Færslur: 2020 Nóvember

29.11.2020 10:09

B.v. Egill Skallagrímsson RE 165. TFAC.

Nýsköpunartogarinn Egill Skallagrímsson RE 165 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1947 fyrir hf. Kveldúlf í Reykjavík. 654 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur hinn 18 júní sama ár og var sá fjórði í röðinni sem kom til landsins. Seldur í desember 1970, Jóni Hafdal og Haraldi Jónssyni í Hafnarfirði, sama nafn og númer. Nafnabreyting varð á skipinu snemma árs 1972, hét þá Hamranes GK 21. Flestum er nú kunn örlög þessa skips og oft var talað um "Helför" Egils Skallagrímssonar og málaferlin sem fylgdu í kjölfarið vegna þessa skipstapa, en þau verða tekin fyrir síðar.

Bátapallur var smíðaður á Egil einhvern tímann eftir 1950 og var það aðallega gert vegna síldveiða skipsins. Einnig var settur bátapallur á svipuðum tíma á þrjá aðra nýsköpunartogara en þeir voru, Elliði SI 1, Ísborg ÍS 250 og Surprise GK 4.


Nýsköpunartogarinn Egill Skallagrímsson RE 165.                                           (C) Gísli Bjarnason.

  "Egill Skallagrímsson" kom í gær

Fjórði nýsköpunartogarinn sem byggður er í Bretlandi sigldi fánum skreyttur inn á ytri höfn milli klukkan sex og sjö í gærkveldi. Þessi togari heitir Egill Skallagrímsson RE 165 og er eign h.f. Kveldúlfur. Egill Skallagrímsson er byggður eftir sömu teikningu og hinir fyrri nýsköpunartogarar sem komnir eru. Innrjetting skipsins er þó nokkuð öðruvísi en hinna togaranna m. a. er neðri lúkarinn þrefaldur í stað þess að vera einfaldur. Hvílur eru fyrir 42 skipverja. Egill Skallagrímsson lagði af stað frá Hull s. l. laugardag en kom við í Shields til þess að taka olíu, en þaðan var hann 84 klst. til Reykjavíkur. Skipstjóri á Agli Skallagrímssyni verður hinn þjóðkunni sjósóknarmaður Kolbeinn Sigurðsson. Hann hefir verið skipstjóri á Kveldúlfstogaranum Þórólfur frá því að fjelagið keypti skipið. Fyrsti stýrimaður verður Eyjólfur Ólafsson og fyrsti vjelstjóri Jóhann Jónsson.

Morgunblaðið. 19 júní 1947.


Egill Skallagrímsson RE 165 nýsmíðaður á Humberfljóti.              (C) Cochrane & Sons Ltd í Selby.

           Giftusamleg björgun

Föstudaginn 21. janúar s.l. strandaði vélskipið Gunnvör frá Siglufirði á Kögrinum vestra. Var það um kl. 18 að kvöldi. Heyrði loftskeytastöðin á Ísafirði, svo og ýmsir togarar á Halamiðum og þar í grennd, neyðarkall skipsins. Brátt náðist samband við b.v. Egil Skallagrímsson, sem var staddur út af Ísafjarðardjúpi, og hélt hann þegar áleiðis til strandstaðarins. Ennfremur náðist samband við brezka togarann Gregory, sem mun hafa verið staddur 7-10 sjómílur frá staðnum, og lagði hann einnig af stað til hjálpar hinu nauðstadda skipi. B.v. Hvalfell fór enn fremur á staðinn og fleiri skip voru á leiðinni þangað, þar á meðal m.b. Finnbjörn, sem staddur var á Dýrafirði, þegar fréttist um strandið, og m.b. Hafdísi frá Ísafirði bar þar einnig að. Dimmt var í veðri og þungur sjór og aðstaða öll til björgunar af sjó talin mjög erfið. B.v. Agli Skallagrímssyni tókst að finna m.s. Gunnvöru með miðunartækjum sínum og reyndist hún hafa strandað á 66° 22' n. l. og 22° 57' v. br. Á tímabili var talið að ekki mundi þýða fyrir önnur skip en þau, sem hefðu ratsjá, að fara nálægt hinu strandaða skipi, en eitthvað mun hafa rofað til, og komu brezki togarinn og b.v. Egill Skallagrímsson fyrstir á strandstaðinn. Mun það hafa verið um kl. 20. Taldi þá skipstjórinn á Gunnvöru, að fært mundi að koma björgunarbáti upp að Gunnvöru, og kvað sig hafa misst lífbát skipsins strax eftir strandið. Varð það úr, að lífbátur var sendur frá b.v. Agli Skallagrímssyni, undir stjórn stýrimanns, útbúinn með línubyssu o. fl. tækjum.
Báturinn lagði frá Agli laust fyrir kl. 21 og eftir tæpan hálftíma tilkynnti skipstjórinn á Gunnvöru, að báturinn væri kominn að hlið hennar, skipsmenn væru að fara í hann, og hann væri að yfirgefa talstöðina. Um kl. 22 var svo björguninni að fullu lokið og áhöfn Gunnvarar, 7 menn, komnir um borð í Egil heilu og höldnu.
Á leið bátsins milli skipanna, aðstoðuðu b.v. Hvalfell og m.b. Hafdís með því að lýsa upp leiðina með ljóskösturum sínum. M.b. Hafdís var um kyrrt á staðnum fram undir morgun næsta dags, og segja skipverjar á henni, að skömmu eftir að björgunin hafði tekizt, hafi aðstaða öll versnað svo, að björgun af sjó hefði verið óhugsandi. Þykir skipshöfn b.v. Egils Skallagrímssonar hafa unnið þarna mikið afrek. Skipstjóri Egils er Kolbeinn Sigurðsson, en skipstjóri m.s. Gunnvarar í þessari ferð var Ólafur Stefánsson. Vegna þess, hversu björgun af sjó var talin tvísýn um tíma, hafði karladeild Slysavarnafélagsins á Ísafirði viðbúnað til að reyna björgun úr landi. Var m.b. Gunnbjörn fenginn til þess að fara þaðan með sveit sjálfboðaliða og björgunartæki. Átti sveit þessi að ganga á land í Fljótavík og freista að komast með björgunartækin á strandstaðinn. Strandstaðurinn var fyrst talinn vera austan til við Kögur, en reyndist vera vestan til við hann, eða inni á sjálfri Fljótavík. M.s. Gunnvör hafði ætlað að stunda vetrarsíldveiðar syðra, en var nú á leið til Siglufjarðar. Hún hafði innanborðs 2 nýjar vetrarsíldarnætur, að verðmæti um 130 þús. kr., og krossvið fyrir um 10 þús. kr. Þessum verðmætum var reynt að bjarga úr skipinu, en tókst ekki vegna óhagstæðrar veðráttu. Skipið er ónýtt.

Sjómannablaðið Víkingur. 3 tbl. 1 mars 1949.


B.v. Egill Skallagrímsson RE 165 á veiðislóð.                                   (C) Sigurgeir B Halldórsson.


B.v. Egill Skallagrímsson RE 165 við bryggju á Ísafirði.               (C) Sigurgeir B Halldórsson.


B.v. Egill Skallagrímsson RE 165 í erlendri höfn, sennilega Grimsby.              Mynd úr safni mínu.

         Togarinn Egill Skallagrímsson
              seldur til Hafnarfjarðar
 

  Útgerðarmenn Haukaness kaupa togarann

Tveir útgerðarmenn í Hafnarfirði, þeir Haraldur Jónsson og Jón Hafdal, hafa fest kaup á togaranum Agli Skallagrímssyni, sem nýlega var auglýstur til sölu, en seljandi er skilanefnd Kveldúlfs hf. Hinir hafnfirzku kaupendur hafa gert út togarann Haukanes og vélskipið Margréti. Verður Egill Skallagrímsson nú gerður út frá Hafnarfirði og fer á veiðar í dag eða á morgun. Togarinn Egill Skallagrímsson er 23 ára gamalt skip og hefur hann jafnan verið gerður út frá Reykjavík. Hann er einn af nýsköpunartogurunum gömlu, systurskip Ingólfs Arnarsonar, sem Bæjarútgerð Reykjavíkur gerir út. Skipstjóri á Agli Skallagrímssyni verður Þorsteinn Auðunsson, sem undanfarið hefur verið með vélskipið Margréti.

Morgunblaðið. 18 desember 1970.

28.11.2020 21:08

1241. Skælingur NS 96.

Vélbáturinn Skælingur NS 96 var smíðaður hjá Bátasmíðastöð Breiðfirðinga (sem síðar varð Bátalón) í Hafnarfirði árið 1959. Báturinn var nótabátur og var endurbyggður og dekkaður á Eskifirði árið 1972. Eigendur voru Tómas Hjaltason, Bragi Haraldsson og Hallgrímur Arason á Eskifirði frá 24 september 1971, hét Víðir SU 13. Seldur 4 nóvember 1974, Erlingi B Einarssyni og Kristbergi Einarssyni í Vestmannaeyjum, hét Unnur VE 52. Seldur 13 febrúar 1979, Kaupfélagi Héraðsbúa á Egilsstöðum, hét þá Skælingur NS 96. Seldur 20 ágúst 1981, Arnþóri Magnússyni, Jóhanni Rúnari Magnússyni og Sveini Guðmundssyni á Borgarfirði eystra, hét Brimir NS 21. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 18 mars árið 1983.

Nafn bátsins er dregið af fjallinu Skælingi sem er við norðanverðan Loðmundarfjörð og líkist einna helst kínversku hofi séð frá sjó.


Skælingur NS 96 að leggjast að bryggju á Norðfirði, sennilega Sæsilfursbryggjunni þar sem áður var beitningaraðstaða fyrir báta Norðfirðinga. Maðurinn sem stendur í stafni bátsins er Kristinn Pétursson (Kiddi í Dagsbrún), Norðfirðingur í húð og hár. Hann er nú útgerðarmaður og sauðfjárbóndi á Djúpavogi og gerir út bátinn 6019. Goðanes SU 105.         Ljósmyndari óþekktur.

25.11.2020 16:40

B.v. Jón Baldvinsson RE 208. TFCK.

 

Nýsköpunartogarinn Jón Baldvinsson RE 208 var smíðaður hjá Hall Russell & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1951 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur. Hét Dröfn á smíðatíma. 681 brl. 1.000 ha. 3 þenslu gufuvél. 56,80 x 9,21 x 4,11 m. Smíðanúmer 826. Kom fyrst til heimahafnar, Reykjavíkur hinn 25 júní sama ár. Togarinn strandaði við Hrafnkelsstaðaberg á Reykjanesi 31 mars árið 1955. Áhöfninni, 42 mönnum var bjargað upp á bjargið af Björgunarsveit Slysavarnarfélags Íslands í Grindavík. Flak togarans brotnaði fljótt niður á strandstaðnum og var að mestu leyti horfið eftir nokkra daga.

Jón Baldvinsson RE 208 átti tvö systurskip hér á landi en það voru;,
B.v. Ólafur Jóhannesson BA 77, hét Andvari á smíðatíma. Seldur í apríl 1963 til Noregs, hét þar Sörfold H-186-F. Var svo seldur til Chile árið 1989 og mun hafa sokkið við eyjuna Isla Santa Maria út af borginni Coronel í Chile í óveðri 12 júlí árið 1993.
B.v. Þorsteinn Ingólfsson RE 206, hét Hrefna á smíðatíma. Togarinn var sennilega seldur N.D. Lagoutis & Sons í Pyreus í Grikklandi 25 maí árið 1965.



B.v. Jón Baldvinsson RE 208 við komuna til landsins árið 1951.  Úr safni Kjartans Traustasonar.

          B.v. Jón Baldvinsson RE 208 

Mikill mannfjöldi var saman kominn á hafnarbakkanum til þess að fagna nýjasta togara Bæjarútgerðar Reykjavíkur, "Jóni Baldvinssyni", er hann sigldi fánum skreyttur inn á Reykjavíkurhöfn um kl. 6 síðdegis í gær, eftir fljóta og góða ferð frá Englandi.
"Jón Baldvinsson" er 680 brúttósmálestir að stærð og af sömu gerð og togarinn Þorsteinn Ingólfsson. Vél skipsins er olíukynt gufuvél, og í reynsluförinni sigldi það 13 sjómílur. Skipstjórinn, Jón Hjörtur Stefánsson, lét mjög vel af skipinu á leiðinni heim, en þeir fengu mjög gott veður. Farið var gegnum Pentlandsfjörðinn í svarta þoku, en skipið er búið ratsjá, svo að förinni seinkaði ekki vegna þokunnar. Í hinu vistlega herbergi skipstjórans voru saman komnir ásamt nokkrum gömlum vinum og samstarfsmönnum Jóns heitins Baldvinssonar, Gunnar Thoroddsen borgarstjóri og Jón Axel Pétursson, framkvæmdastjóri Bæjarútgerðar Reykjavíkur, sem einnig var einn af vinum ,og samstarfsmönnum Jóns  Baldvinssonar, og buðu þeir skipið velkomið og árnuðu því og skipshöfninni heilla. í þessum hópi var einnig Baldvin Jónsson, lögfræðingur, Baldvinssonar, og átta ára gamall sonur hans, Jón Baldvinsson. Skipstjóri á "Jóni Baldvinssyni" er Jón Hjörtur Stefánsson, 1. stýrimaður Páll Björnsson, 2. stýrimaður Ólafur Marínó Jónsson, 1. vélstjóri Jónas Ólafsson. Ekki er enn ráðið, hvort skipið verður fyrst sent á karfaveiðar eða það veiðir í salt. "Jón Baldvinsson" er 7. togari bæjarútgerðarinnar; en nú eru liðin 4 ár síðan fyrsti togarinn, "Ingólfur Arnarson" kom til Reykjavíkur. Bæjarútgerðin mun væntanlega fá einn togara í viðbót af þeim, sem nú er verIð að smíða í Bretlandi.

Alþýðublaðið. 26 júní 1951.


B.v. Jón Baldvinsson RE 208 á strandstað.                           


B.v. Jón Baldvinsson RE 208 á strandstað.


B.v. Jón Baldvinsson RE 208 á strandstað.


B.v. Jón Baldvinsson RE 208 á strandstað.


B.v. Jón Baldvinsson RE 208 á strandstað.              (C) Hanner Pálsson. Myndir úr safni mínu.

         B.v. Jón Baldvinsson RE 208
     strandar
 við Hrafnkelsstaðaberg
                     á Reykjanesi

Enn var unnið mikið björgunarafrek í gærmorgun, er hópur vaskra Grindvíkinga bjargaði áhöfn Reykjavíkurtogarans Jóns Baldvinssonar, er strandaði undir bröttum hömrum kippkorn fyrir austan gamla vitann á Reykjanesi. Sigldi togarinn þar í Iand með fullri ferð um klukkan 4 í fyrrinótt. Togarinn var á saltfiskveiðum og voru á honum 29 Íslendingar og 13 Færeyingar.  Sjópróf í máli þessu hefst í dag, en ástæðan til strandsins er ókunn. Veður var stillt en allþétt þoka. Björgun togarans er með öllu vonlaus.
Fregnin um strand nýsköpunartogarans Jóns Baldvinssonar flaug um bæinn árla í gærmorgun. Fólk varð þrumulostið yfir þessum illu tíðindum, og minntist þess, að fyrir um tveim mánuðum síðan fórst fyrsti Nýsöpunartogarinn Egill rauði. En þungu fargi var af mönnum létt, er fregnir bárust um að björgunarstarfið hefði gengið framúrskarandi vel. Tíðindamenn Mbl. fóru á strandstaðinn í gær og áttu þeir stutt samtal við Sigurð Þorleifsson formann Slysvarnafélagsins í Grindavik, um björgunina. - Skrifstofustjóri SVFÍ, Henrý Háldánarson ræsti mig um kl. 4 og sagði mér af strandi togarans. Lét hann þess getið, að skipbrotsmenn hefðu lagt áherzlu á að björgunarsveitin hraðaði för sinni sem mest hún mætti, vegna mikilla ólaga, sem riðu yfir skipið Sigurður náði fljótlega saman 18 mönnum úr björgimarsveitinni og byrjað var að undirbúa bílana, sem flytja skyldi menn og áhöld. En vegurinn, sem er Iíkari troðningum út á Reykjanesið, er svo mjór að taka varð ytra afturhjólið undan hverjum vörubílanna. Í þetta umstang fór eðlilega nokkur tími, sagði Sigurður, en um kl. 7 var björgunarsveitin komin fram á bergið, sem togarinn hafði strandað undir. Heitir það Hrafnkelsstaðaberg og er á þessum stað um 40-50 m. hátt. Á berginu hittu björgunarmenn Sigurjón Ólafsson vitavörð á Reykjanesi, sem komið hafði á strandstaðinn um kl. 5. Frá togaranum hafði línu verið skotið upp á bergi, svo undirbúningur að sjálfu björgunarstarfinu tók skamma stund. 
Skipverjar á Jóni Baldvinssyni voru þá flestir komnir fram á hvalbak skipsins, enda náðu ólögin ekki þangað, er þau brotnuðu á reykháf og yfirbyggingu, því skipið sneri framstafni að landi. Nokkrir skipsmenn höfðust þó enn við í brúnni, sem ólog gengu yfir. En mönnum þessum gekk vel að komast fram á hvalbakinn og sættu lögum.
Þokuslæðingur var, og stundum bar svo þykka bólstra fyrir, að björgurarmenn á berginu sáu tæplega mennina á hvalbaknum. Björgunarstarfið gekk þó vel, sagði Sigurður enda er formaður sveitarinnar hinn traustasti maður, Tómas Þorvaldsson. Kl. 20 mín. fyrir 9, var síðasta manninum af 42 manna áhöfn togarans bjargað. Skipstjórinn, Þórður Hjörleifsson, fór síðastur frá borði. 
Á heimili Sigurjóns vitavarðar í Reykjanesvita og konu hans Sigfríðar Konráðsdóttur, var skipbrotsmönnnum borin hressing, en þeir voru blautir og nokkrir höfðu hlotið minniháttar meiðsl, og var gert að sárum þeirra þar af lækni, sem fór með björgunarsveitinni. Einni mannanna var nokkuð meiddur á fæti. Frá Reykjanesvita voru mennirnir fluttir til Grindavíkur og voru allir komnir þangað laust fyrir hádegi.Þar snæddu þeir hádegisverð í boði kvennadeildar SVFÍ þar. Að miðidegisverði loknum héldu skipbrotsmenn för sinni áfram til Reykjavíkur.
Það er ekki vitað hvað olli því, að Jón Baldvinsson sigldi með fullri ferð upp að Hrafnkelsstaðabergi, það mun væntanlega koma fram við sjóprófin. Togarinn hafði verið á saltfiskveiðum um tveggja vikna skeið og var nú  síðast á Selvogsbanka. Mun hann hafa ætlað á vestlægari mið, Eldeyjarbankann ,eða jafnvel vestur undir Jökul. Skipstjórinn Þórður Hjörleifsson var ekki á vakt, og var fyrsti stýrimaður Indriði Sigurðsson yfirmaður á stjórnpalli.
Jón Baldvinsson var 3 ára og 9 mánaða. Hann sigldi fánum skreyttur inn á Reykjavíkurhöfn 25. Júní  1951. Hann var af sömu gerð og t.d. togarinn Pétur Halldórsson. sem einnig er eign Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Var Jón Baldvinsson tæplega 700 lesta skip. Er hann strandaði var hann með á annað hundrað tonn af saltfiski og nokkuð af fiskimjöli. Alla tíð var togarinn aflasæll.

 


Morgunblaðið. 1 apríl 1955.

 

 

 

22.11.2020 09:35

Nýsköpunartogarinn Goðanes NK 105 í Færeyingahöfn á Vestur Grænlandi.

Þegar fór að sverfa að íslensku togurunum á heimamiðum vegna aflabrests á árunum eftir 1950, fóru útgerðir þeirra að leita nýrra miða. Gengdarlaus sókn okkar og erlendra þjóða á fiskimiðin við Ísland hafði gengið það nærri fiskistofnunum að jafnvel var talað um ördeyðu. Það var svo árið 1952-53, að Bæjarútgerðartogarinn Jón Þorláksson RE 204, fann ágæt karfamið við suðaustur Grænland, svonefnd "Jónsmið", sem gáfu vel af sér. Það var ekkert nýtt á þessum árum að íslensku togararnir sóttu á fjarlæg mið. Nýsköpunartogarinn Akurey RE 95 fór í ágústmánuði árið 1947 á miðin við v-Grænland og aflaði ágætlega. Mig minnir að togarinn Egill rauði NK 104 hafi farið sína fyrstu veiðiferð í Hvítahaf árið 1947 og eflaust hafa fleiri togarar gert það einnig. Í grein hér að neðan er sagt frá stofnun félags sem íslenskir útgerðarmenn og danir stóðu að árið 1953, það hét Davidsstrait. Hvort það hafi orðið til þess að íslenskir togarar fengu afgreiðslu í Grænlenskri höfn, veit ég ekki. En þetta ár sóttu togararnir stíft á miðin við Grænland hvort sem var veitt í ís eða aflinn var saltaður um borð. Það var auðvitað frumskilyrði að togararnir fengju einhverja afgreiðslu í Grænlandi, sérstaklega þegar veitt var í salt og veiðiferðirnar tóku þá allt að 3 mánuðum, að þeir gætu leitað hafnar til að sækja vatn og vistir, brennsluolíu og fengið viðgerð á því sem bilaði. 
Myndirnar hér að neðan eru úr safni Kjartans Traustasonar á Húsavík og sýna togarann Goðanes NK við bryggju í Færeyingahöfn á Grænlandi.


B.v. Goðanes NK 105 við bryggju í Færeyingahöfn. Veit ekki hvaða skip liggur utan á togaranum, gæti verið norskt selveiðiskip.  Úr safni Kjartans Traustasonar.


Um borð í Goðanesi NK. Hluti áhafnar togarans stillir sér upp í myndatöku fremst á bakka skipsins. Maðurinn lengst til vinstri gæti verið Sveinn Þórðarson frá Skógum í Mjóafirði. hina þekki ég ekki. Tveir öftustu eru sennilega Færeyingar. Úr safni Kjartans Traustasonar.


B.v. Goðanes NK 105 á leið inn til Færeyingahafnar. Úr safni Kjartans Traustasonar.

    Íslenskir togarar munu fá aðstöðu                                 í Grænlandi

Íslenskt-danskt félag stofnað og ætlar að
                koma upp birgðastöð

Öruggt má telja, að nú hafi tekizt að skapa íslenzkum togurum frumskilyrði til að geta stundað veiðar á Grænlandsmiðum. Togaraútgerðarmenn hafa fyrir skömmu stofnað félag ásamt dönskum málaflutningsmanni, en félag þetta mun reisa bækistöð etnhversstaðar á vesturströnd Grænlands.
Hafsteinn Bergþórsson, framkvæmdastjóri Bæjarútgerðar Reykjavíkur átti í samningum um félagsstofnunina fyrir hönd togaraútgerðarmanna og er hann fulltrúi þeirra í stjórn félagsins. Það hlaut nafnið Davidsstrait og málaflutningsmaðurinn danski sem á hlutdeild í félaginu er Nils Arup, sonur prófessors Arups.
í gær átti Mbl. samtal við Hafstein Bergþórsson, framkvæmdastjóra og skýrði hann svo frá, að stjórn hins nýstofnaða félags hefði sótt um leyfi til Grænlandsstjórnarinnar dönsku, um að fá leyfi til að setja upp bækistöð fyrir togarana á vesturströnu Grænlands. Í Færeyingahöfn er starfandi norskt-færeyskt-danskt félag, sem á þar bryggjur og birgðastöð, þar sem skip frá þessum löndum geta fengið salt, veiðarfæri, matvæli og yfirleitt hverskonar nauðsynjar til veiða. Það er hugmyndin að hið nýstofnaða félag okkar starfi á svipaðan hátt, sagði Hafsteinn. Það kostar stórfé að koma slíkri bækistöð upp og öll skilyrði til mannvirkjagerðar eru þar heldur erfið. Í sumar hafa Grænlandsmiðaveiðar ekki verið stundað mikið af íslenskum togurum og veldur þar mestu um, að markaður er mjög lítill fyrir saltaðan smáfisk, en það er einmitt sú fisktegundin, sem veiðist mest á miðunum þar. Þá hefur togurum verið neitað um salt í Færeyingahöfn, nema togurum Bæjarútgerðarinnar og Patreksfjarðartogurum. Hafa aðrir togarar, sem þangað hafa farið til veiða, orðið að taka salt hér heima eftir því sem mögulegt hefur verið, saltað upp úr því og haldið síðan heim með aflann.
Að lokum sagði Hafsteinn Bergþórsson framkvæmdastjóri, að með vori verði væntanlega hægt að hefja byggingaframkvæmdir við birgðastöðina, því ef íslenskir togarar eiga að sækja á Grænlandsmið þá er slík bækistöð frumskilyrði fyrir allri útgerð þar.

Morgunblaðið. 23 ágúst 1953.


08.11.2020 06:33

B.v. Belgaum RE 161. LCGR / TFNC.

Botnvörpungurinn Belgaum RE 161 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1916 fyrir Belgaumsfélagið (Þórarinn Olgeirsson og fl.) í Reykjavík. 337 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 42,70 x 7,31 x 4,00 m. Smíðanúmer 649. Skipið var tekið nýsmíðað í þjónustu breska sjóhersins sem tundurduflaslæðari og var ekki afhent eigendum sínum fyrr en í ársbyrjun 1919. Skipið var umskráð til Hafnarfjarðar 30 október 1924 og bar þá skráningarnúmerið GK 161. Selt 25 júlí 1925, hf. Fylki (Aðalsteinn Pálsson skipstjóri og fl.) í Reykjavík, hét þá Belgaum RE 153. Selt 16 nóvember 1951, Höfðaborg hf. Á Skagaströnd, hét Höfðaborg HU 10. Selt í brotajárn og tekið af skrá 23 maí árið 1955.

Nafnið "Belgaum" er sótt til borgar í Bombay héraði á Indlandi.


B.v. Belgaum RE 161 á sundunum. Engey í baksýn.                              (C)  Tóbakseinkasala ríkisins.
 

Botnvörpungurinn Belgaum RE 161

Belgaum, hinn nýi botnvörpungur Jes Zimsen o. fl., kom í gær frá Englandi. Skipstjóri er Þórarinn Olgeirsson, skipshöfnin íslensk. Samkvæmt nýjustu sóttvarnarráðstöfunum var skipið sett í sóttkví til morguns.

Vísir. 8 apríl 1919.


B.v. Belgaum RE 153 á veiðum. Sennilega er það Aðalsteinn Pálsson skipstjóri sem stendur á brúarvængnum. Skipverjar gefa sér tíma til að líta upp frá vinnu sinni.  Ljósmyndari óþekktur.
 

              Nýtt fiskveiðafélag
                Belgaum seldur

Menn mun reka minni til þess, að í vor var botnvörpuskipið Belgaum auglýst til sölu. Mun ýmsa hafa langað til þess að eignast það og nú fyrir fáum dögum var skipið selt. Er það nýtt fiskveiðahlutafélag, sem »Fylkir« nefnist, að keypt hefir skipið, og tekur Aðalsteinn Pálsson, sem áður var skipstjóri á »Kára Sölmundarsyni, við skipstjórn á »Belgaum«. Stjórn þessa nýja félags skipa þeir Páll Bjarnason lögfræðingur (formaður), Páll Ólafsson frá Hjarðarholti (framkvæmdastjóri) og Aðalsteinn Pálsson skipstjóri. Eigi verður breytt um nafn á skipinu og heitir það áfram »Belgaum«. Hlutafélagið »Belgaum« er nú að láta smíða nýtt skip í Englandi, talsvert stærra en »Belgaum«, eða á stærð við »Skallagrím«. Verður Þórarinn Olgeirsson skipstjóri á því skipi.

Dagblað. 28 júlí 1925.


B.v. Belgaum RE 153 á toginu.                                 (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 

                    Á togara

Í janúar 1929 skall á mikið og hart togaraverkfall. Þá var Aðalsteinn Pálsson skipstjóri á togaranum Belgaum, RE 153, sem Kárafélagið gerði út. Þetta skip var smíðað fyrir hinn kunna aflamann og skipstjóra Þórarinn Olgeirsson Í Bretandi 1916, en Englendingar tóku það til afnota í stríðinu, svo að íslenzku eigendurnir fengu það ekki afhent fyrr en í stríðslok. Það var 337 lestir og nefnt eftir borg á Vestur-Indlandi. Það var gömul hjátrú, að happasælt væri að hafa sjö stafi í skipsnafni. Aðalsteinn tók mig á togarann eftir verkfallið, í byrjun vetrarvertíðar 1929. Ég fór þrjár ferðir á Belgaum. Minnisstæðast var, þegar við veiddum í Kolluálnum út af Snæfellsnesi. Við breiddum þá yfir nafn og númer. Þetta var í landheigi. Vökulögin voru gengin í gildi, svo að menn áttu rétt á átta tíma hvíld á sólarhring. Aflinn var mikill, svo að skipstjórinn lét okkur standa, þótt við ættum að vera í koju, lét okkur hafa eina frívakt af hverjum fjórum, en við áttum rétt á einni af hverjum þremur. Aðalsteinn virtist hörkutól. Af brúarvængnum komu stundum ferlegar fléttur langra blótsyrða. Hann var trúlega vænsti maður, en hann var áreiðanlega undir miklu álagi. Fyrst flatti ég, síðan bar ég lifrina í körfum og drakk volgt lýsið hjá bræðslumanninum. Seinast var ég látinn í pondið.

Sjómannablaðið Víkingur. 4 tbl. 1 desember 1996.
Úr bókinni, Benjamín H J Eiríksson. Í stormum sinna tíða.



B.v. Höfðaborg HU 10 á leið inn til Reykhjavíkurhafnar.  (C) Snorri Snorrason.
 

      Belgaum skírður Höfðaborg

Togarinn Belgaum hefir nýlega skipt um eigendur. Hefir hann verið seldur til Skagafjarðar og heitir nú "Höfðaborg". Belgaum er sem stendur í slipp, en fer að aðgerð lokinni til hinna nýju heimkynna sinna á Norðurlandi. Í slipp eru nú auk hans Pólstjarnan og Þyrill.

Vísir. 9 október 1951.

03.11.2020 17:21

L.v. Sverrir EA 20. TFKG.

Línuveiðarinn Sverrir EA 20 var smíðaður hjá Kockum Mekaniska Verkstad Aktiebolag í Malmö í Svíþjóð árið 1895. 158 brl. 160 ha. 2 þennslu gufuvél. Hét fyrst Smiril og var í eigu Mortensens Handil (bræðurnir Niels Juel Mortensen og Petur Mortensen Tvöroyri) í Færeyjum og var skipið í vöru og farþegaflutningum um eyjarnar frá 1895 til 1933. Endurbyggt að einhverju leiti 1901. Selt 14 mars 1934, Sigurði Sumarliðasyni útgerðarmanni og Gunnari Guðlaugssyni á Akureyri, hét Sverrir EA 20. Þeir gerðu skipið út á þorsk og síldveiðar. Selt 23 október 1940, Fáki hf (Sigfúsi Blöndahl stórkaupmanni) í Reykjavík. Skipið var endurbyggt árið 1942. Selt 7 júlí 1945, Hf. Sverri í Keflavík. Skipið var selt í brotajárn árið 1956.


Sverrir EA 20 inn á Siglufirði.                                                                          (C) Regin Torkilsson.

 Skipsstrand í Vestmannaeyjahöfn

Línuveiðarinn "Sverrir " frá Akureyri strandaði í Vestmannaeyjahöfn í gærdag , en náðist út aftur. Skipið er þó töluvert laskað og talið leka mikið. Lv. "Sverrir" , sem er 158 brúttó smálestir að stærð, var að koma frá Englandi til Eyja hlaðinn kolum. Ætlaði skipið inn á höfn án hafnsögumanns og rakst upp í nyrðri hafnargarðinn á svonefnda Hörgseyri. Vjelbáturinn "Már " úr Reykjavík, sem staddur var í Eyjum fór "Sverri " til hjálpar og tókst að draga skipið út af skerinu.

Morgunblaðið. 28 mars 1940.


Smiril nýsmíðaður frá Kockum skipasmíðastöðinni í Malmö 1895.                   Mynd úr safni mínu.

         7 skipverjar réru til lands,                       en skipið finnst ekki

Á laugardagskvöldið var, komu 7 menn í björgunarbát róandi að Skálanesi, sem er ysti bær í Seyðisfirði að sunnanverðu, og tilkyntu þeir að línuveiðarinn Sverrir lægi með bilaða vél um 30 sjómílur suðaustur af Dalatanga. Töldu menn þessir, sem allir voru hásetar á Sverri, að stimpill hefði brotnað í vélinni, þannig að skipið væri ósjófært og yrði að fá sem skjótasta hjálp. Bæjarfógetanum á Seyðisfirði, Hjálmari Vilhjálmssyni, var þegar tilkynnt hvernig komið væri, og fyrir meðalgöngu hans fékst norskur línuveiðari til þess að halda frá Seyðisfirði og leita að Sverri. Lagði hann af stað kl. rúmlega 9 á laugardagskvöldið og leitaði á þeim slóðum, er talið var að Sverrir lægi, en alt kom fyrir ekki. Kom línuveiðari þessi því næst aftur til Seyðisfjarðar, eftir árangurslausa leit. Bæjarfógetinn á Seyðisfirði skýrði Slysavarnafélagi Íslands því næst frá því, hvernig komið væri, og hefir starfað í samráði við það. Reyndi hann í gær að fá flugvél eystra, til þess að svipast um eftir Sverri, en það tókst ekki.
Þá leitaði hann fyrir sér um báta, er fáanlegir væru til þess að hefja leit og tókst að fá þrjá báta frá Seyðisfirði, Eskifirði og Fáskrúðsfirði, til þess að leggja út. Lögðu bátarnir af stað í gærkveldi og höguðu för sinni þannig, að allir fóru þeir af stað á miðnætti, einn frá Gerpi, annar frá Vattarnesi og Hinn þriðji frá Hafnarnesi, og leituðu 40 sjómílur til hafs. Bátar þessir hafa allir talstöðvar, og náði bæjarfógeti tali af þeim í morgun kl. 8, en þá hafði leit þeirra engan árangur borið. Bæjarfógeti sendi Sverri skeyti gegnum loftskeytastöðina á Seyðisfirði, og bað skipstjórann um að gefa glögg ljósmerki í nótt, með því að leitinni myndi verða haldið áfram. Slysavarnafélagið hefir reynt að fá flugvélar hér syðra til þess að leita að skipinu, en svo illa stendur á, að sjóflugvélin mun vera í viðgerð, en landflugvélar eiga erfitt með förina. Tveir menn, sem eftir urðu um borð í Sverri, eru skipstjórinn, Lárus Blöndal, 2. stýrimaður, 1. vélstjóri og matsveinn. Veður er hið ágætasta eystra, og skipinu því ekki talin nein hætta búin eins og sakir standa.
Eigandi Sverris er Sigfús Blöndahl stórkaupmaður hér í bæ, og hafði hann nýlega keypt skipið af Sigurði Sumarliðasyni, útgerðarmanni á Akureyri. Samkvæmt skeyti, er Slysavarnafélaginu barst kl. 1 í dag, fannst Sverrir 26 sjómílur út af Dalatanga. Eru nú vélbátarnir á leið til hafnar.

Vísir. 25 nóvember 1940.

01.11.2020 08:48

Fiskimiðaleit togarans Harðbaks EA 3 sumarið 1955.

Á árunum eftir 1950 fór að sverfa að togaraflotanum hvað fiskimiðin varða. Við útfærslu landhelginnar í 4 sjómílur 1952 var lokað fyrir veiðar í flóum og fjörðum, en verst var fyrir togaranna að missa sín hefðbundnu fiskimið út af Faxaflóanum og Breiðafirði. Og enn nú meira var það þegar landhelgin var færð út í 12 sjómílur  árið 1958. Neyðin kennir naktri konu að spinna. Það var sumarið 1954 að tilhlutan Jóns Axels Péturssonar og Hafsteins Bergþórssonar, sem þá voru framkvæmdastjórar Bæjarútgerðar Reykjavíkur og Hermann Einarsson fiskifræðingur, en þeir áttu frumkvæðið að því að togaraútgerðirnar leituðu nýrra fiskimiða. Eftir því sem ég veit best var það Bæjarútgerðartogarinn Jón Þorláksson RE 204  sem hélt á miðin við Austur Grænland í ágúst sama ár. Árangur þeirrar leitar var sá að hann fann auðug karfamið sem gáfu vel af sér. Þau fengu nafnið Jónsmið, í höfuð togarans Jóns Þorlákssonar RE 204. Sama ár leitaði togarinn Austfirðingur SU 3, nýrra fiskimiða úti fyrir Norðurlandi og út af Austfjörðum sem gáfu góða raun. Það var svo í júnímánuði árið 1955 að Atvinnumálaráðuneytið fékk togarann Harðbak EA 3 til að leita nýrra fiskimiða úti fyrir Norður og Austurlandi. Greinin hér að neðan er eftir Ingvar Hallgrímsson fiskifræðing en hann var með í för þessa leiðangurs togarans Harðbaks EA 3 frá Akureyri sumarið 1955.


B.v. Harðbakur EA 3 í Reykjavíkurhöfn.                                                   (C) Valdimar Jónsson.

      Frá fiskimiðaleit "Harðbaks"


Eins og kunnugt er, samþykkti síðasta Alþingi að fela ríkisstjórninni leit nýrra fiskimiða fyrir Norður- og Austurlandi. Í greinargerð með samþykkt þessari er gert ráð fyrir umfangsmikilli leit, og er réttilega tekið fram, að þessu verkefni verði ekki lokið á einu sumri. Í fylgiskjali með tillögunni eru raktir erfiðleikar togaraútgerðarinnar norðanlands og austan, aðallega hvað snertir fjarlægð fiskimiða frá heimahöfnum þessara togara, og eins er þar getið, að togarinn "Austfirðingur", skipstjóri Þórður Sigurðsson, hafi á síðastliðnu sumri fundið ný fiskimið norðanlands, og er það álit skipstjórans, að mikil þörf sé fiskimiðaleita á norðaustursvæðinu. Atvinnumálaráðuneytið fékk svo togarann "Harðbak", skipstjóri Sæmundur Auðunsson, til þess að leita nýrra fiskimiða á þessu svæði, og var mér falið að taka þátt í þeirri leit. Leitin stóð yfir frá 1. til 13. júní með eins dags hléi. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, var leitað allt vestur frá Strandagrunni og úti fyrir Norðurströndinni allt austur til Þórsmiða. Á myndinni eru togstöðvarnar merktar með punktum. Þar sést, að oftast var togað utan venjulegra fiskislóða milli 200 og 500 metra dýptarlínanna yzt á landgrunnshallanum. 


Kortið sýnir togslóðir Harðbaks EA úti fyrir Norður og Austurlandi.                             Mynd úr Ægi.

Á utanverðu Strandagrunni var góð veiði, þegar við vorum þar, og var það tilkynnt öðrum skipum, og komu nokkrir togarar á þessar slóðir. Annars voru aflabrögðin mjög lítil, og ekki er hægt að segja með sanni, að ný fiskimið hafi fundizt. Togbotn var víðast góður, en víða gefa sjókort alranga mynd af botnlagi, t. d. má sjá af myndinni, að leitað var gaumgæfilega norður af Kolbeinsey, þar eð ráða mátti að sjókortum, að þarna væru bærileg togsvæði, en svo reyndist ekki. Er allsendis ófært, að ekki skuli vera til örugg sjókort yfir hafið umhverfis landið, og er ómælt hvílíku tjóni það hefur valdið.
Leiðangur þessi hefur sætt gagnrýni, aðallega fyrir þá sök, að hann hafi verið farinn á óheppilegum tíma, þ. e. of snemma sumars. Má það reyndar til sanns vegar færa, því að í ljós kom, að sjávarhiti djúpmiðanna fyrir norðan og austan reyndist lágur á athugunartímanum. Hins vegar er þess að gæta, eins og fyrr segir, að hér er gert ráð fyrir umfangsmikilli leit, sem ekki verður lokið á einu sumri, og má því líta á þessa ferð sem fyrsta þátt þessa mikla verkefnis. Í skýrslu um leiðangurinn get ég þess m. a., að ég telji að æskilegt sé að farinn verði annar leiðangur síðsumars yfir þetta svæði, þar sem þess megi vænta, að fiskur gangi á djúpmið síðari hluta sumars, þegar upphitun sjávarins sé orðin meiri en hún var í fyrri hluta júní. Þetta álit reyndist rétt, og má nefna, að röskum mánuði eftir að við toguðum út af Melrakkasléttu með litlum árangri, fékk togarinn "Austfirðingur" ágætan afla á sömu slóðum. Má því fyllilega búast við, að árangur "Harðbaks"-leiðangursins hefði orðið meiri, ef seinna hefði verið farið. Þó má sitthvað læra af þessum leiðangri, og vil ég hér sérstaklega minnast á sambandið milli sjávarhitans og fiskimagnsins.


Grafið sýnir afla í kg pr togtíma ásamt botnhita.             Mynd úr Ægi.

Eins og kunnugt er, eru allir fiskar (og reyndar öll önnur dýr) háð vissum lífsskilyrðum, þ. e. a. s. að umhverfi fisksins verður að uppfylla viss skilyrði til þess að hann geti þrifizt. Þessar kröfur, sem fiskurinn gerir til umhverfisins, eru mjög margbrotnar og sumar tæpast þekktar, en meðal þeirra er sjávarhitinn, og hann er auðveldast að athuga. Fiskurinn velur sér umhverfi með vissu hitastigi, sem nefnist kjörhiti fisksins. Kjörhitinn er mismunandi fyrir hinar ýmsu tegundir, og er annar á hrygningartíma en utan hans. Víða erlendis hafa farið fram umfangsmiklar athuganir á kjörhita helztu nytjafiska, en hér við land hefur þetta aðeins verið athugað lítillega enn sem komið er. Norskir fiskifræðingar hafa t. d. fært sönnur á, að við Lófót hrygnir þorskur næstum eingöngu í 4-6° heitum sjó. Eitt árið getur þorskurinn staðið djúpt í sjó á hrygningartíma, annað árið grunnt, allt eftir því hvar þetta vissa hitalag er að finna. Einnig hefur verið sýnt fram á, að við Finnmörk, þar sem þorskur er veiddur utan hrygningartíma, heldur hann sig aðallega í 3° heitum sjó. Á "Harðbak" var í þessari ferð mældur botnhiti á 22 togstöðvum. Aðeins í 6 skipti mældist hitinn yfir 3°, en undir 3° í 16 skipti. Þegar athugað er svo sambandið milli botnhitans og þorskaflans, kemur í Ijós, að þorsks varð mjög lítið vart, þar sem botnhitinn var undir 3°. Þetta er sýnt á meðfylgjandi línuriti, þar sem sýndur er aflinn reiknaður á togstund við mismunandi botnhita. Sambandið milli karfaaflans og botnhitans er ekki eins ljóst, en þó má greinilega sjá á línuritinu, að aðeins einu sinni fannst verulegt karfamagn þar sem botnhitinn var undir 2°. Af þessu má ráða, að hin óhagstæðu hitaskilyrði norðanlands og austan í byrjun júní hafi verið ein meginorsök hins litla árangurs. Einnig gefur þetta vísbendingu um, að mælingar sjávarhitans gætu komið íslenzkum fiskiskipum að góðu gagni við veiðarnar. Djúpsjávarhitamælar eru víða erlendis notaðir í fiskiskipum og t. d. í erlendum fiskiskipum við Ísland. Slíkir mælar munu nú vera fáanlegir hér og hefði fyrr mátt vera.

Ægir. 13 tbl. 15 ágúst 1955.
Ingvar Hallgrímsson fiskifræðingur.

  • 1
Flettingar í dag: 170
Gestir í dag: 60
Flettingar í gær: 2133
Gestir í gær: 252
Samtals flettingar: 1051353
Samtals gestir: 75973
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:19:32