sjóinn og um leið hafi áreksturinn orðið. Aðalsteini tókst að ná í botn hlera, og sömuleiðis rak til hans björgunarbelti, sem bróðir hans hafði verið búinn að blása upp að nokkru leyti. Tókst honum að halda sér uppi á þessu tvennu, og hafði verið í sjónum um hálfa klukkustund, þegar vélbátinn Báruna bar að, og tóku mennirnir, sem voru á Báranni, Ásmundur Böðvarsson og Finnbogi Bjarnason eftir Aðalsteini og gátu náð honum upp úr sjónum. Ekki sást til Gísla eða Björgvins þrátt fyrir ítrekaða leit að þeim. Sigldi Báran með Aðalstein til Sandgerðis og síðan fóru bátar út þaðan til þess að halda áfram leit að mönnunum tveimur en þeir fundust ekki.
Gísli Sveinsson var 27 ára og Iætur eftir sig konu og tvö börn.
Björgvin Þorkelsson var 51 árs og lætur eftir sig konu og sjö börn.
Sjópróf hófust í Hafnarfirði í dag.

Tíminn. 20 maí 1970.


Steinunn gamla KE 69 í upphaflegu útliti.                                                        (C) Snorri Snorrason.

     Bát slítur upp - annar sekkur

Skömmu eftir hádegi, sunnudaginn 23. sept. 1973, kom sunnan úr hafi mjög djúp lægð, sem hélt siðan norður yfir landið. Um leið gerði hér eitt mesta fárviðri, sem geysað hefur síðustu árin. Voru þetta eftirstöðvar fellibylsins Ellenar, sem mikinn skaða gerði við strendur Ameríku. Stóð veðurofsinn fram á mánudag, en lægði er leið á daginn. Í Reykjavík mældist vindhraði 108 hnútar í mestu hryðjunum. Aðeins einu sinni hafði þá mælst jafn mikill vindur í Reykjavík. Það var 1942, þá mældust 109 hnútar.
Til samanburðar má geta þess, að septemberveðrið mikla 1936, var aðeins hálfdrættingur á við Þetta ofsaveður. Í verstu hryðjunum 1936, mældust í Reykjavík, 65 hnútar. Sextíu og fjórir hnútar eru tólf vindstig. Í septemberveðrinu 1936 fórst franska rannsóknarskipið Pourqui Pas? Veðrið 1973 olli tugum ef ekki hundruð milljóna króna tjóni, einkum á suður-, vestur- og norðurlandi. Óveðursdagana var stórstreymt og því meiri hætta á ferðum. Sjómenn voru því víðast við báta sína. Í Keflavíkurhöfn rak upp v.b. Snorra KE 131. Hann var gamall átján lesta eikarbátur. Hann náðist fljótlega út og skemmdist lítið. Í Sandgerði lágu þá átján bátar sem brotnuðu meira og minna. Aðeins sex þeirra sluppu frá verulegum skemmdum. Steinunn gamla KE 69, lá þar í höfninni, og sökk. Er hún náðist upp, var hún talin ónýt. Er veðrið skall á, var vindátt í Sandgerði suðaustlæg en lítið skjól. Töldu þá sjómenn þar, að betur væri kominn garðurinn í suðurhöfninni, sem til umræðu hafði verið í tiu til fimmtán ár. En gerð garðsins, hófst rúmu ári eftir að óveður þetta geysaði.
Steinunn gamla KE 69, var 87 lestir, smíðuð úr eik í Svíþjóð 1946. Eigendur hennar þá voru Ólafur E. Einarsson o.fl. í Keflavík. Báturinn gekk um árabil frá Keflavík, ern síðustu árin frá Sandgerði. Var hann þá í eigu Miðness h.f. Steinunn gamla var skrásett í Keflavik og er þess vegna getið hér í annálnum.

Sjóslysaannáll Keflavíkur.
Skúli Magnússon.
Faxi. 6 tbl. 1 september 1989.




20.05.2018 10:54

200. Stefán Ben NK 55. TFLX.

Vélbáturinn Stefán Ben NK 55 var smíðaður hjá Eidsvig Skipsbyggeri A/S í Uskedal í Noregi árið 1960 fyrir bræðurna og útgerðarmennina Ársæl og Þorstein Júlíussyni í Neskaupstað. 147 brl. 400 ha. Wichmann díesel vél. Báturinn var seldur í október 1961, Nesútgerðinni hf í Neskaupstað, sama nafn og númer. Seldur 2 nóvember 1964, Garðari Lárussyni útgerðarmanni í Neskaupstað, hét þá Sæfaxi ll NK 123. Ný vél (1967) 620 ha. Wichmann díesel vél, 456 Kw. Seldur 3 ágúst 1970, Útgerðarfélagi Borgarfjarðar hf á Borgarfirði eystra, hét Glettingur NS 100. Seldur 2 júlí 1971, Eyjum hf í Stykkishólmi, hét Höskuldsey SH 2. Seldur 15 júlí 1975, Straumnesi hf á Selfossi, hét Birtingur ÁR 44. Seldur 21 febrúar 1977, Guðmundi Haraldssyni í Grindavík, hét Búðanes GK 101. Seldur 31 desember 1980, Einarshöfn hf á Eyrarbakka hét þá Þorlákur helgi ÁR 11. Seldur 28 júlí 1986, Sædóri hf á Siglufirði, hét Þorlákur helgi SI 71. Seldur 1989, Samherja hf á Akureyri, sama nafn og númer. Seldur 21 nóvember 1990, Oddeyri hf á Akureyri, hét Þorlákur helgi EA 589. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 28 október árið 1992.

Stefán Ben NK 55 nýsmíðaður í Eidsvig í Noregi í janúar 1960.              (C) Gunnar Þorsteinsson. 


Stefán Ben NK 55 með fullfermi af síld við bryggju í Neskaupstað.            (C) Gunnar Þorsteinsson.


Stefán Ben NK 55 við bryggju í Neskaupstað.                           (C) Gunnar Þorsteinsson.


Stefán Ben NK 55 við bryggju í Neskaupstað. Glófaxi NK 54 liggur utan á honum.
Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.


              Sæfaxi ll NK 123.

Garðar Lárusson, útgerðarmaður, hefur nú skipt um nafn á Stefáni Ben. Heitir hann nú Sæfaxi II og ber einkennisstafina NK 123.

Austurland. 31 desember 1964



Sæfaxi ll NK 123 á sjómannadag í Neskaupstað.                                   (C) Þórður M Þórðarson.


Sæfaxi ll NK 123 á veiðum við suðaustur ströndina.                                (C) Hafsteinn Jóhannsson.

                    Nýr bátur
              Stefán Ben NK 55

Eins og lesendum blaðsins er kunnugt, hafa þeir bræður Ársæll og Þorsteinn Júlíussynir, átt bát í smíðum í Noregi. Í fyrravetur sökk bátur þeirra, Langanes, við Vestmannaeyjar og réðust þeir þá í að láta smíða þetta nýja skip, sem er nær þrisvar sinnum stærra. Stefán Ben er smíðaður eftir sömu teikningu og v/s Guðrún Þorkelsdóttir á Eskifirði og að flestu leyti eins búinn að tækjum. Var þeim báti nýlega lýst hér í blaðinu og gildir það, sem þar var sagt einnig um Stefán Ben. Stefán Ben fékk slæmt veður fyrsta sólarhring heimferðarinnar og reyndist hið ágætasta sjóskip. Að undanförnu hafa menn verið að vakna til meðvitundar um að Norðfirðingar þyrftu að eignast báta af svipaðri stærð og þessi er, til að afla fiskjar með heimalöndun fyrir augum. Stefán Ben er fyrsta skipið, sem Norðfirðingar eignast af þessari stærð, og það er trú mín, að síðar verði litið svo á, að með komu hans hafi verið mörkuð merk tímamót í útgerðarsögu þessa bæjar. Og það er von allra, að fleiri bátar af svipaðri stærð komi á eftir og þá frekar fyrr en síðar. Stefán Ben verður gerður út með línu, á útilegu og síðan net héðan að heiman í vetur og á væntanlega eftir að flytja mikla björg að landi. Atvinnuhorfur í vetur batna til mikilla muna við komu þessa skips. Frá því Stefán Ben kom, hefur verið unnið af kappi að því að búa hann á veiðar og mun hann fara í fyrstu veiðiferðina í dag.
Skipstjóri á bátnum er Einar G. Guðmundsson, stýrimaður Birgir Sigurðsson og 1. vélstjóri Freysteinn Þórarinsson. Austurland óskar þeim bræðrum til hamingju með bátinn og Norðfirðingum öllum til hamingju með þessa þýðingarmiklu viðbót við flotann og þau merku tímamót sem koma Stefáns Ben táknar í útgerðarsögu staðarins.

Austurland. 29 janúar 1960.


13.05.2018 09:27

2 m. Kt. Kiðey BA 11. LBVT / KBRN.

Kútter Kiðey BA 11 var smíðaður hjá William Gibbs í Galmpton á Englandi árið 1878. Eik. 77 brl. Hét fyrst Stag GY 732 og var gerður út frá Grimsby. Seldur 1899-1900, Islandsk Handels & Fiskeri Kompagni í Kaupmannahöfn, fékk nafnið Kiðey og var gert út frá Patreksfirði til ársins 1906. Skipið var selt 1906, Jegvan Elías Thomsen í Sandavogi í Færeyjum, fékk nafnið Thor VA 135. Selt 1929, Sörin E.V. Nielsen í Saurvogi í Færeyjum, sama nafn og númer. Árið 1930 var sett 47 ha. vél í skipið. Thor VA strandaði og sökk við Þrælanípuna í Færeyjum 19 maí árið 1948. Mannbjörg varð.


Kiðey BA 11. Þessi mynd er tekin árið 1932, sennilega á Íslandsmiðum. Skipið er komið í eigu Færeyinga þarna og heitir Thor VA 135. Það sést vel á myndinni að það er reytingsafli hjá þeim á færin. (C) Jákup Pauli í Eyðunarsstovu.  www. vagaskip.dk


Skipverjarnir á Thor á handfæraveiðum.  (C) Jákup Pauli í Eyðunnarsstovu.     www.vagaskip.dk

Skutu niður þýska Heinkel sprengjuvél

12 júní árið 1941 var kútter Thor VA 135 á heimleið frá Aberdeen í Skotlandi og voru komnir norður fyrir Rattray Head, að skipverjar urðu varir við þýska sprengjuflugvél af Heinkel lll gerð. Flaug vélin lágt yfir Thor og hóf skothríð á skipið. Vélin gerði síðan aðra tilraun til að sökkva skipinu, flaug í um fimmtán metra hæð yfir siglutoppunum. Þá greip skipstjórinn, Georg Joensen til vélbyssu sem skipverjar höfðu til að verja sig með og náði að skjóta Heinkel vélina niður og hvarf hún í hafið og sökk þegar. Enginn mun hafa slasast í þessari skotárás, nema Georg skipstjóri sem fékk smá skeinu af kúlubroti og var hún föst við jakkaermina hans
Georg skipstjóri var síðar heiðraður af bretum sem "Member of the British Empire" og fékk afhenta fallega silfurmetalíu fyrir þetta afrek sitt.

Heimild: www.vagaskip.dk


Kútter Stag GY 732 frá Grimsby.                                                                               (C) George Race     

    Íslands bezti þilskipafloti t
il sölu hjá         Islandsk Handels & Fiskeri Kompagni                    fást eftirfylgjandi skip keypt

       Nafn skips.          Sigling.        Register tons.         Hvenær byggt.        Byggingarefni.      Verð.

            Arney             Kútter.                    59 brl.                       1872.                         Eik.                 8.000.
           Bjarney.          Kútter.                    43 brl.                           ?                             Eik.                6.000.
           Drangey.         Kútter.                    53 brl.                       1885.                          Eik.                8.500.
           Engey.            Kútter.                    57 brl.                       1871.                          Eik.              11.000.
           Flatey.            Skonnorta.             32 brl.                       1875.                    Eik og fura.          5.000.
           Grímsey.         Kútter.                   61 brl.                       1885.                          Eik.                9.000.
           Hvanney.        Kútter.                    50 brl.                       1883.                          Eik.                8.000.
           Jómsey.          Kútter.                    60 brl.                       1884.                          Eik.              10.000.
           Kiðey.             Kútter.                    78 brl.                       1878.                          Eik.              12.000.
           Langey.          Kútter.                    43 brl.                       1873.                          Eik.                7.600.
           Málmey.         Kútter.                    52 brl.                       1881.                          Eik.                8.500.

Skipunum hefir verið vel við haldið frá því þau voru keypt og nú síðustu árin, 1903/05. hafa þau hvert af öðru fengið grandgæfa viðgerð (frá 400- 500 kr. hvert skip) og þá allt tekið burt, sem nokkuð þótti athugavert við. hátt og lágt, og nýtt sett í staðinn. Skipum þessum er því nú hægt að halda út í fleiri ár, án nokkurs viðgerðarkostnaðar, og það mun ýkjulaust mega fullyrða að þau sjeu í lang fremsta flokki af íslenzkum fiskiskipum, hvað gæði og allan útbúnað snertir. Skipin ganga til fiskiveiða frá Patreksfirði og má þar sjá þau af og til í sumar, en að loknum fiskiveiðum, í ágúst lok, fást þau til kaups, og verða til sýnis á Patreksfirði og í Flatey, frá septemberbyrjun. Af því fjelagið hefir í hyggju að hætta þilskipaútveginum, fást skipin með vægara verði og betri skilmálum en nokkurs staðar annars staðar er hægt að fá jafngóð og vel útbúin skip fyrir. Frekari upplýsingar hjá undirrituðum aðalerindreka fjelagsins hjer á landi.
Patreksfirði, 1. maí 1905.
Pjetur A Ólafsson.

Vestri. 16 desember 1905.


12.05.2018 11:26

395. Eyjaberg VE 130. TFMD.

Vélbáturinn Eyjaberg VE 130 var smíðaður hjá Brandenburg Havel í Brandenburg í A-Þýskalandi árið 1959 eftir teikningum Hjálmars R Bárðarsonar. 94 brl. 400 ha. Mannheim díesel vél. Eigandi var Sigurður Þórðarson útgerðarmaður í Vestmannaeyjum frá 26 nóvember sama ár. Eyjabergið var fyrsta skipið sem kom til landsins af þeim 15 skipum sem smíðuð voru í Brandenburg fyrir Íslendinga. Eyjaberg fórst við Faxasker við Vestmannaeyjar 7 mars árið 1966. Áhöfnin, 7 menn, komst í gúmmíbjörgunarbát og var bjargað þaðan um borð í hafsögubátinn Lóðsinn frá Vestmannaeyjum heilum á húfi. 


395. Eyjaberg VE 130.                                               (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Atla Michelsen.


Eyjaberg VE 130 í Reykjavíkurhöfn.                                                              Ljósmyndari óþekktur.

              Eyjaberg VE 130

Fyrsti 95 lesta stálbáturinn smíðaður í
A-Þýzkalandi fyrir Íslendinga kominn

Kominn er til landsins fyrsti 95 lesta stálbáturinn af allmörgum jafnstórum, sem smíðaðir eru fyrir íslendinga í Þýzka lýðveldinu. Báturinn heitir Eyjaberg VE 130, eigandi Sigurður Þórðarson útgerðarmaður í Vestmannaeyjum. Kom báturinn til heimahafnar sinnar s.l. fimmtudagskvöld og í gærmorgun sigldi hann inn á Reykjavíkurhöfn. Fréttamaður Þjóðviljans fór um borð í bátinn í gærmorgun, skömmu eftir að hann hafði lagzt að verbúðabryggju við Grandagarð og hitti að máli skipstjórann Jón Guðjónsson, héðan úr bænum. Við vorum 5 saman, sem fórum utan til að sækja Eyjaberg, sagði skipstjórinn; vorum 4 sólarhringa og 20 klukkustundir frá Kaupmannahöfn til Vestmannaeyja. Meðalhraði í heimferðinni var 10 sjómílur, en báturinn gekk 11 sjómílur í reynsluferð. Hvernig reyndist báturinn á heimleiðinni?  Prýðilega. Að vísu fengum við gott veður á leiðinni og reyndi því ekki mjög á sjóhæfnina, en mér lízt mjög vel á bátinn, segir skipstjórinn, öllu virðist haganlega fyrir komið og vistarverur skipverja eru sérstaklega skemmtilegar. Sem fyrr segir er Eyjaberg VE 130 fyrsti 95 lesta báturinn af allmörgum samskonar, sem smíðaðir eru úr stáli fyrir íslendinga í Austur-Þýzkalandi. Fimm bátanna munu verða tilbúnir eða afhentir eigendum á þessu ári og fara tveir þeirra til Vestmannaeyja, auk Eyjabergs, og tveir til Ísafjarðar.
Bátarnir eru allir smíðaðir eftir teikningu Hjálmars Bárðarsonar skipaskoðunarstjóra í skipasmíðastöðinni í Brandenburg í Þýzka lýðveldinu. Aðalaflvél Eyjabergs er 400 hestafla Mannheim-vél, en hjálparvélin er 25 hestafla.

Þjóðviljinn. 2 desember 1959.


Eyjaberg VE 130. Líkan.                                                                          (C) Hjálmar R Bárðarson.


Eyjaberg VE 130. Líkan.                                                                             (C) Hjálmar R Bárðarson.


Fyrirkomulagsteikning skipa smíðuðum í Brandenburg.                        (C) Hjálmar R Bárðarson.


Eyjaberg VE 130 á strandstað á Faxaskeri í mars 1966.                           (C) Sigurgeir Jónasson.

   Eyjaberg VE strandaði á Faxaskeri
     Skipshöfnin komst yfir í Lóðsinn

Í gærkvöldi strandaði Vestmannaeyjabáturinn Eyjaberg VE 130 á vestanverðu Faxaskeri, sem er rétt norðan við Heimaey. 7 menn voru á bátnum og komust þeir á gúmmíbát yfir í Lóðsinn. Eyjaberg var heilt á strandstað er skipverjar yfirgáfu það, en búizt við að það mundi höggva sig niður í nótt og eyðileggjast. Þetta gerðist kl. 19.40, er Eyjaberg var að koma úr róðri með 12 tonn af fiski eftir daginn. Fór Eyjabergið venjulega siglingaleið inn milli Heimaeyjar og skersins eða um Faxasund, ásamt fleiri bátum. Dimmt var yfir og slydduhríð. Tilkynntu skipverjar hvernig komið var og fór Lóðsinn út til þeirra. Komust þeir í gúmmíbát sínum yfir í Lóðsinn, allir heilir, enda ágætt sjóveður. Skipstjóri á Eyjabergi er Sigurður Guðmundsson. En eigandi hans er Sigurður Þórðarson útgerðarmaður. Fréttaritari blaðsins náði snöggvast tali af skipstjóranum, er hann var kominn heim til sín. Hann vildi lítið um þetta segja umfram það sem vitað var.
Sagði að þeir hefðu verið að koma úr róðri vestan við Eyjar og farið venjulega siglingaleið. Hafi þeir séð að þeir mundu vera full nærri Faxaskerinu og ætluðu að beygja frá áður en þeir komu að því, en þá hafi stýrisútbúnaður ekki virkað. Báturinn var á fullri ferð og var strandi því ekki afstýrt. Skipstjórinn sagði að gott hefði verið í sjóinn og fóru skipverjar í gúmmíbátinn, eftir að þeir höfðu gert aðvart. En þar sem myrkur og slydduhríð og viðbúið að báturinn mundi höggva sig niður, þá þótti ekki ráðlegt að þeir væru þar um kyrrt. Höfðu þeir taug í gúmmíbátnum, sem föst var í Eyjaberginu og slepptu henni ekki fyrr en þeir höfðu náð Lóðsinum. En þangað létu þeir sogið bera sig og réru sjálfir. Varð þeim ekki meint af, enda steinsnar inn til Vestmannaeyjarkaupstaðar. Faxasker er lágt sker, og enginn gróður á því. En þar er skipbrotsmannaskýli.
Eyjaberg er stálbátur, 94 lestir að stærð, byggður í Austur- Þýzkalandi árið 1959.

Morgunblaðið. 8 mars 1966.


10.05.2018 14:21

460. Morgunstjarnan GK 532. TFUM.

Vélbáturinn Morgunstjarnan GK 532 var smíðaður í Skipasmíðastöð Júlíusar Nýborg í Hafnarfirði árið 1944 fyrir Hlutafélagið Hafstjörnuna í Hafnarfirði. Eik. 43 brl. 170 ha. Buda-Lanova díesel vél. Báturinn var seldur 11 janúar 1951, Birni Ásgeirssyni, Soffaníasi Cecilssyni í Grundarfirði og Sigurði Ágústssyni í Stykkishólmi, hét Páll Þorleifsson SH 121. Ný vél (1954) 200 ha. Alpha díesel vél. Seldur 18 nóvember 1959, Þorleifi Guðjónssyni og Trausta Jónssyni í Vestmannaeyjum, hét Glaður VE 270. Seldur 17 maí 1969, Gylfa Gunnarssyni í Neskaupstað, hét Glaður NK 45. Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skrá í apríl árið 1970. Afdrif hans urðu þau að hann endaði á öskuhaugunum í Neskaupstað í þremur pörtum og var brenndur þar stuttu síðar.


Morgunstjarnan GK 532 sjósett í júlímánuði árið 1944.                 Úr safni Tryggva Sigurðssonar.


Um borð í Morgunstjörnunni GK 532. Einn skipverjanna heldur á einum rígaþorski. Báturinn er þarna greinilega á togveiðum.                     (C) Vilmundur Kristjánsson.


      "Morgunstjarnan" G . K. 532

Laust fyrir miðjan júlí var nýjum bát hleypt af stokkunum í skipasmíðastöð Júlíusar Nýborg í Hafnarfirði. Bátur þessi heitir "Morgunstjarnan" og hefur einkennisstafina G. K. 532. Hann er 43 rúmlestir að stærð, smíðaður úr eik og hefur 171 ha. Buda-Lanova dieselvél. Alls eru í bátnum 16 hvílur; 9 hvílur í hásetaklefa, 6 í káetu og 1 í skipstjóraklefa. Allar vistarverur eru fóðraðar innan með lakksmurðum krossvið, vatnsþéttum. Er þetta fyrsti báturinn, sem þannig er gengið frá. Byrjað var á smíði þessa báts síðastliðið haust, en skriður komst ekki á verkið fyrr en í byrjun þessa árs. Júlíus Nyborg teiknaði bátinn og sá um smíði hans. Járnsmíði og niðursetningu vélar annaðist Vélsmiðja Hafnarfjarðar h/f. Raflagnir annaðist h. f. Ekko í Hafnarfirði, en Guðmundur Hróbjartsson kom fyrir miðstöðvarlögnum. Sören Valentínusson í Keflavík bjó til segl og reiða. Togvinda er í bátnum og smíðaði hana Vélsmiðjan Keilir í Reykjavík. Auk þess unnu Blikksmiðjan Dvergasteinn h/f í Hafnarfirði og Hannes Sigurjónsson húsgagnabólstrari við smíði bátsins.
Eigandi "Morgunstjörnunnar" er nýstofnað hlutafélag í Hafnarfirði, sem heitir "Hafstjarnan h. f." Framkvæmdastjóri þess er Magnús Guðjónsson í Hafnarfirði, en hann átti fyrr vélbátinn Njál. Skipstjóri á Morgunstjörnunni er Guðvarður Vilmundsson úr Hafnarfirði. Báturinn hefur verið á síldveiðum í sumar.

Ægir. 8 tbl. 1 ágúst 1944.


08.05.2018 17:35

2770. Brimnes RE 27 selt til Rússlands.

Frystitogari Brims Seafood, Brimnes RE 27 hefur verið seldur úr landi. Kaupandinn mun vera frá Rússlandi. Í kjölfarið hefur 40 sjómönnum verið sagt upp störfum hjá fyrirtækinu. Það er vonandi að þeir fái starf við sitt hæfi hjá öðru útgerðarfélagi. Brimnesið hefur verið eitt af aflahæstu togurum Íslenska flotans og verður eftirsjá af þessu fallega skipi þegar það fer úr landi.


2770. Brimnes RE 27. TFKD. Liggur hér við Grandagarð.                  (C) Þórhallur S Gjöveraa.


2770. Brimnes RE 27 við Grandagarð.                                               (C) Þórhallur S Gjöveraa.


2770. Brimnes RE 27 við Grandagarð.                                                (C) Þórhallur S Gjöveraa.

        Brimnes RE 27 selt og 40                    manna áhöfn sagt upp

Útgerðarfélagið Brim hefur selt frystitogarann Brimnes RE eða öllu heldur samþykkt kauptilboð í skipið, segir Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims. Tveimur áhöfnum skipsins var sagt upp í morgun með þriggja mánaða uppsagnarfresti.
Í áhöfnunum eru 40 manns. Guðmundur segir að reynt verði að útvega þeim áfram vinnu hjá Brimi. Kaupandi togarans er rússneskur. Kvótinn verður áfram hjá Brimi. Guðmundur segir ástæðuna fyrir sölunni vera þá að kauptilboðið hafi verið gott. Örfáar vikur eru síðan Brim hf. keypti um þriðjungshlut í HB Granda hf. og hefur Guðmundur tekið sæti í stjórn HB Granda. Frystitogarinn Brimnes hefur verið með aflahæstu skipum flotans og var aflahæst 2016. Guðmundur segir að frystitogurum hafi verið að fækka mikið, nú sé orðið miklu hagkvæmara að vera með landvinnslu en í frystitogurunum.

Rúv.is 8 maí 2018.


08.05.2018 09:37

2861. Breki VE 61. TFMA.

Breki VE 61 var smíðaður hjá Huanghai Shipbuilding Co Ltd í Rongcheng í Kína árið 2017 fyrir Vinnslustöðina hf í Vestmannaeyjum. 1.223 Bt. 2.440 ha. MAN vél, 1.795 Kw. Kom til heimahafnar sinnar, Vestmannaeyja s.l. sunnudag eftir sex vikna siglingu frá Kína. Skipið er hannað af verkfræðistofunni Skipasýn í Reykjavík í samstarfi við Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum og Hraðfrystihúsið Gunnvör í Hnífsdal. Breki VE er útbúinn til að geta togað með tvö troll eins og systurskipið Páll Pálsson ÍS 102. Skipin hafa einnig stærri skrúfur en áður hafa verið í skipum af þessari stærð og fæst mikill orkusparnaður við það. Ég óska útgerð og áhöfn til hamingju með þetta glæsilega skip. Svo vil ég þakka Tryggva Sigurðssyni í Vestmannaeyjum fyrir þessar fínu myndir af Breka þegar hann kom til Eyja að morgni 6 maí s.l.


2861. Breki VE 61 í Vestmannaeyjahöfn.                                   (C) Tryggvi Sigurðsson. 6 maí 2018.


2861. Breki VE 61.                                                                          (C) Tryggvi Sigurðsson. 6 maí 2018.


2861. Breki VE 61.                                                                    (C) Tryggvi Sigurðsson. 6 maí 2018.


2861. Breki VE 61 leggst að bryggju í Friðarhöfn.                                        (C) Atli Rúnar Halldórsson.

        Breki VE kominn til Eyja


Fjöl­menni tók í dag á móti Breka VE, nýju skipi Vinnslu­stöðvar­inn­ar, sem komið er til heima­hafn­ar eft­ir fimm­tíu daga sigl­ingu frá Kína. Lagt var frá bryggju í borg­inni Shi­da­ho í Kína 22. mars en þaðan og til Íslands eru 11.300 míl­ur.
Heim­sigl­ing­in gekk að ósk­um en syst­ur­skip­in Breki og Páll Páls­son, sem Hraðfrysti­húsið Gunn­vör fékk, voru í sam­floti á leiðinni. Það var í júní 2014 sem Vinnslu­stöðin hf. í Vest­manna­eyj­um og Hraðfrysti­húsið-Gunn­vör í Hnífs­dal sömdu um smíði skip­anna og var miðað við að þau kæmu til lands­ins á miðju ári 2016. Mikl­ar taf­ir urðu hins veg­ar á af­hend­ing­unni. Tog­ar­arn­ir eru hannaðir af verk­fræðistof­unni Skipa­sýn og eru 50 metra lang­ir og 13 metra breiðir.
Magnús Rík­arðsson er skip­stjóri á Breka og skip­stjóri á nýj­um Páli Páls­syni er Páll Hall­dórs­son. Átta manns voru í áhöfn Breka á heim­leiðinni og sjö manns í áhöfn Páls Páls­son­ar. Kaup­verð hvors skips var um 1,2 millj­arðar króna.

Mbl.is 6 maí 2018.

   Systurskipin Breki og Páll Pálsson                   lögð af stað heimleiðis

Systurskipin Breki VE og Páll Pálsson ÍS eru loks lögð af stað heimleiðis frá Kína, þar sem þau voru smíðuð. Afhending þeirra hefur tafist svo mánuðum skiptir og er búist við að heimsiglingin taki allt að sex vikur. Áhafnirnar hafa búið sig undir mikinn hita á hluta heimleiðarinnar og var settur sérstakur kælibúnaður í brú, vistarverur og vélarrúm skipanna svo að þar verði líft. 
Þá eiga skipin eftir að sigla um tvö svæði þar sem sjórán eru tíð, en að líkindum munu þau þá slást í för með örðum skipum og njóta verndar. Snemma í morgun voru skipin um 150 sjómílur norð- norðvestur af Shanghai.

Vísir.is 23 mars 2018.


06.05.2018 11:28

Síldveiðar og vinnsla á Norðfirði.

Á fyrstu áratugum 20 aldar var ekki mikið um síld á Norðfirði né heldur á Austurlandi. Norðlendingar voru eiginlega frumkvöðlar síldveiða og vinnslu hér á landi og þá á Siglufirði með Norðmennina Sören Goos, Ole Tynes og ekki má gleyma Óskari Halldórssyni sem voru fremstir í flokki og margir fleiri örugglega. Það var ekki fyrr en 14 október árið 1926 að hreppsnefnd Neshrepps tók fyrir bréf frá Joakim Indbjör, "þar sem hann fyrir hönd Dr. Carl Paul í Oldenburg í Þýskalandi fer fram á að hreppsnefndin mæli með því við Stjórnarráðið að hann fái að reisa hér (á Nesi) og starfrækja verksmiðju til að vinna beinamjöl úr þorskúrgangi og ef nauðsyn krefur síðar einnig til að vinna olíu úr síld". Sú verksmiðja, sem kölluð var Fóðurmjölsverksmiðja Norðfjarðar eða bara"gúanó", tók svo til starfa í júlímánuði 1927. Tíu árum síðar er búið að stækka hana svo að hún getur brætt rúmlega 600 mál síldar á sólarhring. Þessi verksmiðja stórskemmdist svo í eldsvoða árið 1950, en var endurbyggð og bætt eftir brunann. Síldarsöltun var aldrei mikil á Norðfirði á þessum árum. Það var ekki fyrr en árið 1952 að Síldarsöltun hf var stofnuð að Norðfirðingar fóru að salta síld í stórum stíl til útflutnings. Það var svo árið 1957 að Síldarvinnslan hf var stofnuð til að reka síldarverksmiðju og tók hún til starfa sumarið 1958. Sú verksmiðja var langtum afkastameiri en Fóðurmjölsverksmiðjan gamla. Bræðsla SVN gat brætt rúmlega 700 tonn að jafnaði á sólarhring og í kjölfarið stórbættist öll aðstaða til síldarsöltunar og hófu þá margar nýjar stöðvar að salta síld, t.d. Sæsilfur, Drífa, Máni, Ás og fl. og voru þær starfræktar til þess tíma að síldin hvarf af Íslandsmiðum.


Síldveiðiskip að háfa síld á Norðfirði um miðjan 7 áratuginn. Vélbáturinn Þráinn NK 70 heldur til veiða eftir löndun. Eftir myndinni að dæma, hefur hann ekki þurft að fara langt. Ljósmyndari óþekktur.


Síldarbátarnir við bryggju og bræðsla í fullum gangi. Verið er að gera uppfyllinguna neðan við Steininn og kastalann. Myndin er sennilega frá árinu 1963-64.                   (C) Sigurður Arnfinnsson.


Söltun í fullum gangi á Drífuplaninu.                                           Ljósmyndari óþekktur.


Fóðurmjölsverksmiðja Norðfjarðar og síðar Fiskimjölsverksmiðja SÚN, sú fyrsta á Austurlandi, reyst árið 1927.         (C) Sveinn Guðnason.


Síldar og loðnuverksmiðja SVN árið 1965. Þessi verksmiðja gjöreyðilagðist í snjóflóðunum 20 desember árið 1974 sem kostuðu 12 manns lífið.                                   (C) Hjörleifur Guttormsson.

                  Síldargengd

Þokan grúfði yfir fjarðarbotninum, þegar horft var ofan af Oddskarði. Þegar niður kom, blandaðist hún reyknum úr verksmiðjunni. Fyrstu húsin komu í ljós eins og vörður við veginn. Byggðin fór að þéttast og síldaranganin magnaðist og nú var blaðamaður Vísis kominn í velferðarríkið Neskaupstað sem í kyrrð sinni bar keim af mokafla af síld og sleltulausri vinnu dag og nótt vikum saman undanfarið. Á söltunarstöðinni Ás var unnið langt fram eftir nóttu. Síldardömurnar virðast hafa vakað langtímum saman, en kappið var óskert. Þráinn NK rennir upp að bryggju með góðan afla. Freyfaxi KE frá Keflavík er nýbyrjaður á síldveiðum. Um morguninn hafði verið saltað úr honum, og voru þeir á leið út aftur. Síldin er uppi í landssteinum aðeins 4 til 5 tímar á miðin SSA af Gerpi. Þarna er allur flotinn að veiðum sennilega um 200 skip, fá ekkert smáræði í einu kasti, 3.000 mál, jafnvel barst orðrómur um, að eitt þeirra hefði fengið 4.000 mál. Um morguninn hafði verið saltað, en nú var lát á vegna þess að verið var að landa síld í flutningaskipið "Stavnes". Um kvöldið hófst löndun úr tveimur skipum við planið Ás, Barða NK með 1.200 mál og Bjarti NK með 1.800 mál, sem hvort tveggja eru aflaskip (með um og yfir 30 þúsund mál). Ekki var vinnuaflið mikið á þessu plani, en alvarlegur hörgull á fólki til síldarvinnu er þarna fyrir austan á aflatíðinni.
Fólkið á plönunum var orðið þreytt af vökum og striti. Komið hefur fyrir, að það hefur unnið 40 stundir í strikklotu, án þess að festa blund. Tunnurnar hlaðast upp jafnt og þétt, og síldin berst að landi á Norðfirði eins og á færibandi, demantssíld, millisíld, blönduð síld, síld, sem breytist í peninga, ósvikinn gjaldeyri. Sárafá skip voru inni í gær og í fyrradag á Norðfirði þrátt fyrir uppgripsveiðina. Þrærnar voru fullar, þar sem annars staðar á austfirzku síldarstöðvunum. Á Rauða torginu, en svo kallast miðin, kennd við rússneska "vininn" er alltaf krökt af skipum, sem biða eftir kvöldinu, en þá taka þau síldina á um 20- 25 faðma dýpi, og það gengur ævintýri næst, hvað aflast mikið í hvert sinn. Glöggir menn fyrir austan eru farnir að spá því, að þessi aflahrota haldist lengi, jafnvel fram yfir nýár.

Vísir. 7 október 1965.



05.05.2018 11:34

Fram GK 328. TFJO.

Vélskipið Fram GK 328 var smíðað í Frederikssund Skipsverft A/S í Frederikssund í Danmörku árið 1946 fyrir Hlutafélagið Stefni í Hafnarfirði. Eik. 66 brl. 200 ha. Tuxham vél. Kom til heimahafnar, Hafnarfjarðar í fyrsta sinn 1 apríl það ár. Ný vél (1954) Alpha díesel vél. Fram strandaði við Hópsnes í innsiglingunni til Grindavíkur 23 mars árið 1959. Áhöfnin, 11 menn, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát og komust til lands á honum heilir á húfi.


Vélskipið Fram GK 328 við komuna til heimahafnar 1 apríl 1946.                                    Mynd úr Ægi.

               Fram G. K. 328

Í ágústmánuði 1945 samdi Eggert Kristjánsson stórkaupmaður við Fredrikssund Skibsværft, en hann er umboðsmaður þeirrar skipasmíðastöðvar hér á landi, um smíði á alls 15 bátum, 35-60 rúmlestir. Verð bátanna er um 5000 kr. pr. rúmlest, ásamt aðalaflvél. Bátar þessir eru flestir væntanlegir hingað til lands á þessu ári. Af þeim fara 3 eða 4 til Hafnarfjarðar, en hinir til Húsavíkur, Patreksfjarðar, Sandgerðis og Akraness. Fyrsti báturinn, sem heitir Fram og hefur einkennisstafina G. K. 328, kom til Hafnarfjarðar 1. apríl. Hann er 60 rúmlestir að stærð og hefur 200 hestafla Tuxham-dieselvél. Annars verða sumir bátarnir af þessari stærð með 240 hestafla vél.
Eigandi Fram er Hlutafélagið Stefnir í Hafnarfirði, en framkvæmdarstjóri þess er Guðmundur Guðmundsson. Bátur þessi er smíðaður með styrk frá Bæjarútgerð Hafnarfjarðar. Félag þetta hefur samið um kaup á tveimur slíkum bátum til viðbótar frá Fredrikssund og verður Bæjarútgerð Hafnarfjarðar einnig hluthafi í þeim.

Ægir. 4 tbl. 1 apríl 1946.


Fram GK 328 á siglingu.                                                                              Mynd úr Íslensk skip.


Fram GK 328 á strandstað á Hópsnesi við Grindavík.                            (C) Sigurjón Vigfússon.


Fram GK 328 á strandstað.                                                                          (C) Sigurjón Vigfússon.

 Vb. Fram strandaði við Grindavík í gærkvöldi
            Björguðust til lands á gúmbáti

Laust eftir kl. 9 í gærkvöldi strandaði vélbáturinn Fram frá Hafnarfirði í brimi og stormi, rétt við innsiglinguna til Grindavikur. Á honum var 11 manna áhöfn, og björguðust allir mennirnir í land í gúmmíbáti. Munu flestir skipbrotsmannanna hafa komið til Hafnarfjarðar laust eftir miðnætti í gærkvöldi. Í gærkvöldi var með öllu óvíst um örlög Fram, en mikið brim var þá í Grindavík. Báturinn var á leið inn til Grindavíkur þegar þetta gerðist. Í það grynnsta var að fara inn ósinn fyrir svo djúpristan bát sem Fram, en hann er 65 lestir að stærð, og brim var mikið, sem fyrr segir, og braut yfir leiðina inn. Var hann kominn inn undir ytri bryggjuna í Grindavík, er hann tók niðri í hælinn, en við það hrökk stýrið upp af standinum. Skipstjóranum, Jóhanni Frímanni, tókst þó að ná bátnum út úr ósnum aftur. Fór nú vélbáturinn Arnfirðingur, sem lá í Grindavíkurhöfn, út til þess að aðstoða Fram og tókst að koma yfir í hann dráttartaug. En þegar Arnfirðingur ætlaði að fara að draga Fram af stað, vildi svo óheppilega til, að festingin á tauginni bilaði, einhverra orsaka vegna. Skipti það nú engum togum, að Fram rak upp á flúðir, sem eru inn af Djúpsundinu, en svo nefnist aðalinnsiglingarleiðin til Grindavíkur; sat báturinn þar fastur og braut á honum.
Mbl. átti í gærkvöldi tal við Sigurð Þorleifsson, símstöðvarstjóra í Grindavík, sem er jafnframt formaður slysavarnadeildarinnar þar. Skýrði hann svo frá, að björgun áhafnarinnar af Fram hefði gengið ágætlega, en reyndar komust mennirnir til lands af eigin rammleik, eins og fyrr er getið.  Fyrst fóru 8 menn af áhöfninni í gúmmíbátinn, en þeir þrír, sem eftir voru, héldu í kaðal, sem festur var í hann, og gáfu síðan eftir, unz félagar þeirra höfðu náð landi. Þá drógu þeir þremenningarnir bátinn aftur til sín og lögðu síðan í honum til lands. Gekk það að óskum. Lágsjávað var í gærkvöldi, er þessir atburðir gerðust, en mjög óttuðust Grindvíkingar, að á næturflóðinu mundi brimið berja mjög á bátnum og ef til vill brjóta hann. Skipstjórinn á Fram, er eins og fyrr segir Jóhann Frímann, en framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins er Guðmundur Guðmundsson. Þess má geta hér, að um fyrri helgi var Fram nokkuð hætt kominn, er hann fékk net í skrúfuna, þegar hann var að leggja út af Hafnarnesi. Var hann kominn mjög nærri landi, er vélbáturinn Viktoría frá Þorlákshöfn kom honum til hjálpar.

Morgunblaðið. 24 mars 1959.




Flettingar í dag: 299
Gestir í dag: 86
Flettingar í gær: 2133
Gestir í gær: 252
Samtals flettingar: 1051482
Samtals gestir: 75999
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:41:02