Dane H 227 var smíði númer 211 hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1911 fyrir Imperial Steam Fishing Co Ltd í Hull. 346 brl. 580 ha. 3 þjöppu gufuvél frá Amos & Smith Ltd í Hull. Dane var tekinn í þjónustu breska sjóhersins 15 apríl 1915 sem tundurduflaslæðari, hét þá Dane ll FY 1340. Togaranum var skilað til eigenda sinna 12 mars árið 1919 og fékk sitt gamla nafn og númer. Seldur árið 1920, Hellyers Bros Ltd í Hull, hét Dane H 227 eins og áður. Seldur 6 janúar 1928, Christenson & Co Ltd í Hull. Seldur 1931, Dane Fishing Co Ltd í Hull. Seldur 1934, Henry Elliott & Sons Ltd í Fleetwood. Seldur 1935, H. Elliott & Sons Trawlers Ltd í Fleetwood. Seldur 1939, Prince Fishing Co Ltd í Hull ( Hellyers bros Ltd Hull ). Tekinn í þjónustu breska sjóhersins 10 janúar 1940 sem tundurduflaslæðari eins og hann gerði í fyrra stríði, hét þá Dane FY 554. Seldur árið 1943, Harry Markham Cook Ltd í Grimsby. Skilað til eigenda í janúar 1946. Eftir 29 nóvember 1946 heitir togarinn Dane GY 417. Seldur 28 maí 1947, Drum Fishing Co Ltd Granton í Edinborg Skotlandi, hét þar Drumsheugh GN 37. Seldur í febrúar 1954 í brotajárn til Bisco, Malcolm Brecin í Granton og var rifinn þar.
Dane H 227. Ljósmyndari óþekktur, mynd í minni eigu.
Drumsheugh GN 37. (C) National Railway Museum, York, Yorkshire England.
Hellyers Bros Ltd í Hull (Hellyersbræður) komu til Hafnarfjarðar á árinu 1924, höfðu þeir samning við bæjaryfirvöld um að meiga reka togara sína út frá bænum í 10 ár og borga af þeim útsvar, 2 þúsund kr. á skip miðað við vertíðarúthald. Til að gera langa sögu stutta, að á haustmánuðum árið 1929, sigldu allir togarar Hellyers burt úr bænum og sá síðasti, Imperialist H 43 sigldi burt 21 nóvember það ár. Margir vildu eigna það krötunum í Hafnarfirði hvernig fór, að þeir hafi skattlagt þá burt. Það má nefna það líka, að á þessum tíma var verkfallsáráttan orðin landlæg hér á landi og þeir óttuðust þennan sífellda ófrið og sigldu því burt haustið 1929 eins og fyrr segir. Á þessum 5 árum voru Hellyersbræður stærstu atvinnurekendur í Hafnarfirði, gerðu þaðan út 6 til 7 togara í einu, ásamt því að vera með mikla fiskverkun í bænum.
Dane H 227 var einn af þeim togurum sem Hellyers gerði út frá Hafnarfirði. Togararnir voru með íslenskar áhafnir fyrir utan breskan flagg skipstjóra og vélalið. Alexander Jóhannesson 1884-1974 frá Skáney í Borgarfirði var lengi skipstjóri á Dane. Í Halaveðrinu var Alexander með Dane. Togarinn hafði verið að veiðum á Halanum í janúarmánuði og kom til Hafnarfjarðar fyrir mánaðarmótin með fullfermi. Í þeirri veiðiferð hafði orðið vart bilunar í eimkatli skipsins, og Alexander ákvað að sigla til Reykjavíkur til viðgerðar. Viðgerðin tók nokkra daga, en að því búnu var haldið út. Töldu flesti skipverjar að hann héldi vestur á Hala aftur því þar var nægan fisk að fá, þótt veður hamlaði veiðum öðru hvoru. Halinn var talinn tryggastur um þessar mundir og þar var einnig meiri þorskur í aflanum en fyrir sunnan land. En þess í stað var reynt fyrir sér vestur í Jökuldýpi en þar var afli tregur og haldið suður fyrir land á Selvogsbankann. Hvort sem það var hugboð eður ei, þá hélt hann fast við ákvörðun sína að forðast Halann í þetta sinn. Trúlega hefur hann með hugboði sínu bjargað skipi og áhöfn, jafnvel frá bráðum bana í þessu mesta óveðri sem gengið hefur yfir landið og miðin út af Vestfjörðum sem kostuðu 74 mannslíf á sjó og landi. Alexander var alla tíð fengsæll og gætinn skipstjórnarmaður, sigldi yfir 50 söluferðir til Bretlands á árum seinni heimstyrjaldarinnar, þá skipstjóri á togaranum Haukanesi GK 347 frá Hafnarfirði og fór 46 söluferðir á honum til Bretlands.
Heimildir: www. fleetwood-trawlers info / Bill Blow.
Hafnarfjarðarjarlinn. Einars saga Þorgilssonar.
Í særótinu. Sveinn Sæmundsson.