Færslur: 2021 Júlí

25.07.2021 16:48

L.v. Alden SH 1 LBSF / TFBE.

Línuveiðarinn Alden SH 1 var smíðaður hjá Moss Værft í Moss í Noregi árið 1907. Stál. 111 brl. 175 ha. 2 þennslu gufuvél. 28,14 x 5,65 x 3,1 m. Fyrsti eigandi hér á landi var Anton Jacobsen útgerðarmaður í Reykjavík. Hann keypti skipið í Noregi í janúar árið 1925. Hét hjá honum Alden RE 264, en hafði heitið Svalen áður. Selt 20 janúar 1927, Fiskveiðahlutafélaginu Hrólfi í Reykjavík, sama nafn og númer. Selt 27 febrúar 1931, Samvinnuútgerðinni í Stykkishólmi, hét þá Alden SH 1. Selt 27 mars 1940, Hlutafélaginu Fossi í Hafnarfirði, hét Alden GK 247. Selt 3 febrúar 1945, Hlutafélaginu Búa á Dalvík, hét Alden EA 755. Skipið var selt í brotajárn til Hollands í júní árið 1956.


Línuveiðarinn Alden SH 1 við stjóra í höfninni í Stykkishólmi. Í baksýn er Súgandisey. Fyrir um þremur áratugum var gerð mikil landfylling við eyna og er þar athafnasvæði Breiðafjarðarferjunnar Baldurs í dag.    (C) Agnar Sigurðsson.

               Frá Stykkishólmi

Eins og kunnugt er var stofnað í vetur í Stykkishólmi félag til útgerðar á samvinnugrundvelli. Voru hér á ferð eftir nýjár tveir menn úr Stykkishólmi til að leita fyrir sér um kaup á togara fyrir félagið. Úr togarakaupunum varð ekki, en félagið keypti síðar línuveiðarann "Alden". Kom hann úr fyrstu veiðiförinni um miðjan f. m. með ágætan afla, 140 skpd. eftir 9 daga útivist. Stjóm samvinnufélagsins skipa 5 menn, 2 kosnir af félagsmönnum 2 af hreppsnefnd Stykkishólms og 1 sem fulltrúi þeirra, er vinna hjá félaginu, og var hann kosinn af Verkamannafélagi Stykkishólms.

Alþýðublaðið. 10 apríl 1931.


Línuveiðarinn Alden GK 247.                                                               (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

    Hafnfirðingar kaupa línuveiðara

Hlutafjelagið "Foss " í Hafnarfirði hefir keypt línuveiðarann "Alden" frá Stykkishólmi og verður skipið gert út frá Hafnarfirði. Alden kom til Hafnarfjarðar í gær.  Aðaleigendur línuveiðarans eru, Jón Björn skipstjóri, Ólafur Tr Einarsson, Guðmundur Einarsson og Guðmundur Erlendsson.

Morgunblaðið. 21 apríl 1940.


Alden EA 755 á landleið með fullfermi síldar.                                            Ljósmyndari óþekktur.

             Línuveiðari seldur

Línuveiðarinn Alden frá Hafnarfirði hefir verið seldur til Dalvíkur. Kaupendur eru hlutafélag þar.

Vísir. 19 janúar 1945.


           Brotajárnaskip lestar
      og línuveiðarar til niðurrifs

Tvö skip er verið að lesta hér í höfninni með brotajárn. Er annað þeirra gríska flutningaskipið Titika, sem strandaði í Keflavík í fyrravetur og nú hefur verið gert sjófært, svo að hægt sé að draga það til niðurrifs erlendis. Hitt skipið er Ulla Danielsen. Þá liggja vestur við Ægisgarð þrír gamlir línuveiðarar, járnskip, sem seldir hafa verið til niðurrifs, en það eru Alden, Ármann og Rafn. Innan fárra daga er von á dráttarbátum frá útlöndum til þess að sækja þessa gömlu kláfa og gríska skipið.

Morgunblaðið. 23 júní 1956.



Alden RE 264 að landa síld, sennilega á Siglufirði.                                          (C) Jón & Vigfús.

     Línuveiðarinn "Alden" RE 264

Alden heitir gufuskip sem hingað hefir verið keypt frá Noregi. Er eigandi þess Anton Jacobssen. Skipið er að stærð 111 tonn. Það mun eiga að fara til Vestmannaeyja og stunda þar netaveiðar, fyrst um sinn að minsta kosti.

Morgunblaðið. 28 janúar 1925.

14.07.2021 13:28

E.s. Noreg EA 133. LCDK / TFVE.

Gufuskipið Noreg EA 133 var smíðað í Moss í Noregi árið 1902. 96 brl. 165 ha. 2 þennslu gufuvél. Ingvar Guðjónsson útgerðarmaður og síldarsaltandi á Akureyri kaupir skipið í Noregi vorið 1923. Ingvar gerði skipið út á síld og þorskveiðar, en þó mest á síld. Skipið var leigt vorið 1930, bræðrunum og skipstjórunum, Jóni og Birni Eiríkssonum og fl. í Hafnarfirði. Skipið notuðu þeir til að safna lifur af færeyskum kútterum út af suðvesturlandi, þá aðallega í Eyrarbakkabugt og við Vestmannaeyjar. Mun lifrin hafa verið brædd um borð. Skipið var talið ónýtt og rifið á Akureyri árið 1936-37.


Noreg EA 133 við bryggju á Akureyri.                                                     Ljósmyndari óþekktur.

                      "Noreg"

Á Sunnudaginn kom Ingvar Guðjónsson skipstjóri með gufuskip, er hann keypti í Noregi í vetur. Heitir það Noreg og er um 100 smálestir að stærð. Mun það aðallega ætlað til síldveiða hér fyrir norðurlandi.

Verkamaðurinn. 17 apríl 1923.

07.07.2021 23:08

990. Síldin TFKT.

Síldarflutningaskipið Síldin var smíðuð hjá Blythswood Shipbuilding Co Ltd í Glasgow í Skotlandi árið 1954 sem olíuflutningaskip fyrir Skibs A/S í Bergen í Noregi, hét þá Hertha. 2.588 brl. 1.260 ha. 3 þennslu gufuvél smíðuð hjá Rankin & Blackmore í Greenock í Skotlandi. 306,2 x 44 x 20,3 ft. Smíðanúmer 109. Selt 5 júlí 1965, Síldar og fiskimjölsverksmiðjunni hf í Reykjavík, hét Síldin. Skipið flutti síld frá veiðiskipunum á síldarmiðunum til Reykjavíkur á meðan síldveiði stóð yfir en lá þess á milli í Reykjavíkurhöfn eða flutti lýsisfarma til útlanda þegar þess þurfti. Í janúar árið 1969 var Síldin leigð til olíuflutninga erlendis og var hún í þem flutningum þar til hún var seld á árinu 1970, Carlo Cosulich & Co í Feneyjum, hét Orseolo. Skipið var selt í brotajárn 1 september árið 1977 og rifið skömmu síðar.


Síldarflutningaskipið Síldin.                                                                              (C) Malcolm Cranfield.

        Flutningaskip í fyrstu ferð

Í fyrrakvöld kom hingað til Reykjavíkur flutningaskipið Síldin, sem er eign Síldar- og fiskimjölsverksmiðjunnar að Kletti í Reykjavík. Þjóðviljinn hafði samband við Jónas Jónsson, stjórnarmann verksmiðjunnar af því tilefni. Jónas kvað flutninginn á síldinni austan frá Hrollaugseyjum hafa gengið mjög vel. Hefði skipið verið 3 ½  dag að fylla sig og hefði nú komið með rösklega 20 þús. mál til Reykjavíkur, sem færu til bræðslu í verksmiðjunum á Kletti og í Örfirisey Unnið var að því að landa úr Síldinni í gor og fyrradag. Var löndun um það bil hálfnuð á hádegi í gær. Var síldinni landað á bíla, sem fluttu hana til verksmiðjanna.
Síldin er 11 ára gamalt tankskip, keypt frá Noregi. Kaupverð skipsins var 15 miljónir króna, en síðan þurfti að kosta breytingar á skipinu svo unnt yrði að flytja í því síld. Skipið er 3500 tonn. 15 menn fóru með Síldinni í þessa fyrstu ferð skipsins. En í ljós kom, að ekki geta færri menn en 18 annað þeim verkefnum, sem sinna þarf um borð í skipinu og mun því nokkrum nýjum mönnum verða bætt við.

Þjóðviljinn. 7 ágúst 1965.


Sigríður Sigurðardóttir matsveinn á Síldinni og einn skipverja með skipstíkina.  (C) Alþýðublaðið.

     Hún er kokkur um borð í Síldinni
         Gæti hugsað sér að gerast                                 togaraháseti

Í gær lá síldarflutningaskipið Síldin hér inni. Við hittum að máli Sigríði Sigurðardóttur, sem hefur verið kokkur þar á skipinu í sumar. - Er þetta ekki dálítið ævintýralegt, Sigríður, svona fyrir kvenmann að vera síldarkokkur? - Nei, nei, þetta gengur allt sinn vanagang úti á sjónum eins og í landi. Þetta er bara ein sigling og mér liggur við að segja, að sem betur fer gerist ekkert ævintýralegt, því að ég get nú varla ímyndað mér annað en, að það yrði þá að teljast til einhvers neikvæðs, svo sem ef eitthvað bilaði. Þetta hefur allt saman gengið blessunarlega vel. - Þú ert kannski alvanur síldarkokkur. - Ekki get ég nú sagt það. Ég var að vísu í fyrrasumar kokkur á litlum bát frá Ólafsfirði; Sæþóri. Áður hafði ég ekki á ,sjó komið. Þótt ég hafi verið svona óvön á sjó, bagaði sjóveiki mig aldrei. - Fræddu mig um lífið á sjónum, eins og það kemur þér fyrir. - Ég kann ákaflega vel, við mig, en þetta hefur, að segja má, ýmsa ókosti, og það leiðinlegasta er nú, að maður hefur litla hugmynd um, hvað er að gerast í heiminum. Einu fréttirnar, sem við fáum, berast í gegnum loftskeytastöðina.
Annars er mjög mikið undir því komið, að mannskapurinn sé góður og ég hef verið afskaplega heppin þannig. Við erum tuttugu á skipinu með tíkinni, og ég elda sem sagt ofan í áhöfnina. Ég hef að vísu tvo messadrengi mér til aðstoðar, því að ég kæmist alls ekki yfir þetta ein. Eins og ég var að segja þér áðan, þá eru þetta alveg sóma piltar hérna, þeir segja aldrei æðruorð. Ég er viss um, að þeir segðu ekki bofs, þótt ég gleymdi að gefa þeim að borða. Þeir eru svo vel upp aldir. Andinn um borð er mjög góður og skipstjórinn okkar, hann Guðni Jónsson, sem er þrautreyndur sjóari, á sinn stóra þátt í því með afburða skapgæzku. Og hann er hinn mesti spéfugl. Síldin er hið ágætasta sjóskip, það haggast aldrei, svo að ekki er hægt að kvarta yfir því að þetta sé neinn koppur. Raunar er þetta ekki alveg nýtt skip; það var byggt í Noregi. Hvað matvælamálum á miðunum viðvíkur, þá gegna síldarflutningaskipin þrjú þar mikilvægu hlutverki, því að síldarbátarnir kaupa fæði af þeim. Svo að við verðum að vera vel birg af matvælum, þegar við förum úr landi. En það eru alveg vandræði, þegar ekki fást eins góð matvæli í verzlununum og skyldi.
Það hefur komið fyrir, að maturinn hefur beinlínis verið skemmdur. Og það bitnar ekki aðeins á okkur á Síldinni, einnig á þeim bátum, sem kaupa mat af okkur. Svo minnst sé á mjólkina, þá er alveg vandræði að geyma hyrnurnar, því að þær vilja svo springa. Fernurnar eru miklu skárri. En Akureyrarmjólkina er miklu betra að geyma, en mjólkina héðan. - Kemur þar bæði til að umbúðirnar eru betri, svo og, að gæði mjólkurinnar eru miklu meiri yfirleitt. Þá mjólk er hægt að geyma alveg von úr viti með því að frysta hana. - Hvað segir nú fjölskyldan um það, að þú ert á sjónum og dvelur þannig að heiman talsvert lengi í einu. - Því er bara vel tekið. - Börnin sjá alveg um sig, og það yngsta er orðið 10 ára. 18 ára gömul dóttir mín er heima, svo að það bjargast allt vel. - Þú ert sem sagt ekkert að hugsa um að hætta á sjónum? - Alls ekkert frekar, mér finnst þetta svo ágætt. Ég held ég setti það ekki fyrir mig að vera háseti á togara.

Alþýðublaðið. 4 ágúst 1968.

   Síldin í leiguflutningum erlendis

Flutningaskipið Síldin fór frá Reykjavík skömmu fyrir áramót með 3000 tonn af síldarlýsi til Bergen, en að þeirri ferð lokinni mun skipið verða í leiguflutningum erlendis, að því er Jónas Jónsson, frkvstj. Sildar og fiskmjölsverksmiðjunnar hf., tjáði Morgunblaðinu í gær. Á skipinu er 18 manna áhöfn. Jónas sagði, að frá Bergen færi Síldin til Middlesborough í Englandi og lestar þar jarðolíu til Esbjerg í Danmörku. Er ráðgert, að Síldin fari 4-5 slíkar ferðir. Ekki e rfullákveðið hvað þá tekur við, en Jónas sagði, að mörg verkefni væru fyrir hendi og að hann vonaði, að skipið hefði nóg að gera, þar til aftur yrðu verkefni fyrir það hér heima. Það eru danskir aðilar, sem hafa tekið að sér að leigja Síldina út til flutninga, en sl. vetur hafði skipið engin verkefni hér heima. Jónas sagði, að enn væru hér 11-1.200 tonn af framleiðslu Síldar- og fiskmjölsverksmiðjunnar hf., en búið er að selja þau til Noregs og er þá öll framleiðsla verksmiðjunnar seld. Gat Jónas þess, að fyrir hana hefði fengizt hæsta verð, sem að undanförnu hefur verið greitt fyrir síldarlýsi erlendis.

Morgunblaðið. 4 janúar 1969.


Síldarflutningaskipið Síldin við bryggju í Örfirisey.                                 Ljósmyndari óþekktur.

           Tvö skip seld úr landi

Tvö skip voru seld úr landi á árinu, Sildarflutningaskipið Síldin til ítalíu, smíðaár 1954; 2 505 brúttólestir, útflutningsverðmæti 16 701 þús. kr., talið í útflutningi júnimánaðar. Hitt skipið: Síldarflutningaskipið Dagstjarnan til Belgíu, smíðaár 1943, 809 brúttólestir, útflutningsverðmæti 1.313 þús. kr, talið í útflutningi desembermánaðar.

Verslunarskýrslur 1970.

04.07.2021 08:03

2. m. Kt. Geir RE 8. NKWC / LBJK.

Þilskipið Geir RE 8 var smíðaður hjá Furner & Leaver Co í Grimsby í Englandi árið 1887 fyrir Alfred Tidman í New Cleethorpes í Grimsby. Hét fyrst Thistle GY 116. Eik og álmur. 85 brl. 78,7 x 21,2 x 10,5 ft. Selt í febrúar 1894, George Smith í Grimsby. Selt árið 1900, Islands-Handels & Fiskeri-Kompani (IHF) í Kaupmannahöfn, hét þá Frida. Selt 17 september 1903, Geir Zoega útgerðar og kaupmanni í Reykjavík, hét þá Geir RE 8. Skipið var selt 21 september 1908, Fiskiveiðahlutafélaginu Sjávarborg  (Copeland & Berry, aðaleigendur Edinborgarverslunar) í Reykjavík. Var Geir þá gerður um skeið út frá Hafnarfirði. Skipið fórst að talið er á Selvogsbanka hinn 23 febrúar árið 1912 með allri áhöfn, 27 mönnum.

Engar heimildir eru til eða finnast um að IHF hafi gert skipið út á meðan þeir áttu það. Þegar Geir fórst í febrúar árið 1912, var jafnvel talið að hann hafi lent í árekstri við franska skútu á Selvogsbanka. Það er varasamt að halda slíku fram þegar enginn er til frásagnar. Hinsvegar var líka talað um að skipið hafi ekki verið haffært og var mikið skrifað um það í blöðum eftir þetta átakanlega sjóslys.

Heimildir: Birgir Þórisson.
                Trevor Hallifax.


Þilskipið Geir RE 8 á siglingu.                                                            Ljósmyndari óþekktur.

                   Nýtt þilskip

Kaupmaður Geir Zoéga í Reykjavík fékk 1. þ. m. kútter frá Englandi, er hann kvað hafa keypt fyrir 12 þús. króna, og er sagt gott skip, 85 tons að stærð, og nefnist "Frída".

Þjóðviljinn ungi. 12 nóvember 1903.


Reykjavíkurhöfn árið 1900.                                                                             (C) Frederick Howell.

                Mannskaðamálið
                Réttarrannsóknin

Fyrir réttinum mætti vitnið Otti Guðmundsson skipasmiður hér í bænum, 56 ára, skipaður skoðunarmaður fiskiskipa í Reykjavík. Var ámintur um sannsögli. Að gefnu tilefni skýrir vitnið frá því, að það og hinn skoðunarmaðurinn, Hannes Hafliðason fyrrv. skipstjóri hér, hafi í haust er leið eða snemma í vetur verið kvaddir af útgerð h/f Sjávarborgar eða manni frá henni að skoða skip þessa hlutafélags, kútter "Geir'', er þá stóð hér uppi í "Slippnum", til þess að segja álit sitt um þilfarið í skipinu, sérstaklega var það borið undir þá, hvort ekki nogði sú aðgerð á þilfarinu, að negld væru ofan á það borð. Skoðunarmennirnir athuguðu þilfarið, boruðu gegnum það á allmörgum stöðum, og komust að raun um, að það var orðið allt mikið slitið, nema máske rétt í miðjunni; upphaflega álítur vitnið, að þilfarið hafi verið 3 þumlungar á þykt, en það boraði sérstaklega þar, sem það virtist vera þynnst, sem var hingað og þangað í pollum, sérstaklega kringum hásetabyrgið og lyftinguna á einum 8-12 stöðum, og var þilfarið þar, sem það var þynnst rúmur þumlungur á þykt, eða svo sem 1 1/8 þumlungur. Meðalslit á þilfarinu, nema í miðjunni, eða frá fremri brún á lyftingu og fram að stórsiglu, hyggur vitnið að hafi verið um 1 ½  þumlung. Eftir þessu áleit vitnið og hinn skoðunarmaðurinn, að ekki vori nogileg aðgerð að þilfarinu, til þess að það geti talist nogilega traust, að negla borð ofan á þilfarið, þótt það gæti varið það sliti fyrst um sinn, og létu þeir því mann þann, Vigfus fyrrv. skipstjóra, sem var við skoðunina af hálfu nefnds hlutafélags, þegar á staðnum, að skoðuninni lokinni, vita það, að þeir ekki gotu gefið skipinu vottorð um, að það vori sjófært, nema nýtt þilfar væri sett í það. Ekki skoðuðu skoðunarmennirnir annað en þilfarið í skipinu. Samtímis vitninu og hinum skoðunarmanninum, skoðuðu þilfarið virðingarmenn þilskipaábyrgðarfélagsins við Faxaflóa, Þórður Narfason trésmiður og Daníel, vitnið veit ekki hvers son, vitnið veit ekki með vissu, að hvaða niðurstöðu þeir hafa komist, virðingarmennirnir.

Upplesið, viðurkennt.

Ingólfur. 22 október 1912.


Reykjavíkurhöfn árið 1917.                                                                (C) Magnús Ólafsson.

          Mannskæðasta sjóslys
              þilskipaaldarinnar

Í febrúarmánuði á þessu ári voru liðin eitt hundrað ár frá því að þilskipið Geir hvarf í hafið og allir skipverjarnir, 27 talsins, fórust. Kútter Geir var smíðaður í Grimsby árið 1887 og seldur til Íslands um aldamótin 1900. Kaupandinn var Geir Zoëga kaupmaður og útgerðarmaður í Reykjavík. Geir seldi kútterinn árið 1908 til Sjávarborgar hf. í Hafnarfirði. Sjávarborg var í eigu þeirra Ágústs Flygenrings, kaupmanns í Hafnarfirði, Ásgeirs Sigurðssonar, kaupmanns í Reykjavík (sem kenndur var við Edinborgarverslunina), og Gísla J. Johnsen, kaupmanns og útgerðarmanns í Vestmannaeyjum. Kútter Geir, sem var eitt stærsta og glæsilegasta þilskip Íslendinga á sínum tíma, 88 tonn, lagði úr höfn í sína hinstu ferð frá Hafnarfirði þann 11. febrúar 1912. Þann 22. febrúar gerði austan foráttuveður sem stóð fram á miðjan dag 23. febrúar og eftir það sást ekki til skipsins. Í Vestmanneyjum mældist vindstyrkurinn 11 stig. Þegar skipið skilaði sér ekki til hafnar í marsmánuði var það talið af. Á kútter Geir var 27 manna áhöfn, skipstjóri var Sigurður Þórðarson.
Slysið var eitt það mannskæðasta á þilskipaöldinni, 61 barn varð föðurlaust og þar af voru 4 ófædd. Margir úr áhöfninni höfðu einnig, eins og þá var algengt, fyrir öldruðum foreldrum að sjá . Allnokkur blaðaskrif urðu í kjölfar slyssins, enda hafði skipið ekki fengið vottorð um sjóhæfni í Reykjvík. Það var flutt til Hafnarfjarðar þar sem það fékk sjóhæfnivottorð frá umboðsmanni Ábyrgðarfélags þilskipa við Faxaflóa. Gísli Sveinsson, alþingismaður og sendiherra, var einn þeirra sem tjáði sig um slysið í riti. Hann skrifaði mjög harðorða grein í blaðið Ingólf, 22. tölublað 4. júni 1912. Stjórnarráð Íslands lét framkvæma lögreglurannsókn á slysinu bæði í Reykjvik og Hafnarfirði. Fyrir lögregluréttinum í Reykjavík kom fram að sett hafði verið nýtt stefni og stýrisleggur á skipið í slippnum í Reykjvík en ekki skipt um þilfar eins og skoðunarmenn í Reykjavík höfðu krafist þar sem það var orðið mjög slitið. Skipið var því sjósett í Reykjavík og farið með það til Hafnarfjarðar þar sem dekkið var klætt og styrkt með bitum. Í kjölfarið fékk skipið skoðun og vottorð um sjóhæfni. Stjórnarráð Íslands ákvað að hafast ekki meira að í málinu. Flestir sjómennirnir sem fórust með kútter Geir voru búsettir í Hafnarfirði og Gullbringu og Kjósasýslu. Þeir voru:
Halldór Jónsson, Njálsgötu 33 í Reykjavík
Böðvar Jónsson, Suðurgötu 3 í Hafnarfirði
Sigurður Jónasson, Ási í Gerðarhreppi
Jóhann Ólafur Guðmundsson, Arnarfirði
Þorvaldur Ásgeir Jóhannesson, Alviðru í Dýrafirði
Marteinn Guðlaugsson, Reykjavegi í Hafnarfirði
Jón Halldór Böðvarsson, Suðurgötu 3 í Hafnarfirði
Guttormur Einarsson, Kirkjuvegi 15 í Hafnarfirði
Ólafur Nikulásson, Merkurgötu 11 í Hafnarfirði
Ingvar Pétursson, Kirkjuvegi 14 í Hafnarfirði
Þórður Ingimundarsson, Tjörn í Vatnsleysustrandarhreppi
Kristján Einarsson, Austurhverfi 3 í Hafnarfirði
Ólafur Sigurðsson, Langholti í Flóa
Magnús Pétursson, Grettisgötu 28 í Reykjavík
Helgi Árnason, Eiði á Seltjarnarnesi
Jón Kristján Jónsson, Skógum í Arnarfirði
Guðmundur Árnson á Bíldudal
Guðjón Magnússon, Kirkjuvegi 4 í Hafnarfirði
Vilmundur Jónsson, Vesturhverfi 3 í Hafnarfirði
Guðjón Jónsson á Bíldudal
Magnús Sigurgeirsson, Hvassahrauni í Hafnarfirði
Sverrir Guðmundsson, Harðbala í Kjós
Jóhannes Jóhannesson Merkurgötu 9 í Hafnarfirði
Sólon Einarsson, Bergen í Hafnarfirði
Þorkell Guðmundsson, Miðsundi 3 í Hafnarfirði
Sigurður þórðarsson í Reykjavík
Afkomendur sjómannanna sem fórust með Geir eru nú um 2.000 talsins. Vegna þessa sjóslyss og þeirra mannskaða er höfðu orðið á þessum vetri 1911-1912 var stofnaður sjóður til styrktar börnum, ekkjum og foreldrum sjómanna sem fórust. Sjóðurinn var nefndur Mannskaðasjóður. Í stjórn hans sátu: Páll Einarssson, borgarstjóri Reykjavík, Magnús Jónsson, sýslumaður í Hafnarfirði, Jens Pálsson, prófastur í Görðum, Ólafur Ólafsson, fríkirkjuprestur í Reykjavík, Ásgeir Sigurðsson, kaupmaður í Reykjavík, Ágúst Flygering, kaupmaður í Hafnarfiði, og Hannes Hafliðason, bæjarfulltrúi í Reykjavík. Efnt var til samskota um allt land fyrir sjóðinn og gáfu nokkrir aðilar háar upphæðir t.d. útgerð kútters Geirs og dönsku konungshjónin. Einnig stóð danska stórblaðið Pólitiken fyrir söfnun í Danmörku.
Þann 25. febrúar síðastliðinn var haldin athöfn í Grensáskirkju í Reykjavík þar sem sjómannanna sem fórust með kútter Geir var minnst. Nú stendur yfir fjársöfnun til að standa straum af kostnaði við að setja nöfn skipverjanna á stein í minningaröldum Sjómannadagsráðs við Fossvogskapellu og verður steinninn afhjúpaður laugardaginn 2. júni kl 10.

Sjómannadagsblaðið. 3 júní 2012.

  • 1
Flettingar í dag: 170
Gestir í dag: 60
Flettingar í gær: 2133
Gestir í gær: 252
Samtals flettingar: 1051353
Samtals gestir: 75973
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:19:32