Færslur: 2018 Apríl

28.04.2018 08:44

1360. Kleifaberg RE 70 við Grandagarð í gærmorgun.

Tók þessar myndir af Kleifaberginu þar sem skipið lá við Grandagarðinn í gærmorgun. Togarinn er búinn að vera í slippnum í Reykjavík undanfarna viku þar sem hann var málaður og dittað að ýmsu öðru eins og gengur þegar skip eru tekin á land. Kleifaberg er nú á siglingu á utanverðum Breiðafirði á norðurleið og ég geri ráð fyrir að skipið sé á leið á veiðar. Kleifaberg RE 70 er í eigu útgerðarfélagsins Brim Seafood hf í Reykjavík.


1360. Kleifaberg RE 70 við Grandagarð.                               Þórhallur S Gjöveraa. 27 apríl 2018.


1360. Kleifaberg RE 70. Stormur HF til vinstri og Grænlenski togarinn Markus hægramegin.


1360. Kleifaberg RE 70. TFAC.                                                 Þórhallur S Gjöveraa. 27 apríl 2018.

                    Brim Seafood hf

Brim hf er stofnað 1998 þá sem Útgerðarfélagið Tjaldur ehf þegar þeir feðgar, Kristján Guðmundsson, Hjálmar Kristjánsson og Guðmundur Kristjánsson, skiptu upp rekstri sínum á Rifi. Guðmundur var þá fluttur til Reykjavíkur og tók alfarið við rekstri Útgerðarfélagsins Tjalds ehf. Félagið var frá upphafi til húsa að Tryggvagötu 11 í Reykjavík en fluttist inn á Bræðraborgarstíg 16, árið 2007. Árið 2005 var nafni Útgerðarfélagsins Tjalds ehf breytt í Brim hf.

Í upphafi gerði félagið út einn línubát, Tjald SH 270. Báturinn stundaði línuveiðar og landaði aflanum ýmist ferskum á fiskmarkaði og frystum afurðum á erlenda markaði. Starfsmenn félagsins voru í upphafi um 20. Árið 1999 var sjávarútvegsfyrirtækið Básafell hf keypt og seinna sameinað inn í útgerðarfélagið Tjald, (Brim hf.) Við þessi kaup hóf félagið togararekstur og gerði út tvo rækjufrystitogara, Eldborg RE og Orra ÍS og línubátinn Tjald SH 270. Erfiður rekstur var í rækjuveiðum á þessum árum og hætti félagið rekstri rækjuskipanna á árunum 2002 til 2003. Frystitogarinn Guðmundur í Nesi RE 13 er keyptur og kemur í ársbyrjun 2004. Togarinn er sérhæfður til grálúðuveiða.

Á þessum árum lagði félagið aðaláherslu á grálúðuveiði á djúpslóð, með línuveiðum, togveiðum og netaveiðum. Ýmsar ástæður voru fyrir því að fyrirtækið varð að hætta línuveiðum á grálúðu meðal annars sú að búrhvalurinn komst á lag með að éta grálúðuna af línunni þegar verið var að draga hana af miklu dýpi. Í framhaldi af því fór Tjaldur SH á grálúðuveiðar með net og var það í fyrsta skipti sem það var gert við Ísland.

Árið 2004 keypti félagið í samvinnu við KG fiskverkun á Rifi, Útgerðarfélag Akureyringa. Í framhaldi var ÚA sameinað inn í Brim hf árið 2005. Í dag er Brim hf með víðtæka starfsemi í sjávarútvegi á Íslandi. Það gerir út frystitogarana Brimnes RE 27, Guðmund í Nesi RE 13 og Kleifaberg RE 70. Árið 2012 starfa hjá Brimi um 150 manns.

Brim hf. hefur alltaf lagt mikla áherslu á að vera með traust og góð skip í rekstri á hverjum tíma og leitast er við að svara kröfum nútímans um hagkvæman rekstur, gæði hráefnis og góðan aðbúnað sjómanna. Umhverfismál og gott starfsfólk skipa háan sess í allri starfsemi Brims.

 

Af vefsíðu Brim Seafood hf.


26.04.2018 18:57

V. s. Edda GK 25 í smíðum hjá Dröfn í Hafnarfirði.

Vélskipið Edda GK 25 var smíðuð í Skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði árið 1944 fyrir Einar Þorgilsson & Co hf í Hafnarfirði. Eik. 184 brl. 378 ha. Ruston & Hornsby díesel vél. Edda var stærsta tréskip sem smíðað hafði verið á Íslandi fram til þess tíma. Sjá má meira um Edduna hér á síðunni frá 17 nóvember árið 2016, þar sem saga skipsins er rakin allt til enda.


Vélskipið Edda GK 25 nýsmíðað.                                                                         Mynd í minni eigu.


Edda GK í smíðum hjá Dröfn í Hafnarfirði.                                                    Ljósmyndari óþekktur.


Unnið við stýri og skrúfu Eddunnar hjá Dröfn.      Ljósmyndari óþekktur.

                Vélskipið "Edda"

Þann 23. júní síðastliðinn var rennt til sjávar í Hafnarfirði stærsta skipi, er smíðað hefur verið á Íslandi. Heitir það "Edda" Og hefur einkennisstafina G. K. 25. Skip þetta er 184 rúmlestir brúttó og er smíðað í Skipasmíðastöðinni Dröfn h/f. Í Hafnarfirði, en yfirsmiður var Sigurjón Einarsson skipasmiður. Teikningar allar gerði Hafliði Hafliðason, skipasmiður í Reykjavík. Eftirlit með smíði skipsins hafði Páll Pálsson, skipasmiður í Rvík, en eftirlit með niðursetningu véla Ólafur Einarsson vélfræðingur, er einnig gerði teikningar að stýrisútbúnaði skipsins. Vélsmiðja Hafnarfjarðar h. f. framkvæmdi alla járnsmíði og annaðist niðursetningu véla, undir stjórn Jóhanns Ól. Jónssonar og Magnúsar Kristóferssonar. Raflagnir annaðist Raftækjaverzlunin Ekkó í Hafnarfirði og málningu Kristinn Magnússon málarameistari. Skip þetta er smíðað samkvæmt nýjustu íslenskum reglum um skipasmíðar, en þær eru þær ströngustu, sem þekkjast á Norðurlöndum.
Byrðingur og bönd eru úr eik, en vélarreisn og stjórnpallur úr stáli. Aðalvél skipsins er 378 hestafla Ruston & Hornsby dieselvél. Enn fremur eru í skipinu 85 ha. dieselvél fyrir togvindu, og önnur 18 ha. fyrir rafal og dælur. Dýptarmæli, miðunarstöð og talstöð er komið fyrir í kortaklefa. Alls eru mannaíbúðir fyrir 20 manna áhöfn. Eigendur "Eddu" er hlutaféiagið Einar Þorgilsson & Co í Hafnarfirði. Þeir létu á sínum tíma smíða stærsta togarann, sem enn hefur verið smíðaður fyrir Íslendinga og nú hafa þeir látið smíða storsta vélskipið, sem gert hefur verið á Íslandi. Skipstjóri á "Eddu" er Sigurður Andrésson úr Reykjavík og 1. vélstjóri er Skarphéðinn Þórólfsson, Seltjarnarnesi. Skipið hefur stundað síldveiðar í sumar og lagt upp á Djúpavík.

Ægir. 8 tbl. 1 ágúst 1944.


21.04.2018 08:15

55. Fjarðarklettur GK 210. TFZP.

Vélskipið Fjarðarklettur GK 210 var smíðaður í Sverre skipasmíðastöðinni í Gautaborg í Svíþjóð árið 1946 fyrir Ríkissjóð Íslands. Hét fyrst Ágúst Þórarinsson SH 25. Eik. 103 brl. 265 ha. Alpha díesel vél. Skipið var selt 12 febrúar 1950, Sigurði Ágústssyni í Stykkishólmi, sama nafn og númer. Skipið var selt 21 nóvember 1953, Fiskakletti hf í Hafnarfirði, hjét Fjarðarklettur GK 210. Ný vél (1960) 365 ha. Kromhout díesel vél. Skipið var talið ónýtt vegna fúa og tekið af skrá 16 september árið 1970.


55. Fjarðarklettur GK 210.                                              (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

  100 smálesta bátur til Stykkishólms

Í fyrrinótt kom til Stykkishólms nýr bátur frá Svíþjóð. Heitir báturinn "Ágúst Þórarinsson", SH 25, og er eign Sigurðar Ágústssonar kaupmanns í Stykkishólmi. Hann er 100 smálestir að stærð, smíðaður hjá Sverre skipasmíðastöðinni í Gautaborg. Gekk heimferð bátsins í alla staði vel. Báturinn er hinn vandaðasti að öllum útbúnaði. Er hann betur búinn að vistarverum skipverja en aðrir bátar, sem undanfarið hafa komið frá Svíþjóð. Sérstaklega má geta þess, að í bátnum er borðsalur, þar sem 16 manns geta matast í einu. Báturinn hefur 265 hestafla Alfa-dieselvjel. Björn Hansson, skipstióri, frá Reykjavík, sigldi bátnum heim og verður með hann á síldveiðum í sumar.

Morgunblaðið. 9 ágúst 1946.


Fjarðarklettur GK 210. Líkan Gríms Karlssonar.                                            (C) Þórhallur S Gjöveraa.

     Við fylltum olíugeymana af sjó til
          að fyrirbyggja sprengingu

    Rætt við skipstjórann á Fjarðarkletti

Eldur kom upp í vélarrúmi vélbátsins Fjarðarkletts GK 210 frá Hafnarfirði um hálfníuleytið í fyrrakvöld. Var báturinn þá að veiðum skammt vestur af Eldey. Eldurinn komst einnig í káetuna og brenndi gat á dekkið, en ekkert tjón varð á mönnum. Vélbáturinn Elding kom Fjarðarkletti til aðstoðar og dró hann til Hafnarfjarðar. Komu bátarnir þangað á níunda tímanum í gærmorgun. Við náðum tali af skipstjóra Fjarðarkletts, Kristjáni Kristjánssyni, í gær og sagðist honum svo frá: Við vorum að veiðum skammt vestur af Eldey í fyrrakvöld, þegar eldur kom upp í vélarrúmi. Klukkan mun hafa verið um hálfníu. Gaus þegar upp mikill reykur og varð báturinn fljótt rafmagnslaus, þannig að ekki reyndist hægt að nota sjódæluna við slökkvistarfið. Við notuðum þessi litlu handslökkvitæki, sem við höfðum, en þau höfðu lítið að segja, vegna þess að ógjörningur var að komast niður í vélarrúmið.
Eldurinn breiddist síðan út aftur í káetuna. Við byrgðum strax allt og fylltum olíugeymana af sjó til að fyrirbyggja sprengingar. Þá höfðum við strax samband við næsta skip, sem var Sæljónið og kom það fljótlega til okkar. Einnig náðum við sambandi við varðskip, en það var of langt í burtu, um níu tíma siglingu. Skömmu seinna kallaði vélbáturinn Elding í okkur, en hann var á leið frá Sandgerði til hjálpar öðrum bát, skammt norður af Eldey, sem hafði fengið vörpuna í skrúfuna. Biðum við svo eftir Eldingunni og kom hún til okkar um kl. 11. Hófum við þá aftur slökkvistarfið en Eldingin hafði meðferðis stór kolsýruslökkvitæki og tókst okkur fljótlega að ráða niðurlögum eldsins. Stuttu síðar sviðnaði þó gat á dekkið, hafði leynst glóð í dekkbita. Sprautuðum við þá með sjóslöngu niður um gatið og niður í vélarrúm og tókst okkur þá endanlega að slökkva glóðina, sem einnig var í káetu og aftast í vélarrúmi. Síðan dró Eiding okkur til Hafnarfjarðar og komum við hingað um hálfníu í gærmorgun. Varð tjónið tilfinnanlegt?  Ja, það get ég nú ekki sagt um eins og er. En af verksummerkjum að dæma er tjónið nokkuð og kemur til með að stöðva bátinn um stundarsakir, að minnsta kosti.

Morgunblaðið. 19 ágúst 1967.


19.04.2018 08:22

1360. Kleifaberg RE 70 í slipp.

Þessi aldni höfðingi er kominn í slipp. Þetta skip var smíðað í Gdynia í Póllandi fyrir um hálfum fimmta áratug og ekki annað að sjá en að það sé í fullu fjöri og fiskar enn sem "unglamb" væri. Kleifaberg RE 70 var smíðaður hjá Stocznia Im Komuny í Gdynia í Póllandi árið 1974 fyrir Ísfell hf í Reykjavík. Hét fyrst Engey RE 1 og kom fyrst til heimahafnar, Reykjavíkur hinn 10 mars það ár. 875 brl. 3.000 ha. Sulzer Zgoda vél, 2.208 Kw. Hér fyrir neðan er í grein farið nánar í sögu skipsins í gegn um tíðina. Ég held að Kleifaberg sé eini pólverjinn sem eftir er í landinu og er í drift. Eldborg RE, hét fyrst Baldur EA 124 og var gerður út frá Dalvík, er búinn að liggja lengi í Hafnarfjarðarhöfn. Myndirnar tvær af togaranum hér að neðan tók ég í gærkvöldi í slippnum í Reykjavík.


1360. Kleifaberg RE 70. TFAC.                                        (C) Þórhallur S Gjöveraa. 18 apríl 2018.


1360. Kleifaberg RE 70 í slipp.                                       (C) Þórhallur S Gjöveraa. 18 apríl 2018.

     Engey RE 1  Kleifaberg ÓF 2 og                         Kleifaberg RE 70 
                   Saga skipsins

Engey RE-1 var smíðað í Stocznia skipasmíðastöðinni í Gdnyia í Póllandi árið 1974 fyrir Ísfell hf í Reykjavík og þótti stórt og mikið skip á þeim tíma. Pólverjar smíðuðu fleiri eins skip fyrir Íslendinga á þessum tíma sem mörg hver hafa verið áberandi í sögu íslenskrar togaraútgerðar. Tveir þessara "Pólverja" og systurskip Engeyjar, Ver og Baldur, tók m.a. virkan þátt í landhelgisbaráttunni á sínum tíma og reyndust vel í þeim slag. Annað skip sem einnig var smíðað í Gdnyia fyrir Hafnfirðinga og hét Guðsteinn áður en það var selt norður í land til stórhuga frænda sem breyttu því í frystitogara og gerðu það út undir nafninu Akureyrin EA-10. Það skip er enn í rekstri og saga Samherja er öllum kunn enda fyrir löngu orðið að stórveldi í sjávarútvegi. Samherji er reyndar ennþá með einn "Pólverja" á sínum snærum í Íslenskri landhelgi, Víði EA-910, sem upphaflega var smíðaður fyrir Skagamenn og hét þá Ver AK, siðan Jón Dan GK, þar á eftir Apríl HF og svo Viðir HF þar til Samherji keypti það. Af fleiri skipum af þessari tegund má nefna þá Ögra og Vigra sem Ögurvík lét smíða fyrir sig og reyndust eigendum sínum og áhöfnum alla tíð vel og svo Hrönn sem Hraðfrystistöð Reykjavíkur eignaðist síðar og gerði út sem Viðey RE-6. Það skip heitir nú heitir Sjóli og er gert út sem þjónustuskip á vegum Sjólaskipa út af ströndum Afríku. Í dag eru aðeins tveir pólsku togaranna gerðir út frá Íslandi, Kleifaberg ÓF-2 og Víðir EA. Eldborg (áður Baldur) sem gerð er út til rækjuveiða á Flæmingjagrunni er ekki skráð hér á landi, Akureyrin í Barentshafi og Sjóli við strendur Afríku. Þeir eru því enn á fullu "Pólverjarnir" á ýmsum vígstöðvum þó aldurinn hafi færst yfir þá.


1360. Kleifaberg ÓF 2 á toginu.                                                                   (C) Þorgeir Baldursson.

En snúum okkur þá að Engey. Eins og áður sagði var það smíðað í Gdnyia árið 1974 fyrir ísfell hf. í Reykjavík en Hraðfrystistöðin í Reykjavík gerði skipið síðan út frá árinu 1984. Engey var eins og systurskip þess að Vigra og Ögra undanskildum, búin afar öflugri aðalvél, 3.000 hestafla Sgoda-Sulser vél sem þótti vel í lagt á þeim tíma og fannst mörgum nóg um. Þessar vélar hafa hins vegar reynst mjög vel í alla staði eins og best sést á því að þær eru enn á fullum afköstum í þessum skipum og í engu þeirra hefur þurft að skipta um aðalvél þrátt fyrir að hafa verið í botnlausu álagi í meira en þrjá áratugi. Ólíkt öðrum skipum þar sem aðalvélarnar eru oftast nær aftast í skipunum, eru aðalvélar þessara togara framan við mitt skip, beint undir matsal og vistarverum skipverja sem þykir ekkert sérstaklega aðlaðandi í dag. Mjög mikill hávaði er frá vélum og öðrum búnaði þeim tengdum eins og menn geta ímyndað sér. Það er ekki mjög þægilegt til lengdar að vera með 3.000 hestafla vél lemjandi við kojustokkinn dögum og vikum saman. En menn hafa látið sig hafa það eins og margt annað til sjós.
Engey var upphaflega ísfisktogari og mikið í siglingum á sínum tíma og sigldi tíðum á erlendar hafnir, aðallega með karfa á Þýskalandsmarkað. Skipið hefur bæði verið lengt og breytt í frystitogara auk þess sem efra þilfari þess var lyft til að fá aukna lofthæð á vinnsludekk. Engey og Viðey runnu inn í sameiningu Hraðfrystistöðvarinnar í Reykjavík við Granda á sínum tíma og voru þá bæði gerð út undir merkjum þess síðarnefnda. Undir lok þess tíma sem Grandi gerði Engey út var skipið sent til smokkfiskveiða við Falklandseyjar þar sem fyrirtækið hugðist hasla sér völl. Sú útgerð gekk hins vegar ekki eins og til var ætlast af ýmsum ástæðum.


1360. Kleifaberg ÓF 2 að veiðum.                                                             (C) Björn Valur Gíslason.

Undir lokin voru menn þó farnir að ná tökum á því verkefni undir stjórn Guðmundar Mugga Kristjánssonar sem nú er hafnarstjóri á Ísafirði. En þolinmæði útgerðarinnar var þrotin og skipið selt til Þormóðs ramma - Sæbergs í Ólafsfirði sem þá var nýtt félag eftir sameiningu Sæbergs hf. í Ólafsfirði og Þormóðs ramma hf á Siglufirði, sem Grandi var m.a. hluthafi í. Það var því ekki um annað að ræða fyrir Mugga og félaga en að sigla aftur til norðurs, heim til Íslands og færa nýjum eigendum skipið. Engey RE-1 var afhent nýjum eigendum í júlí 1997 og hélt þá strax til karfaveiða á Reykjaneshrygg. Til að byrja með hélt skipið sama nafni og númeri en fékk fljótlega nafnið Kleifaberg ÓF-2. Nafnið vísar til lítillar byggðar vestan og utarlega í Ólafsfirði sem heitir Kleifar og var áður gert út frá. Bergsnafnið er tilkomið frá Sæbergi og skipum þess sem öll hafa borið bergs-nöfn, t.d. Sólberg, Múlaberg, Hvannaberg og Mánaberg. Útgerð Kleifabergs hefur alla tíð gengið afar vel og skipið ætíð verið í hópi aflahæstu skipa landsins og þeirra sem skilað hafa mestu verðmæti á hverju ári. Kleifabergið var gert út undir merkjum Þormóðs ramma - Sæbergs hf. í tæp tíu ár og aflaði á þeim tíma ríflega 50.000 tonna að verðmæti meira en 8 milljarða króna. Við sameiningu Sæbergs og Þormóðs ramma urðu allnokkrar breytingar á högum áhafna skipa félaganna. Sólberg og Múlaberg sem áður voru í eigu Sæbergs og höfðu verið á bolfiskveiðum fóru nú á rækju sem skip Þormóðs ramma, Stálvík, Sigluvík og Sunna, höfðu stundað um árabil. Áhöfn Kleifabergsins var því að mestu samtíningur af skipum Sæbergs auk annarra sem bættust í hópinn. Fljótlega fór áhöfnin að láta á sér bera á öðrum sviðum en fiskveiðum og vinnslu, svo eftir var tekið. Stofnuð var um borð hljómsveitin, Roðlaust og beinlaust, sem í dag hefur sent frá sér þrjá geisladiska sem seldir hafa verið til stuðnings björgunar- og öryggismálum, sér í lagi þó Slysavarnaskóla sjómanna. Geisladiskarnir þrír, Bráðabirgðalög, Brælublús og Sjómannasöngvar hafa allir selst feyki vel og verið í hópi söluhæstu diska hverju sinni.


Hljómsveitin Roðlaust og beinlaust á tónleikum.                                            (C) Mynd úr Víkingnum.

Auk þess hefur Roðlaust og beinlaust sent frá sér tvö jólalög sem notið hafa mikilla vinsælda. Annað lagið var síðar gefið út á færeysku fyrir þarlendan markað. Árið 2005 var hljómsveitinni boðið að leika á sjómannalagahátíð í bænum Paimpol í Frakklandi þar sem fram komu hundruð tónlistarmanna og sótt var af meira en 120.000 gestum. Þessi magnaða skipshljómsveit hefur margsinnis spilað opinberlega við ýmis tilefni hér á landi og verður með mikla og skemmtilega dagskrá á Hátíð hafsins í Reykjavík um næstu sjómannadagshelgi. Tiltölulegar litlar breytingar hafa verið í áhöfn Kleifabergsins frá því að það komst í hendur norðanmanna. Sömu yfirmenn eru í öllum stöðum jafnt í brú og vél, utan þeirra sem hætt hafa sökum aldurs. Reyndar er aldur afstæður sem slíkur eins og messaguttinn Gógó hefur sýnt og sannað. Gógó eða Ragnar Sigtryggsson eins og hann heitir víst, hóf störf sem messi á Kleifaberginu á áttræðisaldri og lét ekki af störfum fyrr en á síðasta ári þá kominn yfir áttrætt. Vaktformenn og lykilmenn á dekki eru allir þeir sömu og fyrir tíu árum og sáralitlar breytingar hafa orðið í öðrum stöðum á skipinu. Það er því greinilegt að áhöfn skipsins er góður og samstilltur hópur hvort sem um er að ræða við veiðar og vinnslu eða söng og spilamennsku.

Sjómannablaðið Víkingur. 6 tbl. 1 júní 2007.


1360. Kleifaberg RE 70 við Miðbakkann.                        (C) Þórhallur S Gjöveraa. 13 janúar 2016.


1360. Kleifaberg RE 70 að taka olíu í Örfirisey.                      (C) Þórhallur S Gjöveraa. 2 júní 2016.

             Brim kaupir Kleifaberg

Þormóður rammi Sæberg hefur selt frystitogara sinn Kleifaberg ÓF 2 til Brims hf. Áhöfninni hefur verið boðið að halda plássum sínum, að minnsta kosti út árið. Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Þormóðs ramma Sæbergs, segist ánægður með þessi viðskipti og ánægður með að áhöfninni hafi verið tryggt pláss á skipinu áfram. Hann vill ekki gefa upp söluverð skipsins. Fyrirtækið á von á tveimur nýjum frystiskipum, því fyrra í nóvember 2008. Til þess tíma munu hin frystiskipin í eigu félagsins, Sigurbjörg ÓF og Mánaberg ÓF, sjá um bolfiskveiðar fyrirtækisins. Kleifabergið er selt án aflaheimilda og verður afhent 30. marz næstkomandi. "Þetta er eðalskip og við ætlum að halda útgerð þess áfram með sama hætti og Þormóður rammi Sæberg hefur gert. Við eigum nægar veiðiheimildir fyrir skipið og þurfum ekki að draga úr hjá öðrum," segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims. Hann segir að þetta sé bara viðbót við flota Brims og öllum verðið boðið að halda áfram um borð. En hvar verður skipið skráð? "Það er ekki ákveðið, en mér skilst að það sé gott að vera með togara á Ólafsfirði."

Morgunblaðið. 15 febrúar 2007.


1360. Engey RE 1 við komuna til landsins 10 mars árið 1974.                                     Mynd úr Ægi.

                  Engey RE 1

10. marz s. l. kom skuttogarinn Engey RE 1 til heimahafnar sinnar í fyrsta sinn. Skuttogari þessi er byggður hjá Gdynia Shipyard, Gdynia Póllandi og er 3. skuttogarinn, sem þar er smíðaður fyrir Íslendinga. Tveir þeir fyrstu voru sem kunnugt er smíðaðir fyrir Ögurvík h.f., en Engey RE er sá 1. í röðinni af 5 skuttogurum, sem samið var um á eftir Ögurvíkur-skuttogurunum, og hafa verið gerðar nokkrar breytingar á umræddum 5 skuttogurum frá fyrstu tveimur. Engey RE er eign Ísfells h.f.
Rúmlestatala 742 brl.
Mesta lengd 60,60 m
Lengd milli lóðlína 53,00 m
Breidd 11,30 m Dýpt að efra þilfari 7,30 m
Dýpt að neðra þilfari 5,00 m
Djúprista (KVL) 4,60 m
Særými (djúprista 4.85 m) 1542 tonn.
Burðarmagn ( " ) 500 tonn.
Lestarrými 530 m3
Brennsluolíugeymar 145 m3
Brennsluolíu- eða sjókjölfestugeymar 137 m3
Kjölfestugeymar (stafnhylki) .. 14 m3
Ferskvatnsgeymar 57 m3
Ganghraði (reynslusigling) ... . 16,2 sjómílur.

Ægir. 10 tbl. 1 júlí 1974.


15.04.2018 06:45

857. Tjaldur SH 175. TFVU.

Vélskipið Tjaldur SH 175 var smíðaður í Esbjerg í Danmörku árið 1955. Eik. 53 brl. 265 ha. Alpha díesel vél. Eigandi var Kristján Guðmundsson í Stykkishólmi frá 20 janúar árið 1956. Ný vél (1964) 220 ha. Caterpillar díesel vél. Seldur 2 september 1965, Tjaldi hf á Siglufirði, hét Tjaldur SI 175. Seldur 15 mars 1974, Þorvaldi Baldvinssyni á Dalvík, hét Tjaldur EA 175. Seldur 1976, Valgeiri Sveinssyni í Vestmannaeyjum. Skipið sökk um 16 sjómílur suður af Krísuvíkurbjargi, 29 ágúst árið 1976 eftir að óstöðvandi leki kom að skipinu. Áhöfninni, 3 mönnum, var bjargað um borð í þyrlu varnarliðsins. Eigandinn, Valgeir Sveinsson skipstjóri var nýlega búinn að kaupa skipið frá Dalvík og var á leið með það heim til Vestmannaeyja.


Vélskipið Tjaldur SH 175.                                            (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

          Nýr bátur til Stykkishólms

Stykkishólmi, 6. Febrúar. Nýr bátur kom hingað s. l. sunnudagskvöld. Heitir hann Tjaldur SH 175, og er smíðaður í Esbjerg í Danmörku og var smíði hans lokið 20. janúar s. l. Er báturinn 53 rúmlestir með 240 hestafla Alpha-vél. Er hann smíðaður úr eik og er hinn vandaðasti að öllum frágangi. Vistarverur skipverja eru snyrtilegar og rúmgóðar fyrir 11 menn, auk þess er klefi handa skipstjóra. Báturinn er vel búinn að siglinga- og öryggistækjum og vel gengið frá öllum hlutum. Var hann rúma viku á leiðinni og kom við í Færeyjum. Á- milli Færeyja og Íslands hreppti báturinn hið versta veður, og tafði það hann a. m. k. um einn sólarhring. Reyndist hann hið bezta sjóskip í alla staði. Í vetur verður hann gerður út frá Stykkishólmi og verður eigandi hans, Kristján Guðmundsson frá Nesi, skipstjóri á honum. Hann sigldi bátnum upp. Ógæftir hafa verið miklar undanfarið. í s. l. viku var t. d., ekki farið nema einu sinni á sjó, og fiskuðu bátarnir þá upp í 5 tonn.

Morgunblaðið. 7 febrúar 1956.


Tjaldur SI 175 við bryggju á Siglufirði.                                            (C) Jón Ólafur Karlsson Eyrbekk.

     Veit ekki hvort ég hefði þolað
          að fara mikið oftar í kaf

             segir skipstjórinn á Tjaldi frá                    Vestmannaeyjum sem sökk á sunnudag

"Ég veit ekki hvort ég hefði þolað að fara í kaf mikið oftar, því ég var orðinn gegnkaldur og dofinn, þegar ég var loksins dreginn upp í þyrluna, "sagði Valgeir Sveinsson skipstjóri á Tjaldi EA 175 frá Vestmannaeyjum, sem sökk 16 mílur suður af Krýsuvíkurbjargi á sunnudaginn. Skipverjum þrem að tölu var bjargað um borð í þyrlu frá varnarliðinu, sem kom á staðinn fimm mínútum áður en báturinn sökk. "Þegar við vorum dregnir um borð í þyrluna misskildum við stjórnendur hennar og af þeim sökum fór ég nokkrum sinnum á kaf í iskaldan sjóinn, "sagði Valgeir. Valgeir sagði, þegar Morgunblaðið ræddi við hann, að það hefði verið á tíunda tímanum á sunnudagsmorgun, sem skipverjar hefðu orðið varir við leka í vélarrúminu. "Við vorum búnir að vera niðri í vél nokkru áður, en þegar komið var niður skömmu fyrir kl. 10 var kominn mikill sjór í vélarrúmið og vélin farin á ausa upp á sig. Okkur tókst aldrei að sjá hvaðan lekinn kom. Þegar klukkan var farin að nálgast 11 sáum við, að vonlaust var að reyna að halda bátnum á floti og var þá sent út neyðarkall," sagði Valgeir. Klukkan 10.57 á sunnudagsmorgun barst Reykjavíkurradíói neyðarkall frá bátnum. Hrafn Sveinbjarnarson og Guðmundur Þórðarson frá Grindavík héldu þegar í stað til móts við Tjald og skömmu síðar Harpa og Oddgeir, einnig frá Grindavík. Þyrla frá varnarliðinu fór af stað skömmu síðar og eins og áður sagði sökk Tjaldur stuttu eftir að þyrlan kom á vettvang, en þá var klukkan farin að nálgast eitt.
Báturinn sökk um 16 sjómílur suður af Krýsuvíkurbjargi og áttu bátarnir fjórir þá nokkuð eftir ófarið að honum. "Við fórum ekki í gúmmíbát fyrr en í síðustu lög, því við töldum að betra væri að finna okkur, ef við værum við skipshlið," sagði Valgeir Sveinsson. "Þaðan fórum við aftur um borð í Tjald, þegar þyrlan kom þar sem auðveldara var að draga okkur upp. Þegar við komum um borð í þyrluna var yndislega tekið á móti okkur. Við vorum allir háttaðir um leið og nuddaðir hátt og lágt. Ég vil nota þetta tækifæri til að koma þökkum á framfæri við Slysavarnarfélag Íslands, sem skipulagði björgunina, og eins til varnarliðsmannanna, sem björguðu okkur." Skipverjar á Tjaldi voru fluttir til Reykjavíkur, þar sem þeir voru færðir í þurr föt, en síðan héldu þeir til Vestmannaeyja. 
Tjaldur var 53 tonna eikarbátur, smíðaður í Esbjerg í Danmörku árið 1955. Báturinn var áður gerður út frá Dalvík, en Valgeir skipstjóri hafði nýlega keypt hann. "Það er ekki nema mánuður síðan báturinn var keyptur og vorum við rétt búnir að koma honum í gott lag og hafnir róðra, þegar þetta kom fyrir. Það er því sjálfhætt á sjónum í bili, hvað sem síðar verður," sagði hann.

Morgunblaðið. 31 ágúst 1976.


14.04.2018 08:47

M. b. Sæunn EA 17.

Vélbáturinn Sæunn EA 17 var smíðaður í Noregi árið 1905. Eik og fura. 25 brl. 35 ha. Hein vél (1916). Hét fyrst Tilraun GK 353. Eigendur voru Helgi Jónsson, Þorleifur Guðmundsson og Gísli Gíslason á Eyrarbakka, Jóhannes Einarsson í Eyvík og Sigurður Einarsson á Stokkseyri frá 23 september 1906. Selt 19 nóvember 1908, Jóhannesi Reykdal, Birni Helgasyni, Bjarna Kristjánssyni og Jóni Brynjólfssyni í Hafnarfirði, sama nafn og númer. Selt 1912, Verslun Snorra Jónssonar á Akureyri, skipið hét Tilraun EA 17. Sama ár var skipið endurbyggt og lengt á Akureyri, mældist þá 29 brl. Frá árinu 1914 hét skipið Sæunn EA 17. Selt 22 desember 1928, Gunnlaugi Guðjónssyni á Akureyri, sama nafn og númer. Selt 30 maí 1939, Birni austræna hf á Siglufirði, hét Sæunn SI 53. Ný vél (1934) 70 ha. Völund vél. Selt árið 1944, Jóhanni Ásmundssyni á Litla Árskógssandi, sama nafn og númer. Sæunn sökk út af Haganesvík 14 nóvember árið 1944. Var þá á leið frá Akureyri með kolafarm og aðrar vörur til kaupfélagsins á Hofsósi. Skipverjar björguðust í skipsbátinn og þaðan um borð í Særúnu SI 50 frá Siglufirði.


M.b. Sæunn EA 17, sennilega á Siglufirði.                                                    (C) Vigfús Sigurgeirsson.

 M.b. Sæunn sekkur út af Haganesvík

Sl. mánudag sökk m.b. Sæunn úti fyrir Haganesvík. Var skipið að koma frá Akureyri með kolafarm á leið til Hofsóss. Er það var statt úti fyrir Haganesvík, kom leki að því, sem skipsmönnum tókst ekki að halda í skefjum. Björguðu þeir sér í báta, en litlu síðar sökk Sæunn. Í nánd við Sæunni var statt skip frá Siglufirði, er tók skipbrotsmennina og flutti til Siglufjarðar. Sæunn var eign Jóhanns Ásmundssonar á Litla-Árskógssandi. Hún var 29 smálestir að stærð.

Íslendingur. 44 tbl. 17 nóvember 1944.


12.04.2018 17:43

Veiga VE 291.

Vélbáturinn Veiga var smíðaður í Risör í Noregi árið 1929. Eik og fura. 24 brl. 64 ha. Ellwe vél. Eigandi var Ólafur Auðunsson frá 17 desember sama ár. Ný vél (1933) 65 ha. Gray vél. Árið 1940 voru eigendur bátsins Ólafur Auðunsson, Sólveig Ólafsdóttir og Kjartan Ólafsson í Vestmannaeyjum. Ný vél (1943) 90 ha. Fairbanks Morse díesel vél. Ný vél (1947) 110 ha. June Munktell vél. Árið 1949 voru Kjartan Ólafsson og fl. eigendur bátsins. Veiga fórst í róðri skammt vestur af Eindrangi við Vestmannaeyjar, 12 apríl árið 1952. 2 menn fórust en 6 menn björguðust í gúmmíbjörgunarbát sem var um borð í Veigu. Mönnunum var bjargað um borð í Frygg VE 316 sem var nærstaddur. Þetta var fyrsta björgun manna sem bjargast í gúmmíbjörgunarbáti hér við land.
Mennirnir sem fórust hétu:
Gestur Jóhannesson vélstjóri. 23 ára og 
Páll Þórormsson háseti 26 ára.


Veiga VE 291 í bóli sínu í Vestmannaeyjahöfn.                           Ljósmyndari óþekktur.

  Tveir menn farast af vélbát við Eyjar

Á laugardaginn fórst vélbáturinn Veiga frá Vestmannaeyjum í róðri og með honum tveir menn, en hinir komust lífs af og var þeim bjargað af öðrum bát.
Vestmannaeyjabátar voru í róðri aðfaranótt laugardagsins og lögðu net sín á venjulegum miðum vestan við Eindrang. Veður var hvasst, en um hádegisbilið á laugardaginn, þegar bátarnir voru í óða önn að draga netin, bráðhvessti og gerði mikinn sjó, enda er heldur grunnt og slæm brot þarna á hraununum. Skipverjar á Veigu voru að draga netin, þegar þau festust í skrúfunni og varð báturinn þá bjargarlaus í vindi og sjó Skipverjum tókst að koma neyðarkalli til vélbátsins Frigg frá Vestmannaeyjum, sem þarna var nærstaddur, og kom hann Veigu til hjálpar. Komu skipverjar taug á milli bátanna og hélt Frigg Veigu upp í vindinn meðan skipverjar losuðu netin úr skrúfunni. Þegar búið var að binda þau upp, var taugin á milli bátanna leyst og lagt af stað til lands, þar sem Veiga var þá í lagi að öðru leyti. En skipstjórinn á Veigu bað Frigg að hlusta eftir kalli frá sér, ef ske kynni, að eitthvað bæri út af. En þess reyndis líka full þörf. Veiga var rétt að leggja af stað heim, er netin fóru aftur í skrúfuna og skipti það nú litlum togum, að brotsjóirnir riðu yfir bátinn.
Einn skipverja, Pál  Þórólfsson frá Fáskrúðsfirði, tók út í sama mund og einn brotsjóanna braut aðra hliðina úr stýrishúsinu. Var þá séð, að mikil hætta var á ferðum. Sjórinn gekk þegar inn yfir bátinn og fyllti hann á skammri stundu, þar sem hann rak stjórnlaust fyrir sjó og vindi. Skipstjórinn á Veigu sýndi framúrskarandi dugnað og snarræði er hann braust niður í hásetaklefa á hinum sökkvandi bát sínum til að senda út neyðarkall, sem sennilega bjargaði lífi þeirra félaga. Vildi svo vel til, að skipverjar á Frigg heyrðu í öðru kalli. Mun það hafa verið vélstjórinn, sem var að hlusta við talstöðvartækið. Skipverjar gátu náð til gúmmíbjörgunarbáts, sem bundinn var uppi á stýrishúsi, blásið hann út og komizt í hann í björgunarbeltum. Einn skipverja, Gestur Jóhannesson, vélstjóri, komst ekki upp úr vélarrúmi bátsins, og Páll Þórólfsson hvarf félögum sínum í hafrótinu, eins og áður er sagt. Lætur hann eftir sig aldraða foreldra á lífi, en Gestur eiginkonu og barn.
Svo vel vildi til, að Frigg var ekki langt frá slysstaðnum og kom fljótt þar að, sem skipverjar af Veigu hröktust á sjónum í gúmmíbátnum og bjargaði þeim. Leit að skipverjunum tveimur reyndist árangurslaus. Skipstjóri á Frigg er Sveinbjörn Hjartarson.

Tíminn. 16 apríl 1952.


10.04.2018 06:17

1423. Seifur BA 123. TFJZ.

Vélbáturinn Seifur BA 123 var smíðaður í Skipasmíðastöðinni Básum hf í Hafnarfirði árið 1975 fyrir Jón Steingrímsson á Bíldudal og Jón Gest Sveinbjörnsson á Blönduósi. Eik og fura. 22 brl. 210 ha. Volvo Penta díesel vél. Smíðanúmer 3. Frá 18 september 1975 hét báturinn Seifur HU 2. Seldur 28 ágúst 1978, Jónasi Guðmundssyni í Keflavík og Árna Jónassyni í Garði, hét Seifur KE 22. Seldur 28 desember 1978, Stefáni G Þengilssyni á Svalbarðseyri í Eyjafirði, hét Seifur ÞH 265. Seldur 23 maí 1983, Guðmundi Óskarssyni og Sigurði Óskarssyni á Kópaskeri, sama nafn og númer. Báturinn fær svo nafnið Þorsteinn HF 107, 22 júlí 1983, sömu eigendur. Seldur 23 apríl 1985, Rækjuveri hf á Bíldudal, hét Þröstur BA 48. Ný vél (1985) 235 ha. Volvo Penta díesel vél, 173 Kw. Frá 8 mars 1988 hét báturinn Þröstur BA 480. Seldur 19 janúar 1990, Bjargi hf á Patreksfirði, sama nafn og númer. Seldur 18 janúar 1991, Einari Jónssyni á Patreksfirði, hét Árni Jóns BA 1. Árið 1997 var skráningarnúmeri bátsins breytt í BA 14. Seldur 2004, Fríðu ömmu ehf í Reykjavík, hét Pétur afi SH 374. Seldur 2006, Olgu Hörn Fenger í Reykjavík, hét OM RE 365. Skráður sem skemmtiskip 2007. Seldur 2009, Kristófer Kristóferssyni í Kópavogi, hét Norðurstjarnan KÓ. Árið 2010 er eigandi bátsins Rósir ehf í Vestmannaeyjum. Árið 2011 er nafni bátsins breytt, heitir aftur OM RE 365, sami eigandi en skráður á Þingeyri sem fiskiskip. Frá árinu 2017 heitir báturinn Titanic EA 76, áfram sami eigandi, en báturinn er skráður með heimahöfn á Akureyri. Titanic er núna upp á bryggju við Grandagarð og eigandinn er að gera hann upp þar. Einkar fallegur bátur og ekki annað að sjá en að mikið er eftir í honum enn þó kominn sé vel á fimmtugsaldurinn.

1423. Seifur BA 123 í Hafnarfjarðarhöfn.                                 (C) Kristján Eyfjörð Guðmundsson. 


1423. Norðurstjarnan KÓ í Reykjavíkurhöfn.                  (C) Þórhallur S Gjöveraa. 13 júlí 2014.


1423. Titanic EA 76 í endurbyggingu á Grandagarði.           (C) Þórhallur S Gjöveraa. 6 apríl 2018.


1423. Titanic EA 76.                                                             (C) Þórhallur S Gjöveraa. 6 apríl 2018.


1423. Titanic EA 76. Örfirisey RE 4 að landa.                      (C) Þórhallur S Gjöveraa. 6 apríl 2018.


1423. Titanic EA 76 við sólarupprás.                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa. 6 apríl 2018.

                Seifur BA 123

Skipasmíðastöðin Básar h.f., sem hefur haft aðsetur í Hafnarfirði, afhenti 31. maí s.l. rúmlega 20 lesta eikarfiskiskip, sem er nýsmíði stöðvarinnar nr. 3. Áður hefur stöðin afhent Viðar ÞH 17 (6. tbl. '74) og Haftind HF 123 (18. tbl. '74). Skip þetta er af hefðbundinni gerð með lúkar fremst, fiskilest og vélarúm aftast. Vélarreisn og stýrishús er úr áli. í lúkar eru hvílur fyrir 4 menn og eldunaraðstaða. Fiskilest er með lestarstoðir og skilrúm úr áli, svo og állestargólf. Í vélarúmi eru tveir brennsluolíugeymar, en ferskvatnsgeymir fremst í lest. Aðalvél er Volvo Penta, gerð TMD 100 A, 210 hö við 1800 sn/mín, tengd Twin Disc niðurfærslugír, gerð MG 509, niðurfærsla 2.95:1. Skrúfubúnaður er frá Propulsion, 3ja blaða skrúfa með fastri stigningu, þvermál 990 mm. Framan á aðalvél er aflúttak, Rockford 10" (1:1) fyrir vindudælu. Rafall á aðalvél er frá Alternator h.f., 3.5 KW, 24 V. Hjálparvél er Farymann, gerð 27L14, 8 hö við 3000 sn/mín.
Við vélina er rafall frá Transmotor, 3.6 KW, 24 V. Rafkerfi skipsins er 24 V jafnstraumur. Stýrisvél er Scan Steering, gerð MT 180. Vindur skipsins eru vökvaknúnar (háþrýstikerfi). Togvnda er frá Vélaverkstæði J. Hinriksson, búin tveimur togtromlum (16Omm0 x 700 mm^ x 370 mm) og koppum. Togtromlur eru gefnar upp fyrir 650 faðma af 1%" vír, togátak vindu á miðja tromlu (430 mm**) 1.4 tonn og tilsvarandi vírahraði 80 m/mín. Línuvinda og bómuvinda eru frá Vélaverkstæði Sig. Sveinbjörnssonar h.f., línuvinda af gerðinni HL 200 og bómuvinda af HB 50 gerð. Þá er skipið búið kraftblökk frá Rapp, gerð 19 R og 7 rafdrifnum Elektra færavindum. Dæla fyrir vindur er Denison TDC 20-11 (tvöföld) drifin af aðalvél um aflúttak. Helztu tæki í stýrishúsi eru: Ratsjá: Furuno, gerð FRS 48, 48 sml. Miðunarstöð: Koden KS 510. Sjálfstýring: Sharp Skipper. Dýptarmælir: Furuno, gerð FH 600. Fisksjá: Furuno, gerð AD-Scope. Talstöð: Skanti, gerð TRP 2000, 200 W SSB.
Rúmlestatala 22 brl.
Mesta lengd 14.60 m
Lengd milli lóðlína 13.20 m
Breidd (mótuð) 3.94 m
Dýpt (mótuð) 1.70 m
Lestarrými 18 m3
Brennsluolíugeymar 2.0 m3
Ferskvatnsgeymir 0.6 m3
Eigendur Seifs BA eru Jón Steingrímsson, sem jafnfrarnt er skipstjóri, og Jón Gestur Sveinbjörnsson.

Ægir. 11 tbl. 15 júní 1975.


08.04.2018 07:21

149. Mánatindur SU 95. TFOM.

Vélskipið Mánatindur SU 95 var smíðaður í Dráttarbraut Akraness árið 1943 fyrir Hlutafélagið Víðir á Akranesi, hét fyrst Víðir MB 35. Eik. 103 brl. 320 ha. Lister díesel vél. Skipið var fyrst í leigu hjá Skipaútgerð ríkisins í strandsiglingum milli Akureyrar og Skagafjarðar með vörur og farþega. Skipið var selt 15 júní 1949, Jóni Valfells í Reykjavík, hét þá Víðir AK 95. Selt 12 desember 1952, Arnarey hf á Djúpavogi, hét Víðir SU 95. Ný vél (1953) 340 ha. Lister díesel vél. 6 mars 1957 var nafni skipsins breytt, hét þá Mánatindur SU 95. Skipið var talið ónýtt vegna þurrafúa og tekið af skrá í febrúar árið 1965. Þegar hér var komið sögu, var Mánatindur í slipp hjá Dráttarbrautinni í Neskaupstað og var þar í einhvern tíma eftir að hann var dæmdur ónýtur. Þá var ákveðið að draga skipið út á Norðfjarðarflóa, brenna það og sökkva síðan. En Mánatindur vildi ekki niður, heldur tók að reka með breyttri vindátt inn Hellisfjörð og rak þangað logandi stafnanna á milli og endaði í fjörunni við Sveinstaðaseyrina. Enn í dag má sjá leifar Mánatinds í fjörukambinum þar. Gunnar Þorsteinsson sendi mér myndir af flakinu sem hann tók þar árið 2010. Þakka ég honum fyrir þessar fínu myndir.


Vélskipið Mánatindur SU 95.                                      (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Atla Michelsen.


Vélskipið Víðir MB 35.                                                                              (C) Haraldur Sturlaugsson.

       Akurnesingar eignast nýtt skip
  M.s. "Víðir" eign h.f. Víðis á Akranesi

Hið nýja skip m.s. Víðir, eign hlutafjelagsins Víðir á Akranesi, kom hingað í gær í fyrsta sinn. Framkvæmdastjóri fjelagsins, Jón Sigmundsson, bauð blaðamönnum að skoða hið forkunnar fagra skip. Skipið er 103 smálestir brúttó, allt byggt úr eik, og er öll smíði þess og frágangur hinn vandaðasti, og eins fullkominn og frekast verður krafist. Vjel skips er Lister-dieselvjel 320 hestafla. Ennfremur er ljósavjel og er hún 20 hestafla. Skipið er allt hitað upp með rafmagni. Einnig er rafmagns eldavjel. "Raftækjaverksmiðjan Rafha" í Hafnarfirði hefir smíðað þessi hitunartæki. Í framstafni og aftur í skipinu eru svefnklefar skipshafnarinnar. Einnig er í framstafni skipsins og miðskips farþegarúm. Eru þau í alla staði hin ákjósanlegnstu, bólstraðir bekkir með öllum veggjum, og eru farþegaklefarnir hitaðir upp með rafmagnsofnum.
Báturinn er nú leigður Skipaútgerð Ríkisins til fólks og vöruflutninga milli Akureyrar og Sauðárkróks. Hann er byggður sem fiskiskip, en þegar horfið var að því að leigja hann, var innrjettingum skipsins breytt, þannig, að tekið var af lestarrými til innrjettingar farþegarúms. Svo vel er frá innrjettingunum gengið, að ekki tekur nema stuttan tíma að breyta skipinu í fiskiskip, og mun það þá bera um 70 tonn af ísfiski. Teikningu af skipinu gerðu Eyjólfur Gíslason skipasmíðameistari og nemandi hans, Magnús Magnússon. Bygging Víðis hófst í Dráttarbraut Akraness í marsmánuði 1942, en nokkrar tafir urðu, eða um þriggja mánaða tíma, sjerstaklega vegna þess, að tafir urðu á, að vjelin kæmi til landsins. Skipstjóri verður Bernhard Pálsson frá Akureyri og vjelstjóri, Guðjón Sigurðsson, Akranesi. Yfirsmiður við smíði bátsins var Eyjólfur Gíslason skipasmíðameistari á Akranesi. Alla járnsmíði og niðursetningu vjela annaðist vjelsmiðja Þorgeirs og Ellerts á Akranesi. Raflagnir annaðist Sveinn Guðmundsson rafvirki á Akranesi, málningarvinnu Lárus Árnason málarameistari á Akranesi, bólstrun bekkja Runólfur Ólafsson húsgagnabólstrari á Akranesi, hurðir allar og glugga smíðaði Teitur Stefánsson trjesmiður á Akranesi og reiða Óskar Ólafsson í Reykjavík. Hlutafjelagið Víðir var stofnað 1938, um b.v. Sindra, er það keypti það ár, en í stjórn þess eru: Pjetur Ottesen alþingismaður, formaður, Þorgeir Jósefsson og Halldór Jónsson. Morgunblaðið óskar Akurnesingum og h.f. Víði til hamingju með þetta glæsilega skip.

Morgunblaðið. 16 nóvember 1943.


Mánatindur SU 95 (fjær) og Sunnutindur SU 59 við bryggju á Djúpavogi. (C) Sveinn Þorsteinsson.

               Bátur til Djúpavogs
                     Víðir SU 95

Vélskipið Víðir af Akranesi hefir nú verið keypt til Djúpavogs. Víðir er 103 lesta stór og mun vera stærsta skipið í austfirska fiskveiðiflotanum, þegar togararnir eru undanskildir. Með þessum skipakaupum skapast á Djúpavogi stórauknir afkomumöguleikar.
Austurland óskar Djúpavogsmönnum til hamingju með skipið. Megi vonir þær, sem við það eru bundnar, rætast.

Austurland. 23 desember 1952.

               Mánatindur SU 95

Síldveiðiskipið Víðir fiskaði rúmar 500 lestir á vetrarvertíðinni og tæp 4000 mál af síld. Rekstursafkoma hans er alveg í járnum án nokkurra afskrifta og hefur hann aukið skuld sína hjá félaginu, sem svarar afborgunum af föstum lánum, sem á honum hvíla. Nú stendur yfir mikil viðgerð á honum sökum þurrafúa, sem fannst í honum haust. Hann kemur heim aftur sem nýtt og glæsilegt skip, með nýju nafni "Mánatindur". Báturinn sem Búlandstindur hf. samdi um smíði á í Þýzkalandi hlaut nafnið "Sunnutindur" S U 59. Hann kom ekki til landsins fyrr en 8. febrúar í ár. Djúpavogsbúar fögnuðu honum vel við komuna. Jón Sigurðsson, Rjóðri, flutti kvæði ort í því tilefni. Báturinn hefur nú verið 2 mánuði á veiðum og gengið vel. Hann hefur reynst afburða sjóskip og ekkert hefur komið fyrir eða farið í ólag, hvorki í smáu né stóru. Ég vil hvetja sjómennina til þess að sýna þessum glæsilegu skipum okkar tryggð og vinna þeim vel, og láta þau bera heimahöfn sinni vitni um sjómenn, sem kunna að meta vel útbúin skip og glæsileg.

Austri. 16 tbl. 4 september 1957.

    Flakið af Mánatindi í fjörunni við               Sveinstaðaseyri í Hellisfirði

Ljósmyndir Gunnars Þorsteinssonar af leifum Mánatinds sem hann tók í júlí árið 2010. Með honum í för var m.a. Norðfirðingurinn Kristinn Pétursson (Kiddi í Dagsbrún), skipstjóri og útgerðarmaður á Djúpavogi. Læt hér fylgja með nokkrar myndir úr leiðangri þeirra félaga í Hellisfjörð.


Flakið af Mánatindi á Sveinstaðaeyri í Hellisfirði.














Horft út eftir eyrinni og út Hellisfjörð. Barðsneshorn og Rauðubjörg lengst til hægri.
(C) Myndir: Gunnar Þorsteinsson.

               Mánatindur ónýtur

Í haust var Djúpavogsbáturinn Mánatindur tekinn í slipp hér í Neskaupstað og skyldi fara fram á honum gagngerð viðgerð. Við rannsókn kom í ljós, að skipið var svo illa farið af þurrafúa, að það mun hafa verið dæmt ónýtt og mun Mánatindur þar með úr sögunni. En vonandi verður þess ekki langt að bíða, að annar Mánatindur komi til Djúpavogs.

Austurland. 5 febrúar 1965.


05.04.2018 16:11

2780. Ásgrímur Halldórsson SF 250. TFBL.

Nótaveiðiskipið Ásgrímur Halldórsson SF 250 var smíðaður hjá Simek Shipyard A/S í Flekkefjord í Noregi árið 2000. Hét áður Lunar Bow PD og var gert út af Lunar Fishing Ltd í Peterhead í Skotlandi. 1.528 bt. 7.505 ha. Wartsila vél, 5.520 Kw. Skipið er búið að vera í eigu Skinneyjar-Þinganess h/f á Höfn í Hornafirði frá árinu 2008. Tók þessar myndir af honum í slippnum í Reykjavík í gær. Fallegt skip.
2780. Ásgrímur Halldórsson SF 250 í slippnum í gær.         (C) Þórhallur S Gjöveraa. 4 apríl 2018.


2780. Ásgrímur Halldórsson SF 250.                                  (C) Þórhallur S Gjöveraa. 4 apríl 2018.


2780. Ásgrímur Halldórsson SF 250. TFBL.                    (C) Þórhallur S Gjöveraa. 4 apríl 2018.

        Nýr Ásgrímur Halldórsson SF
        leysir Jónu Eðvalds af hólmi

     Gangmeira og burðarmeira skip

"Verkefnin breytast ekki," segir Gunnar Ásgeirsson, stjórnarformaður Skinneyjar-Þinganess hf. á Hornafirði. Félagið hefur fengið nýtt og öflugt uppsjávarskip, Ásgrím Halldórsson SF 250, og lætur í staðinn frá sér Jónu Eðvalds SF. Nýja skipið er átta ára gamalt, smíðað í Noregi en hefur verið gert út frá Skotlandi til tog- og nótarveiða. Það hét Lunar Bow og var í eigu Lunar Fishing. Ásgrímur Halldórsson er liðlega 61 metri að lengd og um 13 á breidd og getur borið liðlega 1.500 tonn í kælitönkum. Skipið fékk nafn Ásgríms Halldórssonar, eins af stofnendum Skinneyjar. Ásgrímur er gangmeira og burðarmeira skip en Jóna Eðvalds. "Við erum að hugsa um að koma hráefninu í betra ásigkomulagi til vinnslunnar hérna. Með þessu skipi höfum við möguleika á stöðugra og betra hráefni  en verið hefur," segir Gunnar. Krossey verður áfram gerð út.
"Þetta er glæsilegt skip. Þótt það sé átta ára gamalt lítur það út eins og nýtt," segir Sigurður Ægir Birgisson sem er skipstjóri á Ásgrími Halldórssyni SF ásamt Ásgrími Ingólfssyni. Sigurður segir að skipið hafi reynst vel í siglingunni frá Skotlandi. Það hafi til dæmis varla haggast þegar það lenti í slæmu veðri á milli Færeyja og Íslands. Stefnt er að því að Ásgrímur Halldórsson fari til veiða á síld úr norsk-íslenska stofninum undir lok mánaðarins ásamt Krosseynni. Skip félagsins hafa verið saman að veiðum undanfarin tvö ár, með svokallað partroll, með góðum árangri. Það verður að sögn Sigurðar Ægis í sömu verkefnum og Jóna Eðvalds, veiðum á síld og loðnu fyrir vinnsluna á Hornafirði. Þó segir hann að stærra og öflugra skip skapi möguleika til að sækja lengra, ef á þurfi að halda. Þannig segir hann til athugunar að fara einn túr á kolmunna núna í mánuðinum til að láta reyna á tækin. Skinney-Þinganes fær í haust tvö ný skip sem verið er að smíða í Taívan.
Þau verða notuð til humarveiða en jafnframt útbúin til annarra verkefna. "Við erum að yngja upp skipakostinn og skapa möguleika til að koma með betra hráefni að landi," segir Gunnar. Fyrirtækið gerir út átta skip og reiknar Gunnar ekki með að breyting verði á því. Hins vegar sé ekki ákveðið hvaða skipum verði lagt þegar nýju skipin koma. "Þetta er stöðug barátta, eins og alltaf hefur verið," segir Gunnar um stöðuna. Hann segir að engin breyting hafi orðið á verkefnum fyrirtækisins. Það er í bolfiski, humri og uppsjávarfiski. Hann segir að taka verði á því í stjórnuninni, þegar hann er spurður um viðbrögð við kvótasamdrættinum sl. haust.

Morgunblaðið. 7 maí 2008.


02.04.2018 16:12

Sæmundur SK 1. TFOQ.

Vélbáturinn Sæmundur SK 1 var smíðaður í Hallevikstrand í Svíþjóð árið 1946. Eik. 53 brl. 170 ha. Polar díesel vél. Eigandi var Útgerðarfélag Sauðárkróks h/f á Sauðárkróki frá 9 maí sama ár. Báturinn var seldur 5 nóvember 1955, Steindóri Péturssyni í Keflavík, hét Sæmundur KE 9. Ný vél (1955) 280 ha. MWM díesel vél. Seldur 6 janúar 1961, Hlutafélaginu Faxa í Keflavík, hét Gunnfaxi KE 9. Báturinn sökk um 12 sjómílur norðvestur af Eldey 16 mars árið 1964. Áhöfnin, 6 menn, bjargaðist um borð í vélskipið Helga Flóventsson ÞH 77 frá Húsavík.


Sæmundur SK 1. Sauðárkrókur í baksýn.                                                    (C) Kristján Runólfsson.

                     Sæmundur SK 1  

 Lýsing samkvæmt fyrstu skipaskrá: Lengd 20,22 metrar. Breidd 5,21m. Dýpt 2,20m. Stærð rúmlestir 53 brúttó. Tala þilfara 1, siglna (mastur) 2, lóðrétt stefni og sporbaugslagað hekk. Skrokkurinn með sléttsúð (plankabyggður) úr eik og innsúð talin fullkomin. Þá er í afturskipi káeta fyrir yfirmenn, lúkar í framskipi fyrir háseta og þar var einnig eldunaraðstaða. Þá var einnig kortaklefi (bestikk) aftast í stýrishúsi með koju fyrir skipstjóra. Í bátnum var aðalvél af gerðinni Polar Diesel 170 hestöfl smíðuð árið 1946 með tilheyrandi skrúfubúnaði. Ekki var um ljósavélar í bátum af þessari stærð að ræða á þessum tíma heldur rafall reimdrifinn frá aðalvél, oftast 32 volta spenna.
Búnaður á þilfari var spil með tveimur tromlum og koppum sitt hvoru megin. Öxuldrifið frá aðalvél notað sem snurpuspil á síldveiðum en togspil væri báturinn á togveiðum. Þá var einnig svokallað línuspil framarlega á þilfarinu nærri stjórnborðslunningu og var það notað við línu og netadrátt en algengt var að bátar frá norðurlandi færu suður á vetrarvertíð á þessum tímum.
Í stýrishúsi var ekki mikill tækjabúnaður fyrir utan stjórntæki fyrir vél og áttaviti. Í besta falli dýptarmælir og þá oftast Kelvin Huges neistamælir sem virkaði nú ekki alltaf. Þá var að sjálfsögðu stýri í stýrishúsinu og var tegund þess svokölluð keðjustýri þar sem keðja lá í keðjuhjóli framan við stýrishjól og þaðan í rörum ofandekks þar til hún tengdist stýrisás í skut bátsins. Ekki eru til heimildir um heimsiglingu bátsins en fyrsta lögskráning fer fram hjá Sýslumannsembætti Skagafjarðarsýslu þann 26. júní 1946.
Skipstjóri Finnbogi Halldórsson frá Siglufirði, stýrimaður Helgi Einarsson frá Akranesi, síðar Sauðárkróki og fyrsti vélstjóri Ásgeir Ágústsson frá Eskifirði. Báturinn var í eigu Útgerðarfélags  Sauðárkróks til ársins 1955 er hann var seldur til Keflavíkur og er afsal til handa Steindóri Péturssyni dagsett 3/11 ´55.
Meðan báturinn var í eigu ÚS (hins fyrra) var hann á síld á sumrin og gekk vel og var hann oft með aflahærri síldarbátum. Þess utan var hann á togveiðum og þá aðallega hér innfjarða á Skagafirði, þó mátti hann ekki vera fyrir innan eyjar þó ef til vill hafi verið misbrestur á því.
Þeir eru nú ekki margir eftirlifandi sem voru skipverjar á Sæmundi á þessum tíma en einn af þeim er Sigurfinnur Jónsson frá Steini á Reykjaströnd og man hann vel þessa tíma. Finnbogi Halldórsson var skipstjóri á Sæmundi þar til í júlí 1947 að hann tekur við skipstjórn á vélbátnum Eiríki SK 2 sem var í eigu sama félags. En við skipstjórn á Sæmundi SK 1 tók Stefán Sigurðsson, Sauðárkróki en einnig var Jón Guðjónsson, frá Siglufirði, skipstjóri með bátinn á síldveiðum.
Eftir komuna til Keflavíkur hélt hann sama nafni en skipt var um vél í bátnum árið 1955 og sett var í hann Mannheim vél 280 hestöfl. Áfram var báturinn í Keflavík en fékk síðar nafnið Gunnfaxi KE 9. Endalok bátsins urðu svo þau að 16. mars 1964 sökk hann og er þess getið að mannbjörg hafi orðið.

Feykir.is 13 ágúst 2017
Steinar Skarphéðinsson skrifar um gamla báta.


Sæmundur SK 1.                                                                               (C) Steinar Skarphéðinsson.

      Útgerðarfélag Sauðárkróks h/f

Útgerðarfélag Sauðárkróks h.f., Sauðárkróki. Tilgangur, a) Að reka útgerð. b) Að sjá um verkun, hagnýtngu og sölu á afurðum félagsins. c) Að útvega vandaðar útgerðarvörur með sem hagfelldustum kjörum. Hlutafé: kr. 125.000,00. Stjórn:
Haraldur Júlíusson kaupmaður, Guðmundur Sveinsson fulltrúi, Magnús Bjarnason kennari, Gísli Vilhjálmsson útgerðarmaður og Kristófer Eggertsson skipstjóri.

Frjáls verslun. 9 árg. 4-5 tbl. 1947.


Sæmundur KE 9. TFOQ. Líkan Gríms Karlssonar.                           (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Gunnfaxi KE 9 að sökkva.Skipverjar á leið í gúmmíbjörgunarbátinn. (C) Skipverji af Gunnfaxa.

     V/b Gunnfaxi sekkur út af Eldey  

Á milli klukkan átta og níu, að morgni 16. mars 1963, sökk v.b. Gunnfaxi KE 9, tólf sjómílur NV af Eldey. Skipverjar voru að draga línuna og höfðu dregið fimm bjóð, er lekans varð vart. Áhöfnin var öll á dekki nema skipstjóri, sem var í stýrishúsi. Veitti hann þvi þá athygli, að smurmælir vélarinnar tók að falla. Fór hann nú niður í vélarrúm og sá, að sjór var kominn allhátt upp á vélina, svo vélin var farin að banka, sem kallað er. Stöðvaðist vélin innan skamms. Skipverjar notuðu þá dekkdælu, en lekinn hélt áfram, og þeir höfðu ekki undan. Skipstjórinn, Sigurður Guðmundsson, sendi nú út hjálparbeiðni. Fljótlega kom v.b. Helgi Flóventsson Þ.H. til aðstoðar. Ekki var mjög hvasst en þungur sjór. Fóru fjórir menn af áhöfn Gunnfaxa yfir í Helga og notuðu til þess gúmbátinn. Skipstjóri og vélstjóri urðu síðan eftir í Gunnfaxa til að athuga möguleika á að bjarga bátnum.


Áhöfnin á Gunnfaxa KE 9. Frá v: Sigurður Guðmundsson skipstjóri, Skúli Bjarnason, Sverrir Bjarnason, Sigurður Jónsson stýrimaður, Svanur Jónsson vélstjóri og Victor Þórðarson matsveinn.
(C) Alþýðublaðið.  

En þær tilraunir báru ekki árangur. Yfirgáfu þeir bátinn innan stundar. Var ætlunin, að Helgi Flóventsson tæki Gunnfaxa í tog, en ekki varð af þvi. Lónaði nú Helgi hjá Gunnfaxa, uns séð varð að hann myndi sökkva. Sökk báturinn á u.þ.b. fjórum mínútum, kl. 12.25. Helgi Flóventsson hélt þegar til Keflavíkurog kom þangað kl. 15.35 síðdegis. Á Gunnfaxa voru sex menn. Skipstjórinn, Sigurður Guðmundsson, var frá Hafnarfirði. Sigurður var síðar með Þerney, sem strandaði í Keflavíkurhöfn 1970. Gunnfaxi var smíðaður í Svíþjóð 1946. Hann var fimmtíu og þrjár lestir að stærð, úr eik. Eigandi bátsins var Faxi hf. Axel Pálsson og synir hans: Birgir, Páll og Magnús. Allir búsettir í Keflavík.

Faxi. 1 mars 1988.


01.04.2018 08:16

Finnbjörn ÍS 24. TFLR.

Vélskipið Finnbjörn ÍS 24 var smíðaður hjá Halmstads Varvs Nya Aktiebolag í Halmstad í Svíþjóð árið 1946 eftir teikningu Bárðar Tómassonar fyrir Samvinnufélag Ísfirðinga á Ísafirði. Eik. 79 brl. 215 ha. Polar díesel vél. Selt 22 desember 1953, Hvassafelli h/f í Vestmannaeyjum, hét þar Erlingur V VE 65. Ný vél (1956) 360 ha. MaK díesel vél. Selt 23 desember 1958, Einari Sigurðssyni í Reykjavík, hét Askur KE 11. Aðfaranótt 11 desember 1960 kom upp eldur í skipinu þar sem það lá í höfn í Keflavík og sökk. Náðist upp og var selt eftir lagfæringar, 20 desember 1961, Páli Ó Pálssyni í Miðneshreppi, hét Hamar GK 32. Skipið Sökk um 30 sjómílur suðaustur af Jökli 30 júní árið 1962. Áhöfnin, 11 menn, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát og komust í Hvalseyjar undan Ökrum á Mýrum eftir hrakninga á annan sólarhring, og þaðan heilir á húfi til lands af sjálfdáðum.


Finnbjörn ÍS 24: Skipið ber raunar nafnið Erlingur V VE 65 á myndinni.     Ljósmyndari óþekktur.

                  Nýju birnirnir

Samvinnufélag Ísfirðinga hefir fengið tvo 80 tonna báta frá Svíþjóð. Þann 12. júní kom fyrri bátur Samvinnufélagsins, Ísbjörn til Ísafjarðar, og var hann fyrsti Svíþjóðarbáturinn, sem hingað kom í bæinn. Ísbjörn er byggður í Skredsvik hjá Bröderna Olsons Bátsvarv eftir teikningu Bárðar G. Tómassonar skipaverkfræðings. Skipstjóri á Ísbirni er Ólafur Júlíusson. Síðari bátur Samvinnufélagsins, Finnbjörn, kom hingað miðvikudaginn 10. júlí. Hann er byggður hjá Halmstads Varvs nya Aktiebolag í Halmstad í Svíþjóð, einnig eftir teikningu Bárðar Tómassonar. Skipstjóri á Finnbirni er Jón Kristjánsson. Báðir nýju birnirnir eru með 215 hestafla Atlas diesel og 10 hestafla ljósavél, dýptarmæli, útvarpsmóttöku- og sendistöð og talbrú. Eftir er að setja í þá miðunarstöð. Ganghraði þeirra er um 9 mílur. Búist er við, að kostnaðarverð þeirra hvors um sig verði 500-550 þúsundir kr. með síldardekki og togútbúnaði.
Bjarni Fannberg sigldi báðum björnunum til landsins og kom með Finnbirni alla leið til Ísafjarðar.

Skutull. 28-29 tbl. 12 júlí 1946.


Askur KE 11. Líkan Gríms Karlssonar.                                           (C) Þórhallur S Gjöveraa.

    Bátur brann við bryggju í Keflavík

Aðfaranótt sunnudagsins kom upp eldur í vélbátnum Aski KE í Keflavíkurhöfn. Slökkviliðið var kvatt á vettvang, báturinn dreginn að bryggju, og var eldurinn fljótlega slökktur með því að dæla á hann sjó, en þá fór báturinn á hliðina og sökk við bryggjuna. Eldsins varð fyrst vart laust eftir kl. þrjú um nóttina, en þá skíðlogaði aftantil í bátnum. Sennilegast er talið að kviknað hafi í vélarrúmi eða káetu.
Slökkviliðið hófst þegar handa að dæla sjó á eldinn og tókst að ráða niðurlögum hans fljótlega, en þá tókst ekki betur til en svo að báturinn seig á hliðina, vegna sjávarins, sem í honum var og sökk. Stendur þó nokkur hluti hans úr sjó.
Eigandi Asks er Angantýr Guðmundsson. Hefur hann orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni, þar eð báturinn er stórskemmdur. Var hann tryggður fyrir 2,7 milljónir kr., en geta má þess, að bátar af sömu stærð (80 tonn) eru yfirleitt tryggðir fyrir allt að 5 milj. kr. Angantýr keypti bátinn fyrir nokkru af Einari Sigurðssyni.

Tíminn. 13 desember 1960.

               Hamar GK 32 ferst

              11 bjargast á sögulegan hátt
     Voru á annan sólarhring á reki og á eyðieyju

Laust eftir klukkan níu á laugardagskvöldið sökk vélskipið Hamar GK-32 frá Sandgerði um 30 sjómílur suðaustur af Jökli. Lagðist skipið á bliðina og gerðist allt með svo skjótum hætti að skipsmenn björguðust fáklæddir í gúmmíbát og vannst ekki tími til að kalla í talstöðina. Rak skipbrotsmennina, 11 talsins, fyrir sjó og vindi alla laugardagsnóttina og tóku land í Hvalseyjum undan Ökrum á Mýrum, um 6 mílur frá landi. Þrátt fyrir að þeir kveiktu bál, sendu upp svifblys, sæju bílaumferð í landi og tvær flugvélar, vissi enginn um skipbrotið fyrr en sex mannanna tókst að róa í land á gúmmíbátnum seint á sunnudagskvöldið. Björguðust skipsmenn allir og má telja það mikla mildi. Má nærri geta hversu farið hefði ef vindur hefði staðið af landi, bátinn rekið á haf út og enginn hefði vitað betur en Hamar væri ofansjávar á leið á síldarmiðin fyrir Norðurlandi. Hamar var 80 tonna skip, endurbyggt upp úr Aski, sem brann og sökk í höfninni í Keflavík í desember 1960. Var báturinn búinn öllum fullkomnustu tækjum til síidveiða, asdictækjum, radar, kraftblökk, dýptarmælum o.s. frv. Eigandi bátsins var Páll Ó. Pálsson, útgerðarmaður í Sandgerði, en hlutafélagið Miðnes í Sandgerði hafði leigt bátinn til síldveiða fyrir Norðurlandi í sumar, og var báturinn á leið þangað er hann sökk. Skipstjóri var Birgir Erlendsson, sonur Erlendar Þorsteinssonar formanns síldarútvegsnefndar, 34 ára gamall til heimilis í Kópavogi, stýrimaður Eðvald Eyjólfsson, 36 ára, Reykjavík, 1. Vélstjóri Friðrik Sigurðsson, 42 ára, Sandgerði, II vélstjóri Tómas Þórhallsson, 24 ára, Reykjavík, matsveinn Jón Þórir Gunnarsson, 38 ára, Reykjavík og hásetar Georg Georgsson, 36 ára, Reykjavík, Björn Ragnarsson, 22 ára, Sauðárkróki, Erling Guðmundsson, 20 ára, Sauðárkróki, Guðmundur Friðriksson, 16 ára, Sandgerði, Gísli Ólafsson, 16 ára, Sandgerði, og Sigurður Jónsson, 32 ára, Keflavík.
Fréttamaður Mbl. átti í gær tal við Eðvald Eyjólfsson, stýrimann, en hann var í brú bátsins er óhappið vildi til. Sagðist Eðvald svo frá þessari einstæðu ferð þeirra félaga:
Það var um fjögurleytið síðdegis á laugardag að við lögðum upp frá Reykjavík. Ætluðum við vestur fyrir Jökul og norður um á miðin. Vindur var af suðvestri, 6-7 vindstig og nokkur alda. Klukkan rúmlega 9 um kvöldið vorum við staddir um 30 sjómílur suðaustur af Jökli. Ég var þá í brúnni og háseti við stýrið, og höfðu vaktaskipti farið fram klukkan 9. Tveir hásetar voru frammi í lúkar, en í káetu var 1. vélstjóri. Hinir voru aftur í borðsal. Síðan gerðist það að skipið hallaði skyndilega undan einni öldunni og tók sjó inn í ganginn stjórnborðsmegin. Á næstu báru fór skipið alveg á hliðina. Við slógum strax af við fyrri báruna, Qg skipstjóri kom fram í brú þegar í stað. Var skipinu snúið undan og reynt að rétta það með stýrinu en það virtist ekkert gagna,, enda lagðist það á möstrin um leið, svo að við sáum niður í sjóinn um gluggana stjórnborðsmegin Skipstjórinn kallaði strax að bátinn yrði að hafa tilbúinn.
Lá skipið þá á hliðinni með gluggana á brúnni í kafi stjórnborðsmegin en bakborðsgluggarnir vissu beint upp í loftið. Fór skipstjóri upp um hurðina og ég á eftir. Virtist okkur strax að eina vonin til bjargar væri að koma bátnum út. Báturinn var staðsettur á þaki stýrishússins, stjórnborðsmegin, og var á kafi í sjó. Var báturinn í trékistu, sem fest var við þakið en á henni var lok, fest með böndum. Skipstjóri kafaði eftir bátnum og tókst að opna kistuna. Flaut báturinn þá strax upp, og var þá tekið í línuna til að blása hann upp. Hásetarnir tveir, sem voru frammí gengu eftir síðu skipsins afturá, svo mikill var hallinn. Var talsvert bras við gúmmíbátinn, en afturmastrið og loftnetsvírinn slógust í hann og áttum við mjög erfitt með að halda bátnum frá. Ég stökk út í bátinn af afturmastrinu og komst nokkurnveginn þurr. 1. vélstjóri flæktist um stund í nótinni, en losnaði aftur. Var hann með bjarghring utan um sig, og var sá eini okkar, sem hafði tíma til þess að ná í lífbelti. Flestir voru fáklæddir, 1. vélstjóri á skyrtu og nærbuxum, skipstjóri á nærklæðum, flestir skólausir og aðeins einn í stígvélum. Mjög erfitt var að ná bátnum frá skipinu, en við sáum brátt að nótin hafði losnað og komin spölkorn frá skipinu. Sáum við brjóstlínu frá nótinni, gátum náð í hana og halað okkur frá sökkvandi skipinu. Síldardekkið flaut allt út og við náðum tveimur þilfarsborðum, sem við notuðum í stað ára, og kom það sér vel síðar.


Kort af Mýrunum þar sem má sjá Hvalseyjar undan Ökrum.

Nokkuð þröngt var um okkur í bátnum, sem er gerður fyrir 10 menn. Lokuðum við honum strax öðru megin, en frá hinni hliðinni sá ég Skipið sökkva skömmu síðar. Við héldum bátnum undan þar til skipið sökk, en það mun hafa verið 10 mínútum eftir að við fórum í bátinn. Var síðan látið reka og notuðum við spýturnar til þess að snúa undan veðrinu alla nóttina. Það var kuldi og bleyta í bátnum og menn urðu sjóveikir, sem tilheyrir víst þessum gúmmíbátum. Við gerðum upphaflega ráð fyrir að við yrðum ekki nema 4-5 klst. að reka upp að landi, en þær urðu 15. Um klukkan átta á sunnudagsmorguninn fórum við að grilla í land. Við vissum að framundan voru Mýrarnar með öllum sínum skerjum og grynningum, og þegar við nálguðumst þær skutum við öðru svifblysinu af tveimur, sem í báta um voru. Við tókum land í Hvalseyjum nokkru fyrir klukkan eitt á sunnudag. Þegar við nálguðumst eyjarnar var þar talsvert um grunnbrot. Þurftum við að róa fyrir eitt brotið og hefðum sennilega lent í því ef ekki hefði verið fyrir spýturnar góðu. Þegar við komum framhjá þessum brotum sáum við vík, sem virtist sæmileg til landtöku, og ákváðum að fara í land þar en halda ekki áfram. Tókst landtakan ágætlega. Ekkert mannvirki var á eyju þessari og hún algjörlega í eyði. (Hér mun sennilega átt við stærstu eyna í Hvalseyjum, Húsey-innskot Mbl.) Reiknaðist mér til að eyjan væri á stærð við Örfirisey.
Fyrsta verk okkar var að safna saman rekaviði og kveikja bál. Notuðum við tvö blys til að kveikja í kestinum, sem logaði í 5-6 klst. Bárum við þara og gras á eldinn til þess að sem mestan reyk legði af honum. Þá fundum við bambusstöng, festum veifu úr gúmmíbátnum á hana og reistum síðan stöngina. Bátinn settum við á áberandi stað rétt hjá stönginni. Undir kvöld skutum við síðara svifblysinu, en allt kom fyrir ekki. Seint um kvöldið vorum við vissir um að enginn hefði tekið eftir okkur. Voru það okkur vonbrigði því við sáum bæinn að Ökrum og kirkjuna, bílaumferð í landi og tvær flugvélar hátt í lofti. Reyndum við m.a. að gefa merki til flugvélanna og lands með sólspegli. Þegar leið á daginn gerði stinningskalda af norðri. Fluttum við okkur þá ofar í eyna og hagræddum okkur sem bezt við gátum. Um 10- leytið um kvöldið fór að lygna og var komið logn um klukkan 10:30. Fórum við þá að ræða um hvað bezt væri að gera og ákváðum að sex menn skyldu freista þess að róa til lands í gummíbátnum, skipstjóri, ég, báðir vélstjórarnir, matsveinninn og einn háseti. Skyldu fjórir róa en tveir leysa af. Fundum við tvær heppilegar spýtur til að róa með og höfðum þær með auk þilfarsborðanna.
Áður en við lögðum af stað skárum við flot púðana neðan af gúmmíbátnum og tókum loftflöskuna úr slíðrum, til þess að auðveldara yrði að róa bátnum. Róðurinn til lands gekk ágætlega,, og vorum við um tvær klukkustundir að fara þessar sex mílur. Lentum við í vík beint fyrir neðan Akra, og gekk lendingin ágætlega. Þarna var nokkur alda og ein báran henti okkur skemmtilega 10-15 metra áfram, langleiðina upp í fjöru, rétt eins og maður væri að sigla á öldum á Hawaii. Síðan gengum við upp að bænum. Fór ég fyrstur þar sem ég hafði skóræfla á fótum, og hinir komu rétt á eftir. Allir voru í fasta svefni, en bóndinn, Ólafur Þórðarson, kom til dyra. Sagði ég honum að við værum skipbrotsmenn af skipi, sem hefði farist úti í bugtinni nóttina áður og fimm aðrir væru í Hvalseyjum. Bóndi sagði að hann ætti árabát en treysti honum ekki til að fara í eyna. Hringdi hann síðan á næstu bæi ag lét slysavarnafélagið vita hvernig komið væri. Síðan fór hann með okkur á næsta bæ, Akra III. Fengum við hinar beztu móttökur þar. Var síðan hringt til Helga Gíslasonar bónda á Tröðum, og fór hann á báti og sótti þá, sem eftir urðu í eynni, og fór með þá heim að Tröðum. Við lögðum okkur eftir að hafa fengið hressingu og sváfum til klukkan sex um morguninn, en þá kom bíll frá Þórði Þ. Þórðarsyni á Akranesi og flutti okkur til Reykjavíkur. Hafði útgerðin sent bílinn jafnskjótt og kunnugt varð um atburðinn.
Mér finnst það undursamlegt, hvernig við sluppum frá þessu öllu, en okkur finnst að útbúa þyrfti þessa gúmmíbáta með litlum árum og umfram allt talstöð. Óhugsandi var að komast í talstöðina er skipið sökk og ef vindur hefði staðið af landi, hefði okkur rekið til hafs, og engin leið að segja hvenær það hefði uppgötvast að skipið var ekki lengur ofansjávar, sagði Eðvald stýrimaður að lokum.

Morgunblaðið. 3 júlí 1962.


  • 1
Flettingar í dag: 170
Gestir í dag: 60
Flettingar í gær: 2133
Gestir í gær: 252
Samtals flettingar: 1051353
Samtals gestir: 75973
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:19:32