Færslur: 2021 Ágúst
29.08.2021 11:24
959. Strákur SI 145. TFDH.
Vélbáturinn Strákur SI 145 var
smíðaður hjá Marselíusi Bernharðssyni á Ísafirði árið 1956. Eik. 59 brl. 280
ha. MWM vél. 21,41 x 4,67 x 2,21 m. Hét áður Páll Pálsson ÍS 101 og var eigandi
hans Ver hf (Jóakim Pálsson og fl.) í Hnífsdal frá 19 janúar 1957. Báturinn var
seldur 19 desember 1962, Ver hf á Siglufirði, hét Strákur SI 145. Báturinn sökk
út af Hópsnesi við Grindavík 18 október árið 1965. Áhöfnin, 9 menn, bjargaðist
á síðustu stundu um borð í breska togarann Imperialist FD 83 frá Fleetwood.
Skipstjóri á Strák var Engilbert Kolbeinsson en aðrir í áhöfn hans voru, Gísli
Ólafsson stýrimaður, Aðalsteinn Valdimarsson, Sigurbjörn Guðmundsson, Matthías
Bjarnason, Lúðvík Jacobsen, Henning Johannesson, Hans Kálvalíð og Gert
Johannesson. Skipstjóri Imperialist hét John Mcklenburgh jr.
Vélbáturinn Strákur SI 145. (C) Hafsteinn Jóhannsson.
Strákur SI
145
Hlutafélagið Ver í Siglufirði hefur keypt bátinn Pál Pálsson
ÍS 101 frá Hnífsdal og nefnist hann nú Strákur SI 145. Báturinn er rúmar 60
lestir á stærð, og búinn öllum tækjum og útbúnaði til Iínu, neta- og síldveiða.
Skipstjóri er Sigurjón Jóhannsson. Báturinn hefur þegar farið nokkra róðra og
mun leggja aflann upp hjá S.R.
Einherji. 27 október 1962.
Togarinn Imperialist FD 83 frá Fleetwood í Englandi bjargaði áhöfninni af Strák á síðustu stundu. Imperialist var smíðaður hjá Smith´s Dock Co. Ltd, South Bank-on-Tees í Middlesbrough í Englandi árið 1939. 520 brl. 925 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 1058. 175,9 ft. á lengd. Hét fyrst Imperialist H 2 og var í eigu Hull Great Northern Fishing Co Ltd í Hull. Togarinn var í eigu Wyre Trawlers Ltd í Fleetwood þegar áhöfninni, 9 mönnum var bjargað af Strák SI 145. Mynd úr safni mínu.
Brezkur
togari bjargaði skipverjum
af vélbátnum Strák SI 145
Vélbáturinn Strákur, SI 145, fórst út af Grindavík í
gærkvöldi, en enski togarinn Imperialist bjargaði áhöfninni, 9 mönnum, á
síðustu stundu. Strákur, sem var 59 tonna eikarbátur, var á leið frá
Vestmannaeyjum til Hafnarfjarðar. Klukkan fimm mínútur yfir sex í kvöld sendi
Strákur út neyðarkall, sem Loftskeytastöðin í Reykjavík tók á móti. Sagðist
skipstjórinn þá vera út af Grindavík, og væri talsverður leki kominn að bátnum.
Bað hann um að samband væri haft við Grindavík, til þess að vita um hvort unnt
væri að sigla þangað inn. Þegar þetta gerðist var sunnan hvassviðri á þessum
slóðum og mikill sjór. Eins og við mátti búast var haugabrim í Grindavík og
innsiglingin algerlega ófær. Varð því þegar ljóst, að ekki væri um að ræða að
sigla þangað inn. Skömmu síðar, stöðvaðist vél bátsins, vegna þess hve mikill
sjór var kominn í vélarrúmið, og var því útlitið harla óglæsilegt og báturinn
þá staddur rúmar tvær mílur undan Hópsnesi.
Kallaði Loftskeytastöðin í Reykjavík nú upp öll skip, sem nálæg voru og náðist
samband við nokkur þeirra, m. a. togarana Ask og Hvalfell og flutningaskipið
Önnu Borg. Askur var næstur þessara skipa, en þó um 35 mílur í burtu. Hélt hann
á fullri ferð til aðstoðar hinum nauðstadda báti. Skipsmenn á Strák settu upp
segla útbúnað til þess að freista þess að slaga bátnum fyrir utan og reyna að
hamla á móti því að hann ræki upp í land, en landtaka er þarna næstum eins
óglæsileg og hún getur verið í slíku veðri. Jafnframt þessu var
slysavarnadeildin í Grindavík kvödd út og fylgdist hún vel með bátnum, en ljós
hans og neyðarblys sáust frá Grindavík. Ætluðu björgunarsveitarmenn að gera
allt sem í þeirra valdi stæði til þess að bjarga mönnunum, ef svo tækist til að
bátinn ræki upp í fjöru. Gekk svo nokkra hríð og jókst stöðugt lekinn í bátnum,
en bátsverjum tókst að halda bátnum frá landi og slaga austur fyrir Hópsnes, og
voru þá á rýmri sjó. Um klukkan átta í kvöld náðist svo allt í einu samband við
brezka togarann Imperialist, sem reyndist örskammt undan bátnum. Tók hann Þegar
að leita hans. Klukkan tíu mínútur yfir átta tilkynnti skipstjórinn á Strák að
hann sæi til togarans. Um klukkan tuttug mínútur yfir átta taldi skipstjórinn á
Strák ekki þorandi fyrir mannskapinn að vera lengur um borð og tilkynnti að
þeir færu að fara í gúmbátana. Þegar til kom vildi svo illa til að annar
báturinn reyndist í ólagi, eins og því miður kemur of oft fyrir, og var ekki
talið ráðlegt að nema sjö menn færu í hann, en skipstjórinn varð eftir við
annan mann. Örskömmu síðar kom svo togarinn Imperialist að Strák.
Lagði hann tvisvar að bátnum og í annari atrennu tókst mönnunum að stökkva um
borð. Er togarinn lagði að Strák í annað sinn mun báturinn hafa brotnað
eitthvað. Skipstjórinn sagði, áður en hann yfirgaf Strák, að hann myndi láta
vita, þegar hann væri kominn yfir um borð í Imperialist. Leið nú og beið
alllöng stund, eða nær klukkutími, svo ekkert heyrðist til Imperialist og voru
menn orðnir uggandi um björgunina. Loftskeytastöðvarnar í Grindavík og
Reykjavík, sem höfðu verið í stöðugu sambandi við Strák, kölluðu Imperialist
upp í sífellu og fengu íslenzk og ensk skip í lið með sér, en árangurslaust.
Klukkan hálf tíu barst svo loks hið langþráða svar. Þá kallaði skipstjórinn af
Strák út frá Imperialist og svaraði togaranum Aski og sagði að allir skipverjar
af Strák væru komnir heilu og höldnu um borð í togarann.
Báturinn Strákur SI, 145 var 59 tonna eikarbátur byggður á Ísafirði árið 1956
og hét áður Páll Pálsson, ÍS 101. Báturinn var á leið frá Vestmannaeyjum til
Hafnarfjarðar þegar óhappið varð. Mun skipstjórinn hafa siglt bátnum við annan
mann til Vestmannaeyja til þess að ná þar í mannskap á bátinn og Sæljónið frá
Hafnarfirði. Voru níu menn á bátnum, þegar óhappið varð. Imperialist hélt með
mennina til Reykjavíkur og var togarinn væntanlegur um þrjúleytið í nótt.
Tíminn. 19 október 1965.
Vélbáturinn Páll Pálsson ÍS 101. (C) Snorri Snorrason.
Nýr
glæsilegur fiskibátur í eigu Hnífsdælinga
Á laugardagskvöldið hljóp af stokkunum í Skipasmíðastöð
Marselíusar Bernharðssonar h.f. á Ísafirði,
nýr 59 smálesta bátur. Þetta er glæsilegt og traust skip vandað að
frágangi, eins og öll skip frá þessari kunnu skipasmíðastöð. Hann er smíðaður
úr eik, en yfirbygging er úr stáli. Nafn bátsins er Páll Pálsson Í.S. 101 og er
heimilisfang Hnífsdalur. Báturinn er smíðaður eftir teikningu Eggerts B.
Lárussonar, og er með 280 hestafla Mannheim dieselvél. Í bátnum er dekkspil og
vökvadrifið línuspil, Simrad dýptarmælir með asdicútfærslu. Þá á að setja í
bátinn ljósavél. Mannaíbúðir eru klæddar með plastikplötum og eru þær sérlega
smekklegar.
Yfirsmiður við smíði bátsins var Marsellíus Bernharðsson. Vélsmiðjan Þór h.f.
sá um uppsetningu vélar. Neisti h.f. annaðist raflagnir og Ólafur Kristjánsson,
málningu. Skipstjóri á bátnum verður Jóakim Pálsson og vélstjóri Friðbjörn
Friðbjörnsson. Eigandi bátsins er Ver h.f. í Hnífsdal og er stjórn félagsins
þannig skipuð:
Jóakim Pálsson, formaður, Ingimar Finnbjörnsson og Friðbjörn Friðbjörnsson. Framkvæmdastjóri
félagsins er Einar Steindórsson. Páll Pálsson mun hefja róðra innan skamms.
Vesturland. 24 janúar 1957.
22.08.2021 09:47
604. Draupnir NK 21. TFWN.
Vélbáturinn Draupnir
NK 21 var smíðaður í Marstrand í Svíþjóð árið 1942. Eik 46 brl. 150 ha.
Bolinder vél. 17,21 x 5,97 x 2,54 m. Hét áður Brattvåg LL 432 og var í eigu
Anders Johansen, Axel Berntsson og Johan Berntsson í Åstol í Svíþjóð. Seldur 28
janúar 1946, Ásgeiri Bergssyni, Bergi Eiríkssyni og Hauki Ólafssyni í
Neskaupstað, hét þá Draupnir NK 21. Seldur 7 desember 1956, Draupni h/f á
Hellissandi, skipið hét Hólmkell SH 137. Ný vél (1957) 300 ha. Cummings díesel
vél. Seldur árið 1962, Ingólfi Arnarsyni í Vestmannaeyjum, hét Ingþór VE 75. Ný
vél (1964) 320 ha. Caterpillar díesel vél. Báturinn mælist 52 brl frá árinu
1964. Talinn ónýtur árið 1966. Lá við bryggju í Vestmannaeyjum í nokkur ár en
var að endingu dreginn út og honum sökkt.
Heimild um bát, eigendur og ljósmynd í Svíþjóð:
Óskar Franz Óskarsson.
Draupnir NK 21 í bóli sínu innan við Neseyrina á Norðfirði. Aftan við Draupni sér í 375. Dröfn NK 31. Dröfn var smíðuð af Bjarna Einarssyni skipasmið á Akureyri árið 1901 fyrir Carl Höepfner kaupmann á Akureyri, hét þá Anna EA 12. Dröfn rak á land í suðvestan stormi á Norðfirði árið 1966 eða 67 og eyðilagðist. (C) Björn Björnsson.
Draupnir NK 21 á Norðfirði. Ljósmyndari óþekktur.
Brattvåg LL 432. (C) Óskar Franz Óskarsson.
Stór
vélbátur keyptur að Sandi
Hingað kom á laugardaginn vélbáturinn Draupnir frá
Neskaupstað, en hann hefur verið keyptur hingað í því augnamiði að gera hann út
frá Rifi á komandi vertíð. Báturinn er 46 tonn og fyrsti báturinn, sem hingað
er fenginn í þessu skyni. Samnefnt hlutafélag á bátinn, en stofnendur þess og
aðaleigendur eru Kristófer Snæbjörnsson, Skúli Alexandersson, Ársæll Jónsson og
Friðjón Jónsson. Í sumar verður báturinn gerður út á síldveiðar.
Alþýðublaðið. 15 júlí 1954.
15.08.2021 11:39
B.v. Neptúnus RE 361 á toginu yfir úfinn sæ.
Systurskipin Neptúnus og Marz voru 183 ½ ft. (55,89 m.) eða
8 ½ feti lengri en hinir nýsköpunartogararnir sem voru 175 ft. (54 m.) Kom
lengdin miðskipa sem jók burðarþol skipanna verulega. Ýmsar aðrar breytingar
voru gerðar á þeim, t.d. hækkaðar lunningar um 18 tommur rétt aftur fyrir vant
til að byrja með, en voru svo síðar lengdar aftur fyrir svelg. Það var svo
Úranus RE 343 sem var sá fyrsti sem smíðaður var með þær aftur fyrir svelginn
árið 1949. Einnig var komið fyrir lýsistank aftast í skipið, aftur í "skotti",
undir lifrarbræðslunni, eins og Tryggvi orðaði það sjálfur. Lifrinni var síðan
dælt með sérútbúinni dælu og lögnum frá dekkinu í lýsistankin og dælt svo þaðan
upp í lifrarbræðsluna. Sú nýbreytni var að lestar skipanna voru einangraðar með
lofti, en klæðning í lestunum var Oregon Pine viður. Neptúnus var sá
nýsköpunartogarinn sem best var gert úr og mikil synd að hann skildi ekki vera
varðveittur því hann var í góðu ástandi þegar hann hélt af landi brott í
síðasta sinn, undir eigin vélarafli.
B.v. Neptúnus RE 361 á toginu yfir úfinn sæ. (C) Shetland museum.
Neptúnus RE 361 sennilega við Ægisgarð. (C) Peter Kidson.
B.v. Neptúnus RE 361. Þarna kominn með pólkompásinn framan á brúnna. (C) Ásgrímur Ágústsson.
B.v.
Neptúnus GK 361. TFMC.
Nýsköpunartogarinn Neptúnus GK 361 var smíðaður hjá John
Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947 fyrir h.f Júpíter í
Hafnarfirði. 684 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 205. Kom í fyrsta
sinn til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar hinn 27 desember sama ár. Um
áramótin 1947-48 flytur Tryggvi útgerð sína til Reykjavíkur og fær þá togarinn
skráningarnúmerið RE 361. Í maí 1948 setti Neptúnus heimsmet í aflasölu í
Grimsby. Seldi togarinn 356 tonn fyrir 19.069 sterlingspund og stóð það met í
ein 13 ár að ég held. Í desember sama ár kom upp mikill eldur í kyndistöð
togarans í Grimsby en þar hafði hann selt afla sinn nokkru áður. Miklar
skemmdir urðu á honum og var hann dreginn til Aberdeen í Skotlandi. Tók sú
viðgerð um 8 mánuði og fór hún fram í smíðastöð skipsins, hjá John Lewis &
Sons Ltd. Hinn 28 ágúst árið 1964 kom upp eldur í einangrun undir katli
togarans og breiddist hann hratt út í vélarúminu að ekki var neitt viðlit fyrir
skipverja að ráða niðurlögum hans. Var því ákveðið að skipið yrði yfirgefið og
áhöfnin, 32 menn, færu í björgunarbátana og færu um borð í varðskipið Albert
sem komið var á staðinn. Neptúnus var þá á veiðum um 20 sjómílur norðvestur af
Garðskaga. Miklar skemmdir urðu á togaranum og tók þó nokkurn tíma að gera við
hann. Neptúnus var alla tíð mikið afla og happaskip og var lengst af undir
stjórn Bjarna Ingimarssonar frá Hnífsdal. Togarinn var seldur í brotajárn til
Spánar eftir að hafa legið í nokkur ár við Ægisgarð, og sigldi hann þangað
undir eigin vélarafli hinn 6 október árið 1976.
11.08.2021 17:31
1212. Sólbakur EA 5. TFDJ.
Skuttogarinn Sólbakur EA 5 var smíðaður hjá Stocznia im Komuny Paryskiej í Gdynia í Póllandi árið 1967 fyrir franska útgerðarfélagið Pecheries Boulonnaises Fourmentin & Cie SA í Boulogne-sur-mer. 462 brl. 1.800 ha. Crepelle vél. Hét áður Bayard
B 3025. Smíðanúmer B 429/01. 54,0 x 10,6 x 6,9. m. Útgerðarfélag Akureyringa hf
kaupir togarann í Frakklandi 22 janúar 1972 og kaupverð hans var 73 milljónir. Kom
hann til heimahafnar sinnar, Akureyrar hinn 8 febrúar sama ár. Sólbakur var
fyrsti skuttogari Akureyringa og fór í sína fyrstu veiðiferð 8 mars. Skipstjóri
var Áki Stefánsson. Það má geta þess að Sólbakur dró gamla Harðbak út til
Skotlands, haustið 1979, en þangað hafði hann verið seldur í brotajárn.
Harðbakur var síðasti Nýsköpunartogarinn sem þá var eftir í landinu. Sólbakur
var seldur í brotajárn og tekinn af íslenskri skipaskrá 3 nóvember árið 1983.
1212. Sólbakur EA 5 á toginu. (C) Hafliði Óskarsson.
Sólbakur til Akureyrar
Frekari togarakaup fyrirhuguð
Sólbakur EA 5, eign Útgerðarfélags Akureyringa h.f. og
stærsti skuttogari sem til þessa hefur komið til landsins, sigldi inn á
Akureyrarhöfn í morgun eftir 4 ½
sólarhrings siglingu frá Boulogne í Frakklandi, þaðan sem togarinn var
keyptur. Hann var prýddur skrautfánum stafna á milli og sigldi nokkrum sinnum
fram og aftur um höfnina, til að sýna sig, áður en hann lagðist að
togarabryggjunni. Skipakaupin voru ákveðin seint á síðasta ári, eftir að Áki
Stefánsson skipstjóri hafði farið eina veiðiferð með togaranum til reynslu.
Kaupverðið var 4,6 milij. franskra franka og var þá innifalin fjögurra ára
flokkunarviðgerð. Sólbakur er 461 rúmlest, mesta lengd 54 metrar, breidd 10,4 m
og lestarrými í fisikilest 430 rúmm. Ganghraði er 11,7 sjómilur, miðað við 75%
nýtingu vélarafls. Sólbakur var smíðaður í Gdynia í Póllandi og afhentur fyrri
eigendum í des. 1967. Hann er úr stáli og með tveimur þilförum og skutrennu,
smíðaður samkvæmt fílokkunarreglum Bureo Veritas, sérstaklega styrktur til
siglinga í ís. Íbúðir eru fyrir 21 mann, allt 1 og 2ja. manna klefar. Þær eru á
milliþilfari, nema íbúðir skipstjóra og loftskeytamanns, sem eru í brú. Aðalvél
skipsins er frönsk dieselvél af gerðinni Crepelle 1800 ha og Brusselle togvinda
er rafknúin. Skipið er að sjálfsögðu búið fullkomnum og fjölbreyttum siglinga-
og fiskileitartækjum.
Skipstjóri verður Áki Stefánsson, 1. stýrimaður Jón Pétursson og 1. vélstjóri
Bolli Þóroddsson. Ekki er enn ljóst hver fjöldi skipverja verður, leita þarf
fyrst samkomulags um það mál við stéttarfélög sjómanna. Sólbakur fer sennilega
á veiðar í næstu viku. Stjórn ÚA er nú alvarlega tekin að líta í kringum sig
eftir nýjum skipum og sennilegt er að frekari ákvarðanir verði teknar bráðlega
um kaup á nýju eða nýlegu skipi og um nýsmíðar. Auk þess sem ÚA á kost á
skuttogara hjá Slippstöðinni h.f., hefur félagið sótt um að fá að kaupa einn af
fjórum 1200 lesta togurunum, sem verið er að smíða á Spáni, en það skip á að
verða tilbúið á miðju næsta ári. Þar að auki verður reynt að fá annan togara
keyptan erlendis bráðlega. Ástæðan til þess að stjórn ÚA leggur svo mikið kapp
á endurnýjun togaraflota síns um þessar mundir, er sú helzt að gömlu togararnir
eru nú teknir fast að eldast. Fyrir dyrum stendur 24 ára flokkunarviðgerð á
Sléttbak og fljótlega þar á eftir á Kaldbak, en í vor eru 25 ár liðin síðan
hann kom nýr til Akureyrar. Mjög er óvíst hvort sú viðgerð svarar kostnaði.
Svalbakur kom 1949 og Harðbakur 1950 og búast má við að þeir fari einnig að
segja af sér. Hins vegar er afar mikilvægt fyrir atvinnulífið í bænum að nógur
afli berist til fiskvinnslustöðvar ÚA, ekki sízt hraðfrystihússins, en rekstur
þess hefur gengið mjög vel undanfarin ár.
Morgunblaðið. 9 febrúar 1972.
Gamli og nýji tíminn mætast. Sólbakur EA 5 með Kaldbak EA 1 og Harðbak EA 3 í forgrunni.
(C) Páll A Pálsson.
Sólbakur EA 5 á leið í sína fyrstu veiðiferð. Kaldbakur EA 1 við bryggjuna. (C) Ú A.
Nú
mega fiskarnir fara að vara sig
Sólbakur,
fyrsti skuttogari Akureyringa
fór í fyrstu veiðiferðina í gær
Sólbakur EA 5, fyrsti skuttogari Útgerðarfélags Akureyringa
h.f. og stærsti skuttagari í eigu íslendinga enn sem komið er, lagði upp í
fyrstu veiðiferð sína frá togarabryggjunni á Akureyri kl. 14.40 í dag í
fegursta veðri, sólskini og sunnan golu. Fáni hafði verið dreginn að húni á
hraðfrystihúsi Ú A. Margt fólk var komið niður á bryggju til að kveðja skip og
skipshöfn, og árna fararheilla, og blær hátíðleika, bjartsýni og eftirvæntingar
var í hugum manna, enda mikar vonir bundnar við þetta nýfengna fiskiskip, sem
nú lá ferðbúið. Nokkru fyrir brottför komu Skipverjar hver af öðrum til skips
og fyrstur skipstjórinn, Áki Stefánsson. Sjópokar og persónulegir munir
skipverja voru bornir um borð og undir þiljur, en, áður var búið að birgja
skipið vistum, ís og öðrum nauðsynjum. Varpan lá eftir þilfarinu endilöngu.
Þó að Áki ætti í mörg horn að líta þessar síðustu mínútur fyrir brottför, gar
hann séð af stuttri stund til spjalls við fréttamann mbl."Mér segir ágætlega
hugur um þetta skip, ég held að það muni reynast vel. Ég fór eina veiðiferð með
því í vetur áður en það var keypt frá Frakklandi og mér leist vel á það. Hefur
miklu verið breytt í skipinu eftir að það var keypt hingað ? Nei, það verður
varla sagt. Þó hefur verið settur í það nýr eldhúsbúnaður, ibúðir lagfærðar,
færiböndum hagrætt á millidekki og svo hefur mikið verið málað. Verða ekki
mikil viðbrigði fyrir skipshöfnina að koma á þetta skip? - Jú, það má nú segja,
það verður gerólikt því sem var á gömlu togurunum.
Öll aðgerð fer fram undir
þiljum, allar íbúðir eru eins og tveggja manna klefar, og það er innangengt um
allt skipið. Það verða líka mikil viðbrigði fyrir skipstjórnarmenn frá því sem
var að koma í alla þessa sjálfvirkni og fjölbreyttan tækjakost og fást við
dísilvél í stað gufuvélar. Við höfum hér t.d. tvær ratsjár, og mjög fullkomnar
fisksjár og fiskileitartæki, svo að eitthvað sé nefnt. Svo er kallkerfi um allt
skipið. - Hvað verðið þið margir á? - Við verðum 19 í þessum túr, en reynslan
af honum á að sýna hvort fjölga þarf hásetum um einn eða svo. Ég hef þó litla
trú á því. Þetta er ákveðið með bráðabirgðasamkomulagi við Sjómannasambandið,
sem hefur samþykkt 20 manna áhöfn, en jafnframt að prósenta eins manns í þessu
tilfelli skiptist á hina. Samkvæmt samningum þarf a.m.k. 31 mann á gömlu togarana,
svo að þarna munar talsverðu. Öll vinna um borð skiptist á 6 tíma vaktir. - En
hvernig skiptist áhöfnin? - Við erurm þrír í brú, þrír í vél, loftskeytamaður,
matsveinn, bátsmaður og 10 hásetar. - Mig langar til að koma á framfæri
þakklæti mínu til stjórnar, forstjóra og annarra starfsmanna ÚA fyrir prýðilega
samvinnu og fyrirgreiðslu og til Akureyringa almennt fyrir vinarhug og vakandi
áhuga á útgerð þessa nýfengna skips, sem mér er trúað fyrir", sagði Áki að
lokum. Að svo mæltu gekk hann niður á þilfar og hóaði saman skipshöfninni til
myndatöku, en þá voru forstjórar ÚA, Gísli Konáðsson ag Vilhelm Þorsteinsson
þar komnir til að hitta Áka að máli.
- Gísli hafði þetta að segja um Sólbak: -
"Nú hefur verið unnið við lagfæringar á Sólbak í einn mánuð, en þá á líka að
vera búið að gera hann svo úr garði að hann þurfi ekki að stöðvast fyrst um
sinn. Nú verður hann bara að fiska og fiska vel. Ég er heldur ekkert hræddur um
annað, því að bæði skipstjóri og skipshöfn eru þaulreyndir menn, sem við
treystum fullkomlega. Nú voru landfestar leystar og óspart veifað í
kveðjuskyni. Sólbakur seig frá bryggju með áhöfn og þrjá farþega innanborðs,
sem fengu að fljóta með til Grímseyjar, Sigrúnu Sigurðardóttur, Ingibjörgu
Pétursdóttur, 4ra ára, og Guðjón Sigurbjörnsson. Þau eru öll búsett í Grímsey,
en komast þangað ekki flugleiðina, þrátt fyrir ágæt flugskilyrði, þar sem
flugbrautin þar er ófær vegna aurbleytu. Sólbakur tók skriðið út Eyjafjörð og
bar brátt í Kaldbak, sem elzti togari ÚA heitir í höfuðið á. Og nú mega fiskarnir
í djúpinu fara að biðja fyrir sér.
Morgunblaðið. 10 mars 1972.
Bayard B 3025 frá Boulogne-sur-mer á siglingu. Ljósmyndari óþekktur.
Sólbakur í
brotajárn
"Mér er það alveg Ijóst, að Sólbakur er ekki bæjarprýði, þar
sem hann stendur," sagði Gísli Konráðsson, framkvæmdastjóri ÚA í samtali
við Íslending, þegar borið var undir hann hvort ekki stæði til að flytja
ryðgaðan togarann a.m.k. úr augsýn þeirra, sem leið eiga um miðbæinn. Eins og
skýrt var frá á sínum tíma gerði Sigurður Þorsteinsson, íslenzkur maður
búsettur í Bandaríkjunum, boð í skipið. ,,Við héldum, að hann væri ákveðinn
kaupandi, en þetta hefur allt dregizt úr hömlu og það heyrist lítið frá Sigurði
svo ég er farinn að halda, að það sé ekkert að marka þetta sem hann hefur verið
að segja," sagði Gísli Konráðsson.
Sigurður var ólmur að fá Sólbak, þegar
ÚA gerði honum tilboð um áramótin s.l. Þá hugðist hann gera skipið að
móðurskipi fyrir sverðfiskveiðibáta í Karabíska hafinu. "En þetta er farið að
dofna allt saman, og ég er farinn að hugleiða við hliðina á þessu, sölu á
skipinu til Stálfélagsins í brotajárn, en það félag hyggst reisa stálverksmiðju
í Reykjavík," sagði Gísli. Hann sagði, að þeir hjá ÚA hefðu aðeins viðrað
þessa hugmynd við Stálfélagsmenn og hafa þeir sýnt áhuga. Hins vegar er málið
ekki það langt komið, að um þetta sé hægt að fullyrða enn. En þið hafið ekki
hugsað ykkur í millitíðinni að færa skipið til og frá augunum á manni, einkum
eftir að nýi vegurinn kom, sem gerir skipið enn meira áberandi? "Nei, ég held
að það sé ekki svo mikil kvöl að horfa á hann, að það sé ástæða til þess. Mér
finnst hann í rauninni hið mesta augnayndi," sagði Gísli og hló. "En ég
trúi því ekki að hann verði lengi þarna enn úr þessu. Því trúi ég ekki. Við
höfum hug á að koma honum í burtu."
Íslendingur. 4 ágúst 1983.
09.08.2021 10:19
2. m. kt. Verdandi KG 380. KCJD.
Mótorkútterinn Verdandi KG 380 var smíðaður í Great Yarmouth
í Englandi árið 1884 fyrir George Beeching í Hull, hét þá Aloungpyah H 1391.
Eik. 88 brl, 55 nettó. Dýpt miðskips var 10,6 ft.Var í eigu Hull Steam Fishing & Ice Company í Hull
frá 1891-1899. Óvíst hvenær vél var sett í skipið, en í því virðist hafa verið
100 ha. Bolinder vél eftir fréttaklausunni hér að neðan. Heimild frá Færeyjum
segir vélina hafa verið 50 ha. Árið 1920 kaupa þeir Helgi Hafliðason kaupmaður,
Sören Goos síldarsaltandi og Jón Sigurðsson skipstjóri á Siglufirði skipið í
Svíþjóð, hét það þá Verdandi 3519. Ætlun þeirra var að nota skipið til
fiskveiða í Faxaflóa. Einnig var það notað til flutninga milli landa á ýmsum
vörum. Verdandi var seldur árið 1922, J.F. Kjölbro í Klaksvík í Færeyjum, hét
þá Verdandi KG 380. KCJD. Ný vél (1927) 70 ha, gerð óþekkt. Selt 1931, A/S
Balslev & Gose í Þórshöfn, hét þá Verdandi TN 335. Ný vél (1936) 47 ha, gerð óþekkt. Selt 1938, S. Simonsen í Saltangaraa (Þórshöfn), hét Verdandi FD 535. Skipið fórst með allri áhöfn, 13 mönnum í
miklu óveðri er geisaði við Norður og Vesturland hinn 26 október árið 1944.
Verdandi var þá á leið til Reykjavíkur frá Siglufirði.
Heimildir: Jan Erik Simonsen.
Birgir Þórisson.
Enska skipaskráin.
Mótorkútterinn Verdandi KG 380 frá Klaksvík. (C) Jan Erik Simonsen.
Mótorkútterinn
"Verðandi"
»Verðandi« heitir mótorkútter sem hér er kominn er þeir
kaupmennirnir Helgi Hafliðason og Sören Goos og skipstjóri Jón Sigurðsson
keyptu í Svíþjóð síðastliðinn vetur og var ætlun þeirra að halda skipinu út á
fisk við Faxaflóa. Verðandi er myndarlegt skip nær 100 smálestir á stærð, með
100 hesta Bolindervél og vel útbúinn. Í vor og sumar hefur hann verið í
flutningaferðum milli landa, kom nú með timburfarm til Blönduóss. Verðandi á
heimilisfang í Siglufirði og er fyrsta skipið sem skrásett er héðan, hann hefur
merkið S.F. 71.
Fram. 34 tbl. 25 ágúst 1920.
Verdandi KG 380. (C) Jan Erik Simonsen.
Verdandi á siglingu. Þeir gátu sopið sjóinn kútterarnir. (C) Jan Erik Simonsen.
Verdandi að lands saltfiski í Skálafirði árið 1939. (C) Jan Erik Simonsen.
Færeyska
skútu vantar
Slysavarnafjélagið lýsti í gærkvöldi eftir færeyskri skútu,
Verðandi. Skipið fór frá Siglufirði þann 25. okt. s.l. og ætlaði til
Reykjavíkur. Skipið er enn ókomið og hefir Slysavarnafjelagið spurst fyrir um
skipið, en ekkert til þess frjett. Verðandi mun vera 70-80 smálestir með
fjögurra til 6 manna áhöfn.
Morgunblaðið. 5 nóvember 1944.
Málverk af Verdanda. (C) Hans Skálagard.
Færeyski
kútterinn talinn af
13 menn fórust
Færeyski kútterinn ,Verðandi" frá Saltangirá, er
Slysavarnafjelagið lýsti eftir s. l. laugardag 4. nóv., er talinn af. Með
skipinu fórust 13 menn, en ekki sex, eins og skýrt var frá í sunnudagsblaðinu,
allt Færeyingar. Ekkert hefir spurst til skipsins síðan það fór frá Siglufirði,
þann 25. október og ætlaði til Reykjavíkur. Afspyrnu veður var fyrir Norður- og
Vesturlandi um þetta leyti og urðu skip fyrir miklum skemdum á þeim slóðum.
Verðandi var mjög gamalt skip, eigandi þess Simon Simonsen. Skipstjóri var einn
af bestu skipstjórum færeyska flotans, Ole Larsen.
Morgunblaðið. 7 nóvember 1944.
07.08.2021 20:41
B.v. Jón Þorláksson RE 204. TFOE.
Nýsköpunartogarinn Jón Þorláksson RE 204 var smíðaður hjá
Goole Shipbuilding & Repairing Co Ltd í Goole á Englandi árið 1949 fyrir
Bæjarútgerð Reykjavíkur hf. 609 brl. 1.300 ha. Ruston díesel vél. 170 ft. á
lengd. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur, hinn 18 apríl sama ár. Jón
Þorláksson var systurskip Hallveigar Fróðadóttur RE 203 sem var fyrsti togarinn
með díesel vél sem kom hingað til lands um mánuði áður, og voru skipin smíðuð
eftir sömu teikningu að mestu leiti. Togarinn lagði upp í veiðiferð á miðin við
A-Grænland 21 ágúst árið 1954 með það fyrir augum að finna ný karfamið.
Afrakstur þessarar veiðiferðar var sá að hann landaði í Reykjavík 1 september,
tæplega 290 tonnum af karfa. Þessi gjöfulu fiskimið voru skírð í höfuð
togarans, hétu Jónsmið. Ekki leið á löngu að þessi nýfundnu og gjöfulu fiskimið
urðu að mestu uppurin sökum gengdarlegrar sóknar togaranna, að farið var að
leita nýrra miða og það á Nýfundnalandsmiðum. Á árinu 1957-58, fundust gjöful
karfamið á hinum svokallaða Ritubanka, en það er önnur saga. Togarinn var
seldur 24 október 1973, Sjótaki hf í Reykjavík, hét þá Bylgjan RE 145. Skipinu
var þá breytt til veiða með loðnuflottroll. Settir voru toggálgar aftur á
bátadekk og netavinda á skipið og einnig var komið fyrir vökvaspili á hvalbak
skipsins fyrir bómuhlaupara og færanlegri fiskidælu var komið fyrir á þilfari.
Var breytingunum á skipinu lokið um áramót og hélt það þá til loðnuveiða.
Togarinn sökk um 8 sjómílur suðaustur af Hjörleifshöfða að kvöldi, 14 febrúar
árið 1974. 1 maður fórst, hét hann Salómon Loftsson og var hann 2 vélstjóri á
skipinu, hann var fimmtugur að aldri. 11 skipverjar björguðust í
gúmmíbjörgunarbát og var bjargað þaðan um borð í togskipið Þórunni Sveinsdóttur
VE 401 frá Vestmannaeyjum sem fór með þá þegar inn til Vestmannaeyja.
Talið var að þær breytingar sem gerðar voru á skipinu hefðu raskað stöðugleika
þess og það að loðnufarmur skipsins hafi kastast til er það fékk á sig
slagsíðu, var talin orsöks þess hvernig fór og engin tök á að rétta skipið við.
B.v. Jón Þorláksson RE 204. Togarinn í reynslusiglingu. (C) Goole Shipbuilding & Repairing Co Ltd.
Jón
Þorláksson kominn
Díesel-togarinn Jón Þorláksson kom hingað til Reykjavíkur
annan páskadag. Er þetta annar diesel-togarinn, sem kemur hingað til lands.
Hann var tæpa fjóra sólarhringa á leiðinni frá Englandi. Skipstjóri er Einar
Thoroddsen. Jón Þorláksson fer bráðlega á veiðar.
Vísir. 20 apríl 1949.
B.v. Jón Þorláksson RE 204 sennilega í erlendri höfn. Ljósmyndari óþekktur.
Nýju
karfamiðin við Grænland reynast vel
21 skipsfarmi hefir þegar verið landað þaðan
Eins og kunnugt er fann togarinn "Jón Þorláksson" í
sumar ný karfamið við Grænland, sem áður hafa verið óþekkt. Mið þessi eru mun
nær Íslandi en þau, sem íslenzkir togarar hafa áður verið á og hafa verið nefnd
Jónsmið. Framkvæmdastjóri Bæjarútgerðar Reykjavikur, Jón Axel Pétursson ásamt
Hermanni Einarssyni, fiskifræðingi, sem var með í fyrstu rannsóknarför Jóns
Þorlákssonar á karfamiðunum, áttu fund með fréttamönnum í gær í þessu tilefni.
Þegar karfamið fóru þverrandi hér við land og togarar fóru að sækja í vaxandi
mæli á miðin við Vestur-Grænland, áttu framkvæmdastjórar Bæjarútgerðar
Reykjavíkur oftlega tal um það við skipstjóra, er hjá Bæjarútgerðinni starfa og
ýmsa aðra, að öll rök mæltu með því að fiskur og þá alveg sérstaklega karfi,
myndi vera á grunnunum við A-Grænland. Voru flestir sammála um að svo mundi
vera, en ýmsir töldu ís vera á þessu svæði mestan hluta ársins.
Á árinu 1952 Iét Veðurstofa Íslands, samkvæmt beiðni Bæjarútgerðarinnar, í té
ísfregnir á þessum slóðum og sýndi það sig að tiltölulega Iítill ís var á þessu
svæði í júlímánuði, nema stærri borgarísjakar nærri landi. Í júní 1953 lét
veðurstofan athuga á ný, og reyndist þá lítill ís þar. Var þá togarinn Ingólfur
Arnarson sendur til þess að gera tilraunir til veiða á þessum slóðum. Reyndi
Ingólfur á svipuðum slóðum og nú er verið að afla á og fékk um 5 tonn af karfa
í hali eftir 45 mín. tog. Karfi þessi var smár, aðeins 2/3 hirðandi. Nokkru seinna í sama mánuði fór
togarinn Hallveig Fróðadóttir á svipaðar slóðir. Kom þá í ljós að því nær sem
landi dró því minni karfa var að hafa og sums staðar ekkert. Í ár sýndi sig, að
tiltölulega lítill ís var meðfram allri ströndinni frá Angmagsalik og suður úr.
Í ágústmánuði var leitað eftir því við stjórn Fiskimálasjóðs, að látin væri í
té fjárhagslegur stuðningur við áframhaldandi leit við A-Grænland. Að fengnu
samþykki sjávarútvegsmálaráðherra, lofaði stjórn Fiskimálasjóðs fjárhagslegum
stuðningi, ef afli yrði svo lítill að ferð togarans svaraði ekki kostnaði.
Tilskilið var að fiskifræðingur yrði með skipinu og aðstoðaði við mælingar á
sjávarhita og gerði fleiri nauðsynlegar athuganir.
Var til þess fenginn dr. Hermann Einarsson. Togarinn Jón Þorláksson lagði upp í
þessa för þann 21. ágúst s. l. og kom í höfn 1. sept. með farm, er nam 284.780
kg. alls, þar af 283.780 kg. karfi, 110 kg. lúða og 980 kg. annar fiskur.
Samkv. umsögn fiskimatsmanns, er það sá bezti karfi, sem landað hefur verið frá
því á vertíð. Síðan hafa íslenzkir togarar veitt þar rúmlega 6600 smál. af
karfa, sem er um 21 skipsfarmur, og í gær landaði Jón Þorláksson í annað sinn
karfa af þessum miðum. Hermann Einarsson, fiskifræðingur, kvað þessi mið vera
um 28 stunda siglingu frá Malarrifi undir Snæfellsjökli. Eru það 340- 360
sjómílur, en áður þurftu togararnir að fara minnzt 1000 sjómílur á miðin, til
Vestur-Grænlands. Er komið var á þessi mið, sagði Hermann, taldi skipstjórinn,
Ólafur Kristjánsson, að þar mundi líklegt fyrir karfa. - Var fyrst reynt á
þessum stað, en síðan haldið suður á bóginn. Urðum við þá fyrir þungum straum,
svo óhægt var að gera rannsóknir. Fórum við þá norðar, en fengum minna. Reyndum
við síðan á um 60 mílna svæði hér og þar á tveimur sólarhringum. Fundum við
beztu skilyrðin á tilteknu svæði og var þar sett bauja. - Var það þar sem við
nefndum Jónsmið. Reyndum við síðan að kynnast þessum slóðum sem bezt og fundum
við ágætan botn þar sem enginn svampgróður var í botninum, en hann er mjög til
baga veiðunum.
á miðum þessum er hlýsævi, það sama og umlykur strendur Íslands, og kemur
þaðan. Á þessum slóðum halda sömu fisktegundir sig og hér við land. Fengum við
þarna karfa, kolmunna, þorsk, upsa hlýra, steinbít, blágómu, keilu, gulllax og
flyðru. Má segja að með rannsóknum þessum hafi Bæjarútgerð Reykjavíkur hrundið
af stað ákaflega nauðsynlegum hlut, sem ætti að halda áfram. Eitt er þó mjög
bagalegt fyrir íslenzku togarana, sem veiðar stunda á þessum slóðum, og er það,
að engin kort eru til, sem að gagni mega koma af þessum stað, þar sem engar
mælingar hafa farið fram þarna sem nökkru nemur. Er því ákaflega erfitt fyrir
skipstjóranna að átta sig þarna bæði hvað straumum og ís viðvíkur. Þó bera
skýrslur það með sér að ís hefur farið minnkandi ár hvert við Austur-Grænland
síðan árið 1946. Auk þessarra rannsókna gerði Hermann Einarsson einnig nokkrar
athuganir á dýralífi á þessum slóðum, meðal annars á fæðu karfans o. s. frv.
Síðan þessi mið voru fundin, hafa 18-20 íslenzkir togarar stundað veiðar þar
með góðum árangri og eins og fyrr segir eru komin á land þaðan 6600 smálestir
af karfa.
Morgunblaðið. 15 september 1954.
B.v. Jón Þorláksson RE 204 á Nýfundnalandsmiðum. Ljósmyndari óþekktur.
Stórfelldar
veiðitilraunir og síldarleit
Ný leit að karfamiðum
samtal við fiskimálastjóra
Aldrei í sögu fiskveiðanna hér á landi hefir verið lögð meiri áherzla á fiskileit og veiðitilraunir en gert er um þessar mundir. Í síðasta mánuði fór togarinn "Harðbakur" frá Akureyri til leita að karfamiðum við Norður- og Austurland og í fyrrinótt fór togarinn Jón Þorláksson í sömu erindum á svæðið undan austurströnd Grænlands. Loks lagði svo "Ægir" upp í fyrrinótt í leiðangur til Norðurlandsins til síldarleitar og veiðitilrauna. Davíð Ólafsson fiskimálastjóri skýrði frá þessu á blaðamannafundi í gær. Eru leiðangrar þessir kostaðir af atvinnumálaráðuneytinu og að nokkru leyti af fiskimálasjóði í samráði við atvinnumálaráðuneytið en við þá eru tengdar miklar vonir af öllum, sem við útgerð fást og sjóinn stunda.
Það er ekki enn liðið ár síðan hin fengsælu karfamið, Jónsmið, út af
Angmagsalik á austurströnd Grænlands fundust, er togarinn Jón Þorláksson var
þar að veiðum. Þá var mjög tekið að ganga á karfann hér við land. Nú er
togarinn Jón Þorláksson, skipstjóri Ólafur Kristjánsson, farinn á Grænlandsmið
á ný, til að leita nýrra karfamiða, sunnan Jónsmiða. - Með togaranum er hinn
nýbakaði doktor í fiskifræði, dr. Jakob Magnússon, en hann hefir helgað sig
karfarannsóknum. Kom hann hingað til lands með þýzka rannsóknarskipinu Anton
Dohrn á dögunum, en í þeim leiðangri fór skipið á slóðir sunnan Jónsmiða til
karfarannsókna og þar er hugmyndin að dr. Jakob Magnússon stundi rannsóknir nú.
Verður togarinn 11 daga í leiðangri þessum. Það er mjög aðkallandi fyrir
togaraflota okkar að finna ný karfamið, sem eru á nálægum slóðum og því getur
þessi leiðangur markað sömu tímamót í karfaveiðum íslendinga og Jónsmið í
fyrra. Hér við land hefur karfaaflinn farið minnkandi og tekið er að ganga á
Jónsmiðakarfann nú síðustu dagana, herma síðustu fregnir. En Jón Þorláksson mun
láta íslenzku togarana fylgjast með leitinni.
í fyrrinótt lét varð- og rannsóknarskipið Ægir úr höfn hér í Reykjavík. Var
skipið nú sem síldveiðiskip á leið á vertíð, svo sem líka er raunin. Hann var
með tvo nótabáta, herpinætur og síldardekk. Með skipinu er dr. Hermann
Einarsson, en skipherra er Þórarinn Björnsson og nótabassi skipsins verður
Ingvar Pálmason. Segja má, að hlutverk Ægis á síldarmiðunum verði tvíþætt. Með
hinu fullkomna tæki sínu, asdie-tækinu, munu Ægismenn veita skipunum aðstoð við
að leita að síld, sem ekki veður, en heldur sig á viðráðanlegu dýpi. Þá munu
verða gerðar veiðitilraunir. - Þær verða þannig framkvæmdar, að er síldartorfa
kemur fram á asdictækinu, siglir léttbátur frá Ægi og staðsetur torfuna
nákvæmlega með dýptarmæli, sem er í léttbátnum. Þegar því er lokið, koma
nótabátarnir og kasta á torfuna umhverfis bátinn. Nú eru nokkrir fiskibátanna
búnir léttbyggðum asdictækjum, en nokkra æfingu mun þurfa í þvi að notfæra sér
þau í sambandi við veiðarnar. Norðmenn hafa sem kunnugt er gert svipaðar
tilraunir og Ægir mun nú gera og gáfu þær athyglisverða raun. Ef síld verður
einhver á miðunum í sumar, er það von manna að Ægir verði síldveiðiflotanum til
ómetanlegs gagns, En ekki síður verður fróðlegt að fylgjast með hinum nýju
veiðitilraunum, því hver veit nema þær leiði til þess, að hægt verði að sækja
síldina á ný fjarlægari mið, þegar reynsla og æfing er fengin í því, að fá sem
mest og bezt not af asdictækinu.
Að lokum skýrði Davíð Ólafsson fiskimálastjóri frá því að karfamiðaleitin út af
Norður- og NA-landi hefði ekki borið árangur nú, en þeim tilraunum myndi verða
haldið áfram við hentugra skilyrði. Það var togarinn Harðbakur, skipstjóri
Sæmundur Auðunsson, sem var tekinn á leigu af atvinnumálaráðuneytinu til
þessarar rannsóknarferðar í júnímánuði síðastliðinn.
Morgunblaðið. 9 júlí 1955.
B.v. Jón Þorláksson RE 204 kominn með nýtt mastur eftir 12 ára klössun skipsins sumarið 1961.
Ljósmyndari óþekktur.
Jón
Þorláksson kominn með nýtt mastur
Í gær fór togari Bæjarútgerðarinnar, Jón Þorláksson, í
reynsluferð eftir að 12 ára klössun hafði farið fram á honum og gekk skipið
prýðilega. Auk þess sem skipið var tekið alveg í gegn til grunna, var gerð á
því sú breyting að gamla mastrið var tekið af því og sett grennri og léttari
stöng aftan á skorsteininn. Mun þetta eiga að gera skipið sjóhæfara. Vélsmiðjan
Héðinn annaðist verkið, sem hófst 30. nóv. sl., en gír í aðalvélina, sem sendur
var til Englands, olli nokkrum töfum, þar sem stóð á honum. Togarinn er nú að
fara á veiðar á heimamiðum. Togarinn Hallveig Fróðadóttir, eign
Bæjarútgerðarinnar, er nú að fara í samskonar klössun og Jón Þorláksson, og mun
Vélsmiðjan Héðinn einnig sjá um hana.
Morgunblaðið. 3 september 1961.
B.v. Bylgjan RE 145. Verið er að breyta togaranum til veiða á loðnu. (C) Vísir.
Gamall
togari fær nýtt hlutverk
Ef allt fer að óskum verða þeir félagar í Sjótaki hf. búnir
að koma sér upp 600 lesta loðnuskipi um næstu áramót og það fyrir sama verð og
17 tonna fiskibátur kostar nýr. Sjótak hf. keypti togarann Jón Þorláksson
nýlega af Bæjarútgerð Reykjavíkur fyrir 10 milljónir. Ætlunin er að breyta
togaranum síðan þannig að hann verði nokkurs konar skuttogari, og síðan á að
veiða loðnuna og kolmunna í flotvörpu og spærling í venjulega botnvörpu. "Við
horfum mjög björtum augum til kolmunnaveiðanna, en kolmunni er eins og allir
vita í miklu magni í sjónum við Ísland, " sagði Guðbjartur Einarsson
vélstjóri, aðaleigandi Sjótaks í viðtali við Vísi. "Eftir loðnuvertíðina er
ætlunin að halda á miðin við Skotland og Írland og veiða þar kolmunna. Norðmenn
hafa mikið rannsakað þessa fisktegund og ætla sér að nýta hana til
manneldis," sagði Guðbjartur ennfremur. Hann sagði okkur ennfremur, að
engin vandkvæði væru á því að veiða loðnuna í flotvörpu.
Á siðustu vertið hefðu til dæmis bæði Eldborgin og Úranus veitt loðnu, og
líklega yrðu um það bil 20 skip með flotvörpu á loðnu í vetur. Ýmsum finnst
vafalaust nokkuð vafasamt að leggja í mikinn kostnað við 25 ára gamalt skip
eins og Jón Þorláksson en honum hefur alla tíð verið haldið mjög vel við og mun
að sögn Guðbjarts Einarssonar vera í góðu ásigkomulagi. Áætlar hann að skipið
geti orðið tilbúið á veiðar fyrir um það bil 18 milljónir króna. Er því
auðsæilega til mikils að vinna, ef vel tekst til, því til dæmis má taka að þau
10 loðnuskip frá Noregi, sem rikisstjórnin veitti rikisábyrgð á nýlega, kosta
vafalaust ekki minna en hátt á annað hundrað milljónir króna. Eru þau þó ekki
mikið stærri en togarinn Jón Þorláksson.
Vísir. 27 október 1973.
Gúmmíbjörgunarbátar Bylgjunnar RE 145 um borð í Þórunni Sveinsdóttur VE 401 í Vestmannaeyjahöfn.
(C) Morgunblaðið.
Togarinn
Bylgjan sökk
Togarinn Bylgja frá Reykjavík, sem verið hefur á loðnuveiðum
að undanförnu, sökk skammt austur af Hjörleifshöfða í gærkvöldi. Þegar
Morgunblaðið fór í prentun var vitað að flestir skipverjar voru komnir úr
gúmbjörgunarbátum um borð í Þórunni Sveinsdóttur frá Vestmannaeyjum og var
Þórunn væntanleg til Eyja milli kl. 3 og 4 í nótt. Helga RE, Héðinn ÞH og
fleiri bátar voru þá komnir á staðinn þar sem Bylgjan fórst. Bylgjan var í eigu
útgerðarfyrirtækisins Sjótak, en áður hét togarinn Jón Þorláksson og var í eigu
Bæjarútgerðar Reykjavíkur til ársins 1973.
Bylgjan tilkynnti um vandræði í talstöðina kl. 20.15 í gærkvöldi og heyrði
Vestmannaeyjaradíó kallið. Bað Bylgjan þá um aðstoð og hafði Helga RE strax
samband við skipið og einnig Þórunn Sveinsdóttir og fleiri skip. Var þá komin
slagsíða á Bylgjuna. Togarinn, sem var 550 lestir að stærð var smíðaður í Goole
í Bretlandi árið 1948. Hann var með 450 tonn af loðnu um borð þegar hann sökk.
Helga hélt þegar til togarans, en hún var þá út af Skarðsfjöruvita, um tveggja
tíma stím að togaranum, sem var rétt út af Alviðruhömrum austur af
Hjörleifshöfða. Bátarnir voru síðan stanzlaust í sambandi við Bylgjuna þar til
síðast heyrðist frá henni kl. 21,35 er skipstjórinn tilkynnti að kominn væru 45
gráðu halli á skipið og þeir væru að fara í björgunarbátana. Þegar síðast
fréttist var vitað að flestir skipverja voru komnir um borð í Þórunni, en ekki
náðist talsamband við bátinn þar sem einn af sendum Vestmannaeyjaradíós er
bilaður. Skipverjarnir af Bylgjunni voru a.m.k. í tveimur gúmbjörgunarbátum. 6
vindstig af austnorðaustri voru á þessum slóðum í gærkvöldi, hægur sjór, en
gekk á með byljum. Tólf voru á skipinu.
Morgunblaðið. 15 febrúar 1974.
Skipverjarnir 11 sem björguðust af Bylgjunni komnir til Vestmannaeyja. (C) Morgunblaðið.
Einn fórst
með Bylgjunni
Enn maður, Salomon Loftsson vélstjóri, Hraunbæ 44,
drukknaði, er loðnutogarinn Bylgjan fórst út af Alviðruhömrum í fyrrakvöld.
Skipbrotsmennirnir fóru í þrjá gúmbjörgunarbáta, en ekki er vitað, hvernig stóð
á því, að Salomon komst ekki í björgunarbát. Mikill sjór var á þessum slóðum,
þegar slysið varð, en eftir að Bylgjan hafði hallað mjög á annað borðið í
tæplega eina og hálfa klukkustund, fór hún skyndilega á hliðina og sökk eins og
steinn í djúpið. Síðast sási til Salomons heitins um borð, er hann hafði komið
syni sínum, 22 ára gömlum, um borð í gúmbát, en sagðist sjálfur ætla að fara í
annan bát. Lík hans fannst síðan á reki í björgunarvesti og var það tekið um
borð í Helgu RE, sem flutti það til Vestmannaeyja.
Þórunn Sveinsdóttir frá Vestmannaeyjum bjargaði hinum skipverjunum 11 úr þremur
gúmgjörgunarbátum. Skipstjóri á Þórunni er Sigurjón Óskarsson. Í einum bátnum
var einn maður, öðrum þrír og sjö í þeim þriðja. Bylgjan var á leið til
Vopnafjarðar með 450 lestir af loðnu. Ekki er vitað, hvað olli skipskaðanum, en
talið er ólíklegt, að loðnan hafi kastazt til. Skipstjóri á Bylgjunni var
Sverrir Erlendsson. Skipverjar báðu Morgunblaðið fyrir kveðjur og þakkir til
skipverja þeirra báta, sem aðstoðuðu við björgunina. Sjópróf verða í málinu
næstu daga. Eigandi Bylgjunnar var Sjótak í Reykjavik. Salomon Loftsson var 59
ára gamall. Hann lætur eftir sig konu og 5 börn, yngst 4 ára.
Morgunblaðið. 16 febrúar 1974.
06.08.2021 10:31
766. Skírnir ÍS 410.
Mótorbáturinn Skírnir ÍS 410 var smíðaður af Bárði Tómassyni
á Ísafirði árið 1917 fyrir Jón Grímsson kaupmann og Sigurð Hallbjörnsson
skipstjóra á Suðureyri við Súgandafjörð. Fura. 21,41 brl. 28 ha. Avance vél.
Kjölur bátsins var lagður árið 1916, og smíði hans fór fram undir beru lofti
sundamegin á Ísafjarðartanga, innantil
við skipadokku verslunar Árna Jónssonar á Ísafirði. Skírnir var smíðaður að
nokkru eftir módeli af Samson, sem strandaði utanvert við Suðureyri vorið 1915.
Bárður smíðaði bátinn og réði gerð hans í samráði við Sigurð Hallbjörnsson
eigenda hans. Skírnir var tvímastraður, með hekk og rúnnað stefni við sjólínu,
grænn á lit með hvíta rönd í efsta borði. Seldur 1924-25, Magnúsi Jónssyni og
Valdimar Guðmundssyni á Flateyri. Seldur stuttu síðar, Finni Guðmundssyni frá
Görðum í Önundarfirði. Seldur 1926, Haraldi Böðvarssyni útgerðarmanni á
Akranesi. Ný vél (1926) 50 ha. Tuxham vél. Frá 26 nóvember 1927 er Haraldur
Böðvarsson & Co í Sandgerði eigandi bátsins. Frá 1929 ber Skírnir
skráningarnúmerið GK 515. Ný vél (1936) 64 ha. Tuxham vél. Ný vél (1939) 90 ha.
June Munktell vél. Frá árinu 1942 er báturinn skráður Skírnis MB 94 og eigandi
er Haraldur Böðvarsson & Co á Akranesi. Frá árinu 1946 er hann skráður AK
94. Seldur 20 desember 1948, Sigurgeir Guðjónssyni og Guðjóni Sigurgeirssyni í
Grindavík, hét þá Skírnir GK 79. Seldur 16 maí 1955, Guðmundi Guðmundssyni og
fl. Miðneshreppi. Talinn ónýtur vegna þurrafúa og tekinn af skrá árið 1966.
Skírnir endaði á þrettándabrennu í Keflavík hinn 6 janúar árið 1968.
Skírnir ÍS 410 var einnig sagður vera 28 brl í þessari heimild Páls, en
líklegra er að hann hafi verið eitthvað minni, eins og segir hér að ofan, 21,41
brúttólest.
Heimild: Flotið á fleyjum tólf.
Páll Hallbjörnsson. Ægisútgáfan 1969.
Skírnir ÍS 410. Málverk Jóhanns Pálssonar.
Aflabrögð
1929
Sumir mótorbátar hafa aflað með afbrigðum vel og eftir því,
sem "Ægir" hefir frjett, hefir einn þeirra sett met. Er það mótorbáturinn
"Skírnir" frá Sandgerði G. K. 515, nú eign Haralds Böðvarssonar kaupmans á
Akranesi; áður Í. S. 410, eign Finns Guðmundssonar á Önundarfirði. Formaður
"Skírnis" nú, er Eyjólfur Jónsson að Bræðraborg á Akranesi. Afli hans var
frá ársbyrjun til 20. maí, 988 skippund af fullstöðnum fiski og hlutur hvers
háseta 3168 krónur. Við bátinn unnu 11 menn, 5 á sjó og 6 á landi. Þessi bátur
hjelt til í Sandgerði; hann er 21 smálest að stærð.
Ægir. 8 tbl. 1 ágúst 1929.
Skírnir GK 515. Ljósmyndari óþekktur. Úr safni Haralds Sturlaugssonar.
Skírnir GK 79 brotinn niður á þrettándabrennu í Keflavík 1968. (C) Sveinn Þormóðsson.
"Og
skipin koma og skipin
blása og skipin fara sinn veg"
Nokkur orð
um gamalt skip,
sem brennt verður í kvöld
"Hér heilsast fánar framandi þjóða.
Hér mæla stkipin sér mót,
sævarins fákar, seim sæina klufu,
og sigruðu úthafsins rót.
Og höfnin tekur þeim opnum
örmum,
og örugg vísar þeim leið.
Því skip er gestur á hverri höfn.
þess heimkynni djúpin breið.
Svo mælir Tómas Guðmundsson í einu kvæða sinna úr "Fögru veröld". Ekkert
tæki sem mannshöndin stjórnar er eins lifandi og skipið, skipið, sem hefur
öslað gegn ólgandi hafi, liðið um sléttan sæ álfabreiða og hlaðizt gulli lands
okkar. Þeir sem ganga um bryggjurnar og horfa á skipin bundin við kengi sjá, að
þau toga stöðugt í og vilja hreyfingu og þau toga ósjálfrátt í manninn sem
horfir á og koma honum á hreyfingu einnig, hvort sem það er af gleði eða ótta.
Skip njóta styrkra handa sjómanna í hversdagsbaráttunni og hver hlutur um borð
á sína sögu og sál, því skipið er flókin keðja tryggra hlekkja, stýrishjól,
kjölur, ankeri, kaðlar, kinnungur, stefni, landþernur o.fl. o.fl., sem
mannshöndin hefur handleikið. Þessar línur eru hripaðar í tilefni þess að í
kvöld verður bálför gamals skips íslenzku þjóðarinnar, skips, sem færði björg í
bú og átti giftu heppninnar. Skipið kemur ekki oftar sem gestur til
hafnarinnar, eða heim til sín á miðin, það verður bálköstur á þrettándagleði og
álfadansi í Keflavík í kvöld, það mun brenna eins og skip víkinganna forðum.
Vélbáturinn Skírnir var keyptur til Akraness frá Flateyri af Haraldi
Böðvarssyni árið 1926. Þá var sett ný vél í fleytuna, sem var 28 tonn að stærð
og aflakóngurinn Eyjólfur Jónsson á Akrnesi var ráðinn skipstjóri á bátinn.
Aðra vertíðina sem Eyjólfur var með bátinn setti hann aflamet og fiskaði 200 skippund. Skírnir reyndist mesti happabátur og
var lengi í eigu Haraldar Böðvarssonar og Co og var með betri bátum þess
fyrirtækis. Skírnir var síðar seldur til Grindavíkur og var stöðugt í notkun
þar til að yfir lauk og þurrafúi og fleiri bátakvillar heltóku skrokkinn. En
Skírnir er ekki úr sögunni því að Haraldur Bövarsson og Co á nýjan Skírnir
AK-12 úr stáli, 150 tonna skip, sem var byggt 1960 og hefur einnig reynzt
happaskip, Tómas heldur áfram í einu ljóða sinna og segir: "Og skipin koma og
skipin blása og skipin fara sinn veg."
Morgunblaðið. 6 janúar 1968.
Grein Árna Johnsen.
05.08.2021 21:46
B.v. Gulltoppur RE 247. LBDF / TFGD.
Botnvörpungurinn Gulltoppur RE
247 var smíðaður hjá Kaldnes Mekaniks Verksted í Tönsberg í Noregi árið 1928,
405 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 50. Eigandi var h/f Sleipnir í
Reykjavík frá 17 október 1928. Kom fyrst til landsins hinn 22 október sama ár.
Skipið var selt 3 maí 1932, h/f Kveldúlfi í Reykjavík. Skipið var selt 26 ágúst
1944, Fiskiveiðahlutafélaginu Hængi á Bíldudal, skipið hét Forseti RE 10. Selt
30 mars árið 1950, Forseta h/f í Reykjavík, sama nafn og númer. Togarinn var
seldur p/f Drangi í Saurvogi í Færeyjum árið 1955, hét þar Tindhólmur VA 115.
Skipið var endurbyggt árið 1957. Togarinn var seldur í brotajárn árið 1966.
Gulltoppur var smíðaður á sama tíma og systurskipið Snorri goði RE 141 á árinu
1921 en lá hálfkaraður til ársins 1928 að skipið var dregið til Kinghorn í
Skotlandi, þar sem sett var í skipið vél og það klárað fyrir h/f Sleipni.
B.v. Gulltoppur RE 247 á siglingu. (C) Guðbjartur Ásgeirsson. Lituð ljósmynd á póstkorti í minni eigu.
Nýr
botnvörpungur
Gulltoppur, hinn nýi togari sem Sleipnisfjelagið hefir
keypt, lagði á stað frá Leith á sunnudag og er væntanlegur hingað á morgun.
Hann er af sömu gerð og stærð og "Snorri goði."
Morgunblaðið. 21 október 1928.
02.08.2021 19:52
B.v. Skallagrímur RE 145. LBMH.
Botnvörpungurinn Skallagrímur RE 145
var smíðaður hjá Dundee Shipbuilders & Co Ltd í Dundee í Skotlandi árið
1905. 258 brl. gufuvél, stærð ókunn, (400 ha. ?). Hét áður Gloria. h/f
Kveldúlfur í Reykjavík kaupir togarann í ársbyrjun 1912 og kom hann til
landsins hinn 17 janúar sama ár. Það óhapp vildi til þann 7 október árið 1916
að togarinn sökk í Reykjavíkurhöfn. Tók það rúman mánuð að ná Skallagrími upp
og langan tíma tók að gera skipið sjófært á ný. Togarinn var seldur til Grimsby
árið 1920.
B.v. Skallagrímur RE 145 á ytri höfninni í Reykjavík. (C) Magnús Ólafsson. Mynd á póstkorti.
h.f.
"Kveldúlfur"
"Kveldúlfur« heitir nýtt botnvörpufjelag og er formaður þess
Richard Jensen. Hann var nú erlendis að útvega fyrsta skipið og kom í nótt á
því hingað. Skipið á að heita "Skallagrímur". Mun það ætlan fjelagsins, að
yngja upp ætt Mýramanna í botnvörpungum. Kemur þá Egill Skallagrímsson næst og
svo koll af kolli. Verður það álitlegur floti, þegar karlleggur þessi er á enda
rakin og rekur þá lestina Þorsteinn böllóttur Snorrason, er ábóti var á
Helgafelli um 1350, en hann vitum vjer seinastan afkomanda Skallagríms í beinan
karllegg.
Vísir. 17 janúar 1912.
01.08.2021 22:29
B.v. Þorkell máni RE 205 á vatnslitamynd.
Þessi vatnslitamynd
Halldórs Péturssonar teiknara og málara, kom óvænt upp í hendurnar á mér nýlega
sem ég tel vera af Bæjarútgerðartogaranum Þorkeli mána RE 205.
Nýsköpunarstjórnin svokallaða undir foristu Ólafs Thors forsætisráðherra, samdi
við skipasmíðastöðvar í Englandi og Skotlandi um smíði á 32 togurum árið 1945.
Árið eftir, 1946, samdi ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar (Stefanía) um
smíði á 10 togurum til viðbótar. Voru þeir jafnframt kallaðir Stefaníuskipin og
voru þau smíðuð flest í Skotlandi.
Nýsköpunartogarinn Þorkell máni RE 205 var smíðaður hjá Goole Shipbuilding &
Repairing Co Ltd í Goole á Englandi árið 1951 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur hf.
722 brl. 1.332 ha. Ruston vél. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur
hinn 23 janúar árið 1952. Þorkell máni þótti framúrstefnulegur og um margt
öðruvísi en hinir Nýsköpunartogararnir. Í honum var lítið "frystihús"
sem var staðsett b.b. megin frá hvalbak aftur að vanti sem var yfirbyggt og þar
voru frystitæki staðsett sem gátu fryst um 2,5 tonn af fiskflökum á sólarhring.
Seinna var þessu svo breitt þannig að togarinn gat haft 2 troll undirslegin.
Þorkell máni var hætt komin á Nýfundnalandsmiðum í febrúar 1959. Gífurleg ísing
hlóðst á skipið í þessum hamförum. Það þótti kraftaverki líkast að skipið
héldist ofansjávar í þessum hildarleik þar sem áhöfnin stóð sólarhringum saman
hvíldarlaust við íshögg og annan barning til að halda lífi. En til hafnar
komust þeir eftir þetta þrekvirki í fylgd togarans Marz RE 261, sem einnig
lenti í mikilli ísingu. Margir íslenskir togarar voru á Nýfundnalandsmiðum í
veðri þessu, má nefna Norðfjarðartogarann Gerpi NK 106 sem fékk á sig brot
suðaustur af Hvarfi á Grænlandi, en hann ætlaði að koma Grænlandsfarinu Hans
Hedtoft til hjálpar sem hvarf með manni og mús 30 janúar 1959 við Grænland.
Harðbakur frá Akureyri lenti í miklum hildarleik. Þegar upp var staðið vantaði
Hafnarfjarðartogarann Júlí GK 21, en hann fórst með allri áhöfn, 30 ungum
sjómönnum, eitt hræðilegasta sjóslys aldarinnar sem leið. Togarinn var seldur
til Skotlands í brotajárn og tekinn af skrá 10 október árið 1973.
Bæjarútgerðartogarinn Þorkell máni RE 205 á leið til hafnar í Reykjavík. (C) Halldór Pétursson.
B.v. Þorkell máni RE 205 á siglingu á sundunum við Reykjavík. Ljósmyndari óþekktur.
"Þorkell
máni" stærsti togari flotans
kom í gærkvöldi
Um miðnætti í nótt kom hingað til Reykjavíkur hinn nýi
togari Bæjarútgerðar Reykjavíkur, Þorkell máni, sem er stærsti togari
Íslendinga. Togarinn er hinn 9. í röðinni af þeim 10, er verið hafa í smíðum í
Bretlandi undanfarin ár. Þorkell máni er dieseltogari. Hann er hálfu feti
breiðari og hálfu öðru feti lengri en stærstu eimknúðu togararnir, og ber um
300 tonn af ísvörðum fiski. Að ytra útliti er hann allfrábrugðinn hinum
nýsköpunartogurunum.
Í togaranum er fiskimjölsverksmiðja og hraðfrystitæki. Hægt er að vinna úr 20
tonnum af fiskúrgangi og beinum í verksmiðjunni og í hraðfrystirúminu má
framleiða 2,5 tonn af frystum flökum á dag. Á fiskveiðum verður 30 manna áhöfn
á togaranum, en séu saltfiskveiðar stundaðar og fiskmjölsvinnslan og hraðfrystingin
starfrækt, verður 48 manna áhöfn á þessum stærsta togara íslendinga. Hannes
Pálsson er skipstjóri, Hergeir Elíasson 1. Stýrimaður og Sigurjón Þórðarson 1
vélstjóri.
Morgunblaðið. 24 janúar 1952.
- 1