Færslur: 2018 Júní
30.06.2018 21:45
Landað úr skuttogaranum Barða NK 120.
Skuttogarar
til Austfjarða.
Í þessum mánuði bættust tveir skuttogarar í flota
Austfirðinga, fyrstu skipin þeirrar tegundar, sem Austfirðingar eignast. Hér er
um systurskip að ræða, 494 tonn eftir eldri mælingareglum með 1200 ha Deutz
aðalvél og þrjár ljósavélar af franskri gerð. Bæði eru skipin smíðuð árið 1967
og eru keypt hingað frá Frakklandi. Öll siglingatæki eru ný. Skipin eru tveggja
þilfara þannig að fiskaðgerð fer fram í lokuðu rúmi. Eigendur annars skipsins,
Barða NK 120, er Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað, en hitt, Hólmatind SU 220, á
Hraðfrystihús Eskifjarðar hf. Það var 14 desember, að Barði kom til
Norðfjarðar. Skipstjóri á honum er Magni Kristjánsson, 1. stýrimaður er ráðinn
Birgir Sigurðsson og 1. vélstjóri Sigurður Jónsson, allir í Neskaupstað.
Talsverðar breytingar verða gerðar á skipinu og verða þær framkvæmdar af
Dráttarbrautinni hf. Er hér einkum um að ræða breytingar á matsal og eldhúsi
til samræmis við kröfur okkar, færibönd fyrir fisk á milliþilfar, smábreytingar
í lestum og gerð ísgeymsla á milliþilfari. Loks verður skipið útbúið til veiða
með flotvörpu. Vinna við breytingarnar hófst skömmu eftir komu skipsins og
sækist verkið mjög vel og er gert ráð fyrir að skipið geti farið á veiðar eftir mánuð hér frá. Hólmatindur kom til
Eskifjarðar 22 desember. Breytingar þær,
sem á skipinu verða gerðar, munu mestallar framkvæmdar á Eskifirði. Skipstjóri
á Hólmatindi verður Auðunn Auðunsson, nafnkunnur togaraskipstjóri, 1. vélstjóri
Guðmundur Valgrímsson úr Reykjavík, en 1. stýrimaður hefur ekki enn verið
ráðinn. Menn vænta mikils af þessum skipum. Talið er, að skuttogarar hafi mun
meiri möguleika til að fiska en síðutogarar. Mætti því ætla að afkoma þeirra
verði betri og sjómannahlutur hærri. Þá er þess og vænzt, að útgerð þeirra
verði til að lengja til muna árlegan reksturstíma frystihúsanna og mynda
traustari rekstursgrundvöll fyrir þau og auka á atvinnuöryggi verkafólks.
Austurland. 30 desember 1970.
1137. Barði NK 120 á leið inn Norðfjörð með fullfermi. (C) Sigurður Arnfinnsson.
Fyrsta
veiðiferðin.
Á miðvikudagsmorgun kom Barði úr sinni fyrstu veiðiferð sem
íslenzkt skip. Hafði hann aðeins verið úti nokkra daga og oft verið bræla. Afli
skipsins var um 40 tonn. Allur útbúnaður reyndist í lagi og láta skipverjar vel
af skipinu og vinnuaðstöðu um borð. Hólmatindur, Eskifirði, er nú í sinni
fyrstu veiðiferð eftir að skipið komst í eigu Íslendinga.
Austurland. 19 febrúar 1971.
24.06.2018 07:03
927. Þorsteinn NK 79. TFMU.
Vélbáturinn Þorsteinn NK 79 var smíðaður hjá Frederikssund Skibswærft A/S í Frederikssund í Danmörku árið 1946. Eik. 37 brl. 100 ha. Hundested vél. 15,25 x 5,12 x 2,20 m. Báturinn var gerður út frá Danmörku til ársins 1954 af þarlendum, þar til hann var seldur Skildi h/f á Siglufirði í mars það ár. Hét fyrst Björg SI 96 hér á landi. Seldur 18 febrúar 1959, Jóhannesi Jóhannessyni í Keflavík, hét Þorsteinn KE 79. Ný vél (1959) 215 ha. MWM díesel vél. Seldur 10 desember 1961, Stapa hf í Neskaupstað, sem Samvinnufélag Útgerðarmanna (S.Ú.N) í Neskaupstað átti að stórum hluta. Seldur 1965, Eyrum hf á Eyrarbakka, sama nafn og númer. Seldur 1968, Rafni Péturssyni á Flateyri, sama nafn og númer. Sama ár er báturinn kominn í eigu útibús Landsbankans á Ísafirði. Seldur 8 apríl 1969, Sigurpáli Aðalgeirssyni, Ólafi Sigurpálssyni og Sverri Vilbergssyni í Grindavík, báturinn hét Vörðunes GK 45. Seldur 22 nóvember 1971, Skúla Magnússyni Langholti í Vestur Skaftafellssýslu og Sigurði Rúnari Steingrímssyni í Grindavík, sama nafn og númer. Seldur 23 desember 1975, Magnúsi Þorlákssyni, Jóni Sæmundssyni og Jóni Ásgeirssyni í Grindavík, hét Hafursey GK 84. Báturinn sökk út af Reykjanesi 3 október árið 1976. Áhöfnin, 2 menn, bjargaðist um borð í olíuflutningaskipið Kyndil frá Reykjavík. Það var svo Hrafn Sveinbjarnarson ll GK 10 sem kom með mennina til Reykjavíkur.
Leit hafin af rækjumiðum í Eyjafjarðarál
Hafrannsóknarskip fann þar rækju 1948
en miðin hafa aldrei verið könnuð fyrr
Siglufirði. Frá fréttaritara Þjóðviljans. Verið er þessa dagana að útbúa vélbátinn Björgu SI 96, til leitar að rækjumiðum. Er ætlunin að leita á 240- 440 metra dýpi í Eyjafjarðarál og hér í grennd við Siglufjörð. Árið 1948 varð hafrannsóknaskipið Dana vart við rækjur í Eyjafjarðarál, en það hefur ekkert verið kannað til hlýtar hvort um nokkurt magn hafi verið að ræða þar. Björg er tilbúin á veiðar í dag og er ráðgert að halda leitinni áfram í 3 vikur a.m.k. eftir því sem veður leyfir. Skipstjóri á Björgu verður Jón H. Jónsson frá Ísafirði. Fiskimálasjóður hefur veitt styrk til þessara tilrauna, enda er hér um að ræða könnun á nýrri atvinnugrein hér í bæ, sem ef vel gæfist myndi skapa mikla atvinnu í landi og töluvert útflutningsverðmæti.
Þjóðviljinn. 23 september 1954.
Þorsteinn NK 79 að landa afla sínum í Grimsby árið 1963. (C) Jón Ólafur Þorsteinsson.
Seldi fyrir 899 þús. krónur í 4 ferðum
Neskaupstað, 23. September. Vélbáturinn Þorsteinn frá Neskaupstað, 38 tonn að stærð, hefur nú farið 4 söluferðir til Englands í sumar, í þessum ferðum hefur hann selt fyrir 899 þúsund krónur og gerir það 17,60 á hvert kíló af fiski þeim sem hann seldi, mest megnis rauðsprettu, sem var ísuð í lest. Síðasta ferð Þorsteins tók 16 daga frá því hann fór héðan og þar til hann var kominn aftur. Tafðist báturinn af þrálátum stormum.
Morgunblaðið. 24 september 1963.
927. Hafursey GK 84. Ljósmyndari óþekktur.
Hafursey hvarf í djúpið er skammt var til lands
Börðust í fjóra tíma við að halda bátnum á floti
Seint í gærkvöldi sökk vélbáturinn Hafursey GK 84 suður af Reykjanesi, eftir að tveir menn sem voru á bátnum svo og skipverjar á olíuskipinu Kyndli og vélbátnum Hrafni Sveinbjarnarsyni, höfðu í nær fjóra tíma hamast við að halda bátnum á floti og koma honum í höfn. Hafursey fór frá Grindavík um klukkan fimm í gærdag og var hugmyndin að sigla til Njarðvíkur. Þegar komið var norður fyrir Reykjanes, tilkynntu skipverjar loftskeytastöðinni í Reykjavik, að leki væri kominn að bátnum og báðu um aðstoð. Í ljós kom að olíuskipið Kyndill var þarna á næstu slóðum og hélt hann þegar á staðinn. Náðu skipverjar að koma taug yfir í Hafursey og var síðan snúið við og haldið aftur til Grindavíkur. Sú ferð gekk seint því að þungt var í sjó og erfiðlega gekk að stöðva lekann í Hafursey. Vélbáturinn Hrafn Sveinbjarnarson ll, hélt á móti skipunum frá Grindavík, en gat litla aðstoð veitt. Um klukkan átta í gærkvöldi voru skipverjarnir tveir á Hafursey dregnir á gumbát yfir í Kyndil, en um klukkan ellefu hvarf Hafursey í djúpið. Hafursey sem áður hét Vörðunes GK var 37 tonna eikarbátur, byggður í Danmörku árið 1946.
Vísir. 4 október 1976.
"Vorum aldrei í neinni hættu"
"Það var ágætt veður allan tímann en dálítil kvika, en við vorum aldrei í neinni hættu", sagði Magnús Þorláksson skipverji á Hafursey GK sem sökk í gærkvöldi, er Visir ræddi við hann í morgun. "Eftir að við höfðum tilkynnt um leka kom olíuskipið Kyndill og tók okkur í tog. Það hefur verið um hálf átta leytið. Þegar hann byrjaði að toga virtist okkur sem lekinn ykist. Við höfðum björgunarbát tilbúinn á dekkinu og þegar báturinn lagðist á hliðina þorðum við ekki annað en fara að yfirgefa bátinn og fórum í gúmmíbátnum yfir í Kyndil. Það var svo um ellefu leytið í gær að báturinn sökk. Okkur varð ekkert meint af þessu. Blotnuðum aðeins þegar við fórum um borð í gúmmibátinn, en svo fór ágætlega um okkur um borð í Kyndli"
Vísir. 4 október 1976.
10.06.2018 11:09
1345. Blængur NK 125. TFXD.
Freri fékk nafnið Blængur
Síldarvinnslan
hf. hefur keypt frystitogarann Frera RE-73 af Ögurvík hf. og gerir hann
nú út undir nafninu Blængur NK-125. Skipið hefur legið í Reykjavíkurhöfn
síðustu ár eftir að Ögurvík lagði honum, að eigin sögn vegna hárra veiðigjalda.
Nú heldur það aftur á miðin frá Neskaupstað.
Stefnt var að því að fara fyrsta túrinn frá Neskaupstað í gær, undir skipstjórn
Sigtryggs Gíslasonar. Tuttugu og fjögurra manna áhöfn er um borð og verður
hann gerður út á ufsa, grálúðu og annan botnfisk, segir Gunnþór Ingvason,
framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, í Morgunblaðinu í dag.
Mbl.is
11 júlí 2015.
1345. Blængur NK 125 við Grandagarð. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 12 júlí 2015.
1345. Blængur NK 125 við Slippstöðvarbryggjuna á Akureyri. (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.
Frystitogarinn
Blængur NK verulega breyttur Hér er allt stórt og öflugt
segir Bjarni Ólafur Hjálmarsson, skipstjóri
Frystitogarinn Blængur NK, sem er í eigu Síldarvinnslunnar í
Neskaupstað, er kominn á veiðar eftir viðamiklar breytingar og endurbætur. "Það
má segja að hér hafi allt verið hreinsað út nema vélin. Þetta er eins og að
vera á nýju skipi," sagði Bjarni Ólafur Hjálmarsson, skipstjóri að lokinni
fyrstu veiðiferð eftir breytingar. Blængur er nú á gullkarfaveiðum djúpt suður
af landinu en þar er nú farið að veiðast vel. Blængur NK hét áður Freri RE og
þar á undan Ingólfur Arnarson RE. Skipið var smíðað á Spáni árið 1973 og var
fyrst í eigu Bæjarútgerðar Reykjavíkur en síðan eignaðist Ögurvík skipið.
Togarinn var lengdur árið 2000 og er nú tæplega 79 metrar og í honum er 5000
hestafla Wartsila aðalvél. Síldarvinnslan í Neskaupstað eignaðist skipið árið
2015 og snemma á síðasta ári var því siglt til Póllands þar sem skipið var
sandblásið og málað.
Allar innréttingar voru hreinsað út og endurnýjaðar í brú
skipsins, áhafnarklefar sömuleiðis endurnýjaðir, millidekk sandblásið og málað
og breytingar gerðar í lest, m.a. steypt nýtt gólf. Ný löndunarlúga var sett á
skipið. Sett var hliðarskrúfa á skipið og er hún af gerðinni DTG sem Ásafl ehf. hefur
umboð fyrir hér á landi. Allir ljóskastarar á skipinu eru nýir og með LED
tækni. Skjáir voru endurnýjaðir í stjórnpúlti skipstjóra í brú og er í skipinu
nýr Furuno dýptarmælir og JRC straummælir. Að loknum breytingunum í Póllandi
var skipinu siglt til Akureyrar þar sem síðari áfanga verkefnsins var lokið nú
upp úr áramótum. Settur var niður vinnslubúnaðar á millidekki en hluti hans var
áður í frystitogaranum Barða NK í eigu sömu útgerðar. Slippurinn Akureyri ehf.
hafði þann áfanga með höndum og smíðaði hluta vinnslubúnaðar. Rafeyri ehf.
annaðist raflagnaþáttinn og Kælismiðjan Frost ehf. sá um frystibúnaðinn. Blængur er útbúinn til flakafrystingar og áætla skipstjórnendur að frysta alla
jafna um 1600 kassa á sólarhring. Sú breyting verður í Blæng frá því sem
áhöfnin var áður vön í Barða að í skipinu er búnaður til að ganga frá kössum á
bretti uppi á vinnsludekki og er plastfilma sett utan um brettið áður en
lyftibúnaður skilar því niður í lest. Frá afurðum er því gengið tilbúnum á
bretti í lest að lokinni vinnslu og flýtir það talsvert fyrir þegar landað er
úr skipinu. Rafmagnslyftari er í lestinni og því fljótgert að ganga frá brettum
í stæður jafnóðum og þau berast frá vinnslunni. Í lestina er áætlað að komist
um um 20 þúsund kassar.
Bjarni Ólafur Hjálmarsson og Theódór Haraldsson eru skipstjórar á Blæng NK og
voru hæstánægðir með reynsluna sem komin er á skipið eftir breytingarnar.
"Þetta er mikil breyting frá Barða NK, skipið er auðvitað mun stærra og allt
mjög öflugt hér um borð. Við höfum fengið góða reynslu á vinnsluna og förum nú
á gullkarfaveiðar. Það eru næg verkefni framundan fyrir okkur," segja
skipstjórarnir á Blæng NK.
Ægir. 2 tbl. 1 febrúar 2017.
1345. Freri RE 73 við bryggju í Örfirisey. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 19 maí 2013.
Um borð í Frera RE 73 við Grandagarð. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
Skuttogarinn
Ingólfur Arnarson fær nýtt nafn
Freri skal hann heita
Ögurvík, hinn nýi eigandi skuttogarans Ingólfs Arnarsonar,
hefur nú, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, ákveðið að gefa honum nafnið
Freri. Skipinu verður breytt í frystiskip og þykir því nafnið Freri vel við
hæfi. Skrásetningarnúmer skipsins verður RE 73. Auk Frera á Ögurvík og gerir út
skuttogarana Vigra RE 71 og Ögra RE 72.
Morgunblaðið. 9 mars 1985.
1345. Freri RE 73 í slipp. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 27 september 2014.
Freri verður
frystitogari
Slippstöðin á Akureyri hefur samið við útgerðarfélagið
Ögurvík hf. í Reykjavík um að breyta togaranum Frera RE í frystitogara. Freri
hét áður Ingólfur Arnarson og var í eigu Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Freri kom
til Akureyrar fyrir helgina og er talið að vinna við breytingarnar taki a.m.k.
fjóra mánuði. Vegna þessa verkefnis sá Slippstöðin sér ekki fært að bjóða í
endurbæturnar og viðgerðina á togaranum Bjarna Herjólfssyni sem Útgerðarfélag
Akureyringa hefur fest kaup á og í framtíðinni mun bera nafnið Hrímbakur EA.
Dagur. 29 apríl 1985.
1345. Freri RE 73 í slipp. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 27 september 2014.
Skuttogarinn Freri RE 73 fljótandi fiskvinnslu og frystihús
Hægt að frysta allt að 45 tonn á sólarhring
Hið hrollkalda nafn Freri hæfir vel fyrrum Spánartogara
Bæjarútgerðar Reykjavíkur, Ingólfi Arnarssyni, 1.000 tonna skuttogara sem
Slippstöðin á Akureyri hefur nýlega lokið við að breyta í fullkominn
frystitogara. Fljótandi fiskvinnslu- og frystihús. Freri RE 73 er í eigu
Ögurvíkur hf., og að sögn framkvæmdastjórans, Gísla Jóns Hermannssonar, er hægt
að frysta um borð í skipinu allt að 45 tonnum af flökum á sólarhring. Í um það
bil 250 fermetra vinnslusal ægir saman vélum og færiböndum og virðist allt renna
saman í eina sundurlausa bendu. En það er öðru nær. Þarna ræður skipulagið
ríkjum. Úr trollinu kemur sjóvolgur þorskurinn inn á blóðgunarborð, fer þaðan í
aðgerðarvél, þar sem hann er slægður og hausaður, síðan á færibandi inn í
flökunarvél, í gegnum roðflettara, inn á ljósaborð þar sem ormarnir eru tíndir
úr honum, upp á vikt, í pökkunarvél og frystitæki og loks niður í frystigeymslu
í iðrum skipsins. Framhaldið þekkja allir: flutningaskip siglir með hann vestur
um haf þar sem hungraðir gestir Long John Silver bíða spenntir yfir
hvítvínsglasi eftir að borinn sé fyrir þá gómsætur pönnusteiktur þorskur af
íslandsmiðum. Og þjóðin fær skotsilfur í erlendri mynt til að eyða á börum við
Spánarstrendur. Um borð í Frera er 26 manna áhöfn. Brynjólfur Halldórsson skipstjóri
sagði að nóg væri að 10 manns væru á vakt í einu, 4 til að taka inn trollið og
6 í móttökunni inni í vinnslusalnum. Freri heldur líklega á miðin nk.
laugardag.
Morgunblaðið. 31 október 1985.
Skuttogarinn Ingólfur Arnarson RE 201 við bryggju á Akureyri árið 1985. Ljósmyndari óþekktur.
Ingólfur
Arnarson kominn til landsins
Sagt er, að landnámsmaðurinn Ingólfur Arnarson hafi komið
til Íslands árið 874. Nú, 1100 árum síðar, er annar Ingólfur Arnarson kominn
til landsins, Þótt fátt eigi þessir tveir Ingólfar annað sameiginlegt en
nafnið, nema ef vera skyldi, að hinn fyrri hafi einnig haft til að bera
glæsileik á borð við skuttogarann Ingólf Arnarson, sem lagðist fánum prýddur að
Ægisgarði síðdegis í gær. Ingólfur Arnarson er þriðji skuttogarinn, sem
Bæjarútgerð Reykjavíkur kaupir frá Spáni, hin tvö fyrri eru Bjarni Benediktsson
og Snorri Sturluson, og er skipið að allri gerð og stærð nákvæmlega eins og
systurskipin tvö, eða um 960 brúttólestir. Töluvert fjölmenni var komið um borð
í skipið, er blaðamann og ljósmyndara Morgunblaðsins bar að garði og því ekki
hlaupið að því að ná tali af skipstjóranum Sigurjóni Stefánssyni. Um síðir
tókst okkur þó að króa hann af í brúnni ásamt fjölskyldunni og spurðum hann um
skipið og ferðina heim.
"Ferðin heim gekk mjög vel, og ég er í alla staði mjög ánægður með skipið. Ég
er bjartsýnn á, að það eigi eftir að reynast mjög vel og ég held, að ég slái
því bara föstu, að það reynist eins vel og gamli Ingólfur Arnarson." Gert er
ráð fyrir, að áhöfnin verði um 24-25 menn og eru vistarverur allar í skipinu
hinar glæsilegustu, þannig að ekki ætti að væsa um sjómennina um borð. 1.
vélstjóri á Ingólfi Arnarsyni er Kristinn Hafliðason.
Morgunblaðið. 25 janúar 1974.
Ingólfur Arnarson RE 201. Líkan. (C) Arnar Sigurðarson.
Togarar BÚR
Hinn nýjasti af skuttogurum BÚR, Ingólfur Arnarson, kom úr
sinni fyrstu veiðiferð í gær með milli 220 og 230 tonn af mjög góðum fiski,
mest þorski. Ingólfur var 16 daga í túrnum, en mun hafa verið við veiðar í 12
daga, oft í slæmu veðri. Verður ekki af þessum skipum skafið, að þau eru góð
sjóskip, hvað svo sem segja má um þau að öðru leyti. Að sögn Marteins
Jónassonar, framkvæmdastjóra BÚR, er aflaverðmætið eftir þessa ferð um 6
milljónir, gróflega útreiknað. Aðspurður sagði Marteinn, að Snorri Sturluson
hafi farið í veiðiferð síðasta föstudag, en Bjarni Benediktsson á laugardag.
Sagði hann að allt væri í lagi um borð í báðum skipunum, og engar bilanir hefðu
komið upp nýlega.
Síðutogarinn Hjörleifur kom frá Grimsby í gær, þar sem hann seldi 2450 kit
fyrir rúm 34 þús. pund, og var meðalverðið 44-45 kr. fyrir kilóið. Þormóður
goði fór á veiðar laugardaginn 2. marz. Skuttogarinn Júní kom til Hafnarfjarðar
í fyrradag með 190 tonn og þá var Vestmannaey einnig væntanleg.
Tíminn. 14 mars 1974.
09.06.2018 18:13
M. s. Gullfoss ll. TFGA. Líkan.
08.06.2018 09:59
457. Gissur hvíti SF 55. TFHW.
Vélskipið Gissur hvíti SF 55. (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.
Nýr bátur
til Hornafjarðar
Höfn í Hornafirði, 13. febrúar. Í gær kom til Hornafjarðar
nýr bátur, er byggður er í Svíþjóð úr eik. Báturinn er 71 smálest brúttó, búinn
öllum fullkomnustu siglingartækjum, svo sem radar og asdic-dýptarmæli. Vélin er
400 ha Mannheim-diesel vél og auk þess er 11 ha. ljósavél. Í bátnum er
olíudrifið rafmagnsstýri. Báturinn fékk gott veður á leiðinni, og var fjóra
sólarhringa frá Skagen til Hornafjarðar. Guðni Jóhannsson skipstjóri, úr
Reykjavík, sigldi bátnum upp. Eigendur eru Óskar Valdimarsson og Ársæll
Guðjónsson.
Morgunblaðið. 14 febrúar 1958.
Gissur hvíti SF 55 til vinstri að landa síld á Siglufirði. (C) Hannes Baldvinsson.
Nýr bátur í
hörðum árekstri
Hornafirði, 28. febrúar. Það mikla óhapp vildi til á
mánudagskvöldið að harður árekstur varð milli tveggja báta og stórskemmdist
annar þeirra. Slys varð ekki á skipsmönnum. Árekstur þessi varð í rennunni, sem
liggur út frá bryggjunni hér. Vélskipið Gissur hvíti, sem er nýr glæsilegur
fiskibátur, var að leggja af stað í róður. Fór hann með hægri ferð út rennuna.
Vélskipið Pálmar frá Seyðisfirði var að koma inn í mynni rennunnar þegar
áreksturinn varð, en við hann urðu gífurlegar skemmdir á Gissuri hvíta, er
stefni Seyðisfjarðarbátsins kom á hann. Gissur hvíti var þó sjófær eftir
áreksturinn og strax um nóttina var honum siglt til Neskaupstaðar þar sem
bráðabirgðaviðgerð fer fram. Er gert ráð fyrir, að hún taki um það bil
vikutíma.
Morgunblaðið. 4 mars 1958.
Gissur hvíti SI 55 á strandstað við Brjánslæk. (C) Tryggvi Sigurðsson.
Gissur hvíta rak á land í óveðri
Gissur hvíti skelfisksskip Barðstrendinga eyðilagðist í
flóði og ofviðri þegar hann slitnaði af legufærum sem hann var festur við og
rak í fjöru. Gissur sem er 70 tonna skip var metinn á 10 milljónir króna. Er
þetta í þriðja sinn á fáum árum sem Barðstrendingar tapa útgerðarflota sínum í
óhappi sem þessu.
NT. 9 mars 1985.
07.06.2018 07:53
549. Harpa RE 177.
Harpa ÍS 42. Var djúpbátur á Ísafjarðardjúpi um skeið. Ljósmyndari óþekktur.
Vélbáturinn
Harpa RE 177
Vélbátur, sem heitir Harpa, er nýlega kominn hingað til
Reykjavíkur. Báturinn hefir verið smíðaður í Bergen, og ber 30 smálestir. Eiga
þeir hann bræðurnir, Magnús Thorberg og Helgi Helgason hjá Zimsen. Formaður er
Andrés Guðnason og sigldi hann bátnum hingað á 6 sólarhringum. Mun það vera hin
hraðasta vélbátsferð milli Íslands og útlanda.
Morgunblaðið. 28 maí 1916.
05.06.2018 21:42
Cuxhaven NC 100. við bryggju á Akureyri á sjómannadaginn.
Cuxhaven
NC 100 heldur í sína fyrstu veiðiferð.
Cuxhaven NC 100 nýtt skip Deutsche
Fischfang Union, dótturfélags Samherja í Þýskalandi hefur haldið á veiðar.
Cuxhaven NC100 sem hannað er af Rolls Royce er 81,22m langt og 16m breitt,
smíðað í Mykleburst skipasmíðastöðinni í Noregi. Cuxhaven er fyrsta nýsmíði
Deutsche Fischfang Union í 27 ár en það skip bar einnig nafnið Cuxhaven.
Eigendur Samherja ásamt Haraldi
Grétarssyni framkvæmdastjóra Deutsche Fischfang Union og Óskari Ævarssyni
útgerðastjóra tóku á móti skipinu 15.ágúst sl. í Álasundi. Þá voru veiðarfæri
tekin um borð og skipið gert klárt að öðru leyti. Cuxhaven hélt svo til veiða í
Barentshafi 20.ágúst. Skipstjórar eru Stefán Viðar Þórisson og Hannes
Kristjánsson.
Cuxhaven er afar vel búið á allan hátt
bæði hvað varðar vélbúnað, vinnslu og aðbúnað áhafnar sem getur orðið allt að
35 manns. Með nýjustu tæknilausnum er skipið mun hagkvæmara í rekstri og
umhverfisvænna en eldri skip. Vinnsludekk er hannað og smíðað af Slippnum á
Akureyri og hefur búnað m.a. frá Vélfag á Ólafsfirði.
"Þetta eru mikil tímamót í rekstri
DFFU hér í Þýskalandi. Meðal annars hefur allur aðbúnaður áhafnar og
vinnuaðstaða verið stórbætt. Það er mikil áskorun að fá allt til að virka í
svona tæknilega flóknu skipi og næstu vikur verða því spennandi hjá okkur,"
segir Haraldur Grétarsson framkvæmdastjóri Deutsche Fischfang Union GmbH.
Af heimasíðu Samherja hf. 25 ágúst 2017.
05.06.2018 20:18
Hátíð hafsins í Reykjavíkurhöfn.
03.06.2018 08:48
Sjómannadagurinn.
Fyrsti sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur 6. júní árið
1938 og er hann séríslenskur hátíðisdagur. Sjómenn höfðu um langan aldur gert
sér glaðan dag í vertíðarlok á lokadegi að vorinu. Eflaust hafa ýmsir velt
þeirri hugmynd fyrir sér að haldinn yrði árlegur hátíðisdagur sem allir
sjómenn, jafnt fiskimenn sem farmenn, gætu tekið þátt í. Hugmyndin að
sjómannadeginum er rakin til Henrys Hálfdanssonar þótt fleiri komi við sögu.
Hann var loftskeytamaður á togaranum Hafsteini vorið 1929 og ræddi þá við stýrimann
skipsins um að hann ætti sér þann draum að sjómenn myndu helga sér einn dag á
vori sem nefndur væri sjómannadagur. Hugmynd hans var sú að haldinn yrði
árlegur minningardagur um drukknaða sjómenn og þeim yrði reistur veglegur
minnisvarði. Markmiðið yrði að auka skilning þjóðarinnar á hinu áhættusama
starfi sjómannsins og jafnframt að auka veg og virðingu stéttarinnar.
Ég óska öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra nær og fjær innilega til hamingju
með daginn og megi þeir og landsmenn allir njóta hans vel.
5 af togurum H.B. Granda hf við bryggjuna í Örfirisey í gærmorgun. Þau eru frá v: Helga María AK 16, Akurey AK 10, Engey RE 1, Höfrungur lll AK 250 og Örfirisey RE 4. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
Sjötti Grandatogarinn og sá nýjasti í flotanum, 2895. Viðey RE 50. TFJI við Bótarbryggju ásamt skipi Landsbjargar, Sæbjörginni. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 2 maí 2018.
Frystitogari Brims, Brimnes RE 27 nýlagstur við Grandagarð. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 2 maí 2018.
Frystitogarinn Guðmundur í Nesi RE 13 við Grandagarð. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 2 maí 2018.
Frystitogarinn Örfirisey RE 4 við samnemda bryggju. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 2 júní 2018.
Um borð í b.v. Ottó N Þorlákssyni RE 203 við Ægisgarð. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 2 maí 2018.
Á Grandagarði í gærmorgun. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 2 maí 2018.
Íslendingar
og hafið
Sjómannadagurinn
Fyrsti fundur fulltrúa sjómannafélaganna um stofnun og aðild
að "Sjómannadagssamtökum" var haldinn í Oddfellowhúsinu í Reykjavík 8.
marz 1937 og mættu á þeim fundi fulltrúar níu félaga. Formleg stofnun
Fulltrúaráðs Sjómannadagsins í Reykjavík og Hafnarfirði verður hins vegar að
teljast 27. febrúar 1938, en þá mættu til fundar 22 fulltrúar frá eftirtöldum
11 félögum. Félögin voru þessi:
Skipstjórafélagið Ægir,
Vélsfjórafélag Íslands,
Skipstjóra og stýrimannafélag Reykjavíkur,
Sjómannafélag Hafnarfjarðar,
Skipstjórafélagið Aldan,
Skipstjórafélag Íslands,
Sjómannafélag Reykjavíkur,
Skipstjórafél. Kári, Hafnarf.,
Stýrimannafélag Íslands,
Félag Ísl. loftskeytamanna og
Matsveina- og veitingaþjónafélag Íslands.
Á þessum fundi var kjörin stjórn fyrir samtökin og var þessi fyrsta stjórn
þannig skipuð:
Formaður Henry Hálfdánarson,
varaform. Björn Ólafsson,
ritari Sveinn Sveinsson,
vararitari Geir Sigurðsson,
gjaldkeri Guðmundur H. Oddsson,
varagjaldkeri Þorgrímur Sveinsson.
Þessi fyrsta stjórn undirbjó og stóð fyrir hátíðahöldunum á 1. Sjómannadaginn,
sem haldinn var hátíðlegur 6. júní 1938 og vakti fádæma athygli. Vakti fyrsti
Sjómannadagurinn athygli, var það ekki síður með þann næsta. Þá sýndu þessi
samtök það stórfellda afrek, að stofna til sýningar um þróun íslenzkra
sjávarútvegsmála, sem undirbúningur var hafinn að í sambandi við fyrsta
Sjómannadaginn, og var sýning þessi, að margra áliti einhver bezta og
eftirtektarverðasta sýning fyrir almenning, sem hér hafði verið haldin. Fyrst
var aðeins gert ráð fyrir að hafa sýninguna opna um hálfsmánaðar skeið, en
niðurstaðan varð sú, að sýningin var opin um tveggja mánaða skeið við mikla
aðsókn. Hið opinbera studdi þessa menningarviðleitni Sjómannasamtakanna með
myndarlegu fjárframlagi, en sjálfir lögðu sjómenn fram gífurlega vinnu til að
gera sýninguna sem bezt úr garði. Úr þessu urðu sjómannadagssamtök til í öllum
helztu ver- og útgerðarstöðum landsins, þótt þau sem starfað hafa úti um land
hafi ekki haft á prjónunum jafn stórkostleg verkefni og samtökin hér í
Reykjavík og Hafnarfirði, hefur víða verið unnið að ýmsum menningarframkvæmdum
á viðkomandi stöðum.
Sjómannablaðið Víkingur. 5 tbl. 1 maí 1968.
- 1