Færslur: 2017 Júlí

09.07.2017 09:12

B. v. Tryggvi gamli RE 2. LCHR / TFQC.

Tryggvi gamli RE 2 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir Útgerðarfélagið Hauk í Reykjavík. 326 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 737. Hét fyrst Þorsteinn Ingólfsson RE 2. Selt árið 1922, h/f Alliance í Reykjavík, fékk nafnið Tryggvi gamli RE 2. Togarinn var seldur í brotajárn til Danmerkur og rifinn í Óðinsvé árið 1955.


B.v. Tryggvi gamli RE 2 að koma til löndunar í Djúpavík.                     (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Tryggvi gamli RE 2 á Reykjarfirði á Ströndum.                                  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Tryggvi gamli RE 2 að veiðum, sennilega í Jökuldýpi.                         (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Alliancetogarinn Tryggvi gamli RE 2 á siglingu.                                  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Tryggvi gamli RE 2. Þetta líkan er á Slippbarnum í Reykjavík.   (C) Þórhallur S Gjöveraa. 9 júlí 2017.

               Nýr botnvörpungur

Enn bætst við fiskiflotann. Það er Þorsteinn Ingólfsson, eign hlutafélagsins Hauks. Hann kom hingað í gær frá Englandi og voru þessir farþegar: Thor Jensen, Kjartan Thors, Friðþjófur Thorsteinsson og Gottfredsen útgerðarmaður. Skipið er af sömu gerð eins og Ingólfur Arnarson. Skipstjóri er Einar Einarsson, frá Flekkudal.

Vísir. 1 júlí 1920.

      Fiskiveiðahlutafjelagið "Alliance"

Elsta og stærsta togaraútgerðarfélag á Íslandi

Fiskiveiðahlutafjelagið "Alliance" var stofnað árið 1906. Voru stofnendur þess: Thor Jensen kaupmaður, og skipstjórarnir, Jón Ólafsson, Jón Sigurðsson, Halldór Kr. Þorsteinsson, Magnús Magnússon, Kolbeinn Þorsteinsson og Jafet Ólafsson. Fjórir þessara skipstjóra höfðu áður gert með sjer fjelag og keypt kúttera árið 1904, en þilskipaútgerð stóð þá hjer í mestum blóma. Í páskaveðrinu 7. apríl 1906 fórst Jafet Ólafsson, ásamt mörgum öðrum, en árið 1910 seldi Thor Jensen hlut sinn og gekk úr fjelaginu. Þegar h/f. "Alliance" var stofnað, höfðu Íslendingar litla þekkingu á togaraútgerð og enga reynslu á því sviði.
Að vísu höfðu verið keyptir tveir togarar hingað til lands frá Englandi, en þeir voru báðir gamlir og mjög ófullkomnir, enda varð árangurinn eftir því. Í febrúar 1907 kom fyrsta skip fjelagsins, "Jón forseti", hingað til lands, og stýrði honum Halldór Kr. Þorsteinsson skipstjóri, sem þá hafði dvalið á annað ár í Englandi til þess að kynna sjer botnvörpuveiðar. "Jón forseti" var smíðaður í Glasgow svo fullkominn, sem þá var frekast kostur. Var hann fyrsti togari, er Íslendingar ljetu smíða, og má því segja, að með komu hans hefjist togaraútgerð Íslendinga. Það kom strax í ljós, að togaraútgerð gæti, ef skynsamlega væri að farið, orðið arðvænlegur atvinnuvegur fyrir landsmenn, enda fóru menn þá óðum að feta í fótspor þessara manna og hefir togurum síðan fjölgað ár frá ári, uns íslendingar eiga nú 40 togara. Fjelagið hefir eignast 6 togara, en af þeim misst tvo, þá Skúla fógeta, byggðan 1911, fórst hann í Norðursjónum í byrjun ófriðarins, 26. ágúst 1914, og Jón forseta, sem strandaði á Stafnestöngum 27. febrúar 1928; á það því nú 4 togara. Auk þess eiga stofnendur "Alliance", þeir sem enn eru í fjelaginu, 4 aðra togara að nokkru eða öllu leyti, og hafa þannig umráð yfir 1/5 hluta af togaraútgerð landsmanna. Fjelagið hefir komið sjer upp fullkomnum fiskþurrkunarstöðvum með tilheyrandi húsakynnum og getur það nú breitt til þurrkunar í einu ca. 600,000 kg. fiskjar. Auk þess hefir fjelagið byggt fiskþurrkunarhús, sem afgreiðir að meðaltali 10,000 kg. af fullþurrum fiski á sólarhring. Árið 1929 voru útfluttar afurðir h/f. "Alliance" og þeirra fjelaga, sem það hefir umsjón með, sem hjer segir:
Verkaður saltfiskur 3180 þúsund kg.
Óverkaður saltfiskur 2080 þús. kg.
Ísfiskur kr. 675.000.
Lýsi kr. 358.800.
Sama ár flutti fjelagið inn 14,000 smálestir af kolum og 7,000 smálestir af salti. Mestan hluta veiðarfæra lætur fjelagið vinna á vinnustofu sinni við Tryggvagötu, og er unnið að netagerð o. fl. allt árið. Hjá fjelaginu voru sama ár unnin:
Á skipunum 50.000 dagsverk.
Við fiskverkun 27.600 dagsverk.
Netagerð 1.460 dagsverk.
Uppskipun. 7.880 dagsverk.
Önnur störf 7.070 dagsverk, og hafa þannig verið unnin 314 dagsverk að meðaltali hvern virkan dag ársins. Stjórn fjelagsins hafa þeir alla tíð skipað: Jón Ólafsson, Halldór Kr. Þorsteinsson, Magnús Magnússon, Jón Sigurðsson, og Jón Ólafsson, sem jafnan hefir verið framkvæmdastjóri þess.

Morgunblaðið. 26 júní 1930.

07.07.2017 21:59

Barðsneshorn.

Flestir ef ekki allir sæfarendur þekkja Barðsneshorn sem leið eiga til hafnar í Neskaupstað. Barðsneshorn eða Horn er oftast kallað Norðfjarðarhorn á meðal sjómanna og flestir þekkja það undir því nafni. Ég fór ásamt skipsfélaga mínum á Barða NK, Skúla Aðalsteinssyni fyrir rúmlega 20 árum, í land í Rauðubjörgum sem eru innan við Hornið að vestan verðu og blasa þau við frá bökkunum í Neskaupstað. Gengum við félagarnir sem leið lá út á Barðsneshornið, eins langt og hægt var að fara. Þetta var engin glæfraferð, en vissara að fara varlega því snarbratt er að austanverðu og nánast hengiflug niður í sjó. Mónesið skagar fram í sjó um 3-4 mílum sunnar að austan verðu og er það eina undirlendið sem má kalla á þeim slóðum. Ferðalag okkar félaganna tók daginn, en því miður var engin myndavélin með í för. En nóg er til af myndum af Horninu og Rauðubjörgum og læt ég þær fylgja hér með.

Barðsneshorn. Til vinstri sér í Gerpi, austasta tanga landsins.                         (C) Björn Björnsson.

Barðsneshorn og Norðfjarðarflói. Tók þessa mynd um borð í togaranum Barða NK árið 1994.

Rauðubjörg vestan á Barðsnesi.                                                     (C) Jónína Harpa Njálsdóttir. 

                   Barðsneshorn

Barðsneshorn, stundum kallað Horn, er yzta táin á Barðsnesi, sem er útvörður Norðfjarðarflóa að austan. Hornið er mjög sæbratt og fjallið þar inn af er úr ríólíti en ofan á því eru þykk brotabergs og gjóskulög. Líkt og annars staðar á Austfjörðum hallar berglögunum þar bratt til vesturs og líkur benda til, að þarna séu leifar af stórri eldstöð, sem sjórinn hefur veðrað að mestu.
Ríólítið kemur skírt fram í hinum litríku Rauðubjörgum, vestast á nesinu. Þarna finnast baggalútar, sem eru líka kallaðir hreðjasteinar, grænn biksteinn og niðri við sjó eru uppréttir, kolaðir trjástofnar, allt að einum metra í þvermál. Sumir telja þessa stofna elztu gróðurleifar landsins (15 millj. ára). Á nesinu voru fyrrum fimm bæir, þegar flest var, og útsýni er frábært á góðum degi.

www.nat.is


04.07.2017 20:16

794. Stígandi ÓF 25. TFMS.

Stígandi ÓF 25 var smíðaður í Rödvig í Danmörku árið 1947. Eik. 76 brl. 260 ha. Alpha díesel vél. Eigendur voru Sigurður Baldvinsson, Jón Guðjónsson og Anton Benjamínsson á Ólafsfirði frá 30 júní 1948. Ný vél (1962) 280 ha. Alpha díesel vél. Skipið var endurmælt 1962, mældist þá 81 brl. Selt 4 nóvember 1965, Steingrími Magnússyni í Reykjavík, hét Magnús lV RE 18. Selt 27 júní 1968, Sjólastöðinni h/f í Reykjavík, hét Sjóli RE 18. Selt 7 júlí 1977, Hjörleifi Hallgrímssyni á Akureyri, skipið hét Helgi magri EA 277. Selt 1979, Sjólastöðinni í Hafnarfirði, hét Sjóli RE 18. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá og sökkt í Faxaflóa 5 júlí árið 1981.


Stígandi ÓF 25.                                                                               (C) Hafsteinn Jóhannsson.

       "Stíganda" bjargað frá strandi

Vélskipið Stígandi frá Ólafsfirði varð fyrir því óhappi í gær, að vél þess bilaði og munaði minnstu, að skipið ræki stjórnlaust upp á sker. Þetta gerðist skammt norður af Skagatá, en þar mun Stígandi hafa verið að veiðum. Vindur var nokkur af norðri eða norðaustri og rak bátinn í áttina að landi. Var einkum talin hætta á að hann bæri upp á svonefnt Skallarif.
Skipverjum tókst að stýra skipinu fram hjá því, á síðustu stundu, með seglaútbúnaði skipsins. Slysavarnafélagið bað nærstödd skip að fara Stíganda til aðstoðar og um kl. 1 var vélskipið Stjarnan frá Akureyri komin Stíganda til hjálpar. Mun hann þá hafa verið kominn mjög nærri landi. Að öðru leyti hefir allt verið tíðindalaust af sjónum nú undanfarna daga, enda bezta veður flesta þeirra.

Lögberg. 18 maí 1950.

03.07.2017 12:30

938. Öðlingur ÁR 10. TFSP.

Öðlingur ÁR 10 var smíðaður í Marstrand í Svíþjóð árið 1946. Eik. 51 brl. 170 ha. Polar díesel vél. Hét fyrst Græðir ÓF 3 og var gerður út af Græði h/f á Ólafsfirði. Ný vél (1952) 350 ha. Grenaa díesel vél. 28 janúar 1958 var nafni bátsins breytt, hét þá Hannes Andrésson ÓF 3. Seldur 28 mars 1959, Græði h/f á Bíldudal, hét Jörundur Bjarnason BA 65. Ný vél (1959) 225 ha. MWM díesel vél. Seldur 10 október 1962, Vigfúsi Jónssyni og Sverri Bjarnfinnssyni á Eyrarbakka, báturinn hét Öðlingur ÁR 10. 1 febrúar 1965 kveiknaði í bátnum þar sem hann stóð í slippnum á Eyrarbakka tilbúinn til að setja hann niður. Hann var síðan dreginn til Njarðvíkur, en var svo mikið skemmdur eftir brunann að hann var talinn ónýtur og tekinn af skrá 6 maí árið 1965.


Öðlingur ÁR 10.                                                                                        Ljósmyndari óþekktur. 

Jörundur Bjarnason BA 65.                                                                       Mynd úr Íslensk skip.                                                                           

02.07.2017 20:30

373. Ásbjörn MB 90. TFZL.

Ásbjörn MB 90 var smíðaður í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar á Ísafirði árið 1943. Eik. 52 brl. 120 ha. Lister díesel vél. Eigendur voru Sameignarfélagið Ásbjörn á Akranesi frá 28 september 1943. Árið 1947 var báturinn skráður Ásbjörn AK 90. Ný vél (1951) 198 ha. Mirrlees díesel vél. Seldur 26 apríl 1953, Haraldi Böðvarssyni & Co h/f á Akranesi, sama nafn og númer. Ný vél (1960) 300 ha. MWM díesel vél. Seldur 19 september 1963, Guðna Sigurðssyni í Reykjavík og Sigurbirni Árnasyni í Garðahreppi, báturinn hét Dreki RE 134. Seldur 15 mars 1972, Þórveigu h/f í Grindavík, hét Þórveig GK 222. Ný vél (1974) 350 ha. Caterpillar díesel vél. 4 mars 1975 er Skipasmíðastöð Njarðvíkur eigandi bátsins. Seldur 12 mars 1975, Jakob Jónatanssyni í Þorlákshöfn, hét Trausti ÁR 71. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 11 desember árið 1979.


Ásbjörn MB 90 nýsmíðaður hjá Marselíusi Bernharðssyni árið 1943.                 Mynd úr safni mínu.


Ásbjörn AK 90. Líkan Gríms Karlssonar.                                                (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Ásbjörn AK 90 í hópi nokkura Akranesbáta í Sjóminjasafninu Víkinni.         (C) Þórhallur S Gjöveraa.

02.07.2017 07:03

B. v. Njörður RE 36. LCDK.

Botnvörpungurinn Njörður RE 36 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1912 fyrir J. Marr & Sons Ltd í Fleetwood á Englandi, hét fyrst Velia FD 229. 278 brl. 500 ha. 3 þennslu gufuvél, smíðuð hjá C.D.Holmes & Co Ltd í Hull. 133,6 x 24 x 13 ensk ft. Smíðanúmer 536. Skipið var sjósett 31 ágúst sama ár. Selt 28 janúar 1914, Togarafélaginu Nirði í Reykjavík (Elías Stefánsson), fékk nafnið Njörður RE 36. Togaranum var sökkt 18 október 1918 af þýska kafbátnum U-122, um 25 sjómílur suðvestur af St. Kilda við Skotlandsstrendur þegar hann var á leið í söluferð til Fleetwood. Áhöfnin, 12 menn, bjargaðist  í björgunarbát og þaðan um borð í breska togarann Lord Lister H 484 frá Hull eftir tæplega 3 sólarhringa hrakninga. Fór togarinn með skipbrotsmennina til Londonderry á Norður Írlandi.

 
Njörður RE 36. Danski fáninn málaður á síður skipsins, enda fyrra stríð í fullum gangi.     (C) G. Á. 
 

                         Njörður

 Nýtt botnvörpuskip komið til Reykjavíkur
 
Hinum Íslenzka botnvörpuskipastól bættist í gær óvanalega gott skip. Hlutafélagið »Njörður«, sem stofnað var hér í bænum fyrir nokkru, eins og vér gátum um í blaði voru, tók á móti hinu fyrsta skipi sínu í gær. Skipstjóri á skipinu, sá sem farið hefir til Bretlands til þess að kaupa og stjórna skipinu hingað, sigldi þvi á tæpum 4 sólarhringum frá Fleetwood á Englandi og hingað. En sá staður liggur á vesturströnd Englands. Njörður, svo kallast skipið, kom hingað í fyrrakvöld seint. En í gær hafði framkvæmdastjóri félagsins, hr. Elías Stefánsson, boðið á skipsfjöl ýmsum heldri borgurum þessa bæjar. Voru í þeirra tölu margir af meðeigendum skipsins, hluthöfum í félaginu Njörður. Var farið í vélbát frá Duusbryggju kl. 1 síðdegis. Í förinni voru meðal annara, Geir kaupmaður Zoéga, Th. Thorsteinsson kaupmaður, Sighvatur Bjarnason bankastjóri, Kristján Jónsson háyfirdómari, O. Forberg símastjóri, Magnús Einarsson dýralæknir, sr. Jóhann Þorsteinsson, Páll Halldórsson skólastjóri, Elías Stefánsson framkvæmdarstjóri, Ellert Schram skipstjóri, Vilhjálmur Finsen ritstjóri, Árni Olason blaðamaður o. fl, Gestunum var undir eins boðið niður í káetuna.
 
Njörður RE 36 við bryggju (í miðið), sennilega á Akureyri. Hinir togararnir eru Víðir GK 450 til h. Og vinstramegin við Njörð er Jón forseti RE 108. Flutningaskip lengst til vinstri.      (C) G. Á.

Guðmundur Guðnason skipstjóri tók á móti þeim á þilfarinu og var nú sezt að drykkju. Sighvatur Bjarnason bankastjóri hóf þá glas sitt og tók til máls. Sagðist ekki ætla að skíra barnið, en vilja þakka, bæði fyrir sig og aðra þá er hér væru, fyrir þá ánægju, sem þeim væri veitt með því að vera boðnir hér á skipsfjöl í fyrsta skipti er skipið varpaði akkerum hér við land. Sagði það ósk sína og allra, að fyrirtæki þessu mætti jafnan fylgja hin mesta gæfa og yrði enginn galli á gjöf Njarðar, að í skut félagsins féllu þau höpp, sem óskir frekast næðu að vona. Var þá full félagsins drukkið af heilum huga, í freyðandi kampavíni, og fylgdi því óblandin árnaðarósk allra gestanna. Síra Jóhann Þorsteinsson stóð þá upp og þakkaði fyrir hönd félagsins öllum þeim er gerst höfðu gestir þess á þessum degi, og þó einkum bankastjórn Íslandsbanka, sem hefði látið sér mjög ant um vöxt félags þessa, þegar í öndverðu, og hjálpað því með ráðum og dáð, og stuðlað mjög að því, að svo væri nú komið að skip þetta lægi nú á Reykjavíkurhöfn í stað þess að sigla undir ensku flaggi í Fleetwood á vesturströnd Bretlands. Hann kvað þegar gerða bráðabirgðaskírn á drengnum og þyrfti hér því ekki langra ummæla. Höfundur nafnsins væri Pálmi kennari Pálsson og sá maður, sem hefði haldið barninu undir skemmri skírn, væri skipstjóri þess, Guðmundur Guðnason. Væri honum margt þakkandi vegna ötulleiks hans og góðra tilþrifa í þágu félagsstjórnar. Sagðist ræðumaður því vilja styðja það, að nafn þetta festist við botnvörpunginn, og taka í sama streng og bankastjóri Sighvatur Bjarnason hefði svo heppilega að orði komist, að enginn galli yrði hér á gjöf Njarðar. Var nú aftur drukkin skál félagsins og skipstjórans.
 
Njörður RE 36 í Reykjavíkurhöfn, sennilega árið 1914. Örfiriseyjargarðurinn í byggingu.       Póstkort.

Th. Thorsteinsson kaupmaður tók þá til máls og þakkaði fyrir góðar viðtökur. Sagði það von sína, að fyrirtæki þessu mundi gæfa fylgja og árnaði því allra heilla. Ræðumaður bað því næst alla viðstadda drekka minni útgerðarstjórans, hr. Elíasar Stefánssonar. Var það og gert af fúsum vilja. Því næst stakk Elias upp á því, að skipið sigldi út fyrir eyjar til þess að gestirnir gætu séð með eigin augum, hve hratt skipið sigldi og fundið hve vel það klyfi sjóinn. Þótti öllum sú uppástunga góð og var þá létt akkerum og haldið til hafs. Knörrinu klauf öldurnar alla leið upp undir Kjalarnes. Stormur var á móti og glettist Ægir lítið eitt við skipið gestum til skemmtunar. Skipið er, að dómi allra þeirra er það skoðuðu, hið traustasta og bezta. Í því eru þrjár lestir fyrir fisk og er þó skipið mun rúmbetra en margur mundi við búast, enda 130 fet á lengd og breidd 23 fet. Vélasalurinn er einkar rúmgóður. Hefir vélin 60 hesta afl og skríður skipið nær 11 mílum á vöku hverri. Í hásetaklefa eru rúm fyrir átta menn, en 24-26 menn er ætlast til að á skipinu verði, er það gengur til fiskjar. En tíu voru þeir, er skipið sóttu til Englands og voru þeir tæpa fjóra sólarhringa frá Fleetwood á Englandi hingað til lands. Má það kalla góða ferð og töfðust þeir þó lítið eitt á leiðinni. Skipstjóri skipsins er hr. Guðmundur Guðnason. Er það fyrsti botnvörpungurinn er Guðmundur stjórnar, en kunnur sjómaður hér við flóann er hann mjög. Hefir hann í mörg ár verið skipstjóri á þilskipum og þótt fiskimaður hinn bezti. Guðmundur býður af sér hinn bezta þokka, er ötull og áreiðanlegur maður og sjómaður hinn bezti. 
 
Njörður RE 36.                                                                                         Teikning eftir H. Á 1918.

Allir skipverjar, er vér áttum tal við, lofuðu skipstjóra mjög fyrir dugnað, og spáum vér því, að skipi þessu verði vel stjórnað af honum. Stýrimaður skipsins er hr. Jón Guðmundsson og hefir hann starfað á botnvörpuskipum í síðastliðin 4 ár. Er hann ungur og röskur maður, en þó eigi nema rúmlega tvítugur. Vélameistari er hr. Ólafur Jónsson, dugnaðarmaður hinn mesti. "Njörður" er 16. botnvörpuskipið, sem fiskveiðar á að stunda héðan úr Faxaflóa. Þótti kunnugum það vera hið vandaðasta skip í alla staði og tiltölulega ódýrt til reksturs. Eyðir það t. d. aðeins um 7 smálestum af kolum á sólarhring, en það þykir mjög lítið. Ókunnugum virðist í fljótu bragði botnvörpufyrirtæki eigi stór. En í þessu sambandi viljum vér bæta þvi við, að útgerð skips, eins og "Njörður", kostar árlega nær 1/4 milljón krónur eða því sem næst. Vér óskum bæði félaginu og skipstjóranum allra heilla á komandi árum. 

Morgunblaðið. 9 febrúar 1914.

Breski togarinn Lord Lister H 484 bjargaði áhöfninni af Nirði eftir hrakningana.            Úr safni mínu.
 

              "Njörður" kafskotinn

Sú fregn barst hingað í gærmorgun að botnvörpungnum Nirði hafi verið sökkt af þýzkum kafbáti, er hann var á leið til Fleetwood, hlaðinn fiski í ís. Skipverjar allir komust af og náðu landi í Londonderry á Írlandi. Skipinu var sökkt á föstudaginn. »Njörður« hefir farið margar ferðir með fisk til Englands á þessu ári, en ætíð verið svo heppinn að komast hjá kafbátunum. Er mjög bagalegt fyrir Njarðarfélagið að hafa misst skipið, sem var hið vandaðasta í alla staði, en beint tjón mun félagið tæplega bíða mikið, því skipið var vel vátryggt.

Morgunblaðið. 24 október 1918.
 

            Þegar "Nirði" var sökkt.

                  Frásögn skipverja

Botnvörpungurinn "Ýmir" kom til Hafnarfjarðar í gærmorgun úr Englandsför. Með honum komu 3 skipverjar af botnvörpungnum "Nirði", sem sökkt var. Náði Morgonblaðið tali af einum þeirra í gor og sagði hann svo frá ferðalaginu:
Við fórum héðan á þriðjudaginn 15. október. Á föstudagsmorgun, um kl. 10, sáum við kafbát. Vorum við þá um 25 sjómílur suðvestur af St.. Kilda. Um kl. 11 skaut kafbáturinn fyrsta skotinu á skipið. Hæfði það þó eigi, en við fórum þegar að týgja okkur til þess að yfirgefa skipið. En áður en við legðum frá borði hafði kafbáturinn skotið 9 skotum en ekkert þeirra kom á skipið. Fyrsta skotið, sem hæfði, kom á aftursigluna og braut hana af. Skaut kafbáturinn nú svo að segja látlaust á skipið þangað til það sökk, en þá mun klukkan hafa verið hálf þrjú. Eftir það hvarf kafbáturinn og höfðum við ekki tal af honum. Veður var hvast á ANA og hvesti þó enn meira um nóttina. Í bátunum höfðum við nógan mat og drykk, en allan farangur sinn misstu menn og póstur fórst þar með skipinu. Við gerðum nú ýmist að sigla eða róa og batnaði veðrið eftir því sem á leið. Klukkan 11 á mánudagsmorgun bjargaði okkur brezkur botnvörpungur, vopnaður. Vorum við þá um 25-30 mílur vestur af Írlandi.
Botnvörpungurinn flutti okkur til Londonderry á Írlandi og komum við þangað á laugardagsmorgun. Þaðan fórum við með járnbrautarlest til Belfast og þaðan til Fleetwood. Þangað komum við á þriðjudag, eða viku eftir að við lögðum á stað að heiman. Botnvörpungurinn "Ýmir" lagði á stað frá Fleetwood á laugardaginn og með honum fóru 3 okkar, 2 koma með "Snorra Goða" og 1 með "Jóni Forseta". Skipstjóri, stýrimenn, fyrsti vélstjóri og tveir hásetar urðu að verða eftir í Englandi vegna sjóprófa. Höfðu þeir farið tvær ferðir til Liverpool, þar sem sjóprófin voru haldin, og bjuggust við því að þurfa að fara þangað eina ferð enn. Er ekki að vita hvenær þeir muni koma heim. Enginn skipverja hlaut nein meiðsl og engum þeirra varð neitt meint af sjóvolkinu í bátunum. Nokkurt tjón hafa þeir allir beðið í missi fata og annara muna, en gleðilegt að æfintýrið hafði ekki verri afleiðingar.

Morgunblaðið. 1 nóvember 1918.

01.07.2017 06:51

828. Vébjörn ÍS 14. LBCH / TFDJ.

Vébjörn ÍS 14 var smíðaður í Risör í Noregi árið 1928. Eik og fura. 44 brl. 90 ha. Ellwe vél. Eigendur voru Halldór Sigurðsson, Eiríkur Einarsson, Jakob Gíslason á Ísafirði og Haraldur Guðmundsson, Seyðisfirði frá desember 1928. Vébjörn kom til heimahafnar á Ísafirði að morgni nýársdags árið 1929. Frá 3 nóvember 1943 var Samvinnufélag Ísfirðinga eigandi bátsins. Ný vél (1943) 165 ha. Gray díesel vél. Seldur 23 janúar 1956, Hraðfrystihúsi Grundarfjarðar h/f, hét Sæfari SH 104. Ný vél (1956) 225 ha. Mannheim díesel vél. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 6 september árið 1967. Báturinn var síðan brenndur stuttu síðar.


Vébjörn ÍS 14 við bryggju á Ísafirði.                                                                       (C) M. Simson.


Vébjörn ÍS 14. Báturinn er talsvert ísaður þarna við bryggjuna.                                 (C) M Simson.


Vébjörn ÍS 14 að koma til löndunar með fullfermi síldar.                              (C) Leó Jóhannsson.

          Samvinnufélag Ísfirðinga

   Aflinn á fjórum mánuðum tvöfalt meira

       virði en ábyrgð ríkissjóðs nemur

Eitt hið þarflegasta, er alþingi í fyrra , samþykti, var að veita ríkisstjórninni heimild til þess a<5 jganga í ábyrgð fyrir lánum til fé- lagsmanna í Samvinnufélagi ísfirðinga tíl kaupa á fiskiskipum. >ð
ganga í ábyrgð fyrir lánum til félagsmanna í Samvinnufélagi Ísfirðinga til kaupa á fiskiskipum.
Þess þarf tæplega að geta, að íhaldið stóð sem einn maður gegn þessu þarfa máli og lét ekki linna á hrakspám og rógsögum um þetta þjóðþrifafyrirtæki. Með þessu var gróðursettur fyrsti vísir til samvinnufélagsskapar um útgerð hér á landi og sjómenn og verkamenn vestra styrktir til þess að koma á fót atvinnufyrirtækjum í stað þeirra, sem fallið höfðu í rústir undir stjórn stórútgerðarmannanna. Um áramótin síðustu fengu félagsmenn 5 ný mótorskip um 45 smálestir með 90 hestafla vélum, Eru skipin öll af sömu gerð og vélarnar líka. Kostuðu skipin fullbúin, komin til Ísafjarðar um 57 þús. þús. krónur hvert. Af því gekk ríkissjóður í ábyrgð fyrir 45 þús kr. fyrir hvert skip, eða 225 þús. krónum alls. Skipin byrjuðu veiðar seint í janúarmánuði, og var afli þeirra á hvítasunnu, eða í tæpa 4 mánuði, orðinn sem hér segir':
Ísbjörn um 539 þús. pd.
Sæbjörn - 501 - -
Ásbjörn - 482 - -
Vébjörn - 464 - -
Valbjörn - 459 - -
Samtals um 2445 þús. pd.
eða um 1220 smálestir upp úr skipi. Mun það svara til nærri 5.000 skippunda af verkuðum fiski. Verðmæti aflans í þessa 4 mánuði nemur sennilega um hálfri milljón króna, miðað við að mestur hluti aflans verði seldur fullverkaður og verð lækki ekki mikið frá því, sem nú er. Á hverju skipi hafa verið 12 til 14 menn, eða um 65 alls, og voru hlutir þeirra til páska, eða í u. þ. b. 10 vikur, 1800-2200 krónur. Aflanum frá páskum til hvítasunnu er enn óskift, nemur hann um 2/5 hlutum aflans alls. Eru þá enn ótalin öll vinnulaun við verkun fisksins og annað þar að lútandi. Skifta þau mörgum tugum þúsunda króna. Beinar tekjur ríkissjóðs af atvinnurekstri félagsins þessa 4 mánuði nema 10-20 þús. krónum. Eru það útflutningsgjöld af fiski, lýsi o. fl, og innflutningstollur af salti, veiðarfærum, olíu o. fl. Auk þess auknir skattar af tekjum fólksins, sem við fyrirtækið vinnur á landi og sjó. Fyrir ábyrgð sína, 225 þús. kr., hefir þjóðin þaninig í þessa 4 mánuði fengið hálfrar milljónar viðbótartekjur og 10-20 þús. krónur bent í ríkissjóðinn. Og það sem mest er um vert: Vísir að nýju og heilbrigðu skipulagi í atvinnumálum er gróðursettur. Vísir, sem áreiðanlega á eftir að vaxa og þroskast.

Vikuútgáfa Alþýðublaðsins. 29 maí 1929.

Flettingar í dag: 264
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 2446
Gestir í gær: 98
Samtals flettingar: 1074642
Samtals gestir: 77511
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 19:34:53