Færslur: 2018 Janúar

31.01.2018 19:59

Síldveiðiskipið Kristján EA 390 á málverki.

Ég rakst á þetta fallega málverk af Kristjáni EA 390 um daginn. Listamaðurinn heitir Doddi og hann hefur málað þessa mynd árið 1981, eða fyrir liðlega 37 árum síðan. Gott væri að vita meiri deili á Dodda, en kannski veit einhver hver hann er. Ég var búinn að fjalla um Síldveiðiskipið Kristján EA 390 frá Akureyri 5 október s.l. Læt þær upplýsingar fljóta með hér að neðan.


Síldveiðiskipið Kristján EA 390.                                                            Málverk eftir Dodda 1981.


Kristján EA 390 á síldveiðum.                                                                 (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

        Síldveiðiskipið Kristján EA 390

Kristján EA 390 var smíðaður í Noregi (Stavanger ?) árið 1919. Eik og fura. 67 brl. 80 ha. June Munktell vél. Eigandi var Guðmundur Pétursson útgerðarmaður á Akureyri frá 2 október 1923. Skipið var lengt á Akureyri árið 1937, einnig var sett ný vél, 150 ha. Völund vél. Selt 25 apríl 1952, Sameignarfélaginu Kristjáni á Ólafsfirði, hét Kristján ÓF 26. Ný vél (1953) 330 ha. Gray GM díesel vél. Selt 6 desember 1961, Niðursuðu og hraðfrystihúsi Langeyrar í Súðavíkurhreppi, hét þá Kristján ÍS 125. Skipið rak á land við Langeyri 20 janúar árið 1964 og eyðilagðist.

28.01.2018 09:28

Hera RE 167.

Vélskipið Hera RE 167 var smíðuð af Magnúsi Guðmundssyni í Bátasmíðastöð Reykjavíkur (Völundi) árið 1913. Eik og fura. 19 brl. 38 ha. Vél, tegund óþekkt. Eigandi var Garðar Gíslason stórkaupmaður í Reykjavík frá 17 október sama ár. Seld 11 desember 1916, Lofti Loftssyni og Sigurði Oddssyni, sennilega í Sandgerði. Báturinn var seldur árið 1919-20, Þórði Ásmundssyni á Akranesi. Árið 1921 heitir báturinn  Hera MB 107. Fórst í Faxaflóa 11 febrúar árið 1922 með allri áhöfn, 6 mönnum.
Mennirnir sem fórust með Heru voru:
Guðmundur Erlendsson formaður, Heimaskaga á Akranesi. 31 árs.
Valdimar Jónsson vélamaður, Hákoti á Akranesi. 30 ára.
Valgeir Júlíus Guðmundsson háseti, Akranesi. 20 ára.
Jón Jónsson háseti, Akranesi. 20 ára.
Jón Oddsson háseti, Steinsstöðum. 52 ára.
Magnús Kristjánsson háseti, Bíldudal. 17 ára.


Hera RE 167 sjósett 17 október 1913 með hvítbláann í skut.              (C) Magnús Ólafsson.


          Bátasmíðastöð Reykjavíkur

Árið 1906 eða 1907 gekk Bjarni Þorkelsson til samstarfs við trésmiði í Völundi og stofnuðu Bátasmíðastöð Reykjavíkur sem hafði aðsetur á Völundarlóðinni ( á horni Klapparstígs og Skúlagötu) Þar voru fjölmargir bátar smíðaðir og sumarið 1913 var ráðist í það stórvirki að smíða 19 smálesta mótorbát með 38 hestafla vél fyrir Garðar Gíslason stórkaupmann. Var það mesta stórvirki í vélskipasmíðum til þess tíma. Magnús Guðmundsson var yfirsmiður en Othar Ellingsen forstjóri Slippfélagsins, hafði umsjón með verkinu.

Saga Reykjavíkur. 1870-1940. Guðjón Friðriksson 1991.


             Vélskipið Hera RE 167

Hera, hið nýja  vélarskip, sem Garðar kaupmaður Gíslason lét smíða í vetur, fór fyrstu för sína til Hafnarfjarðar í gær. Var margt manna með, og kemur nákvæm ferðasaga á morgun.

Morgunblaðið. 1 apríl 1914.


Teikning af bát smíðuðum af Magnúsi Guðmundssyni í Bátasmíðastöð Reykjavíkur.


             Með Heru til Hafnarfjarðar

Í fyrradag voru margir Reykvíkingar, 20-30 talsins boðnir að skoða hið nýja vélskip Garðars Gíslasonar kaupmanns, Heru, og fara með þvi fyrstu ferðina, sem heitið var til Hafnarfjarðar. Veður var hið glæsilegasta, skínandi sólskin og blæjalogn. Flestir blaðamenn bæjarins, ýmsir kaupmenn, smiðir skipsins o. fl. voru meðal farþega. Hera tók farþegana á bæjarbryggjunni og lét síðan í haf fánum skreytt »frá hvirfli til ilja«. Þótti öllum skipið hið fegursta og til þess vandað í hvívetna. Gekk ferðin hið bezta út undir Gróttu, en þá kom í ljós, að lítilsháttar aukastykki í vélinni var bilað, hefir liklega brotnað af því að skipið rakst á grunn upp við bæjarbryggju. Varð því að stöðva hana um hríð, meðan að var gert. En ekki margt að því fyrir farþega að sitja á skipsfjöl í slíku veðri eins og í fannhvítum fjallasal, því að sól skein á tinda allra Faxaflóafjalla, hin dýrlegasta sjón.
Meðan beðið var, skemmtu menn sér við söng og samræður. Síðan var haldið með fullum hraða til Hafnarfjarðar, stigið þar í land og notið hressingar í Hótel Hafnarfjörður. Flutti Garðar kaupmaður þar ræðu, sagði frá tilgangi sínum með því að ráðast í að láta smíða Heru, taldi slík smáskip hina hentugustu flóabáta. Var síðan drukkin velfarnaðarskál Heru og eiganda hennar og Garðari fluttar samfagnaðarræður. Um kvöldið var svo haldið til Reykjavíkur, en fyrir innan Gróttu kom það í ljós að vélin hafði hitnað um of og varð að kæla hana, svo af varð dráttur nokkur. Vélin í Heru er hin eina þeirrar tegundar hér. Nú er tilætlun Garðars að fá Jessen vélfræðing, kennara Stýrimannaskólans, til þess að skoða hana grandgæfilega og kenna síðan meðferðina á henni ítarlega, svo að eigi geti bilanir neinar átt sér stað. Til stendur, að Hera verði á Breiðafirði í sumar til vöru- og mannflutninga.
Er Sæmundur kaupmaður Halldórsson frá Stykkishólmi staddur hér nú til þess að gera samninga um leigu á henni. Vér óskum eiganda Heru góðs gengis henni til handa. Framkvæmdasemi hans í þessu efni, ætti að bera góðan ávöxt.
»Hera« var smíðuð hér í skipasmíðastöð Völundar í sumar og haust. Var hún 7 mánuði í smiðum og var Magnús Guðmundsson yfirsmiður en Othar Ellingsen forstjóri umsjónarmaður verksins. Skipið ,er 52,6 fet á lengd, 12,4 á breidd og ber 19 smálestir. Í því er 38 hestafla hreyfivél og á það að geta farið 7-8 mílur á vöku. Það hljóp af stokkunum þann 17. okt. s. l. og hefir legið hér á höfninni síðan.

Morgunblaðið. 2 apríl 1914.


Hera RE 167 á Reykjavíkurhöfn árið 1919.                         (C) Magnús Ólafsson.

                     Hörmulegt manntjón

 14 eða 15 menn farast í laugardagsveðrinu

Ofviðrið á laugardaginn var hefir því miður haft sorglegar afleiðingar í för með sjer. 11 febrúar er langmesti mannskaðadagurinn á þessu ári, eða þeim stutta tíma, sem af því er liðinn og verður vonandi eigi annar dagur sorglegri á árinu. Tveir mótorbátar hafa að öllum líkindum farist, er fullvíst um annan, og því miður örlitlar vonir um hinn. Auk þess hefir menn tekið út af tveimur eða, þremur bátum öðrum. Á laugardagsmorguninn, snemma var besta veður í Sandgerði en útlit eigi sem best. Ganga þaðan um 25 mótorbátar, eigi aðeins frá Sandgerði heldur einnig frá öðrum veiðistöðvum og munu þeir flestir eða allir hafa farið í róður kl. 4-6 um morgnninn. Fara bátarnir um það bil tveggja tíma leið á miðin. Undir klukkan átta versnaði veðrið nokkuð og hvesti á landsunnan og sneru sumir bátarnir þá þegar við. Hjá einum bátnum bilaði vjelin um morguninn og sneri hann því til lands.
Aðeins þessi bátur og tveir aðrir náðu lendingu í Sandgerði, sá seinasti um kl. 10 um morguninn, en þá var komið ofsarok á útsunnan, svo að fleiri bátar náðu ekki lendingu í Sandgerði. Urðu þeir að leita lendingar í Njarðvík, Keflavík og 5 komust alla leið hingað til Reykjavíkur. Allir bátarnir nema tveir náðu lendingu og þessir bátar voru "Njáll" frá Sandgerði og "Hera" frá Akranesi.
Að því er vjer höfum heyrt, höfðu skipverjar á mótorbátnum "Björg" sjeð "Njál" farast nálægt miðjum degi á laugardaginn. Kom feikimikill sjór á bátinn og sökti honum. Á bát þessum voru fimm menn og hafa þeir allir farist. Formaðurinn var Kristjón Pálsson, ættaður úr Ólafsvík, en nú heimilisfastur hjer. Lætur hann eftir sig ekkju og tvö börn, hið síðara vikugamalt. Kristjón var talinn einn allra duglegasti formaðurinn, sem sjó hefir stundað í Sandgerði. Auk hans druknuðu þessir menn á ,,Njáli" : Skarphjeðinn Pálsson úr Ólafsvík, bróðir formannsins, Snorri Magnússon vjelstjóri, heimilisfastur hjer. einhleypur maður, Ingimar Jónsson og Ólafur Sigurðsson báðir einhleypir menn af Miðnesinu. Allir voru þessir menn ungir og miklir dugnaðarmenn.
Nöfn skipverjanna á "Heru" höfum vjer eigi frjett annara en formannsins, sem hjet Guðmundur Erlendsson. Munu 6 eða 7 menn hafa verið á því skipi. Þá missti m.k. "Ása" úr Hafnarfirði tvo menn og "Gunnar Hámundarson einn. Um aðra mannskaða höfum vjer ekki sannfrjett.

Lögrétta. 17 febrúar 1922.


27.01.2018 05:49

B. v. Seagull RE 100. LBJM.

Botnvörpungurinn Seagull RE 100 var smíðaður hjá J. R. Oswald & Co í Milford Haven í Wales í Bretlandi árið 1894. 146 brl. 94 ha. 3 þennslu gufuvél, smíðuð hjá Ross & Duncan í Glasgow í Skotlandi 1874. Smíðanúmer 267. Hét fyrst Seagull M 4 og var gerður út frá Milford. Kom togarinn til landsins 10 júní árið 1905 (3 mánuðum á eftir Coot). Eigendur hans voru kaupmennirnir Benedikt Stefánsson og Eyjólfur Ófeigsson, Bjarnhéðinn Jónsson járnsmiður og Guðmundur Einarsson steinsmiður. Enginn þessara manna hafði komið að útgerð áður, hvað þá að gera út botnvörpung. Seldur Þorvaldi Björnssyni í Reykjavík árið 1906. Seldur í maí 1907 Pétri Jónssyni í Reykjavík. Seldur í september 1907, Bárði Kristjáni Guðmundssyni í Reykjavík. Togarinn slitnaði upp og strandaði í Vestmannaeyjum haustið 1907. Náðist út af strandstað og var dreginn til Reykjavíkur. Var rifinn í fjöru í Hafnarfirði nokkrum árum síðar. 
Ég var búinn að setja inn innlegg um Seagull 5 október 2015 en það var ekki rétt mynd af honum þá, heldur af frönskum togara sem lá við stjóra í Vestmannaeyjahöfn. Seagull gæti hafa haft skráningarnúmerið M 112 í Milford, en eftir myndinni hér að neðan er ekki betur séð en að það hafi verið M 4. Skipið hér fremst á myndinni ber nafnið Seagull og þá ætti gamli "fjósarauður" að vera kominn í leitirnar.

Botnvörpungurinn Seagull M 4 sem síðar varð RE 100 og kallaður manna í milli "fjósarauður" til háðungar eiganda sínum, Þorvaldi Björnssyni óðalsbónda á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum. Þeir eru þarna 4 togararnir, allir eins og voru smíðaðir í Milford.       (C) Robert Kettle.

               Botnvörpungurinn Seagull

Í fyrsta tölublaði Ægis, í júlí 1905, er sagt frá komu Seagulls og henni fagnað. Segir þar m.a.:

"Heyrst hefir að margir hér í Reykjavík og nágrenninu hefðu í hyggju að selja þilskip sín ef kostur er og kaupa aftur botnvörpuskip,og sýnir þetta virðingarverðan áhuga fyrir að fylgja með tímanum í fiskiveiðamálunum."


Ægir. 1 júlí 1905.



Þorvaldur Björnsson óðalsbóndi.Fæddur í Stóra-Dal undir Eyjafjöllum 18. október 1833, dáinn 30. nóvember 1922. Bóndi í Núpakoti undir Eyjafjöllum 1863-1886, í Svaðbæli 1886-1905, vann þar mjög að jarðabótum, hýsti stórmannlega og nefndi býlið Þorvaldseyri. Dvaldist í Reykjavík 1905-1909 og átti þá talsverðan þátt í togaraútgerð. Fluttist síðan aftur að Núpakoti og var þar til æviloka. Alþingismaður Rangæinga 1886-1891.
                                                                                              Innlendur botnvörpungur sektaður

Botnvörpungurinn Seagull, er keyptur var hingað í vor sem leið frá Englandi af nokkrum Reykvíkingum í félagi (þorvaldi fyrrum óðalsbónda á þorvaldseyri Bjarnarsyni, Guðmundi Einarssyni steinsmið, og 3-4 öðrum) og haldið var út í sumar við botnvörpuveiðar, varð uppvís að því, að hafa brotið landbelgislögin hér suður í Garðsjó og hlaut fyrir það hér í fyrradag, 1.100 kr. sekt, auk málskostnaðar og aflamissis og veiðarfæra, sem var allt gert upptækt. Málskostnaður mun hafa verið töluverður, með því að sýslumaðurinn í Kjósar- og Gullbringusýslu varð að hafa töluvert fyrir að fá brotið sannað, ferðalög og annað. Skipstjórinn, Árni Eyjólfsson (Byron) var ekki betri en hinir útlendu sökudólgar með það, að hann þrætti fyrir brotið, eins og þeir, meðan hann gat. Skipið kvað hafa aflað illa í sumar og skaði því mikill á útgerðinni.

Ísafold. 28 október 1905.

                               Skipsstrand.

Frá Seyðisfirði er símað nýlega "Seagull" slitnaði upp á höfninni í Vestmanneyjum 8. desember og rak í land, bilaði svo, að er ósjófær. Ábyrgðin var í ólagi. Viðlagasjóður hafði lánað út á hann 15,000 kr. Búist er við, að björgunarskip geti náð honum út "Seagull" var botnvörpuskip, fyrrum eign Þorvalds Björnssonar frá Þorvaldseyri en nú sameign allmargra manna hér í bæ og haft til flutninga fyrir Edinborgar verzlun.

Ingólfur. 7 janúar 1908.

                       "Útgerð" Seagull

Útgerð Seagulls gekk alla tíð á afturfótunum. Fljótlega eftir að skipið kom til Reykjavíkur, var því haldið til veiða undir stjórn Árna Eyjólfssonar, en afli var lítill sem enginn. 
Sá maður,sem kunnastur er af útgerð Seagulls, er Þorvaldur Björnsson óðalsbóndi, ýmist kendur við Núpakot eða Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum. Hann var kominn yfir sjötugt er hann lenti í hinu misheppnaða Seagullsævintýri. Honum hafði græðst fé á búskap og var hann í tölu kunnari bænda á Suðurlandi. Þorvaldur fluttist til Reykjavíkur árið 1905 og mun þá fljótlega hafa komist inn í félagsskapinn um Seagull. Fullkominn eigandi Seagulls er hann ekki talinn fyrr en frá 1 desember 1906. Átti hann togarann einn til 28 maí 1907, en þá var hann gjaldþrota á fyrirtækinu. Togarinn var stundum nefndur manna í milli "Fjósarauður"Þorvaldi til háðungar og einnig vegna litarins, en hann var rauðbrúnn. Síðast var hann notaður til flutninga, allt þar til hann slitnaði upp,rak á land og skemmdist við Vestmannaeyjar í desember árið 1907. Hinn 9 júlí 1908 var auglýst nauðungaruppboð á botnvörpuveiðiskipinu Seagull og skyldi það fara fram hinn 13 sama mánaðar "við skipið, þar sem það nú stendur uppi í fjörunni hjer (þ.e. í Vestmannaeyjum)"Á Seagull hvíldi skuld við Fiskiveiðasjóð Íslands, sem lenti á ekkju Péturs Jónssonar blikksmiðs sem var gerð gjaldþrota þess vegna. Flakið hefur líklega verið dregið til Hafnarfjarðar, því að þar var það rifið mörgum árum seinna.

 Heimildir: Saga Íslenskrar togaraútgerðar fram til 1917. Heimir Þorleifsson 1974.
                   Birgir Þórisson.

 

25.01.2018 21:59

2926. Stormur HF 294. TF..

Neta og línuveiðiskipið Stormur HF 294 var smíðaður hjá Alkor SP. Z. O. O. UL í Gdansk í Póllandi árið 2015. 1.027 Bt. (680 brl.) 3 x 632 ha. Caterpillar C 18. 1.896 ha, 1.395 Kw. Eigandi skipsins er Stormur Seafood ehf í Hafnarfirði. Upphaflega var skipið 23 m. á lengd, en var lengt um 22 m. og breytt á margan hátt. Skrokkur skipsins kom frá Nýfundnalandi. Ekki annað að sjá en að skipið er hið glæsilegasta og búið fullkomnum búnaði til línuveiða og mun án efa reynast vel.


2926. Stormur HF 294 við Grandagarð.                                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 27 janúar 2018.


2926. Stormur HF 294.                                                    (C) Þórhallur S Gjöveraa. 27 janúar 2018.


2926. Stormur HF 294.                                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa. 27 janúar 2018.


2926. Stormur HF 294 fyrir lengingu og breytingar í Póllandi.                               (C) Lurkurinn.

             Storm­ur kom­inn til hafn­ar

Nýtt neta- og línu­veiðiskip, Storm­ur HF, kom til hafn­ar í Reykja­vík í gær­morg­un, eft­ir að hafa verið full­smíðaður í Gdansk í Póllandi. Þar var skrokk­ur­inn lengd­ur úr 23 í 45 metra en út­gerðarfyr­ir­tækið Storm­ur Sea­food ehf. keypti skrokk­inn í Ný­fundna­landi fyr­ir nokkr­um árum.
Skipa­sýn hannaði breyt­ing­arn­ar en skipið er raf­knúið og búið ýms­um full­komn­um tækj­um. Rými er fyr­ir 20 í áhöfn.

Mbl.is. 19 desember 2017.

21.01.2018 13:01

Helena ÍS 424. LBHQ / TFBJ.

Vélbáturinn Helena ÍS 424 var smíðaður í Noregi árið 1918. Fura. 36 brl. 40 ha. Bolinder vél. Helena var fyrst í eigu Magnúsar Thorberg útgerðarmanns á Ísafirði frá árinu 1923, en þá var báturinn innfluttur. Seldur sennilega árið 1924, Jóhanni J. Eyfirðingi & Co á Ísafirði. Seldur 25 janúar 1929, Högna Gunnarssyni, Ólafi Péturssyni og Guðmundi Guðlaugssyni í Bolungarvík, báturinn hét Vigri ÍS 424. Ný vél (1930) 70 ha. Densil vél. Seldur 15 maí 1936, Magnúsi Guðmundssyni í Reykjavík, hét Gautur RE 70. Báturinn var endurbyggður 1936 og ný 90 ha. Bolinder vél var þá sett í hann. Seldur 28 febrúar 1942, Óla Konráðssyni, Konráð Sigurðssyni og Þorvaldi Guðjónssyni á Akureyri, hét Gautur EA 669. Seldur 22 nóvember 1944, Sveini Frímannssyni og Agli Sigurðssyni á Akureyri, sama nafn og númer. Ný vél (1946) 135 ha. Caterpillar díesel vél. Seldur 21 desember 1951, Pétrínu Jónsdóttur í Keflavík, hét Sæborg EA 669. Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skrá árið 1955.
Það má geta þess að það var Gautur EA 669 sem bjargaði áhöfninni á vélbátnum Einari þveræing EA 537, þegar hann brann og sökk út af Hraunhafnartanga 24 júlí árið 1947.


Helena ÍS 424 á Ísafirði.                                                                                              (C) M. Simson.


Helena ÍS 424 á síldveiðum.                                                                            Mynd úr Íslensk skip.

           Loðnuveiðar í Faxaflóa
                á vertíðinni 1938

Hinn 22. febrúar fréttist hingað, að loðna væri komin til Vestmannaeyja og næstu daga var hún komin í Miðnessjó og inn í Faxaflóa. "Dagsbrún" RE. 47 og "Gautur" RE. 70, voru gerðir út á loðnuveiðar og seldu beitu í Keflavík og víðar og allir bátar höfðu loðnuháfa. Aflaðist vel á hana, en slæmt sjóveður dró mjög úr veiði. Síðustu daga febrúarmánaðar var loðna komin um allan flóann og mikill afli. M/b. "Þráinn" NK. 70 var á loðnuveiðum og seldi Sandgerðisbátum beitu, sömuleiðis "Aðalbjörg" RE. 5, um tíma, sem flutti loðnu til Akraness og seldi þar.

Ægir. 4 tbl. 1 apríl 1938.

20.01.2018 08:54

Sexæringurinn Stanley. Fyrsti mótorbátur landsmanna.

Sexæringurinn Stanley var smíðaður á Ísafirði um 1860. Eik og fura. 2 brl. 2 ha. Möllerup vél var sett í bátinn haustið 1902. Stanley var þá í eigu Sophusar J. Nielsen verslunarstjóra og Árna Gíslasonar fiskmatsmanns og formanns á Ísafirði. Guðmundur Guðmundsson bóndi á Eyri í Mjóafirði lét upphaflega smíða bátinn fyrir sjálfan sig. Skipasmiðurinn var Þórir Pálsson fæddur 1797 og dó skömmu eftir 1880. Báturinn hefur sennilega verið smíðaður fyrir eða um 1860. Um 1885 gekk báturinn undir nafninu Skálin og átti Guðmundur á Eyri verbúð í Bolungarvík sem kölluð var Skálarbúð. Nafngiftin mun hafa komið af því að Guðmundur fór með bátinn eins og hann væri glerskál eða postulín. Þórir skipasmiður prófaði allan við sem nota átti í bátinn með að höggva af spæni og setja á vatn og neitaði að nota við sem illa flaut og kallaði það manndrápsvið. Árni keypti Skálina 1890 af Ebenezer tengdasyni Guðmundar á Eyri og var hún þá nýviðgerð. Ebenezer bjó í Þernuvík og á Hvítanesi við Skötufjörð. Árni breytti nafni skipsins og kallaði það Stanley og bar báturinn það nafn þegar vélin var sett í það. Útgerð bátsins gekk vel þangað til hann rak í land í Borgarbót í Skötufirði árið 1908 og brotnaði þar. Þá var báturinn í eigu Bjarna Sigurðssonar bónda á Borg í Skötufirði. 


Sexæringurinn Stanley.                                                                 Málverk eftir Sigurð Guðjónsson.

    Fyrsti Íslenzki vélknúni fiskibáturinn 

Vestfirðingar hafa löngum eins og vera ber verið forustumenn um sjósókn alla og sjómensku. Það er því ekki undarleg tilviljun, að fyrsta mótorvélin í fiskibát skyldi verða á Vestfjörðum, og þá sérstaklega hér við Ísafjarðardjúp, þar sem sjósókn hefir löngum mest verið. Það þykir hlýða, að rifja hér upp nokkuð úr sögu þessarar merku tilraunar, sem orðið hefir svo afdrifarík fyrir íslenzkar fiskiveiðar, og einmitt í sambandi við sjómannadaginn. Hefir Vesturland því átt viðtal við forgöngumann þessarar merkilegu nýbreytni, Árna Gíslason fyrv. yfirfiskimatsmann. Eru hér birt aðalatriðin úr frásögn hans. En Árni hefir nú í smíðum yfirlitsritgerð um þetta, sem mun birtast innan skamms. Tildrög þess, að Árni fór að hugsa um að fá mótorvél í fiskibát voru fregnir þær, er Árna bárust af mótorvélum, sem Danir, er stunduðu kolaveiðar á Önundarfirði, höfðu í smábátum. Spurði hann Dani, er hann kyntist á spekulantsferðum hér um Djúpið, um mótorvélar í Danmörku og reynslu þeirra þar. Var það álit flestra, að mótorvélar myndu koma íslenzkum fiskiveiðum að gagni. Sannfærðist Árni af þessum viðtölum um að hér væri um merkilega og gagnlega nýbreytni að ræða. Þeir, Árni og Sophus Jörgen Nielsen, fyrrv. verzlunarstjóri Tangsverzlunar hér, áttu þá í félagi sexæringinn "Stanley". Hreyfði Árni því 1901 við sameignarmann sinn, að hann vildi fá mótorvél í bátinn, á þann hátt að sameigendurnir legðu fram andvirði vélarinnar í félagi. Nielsen tók þessu dauflega og með vantrú á nýbreytnina, en Árni endurtók ósk sína. Fór svo, að Nielsen, sem átti bróður í Esbjerg, kvaðst skyldi leita upplýsinga um þessar nýju mótorvélar í Danmörku og reynslu þeirra þar.


Opnir mótorbátar við bryggju á Ísafirði við konungsheimsóknina þangað árið 1907. Trúlega hefur Stanley verið í þessum fríða bátahópi.   (C) Björn Pálsson.
  
Vildi svo til að þessi bróður Nielsens var vélfræðingur á mótorverkstæði C. H. Möllerups í Esbjerg. Skrifaði hann Nielsen ýtarlegt bréf og hvatti hann til þess að reyna mótorvélar á Íslandi. Pöntuða þeir Árni og Nielsen svo 2ja hestafla vél frá C. H. Möllerup í Esbjerg, í júní 1902. Kom vélin hingað 5. nóv. 1902, með síðustu ferð þess árs. Með þeirri ferð kom einnig maður frá vélaverkstæðinu, J. H. Jessen, þá 17 ára gamall. Setti hann niður vélina og kendi Árna meðferð hennar og hirðingu. Tókst það allt vel, og Jessen fór aftur til Danmerkur eftir áramótin. 1904 kom svo Jessen aftur hingað og setti upp hér á Ísafirði fyrsta vélaverkstæði hér á landi, og starfaði hér til dauðadags. Voru þá þegar komnar svo margar mótorvélar hér og í nágrenninu, að nauðsyn var á viðgerðaverkstæði. Beittu útvegsmenn sér fyrir stofnun þess og gengu 14 formenn héðan og úr nágrenninu ásamt Jóni Laxdal verzlunarstjóra í ábyrgð fyrir 15 þús. kr. láni til áhaldakaupa fyrir Jessen. Reyndist Jessen hinn þarfasti og bezti maður í sinni iðngrein og náði almennu trausti og vinsældum. Hjá Jessen lærðu margir efnismenn. Má meðal þeirra nefna: Gisla Jónsson, eftirlitsmann skipa og véla í Reykjavik, Sörensen, 1. vélstjóra á Brúarfossi, Gunnlaug Fossberg vélstj. í Reykjavík, Kjartan Tómasson, vélstj. við rafveitu Reykjavíkur, Hallgrímur Jónsson, vélstj. í Rvik, formaður Vélstj.fél. íslands, Þorsteinn Árnason, féhirðir Vélstj.fél. Íslands og Ágúst Guðmundsson, vélstj. við rafveitu Reykjavlkur. Hin nýja fyrsta íslenzka mótorvél var sett í "Stanley." Var honum breytt aðeins að því leyti, að sett var nýtt afturstefni fyrir vélskrúfuna og byrðingurinn hækkaður með skjólborðum.


Málverk Sigurðar Guðjónssonar af Stanley ásamt upplýsingum. Þarna kemur fram m.a. að Stanley hafi heitið áður Fenix.

Vélin var 2ja hestafla frá mótorverksmiðju C. H. Möllerup í Esbjerg, eins og áður er sagt. Kostaði hún 1300 krónur hingað komin. Manninn til þess að setja niður vélina kostaði verkstæðið, en þeir Árni og Nielsen kostuðu uppihald hans hér. Á Páskum 1903 byrjaði Árni vorvertið í Bolungavík á sínum nýja vélknúna bát, sem margir litu á með vantrúaraugum, eins og gerist og gengur með nýbreytnina. Einkum óttuðust menn, að erfitt yrði að lenda vélbát í Bolungavík, jafn stórgrýtt og oft var í lendingunni, en að eiga þar bát á floti var þá ekki um að ræða, jafnvel ekki að vorlagi. Varð að setja bátana eftir hvern röður og löngum síðar, þar til öldubrjóturinn gaf svo mikið hlé, að óhætt var, að leggja bátum að vor og sumarlagi. Á 3. dag Páska var ágætis sjóveður og reru þá allir Bolvíkingar. Var það fyrsta sjóferð Árna þar á nýja bátnum. Lánaðist hún svo vel, að hann gat vegna vélaflsins verið það fljótari en hinir, að fara tvisvar yfir daginn og fékk hlaðafla í bæði skiftin. Þetta varð sigurdagur þeirrar nýbreytni, að vélaaflið kom í stað mannsorkunnar. Vantrúin fauk út í veður og vind, og menn skildu brátt, að þarna var bæði um aukið hagræði og mikla framtíðarmöguleika að ræða. Árni átti "Stanley" í 3 ár, eftir að vél var sett í hann, og hélt honum jafnan út til fiskjar, hér frá Ísafirði og Bolungarvík. Eina vélarbilunin hjá Árna allan þennan tíma, var það óhapp, að ytra byrði sívalningsins (cylinders) sprakk sökum þess að kælivatn fraus í vatnsrörinu. Gerði Albert sálugi Jónsson járnsmiður hér við þessa bilun, og dugði sú aðgerð meðan Árni átti bátinn. 1906 og næstu ár á eftir varð einskonar mótorbátakapphlaup víðsvegar um land. Fóru menn þá að fá sér báta, er sérstaklega voru smíðaðir fyrir vélar, stærri og betur útbúna. Voru þeir flestir keyptir frá útlöndum. Árni varð aftur sá fyrsti til þess að fá nýjan bát.


Starfsmenn Vélsmiðju J. H. Jessen á Ísafirði, þeirri fyrstu hér á landi árið 1908. Talið frá v: Óskar Sigurgeirsson, Þórður Þórðarson, A. Nyberg, Fridtiof Nielsen, J. H. Jessen, Gísli Jónsson, óþekktur, Þorsteinn Thorsteinsson, Hinrik Hjaltason, Jón Þorbergsson, Guðbrandur Jakobsson og Alfred Jessen. (C) Ljósmyndasafnið á Ísafirði.  

Seldi hann gamla "Stanley" 1906, mági sínum , Bjarna Sigurðssyni á Borg í Skötufirði og fékk sér sama ár nýjan vélbát, smíðaðan í Friðrikshöfn, með 4 hestafla Alphavél. 1909 fékk Árni þriðja vélbátinn með þilfari, einnig með 4 hesta Alphavél. Sá bátur fórst í fiskiróðri héðan 23. des. 1910 með vaskleikamanninum Hrólfi Jakobssyni sem formanni, og einvala skipshöfn. Fjórða vélbátinn, Geysi, með 6 hestafla Alphamótor, keypti Árni 1911 og var formaður á honum til 1912, að hann var skipaður yfirfiskimatsmaður hér á Vestfjörðum.
Endalok "Stanleys" fyrsta vélknúna bátsins, urðu þau, að hann rak á land í Borgarbót í Skötufirði 1908. Líkindi eru til að vélin úr honum hafi náðst, því í leitirnar hefir komið í Bolungavik 2ja hestafla MöIIerupsmótor, smíðaður 1902, sem síðar hefir verið breytt í landmótor, af Th. Thomsen vélsmið, er fyrstur hafði vélaverkstæði í Bolungarvík, en síðar í Vestmannaeyjum. Hefir Friðrik Teitsson vélsmiður í Bolungavík lánað vél þessa til sýningar. Verður hún sýnd í Reykjavík nú á Sjómannadaginn. Bendir ýmislegt til, að þarna sé einmitt fyrsta íslenzka fiskibátavélin, þótt ekki liggi fyrir um það óyggjandi vissa. Er sjálfsagt að grafast þar betur fyrir, og setja vélina á fiskveiðasafn, ef satt reynist, en geyma hana í þjóðmenjasafninu þar til fiskveiðasafnið kemst á fót.

Vesturland. 3 júní 1939.

17.01.2018 16:49

659. Málmey GK 10. LBSR / TFSE.

Línuveiðarinn Málmey GK 10 var smíðaður í Kristianssund í Noregi árið 1902. Stál. 75 brl. 100 ha. 2 þennslu gufuvél. Skipið hét áður Gola SI 11 og var í eigu Edvin Jacobsen á Siglufirði frá árinu 1923, en þá var skipið innflutt, hét þá Olga. Árið 1926-27 er h/f Kveldúlfur í Reykjavík eigandi skipsins. Skipið var selt í janúar 1929, Þórði Flygenring útgerðarmanni í Hafnarfirði, hét þá Málmey GK 10. Selt 21 júlí 1931, Magnúsi Magnússyni, Birni Þorsteinssyni og Jóni Jónssyni í Hafnarfirði, sama nafn og númer.  Selt 21 júní 1939, Óskari Halldórssyni h/f í Vestmannaeyjum, ennþá sama nafn og númer. Selt 21 júní 1942, Kjartani Guðmundssyni og Þorvaldi Guðjónssyni í Vestmannaeyjum, hét Málmey VE 110. Selt 17 febrúar 1944, Jóni Jónssyni í Reykjavík, skipið hét Málmey RE 110. Ný vél (1945) 160 ha. Polar diesel vél. Einnig var skipið endurmælt, mældist þá 80 brl. 17 september árið 1945 var Fiskiveiðahlutafélagið Hringur í Reykjavík eigandi skipsins. Selt 16 júní 1947, Magnúsi Pálssyni og Árna Jónssyni á Seyðisfirði, hét Víkingur NS 12. Selt 30 september 1949, Jóni Einarssyni á Seyðisfirði. Selt 25 júlí 1952, Þorvaldi Guðjónssyni í Vestmannaeyjum, hét Leó ll VE 94. 5 febrúar árið 1953 voru eigendur skipsins, auk Þorvaldar, Axel Magnússon í Vestmannaeyjum. Skipið var selt 15 maí 1964, Björgun h/f í Reykjavík, skráð sem sanddæluskip. Talið ónýtt og tekið af skrá 6 september árið 1971.


Línuveiðarinn Málmey GK 10.                                                                    (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Málmey GK 10 á leið út Hafnarfjörðinn.                                                       (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Líkan af Línuveiðaranum Málmey GK 10.                                                          (C) Borgarsögusafn.

                     Góð veiði

Fréttaritari Vísis í Hafnarfirði skýrir blaðinu svo frá, að línuveiðarinn Málmey hafi affermt þar 18. þ.m. 54 skpd. af fiski eftir tveggja sólarhringa útivist. Veiðina fékk hann tæpar 8 sjómílur út af Garðskaga. Málmey stundar þorskanetaveiði og hefir aflað 372 skpd. á 28 dögum og eru losunardagar þar með taldir.
Skipstjóri á Málmey er Magnús Magnússon frá Skuld í Hafnarfirði, sem jafnframt er eigandi skipsins, ásamt Birni Þorsteinssyni bryggjuverði í Hafnarfirði. 18. þ. m. setti afla sinn á land í Hafnarfirði línuveiðarinn Jökull og Iosaði hann 96 skpd. Jökull hættir nú saltfiskveiðum og býr sig á ísfiskveiðar og fer frá Hafnarfirði væntanlega á laugardag. Skipið hefir lagt á land 1060 skpd. frá því í janúarlok. Beinteinn Bjarnason gerir skipið út. 17. þ. m. kom Alden til Hafnarfjarðar með 72 skpd., og vélbáturinn Vébjörn, sem stundar isfiskveiðar, kom inn til þess að afla sér veiðarfæra og íss. 
18. þ. m. komu til Hafnarfjarðar togararnir Óli Garða með 60 föt og Rán með 50 föt lifrar, báðir eftir 9 daga útivist.

Vísir. 21 apríl 1939.

15.01.2018 05:56

454. Gísli J. Johnsen VE 100. TFGM.

Vélbáturinn Gísli J. Johnsen VE 100 var smíðaður í Korsör í Danmörku árið 1939. Eik. 24 brl. 110 ha. June Munktell vél. Eigandi var Guðlaugur Brynjólfsson í Vestmannaeyjum frá sama ári. Báturinn var lengdur í Vestmannaeyjum árið 1941, mældist þá 32 brl. Seldur 15 maí 1944, Sigurjóni Ingvarssyni og Jóni Sigurðssyni í Vestmannaeyjum og Páli Guðjónssyni á Stokkseyri, sama nafn og númer. Ný vél (1953) 170 ha. Caterpillar díesel vél. Seldur 16 desember 1957, Ársæli Sveinssyni í Vestmannaeyjum, sama nafn og númer. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 8 júní árið 1967.


Gísli J. Johnsen VE 100 á leið í róður.                                                            Ljósmyndari óþekktur.

Gísli J. Johnsen VE 100.                                                                  Ljósmyndari óþekktur.

       Gísli J. Johnsen VE 100

Nýlega kom nýr bátur til Eyja, er heitir "Gísli J. Johnsen" og er eign Guðlaugs Brynjólfssonar, útgerðarmanns. Báturinn er 24 smálestir að stærð og er smíðaður í Korsör í Danmörku.

Ægir. 1 mars 1939.



14.01.2018 07:57

B. v. Hallveig Fróðadóttir RE 203. TFUE.

Hallveig Fróðadóttir RE 203 var smíðuð hjá Goole S.B. & Repg. Co Ltd í Goole á Englandi árið 1949. 609 brl. 1.200 ha. Ruston díesel vél. Eigandi var Bæjarútgerð Reykjavíkur í Reykjavík frá 11 febrúar sama ár. Hallveig var fyrsti díeseltogari íslendinga. Hinn 6 mars árið 1969 kom upp eldur í togaranum þegar hann var nýlagður af stað í veiðiferð. Eldurinn kviknaði í vistarverum skipverja undir hvalbak skipsins. Voru flestir skipverjar sofandi þegar eldurinn kom upp. Fórust þar 6 skipverjar en 8 voru fluttir á sjúkrahús við komu togarans til Keflavíkur. Hallveig Fróðadóttir RE 203 landaði erlendis úr sinni síðustu veiðiferð, 24 október árið 1973 og kom heim 29 sama mánuðar.
Togarinn lá í Reykjavíkurhöfn til 15 febrúar árið 1974 er skipið hélt til Spánar, en þangað hafði það verið selt til niðurrifs.


80. Hallveig Fróðadóttir RE 203 að koma til löndunar í Reykjavík. Skipið er vel ísað frá hvalbak og aftur að stjórnpalli eftir barninginn til lands.           Ljósmyndari óþekktur.

  Reykvískar konur fagna Hallveigu Fróðadóttur
        Skipið er merkileg nýung í togarasmíði 

Konur voru í meirihluta þeirra gesta, sem borgarstjóri bauð að taka á móti þriðja togara bæjarútgerðarinnar og 29. nýsköpunartogaranum, sem til landsins kemur. Er þetta jafnframt fyrsti dieseltogari, sem smíðaður er fyrir íslendinga og ber nafn fyrstu íslensku húsfreyjunnar, Hallveigar Fróðadóttur. Er þetta hið fríðasta skip, búið öllum bestu siglingartækjum, en um leið nýung í togaragerð, sem menn vænta sjer mikils af. Vegna þess hve vjelar skipsins taka lítið rúm og eldsneytisbirgðir eru minni en hjá gufuknúnu togurunum, ber "Hallveig Fróðadóttir" jafnmikið af fiski og stærstu nýsköpunartogararnir, þó skipið sje 5 fetum styttra en nýju togararnir af minni gerðinni. B.v. Hallveig Fróðadóttir lagðist við bryggju um 8 leytið í gærkvöldi. Gunnar Thoroddsen borgarstjóri bauð skipið, skipstjóra og skipshöfn velkomið í höfn. Borgarstjóri rakti í fáum orðum togarakaup Reykjavíkurborgar og gat þess, að með þessu skipi væri gerð tilraun, sem menn vonuðust til að gæfist vel. Tveimur fyrri togurum bæjarins hefði verið valin nöfn þeirra manna sem hæst bæru í sögu höfuðstaðarins, Ingólfs Arnarsonar og Skúla Magnússonar og færi vel á því, að þetta nýja skip bæri nafn fyrstu landnámskonunnar.


B.v. Hallveig Fróðadóttir RE í reynslusiglingu.                                 (C) Goole S.B. & Repg. Co Ltd.

Frú Arnheiður Jónsdóttir. varaformaður fjáröflunarnefndar Hallveigarstaða tók næst til máls og fagnaði skipinu og skipshöfninni, þakkaði bæjarstjórn fyrir nafnið og færði skipstjóra blómakörfu. Gísli Jónsson alþingismaður lýsti skipinu, og þeim góðu tækjum, sem það er búið. Frú Guðrún Jónasson, formaður Slysvarnadeildar kvenna í Reykjavík, tók næst til máls og afhenti skipstjóra silfurskjöld frá deildinni. Á skjöldinn er letrað fagnaðarorð og skipi og skipshöfn óskað gæfu og gengis. Bað frúin skipstjóra aft setja skjöld þennan í skipið, þar sem hann kysi. Jón Axel Pjetursson, framkvæmdarstjóri útgerðarinnar ræddi um þá merkilegu tilraun, sem gerð  væri með smíði þessa skips og sagði að vel færi á, að höfuðstaður Íslands rjeðist í að gera þá tilraun. Þakkaði hann sjerstaklega þann stuðning sem Gísli Jónsson alþingismaður og Erlingur Þorkelsson, vjelfræðingur hefðu átt í smíði skipsins og mætti kalla Gísla höfund skipsins, ef svo væri hægt að komast að orði. Skipstjórinn, Sigurður Guðjónsson, þakkaði heimsókn gestanna og heillaóskirnar í garð skips og skipshafnar, en að lokum mælti frú Steinunn Bjarnason nokkur orð, en hún er formaður framkvæmdanefndar Hallveigarstaða og hefur staðið framarlega í þeim fjelagsskap frá byrjun. Að ræðuhöldum loknum þáðu gestir veitingar í matsölum skipsins, sem eru rúmgóðir og hinir vistlegustu, eins og skipið allt. Skipverjar ljetu vel yfir hve skipið hefði reynst vel á heimleiðinni. Fjekk það að vísu gott veður og reyndi ekki á það í slæmu veðri, en hinir þaulvönu sjómenn, sem þar eru í hverju rúmi finna fljótt, hvernig skip fer í sjó. Á leiðinni heim var "kastað" til að reyna veiðarfæri og þó einkum spilið og reyndist það vel í alla staði.


B.v. Hallveig Fróðadóttir RE 203 á leið í veiðiferð.                                             (C) Ragnar Franzson.

Í lýsingu Gísla Jónssonar alþingismanns á skipinu kom það fram, að "Hallveig Fróðadóttir' er merkileg nýung í togarasmíði og þótt dieseltogarar hafi verið reyndir með öðrum þjóðum eru svo margar nýungar í þessu skipi, að um fullkomna nýung er að ræða. Vjel skipsins, sem framleiðir 1.200 hestöfl, knýr bæði skrúfu skipsins og togvindu. Togvindan er þannig gerð, að verði þunginn of mikill, vegna festu, eða af öðrum ástæðum, stöðvast hún sjálfkrafa og veitir það aukið öryggi og ætti að koma í veg fyrir að veiðarfæri rifni. Skipið er byggt samkvæmt ströngustu kröfum Lloyds. Það er 170 feta langt, 29,5 fet á breidd og 15,5 fet á dýpt. Það er 621 lest brúttó og 202 smálestir nettó. Skipinu er skipt í fjölda vatnsþjett hólf, en plötur í byrðing eru allar rafsoðnar. Nokkrar af lestum skipsins eru klæddar aluminium, sem er nýung og kælivjelar halda æskilegu kuldastigi í fiskilestum.
Hallveig ber 360 smálestir af fiski eða 60 smálestum meira en nýsköpunartogararnir af minni gerðinni, en jafnmikið og togarar okkar af stærri gerð. Í skipinu eru tveir dýptarmælar og ratsjártæki, rafmagnshraðamælir og önnur siglingartæki af nýjustu gerð. Ganghraði er 13 mílur og í reynsluför gekk skipið 13,3 sjómílur.

Morgunblaðið. 1 mars 1949.


B.v. Hallveig Fróðadóttir RE 203 í Reykjavíkurhöfn.                   (C) Úr safni Tryggva Sigurðssonar.

         Hallveig Fróðadóttir RE 203

      Fyrsti dieseltogari Íslendinga

Hinn 28. febrúar síðastliðinn lagðist hér að bryggju fyrsti dieseltogarinn, sem íslendingar eignast. Er það þriðji togari bæjarútgerðar Reykjavíkur, en tuttugasti og níundi nýsköpunartogarinn, sem til landsins kemur. Skipinu var fagnað með mikilli viðhöfn, eins og vonlegt var, þar eð hér var um merkilegan atburð að ræða í íslenzkri útgerðarsögu. Einkum sýndu konur þessum nýja "landnámstogara", er heitir eftir fyrstu húsfreyju Reykjavíkur, mikinn og margvíslegan sóma. Gunnar Thoroddsen borgarstjóri bauð skip og skipshöfn velkomna með ræðu og árnaði þeim allra heilla. Þá talaði Arnheiður Jónsdóttir, varaformaður fjáröflunarnefndar Hallveigarstaða. Næstur talaði Gísli Jónsson, alþingismaður, en hann hefur, ásamt Erlingi Þorsteinssyni vélfræðingi, haft umsjón með smíði skipsins. Lýsti hann ýtarlega gerð skipsins og kostum þess. Frú Guðrún Jónasson færði skipinu að gjöf silfurskjöld með áletruðum heillaóskum frá Kvennadeild Slysavarnafélagsins og árnaði því heilla og blessunar. Jón Axel Pétursson, framkvæmdastjóri, talaði næstur og þá frú Steinunn Bjarnason, formaður framkvæmdanefndar Hallveigarstaða. Vitnaði hún í orð Þorkels mána og fól skipið þeim er sólina hefur skapað. Að lokum talaði skipstjórinn, Sigurður Guðjónsson, og þakkaði f. h. skipverja árnaðaróskir.


B.v. Hallveig Fróðadóttir RE 203. Glæsilegt þetta líkan af skipinu.             (C) Þórhallur S Gjöveraa.
  
Hallveig Fróðadóttir er smíðuð í Goollskipasmíðastöðinni í Hull. Lengd skipsins er 170 fet, breidd 29,5, dýpt 15,5. Brúttó rúmlestir 621, en undir þilfari 479. Það er 202 nettólestir. Rúmtak fisklesta er 18 þús. teningsfet. Eldsneytisgeymar rúma 150 tonn, vatnsgeymar 52 tonn, lýsisgeymar 33 tonn. Aðalvél er fimm cylindra og hefur 1.200 hestöfl. Hún er útbúin vökvatengi ásamt niðurfærslu og skiptigírum, mesti snúningshraði er 435 á mín. Aðalvélin drífur einnig 220 kw. rafal er gefur togvindunni afl. Togvindan hefur 270 hestöfl og er útbúin tveim hraðrofum svo hægt er að stöðva hana fyrirvaralaust. Í vélarrúmi er auk aðalvélar 20 kw. vélasamstæða og ein 15 kw. Þá eru einnig sjódælur, austursdælur, brennsluolíudælur, neyzluvatnsdælur, smurolíudælur, skilvindur og olíuhreinsari. Þá er olíukynntur eimketill fyrir lifrarbræðslu, en bræðslutækin eru smíðuð í Héðni hér heima. Afturlest skipsins er klædd innan með aluminíum, er það gert til reynslu. Báðar lestir eru útbúnar kælitækjum. íbúðir skipverja eru mjög með svipuðu sniði og í öðrum nýsköpunartogurum, með setustofu, baði, skápum og geymsluklefa. Í stafni eru íbúðir fyrir 24 menn, en alls eru í skipinu vistarverur fyrir 38 manns.


Fyrirkomulagsteikning af Hallveigu Fróðadóttur RE 203.                                    Mynd úr safni mínu.

Í matsal geta 15 matazt í einu. Þá er einnig sjúkraklefi í skipinu. Tveir dýptarmælar eru í því, ennfremur radartæki. Skipið fór á flot 4. september og var afhent 11. Febrúar. Það gekk rúmar 13 sjómílur í reynsluför. Skipstjóri er Sigurður Guðjónsson, 1. stýrimaður Jón Júlíusson og 1. vélstjóri Óskar Valdimarsson. Hallveig Fróðadóttir mun vera fullkomnasti dieseltogari, sem smíðaður hefur verið, enda hefur skipið vakið mikla athygli erlendis. Sjómanna- og fiskimannamálgögn í Bretlandi og víðar hafa birt um það greinar og allnákvæmar lýsingar. Verður fróðlegt og lærdómsríkt að fylgjast með því, hvernig þetta nýja skip reynist. Allar góðar óskir fylgja því, hvar sem það fer um höfin.

Sjómannablaðið Víkingur. 1 apríl 1949.


Landað úr Hallveigu í Reykjavík.                                                                     Ljósmyndari óþekktur.

         Sex fórust, átta á sjúkrahúsi
           Talið að sprenging hafi orðið við                  vistarverur frammi í Hallveigu Fróðadóttur

"Við trúum þessu ekki ennþá," var það eina, sem Guðbjörn Jensson, skipstjóri, gat sagt við fréttamann Morgunblaðsins, þegar Hallveig Fróðadóttir lagðist að í Keflavík í gær með lík sex skipverja um borð. Skipverjarnir sex köfnuðu, þegar eldur og reykur komust í vistarverur þeirra frammi í skipinu um fjögurleytið í fyrrinótt en þá var togarinn staddur 9-10 sjómílur SV af Malarrifi á siglingu til veiða. Þeir, sem fórust, voru hásetarnir:
Pétur Jónsson, Njálsgötu 20, 41 árs, sem lætur eftir sig konu og 7 börn á aldrinum 12-19 ára.
Eggert Kristjánsson, Höfðaborg 3, 38 ára, sem lætur eftir sig unnustu og föður.
Dórland Jósepsson, Flókagötu 64, 32 ára Vestur-íslendingur, sem lætur eftir sig föður búsettan í Winnepeg.
Kjartan Sölvi Agústsson, Ljósheimum 10, fertugur að aldri og einhleypur.
Sigurður Ingimundarsson, Nönnustíg 10, Hafnarfirði, 38 ára og lætur eftir sig móður.
Óskar Sigurbjarni Ketilsson, Gestshúsum Álftanesi, 48 ára, einhleypur en lætur eftir sig móður.


Lík skipverjanna 6 borin á land í Keflavík.                                     Ljósmyndari óþekktur.

Níu skipverjar af Hallveigu Fróðadóttur voru fluttir í Slysavarðstofuna í Reykjavík, þar sem þeir höfðu allir orðið fyrir kolsýringseitrun. Einn þeirra fékk að fara heim af Slysavarðstofunni en átta voru lagðir inn í lyflækningadeild Borgarsjúkrahússins. Í gærkvöldi var líðan þeirra eftir atvikum góð og þeir á batavegi. Þessir átta skipverjar voru allir frammi í, þegar eldurinn kom upp.
Hallveig Fróðadóttir RE-203 lét úr Reykjavíkurhöfn um miðnætti í fyrrinótt á veiðar. Um kl. 4 þegar skipið var statt 9-10 sjómílur suðvestur af Malarrifi, virðist skyndilega hafa orðið sprenging frammi í skipinu, og mikinn reyk lagði upp um lúkarsdyrnar stjórnborðsmegin. Njáll Gíslason, háseti, var á stýrisvakt, þegar þetta gerðist, og sagði hann Morgunblaðinu svo frá: "Ég heyrði enga sprengingu, en skyndilega sá ég reykjarsúlu rísa upp frammi á skipinu, og svo bjarmaði fyrir eldi." Talið er, að sprenging hafi orðið við lúkar frammi í. Þar sem rannsókn á upptökum eldsins er enn ólokið er ekki ljóst, hvort sprengingin stafaði af kynditæki, sem er í eldtraustum klefa aftan við neðri lúkarinn, eða einhverju öðru.


Eldurinn kom upp í íbúðum skipverja undir hvalbak skipsins.                  (C) Þórhallur S Gjöveraa.

Fjórtán menn voru í íbúð skipverja frammi í þegar þetta gerðist, sex í efri lúkar og 8 í þeim neðri. Nokkrir þeirra voru í fasta svefni, en aðrir vakandi og vöktu þeir félaga sína. Sex mönnum tókst ekki að komast út, því reykkófið var svo mikið og hættulegt, sagði bandaríski sjúkraliðinn, sem fór um borð í togarann, þriggja til fjögurra mínútna dvöl í slíku reykkófi banvæna. Skipverjar hófu þegar slökkvistarf og dældu sjó á eldinn. Skömmu seinna kom Höfrungur II AK, á vettvang og síðar björgunarskipið Elding og Skírnir AK og aðstoðuðu þau við slökkvistarfið. Skipverjar á Skírni settu slöngur um borð í Hallveigu, og skipverjar á Eldingunni fóru um borð í froskmannsbúningum, og tókst með þeim hætti að vaða reykinn og komast betur að eldinum. Þá hafði slökkviliðið í Reykjavík samband við togarann og leiðbeinti um slökkvistarfið, sem var mjög hættulegt, þar sem um olíueld var að ræða. Hafsteinn Jóhannsson á Eldingu tjáði Mbl. að hann hefði komið að Hallveigu laust eftir kl  5. "Mjög mikill reykur var þá frammi í sikipinu, en lítiíl eldur að því er virtist og var hann einkum í efri lúkarnum". Klukkan 8.45 kom varðskipið Þór á vettvang. Logaði þá aðeins í einangrun undir hvalbaknum. Tveir varðskipsmenn fóru um borð í Hallveigu með slökkvidælu og skömmu síðar tókst að ráða niðurlögum eldsins. Slysavarnarfélagi Íslands barst tilkynning um eldinn í togaranum um sex leytið í gærmorgun. Að sögm Hannesar Hafstein, fulltrúa hjá SVFÍ, var þá þegar haft samband við slökkviliðið og varnarliðið á Keflavíkurflugvelli til að kanna, hvort ekki væri hægt að koma slökkviliðsmönnum og sjúkraliða með einhverjum hætti um borð í Hallveigu Fróðadóttur. Varnarliðið ljáði fúslega herþyrlu til þessarar ferðar, og voru tveir íslenzkir slökkviliðsmenn og sjúkraliði frá Varnarliðinu fenignir til að fara með þyrlunni.


B.v. Hallveig Fróðadóttir RE 203 á siglingu.                        (C) Ringi. (Róbert Ingi Guðmundsson).

"Við fórum með þyrlunni um átta leytið frá Keflavíkurflugvelli og vorum komnir yfir varðskipið, sem statt var hjá togaranum um níu leytið", tjáði Ástvaldur Eiríksson, annar slökkviliðsmannanna, Mbl. í gær. "Frá varðskipinu vorum við fluttir yfir í togarann í gúmbát. Við höfðum meðferðis reykköfunarbúninga og okkur tókst að komast niður í lúkarinn og ná mönnunum sex. Bandaríski sjúkraliðinn tók á móti þessum mönnum um leið og við komum með þá upp, og gerði hann þegar á þeim lífgunartilraunir, en án árangurs". Þessu næst fóru íslenzku slökkviliðsmennirnir aftur um borð í Þór, en bandaríski sjúkraliðinn varð eftir um borð í Hallveigu Fróðadóttur. Varðskipsmaður var einnig eftir í togaranum með slökkvidælu. Um kl. 11 héldu Þór og Hallveig Fróðadóttir áleiðis til Keflavíkur, og komu þangað um þrjú leytið. Setti varðskipið slökkviliðsmennina þar í land, og hélt að því búnu til Reykjavíkur. Hallveig Fróðadóttir lagðist að bryggju skömmu eftir að varðskipið fór. Þar fóru í land skipverjarnir níu, sem fluttir voru í Slysavarðstofuna í Reykjavík og tekin voru í land lík skipverjanna sex, sem fórust í eldinum. Að því loknu hélt togarinn einnig til Reykjavíkur. Tjónið um borð í Hallveigu Fróðadóttur varð talsvert, en þó minna en álitið var í fyrstu.
Hallveig Fróðadóttir RE-203 er systurskip Jóns Þorlákssonar RE, og eru þau fyrstu nýsköpunartogararnir, sem búnir voru dísilvélum. Á mánudag kom Hallveig Fróðadóttir úr söluferð til Þýzkalands, þar sem hún seldi fyrir tæplega 150 þúsund mörk. Sjópróf vegna slyssins eru haldin í Reykjavík í dag.

Morgunblaðið. 7 mars 1969.

13.01.2018 08:24

Þormóður rammi SI 32.

Vélbáturinn Þormóður rammi SI 32 var smíðaður af Antoni Jónssyni á Akureyri árið 1925 fyrir Skafta Stefánsson á Siglufirði. Eik og fura. 10,48 brl. 26 ha. Hein vél. Ný vél (1939) 50 ha. June Munktell vél. Báturinn strandaði á Ásbúðartanga út af Hrauni á Skaga 16 mars árið 1942 og eyðilagðist. Áhöfnin, 5 menn, fleyttu sér á lóðabelgjum til lands, en var bjargað um borð í bát frá Hrauni sem tók þá upp á leiðinni til lands.


Þormóður rammi SI 32 er fremstur á myndinni. Báturinn innan við hann er Úlfur Uggason SI 34, báðir í eigu Skafta Stefánssonar. Þekki ekki bátinn til vinstri.                   (C) Vigfús Sigurgeirsson.


Þormóður rammi SI 32. Líkan.                                          Smiður og myndahöfundur óþekktur.

     Fleyttu sjer á lóðarbelgjum til lands
    Þegar "Þormóður rammi " strandaði

Frjettaritari vor á Siglufirði hefir skýrt blaðinu frá hvernig vjelbáturinn "Þormóður rammi" strandaði og hvernig mennirnir björguðust. Báturinn er nú sokkinn, en liggur á grunnu vatni og gera menn sjer  vonir um að hægt verði að ná honum upp. "Þormóður rammi" fór í róður á sunnudagskvöld. Veður var gott. Um nóttina kl. 2, kenndi báturinn grunns á Ásbúðartanga út af Hraunum á Skaga. Báturinn var á fullri ferð er hann tók niðri, en ekki kom samt leki að honum strax. Ákváðu mennirnir því að vera um kyrrt í bátnum. Með morgninum fór að falla að og fór báturinn þá að láta illa á skerinu. Skipshöfnin, sem voru 5 menn, ákvað þá að yfirgefa bátinn. Ekki höfðu þeir ljettbát og ætluðu því að ná landi með því að fleyta sjer á lóðabelgjum.
Var þetta í birtingu um morguninn. Um þetta leyti sást til þeirra úr landi og var sendur bátur þeim til aðstoðar. Voru mennirnir þá lagðir á stað á lóðabelgjunum og voru teknir upp á miðri leið til lands. Seinna um daginn rann "Þormóður rammi af skerinu og sökk, en á mjög grunnu vatni. Eigandi bátsins, Skafti Stefánsson, fór vestur í gær til að athuga möguleika á að ná bátnum upp.

Morgunblaðið. 18 mars 1942.

11.01.2018 13:24

L. v. Sæbjörg GK 9. LCJP / TFHE.

Línuveiðarinn Sæbjörg GK 9 var smíðuð í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1904. 159 brl. 280 ha. 3 þennslu  gufuvél. Hét áður Heinrich Augustin. Eigandi var Fiskiveiðahlutafélagið Sæbjörg í Hafnarfirði frá 2 janúar árið 1929. Skipið var selt 16 desember 1932, h/f Draupni á Bíldudal, hét Ármann BA 7. Selt 15 júní 1937, h/f Jökli í Reykjavík, hét Jökull RE 55. Skipið var lengt í slippnum í Reykjavík í maí árið 1940, mældist þá 201 brl. Fyrsta stálskip sem lengt var hér á landi. Selt til niðurrifs árið 1956. Sæbjörg var smíðuð sem togari en síðar breytt í línuveiðara og keyptur til landsins sem slíkur. Skipið stundaði einnig síldveiðar hér við land.


Línuveiðarinn Sæbjörg GK 9 við komuna til landsins 9 janúar 1929.        (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Sæbjörg GK í heimahöfn í fyrsta sinn 9 janúar 1929.                            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

               Nýr línuveiðari

Nýr, mikill og föngulegur línubátur, kom í gær til Hafnarfjarðar frá útlöndum. Heitir hann "Sæbjörg". Skipstjóri verður Ólafur Þórðarson.

Alþýðublaðið. 10 janúar 1929.


Sæbjörg GK 9 á síldveiðum.                                                                 Ljósmyndari óþekktur.

     Tveir línuveiðarar til Bíldudals

Tveir línuveiðarar hafa nýlega verið keyptir til Bíldudals, og hefir sitt fjelagið keypt hvorn. Skipshöfn beggja er í fjelögunum. Annar línuveiðarinn er Sæbjörg, er nú heitir Ármann, hinn er línuveiðarinn Þormóður.

Morgunblaðið. 12 febrúar 1933.


Jökull RE 55 að landa síld á Siglufirði.                                               (C) Þjóðminjasafn Íslands.

Fer l.v. JökuII á línuveiðar við Grænland?

Línuveiðarinn Jökull frá Hafnarfirði mun verða sendur á línuveiðar við Grænland nú á næstunni, jafnskjótt og fengist hefir samþykki sjómannafélaganna til að skrá á skipið með sömu kjörum og á togara á ísfiskveiðum. Beinteinn Bjarnason, útgerðarmaður í Hafnarfirði, hefir lengi haft hug á að senda Jökul í slíkan leiðangur, en skipstjórinn, Björn Hansson, er vanur þessum veiðiskap frá því árið 1935, er hann var fiskilóðs á lúðuskipi Hellyers-Bros. Fenginn befir verið nýr dýptarmælir í skipið og útveguð fullkomin lúðulóð og lúðunet. Þar eð ætla má að lifur verði lítil hefir Beinteinn ákveðið að bæta skipverjum það upp með premíu af hverri smálest lúðu, sem veiðist. Vísir átti tal við Beintein í gær. Kvað hann skipverja alla vera fúsa til að fara þessa för, en ennþá hefir ekki fengist samþykki stjórnar Sjómannafélagsins. Hefir hún tekið dræmt í þessa málaleitan Beinteins, en hann sótti um samþykki hennar fyrir viku síðan. Er það því furðulegra, þar sem Beinteinn ætlar að bæta skipverjum lifrarhlutinn með þyngdarpremíu af veiðinni. Er vonandi að hægt verði að gera þennan leiðangur út hið fyrsta. 

Vísir. 29 apríl 1939.

                       364 lúður
          "Jökull" væntanlegur í dag

Línuveiðarinn "Jökull,, er á heimleið frá lúðuveiðinni vestur í Grænlandshafi, er væntanlegur í dag. Jökull veiddi alls 364 lúður og vógu þær rösk 9 tonn. Sennilega verður aflinn seldur Fiskimálanefnd og hún sendir hann svo til Englands. Verðið, sem Fiskimálanefnd gefur fyrir lúðu, er 90 aurar pr. kílóið.  Ef það verður svo, að aflinn verði seldur hjer á staðnum, er ekki ósennilegt að "Jökull" fari aðra, stutta veiðiför vestur í haf.

Morgunblaðið. 20 maí 1939.


Línuveiðarinn Jökull RE 55 eftir lenginguna árið 1940.                                          (C) Jón & Vigfús.

          Aflahæsti línuveiðarinn

Línuveiðarinn Jökull frá Hafnarfirði kom af síldveiðum fyrir Norðurlandi í fyrrinótt. Jökull mun aflahæstur af línuveiðurunum í sumar, aflaði 9.770 mál í bræðslu og 1.800 tunnur í salt.

Morgunblaðið. 15 september 1939.

    Nýjung í skipasmiði.Línuveiðarinn                Jökull lengdur um 4 metra.

Það er skemtilegt að koma vestur í Slipp. Þar bylja við hamarshögg og hávaði frá starfandi mönnum, sem beinir huganum til vinnu og verkefna. Þessa dagana er þar nýjung á ferðinni. Á einni dráttarbraut Slippsins er línuveiðarinn "Jökull". Það er að segja, hann er þar í tveim pörtum. Ekki svo að skilja að skipið sje orðið flak úr sjávarháska . "Jökull " er þar að ganga í endurnýjung lífdaganna, að verða stærri.Hann var dreginn á venjulegum skipasleða upp á brautina . En þegar þangað var komið var skipið sagað í sundur. Og sleðinn, sem hann stóð á, var líka sagaður í sundur og síðan var sleðaparturinn með frampartinum af skipinu dreginn 4 m. upp eftir brautinni. Lengja á skipið um 4 metra . Það er Stálsmiðjan S.f., sem tekið hefir að sjer þessa stækkun á "Jökli" , en milli Hamars, Slippsins og Stálsmiðjunnar, svo og vjelsmiðjunnar Hjeðins, er mikil samvinna sem kunnugt er. Um aðgerð þessa á skipinu hefir blaðið fengið eftirfarandi upplýsingar hjá framkvæmdastjóra Hamars, Benedikt Gröndal. Hann skýrði svo frá : Línuveiðarinn Jökull er eign samnefnds fjelags í Hafnarfirði. Hefir skipið verið gert út á ísfiskveiðar í vetur og siglt með afIann til Englands. 
Skipið var 159 brúttó tonn og var lestarrými tiltölulega lítið, 53 tonn. En með því að lengja skipið um þessa 4 metra, lestar það um það bil helmingi meira. Svo til mikils er að vinna, til þess að gera. Stálsmiðjan smíðar plöturnar í skipið, og annast alla járnsmíði, en Slippurinn annast trjesmíðina. Á verk þetta að taka 4 vikur, og vinna við það 20 -50 manns. Slík skipaaðgerð hefir ekki verið gerð hjer áður. Var skipið sagað í sundur um kolahólfið, en nýtt kolahólf verður gert í nýja partinum og lestin framan við það stækkuð. Jökull var byggður undir eftirliti þýska Lloyds. Þegar skipum er breytt, þá er það venja að uppdrættir af fyrirhuguðum breytingum sjeu lagðir fyrir viðkomandi skipaeftirlit, til samþykktar. En nú voru ekki tök á því, og því fékk umboðsmaður Lloyds hjer leyfi fyrir okkar hönd til þess að stækka skipið, með því skilyrði að breytingin yrði lögð fyrir skipaeftirlitið til samþykktar, þegar færi gefst á því. Dettur ykkur ekki í hug að ráðast í að byggja hjer skip af þessari stærð ?
 Vissulega, segir Gröndal. Við höfum til þess öll tæki að byggja hjer svo sem 200 tonna skip, og er þessi stækkun á Jökli spor í þessa átt. Margir hafa hjer meiri trú á trjeskipum en járnskipum, og bera því við, að járnskipin þurfi meira viðhald en trjeskipin. En þeir gæta ekki að því, að þessi járnskip, sem hjer eru, eru mörg 30-40 ára gömul, en vjelbátarnir, sem eru úr trje eru mikið yngri og þurfa þessvegna minna viðhald.
Áður en jeg hvarf úr þessu "iðjuveri " umhverfis Slippinn gengum við Gröndal vestur í Stálsmiðju. Þar voru allmargir menn við vinnu. Þar eru hin furðulegustu og mikilfenglegustu áhöld, eða vjelar, sem gaman er að sjá, eins og vjel sem setur naglagöt á stálplötur með þeim ljettleik eins og þegar hníf er stungið í smjör og annar átakaútbúnaður er á sömu vjel, sem klippir í sundur járnplötur svo fyrirhafnarlítið sem kona klippir skæðaskinn með skærum sínum. Þar eru valsar, sem sljetta beiglaðar stálplötur úr skipum. Þar er margt, sem athafnamenn hafa gaman að sjá. Og þó er þetta allt of lítið, samanborið við það sem á að vera í útgerðarbæ eins og Reykjavík, því hjer þarf að vera hægt að byggja einn til tvo togara á ári að öllu leyti og annast allar viðgerðir og stækkanir að auki.

Morgunblaðið. 10 maí 1940.






09.01.2018 13:26

Farsæll AK 59. TFXN.

Vélbáturinn Farsæll AK 59 var smíðaður í Dráttarbraut Akraness árið 1946. Eik. 66 brl. 225 ha. June Munktell vél. Eigandi var h/f Sigurfari (Bergþór Guðjónsson og fl.) á Akranesi frá 26 janúar sama ár. 19 nóvember 1958 var Fiskiver h/f á Akranesi orðinn eigandi skipsins. Farsæll var talinn ónýtur og tekinn af skrá árið 1962.


Farsæll AK 59 á leið til heimahafnar með nótabátanna í eftirdragi.           Ljósmyndari óþekktur.


Farsæll AK í smíðum hjá Þorgeiri & Ellert á Akranesi, haustið 1945.               Ljósmyndari óþekktur.

          Nýr bátur í viðbót við flotann

Laugardaginn 26. f. m. var hleypt af stokkunum nýjum bát hér á Akranesi, bátnum "Farsæl" eign s.f. Sigurfara. Bátur þessi er 66 tonn að stærð, byggður í dráttarbraut Akraness. Byrjað var á byggingu bátsins í janúarmánuði 1945, og lokið var við smíðina eins og fyrr greinir réttu ári síðar. Hins vegar seinkaði bátnum sökum þess að nokkuð stóð á vél í hann.
Báturinn var byggður á vegum bæjarstjórnarinnar. Bæjarstjórnin ákvað að láta smíða bátinn, en s/f Sigurfari gekk inn í samning þann, sem bæjarstjórnin gerði við Dráttarbrautina skömmu eftir að hann var gerður. Svo sem kunnugt er hefur bæjarstjórnin gengizt fyrir því að útvega til bæjarins fleiri báta, en m/b "Farsæll" er sá fyrsti þeirra. Yfirmaður við bátasmíðina var Magnús Magnússon, Söndum. Vélaniðursetningu annaðist vélsmiðja Þorgeirs & Ellerts, raflögn Sveinn Guðmundsson rafvirki, málningarvinnu Ólafur Kristjánsson og hampþéttingu Benedikt Tómasson, Skuld.

Akranes. 5 árg. 2 tbl. 1 febrúar 1946.

08.01.2018 06:43

B. v. Elliðaey VE 10. TFGC.

Nýsköpunartogarinn Elliðaey VE 10 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947 fyrir Bæjarútgerð Vestmannaeyja h/f í Vestmannaeyjum. 664 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 717. Kom fyrst til heimahafnar hinn 8 september sama ár. Togarinn var seldur 7 október árið 1953, Bæjarútgerð Hafnarfjarðar h/f í Hafnarfirði, fékk nafnið Ágúst GK 2. Það er önnur saga sem tekin verður saman síðar.


6. Elliðaey VE 10 við komuna til Vestmannaeyja hinn 8 september 1947.         Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Elliðaey VE 10 á siglingu við Vestmannaeyjar.                             Málverk eftir George Wiseman.


            B.v. Elliðaey VE 10

8. september. Um kl. 6 að morgni hafði skipið lagst fyrir akkeri á Víkinni. Þykkt loft en hægur andvari og yndislegt veður. Þegar á morguninn líður er þjóðfáninn dreginn á stengur víða um bæinn og það birtir og kemur glaðasólskin. Laust fyrir kl. 10 sést fjöldi af prúðbúnu fólki á götunum og allir stefna í sömu átt, niður til hafnarinnar. Svo er Básaskersbryggjan orðin þéttskipuð fólki og þegar bryggjan þrýtur er farið um borð í skip og báta. Skipið á að leggjast austan að bryggjunni og þar hefur verið strengd girðing. Ljósmyndarar taka sér stöðu þar sem bezt sér yfir, reiðubúnir til að láta ekkert fara fram hjá auga myndavélarinnar. Hér glampar á hvítar húfur Karlakórsins og Lúðrasveitarinnar. Og þarna úti á Víkinni er skipið, og nú fer það að hreyfast, tekur hring og stefnir síðan inn á höfnina. Enn fjölgar á bryggjunni, fleiri bílar og fólk tildrar upp á þá. Allir vilja sjá. Búðum og skrifstofum hefur verið lokað og verkamenn, iðnaðarmenn, sjómenn og húsfreyjur hafa tekið sér frí frá störfum til að vera viðstödd þegar þetta skip leggst að bryggju. Og gleymum þá ekki börnunum. Skipið líður inn höfnina, hægt og hægt. Ljósmyndararnir miða og hleypa af. Lúðrasveitin leikur. Nær færist skipið. Maður sér einkennisstafna VE 10. og V í reykháf. Þegar skipið á nokkra faðma að bryggju sést fyrsti stýrimaður Árni Finnbogason frammi í stafni með línu í hendi, sem hann sveiflar upp á bryggjuna. Lúðrasveitin leikur Íslands hrafnystumenn. Og eftir fáein augnablik eru landfestar bundnar. Fyrsti togari Vestmannaeyjabæjar er í höfn.


Fyrirkomulagsteikning af B.v. Elliðaey VE 10.                                                              Úr safni mínu.

Atvinnu og sjávarútvegsmálaráðherra Jóhann Þ. Jósepsson stígur um borð og eftir litla stund sér maður þá á brúarvængnum, ráðherrann, skipstjórann Ásmund Friðriksson, forseta bæjarstjórnar Árna Guðmundsson og Ólaf Kristjánsson bæjarstjóra. Ráðherrann flytur ræðu, afhendir skipið til eignar og yfirráða Bæjarútgerðar Vestmannaeyja og árnar því fiskisældar og fararheilla. Árni Guðmundsson flytur þakkir skipverjum svo og öllum þeim er stuðlað hafa að hingaðkomu skipsins og færir því árnaðaróskir. Síðan þakkar skipstjóri árnaðaróskirnar sér og skipverjum til handa. Þá er tilkynnt að skipið verði til sýnis síðari hluta dags öllum þeim er vilja. Nú stígur Karlakórinn á skipsfjöl, syngur nokkur lög og endar á þjóðsöngnum. Þegar þessu er lokið dreifist mannfjöldinn og margir ganga brott. en æskulýðurinn hirðir hvorki um boð sé bann, heldur stormar skipið og fyrr en varir er það krökt af forvitnum sálum.
Elliðaey er smíðuð í skipasmíðastöð Alexanders Hall í Aberdeen, og er stærst þeirra nýbyggingartogara, sem enn hafa komið hingað til lands og hefur mestan ganghraða. Stærð 649 smálestir og 177 fet á lengd, eða tveimur fetum lengra en ráð var fyrir gert. Í reynzluför var hraðinn 14,13 sjómílur en vélin mældist 1.560 hestöfl og er það einnig meira en ráð var fyrir gert. Vistarverur allar eru með myndarbrag, skip og tæki öll af því vandaðasta sem þekkist.


Útlitsteikning af B.v. Elliðaey VE 10.                                                               Mynd úr safni mínu.  

Klukkan tvö um daginn hafði útgerðarstjórn boð inni fyrir skipverja ásamt fleiri gestum. Páll Þorbjarnarson útgerðarstjóri lýsti þar skipinu og kvað svo á, að Elliðaey væri sennilega glæsilegasta fiskiskip, sem hlaupið hefði af stokkunum. Þá talaði Jóhann Þ. Jósepsson, en varð síðan að yfirgefa samsætið því hann var á förum til Reykjavíkur. Árni Guðmundsson , sagði frá því að árla þennan morgunn, hefði hann mætt Ársæli Sveinssyni og hefði hann þá látið svo um mælt að þetta væri fegursti morgunn ársins og tók Árni undir það, og bætti við að Ársæll hefði sennilega sagt hið sama þótt rok og rigning hefði verið. Guðjón Scheving talaði um störf þeirra manna, sem hér höfðu rutt brautina með því að hefja mótorbátaútveg og taldi okkur menn að meiri, ef við fetuðum í fótspor þeirra að dugnaði og ráðdeild, er við nú hæfum þennan nýja áfanga. Reis þá Ársæll á fætur og árétti það sem Árni hafði eftir honum haft og kvað þó þann morgunn myndi fegurri verða er næsti togari Vestmannaeyja sigldi í höfn. Allir ræðumenn létu árnaðaróskir dynja á skipi og skipverjum, en Sigurður Stefánsson þakkaði fyrir þeirra hönd, en hann er einn hásetanna. Þegar klukkan nálgaðist fjórða tímann fóru skipsmenn að tygja sig því nú átti almenningur að fá að skoða skipið.


B.v. Elliðaey VE 10 á leið inn í Vestmannaeyjahöfn.                                    Ljósmyndari óþekktur.

Bæjarbúar létu ekki á sér standa að grandskoða eign sína. Fólkið streymdi um borð, inn í hvern krók og kima. Hvað er hér, hvernig er þar. Skipsmenn voru hinir liprustu og opnuðu allar gáttir og hleyptu fólkinu inn. Þeir sem komu í það allra helgasta, klefa skipstjóra fengu staup af víni ef vildu og var ekki örgrannt að sumir kæmu góðglaðir upp úr skipinu, en meiri var vissulega sú gleðin að yfirlíta sitt eigið skip, sem er þá svona glæsilegt. Gaman hefði verið að vita hvað margir hafa stigið um borð þennan tíma frá 4-7 en það hefur áreiðanlega verið meirihluti bæjarbúa. Um kvöldið var efnt til skemmtunar í Samkomuhúsi Vestmannaeyja, var þar flutt stutt lýsing á skipinu og Lúðrasveitin og Karlakórinn skemmtu. Síðan var stiginn dans til kl. 3 um nóttina. Fjöldi fólks sótti þessar skemmtanir enda voru þær ókeypis. Bæjarbúar sýndu við þetta tækifæri mikinn áhuga fyrir þessu fyrsta skipi sem er þeirra sameign. Var að finna sem fólkið treysti því, að hin sameiginlega eign og rekstur væri hið rétta fyrirkomulag slíks atvinnutækis. Ekki er að efa að við þetta skip eru bundnar þær fögru vonir, að það megi verða lyftistöng undir bættan efnahag bæjarbúa og þá um leið aukna menningu. Daginn eftir hingaðkomu skipsins hélt það til Reykjavíkur og verða bræðslutæki sett í skipið þar, en síðan mun það halda á haf út til veiða. Elliðaey, fylgi þér gæfa og gengi.

Eyjablaðið. 8 árg. 14 tbl. 19 september 1947.

06.01.2018 07:08

77. Jón Valgeir ÍS 98. TFCR.

Vélskipið Jón Valgeir ÍS 98 var smíðaður í Djupvik í Svíþjóð árið 1946. Eik 100 brl. 215 ha. Polar diesel vél. Eigandi var Ríkissjóður Íslands frá 15 apríl 1948. Selt 12 október 1952, h/f Vísi í Súðavík. Skipið var í eigu Stofnlánadeildar sjávarútvegsins í Reykjavík 12 október 1955, hét þá Jón Valgeir RE 95. Ný vél (1955) 330 ha. Grenaa díesel vél. Selt 8 desember 1955, Ísbirninum h/f og Þorvaldi Árnasyni í Reykjavík, hét Hafþór RE 95. Ný vél (1960) 390 ha. Lister díesel vél. 16 janúar 1968 er Ísbjörninn h/f einn eigandi skipsins. Skipið var selt 22 janúar 1968, Herði Jónssyni og Jóhanni Halldórssyni í Vestmannaeyjum, hét Andvari VE 100. Skipið var endurmælt í nóvember 1975, mældist þá 91 brl. Selt 15 nóvember 1975, Halldóri Waagfjörð og Ingva G Skarphéðinssyni í Vestmannaeyjum, hét Kári VE 95. Ný vél (1976) 750 ha. Stork Werkspoor díesel vél. Selt 1980, Hafnarbergi h/f í Hafnarfirði, sama nafn og númer. Selt 27 desember 1982, Flangey s/f á Höfn í Hornafirði, sama nafn og númer áfram. Skipið sökk um 2 sjómílur út af Stokkseyri 3 maí árið 1984 eftir árekstur við vélbátinn Hástein ÁR 8 frá Stokkseyri. Áhöfnin, 5 menn, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát og þaðan um borð í Hástein heilir á húfi.


77. Jón Valgeir ÍS 98.                                                                            (C) Sigurgeir B Halldórsson.

      Nýr Svíþjóðarbátur til Súðavíkur

Einn Svíþjóðarbátanna kom nýlega til Súðavíkur. Er hann nefndur Jón Valgeir og eign hlutafélagsins Vísis í Súðavík. Báturinn er 103 brúttósmálestir að stærð og er því stærstur Svíþjóðarbátanna, sem hingað eru komnir. 215 hestafla Atlas dieselvél er í bátnum og gekk hann 8,5 sjómílur á heimleiðinni. Lagði hann af stað frá Svíþjóð 26. september og kom til Súðavíkur 1. þ. m.
Skipstjóri var Njáll Guðmundsson.

Þjóðviljinn. 9 október 1946.


Hafþór RE 95 landar síld á Seyðisfirði.                                                           Ljósmyndari óþekktur.


77. Kári VE 95.                                                                               (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.

  Mannbjörg er Kári VE 95 sökk eftir árekstur                  við Hástein ÁR 8 í gærmorgun
     "Furðulegt hversu fljótt báturinn sökk"

    sagði skipstjórinn á Kára, Sævar Sveinsson

Fimm manna áhöfn vélbátsins Kára VE 95 bjargaðist giftusamlega er skipið sökk eftir árekstur við Hástein ÁR 8 um 1,5 sjómílu út af Stokkseyrarhöfn um kl. 6.30 í gærmorgun. Aðeins tveimur mínútum eftir áreksturinn var Kári horfinn í sæ. Óverulegar skemmdir urðu á Hásteini. Veður á þessum slóðum var hið besta í gærmorgun, hægur andvari og bjartviðri.
Þrír skipverjanna á Kára sváfu í kojum sínum er áreksturinn varð. Matsveinninn var kominn á stjá og skipstjórinn stóð í brúnni. Bátsverjum tókst að kasta út gúmbáti og stukku síðan í sjóinn. Þeir komust allir að skammri stundu liðinni í björgunarbátinn og voru litlu síðar teknir um borð í Hástein, sem sigldi rakleiðis til hafnar. Engan úr sjö manna áhöfn Stokkseyrarbátsins sakaði. Hásteinn var á leið út í netaróður frá Stokkseyrarhöfn þegar áreksturinn varð. Kári var hins vegar að koma úr veiðiferð, þar sem hann hafði fengið 65-70 tonn af góðum fiski í trolli í Meðallandsbugt. "Við vorum á leið út héðan en þeir á leið til Þorlákshafnar, þar sem þeir landa aflanum, er áreksturinn varð," sagði Henning Frederiksen, skipstjóri á Hásteini, þegar blaðamaður Mbl. hitti hann að máli við Stokkseyrarhöfn, þar sem verið var að þétta stefni bátsins í gærmorgun. Henning var í brú Hásteins við áreksturinn. "Skyggni var prýðilegt og besta veður, en ég vil ekki tjá mig um atburðarásina að öðru leyti. Hún kemur fram í sjóprófum. Það kom stórt gat á síðuna á Kára við áreksturinn og hann sökk á innan við tveimur mínútum, enda kjaftfullur af fiski."
"Það er óneitanlega neyðarlegt að svona nokkuð skuli hafa gerst eins og allar aðstæður voru," sagði Sævar Sveinsson, skipstjóri á Kára, er blm. ræddi við hann að heimili hans á Eyrarbakka. "Þetta bar svo brátt að, að ekki var um annað að ræða en drífa mennina upp á dekk og síðan frá borði. Við fórum allir í kaldan sjóinn og vissulega var það óhugnanlegt. Við vorum þó ekki lengi í sjónum áður en við komust í björgunarbátinn. Mér finnst það reyndar furðulegt hve fljótt báturinn sökk." Hvorki Henning né Sævar vildu fara nánar út í tildrög slyssins, en í samtölum við skipverja óskuðu þeir eftir því, að fram kæmi að sleppibúnaður var ekki um borð í Kára.
Báðir bátarnir voru úr eik. Hásteinn er 47 tonn að stærð, byggður í Stykkishólmi 1969. Kári var 100 lesta bátur, smíðaður 1949. Hásteinn landaði á Stokkseyri, Kári í Þorlákshöfn, en bæði skipin voru á leigu hjá Hraðfrystihúsi Eyrarbakka og lögðu afla sinn upp þar. Sjópróf í málinu áttu að hefjast hjá sýsiumannsembættinu á Selfossi kl. 17 í gær.

Morgunblaðið. 4 maí 1984.

05.01.2018 15:19

Merkúr GK 96. TFVE.

Merkúr GK 96 var smíðaður í Assens í Danmörku árið 1949. Eik. 53 brl. 150 ha. Grenaa díesel vél. Eigendur voru Sæmundur Jónsson, Einar Dagbjartsson og Jón Gíslason í Grindavík frá nóvember 1955, en þá var báturinn keyptur til landsins frá Danmörku. Hét áður Merkur E 224 og var gerður út frá Esbjerg í Danmörku. Eigandi frá 1964 var Kjartan Friðbjarnarson í Reykjavík, sama nafn og númer. Báturinn sökk um 9 sjómílur suðvestur af Selvogsvita 15 október 1964. Áhöfnin, þrír menn, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát og var svo bjargað þaðan um borð í breska togarann Real Madrid GY 674 frá Grimsby.


Merkúr GK 96. Þeir virðast vera með hnýsu á síðunni.                               Ljósmyndari óþekktur. 


Breski togarinn Real Madrid GY 674. Hann var smíðaður árið 1961. 441 brl. Hann var einn af hinum svokölluðu "fótboltatogurum" bresku, en hann var sá eini þeirra sem hét eftir erlendu liði.
(C) James Cullen.

         V.b. Merkúr sökk út af Selvogi
        Brezkur togari bjargaði áhöfninni

Vélbáturinn Merkúr GK-96, 53 tonn, eign Kjartans Friðbjarnarsonar í Reykjavík, sökk í gærkveldi 8 til 9 sjómílur suðvestur af Selvogsvita. Áhöfnin komst í gúmmíbát og var bjargað um borð í brezka togarann Real Madrid frá Grimsby, sem kom á staðinn um klukkustund eftir að sent hafði verið út neyðarkall, er leki var kominn að Merkúr. Þrír menn voru á bátnum, sem stundaði lúðuveiðar. Skipstjóri var Ólafur Kristinsson frá Vestmannaeyjum. Merkúr sendi út neyðarkall kl. 18.40 og tilkynnti þá að leki væri kominn að bátnum og áhöfnin mundi fara í gúmmíbátinn. Mörg skip voru á þessum slóðum og svöruðu kallinu. Real Madrid var næst og tók því mennina um borð. Grindavíkurbáturinn Þórkatla lét þegar úr höfn og hefði verið komin á staðinn um kl. 21,  en hún sneri aftur til Grindavíkur, er búið var að bjarga áhöfn Merkúrs.
Togarinn Karlsefni átti eftir 20 mínútna siglingu á slysstaðinn er Real Madrid kom að. Um kl. 10 tók varðskipið Albert skipsbrotsmennina um borð og hélt með þá áleiðis til Reykjavíkur. Var áætlað að þeir kæmu þangað um kl. 23.00 í nótt.

Morgunblaðið. 16 október 1964.

Flettingar í dag: 299
Gestir í dag: 86
Flettingar í gær: 2133
Gestir í gær: 252
Samtals flettingar: 1051482
Samtals gestir: 75999
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:41:02